laugardagur, 29. október 2011

Stórborgarlíf


Ljufa lif
Á laugardaginn fyrir viku skunduðum við á flugvöllinn í Nairobi með vini gistiheimiliseigandans, kampakátur kall sem talaði mikið og sagði okkur meðal annars frá ástandinu sem er að byrja í Kenýa og Sómalíu en kenýski herinn er kominn til Sómalíu til að hefna þess að ákveðinn hryðjuverkahópur (tengdur al-qaeda) hefur verið að ræna ferðamönnum og hjálpastarfsmönnum í Kenýa og sagði vinur okkar að það væri hafið lítið stríð í Sómalíu og fjöldi manns verið drepinn en minnst af þessu kemst í heimsfréttirnar. Á leiðinni á flugvöllinn sáum við svo sorglega sjón þar sem tugir fjölskyldna ýmist báru búslóðirnar sínar á vögnum eða sátu við vegkantana með allt sitt dót. Bílstjórinn okkar sagði að ríkisstjórnin stundum „tæki til“ og henti öllum þessum fjölskyldum út úr íbúðunum sínum oft vegna þess að fólkið stóð ekki alltaf í skilum eða þá að ríkisstjórninni dettur í hug að nota landið í eitthvað annað, fólk hefur ekkert um það að segja og neyðist til að fara burt út í óvissuna. Búslóð flestra heimilanna var ekki stærri en svo að það þurfti oftast ekki nema 4-5 til að bera hana alla. Eins slæmt og við Íslendingar höldum að við höfum það þá er þetta eitthvað sem við myndum aldrei þurfa að horfa upp á bara vegna þess að einhver heldur að hann muni kannski geta notað jörðina í eitthvað annað.
Nyji besti vinur hans Þorra
Síðan var flugið tekið til Qatar, ferðin leið mjög hratt þar sem boðið var upp á rauðvín og osta á meðan sýnd var mörgæsamynd í sjónvarpinu og heimildamynd um bölvandi „rednecks“ í suðurríkjum Bandaríkjanna.
Komum svo á þetta svona líka flotta hótel í Doha höfuðborg Qatar, þetta var „ódýrasta“ hótel borgarinnar og 4 stjörnur. Um leið og við löbbuðum inn langaði okkur eiginlega bara að hlaupa út þaðan sem við komum því við pössuðum engan vegin inní þetta lobbý þöktu gulli og marmara, við nýkomin frá Kenýa í skítugum fötum með ennþá skítugri bakpoka á bakinu. Á móti okkur kom jakkafataklæddur töskuberi sem við þáðum ekki hjálp frá. Þetta stjörnulíf var nú samt ekki lengi að venjast þegar við komum inní herbergið sem var með flatskjá, loftkælingu og heitri sturtu ásamt sólahrings herbergisþjónustu. Það var samt mjög skrítið að í fyrsta skiptið í ferðinni þurftum við ekki að fara í skó áður en við stóðum uppúr rúminu.. gólfið var hreint!
Harpa Qatarbua
Fyrsta daginn röltum við aðeins í kring um bæinn þar sem við skoðuðum það sem nánasta umhverfi hafði upp á að bjóða, til dæmis merki borgarinnar sem er perla í stórri skel. Þessi borg er mjög öðruvísi hér er allt svo nýtt og flott, allir eru á nýjum bílum og háhýsi á hverju horni . Byggingarnar hérna eru rosalegar og greinilegt að það vantar ekkert peningaflæði inní þetta land. Svo er verið að byggja eyjar hérna allt í kring.
Ákváðum að kúpla okkur aðeins niður næstu tvo daga, fórum sem minnst út úr draumaherberginu okkar og nýttum herbergisþjónustuna í botn. Horfðum mikið á sjónvarpið og vöfruðum um netheimana, tókum semsagt svona gera-ekki-neitt helgi en skelltum okkur þó í bíó á eina ameríska og borðuðum karamellupopp.
Þorri vid perluna, olikt minni en a Islandi
Einn daginn ákváðum við að nú væri komið nóg af þessu letilífi, gerðumst menningarleg og fórum á safn íslamskrar listar sem er virkilega stórt og flott safn hérna í Doha en þar sem við erum ekkert mjög „arty“ í okkur entumst við ekki mjög lengi þarna og meira að segja slepptum fría bíóinu sem okkur var boðið í á safninu, mynd sem fjallaði um tilraunir til að bjarga listinni á tímum Sovétríkjanna. Þetta var samt rosalega flott bygging sem stóð á manngerðri eyju. Ætluðum svo á vopnasafnið en það var lokað vegna framkvæmda en héldum okkur þó á menningalegu nótunum og fórum þess í stað í bókabúð í leit að Lonely Planet bókum en þar sem það var ekki til tókum við bara tennisleik í X-box.
Löggan ad skamma Gretu a göngunni löngu
Leigubílakerfið í þessari borg er alveg fáránlegt miðað við hvað allt annað er fullkomið hérna. Þú veifar ekkert bara hendinni og kviss bang leigubíllinn er kominn, við biðum í örugglega 20 mínútur á umferðareyju að reyna að ná í einn en án árangurs því enduðum við á að labba á hótelið okkar og tók það ekki nema þrjá tíma en í staðinn ákváðum við að verðlauna okkur með hummus og nautasteik á geðveikum líbönskum veitingastað, þetta var allt mjög fullkomið nema það vantaði rauðvínið en það er náttúrulega alveg stranglega bannað í svona múslimsku ríki. Þarna sátum við og drekktum okkur í  umhverfið þar sem allt ilmaði af ávaxtatóbaki og myntuteslykt. Röltum síðan um gamla markaðinn sem var mjög skemmtilegur, mikið líf og fjör. Þarna var líka gæludýramarkaður þar sem aðal málið virðist vera að spreyja gæludýrin í allskonar litum, bleikum, gulum og grænum.
Litrikar kaninur
Þessi vika var mjög fljót að líða, erum við búin að nýta okkur þennan stóra og fína vask á herberginu okkar í að þvo þvottinn okkar, Þorri sýnir sértaklega góða takta í því miðað við byrjanda en Gréta hefur ársreynslu frá því í Thailandi þannig að það er ekkert að marka. Ætluðum nú reyndar að nýta okkur þvottaþjónustuna á hótelinu en þau þvo víst ekki þvott á föstudögum.  En nú erum við búin að hlaða öll batterí, tilbúin fyrir næsta ævintýri í Indlandi en við fljúgum þangað núna í kvöld. Í dag erum við búin að eyða deginum í verslunarmiðstöðinni, drekka gott kaffi og borða góðan mat. Þessi verslunarmiðstöð er sú stærsta í mið-austurlöndum og var þar stórt skautasvell og körfuboltavöllur. Gréta komst svo óvart að því að hér í borg væru tvær H&M búðir og var það andlega erfitt að freistast ekki og fara þangað inn, en það tókst.  Í dag löbbuðum við svo hérna um í „nýja“ bænum og sikksökkuðum um háhýsin dolfallin.

Qatar er mjög fjölmenningarlegt ríki og er aðeins einn fjórði íbúa innfæddir, hér er mjög mikið um Indverja, Kínverja og Philipseyjinga. Í heildina búa hérna 1,5 milljón og er landið níu sinnum minna en Ísland.
Þar sem við höfum ekki verið hérna það lengi treystum við okkur nú ekki í alla þessa samantekt eins og við höfum verið að gera, höfum ekki farið í neina rútu, bát eða lest en hendum þó nokkrum verðdæmum inn:

Bíómiði: 1.100 kr.
1,5 l vatn: 65 kr.
Núðlur: 480 kr.
Leigubíll í 10 mín: 800 kr.
„Ódýrasta“ hótelherbergið í Doha: 6.500 kr.
Nautasteik: 1.500 kr.

Settum svo inn síðbúið myndband frá Egyptalandi, Jórdaníu og Ísrael, það má nálgast HÉR
Og myndir frá Qatar koma svo mjög fljótlega, minnum svo aftur á að það er hægt að ýta á staðsetninguna herna fyrir neðan til ad fá upp kort.

18 ummæli:

  1. vá, geggjuð borg og rosalega langar mig í bleika kanínu! Þú ert hetja, Greta að fara ekki inn í H&M - ég er ekki viss um að ég hefði getað staðist þá freistingu :)
    Kveðja, Inga Heiða

    SvaraEyða
  2. Þvílíkt lúxus hótelherbergi og verðið á nautasteikinni....:)hlökkum til að sjá myndir :P
    Annars er ómögulegt að skilja hvernig Grétu tókst að falla ekki í H&M freistingar, þvílík hetja :)

    kv Inga og Heimir

    SvaraEyða
  3. Það er náttúrulega ekki sanngjarnt að þurfa að sleppa við að fara inn í H&M!! Og hvernig gastu eiginlega staðist það Gréta?? ;)
    En gott hjá ykkur að taka svona letidaga ;) Skemmtið ykkur svo í Indlandi :)

    SvaraEyða
  4. kv. Arnheiður ... gleymdi auðvitað að setja það með ;)

    SvaraEyða
  5. Mér finnst Doha töff borg.. allt svo STÓRT hehe ;) Góða ferð til Indlands!

    SvaraEyða
  6. Gott að þið séum komin þó sé ekki nema stutt í smá menningu. Annars finnst okkur Fróða að Þorri þurfi að safna smá skeggi það er ekki sjón að sjá hann svona rakaðann alltaf.

    SvaraEyða
  7. Takk fyrir bloggið,
    alltaf jafn gaman að lesa það ;o)
    Leitt að heyra að flugið til Indlands klikkaði og vona ég innilega að þið komist á morgun á
    áfangastað, um að gera bara að líta á björtu hliðarnar og njóta þess að vera á fína hótelinu þangað til ;o)
    Kveðja mamma ;o)

    SvaraEyða
  8. Elsku ferðalangar.
    Það var gaman að heyra um dagana í Doha - það bætist í reynslubankann því þetta var aldeilis ólíkt því sem þið hafið upplifað áður á ferðalaginu.
    Er okkar perla flottari eða bara stærri en Qatar-perlan?
    Það verður gaman að heyra frá Indlandi - ævintýrin halda áfram - Heldurðu ekki að það finnist H&M í Asíu?
    Kveðjur að heiman.
    amma og afi

    SvaraEyða
  9. Gaman að fá nýtt blogg frá ykkur. Þetta virðist líka vera allt öðru vísi en þið hafið upplifað áður en samt spennandi að sjá þessa brjáluðu hlið á eyðslunni. Njótið elskurnar.
    Bestu kveðjur úr sveitinni, Jóhanna E.P. og co.

    SvaraEyða
  10. Það er greinilegt mikilir peningar í gangi þarna annað en á næsta stoppustað. Góða ferð í Indlandi.
    kv. Sigurbjörg
    p.s. við erum í sveitinni um helgina

    SvaraEyða
  11. Djöfullsins lúxuslíf! eigið það alveg skilið =)

    SvaraEyða
  12. Gaman að lesa bloggið hjá ykkur og sjá meira video :) Þetta er örugglega búið að vera notalegt hjá ykkur þessa daga í afslöppun og örugglega nauðsynlegt ;) Gangi ykkur vel í Indlandi og hlakka til að fá sögur þaðan :)
    kv. Bjarni Freyr

    PS. Sammála Val og Fróða að það væri nú gaman að sjá Þorra skeggjaðann :)

    SvaraEyða
  13. Ástarkveðja til ykkar og takk fyrir fleiri ferðasögur. Erum í Hafnarfirði, komin heim eftir góða dvöl í Edinborg.Búin að frétta af fluginu til Indlands sem fellt var niður, en vonandi eru þið nú komin á áfangastað. Hlökkum til að heyra meira frá ykkur. Passið hvort annað í mannhafinu á Indlandi.
    Kveðjur frá Blönduós-ömmu og afa.

    SvaraEyða
  14. Vonandi eru þið nú komin til Indlands eftir smá hremmingar, það var gaman að hitta ykkur á skype á föstudagskvöldið þegar við vorum stödd í Edinborg.Gaman að lesa bloggið ykkar líka, er að spá í að fara með Míu og fá í hana bleikar strípur. Annars eru kindurnar í Skotlandi margar grænar sáum við!! Hlökkum til að heyra í ykkur og að lesa um ný ævintýr. Bestu kveðjur mamma og pabbi

    SvaraEyða
  15. Ja thetta med skeggid er klarlega eitthvad sem tharf ad taka til greina

    SvaraEyða
  16. Vá hvað þetta er mikil breyting á ykkar högum. Öruggleg frábært að komast á svona hótel.
    Ótrúlegar kanínur!!
    Saknaðarkveðjur,
    Jóhanna M

    SvaraEyða
  17. Helga Gunnarsdóttir3. nóvember 2011 kl. 12:00

    Sælar elskurnar!

    Gaman að lesa um lúxuxinn í Austuröldum nær. Hef samt ekki trúað því að leigubílar væru af svona skornum skamti, en það getur víst ekki allt verið fullkomið ;) Verðn nú að segja að þessi bleika kanína var alveg óendanlega flott, liggur við að maður fjárfesti í einni svona ;) Væri kannski hægt að rækta bleikar kindur? Og vá hvað þú varst dugleg Gréta mín að fara ekki í H&M veit ekki hvort ég hefði staðist það... Vona bara ykkar vegna að þið hittið H&M einhverntíman síðar í ferðinni þar sem þið getið verslað eitthvað :)

    Vona að þið hafið það gott, bið að heilsa Boolywood ;) Hlakka til að lesa um ævintýri ykkar á Indlandi.

    Knús og kram
    Helga

    SvaraEyða
  18. Komið þið sæl
    Við erum 3 stelpur úr Menntaskólanum á Akureyri og erum að skrifa ritgerð um Qatar. Við erum að velta því fyrir okkur á hvaða hóteli þið gistuð og hvort að þið hafið eitthvað meira merkilegt að segja um landið því að litlar upplýsingar eru um landið á netinu og í bókum. Vonumst til að við megum nýta okkur þær upplýsingar sem þið hafið hér í undanförnu bloggi :)
    Með kveðju
    Helga Guðrún, Lena María og Harpa Marín

    SvaraEyða