fimmtudagur, 6. október 2011

Hakunamatata

Við lenntum í Nairobi, Kenýa, fimmtudagsnóttina. Dvöl okkar í Kenýa byrjaði á því að bílstjórinn sem átti að sækja okkur á flugvöllinn var hvergi sjáanlegur, en í staðin fengum við endalaust af tilboðum annarra vafasamra bílstjóra sem vildu ólmir skutla okkur. Sá sem harðast gekk fram sagðist hafa verið beðinn um að fylla í skarðið fyrir bílstjórann okkar. Þessi hafði hins vegar ekki hugmynd um hvað við hétum, hann gerði samt heiðarlega tilraun og spurði hvort það gæti passað að Gréta héti Michael. Við vildum ekki taka neina áhættu í einni af hættulegustu borgum heims og tókum því venjulegan leigubíl sem skilaði okkur á réttan stað. Hótelið var skítsæmilegt (í orðsins fyllstu), en allar hurðir voru læstar með hengilásum og fannst okkur við því vera nokkuð örugg í miðborginni. Svefnfriður var að vísu ekki mikill því stanslaus umferð, flaut, partýstand og öskur voru alla nóttina fyrir utan gluggan okkar sem ekki var hægt að loka.
Á föstudaginn könnuðum við miðbæ Nairobi örlítið. Við komumst að því að fólkið er mjög viðkunnalegt og hjálpsamt, það sama er ekki hægt að segja um hraðbankanna. Við þurftum að taka út pening til að borga safarí ferðina okkar en það gekk vægast sagt illa að ná út pening, ætli við höfum ekki prófað alla hraðbanka Nairobi að minnsta kosti sex sinnum.  Allur dagurinn fór í hraðbankarölt og á endanum náðum við að skrapa saman upphæðinni í shillings, dollurum og pundum sem við áttum til vara.

Safarí
Dagur 1:
Vorum sótt á hótelið snemma um morguninn og okkur keyrt á skrifstofu fyrirtækisins þar sem við vorum kynnt fyrir ferðafélögum okkar og bílstjóra. Föruneyti okkar samanstóð af þremur bandaríkjamönnum, þar á meðal MJÖG bandarískum hjónum og tveim Kínverjum. Fyrsti dagurinn fór í langa keyrslu að Masai Mara þjóðgarðinum. Á leiðinni keyrðum við fram hjá fjölmörgum litlum þorpum og Það var mjög gaman að fylgjast með lífinu út um gluggann þar sem mátti sjá smaladrengi með kýrnar og geiturnar sínar, veifandi krakka í vegkanntinum og konur berandi vatnsbrúsa á höfðinu (Gréta er að hugsa um að fara bera bakpokann sinn á höfðinu til að falla betur inn í hópinn). Stoppuðum einnig á stað með frábært útsýni yfir Great Rift Valley. Á leiðinni varð bandaríska konan agndofa við ótrúlega sýn þegar hún sá bleik ský, gul og beislituð, Hún hafði aldrei séð neitt þessu líkt áður og spurði bílstjórann hvað útskýrði þessa litadýrð, hann hins vegar sá þessi ský hvergi og það sama átti við um okkur hin. Eftir mikla leit spurði Gréta kurteisislega hvort þessi litur á skýjunum gæti nokkuð stafað af því að hún væri með sólgleraugu á nefinu og viti menn þar lá kötturinn grafinn.
Eftir margra klukkutíma keyrslu á mjög svo frumstæðum vegum komum við loksins í Masai Mara sem er einn frægasti þjóðgarður heims fyrir dýralíf sitt. Þar var okkur vísað að „tjöldunum“ okkar, Tjaldið okkar var útbúið tveim rúmum og stóru baðherbergi með klósetti og heitri sturtu. Eftir að allir höfðu komið sér fyrir fórum við að kanna garðinn. Þennan fyrsta dag sáum við meðal annars: margar tegundi antilópa, fíla, gíraffa, vísunda, sebrahesta, ljón og rúsínan í pylsuendanum þennan daginn var blettatígur upp í tré (en það þykir mjög óalgeng sjón).


Dagur 2:
Vöknuðum snemma og lögðum í hann. Þennan daginn sáum við fjöldan allan af dýrum, sem virtust hafa fjölgað sér um nóttina því þau voru út um allt. Bandarísku hjónin héldu sínu striki og spurningunum flæddi yfir bílstjórann góða. Á meðal spurninga þennan daginn var hvað Masai ættbálkurinn gerði við allan þennan fílaskít, hvort hann væri kannski notaður í eldsneyti (Masai fólkið notast ekki við neinar vélar). Eftir að bílstjórinn hafði svarað því neitandi spurði konan hvort þeir myndu að minnsti kosti ekki leggja hann sér til munns. Samlandi þeirra fórnaði bara höndum og hló hálf skömmustulega. Að mikilli keyrslu lokinni fengum við að teygja úr okkur og labba um í fylgd hermanns vopnuðum AK-47 riffli (sem hann sagði vera til að vernda okkur gegn villtum dýrum og mönnum, þar á meðal honum sjálfum ;)). Á þessu rölti varð á vegi okkar fjöldi flóðhesta sem lágu í leti á árbakkanum ásamt krókódílum.  Á leiðinni aftur að tjaldbúðum okkar sáum við þúsundir „Wildebeest“ og sebrahesta sem ferðast í gríðarlega stórum hópum suður til Tansaníu, en bílstjórinn okkar sagði að þau ferðuðust á hálfsárs fresti á milli Tansaníu og Kenýa eftir því hvar grasið er grænna. Deginum lauk með heimsókn í eitt af Masai þorpunum en þar tók á móti okkur sonur höfðingja þorpsins. Þeir byrjuðu á því að dansa fyrir okkur „velkomin“ dansinn sinn, Þorri vildi ólmur taka spor með þeim og fékk því teppi heimamanns ásamt kylfu og dansaði með þeim nokkur vel valin spor, einnig fékk hann að prófa að blása í horn sem þeir notuðu sem hljóðfæri. Að dansinum loknum skoðuðum við þorpið ásamt því að okkur var boðið í heimsókn í einn af kofunum þeirra sem þeir byggja úr beljuskít og trjágreinum (það tekur tvo mánuði að byggja hvern kofa en þeir endast bara í tíu ár vegna termíta, þá þarf að byggja nýtt þorp á nýjum fyrirfram ákveðnum stað). Kofarnir verða seint taldir til glæsihýsa, en þó nokkuð notalegir. Við innganginn var herbergi sem innihélt kyðlinga og kálf til að halda hita í húsinu, því næst gengum við inn í eldhúsið/stofuna/svefnherbergið en á miðju gólfinu var eldstæði (sem bæði er notað til hitunar og eldunar), einnig voru þarna þrír litlir svefnstaðir: hjónaherbergi, barnaherbergi og herbergi fyrir ömmuna og afann. Aðeins var einn lítill gluggi í húsinu (gert til að halda hita inni og moskító úti) og því hitinn og stækjan af eldinum nánast óbærileg. Vatnið sækja þeir sér í ánna, en þar þrífa þeir einnig bæði föt og fólk, tannbursti þeirra er síðan einhverskonar trjábörkur. Þorri endaði heimsóknina með því að kaupa af þeim hálsfesti með ljónstönn sem á að boða gæfu.

Dagur þrjú:
Dagurinn byrjaði óvenju snemma en klukkan tvö um nóttina byrjaði fjörið. Í tjaldbúðunum sér Masai ættbálkurinn um næturgæslu og eru þar á vaktinni menn vopnaðir kylfum sér og okkur til varnar ásamt því að vera með fjöldan allan af hundum sér til hjálpar. Um tvö leitið vöknum við upp við urrandi og geltandi hunda allt í kring um tjaldið okkar, þessu fylgdi síðan ljósgeysli frá vasaljósi gæslu mannanna, svona gekk þetta alla nóttina með örlitlum frið inn á milli. Í eitt skiptið hrukkum við svakalega upp við mikinn skell þegar eitthvert dýr hljóp á tjaldið okkar. Um fjögurleytið ómuðu svo bjöllurnar sem beljur ættbálksins bera um hálsinn ásamt ljúfum söng þorpsbúa sem voru að smala. Um morguninn var okkur tjáð að hundarnir væru líklega að gelta á hýenur sem vappa stundum í kring um tjaldbúðirnar.
Eftir fjöruga nótt fórum við á fætur klukkann sex og beint upp í bíl að keyra um garðinn. Mjög snemma barst til tíðinda en út undan okkur sáum við nokkur ljón, þegar betur var að gáð voru þau að gæða sér á sebrahest sem þau höfðu veitt sér til matar og hálsfestin strax búin að sanna sig sem lukkugripur því þessi sjón var ólýsanleg. Þarna voru tvær ljónynjur með nokkra unga hvor, 8-10 talsins, sem tættu í sig hræið og ungarnir léku sér. Það var ótrúlegt að fylgjast með þessu úr aðeins fimm metra fjarðlægð. Þegar allir höfðu lokið sér af reyndi önnur ljónynjan að færa hræið í runna svo hægt væri að klára steikina seinna, hún fékk þó litla hjálp frá ungunum sem vildu miklu frekar leika sér að matnum. Að þessu loknu tók við löng keyrsla að Lake Naivasha þar sem við sigldum um meðal flóðhesta, hinum ýmsu tegundum fugla (þ.á.m. arna og pelikana) og stórra spendýra sem lifðu við vatnið og við kunnum ekki skil á. Einnig fengum við að ganga um eyju á svæðinu meðal viltra gíraffa, sebrahesta og antilópa. Gullmoli dagsins var þegar bílstjórinn fékk þá undarlegu spurningu um það hvort beljuskítur væri ekki stór útflutningsvara í Kenýa. Þessa nóttina gistum við á mjög fínu hóteli og fengum mjög góðan kvöldmat.

Dagur 4:
Lögðum af stað til þjóðgarðsins Lake Nakuru klukkan hálf átta. Heimsóknin byrjaði ekki vænlega en slóttugir bavíanar reyndu mikið að komast inn í bílinn okkar ásamt því að elta Grétu sem hljóp öskrandi í burtu (náðist því miður ekki á myndband), þeir róuðust loksins eftir að við gáfum þeim sleikjó sem þeir smjöttuðu á hamingjusamir. Við Lake Nakuru sáum við mikið fuglalíf (t.d. pelíkana og flamingo), sebrahesta, vatnavísunda og bavíana. Toppurinn þennan daginn var þó klárlega þegar við sáum nokkra nashyrninga, þeir voru því miður allir í mikilli fjarðlægð en nashyrningar engu að síður. Einnig sáum við litríka apa sem bílstjórinn sagði okkur að væru mjög sjaldgæf sýn því þeir væru í útrýmingahættu. Að þessu loknu lá leið okkar aftur í Nairobi þar sem við enduðum daginn á að fara út að borða með kínverjunum tveim og bandaríska stráknum. Bandaríski strákurinn og annar kínverjinn ákváðu að velja bara eitthvað á matseðlinum en það fór ekki betur en svo að þjónustustúlkan kom með innyfli úr geit. Við hin vorum hins vegar svo svöng að við vildum ekki taka neina áhættu með matinn þetta kvöldið. Eftir mat vorum við dauðþreytt og drifum okkur á hótelið, við vonuðumst eftir að geta loksins sofið almennilega því nýja herbergið okkar snéri ekki að götunni eins og áður. Við fengum ósk okkar ekki uppfyllta því þetta var enn ein andvökunóttin. Þegar við mættum upp á hótel virtist vera í gangi gospelmessa, það var sungið hástöfum og höndum klappað, við sofnuðum þó á endanum en ætli messan hafi ekki enst til svona fjögur. Loksins hætti tónlistin en við tók ekkert betra þegar ofsatrúarfólkið í blokkinni á móti setti í botn einhverskonar heilunarathöfn þar sem presturinn öskraði af öllum lífsins sálarkröftum og ákallaði Jesú krist í von um að hann hjálpaði þessum glötuðu sálum. Þessi öskur stóðu frá sirka 5-8. Hótelstjórinn var sammála okkur um að þetta væri nú ekki alveg að gera sig og sagðist ekkert skilja í þessu fólki því hann hafði haldið að þau væru að byðja til sama Guðs og hann en hann hefði greinilega skrópað í kristnifræðitímann þar sem kennt var um heyrnarleysi Guðs.
Í gær var ferðinni haldið til Mombasa sem var næturstopp okkar á leið til Lamu. Rútan sem við ferðuðumst með minnti helst á flugvél (þó ekki jafn hraðskreið) því þar voru rútufreyjur og þjónar og boðið var upp á veitingar ásamt bíómyndum, bandarískum í þetta skiptið (ágætis tilbreyting frá arabíska barnaefninu sem við fengum að njóta í fluginu til Kenýa). Það er allt annað að ferðast með Kenýubúum en Egyptum því í stað þess að öskra og skammast í hvor öðrum er brosað og spjallað. Kenýubúar virðast vera mjög rólegt og afslappað fólk, mjög vingjarnlegt og allir til í að hjálpa manni án þess þó að byðja um greiðslu fyrir.
Við ákváðum að við nenntum ekki að fara beina leið til Lamu til að losna við enn eina langferðina með rútu, því ákváðum við að fara frekar til Malindi og eyða þar einum til tveim dögum áður en við héldum áfram til Lamu. Þegar í rútuna var komið breyttist ferðaplanið eftir að starfsmaður rútufyrirtækisins spurði áhyggjufullur hvort við værum nokkuð á leiðinni til Lamu. Þegar við sögðum honum að við ætluðum bara til Malindi í dag sagði hann að það væri eins gott því hvítir menn væru ekki öruggir á Lamu (lítil eyja nálægt landamærum Sómalíu) vegna þess að þessa dagana væri mikið sport hjá Sómölskum sjóræningjum að ræna hvítu fólki (og drepa ef greiðsla berst ekki) af ströndum eyjunnar. Við litum á hvort annað og orð voru óþörf, við ætlum að snúa við og halda suður! Þar sem við höfðum nú þegar borgað miðann til Malindi (sem er í leiðinni til Lamu) var ekki aftur snúið og hingað erum við komin. Við röltum um bæinn í leit af ströndinni, á leiðinni fengum við okkur að borða, ís í búðinni og bjór á barnum. Umræðuefnið yfir bjórnum var hversu mikið við höfðum spreðað í dag en eftir að hafa farið yfir spreðið komumst við hinsvegar að því að við höfðum aðeins „spreðað“ undir 1.000 kr. Þegar við loksins fundum ströndina var sólin farin, ásamt fólkinu en á móti okkur tóku fjórir leiðindapésar sem ólmir vildu selja okkur rándýrar köfunarferðir og til að suða aur. Svo ætluðum við að ná smá tíma í næði eftir fjörið á ströndinni og fórum út að borða á local stað. Það gekk ekki betur en svo að við borðið hjá okkur settist kona með barnið sitt (við kipptum okkur ekkert upp við þetta, þar sem það virðist vera siður hér að setjast bara við borðið þó svo að einhver sé þar fyrir). Þegar við vorum að klára síðustu kjúklingabitana segir konan allt í einu: „Strákurinn vill kjúkling“ við gáfum honum því síðasta bitann en reyndar át mamman allt frá honum, síðan stóð hún upp og labbaði upp í næstu rútu. Þarna sátum við allt í einu tvö með tveggja ára strák hágrátandi og kallandi á mömmu sína og þetta leit helst út eins og við hefðum rænt honum. Eftir þó nokkra stund kom mamman aftur, setti símann sinn í hleðslu og betlaði restina af afgöngunum okkar. Mæður okkar geta verið stoltar af okkur núna, því eins og þær kenndu okkur á maður alltaf að hugsa um svöngu börnin í Afríku áður en maður leyfir matnum sínum, í þetta skiptið tókum við þetta bókstaflega og leifðum litla stráknum að naga kjötið af beinunum (það litla sem var eftir), greyið virtist ekki hafa borðað neitt heillengi en mamman passaði sig þó á því að hún fengi sinn skammt og gott betur. Við höfðum nú þegar vanist betlandi hundum, köttum og flugum allt í kring um matarborðið en þetta er nýtt fyrir okkur.
Á morgun ætlum við bara að taka því rólega og jafnvel kíkja á ströndina ef við finnum kraft til að takast á við hrægammana sem bíða okkar þar með búðirnar sínar og allskyns gylliboð.

Við setjum inn myndir og jafnvel myndbönd frá safaríinu á facebook-ið hennar Grétu um leið og tími og net leyfir.

18 ummæli:

  1. Takk fyrir skemmtilega ferðasögu. Þetta eru ótrúleg ævintýri sem þið ratið í og gott að þið eruð farin að vara ykkur á svindlurunum sem greinilega er nóg af. Passið vel hvort annað og njótið daganna. Hlakka til að sjá myndirnar á facebook hjá KG Bestu kveðjur frá ömmu og afa Blönduósi.

    SvaraEyða
  2. Amerísku hjónin hljóma kunnuglega. Ég heyrði einu sinni af amerískri konu í Austuríki sem hrópaði upp yfir sig þegar hún sá fjallageit skoppa um í fjallshlíðunum "oh look, there's a kangaroo"... er ekki viss um að hún hafi vitað hvar hún var stödd í heiminum - Austria eða Austalia ;o)
    Gaman að sjá myndirnar frá Kenýa. Njótið ferðarinnar! Kv. Dóra Margrét

    SvaraEyða
  3. Mikið er gaman að lesa bloggið ykkar og margir búnir að spyrja mig eftir ykkur. Flottar myndir líka og hlakka til að sjá fleiri. Bestu kveðjur til ykkar frá okkur pabba....þið haldið áfram að passa hvort annað:-)

    SvaraEyða
  4. Elsku ferðalangar!
    Þetta var stórkostleg frásögn- ég sá ykkur alveg fyrir mér í þjóðgarðinum. Þið í miðju ævintýrinu.
    En mikið er ég fegin að þið fóruð ekki til Lamu og mömmurnar verða kátar að heyra hvað uppeldið hefur heppnast vel "svöngu börnin í Afríku" hefur nú oft verið notað.
    Gangi ykkur vel - og vonandi halda ævintýrin áfram að elta ykkur.
    Við afinn og amman setjumst fyrir framan tölvuna eins og við séum í bíói þegar bloggið ykkar kemnur!!
    Kveðjur
    afi og amma

    SvaraEyða
  5. Hvað þýðir Hakunamatata??
    amma

    SvaraEyða
  6. Hakunamatata þýðir engar áhyggjur :)

    SvaraEyða
  7. Alltaf gaman að lesa bloggið ykkar er svo stolt af ykkur

    SvaraEyða
  8. Helga Gunnarsdóttir7. október 2011 kl. 15:20

    Þetta er æðislegt blogg! Augljóst að þið hafið heldur betur verið að gera nýja hluti. Ekki skemmir að sjá allt þetta skemmtilega dýralíf sem maður sér venjulega ekki. Ég er mjög fegin að þið farið ekki til Lamu því það hljómaði hræðilegur staður! Og gott að þið hlustuðuð á mæður ykkar og gáfuð svanga barninu og móður þess að borða :) Held samt að tíminn sem mannan fór hafi verið hræðilegur... Ég vona að þið hafið það sem allra best elskurnar mínar og hlakka mikið til að lesa næsta blogg frá ykkur.

    Knús og kram til ykkar og Kenýa
    Helga Gunn

    SvaraEyða
  9. Helga Gunnarsdóttir7. október 2011 kl. 15:21

    Þetta átti að vera mamman ekki mannan ;)

    SvaraEyða
  10. Flottar myndir og skemmtileg lesning :)

    SvaraEyða
  11. Flott blogg :) en náðuð þið ljónsunga handa okkur?

    kv Inga og Heimir

    SvaraEyða
  12. Við náðum í ljónsunga en þið þurfið að redda honum sebrahest að éta ;)

    SvaraEyða
  13. Rosalega gaman að fá að fylgjast svona með. Svaka upplifun í gangi þarna. Hlakka til að sjá videoið ;D
    KV. Inga :)

    SvaraEyða
  14. Vá þetta er alveg ævintýri líkast, bara eins og að horfa á animal planet þegar maður sér þessar myndir! Ótrúlega gaman að heyra frá Safarí-ferðinni ykkar, ágætt að það eru menn með byssur að gæta fólksins ;) Passið ykkur á sjóræningjum og öðrum vitleysingum!

    SvaraEyða
  15. Svaka flottar myndir :) Alltaf jafn gaman að lesa bloggið hjá ykkur ;) kv Bjarni

    SvaraEyða
  16. Hæ, hæ.
    Það hefur greinilega verið mikið ævintýri að sjá öll villtu dýrin.
    Á að heimsækja Fanneyju ?

    Kv
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  17. Hallo, takk fyrir gott blogg og geggjadar myndir. Mikid langar mig i safari :)
    Bestu kvedjur fra Vietnam, Inga Heida

    SvaraEyða
  18. Þetta er svo vel og skemmtilega skrifað hjá ykkur að maður lifir sig inn í aðstæður :)
    Passið vel upp á hvort annað!
    Bestu kveðjur,
    Sigurlaug Ragnarsd.

    SvaraEyða