miðvikudagur, 23. nóvember 2011

Líkbrennslur og rán


Það er eins og það hafi liðið heil öld síðan við blogguðum síðast fyrir rúmri viku en það er alveg ótrúlega margt búið að gerast allt frá því að vera mjög skemmtilegt, fræðandi og alveg hreint ömurlegt þannig að þið verðið að búa ykkur undir heldur langt blogg að þessu sinni.

En á sunnudaginn fyrir rúmri viku tókum við enn eina svefnrútuna frá eyðurmerkurbænum Jaisalmer til bleiku borgarinnar Jaipur. Fyrsta daginn löbbuðum við um bæinn til að sjá öll merkilegheitin en eftir langa og sveitta göngu horfðum við eiginlega bara á hvort annað og ypptum öxlum, við sáum allavegana ekki alveg töfra þessarar borgar og lítið um bleik hús sem gerði þar af leiðandi þessa borg mjög venjulega og ekki mjög áhugaverða fyrir ferðamenn. Við ákváðum þó að gera eitthvað extra skemmtilegt þennan daginn og hvað er svona „must do“ í Indlandi? Jú, maður fer í bíó á ekta Bollywoodmynd, við ákváðum að fara á myndina sem var á stærstu skiltunum og hét hún „Rockstar“. Bíóhúsið í Jaipur er þekkt fyrir að vera einkar fallegt og var það alveg satt þetta var eins og ganga inn í glæsilegt leikhús. Þarna var starað á okkur eins og við værum nýlent frá Júpiter og einmitt þegar störurnar voru í hámarki missti Gréta kókglasið sitt í gólfteppið og langaði henni helst að hverfa niður í teppið með því. Sem betur fer var fljótlega hleypt inn í salinn og eins og Indverjum einum er lagið hlupu allir, ungir sem aldnir, inn í salinn og tróðust og börðu frá sér eins og þeir væru að missa af einhverju (sætin eru öll númeruð).  Þegar myndin byrjaði ætlaði allt um koll að keyra og áhorfendur misstu sig í fagnaðarlátunum þegar aðal „rokk“stjarna Indverja steig á svið. Myndin var öll á Hindí en við náðum nú aðalatriðunum og fjallaði myndin um þessa Bollywoodrokkstjörnu sem er að „meika það“ í Evrópu með dans og söng (á Hindí auðvitað) og kærustuna hans. Okkur varð hugsað til þess að Bjarni bróðir og Eyþór frændi hefðu fílað sig í botn í þessu bíói þar sem fólk hló öfgafengnum hlátri, klappaði og söng með öllum lögunum. Þarna var fólk líka alltaf að öskra inn á milli eins og „kysstu hana“ og „lemdu hann“, svo þegar fyrsti kossinn í myndinni kom trylltist lýðurinn í salnum af fagnaðarlátum. Já, það má segja að bíóferð í Indlandi sé nokkuð frábrugðin þeim íslensku. Um kvöldið borðuðum við svo æðislegan mat í félagsskap kanadískrar konu sem er búin að ferðast hér ein í um þrjá mánuði.
Daginn eftir tókum við smá ferð um bæinn með tuk tuk til þess að láta einhvern sem þekkir bæinn sýna okkur aðal staðina. Hann byrjaði að fara með okkur í hof lengst upp í fjalli sem heitir Monkey Temple og það svo sem skýrir sig sjálft þarna var hof og gríðalega mikið af öpum. Þar sem Hindú hof eru yfirleitt ekkert mjög áhugaverð voru aparnir miklu skemmtilegri afþreying. Þaðan fórum við svo að sjá hof sem er byggt útá miðju vatni, sáum það reyndar bara úr fjarlægð en það var mjög fallegt engu að síður. Eins og hver einasta ferð sem maður fer með svona tuktuk (eða rickshaw eins og þetta heitir hér) endar maður í búð sem hann fer með okkur í og við neyðumst til að fara inn og „bara skoða“, síðan er maður eiginlega neyddur til þess að kaupa eitthvað þar sem búið er að henda í mann allskonar gjöfum og tei, ef maður sýnir lítinn áhuga verða sölumennirnir mjög ágengir og hálf reiðir, þar af leiðandi kaupir maður eitthvað smá, tuktukbílstjórinn fær umboðslaunin sín frá sölumönnunum og allir græða nema við því seinna föttum við að við hefðum getað keypt sama hlut á helmingi lægra verði einhversstaðar annarsstaðar. En svona er þetta og alls ekki bara hérna í Indlandi.
Jæja svo var förinni heitið til Agra. Vorum mætt þar um kvöldið á ágætis gistiheimili, tékkuðum okkur inn og röltum svo uppá þak þar sem sjálft Taj Mahal blasti við okkur í myrkrinu, svolítið eins og málverk.
Daginn eftir borðuðum við morgunmatinn upp á þessu sama þaki og var voðalega kósý að hafa eitt af undrum veraldar til að stara á meðan við fengum okkur ristað brauð og lassi, frekar „basic“. Leigðum okkur aftur svona tuktuk yfir daginn, með bílstjóra inniföldnum auðvitað. Þar byrjuðum við að skoða hof sem heitir Baby Taj og er það einhversskonar mini útgáfa af stóra Taj, vitum ekki alveg söguna bak við það enda sérlega þögull bílstjórinn sem við fengum, hann var heldur betur ekki svona þögull þegar hann var að reyna að „selja sig“ daginn áður þar sem hann bókstaflega hengdi sig á okkur.  Síðan sýndi hann okkur borgarvirkið, Taj Mahal frá hinum ýmsu sjónarhornum, fór með okkur á veitingastað þar sem hann fékk umboðslaun, fór með okkur í búð þar sem hann fékk umboðslaun en þegar hann ætlaði svo með okkur í enn aðra búð til að fá enn ein umboðslaunin sögðum við hart nei en hann sagði að við ættum nú að gera þetta fyrir hann, þar sem við sáum ekki tilganginn með því að gera honum þann greiða sögðum við að hann fengi þá ekkert þjórfé frá okkur og var hann ekki lengi að hoppa aftur inn í sportkerruna sína og keyra í burtu. Eftir þetta marga klukkutíma í þessari klikkuðu umferð sem er í Agra vorum við hálf hissa á að vera enn lifandi og með alla útlimi áfasta, en við klesstum bara á einn aftanívagn fullan af grjóti og einn tuktuk. Eftir ævintýralega ferð með þessum hálfleiðnlega kalli skutlaði hann okkur loksins að Taj Mahal sjálfu og er erfitt að lýsa því þegar maður stígur í gegnum hliðið og sér þetta risa stóra mannvirki, maður gerir sér engan vegin grein fyrir því hversu gríðarlega stórt það er í raun og veru fyrr en maður er kominn svona nálægt. Fyrir þá sem ekki vita söguna í grófum dráttum var hún þannig að það var hershöfðingi sem lét byggja þetta hof fyrir konuna sína sem dó við barnsburð. Hann sagði að þetta væri svo fallegt að tuglið og sólin myndu meira að segja gráta. Nú eru þau bæði grafin inni í hofinu. Þetta var svona extra stutt útskýring. Það er svo sem ekki meira að segja frá þessum degi, eyddum nokkrum klukkutímum þarna stylltum okkur upp í fáeinar myndatökur og horfðum á sólina setjast. Þar sem við vorum ekki alveg komin með nóg borðuðum við svo kvöldmat með útsýni yfir hofið og drukkum „sérstakt te“  eins og þeir kalla bjórinn hér sem er borinn fram í tekatli vegna þess að mjög fáir staðir í Indlandi hafa vínveitingaleyfi. Um miðnætti tókum við svo næturlest til Varanasi sem er í norðausturhluta landsins. Næturlestin var mun mýkri yfirferðar heldur en næturrúturnar og sváfum við alveg yndislega vel.
Varanasi er heilagasta borg Indlands og koma milljónir pýlagríma þangað á hverju ári. Í gegnum borgina rennur Ganges áin og er hún móðir Hindúisma og hún er staðurinn sem allir Hindúar vilja enda í þegar þeir eru látnir. Hótelið okkar var staðsett á besta stað í bænum alveg við ánna og vorum við í miðju „aksjóninu“. Í þessari borg er allt í gangi og öll skynfæri fara á fullt. Lyktin er hræðileg, svíðandi sterk hlandlykt og lykt af brennandi líkum manna til skiptis. En á tveimur stöðum við ánna fara fram líkbrennslur allan sólahringinn (um 300 lík á sólahring) á svæði opnu fyrir almenning að fylgjast með, þeir hafa meira að segja komið fyrir bekkjum svo fólk geti látið fara betur um sig. Það eru margar reglur í kringum þetta allt. Í fyrsta lagi er ástæðan fyrir brennslunni sú að það er verið að hreinsa líkamann, það þarf ekki að brenna alla því það eru ekki allir óhreinir, þeir sem teljast ekki óhreinir er hent beint út í ánna með steina bundna við líkamann en mjög oft losna böndin þegar líkið er búið að vera í einhvern tíma og fljóta þau þá upp á yfirborðið. „Hreint“ fólk eru börn, óléttar konur, heilagir menn, fólk sem hefur verið bitið af snák, fólk með hlaupabólu og fleira. Flestir teljast því óhreinir og þarf að hreinsa þá með því að brenna þá á báli, eru það ættingjar hins/hinnar látnu sem sjá um að brenna líkið en karlmenn er bara leyfðir því konurnar eru of tilfinninganæmar og má ekki fella tár við þessa athöfn. Athöfnin byrjar á heimili hins látna þar sem hann/hún er þrifin og líkið smurt með einhverskonar efni og það fært í klæði (hvítt fyrir karla en rautt fyrir konur)og skreytt með blómum, síðan bera karlmennirnir líkið eftir götunni og niður að ánni þar sem viðurinn sem þeir hafa keypt bíður þeirra. Fyrst fara þeir með líkið í ánna og skola það, setja það svo á viðinn, strá dufti á það svo það brenni betur og kveikja svo undir. Það tekur svo um þrjá og hálfan tíma fyrir líkið að brenna alveg. Okkur skildist að það eina sem brennur ekki á líkamanum sé naflinn en hann er eins og gúmmí sem skreppur saman, ættingjarnir leita svo af naflanum í öskunni og fleygja honum í ánna, þegar því er lokið eiga allir ættingjar að taka sopa úr ánni (Indverjar hljóta að hafa gríðalega sterkt ónæmiskerfi) og að lokum er eldurinn slökktur með vatni úr ánni. Það er greinilega samt ekki svo mikilvægt að naflinn haldist í ánni því við fylgdumst með þar sem hundur kom, hoppaði útí ánna á eftir honum og gæddi sér á herlegheitunum. Síðan skiptir máli hversu mikinn við ættingjarnir geta keypt því hann er víst mjög dýr og hafa margir ekki efni á að kaupa við sem nær að hylja allan líkamann frá höfði til iljar þannig að oft stendur höfuðið útúr ásamt fótunum og þurfa því ættingjarnir að bíða eftir að miðjuparturinn brenni svo þeir geti stungið restinni inní eldinn (þið afsakið hreinskilnar lýsingar en svona er þetta þarna og er eðlilegasti hlutur í heimi). Einn ferðamaðurinn sagði að hann hafi horft á ættingjana hlaupa á eftir höfði sem hafði sloppið úr bálinu. Það var mjög skrítið að fylgjast með þessu en samt eitthvað svo rosalega eðlilegt á þeim tímapunkti. Svo í byggingunum fyrir aftan brennslustöðvarnar býr sjúkt og gamalt fólk sem bíður eftir að deyja svo það verði hægt að brenna þau en þannig spara þau ættingjum ferðakostnaðinn á líkinu, alltaf svo hagsýnir. Allsstaðar við ánna má líka sjá alla þessa heilögu menn og það eru nokkuð kátir kallar og mjög litskrúðugir allir saman, málaðir ýmist hvítir eða gulir. Um kvöldið var svo einhverskonar hátíð þar sem munkar færðu þakkir sínar til Ganges og kyrjuðu eitthvað óskiljanlegt.
Daginn eftir löbbuðum við meðfram ánni og fylgdumst með lífinnu við hana, þarna er fólk alltaf að baða sig, þvo föt, veiðandi fisk og fleira, skiljum samt ekki hvernig fólk hefur list á að borða fiskinn þarna því þeir lifa bókstaflega á líkum manna, eins er erfitt að trúa að þeir verði mjög hreinir á baði í þessari á .
Þriðja daginn í Varanasi var Gréta komin með eitthvað kvefslen og lá í rúminu allan daginn, borgin greinilega ekki alveg að fara vel í hana og þaðan í frá fór allt niður á við. Þegar við vöknuðum var svo mikil þoka að við sáum ekki ánna frá svölunum en ætlunin var að fara í siglingu á ánni áður en við færum á lestarstöðina en við áttum pantaða lest til Delhi sem átti að koma hálf tólf að hádegi, eftir morgunnmatinn lagaðist skyggnið örlítið og við létum slag standa og skelltum okkur í klukkutíma siglingu á Ganges ánni. Við mættum á lestarstöðina á síðustu stundu og hlökkuðum til að komast í kojuna þar sem heilsan var ekki upp á sitt besta. Þorri byrjaði á að stíga í mannahlandspoll í sandölunum sínum og teljum við það hafa verið merkið um það að þar áttum við að snúa við og hætta við þessa lestaferð og fara bara daginn eftir. En nei við gerðum það ekki og gerðum það ekki heldur í öll þau skipti sem lestinni seinkaði alltaf meira og meira vegna þokunnar. Biðum á lestarpallinum í um fjóra klukkutíma, það var bara eitt skemmtilegt sem gerðist og það var þegar það stóð fyrir framan okkur virkilega pirrandi sölumaður sem var búinn að standa fyrir framan okkur mjög lengi en allt í einu kemur naut röltandi að okkur og stangaði sölumanninn í burtu, við gátum ekki haldið niðri í okkur hlátrinum og sölumaðurinn sást ekki aftur en nautið varð nýji besti vinur okkar. Það er alveg ótrúlegt hvað Indverjar geta verið miklir sóðar en þeir (þá karlmennirnar) míga og gera þarfir sínar ALLSSTAÐAR, skiljum ekki hvernig þeir geta ekki bara farið á klósettið eins og konurnar gera greinilega, þar að leiðandi er lyktin í landinu með hlandskýi yfir sér og lestarstöðvar eru sértaklega slæmar. Hérna láta foreldrarnir líka börnin hoppa niður á lestarteinana til að gera þarfir sínar þar í staðin fyrir að rölta með þau á almenningsklósettið, horfðum á eitt mjög óþægilegt atvik þar sem ein mamman henti krakkanum sínum á teinana og lestin var alveg að koma, hún náði sem betur fer upp aftur. Við höfum stundum djókað með það að Indland sé stundum eins og eitt stórt almenningssalerni. Lestin lét svo loksins sjá sig og við fengum okkar kojur og sváfum eins og steinar alla nóttina, við áttum að koma til Delhi klukkan 8 um morguninn en klukkan tvö vorum við ekki enn komin og þar sem við vorum ekki með neinn mat fór Þorri og pantaði mat fyrir okkur, eftir að hafa borðað hann komumst við að því að það vantaði aðal bakpokann okkar með flest öllum okkar mikilvægu og verðmætu hlutum í. Einhver hafði náð að koma inn í klefann okkar, tekið bakpokann og stokkið með hann út úr lesinni (dyrnar sem áttu að vera læstar voru opnar) hugsanlega þegar Þorri fór og pantaði matinn. Við skiljum engan vegin hvernig þetta var mögulegt því Gréta lá vakandi í efri kojunni og svo var annað par sem lá í neðri kojunni við hliðina á þar sem kojan hans Þorra var (þar var pokinn). En það breytir ekki öllu pokinn var horfinn ásamt fartölvunni, myndavélinni, videovélinni, símanum, visa korti, lítilli dagbók, nokkrum jólagjöfum og helling af allskonar hlutum sem við notum dagsdaglega svo ekki sé talað um innihald tölvunnar sem var nú glatað en þá helst öll videoin sem við höfum tekið en myndirnar eigum við nær allar á öruggum stað, þökk sé Dropbox. Það er því miður mikið af svona „fagmönnum“ hér í landi en þetta hefur verið einhver sem hafði verið búinn að fylgjast með okkur lengi. Parið í hinni kojunni (þetta er svona fjögurramanna klefi sem er lokaður með gardínum) var virkilega yndælt og vildi allt fyrir okkur gera, fóru með okkur að leita í stórum hluta lestarinnar því þegar við fórum til lögreglunnar í lestinni ypptu þeir bara öxlum og vildu ekkert gera. En það var svo sem vitað að einhver hafði hoppað úr lestinni og þá ekkert hægt að gera.
Þegar við komum loksins til Delhi eftir 27 tíma lestaferð sem átti að vera 16 tímar fórum við beint á lögreglustöðina til þess að fá skýrslu og tók það þá 4 tíma að búa hana til því þeir voru miklu uppteknari í að hlægja, segja hvor öðrum brandara og veifa byssunum sínum út í loftið, ekki alveg það sem við þurftum á að halda, fyrir utan það þá talaði eiginlega enginn þeirra ensku svo það var lítið hægt að útskýra. Komumst svo loksins á gistiheimilið okkar og það má segja að við höfum verið nokkuð buguð á þessum tímapunkti.
Í gær vöknuðum við svo og vonuðum að þetta hafi bara verið vondur draumur, opnuðum þriðjudagsbréfið okkar sem var kveðja frá ömmu í sveitinni þar sem var tilvitnun í Buddha um að maður eigi ekki að hugsa um fortíðina heldur lifa fyrir augnablikið og var það virkilega viðeigandi þennan daginn og ákváðum við að ekki láta þetta eyðileggja meira en það hafði nú þegar gert. Fórum því brosandi út í daginn sem reyndar byrjaði á enn einum vonbrigðunum þegar við mættum á skrifstofu Qatar airways þar sem átti að bíða okkar bætur vegna flugsins sem þeir klúðruðu í Qatar, þennan pening ætluðum við okkur að nota í að endurnýja það sem við höfðum misst, en þar beið okkar bara leiðinlegt starfsfólk sem ekkert vildi fyrir okkur gera og fengum við ekki neitt. Engu að síður fór dagurinn í það að skoða myndavélar og tölvur. Það er ákveðin lífsreynsla að ferðast með metrolest hér í Delhi því maður þarf bókstaflega að pakka sér inn í lestina og ýta ef þú ætlar að komast með og má segja að sá hæfasti lifir af í því samhengi. Eftir mikið labb og búðarölt fjárfestum við einu stykku lítilli fartölvu og fundum myndavélina sem við ætlum að kaupa í dag. Síðasta indverska kvöldmáltíðin var svo á Subway, en stundum verður maður að komast í eitthvað kunnuglegt en við réttlættum þetta með því að fá okkur tandoori bát með myntusósu.
Í kvöld eigum við svo flug til Kathmandu höfuðborg Nepals en við erum full tillhlökkunar fyrir því, höfum heyrt að það sé aðeins afslappaðara þar en hér í Indlandi og verður það góð tilbreyting.


Svo eins og áður kemur hér smá samantekt:

Jákvætt:
-Getur pantað hvað sem er á matseðlinum og getur verið viss um að maturinn sem þú færð er góður
-Hinn almenni Indverji er mjög yndæll og vill allt fyrir mann gera (getur reyndar verið flókið að sigta þessa almennu út frá hinum leiðinlegu sölumönnum)
-Mjög þægilegt veðurfar (á þessum árstíma)
-Möguleikinn á að geta ferðast í rúmi yfir nótt og losna þannig við kostnað af hóteli og missa ekki út heilu dagana í ferðalög
-Hægt er treysta lesta- og rútukerfinu hérna (þ.e. fyrir utan þessa síðustu hryllingsferð)
-Sama hversu ódýrt og lélegt gistiheimilið er, það er alltaf sjónvarp með fjölda stöðva inn á herbergjunum
-Merkilegir og fallegir staðir út um allt og erfitt að velja og hafna
Neikvætt:
-Svindlarar og þjófar leynast hér út um allt og þarf maður að vera stanslaust á varðbergi og treysta engum, sem er sérstaklega leiðinlegt þegar maður lendir loks á einhverjum almennilegum
-Landið lyktar af hlandi (að vísu með reykelsis og karrý lykt inn á milli)
-Að vera rænd
-Fær hvergi að vera í friði þegar maður gengur um göturnar, allir að garga til að ná athygli manns í von um að koma manni í búðina sína
-Óhreinindin á götunum, þau eru að vísu ekki jafn mikil og í Egyptalandi en þar sem naut, geitur, hundar og menn ganga laus um allar götur er skítur út um allt og þarf maður því að passa hvert einasta skref
-Lögreglan í landinu er jafn gagnslaus og ruslatunna í Egyptalandi
-Hvað kjötið hér er varasamt og maður þarf oft að velja grænmetisrétti fram yfir girnilegri kjötrétti
-Hvað allir virðast finnast þeir knúnir til þess að ljúga, þeir ljúga að manni um minnstu ómerkilega hluti sem skipta samt engu máli

Það sem kom mest á óvart:
-Hvað fátæktin er rosalega sýnileg og mikið um börn sem búa á götunni og neyðast til að hugsa um sig sjálf og jafnvel lítil systkini sín líka
-Hversu landið er virkilega stórt og getur verið flókið og tekið óratíma að fara frá punkti A til B
-Að frægðin hafi ekki stigið okkur til höfuðs og við sátum fyrir á myndum með heimamönnum allt til enda dvalarinnar hér
-Hvað Bollywood tónlistin og myndirnar er virkilega stór og vinsæl hérna
-Hvað það eru margir starfsmenn alltaf sama hversu búðin er lítil. T.d. fórum við inní eina mjög litla ísbúð þar sem voru fjórir starfsmenn og plús einn gjaldkeri

Það sem stóð upp úr:
-Ellora og Ajanta hellarnir
-Kamelsafaríið
-Að sitja á rooftop veitingastöðunum á kvöldin
-Bíóferðin á Bollywood myndina
-Taj Mahal
-Göngurnar um bakka Ganges og upplifunin sem þeim fylgdi

Hér koma síðan nokkur verðdæmi:
-Hótelherbergi : 500-1.500 kr.
-Þriggjarétta kvöldverður fyrir tvo: 800 – 1.000 kr.
-Einkabílstjóri í heilan dag: 700 kr.
-Klukkutíma sigling á Ganges fyrir tvo: 400 kr.
-Líter af vatni: 40 kr.
-Bjór: 260 kr.
-12 tíma rútuferð: 1.200 kr.
-Inngangseyrir í Taj Mahal: 1.800 kr.

Tími í rútum og lestum (þetta eru ekki haldbærar upplýsingar þar sem allar skráningar fóru með töskunni okkar en þetta það sem okkur minnir): 109 klst. sem gerir rúma 4 sólarhringa.

Hér er svo kort af leiðinni sem við erum búin ad fara:

P.s. Náðum svo þeim merka áfanga að fá ekki í magann hér í Indlandi en það er víst mjög sjalgjæft, sérstaklega eftir að hafa verið hér í tæpan mánuð.

P.s. II Vorum búin að setja saman skemmtilegt myndband um Indland sem átti eftir að setja á netið, en sá eini sem getur fengið að njóta þess er Indverja asninn sem rændi töskunni okkar.  Við gátum heldur ekki sett inn fleiri myndir núna en við munum setja inn myndir  á facebook um leið og við getum.

sunnudagur, 13. nóvember 2011

Eyðimerkursafarí


Á þriðjudaginn byrjuðum við á að skoða stærsta hof Rajasthan héraðsins, í hofinu var „messa“ í gangi og sátu fjöldin allur af fólki klætt í alla regnbogans liti. Í hofinu var í sjálfu sér lítið að sjá en hittum við mann sem dró okkur inn í búðina sína eftir að hafa þröngvað upp á okkur sorgarsögu sína og fjölskyldu sinnar sem neyddust til að flýja óeirðirnar í Kashmir héraði. Síðan var ekki aftur snúið og kaupæðið hófst, dagurinn fór allur í að versla sem var mjög gaman því þarna var mikið og fjölbreytt úrval af alls konar dóti og glingri. Eftir að hafa þrætt allar smágötur borgarinnar fórum við að ánni sem rennur í gegn um hana og fylgdumst með körlum að baða sig og þrýfa fötin sín í grútskýtugri ánni, mönnum að draga inn þara og konu sem safnaði saman kúamykju af mikilli alúð í leirkar. Við ánna sat hress karl og spilaði á hljóðfæri, þegar hann sá að Þorri veitti honum athygli vildi hann ólmur selja honum geisladiskinn sinn sem hann tók upp sjálfur og skrifaði á disk, Þorri stóðst ekki mátið og fjárfesti í einu stykki (því eina sem hann átti til). Kvöldinu eyddum við svo upp á þaki hótelsins þar sem sýnd var James Bond myndin Octopussy en stór hluti hennar var tekin umhverfis Udaipur og er hún því sýnd flest kvöld á öllum hótelum og að sjálfsögðu var flugeldasýning allt í kring eins og öll kvöldin vegna hátíðar sem var þar í gangi.
Daginn eftir skoðuðum við aðal höllina í borginni, meira vegna skildurækni heldur en brennandi áhuga jókst áhuginn ekki mikið eftir því sem við eyddum meiri tíma í þessu völundarhúsi þar sem aðeins ein leið var út og þurfti maður að gjöra svo vel að þræða alla höllina til að komast þangað. Eftir skemmtilega skoðunarferð um höllina ákváðum við að gera vel við okkur og skelltum okkur í nudd. Þorra leyst nú ekkert allt of vel á hugmyndina til að byrja með og ekki skánaði það þegar inn gekk lítill feitur karl með mullet, hann lét sig þó hafa það og sá ekki eftir því. Um kvöldið fórum við síðan á mjög skemmtilega danssýningu þar sem sýndir voru dansar héraðsins, þarna voru strengjabrúður og allskyns aðrar kúnstir sýndar.
Á fimmtudaginn var Gréta slöpp og sátum við því allan daginn á hótelinu og biðum eftir rútunni okkar sem átti að fara klukkan átta um kvöldið, þegar við mættum á rútustöðina tók á móti okkur kátur karl sem sagði okkur að allir ferðamenn þyrftu að geyma töskurnar sínar í farangursgeymslunni og fyrir það þurftu þeir auðvitað að borga honum, við héldum nú ekki, það væri líklega okkar mál ef það væri þröngt í básnum okkar með þær í rútunni. Við þetta brjálaðist karlinn og byrjaði að öskra á okkur að við skildum borga eða hann myndi skilja okkur eftir, á endanum sóttum við karlinn á skrifstofunni sem tók okkar málsstað og kom okkur loksins í rútuna, með töskurnar hjá okkur. Í rútunni beið okkar klefi með tvíbreyðu rúmi og glugga sem vildi ekki haldast lokaður annars var þetta bara nokkuð notalegur svefnstaður fyrir utan hvað vegurinn var hræðilegur og rúlluðum við fram og til baka alla nóttina.
 
Komum svo til eyðurmerkurbæjarins Jaisalmer í morgunsárið, koman í rútustöðina var kunnugleg en þar var rifist um mann og maður þarf að vera mjög harður til að láta ekki vaða yfir sig og plata sig í eitthvað rugl. Ákváðum að fá far hjá einum sem virtist ekki svo alslæmur og fengum gistingu á gistiheimilinu hans. Eftir mikla söluræðu og allskyns gylliboð fékk hann okkur til að fara í úlfaldasafarí í gegn um hann. Þetta hljómaði allt voða vel, við áttum að vera í hóp með fjórum öðrum, áttum að fara leið sem ekkert annað fyrirtæki fer og sjá þorp þar sem engin myndi betla af okkur og ekkert rusl væri sjáanlegt. Við áttum að fara snemma næsta morgunn en í millitíðinni bað hann okkur um að passa okkur á öllu fólkinu þarna úti sem væri að tala illa um sig og sitt fyrirtæki, það væri allt bara bull. Fyrst á dagskrá var að versla okkur föt fyrir ferðina og hoppuðum við því inn í fyrstu „tískuvöruverslun“ sem við sáum og dressuðum okkur upp áður en við héldum áfram í borgarvirkið (þó ekki hið eina sanna borgarvirki) sem er í hjarta borgarinnar og inniheldur gömul hús og þröngar götur ásamt fjölda hofa og lítilla búða, þarna eyddum við deginum og börðum frá okkur sölumenn.
Um kvöldið ákváðum við að fara að ráðum eiganda gistiheimilisins og skoða síðuna www.tripadvisor.com (heimasíða þar sem ferðamenn geta gefið gistiheimilum umsögn og komið á framfæri hvað sé vel gert og hvað ekki) því hann hafði sagt okkur að þeir væru með svo góðar umsagnir. Það kom hinsvegar í ljós að flestar umsagnir um gistiheimilið innihéldu viðvaranir til ferðamanna um að halda sig fjarri þessum svikurum og glæpamönnum, allar sögurnar byrjuðu eins og okkar saga en enduðu flestar með ósköpum þar sem öll loforð voru svikin og fólkinu hent út á endanum. Okkur var nú ekki farið að lítast á blikuna en þar sem við höfðum nú þegar borgað fyrir ferðina var lítið sem við gátum gert annað en að bíða og vona að við værum ein af þessum fáu heppnu sem sluppu vel frá þeim.
Á föstudaginn vöknuðum við eldsnemma og spennt fyrir safaríinu en þó með smá áhyggjur,  okkur var skutlað inn í eyðimörkina þar sem við hittum hressann karl sem var að gera kameldýrin klár fyrir ferðina, hann fullvissaði okkur um að allt væri eins og það átti að vera en hins vegar var hópurinn okkar hvergi sjáanlegur, okkur hafði verið sagt fyrst að hann væri á sama gistiheimili, síðan áttum við að hitta hann klukkan átta og svo var það orðið ellefu, þegar við hinsvegar spurðum leiðsögumannin vissi hann ekkert hvað við værum að tala um því það væri engin hópur, bara við tvö (sem var þó alls ekkert verra). Við vorum að vísu undirbúin undir þetta því allar sögurnar byrjuðu á því að hópinn var hvergi að sjá en í staðinn kom aðstoðarmaður leiðsögumannsin sem átti að fara með okkur í ferðina, 15 ára gutti sem hafði unnið við þetta síðan hann var 9 ára. Við fengum sitthvort kameldýrið sem litu nokkurnvegin jafn kjánalega út og lögðum af stað. Þorpin sem okkur var lofað að skoða höfðu greinilega horfið um nóttina því þau voru hvergi sjáanleg en hins vegar sáum við ferðamenn í staðinn, ótrúlegt hvernig eyðimörkin getur breyst yfir nótt. Fyrsta stopp var við lítið skítugt vatn svo dýrin gætu safnað vatni fyrir ferðina, við vatnið stútfyllti leiðsögumaðurinn líka tvo brúsa sem við seinna komumst að að væri vatn til að elda matinn okkar upp úr (samkvæmt eigandanum var bara eldað upp úr keyptu hreinu vatni). Þarna strax var Þorri orðinn mjög aumur í
rassinum og var hugsað til baka á öll skiptin sem Gréta hafði reynt að fá hann á hestbak og hann þráast við. Eftir þriggja tíma reið stoppuðum við undir tré umkringd hundruðum prumpandi geita. Eftir að hafa safnað saman eldivið byrjaði leiðsögumaðurinn að elda fyrir okkur hádegismat upp úr skítuga vatninu. Við vorum spurð hvort við vildum ekki fá te á meðan við biðum og við þáðum það, þá hljóp guttinn upp eina geitina og mjólkaði úr henni í glas og skellti í pott, tíu mínútum seinna fengum við í hendurnar teið okkar sem við drukkum ásamt geitahirðunum sem höfðu safnast saman allt í kring við matarlyktina eins og maurarnir. Hádegismaturinn samanstóð af soðnu grænmeti og naan brauði sem þeir steiktu á staðnum en þennan mat fengum við í öll mál í þessari ferð. Eftir matinn var „stáltauið“ vaskað upp með sandi, geitahirðirnir þökkuðu fyrir máltíðina með því að sjá um eftirmatinn en það voru eins ferskar vatnsmelónur og hægt er að finna beint úr eyðimörkinni, þær uxu þar út um allt. síðan héldum við áfram leið okkar lengra inn í eyðimörkina og enn voru þorpin ósjáanleg. Um fimm leitið komum við loks að gististaðnum okkar en þar lágu beddar undir berum himni með eyðimörk allt í kring. Í þetta skiptið hjálpuðum við til við matargerðina, söfnuðum eldivið og skárum niður grænmeti umkring stórum eyðimerkurbjöllum. Leiðsögumaðurinn var hinn fullkomni indverski karlmaður og rétti Grétu hnífinn og grænmetið og sagði: „Cut“ sem hún og gerði samviskusamlega á meðan hann og Þorri horfðu út í loftið. Eftir matinn horfðum við á sólsetrið og höfðum það síðan notalegt við varðeld og fylgdumst með fullu tunglinu skríða upp. Þetta var allt mjög kósý og eftir að hafa gripið í spil sofnuðum við undir stjörnunum með smjattandi úlfaldana við hliðina á okkur.
Þetta blasti við okkur þegar við vöknuðum
Vöknuðum við sólarupprás og skriðum fram úr, hoppuðum á bak kameldýrana eftir morgunmat og lögðum af stað. Þennan daginn sáum við loksins þorp eins og okkur var lofað, fyrsta þorpið sem við sáum var sígaunaþorp en þeir flakka á milli staða í eyðimörkinni og búa í litlum skýlum, við sáum líka fjöldan allan af herstöðvum sem voru á víð og dreif á þessu svæði enda vorum við í 15 km fjarðlægð frá landamærum Pakistan. Á heimleiðinni sáum við síðan yfirgefið þorp en fyrir 30 árum voru allir þorpsbúarnir drepnir af nágrönnum sínum. Dýrin fengu aldeilis að vinna fyrir kaupinu sínu eftir þetta síðasta stopp og voru látin hlaupa heim eins og hastir hestar gerast bestir og vorum við mjög fegin þegar við loksins komumst á leiðarenda. Þrátt fyrir að ekki hafi verið staðið við öll þau loforð sem gefin voru í byrjun vorum við mjög sátt með ferðina okkar og höfum ekki yfir neinu að kvarta um ferðina sjálfa, það sama má segja um svissnesku stelpurnar tvær sem við hittum á gistiheimilinu en það hafði líka verið búið að ljúga þær fullar. Þetta kvöld leituðum við uppi mjög góðan veitingastað og fengum okkur safaríkan kjúklingarétt og eftirmat eftir allt grænmetisdetoxið síðustu daga og skriðum dauðþreytt upp í rúm.
Dagurinn í dag fer í að bíða eftir næturrútunni okkar til bleiku borgarinnar Jaipur.                                                                     

P.s. Fyrir þá sem ekki kunna að skrifa athugasemd við bloggið þá þurfið þið að byrja á að ýta á Athugasemdir - Síðan skrifiði eitthvað sætt til okkar - Fyrir neðan textann þarf að velja: Name/URL - Skrifa nafnið ykkar (þurfið ekki að skrifa neina vefslóð) - Ýtið á Halda áfram - Ýtið á Post Comment. Þá verðum við rosalega hamingjusöm ;)                                                                                             

sunnudagur, 6. nóvember 2011

Sláturhús og útvíðar buxur

Þorri hitti frænku sína :)
Þegar við mættum á flugvöllinn í Qatar á laugardaginn var kom það í ljós að við værum hvergi skráð í kerfinu, vélin væri full og ekkert annað fyrir okkur að gera en að fara á biðlista fyrir flugið og kannski kæmumst við með ef einhver mætti ekki. Við vorum sallaróleg yfir þessu alveg þangað til starfsmaðurinn kom til okkar og sagði að allir hefðu skráð sig inn þannig að við kæmumst ekki með og ekki heldur daginn eftir þar sem það flug væri líka fullbókað. Við fórum því aftur uppá hótelið okkar og reyndum að hafa samband við ferðaskrifstofuna okkar sem bókaði miðana (flugfélagið sagði  að ferðaskrifstofan hefði afbókað okkur í flugið) en þar sem það var laugardagur var skrifstofan þeirra lokuð og opanði ekki aftur fyrr en á mánudaginn sem þýddi að vegna tímamismunar hefði hún opnað seint um mánudagskvöldið að okkar tíma og sáum við fram á að vera föst í Qatar að minnsta kosti til þriðjudags, þá var nú komið svolítið stress í okkur þar sem það væri mikill tími að missa í Indlandi þar sem tæpur mánuður er ekki mjög mikill tími fyrir svo stórt land og vorum við búin að bóka lestarmiða þar sem maður verður að bóka sig í lestar með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara.
Á sunnudagsmorgunn ákváðum við að taka málin í okkar hendur og fórum á aðalskrifstofur Qatar Airways þar sem þeir loksins viðurkenndu að þetta hafi verið þeirra mistök að skrá okkur úr fluginu en það væri allt fullt næstu daga þannig að þeir gátu ekkert gert fyrir okkur. Við sættum okkur ekki alveg við það og báðum hana um að tala við yfirmann sinn og eftir það gekk þetta allt eins og í sögu, eftir fjögurra tíma bið vorum við komin með miðana í hendurnar og fengum flug samdægurs.
Við lentum í Mumbai um miðja nótt, tókum leigubíl að einhverju hóteli sem við vonuðum að væri ekki fullt, heppnin var með okkur og við fengum herbergi.
Börn í Dharavi fátæktrahverfinu að leit að einhverju nytsamlegu
Daginn eftir sváfum við út, þegar við vöknuðum og opnuðum gluggann var útsýni yfir hafið og svo sáum við þarna líka Gateway of India, það var ekki eftir neinu að bíða þannig að við röltum um Colaba hverfið og skoðuðum það sem þar var að sjá. Gateway of India var mjög stórt og svakalega mikið af fólki allsstaðar í kring. Þræddum svo markaðina sem voru þarna meðfram götunum og fengum okkur geðveikan indverskan mat.
Gandhi sjálfur
Á þriðjudeginum ákváðum við fá okkur einkabílstjóra til að þræða borgina og helstu staðina því það er svo langt á milli allra staða hérna. Við byrjuðum á að labba aðeins um Dharavi hverfið sem er stærsta fátæktrahverfi Indlands en þarna var Slumdog Millioner tekin upp og sýndi bílstjórinn okkur staðina. Það er alveg ótrúlegt við hvernig aðstæður sumt fólk býr við og öll börnin í ruslagámunum að leita sér að mat eða plasti. Eftir að hafa labbað þarna aðeins um fórum við í húsið þar sem Gandhi bjó á meðan hann var í Mumbai en þetta er núna rosalega flott safn um ævi hans. Því næst var ferðinni heitið að risastóru þvottasvæði en þar var fjöldinn allur af risastórum körum full af vatni og stóð fólk upp á körunum og hrærði í þvottinum með priki. Síðan fór bílstjórinn með okkur í Hanging Garden almenningsgarðinn sem er mjög fallegur garður með flottu útsýni yfir borgina. Dagurinn endaði síðan á því að skoða Gateway of India aftur, í þetta skiptið tókum við okkur betri tíma og fórum nær en við höfðum gert daginn áður. Umferðin í Indlandi minnir nokkuð á brjálæðið í Egyptalandi en hún er nokkuð hægari hér og því aðeins auðveldara að komast um fótgangandi. Í bílferðinni gátum við síðan aðeins fylgst með mannlífinu út um gluggan en það var nokkuð spes, hérna ganga margir krakkar um buxnalausir og gera þarfir sínar bara á götuna eins og ekkert sé sjálfsagðara, beljur og geitur ganga lausar um göturnar og sofandi fólk á gangstéttunum.
Þorri við Gateway of India

Miðvikudagurinn fór allur í lestarstöðvar og lestarferð. Mættum á lestarstöðina upp úr hádegi og sáum að lestinni okkar seinkaði, við ákváðum þá að nýta tímann og panta næstu lestarferð en eftir tveggja tíma biðröð fengum við að vita að sú lest væri full (auðvitað.. bjartsýn!), eitthvað sem við munum líklega heyra oft í þessu landi. Loksins kom lestin okkar og ferðin til Aurangabad gat hafist en hún tók um 7 tíma og ótrúlegt en satt þá er akkúrat ekkert að segja frá þessari ferð. Í Aurangabad hittum við hressann kall sem vildi ólmur labba með okkur á milli gistiheimila og hjálpa okkur að finna rétta kostinn, hann ljómaði allur þegar hann komst að því að Þorri væri að læra sálfræði og sagðist hafa lært sálfræði í mörg ár, þegar við spurðum hann afhverju hann væri þá að labba um göturnar og hjálpa ferðamönnum í leit af hótelum sagðist hann aldrei hafa fengið að vinna við það sem hann væri menntaður í vegna spillingar stjórnvalda og engin gæti unnið nema hann ætti áhrifamikla vini eða gæti borgað háar upphæðir til að fá að vinna. Hótelið sem við völdum leit ágætlega út í fyrstu, þetta virtist vera þetta venjulega óhreina herbergi sem við erum svo vön með grjóthörðu rúmi og pínulitlum hörðum kodda, þarna var reyndar heit sturta og sjónvarp, þvílíkur lúxus. Eftir að við höfðum verið í herberginu í dágóða stund og komið okkur fyrir í hörðu beddunum í sillkinu með peysur fyrir kodda fórum við hins vegar að sjá nýja hlið á þessu hótelherbergi. Okkur var litið á veggina í kring um rúmin okkar  en þarna lágum við umvafin storknuðum blóðslettum sem höfðu lekið niður alla veggi, bæði á veggnum fyrir ofan rúmin en einnig á veggnum á móti rúminu sem var í ágætis fjarðlægð, það var því ljóst að eitthvað rosalegt hafði gengið á í þessu herbergi. Við nánari athugun sáum við að það voru líka blóðslettur á hurðinni. Við litum hvort á annað og ímyndunaraflið tók völdin, við komum upp með hinar ýmsu kenningar um hvað hefði gerst og nýttum alla okkar reynslu frá því að hafa horft á C.S.I. og Dexter í mörg ár. Þegar við spurðumst fyrir um hvað hefði eininglega gerst vildu eigendurnir  ekki segja okkur sannleikann,
Indverskur morgunverður
þeir þóttust ekki skilja okkur en sögðu síðan að þetta væri bara málning, sem gegnur ekki alveg upp því það var ekkert í herberginu málað rautt og engin er svona mikill klaufi með pensilinn. Stóru skiltin frá Kenýa um „Hotel and Butchery“ fengu nýja merkingu í okkar huga, þetta var hið eina sanna hótel með sláturhúsi.
Eftir svefnlitla nótt fórum við að hellum sem heita Ellora, þetta eru hof sem byggð voru inní kletta. Þeir voru fimm aldir í byggingu en þeir byrjuðu að byggja þá um 600 eftir krist. Þetta var rosalega stórt og flott enda á heimsmynjaskráinni. Þar sem að við nenntum ekki þennan morguninn að pakka saman og finna nýtt hótel áður en við fórum í hellaskoðunina neyddumst við að eyða annarri nótt í sláturhúsinu.
Næsti morgunn fór allur í það að reyna að redda okkur rútumiðum, það gekk hálf brösulega enda er lesta- og rútukerfið í landinu svo gríðalega stórt og flókið að það er ekki fyrir alla að skilja en auðvitað tókst þetta allt saman á endanum.
Eitt af mörgum hofum í Ellora

Eftir hádegið fórum við að skoða fleiri hof sem einnig voru byggð inní kletta nema að þessir voru byggðir miklu fyrr. Þessir voru líka rosalega flottir og er alveg ótrúlegt að hugsa til þess hvernig það var mögulegt að byggja þetta á þessum tímum. Þessi hof gáfu veggjakroti fornegypta ekkert eftir. Okkur leið mjög skringilega í þessum hellaskoðunum því heimamenn komu fram við okkur eins og Hollywood stjörnur, við vorum stoppuð við flesta hellana af fólki sem vildi ólmt fá að taka myndir af sér með okkur (og þá aðallega Grétu). Þegar einn byrjaði að taka myndir af sér með hvíta fólkinu hópuðust fleiri að og oftar en einu sinni var Gréta umkringd af æstum miðaldra karlmönnum sem biðu í biðröðum eftir að láta taka mynd af sér haldandi í höndina á Grétu eins og hún væri sjálfur Bandaríkjaforseti, einn karl meira að segja rétti Þorra myndavélina og lét hann taka mynd af Grétu með fjölskyldunni. Börnin voru líka rosa spennt og fékk Gréta stóran koss frá einni stelpunni. Þorri fékk þó líka sínar 15 mínútur af frægð og sumir sem vildu einnig ná honum með í fjölskyldualbúmið, fengum við síðan miklar þakkir fyrir. Það væri fyndið ef við Íslendingar stoppuðum Indverja á gangi á Ingólfstorgi og bæðum um mynd af sér með honum, við erum ekki frá því að það væri kallað fordómar af einhverjum, við höfðum þó bara gaman af þessu og settum upp stórt bros. Þarna var líka mikið dýralíf og þá sérstaklega mikið um apa sem léku sér í trjánum og reyndu sitt besta til að stelast í matinn hjá fólkinu, spurning hvort vakti meiri athygli hvíta fólkið eða aparnir, ég held að við höfum haft vinninginn. Aparnir voru ekki jafn liðlegir að láta taka mynd af sér og við hvíta fólkið og sýndi einn apinn Þorra tennurnar og urraði þegar hann rak sig óvart í skottið á honum. Þarna voru líka mikið af íkornum og skrautlegum páfagaukum. Að hellaskoðun lokinni fundum við rútu til Jalgaon, þessari rútuferð gleymum við líklega seint, það var komið myrkur og bílstjórinn slökkti öll ljós í rútunni og því sáum við lítið sem ekkert, við sátum aftast í rútunni og sáum því ekki heldur út um framrúðuna, kannski sem betur fer því á þriggja mínúta fresti nelgdi bílstjórinn niður og rykti rútunni út í kannt, með háuljósin á bílnum á móti í andlitinu. Við þurftum líka oft að negla niður svo við myndum ekki keyra aftan á vagna sem dregnir voru áfram af beljum, beljurnar eru jú ljóslausar og því sá bílstjórinn þær frekar seint og þurfti oft að nauðhemla. Við komumst þó á leiðarenda og vorum mjög fegin þegar við stigum út úr rútunni á lífi en með auma rassa. Í rútunni kom til okkar maður í einu stoppinu og spjallaði heillengi við okkur, honum fannst mjög spennandi að hitta fólk frá Íslandi. Þetta var ekki í fyrsta skiptið og enganvegin í það síðasta sem við lendum á spjalli við heimafólk, hér býr yndislegt fólk sem allir vilja spjalla við ferðamennina og eru mjög áhugasamir um það hvaðan maður kemur og hvað dregur mann til Indlands. Á meðan við biðum eftir mat um kvöldið buðu þrír karlar okkur að setjast hjá þeim og spjölluðu heillengi við okkur um allt milli himins og jarðar yfir viskyglasi. Þetta er mikill munur frá því sem við höfum vanist frá Afríku þar sem fólki er nokk sama um hver þú ert eða hvaðan þú kemur svo lengi sem hann getur grætt á þér. Helgin fór síðan í tvær langar rútuferðir, byrjuðum á 14 tíma næturrútu á aðfaranótt sunnudags með rúmum í stað sæta til Ahmedabad, þessi ferðamáti er gríðarlega kósý þar sem maður fær sitt pláss í nokkurskonar koju með glugga og tjaldi til að draga fyrir. Að sjálfsögðu var sjónvarp í „káetunni“ og Bollywood mynd stillt á hæsta styrkleika. Þarna ruggar maður fram og til baka og upp og niður, allt eftir því hvernig umferðin og vegurinn liggur. Gekk þessi ferð eins og í sögu og náðum við bæði ágætis svefn á milli hraðahindranna. Ahmedabad er ekki merkilegur bær og er þar ekkert að sjá, fyrir utan Subway sem var kærkomin sýn, þar sátum við heillengi í loftkælingunni og horfðum á bandarísku sjónvarpsstöðina þangað til næsta rúta lagði af stað. Við höfðum bókað á netinu 6 tíma rútu til Udaipur í norðvesturhluta landsins, þessi rúta átti líka að vera með rúmum og sáum við þau í hyllingum. Þegar við mættum á rútustöðina var okkur hins vegar sagt að það væru engin rúm í þessari rútu og við þyrftum að sætta okkur við að sitja en það væri nú ekki svo slæmt, þetta var nefnilega Volvo og hann ætlaði ekkert að rukka okkur
Gréta í einni af MÖRGUM myndatökunum
aukalega fyrir það (heppin við)!!  Nú erum við loksins komin á leiðarenda og ætlum að stoppa hér í þrjá daga og skoða þessa fallegu borg.
Indland er mjög stórt land og það sem þeir kalla lítinn bæ er fjórum sinnum fjölmennara en allt Ísland.
Karlatískan hérna er líka nokkuð áhugaverð og hefur hún greinilega staðið í stað síðan um 1970, brókaðar útvíðar glansbuxur og rósaskyrtur girtar ofaní er greinilega inn hér í landi, það er allavegana svona nettur diskófílingur í þessu. Konurnar eru samt alltaf jafn fallega klæddar, passa enganvegin við karlpeninginn, í sínum litskrúðuga klæðnaði með bert á milli.

Við ákváðum að setja inn nokkrar staðreyndir um Mumbai.

-Það búa 16,4 milljónir í Mumbai
-60% þeirra búa í fátæktrarhverfum
-Það búa 29.000 manns á hvern ferkílómeter
-Meðal árslaun eru um 1000 dollarar (um 114.000 kr.)
-Það eru 17 almenningsklósett á hverja milljón íbúa
-2.5 milljón manns fara í gegnum aðallestastöðina dag hvern
-Fjöldi Bollywoodmyna síðan 1931= 68.500
-Fjöldi fólks í lest sem tekur 1.800 manns á annatíma = 7.000

Sitjum núna upp á þakinu á gistiheimilinu okkar í Udaipur með bjór í hönd og horfum á bíó með flugeldasýningu í bakgrunninn, voða notalegt :)