laugardagur, 31. mars 2012

Letilíf

Við ílengdumst heldur lengi í bænum Malang í austur Jövu þar sem við gistum 5 nætur. Þessi bær er ekki þekktur fyrir neitt sérstakt, þarna voru engir ferðamenn og ekkert sérstakt hægt að gera, sem var kannski ástæðan fyrir því að við stoppuðum þarna svona lengi. Það var svo notalegt að labba um göturnar því allir heimamenn brostu til manns og heilsuðu, enda ekki vanir að sjá mikið af útlendingum. Við borðuðum allskonar góðan mat sem var sérstaklega ódýr eins og til dæmis steikt bleik hrísgrjón vafin í brúnan pappír kosta aðeins 80 krónur, færð varla ódýrari máltíð en það. Ástæðan fyrir því að við fórum til Malang var samt til þess að fara í ferð upp á eldfjall sem er þar 4 tímum frá. Þessi ferð var hins vegar alveg ótrúleg dýr og við biðum alltaf og vonuðum að fleiri ferðamenn myndu skrá sig í þessa ferð svo hún yrði ódýrari fyrir okkur en það kom aldrei neinn svo á fimmta degi gáfumst við upp og héldum leið okkar áfram austur til Bali.
Næturrútuferðin til Bali var algjört helvíti. Það byrjaði með því að við þurftum að eiga við tvær konur sem höfðu tekið sætin okkar og endurheimta þau, enda rútan full, annað af sætunum sem við þurftum að berjast fyrir var rennandi blautt og fékk Gréta því samanbrotinn pappakassa til að sitja á, voðaleg notalegt. Loksins virtist allt vera að smella og rútan lagði loksins af stað, Gréta komst þó strax að því að heyrnatólin af iPodnum voru biluð og því engin hljóðbók til að stytta stundirnar í rútunni. Stuttu seinna áttuðum við okkur á því hvers vegna sætið hennar var blautt en loftkælinginn sem Asíubúar eru alltaf að stæra sig af var ekki betri en svo að hún míglak. Við náðum að setja plástur á eitt gatið sem lak úr og koma gardínunni þannig fyrir að hún tók mest alla bleytuna, samt sem áður sat Gréta í hellidembu, Þorri fékk líka sinn skammt en slapp þó mun betur. Þegar ferðin var hálfnuð ákváðum við að skipta um sæti svo Gréta gæti náð einhverjum svefni en það var ómögulegt að sofa í sætinu við gluggan því að um leið og maður var að sofna fékk maður bununa yfir sig og mest í andlitið, þá var ekkert annað að gera en að þurrka dropana í loftinu bara til að þeir byrjuðu aftur að falla þegar maður var við það að sofna. Þetta minnti helst á einhverja pyntingaaðferð þar sem við vorum svo þreytt og um leið og maður var við það að dotta hrundi bunan niður á andlitið. Við hugsuðum ýmsar leiðir til að stoppa lekann og í örvæntingu okkar fórum við að leita af einhverju góðu rakadrægu dömubindi til að bjarga okkur. Þar sem við vorum ekki með dömubindi við hendina ákváðum við að fara aldrei aftur í rútu án þess að vera vopnuð regnfötum og regnhlíf. Ef rigningin var ekki nógu slæm þá sáu æðri máttarvöld til þess að við hefðum tvo krakka fyrir aftan okkur sem spörkuðu stanslaust í sætin okkar alla leiðina og gamla konu sem ropaði og gaf frá sér æluhljóð á tveggja mínútna fresti... og já svo var auðvitað Indónesísk tónlist á hæsta styrk mest alla leiðina, þessi ferð stóð í langar 15 klukkustundir með engum svefni.
Ströndin á Kuta, Bali!!

Okkar fyrsta verk eftir að við komum til Kuta á Balí var að finna gistiheimili og sofa af okkur daginn með martraðir um rútuferðina. Við sáum okkur til mikillar ánægju þegar við loksins stauluðumst á fætur að það var sundlaug við gistiheimilið okkar. Næsta dag klæddum við okkur upp í sundföt og vorum gríðarlega spennt fyrir að eyða deginum á ströndini og slaka á eftir allt sem á hafði gengið (já meira að segja Þorri var spenntur fyrir ströndinni). Þetta gekk ekki betur en svo að þegar á ströndina var komið sáum við að það var rusl hvert sem við litum, þetta er án efa ógeðlsegasta strönd sem við höfum nokkurntíman séð, við höfðum því ekki minnstu lyst á að leggjast í sandinn inn á milli pappaglasana og plastpokana, ekki beint það sem maður ímyndar sér þegar hugsað er um Bali. Við eyddum því næstu tveimur dögum við sundlaugarbakkann ásamt einni heimsókn í verslunarmiðstöðina. Við höfðum hins vegar ekkert gaman af því að rölta um stræti þessa bæjar með brjálaða umferð og dónalega, örvæntingafulla sölumenn út um allt.
Uppáhalds veitingastaðurinn á Gili
Við tókum því þá ákvörðun um að fara út úr öllum látunum sem fyrst og keyptum okkur ferjumiða til eyju rétt utan við Lombok, austur af Bali sem heitir Gili Trawangan. Sú eyja hefur þann æðislega kost að vélknúin farartæki eru með öllu bönnuð. Hér höfum við hlaðið batteríin í þrjár nætur og vildum óska þess að við gætum eytt nokkrum til viðbótar. Hér eru strendur sem þú átt alveg útaf fyrir þig fyrir utan nokkrar geitur og hænur, turkislitur sjórinn og sólin skín alla daga, veitingastaðir alveg við ströndina þar sem maður tekur sér sundsprett á meðan maður bíður eftir satay kjúklinginum sínum og fullri skál af ferskum ávöxutum. En svona áður en þið hrækið á skjáinn úr öfund þá getum við sagt ykkur að morgunverkin okkar eru reyndar ekki alveg eins spennand en dagarnir byrja á því að Þorri þarf að veiða allt að fimm stærðarinnar fljúgandi kakkalakka sem hafa komið sér inn í herbergið okkar yfir nóttina þar sem þakið er ekki fest á kofann okkar. Tilgangur ferðarinnar var hins vegar ekki að slaka á og því eigum við um 20 tíma rútu- og bátsferðir í fyrramálið til Flores þar sem við förum á vit ævintýranna og leitum uppi Komodo drekana sem eru stærstu eðlur í heimi og verða allt að þrír metrar að lengd.

Þetta er lífið! Gili Trawangan

miðvikudagur, 21. mars 2012

Jarðskjálfti og Þorri í pilsi

Borobudur og Þorri í pilsi
Ferðin til Singapore gekk ekki beint eins og í sögu. Við höfðum talað við eiganda gistiheimilisins kvöldið áður sem ráðlagði okkur að taka ekki leigubíl heldur skyldi hann skutla okkur gegn vægu gjaldi. Við vöknuðum tímalega daginn eftir og fundum kauða sem var hinn rólegasti og hélt því staðfastlega fram að við værum ekki að fara fyrr en þremur tímum seinna og varð jafn hissa í öll þau þrjú skipti sem við sögðum honum að rútan færi klukkan 9.
Singapore
Þegar tuttugu mínútur voru í að rútan færi ákveður hann að nú sé tíminn til að skella sér í sturtu. Þegar hann síðan kom úr sturtunni tók Þorri á móti honum í dyrunum og sagði að okkur væri ekki lengur sama og vildum fara að leggja í hann, enda rútustöðin í fimmtán mínútna fjarlægð. Þá kom það í ljós okkur til mikillar ánægju að hann var búinn að týna lyklunum af bílnum. Til að gera mjög langa sögu stutta kom hann okkur á endanum á rútustöðina en þurfti að punga út fyrir leigubíl og nýjum rútumiða fyrir okkur tveim tímum seinna. Þau hjónin voru þó mjög yndæl og voru greinilega mjög sár yfir því hvernig þetta fór allt saman og buðu okkur upp á te og naan brauð. Við skildum því við þau í sátt og héldum til Singapore.
Þar sem Singapore er mjög dýrt land höfðum við pantað ódýrasta herbergið sem við gátum fundið, sem var þó mun dýrara en það sem við erum vön þrátt fyrir að hafa verið í vist ásamt 6 öðrum. Eftir ævintýri morgunsins nenntum við engu þennan daginn enda komum við það seint að dagurinn var runnin frá okkur. Í staðin tókum við daginn eftir snemma og drifum okkur í miðbæinn. Þar lentum við inni í stórri verslunamiðstöð sem reyndist afar erfitt að komast út úr, þó ekki vegna búðarráps heldur stórundarlegs skipulags. Miðbærinn bauð upp á stærðarinnar skip sem strandað hafði ofan á þrem risa stórum turnum, hafmeyjuljóni og stærsta gosbrunni í heimi, bæjaryfirvöld höfðu þó ekkert fyrir því að skrúfa frá þennan daginn og því lítið að sjá fyrir utan stóran járnhring. Singapore er ótrúlega hrein og skipulögð borg, hvert háhýsið á fætur öðru og góðar samgöngur.
Þeir ganga meira að segja svo langt að banna tyggjó í landinu með lögum, Grétu til mikillar mæðu sem þó hafði smyglað tyggjópakka inn í landið frá Malasíu. Dinnig eru háar fjársektir á alla þá sem sjást henda rusli á göturnar. Eftir að hafa þrætt miðbæinn í steikjandi hita ákváðum við að leita skjóls í loftkældu verslunamiðstöðinni og fá okkur eins og einn kleinuhring. Gréta datt síðan í lukkupottinn þegar við viltumst inn í búð sem seldi rafmagnsnuddstóla, þar eyddi hún löngum tíma í að gera sér upp áhuga um að fjárfesta í einum slíkum, bara til þess að fá að sitja í honum aðeins lengur. Fórum út stólalaus en með nokkra bæklinga og mun fróðari um svona tæki.

Þorra leiddist ekki að vera settur í pils
Um kvöldið gerðumst við menningaleg og skelltum okkur á tónlistarhátíð sem var í fullum gangi og viðburðir á hverju horni. Hlustuðum á hræðilega Suður-Kóreska rokkhljómsveit sem tók hvert coverlagið á fætur öðru, hvert öðru lélegra. Borgin var samt æðisleg svona að næturlagi og ótrúlega mikil ljósadýrð.
Næsta morgunn áttum við svo flug til Yogjakarta á mið-Jövu í Indónesíu. Upphaflegt plan var að taka bát frá Singapore til Súmötru en við áttuðum okkur svo á að við hefðum sennilega ekki nægan tíma til að fara frá Súmötru og alla leið niður til Bali á aðeins þremur vikum.
Þar sem við eins og svo margir aðrir vitum ekki mjög mikið um Indónesíu þá má til gamans geta að landið er tæplega 19 sinnum stærra en Ísland, sem dreyfist á yfir 17.500 eyjar og hér búa um 237 milljónir manns sem gerir þetta að fjórða fjölmennasta landi heims. 80% heimamanna eru múslimar og fjölmennasta og stæsta eyjan er Java. Það var frekar mikið stökk að fara frá skipulaginu og hreinlætinu í Singapore til Yogjakarta þar sem sjást nánast engin hús sem eru meira en tvær hæðir. Hér hittum við líka aftur fyrir karlana á hestvögnunum og hjólunum sem við höfum ekki séð í langan tíma, lélegu vegina og umferðarmenninguna sem við munum líklega aldrei skilja.Við erum hér í Indónesíu á „low season“ og því ótrúlega fáir ferðamenn, það er bæði jákvætt og neikvætt. Það jákvæða er að þú hefur allt útaf fyrir þig, auðvelt að prútta og hótelin eru aldrei fullbókuð. Það neikvæða er að ferðamenn hafa ástæðu fyrir því að vera ekki hér á þessari árstíð og er það veðrið en búið er að rigna alla dagana okkar hér í Indónesíu, þó bara á köflum þannig að það sleppur alveg til. Fyrstu tvo dagana tókum við rólega og gerðum lítið annað en að rölta um hverfið okkar og kynnast aðeins matarmenningunni hér, sem boðar gott. Vöknuðum einn morguninn við að hótelið okkar hristist til og frá og tók það okkur dágóðan tíma að átta okkur á að um jarðskjálfta væri að ræða því hvorugt okkar hefur fundið fyrir jarðskjálfta áður, enda búið á örugga og góða norðurlandinu. Hann var ekki mjög stór þessi skjálfti sem betur fer og einn heimamaðurinn sagði okkur að hann hafi átt upptök sín úti á hafi, svo enginn skaði skeður. Hvað ætli þessi bær sé nú frægur fyrir? Jú auðvitað hof! Hof þetta heitir Borobudur og er ekki ómerkilegra en það að þetta er stærsta búddahof í heimi. Eftir að Angkor Wat hafði ekki heillað okkur neitt sérstaklega upp úr skónum höfðum við ekkert endilega ætlað okkur að skoða fleiri hof en maður kemur víst ekki til Yogjakarta nema að skoða Borobudur svo við létum í minni pokann með vægast sagt litlar væntingar. Fengum okkur einkabílstjóra sem keyrði okkur að staðnum sem kom okkur vægast sagt skemmtilega á óvart. Eftir hver vonbrigðin á fætur öðru þegar kemur að hofum gengum við þarna upp að risastóru og ótrúlega flottu hofi á níu hæðum. Hver hæðin var skreitt með mismunandi útskornum fígúrum og stórum búddastyttum inn á milli. Þetta hof fer klárlega efst á listan okkar sem flottasta hof sem við höfum séð (já, flottara en Angkor Wat!) og þau eru orðin nokkur. Það voru þó smá Monu Lisu áhrif þarna þar sem við héldum að hofið væri mun stærra en það var í raun, var samt ekki eins lítið og málverkið. Þetta hof var byggt um árið 800 úr tveimur milljónum steinklumpa en með falli búddismans var hofið yfirgefið stuttu eftir að það var klárað. Eftir það lá það gleymt undir eldfjallaösku þangað til árið 1815 að svæðið var hreinsað og það uppgvötaðist aftur og mikilfengleiki þess kom í ljós.

Núna erum við komin til Malang sem er í austur Jövu og nálgumst Balí óðfluga. Á dagskrá hér er að taka bíltúr upp á eldfjall sem kallast Bromo og á það að vera mjög fallegt og útsýnið stórkostlegt.

HÉR eru myndir frá Malasíu
HÉR eru myndir frá Singapore

þriðjudagur, 13. mars 2012

Raunir bakpokaferðalanga


Eyddum nokkrum góðum dögum uppi á hálendi Malasíu eða Cameron Highlands eins og það er kallað. Fyrstu dagana vorum við voðalega löt og tókum einn og hálfan dag í svona innidag þar sem við gerðum nákvæmlega ekki neitt. Svoleiðis dagar eru bráðnauðsynlegir til þess að endurhlaða batteríin, samt sem áður fáum við alltaf svolítið samviskubit fyrir að taka okkur svona hvíldardaga, finnst alltaf eins og við ættum að vera á fullu alltaf og að gera eitthvað nýtt. Þannig gengur það víst ekki alveg fyrir sig. Í Cameron Highlands er að finna stærsta blóm í heimi og var hægt að fara í 4 tíma fjallgöngu til að sjá það þar sem það blómstrar bara í sjö daga áður en það deyr. Þorra vildi ólmur fara en Gréta var ekki alveg eins spennt þar sem fjallgöngur eru ekki hennar tebolli og hvað þá bara til þess að sjá eitt blóm. Fórum samt á eina ferðaskrifstofu og spurðumst fyrir um þessa ferð en þar var okkur sagt að blómið væri ekki fallegt í þetta skiptið vegna verðurs (var búið að rigna mikið undanfarna daga). Hann sagði okkur að allar hinar ferðaskrifstofurnar væru að ljúga að fólki að það væri fallegt og svo þegar það var komið að blóminu urðu allir fyrir vonbrigðum vegna þess að það væri í raun hálf dautt. Í barnslegri einlægni okkar þökkuðum við honum fyrir að vera svona hreinskilinn við okkur (vegna þess að þessi ferð var frekar dýr) og bókuðum hjá honum aðra dagsferð sem innihélt ekki þessa blómagöngu, sú var mun ódýrari og bauð upp á skoðunarferð um svæðið í kring. Þegar við komum upp á gistiheimili sögðum við stelpunni í lobbýinu frá þessu öllu og þá komumst við að því að þetta fyrirtæki gerði út á að ljúga að fólki að blómið væri dautt svo það veldi frekar að fara í hina ferðina, þannig myndu þeir græða meiri pening.
 Þetta er bara svona smá dæmi og það sorglega er að ef maður ætlar ekki að láta svindla á sér verður maður að læra að efast um allt og  treysta engum, við erum greinilega ennþá að læra þar sem manni langar að geta treyst því að það sem fólk segir við mann sé satt. En það má svo sem taka það fram að Gréta var alveg smá fegin að þurfa ekki í þessa blómafjallgöngu, en bara pirrrandi að vera að fara í aðra ferð með fyrirtæki sem er
búið að ljúga að manni.
Fórum sem sagt í þessa ferð um svæðið í kring sem er alveg ótrúlega fallegt en þar má finna stærstu te akra heims, skoðuðum hluta þeirra auk teverksmiðju. Stoppuðum svo á fiðrilda og skordýragarði, jarðaberjaræktun og að lokum tókum smá göngu í mosafrumskógi (Mossy forest), sem er svona skógur eins og má sjá í Avatar myndinni, en hann var mjög fallegur.
 Daginn eftir héldum við aftur niður á jafnsléttuna þar sem Kuala Lumpur beið okkar. Það byrjaði nú ekkert allt of vel þar sem það byrjaði að rigna um leið og við komum, það er ekkert verra en að vera mættur í nýja stórborg með bakpokana á bakinu og þurfa að leita sér af gistingu á meðan það rignir. Auðvitað enduðum við því á að sætta okkur við litla holu, sem við kölluðum fangaklefann, bara til að við þyrftum ekki að leita lengur (fundum svo seinna fullt af bed bugs þar inni sem líkaði blóðið okkar). Það kvöld var ekki um neitt annað að ræða en að fá sér stóran Subway í tilefni þess að okkur langaði ekki í hrísgrjón eða núðlur svona einu sinni. Mikið sem okkur langar bara í lambalæri, skyr, flatköku með hangikjöti eða bara venjulega brauðsneið með Gottaosti.
Förinni daginn eftir var svo heitið í miðbæinn til þess að skoða Petrona Towers sem eru kennileiti borgarinnar en það vildi svo vel til að þegar við komum með neðanjarðarlestinni að turnunum enduðum við ekki úti heldur beint inni í risastórri verslunarmiðstöð og henni fylgdi yndisleg loftkæling að sjálfsögðu og búðarrölt í framhaldinu. Kíktum svo rétt út til þess að skoða þessa blessuðu turna, smelltum af nokkrum myndum og skottuðumst svo inn aftur. Í miðri myndatöku gekk maður frá Nígeríu að Þorra og vildi ólmur fá mynd af sér með honum. Gréta, sem fékk hlutverk myndatökumanns, spurði hvort hann vildi ekki hafa turnana frægu í bakrunn en hann sagði að honum væri nú alveg sama um þessa turna. Því miður átti þessi vingjarnlegi maður engan konungsborinn ættingja og við eigum þar af leiðandi ekki von á fúlgu fjár á bankareikning okkar á næstu tveim árunum. Um kvöldið skildi Þorri síðan Grétu eftir upp á hóteli og stakk af á rokktónleika. Að sjálfsögðu kom hann við á hárgreiðslustofu á leiðinni og lét krúnuraka sig í tilefni kvöldsins. Þegar á tónleikastaðinn var komið tók við löng bið þar sem tónleikarnir byrjuðu ekki fyrr en þrem tímum seinna en þeir voru auglýstir. Þorri tók sig á tal við hressan heimamann á meðan hann beið og fræddist eilítið um land og þjóð. Það sem kom mest á óvart á meðan biðinni stóð var að meðlimir hljómsveitarinnar sem kallar sig The Dillinger Escape Plan voru bara á vappi þarna frammi á meðal hljómsveitagesta og fengu að vera algjörlega í friði, hvort það stafi af því að enginn hafi þekkt þá í sjón eða þá að Asíubúar séu svona hlédrægir skal ekki segja. En tónleikarnir sjálfir voru rosalega skemmtilegir og stemninginn alveg ótrúleg.
Næsta dag skelltum við okkur í eitt stærsta sædýrasafn í Asíu. Þarna var boðið upp á hin ýmsu kvikindi, allt frá litlum sæhestum upp í risaskjaldbökur. Heimsóknin byrjaði á að við fengum að handleika stórfurðulegan krabba og hákarla, síðan fylgdumst við með matartíma risa rottna, kolkrabba, risaskjaldbaka og hákarla. Eftir rúma tvo tíma í vatnaveröldinni og þriðju yfirferð Þorra á hverju einasta búri (Grétu til mikillar hamingju) ákváðum við að skella okkur í bíó. Fyrir valinu var myndin The Woman in Black og kom hún nokkuð á óvart, hápunktur bíóferðarinnar var þó án efa möguleikinn á að fá saltað popp, sem samkvæmt auglýsingunni er glænýtt hér í Malasíu.

Síðustu tveir dagarnir í Kuala Lumpur fóru í að skoða þjóðarmoskuna þeirra og Batu hellana. Grétu var meinaður aðgangur í moskuna nema að klæðast búrku með öllu tilheyrandi, þar sem hún hafði valið sér annan fatnað þegar hún klæddi sig þennan morguninn fékk hún fjólubláa búrku og brúnan höfuðklút lánað hjá moskustarfsmönnunum, það má segja að þarna hafi átt sér stað múslimskt tískuslys. Þorri fékk hins vegar aðgang án neinna orða þótt svo hann hafi berað meira svæði líkamans heldur en Gréta fyrir búrkuna. Moskan var mjög stór en þegar inn var komið var frekar lítið að sjá því þar sem múslimar notast við hinar ýmsu líkamsstöður í bænum sínum eru engin húsgögn inn í moskum. Þarna var síðan risa stórt teppalagt herbergi sem einungis var ætlað múslimum til að biðja inní. Það sem okkur fannst áhugaverðast þarna inni voru bæklingarnir sem ætlaðir voru til að fræða fólk af annarri trú um Islamtrú. Þarna mátti t.d. lesa um sannleikann um Jesú Krist en samkvæmt þeim bæklingi var hann ekkert sérstaklega merkilegur maður, heldur einungis ómerkilegur sendimaður Allah, sem var jú auðvitað sá sem kom honum fyrir í maga Maríu mey. Það sem meira er þá kom fram í þessum bæklingi að allir menn eru fæddir múslimar en vegna lélegs uppeldis eru margir afvegaleiddir í aðra „síðri“ trú. Svona hélt þetta áfram og var gert lítið úr öðrum trúm hvað eftir annað. Hinir bæklingarnir voru hins vegar mjög áhugaverðir og fræddu okkur um þessa trú sem er svo fjarlæg okkur.
Eftir tuttugu mínútna lestarferð til Batu hellanna tók við erfið ganga upp 272 þrep í steikjandi hita. Þegar upp var komið gengum við inn í risastóran helli. Þar inni voru fjöldinn allur af styttum og flottheitum í anda hindútrúnnar. Það sem við höfðum mest gaman af var þó gömul kona sem greinilega er álitinn heilög því fólk beið í röð eftir að fá blessun frá henni, í okkar augum var þetta þó einungis kolrugluð kona sem bjó í helli og var með svo sítt hár að það hékk í stórum skítugum klump og þurfti hún að halda á honum vegna þyngdar hans.
Eftir nokkra góða daga í Kuala Lumpur var ferðinni heitið til Melaka. Við drifum okkur á rútustöðina og fengum miða í rútu, ásamt sex öðrum, ótrúlegt að rútukerfið hér skuli ganga þar sem flestar þær rútur sem við sjáum eru hálf tómar. Á rútustöðinni við komuna erum við gripin af einu af rándýrunum sem lokka ferðamenn í bælin sín. Nokkrum metrum frá gistiheimilinu okkar er risastór verslunarmiðstöð á sjö hæðum og auðvitað fékk Gréta stjörnur í augun við þessa sýn, við komumst því ekki lengra þennan daginn. En verslunarmiðstöðvar eru því miður forboðni ávöxturinn hennar Grétu í þessari ferð, því eins mikið og hana langar að versla þá telur bakpokinn hennar ekki nema 34 lítra. Þorri fann að vísu eitthvað við sitt hæfi og fékk að skjóta úr boga með hinum krökkunum.
Í dag tókum við okkur síðan langan göngutúr, á dagsskrá var að skoða fljótandi mosku. Á leiðinni sáum við svo auglýsingu frá „wildlife theater“ sem okkur fannst örlítið meira spennandi og settum því stefnuna þangað. Þetta var klukkutíma sýning með slöngum, páfagaukum, sæljónum og dansandi ættbálkafólki. Það var hins vegar hin hvíta Gréta María sem stal senuni og var tekinn upp við hvert tækifæri til að taka þátt í sýningunni, Þorri fékk líka sinn skerf og var í annað skiptið í ferðinni látinn dansa með ættbálksfólki. Eftir sýninguna tók sig á tal við okkur gamall tannlaus maður sem var yfir sig hrifinn af Grétu og hrósaði henni í hástert fyrir hugrekki innan um slöngurnar. Við höfðum síðan ekki labbað nema nokkra metra þegar yndælis fjölskylda stoppaði við hlið okkar og bauð okkur far til baka í bæinn, sem við þáðum með þökkum enda byrjað að rigna. Um kvöldið fór Þorri síðan til augnlæknis sem vill meina að augnlæknarnir á Íslandi hafi látið hann fá alltof sterk gleraugu og hann hafi því séð betur en hinn almenni maður síðustu ár og sé með betri sjón en íslensku starfsbræður hennar halda fram.
Á morgunn yfirgefum við Malasíu og höldum til Singapore þar sem tekur við nýtt land og ný ævintýr.

Malasía stóðst allar okkar væntingar en við vildum að við hefðum haft meiri tíma hérna þar sem við eigum alveg eftir austurströndina og Borneohluta landsins. Maður verður nú líka að eiga eitthvað eftir fyrir komandi ferðir.

Við eyddum 17,5 klukkutímum í rútum.

Jákvætt:
- Yndislegt fólk
- Mikið af stöðum til að skoða
- Mjög nútímalegt, að minnsta kosti í borgunum
- Hreint
- Góðar samgöngur

Neikvætt:
- Bed bugs
- Dýr gisting
- Hefur ringt flesta dagana okkar hér
- Flest allur heimamatur sem við smökkuðum var frekar bragðlaus

Það sem stóð upp úr:
- Dagsferðin í Cameron Highlands
-Þjóðgarðurinn í Penang
- Sædýrasafnið í Kuala Lumpur
- The Dillinger Escape Plan tónleikarnir hans Þorra

Verðdæmi:
-0.33 l bjór = 344 kr.
-Gisting (í mjög lélegum herbergjum, gluggalausum og skítugum) = 1.200–2.000kr.
-1,5 l vatn = 108 kr.
-Máltíð fyrir tvo = 950 kr.
- Dagsferð um Cameron Highlands fyrir einn = 1.700 kr.
- Fjögurra tíma rútuferð = 1.000 kr.
- Inngöngumiði í sædýrasafn fyrir einn= 1.500 kr.


HÉR eru myndir frá Thailandi
HÉR eru myndir frá Kambódíu

Kort af leiðinni sem við fórum:

mánudagur, 5. mars 2012

Gréta í beinni

Lögðum eldsnemma af stað til Malasíu síðastliðinn fimmtudag þar sem við kvöddum Thailand með ekkert sérlega miklum söknuði, enda alltaf spennandi að koma til nýs lands. Höfum samt tekið eftir því að það er ekki eins mikill spenningur að koma til nýs lands þegar maður fer þangað landleiðina eins og það er að koma með flugi. Erum búin að vera svo dugleg að fara bara landleiðirnar að við höfum ekki farið í flug síðan í desember.
Fyrsti dagurinn í nýju landi er oft mjög áhugaverður, manni er hent út einhversstaðar í miðri borg sem maður hefur aldrei komið til fyrr og hefur ekki hugmynd um hvert maður á að fara, hvernig maður á að komast að stað sem maður gæti mögulega fundið gistingu og hvað sé passlegt verð að borga fyrir að komast frá A til B. Þetta er til dæmis dagurinn sem mest er svindlað á manni og yfirleitt í enda dags slær maður lófanum við ennið á sér yfir því hversu vitlaus maður var. Það átti þó ekki við þegar við komum til George Town á Penang eyju hérna í norður Malasíu, að vísu vissum við ekkert hvert við áttum að fara og stóðum lengi með kort af borginni og snérum okkur í hringi en það reyndi enginn að svindla á okkur og skemmtilegur leigubílsstjóri keyrði okkur beint í China Town þar sem við fundum gistingu á yndælu gistiheimili. Við vorum þó ekki ein því á leiðinni frá Thailandi höfðum við kynnst Símoni frá Sviss sem var svo með okkur allan tímann í Penang, alltaf gaman að fá auka félagsskap. Hann er líka í 9 mánaða reisu en þó örlítið öðruvísi en okkar því hann leitar uppi alla þungarokkstónleika í asíu.
Á föstudaginn fórum við í göngutúr um borgina sem er ótrúlega hreinleg, skipulögð og krúttleg. Þetta er mjög sérstakt því þarna er mikið um hús í evrópskum stíl, síðan fer maður í næstu götu við og þá er maður kominn til Litla Indlands, næstu götu er maður kominn til arabíu, Kína og svo framvegis.
Þar sem Malasía er að stórum hluta múslimskt land er kominn smá Egypalands fílingur í þetta þegar þeir byrja með bænirnar í kallkerfinu. Þetta er þó ekki nærri því eins strangt og í mið austurlöndunum því hérna höfum við séð múslimskar konur keyra bíla, þær eru í mjög litríkum fötum og það er í lagi að það sjáist í andlitið á þeim. Enda líta þær út fyrir að vera mun hamingjusamari en kynsystur þeirra í mið austurlöndum því hérna sér maður þær brosandi. Fórum svo upp í særsta turninn í Penang til að sjá útsýnið sem var mjög fallegt eftir það fórum við svo í lítinn virkisgarð frá því að Bretarnir tóku yfir eynni. Í George Town voru skilti út um allt sem tilkynntu þér það að ef þú sést henda rusli á götunum áttu von á að fá 20.000 kr. sekt. Fengum okkur svo æðislegan hádegismat í Litla Indlandi þar sem við fengum stórt bananalaufblað fyrir framan okkur með hrísgrjónum og allskonar sósum og mauki á, síðan gerðum við eins og allir hinir í kringum okkur og borðuðum með höndunum, þó alls ekki þeirri vinstri því það er ekki við hæfi þar sem flestir í þessum heimshluta nota hana til þess að hreinsa á sér óæðri endann eftir klósettferðir.
Daginn eftir fórum við með strætó hinum megin á eyjunni til þess að skoða þjóðgarðinn, héldum að við værum að fara að rölta í kringum eitthvað vatn og slappa af en svo þegar við mættum þarna tók við heljarinnar 3 kílómetra fjallganga í gegnum regnskóginn til þess að sjá stöðuvatn sem átti að vera ótrúlega merkilegt. Þegar við komum þangað rennandi sveitt og þyrst var þetta ekki nema uppþornaður pollur. Þarna var þó líka strönd og falleg skjaldbökumiðstöð sem er að reyna að sporna við útrýmingarhættu á grænu skaldbökunum sem eru þær stærstu í heimi. Þær vera allt að 2,5 metrar að lengd og 600 kíló og lifa þær í allt að 150 ár. Fólkið þarna girðir eggin í sandinum af, fóstra svo ungana í nokkrar vikur og hleypa þeim í sjóinn þegar þær eru orðnar tilbúnar. Fólkið getur líka haft áhrif á kyn skjaldbakanna með hitastjórnun til þess að það verði nokkurnvegin jafnt hlutfall. En ef eggin eru öll í of heitum sandinum klekjast bara kvenskjaldbökur út en með því að hafa sum eggin á kaldari stað verður meirihlutinn karlkyns. Gréta og Símon voru svo hneppt í sjónvarpsviðtal á meðan Þorri faldi sig svo hann þyrfti ekki að taka þátt í því. Heppnin var svo með okkur þar sem við ströndina voru nokkrir bátar og fengum við far með þeim leiðina til baka ásamt nokkrum hressum heimamönnum, því við (þó aðallega Gréta) nenntum ekki að fara tveggja tíma fjallgöguna aftur til baka, enda bara á flip flop skónum góðu og það var stutt í það að það færi að dimma.
Daginn eftir var kominn tími til að fara á næsta áfangastað en við ætluðum til Cameron Highlands. Á meðan við biðum eftir að vera sótt í forstofu gistiheimilisins sat þar bandarískur maður sem tók sig á tal við okkur. Það fyrsta sem hann sagði var að hann væri ekkert búinn að sofa því hann væri svo þunglyndur, þar á eftir spurði hann hvaðan við værum, þegar við sögðumst vera frá Íslandi rann á hann önnur gríma og byrjaði hann hreinlega að drulla yfir okkur og okkar þjóð. Hann hafði setið við drykkju alla nóttina og því skyldum við ekki helminginn af því sem hann sagði en nokkuð af því sem við náðum var að við ættum að skammast okkar, Ísland ætti með réttu að vera þriðjaheims ríki vegna þess að við stæðum ekki við skuldir okkar eins og aðrar þjóðir og að við skyldum passa okkur, því við yrðum á endanum elt uppi og gert að borga skuldir okkar. Þessa ræðu sína endaði hann svo á nokkrum vel völdum orðum um fasisma. Loks kom rútan okkar og við losnuðum undan svívirðingum þessa sorglega litla manns frá „fullkomnu“ Bandaríkjunum. Okkar viðbrögð voru þau að hunsa hann og leggjast ekki á sama plan með því að svara þessum fáránlegu fullyrðingum sem hann persónugerði á okkur. Við hefðum eins getað endað samtalið við hann á þeim nótum að við værum að minnsta kosti ekki hryðjuverkamenn sem bærum ábyrgð á dauða milljóna saklausra manna um allan heim. Í staðinn snérum við baki í hann og yrtum ekki á hann þegar hann fór að sjá af sér og biðjast afsökunnar á framferði sínu, sumir ættu bara að halda sig heima hjá sér.


Vorum dauðfegin þegar rútan loksins kom og fór með okkur upp á fjöll þar sem við erum núna í góðu yfirlæti. Erum búin að taka síðustu tveimur dögum rólega og rölta aðeins um þorpið hérna og borða góðan mat. Veðrið hér er eins og á ágætum íslenskum sumardegi, lítil sól, gola en peysuveður, yndislegt!