fimmtudagur, 13. október 2011

Jambo, lookie lookie


Föstudaginn tókum við rólega og gerðum sem minnst, nauðsynlegt að taka svoleiðis daga inn á milli, eftir áreitið á ströndinni daginn áður ákváðum við að nenna ekki að fara þangað aftur því þessir sölumenn geta verið algjörar orkusugur. Við erum aðeins að reyna að fikra okkur áfram í matnum hérna en það gengur frekar hægt þar sem matseðlarnir eru yfirleitt frekar einhæfir og stendur valið oftast á milli einhverra geita- eða nautalíffæra, kjötstöppu eða kjúklings  og það kannski segir sig sjálft að kjúklingur, eða kuku eins og það er kallað hér, verður nær alltaf fyrir valinu og erum við orðin svona „örlítið“ leið á því. Núna erum við bæði búin að smakka egypska og kenýska pizzu (sem var eiginlega nokkurskonar eggjakaka með hakki á milli) en stigin standa 1-1 þar sem Þorra fannst sú egypska betri en Grétu sú kenýska. Maturinn hérna er samt hlægilega ódýr þar sem maður er að fá stórar máltíðir fyrir tvo með drykkjum á undir 700 kr. Ástæðan fyrir því er nú líklega sú að við höfum verið mjög dugleg að lifa í nálægð við heimamenn og forðast allt sem kalla mætti ferðamannasvæði, þannig gistum við á ódýrustu hótelunum sem aðeins heimamenn láta bjóða sér upp á langt frá ferðamannalúxusnum, ferðumst eins og heimamenn með enga loftkælingu í litlum bílum sem eru yfirfullir af fólki. Matsölustaðirnir sem við sækjum eru vanalega litlir götumatsölustaðir með plastgarðhúsgögnum fyrir innan og er hreinlæti þessarra matsölustaða og gistihúsa eftir því en hvað eru einn eða tveir kakkalakkar á milli vina. Við höfum mjög gaman af þessum ferðamáta og söknum ferðamannanna og þeirra lúxus ekki neitt.
Laugardagurinn var síðan tekinn snemma að vanda og drifið sig á rútustöðina, þetta var þó ekki meiri rútustöð en það að okkur var skutlað að gatnamótum þar sem hópuðust að okkur fjöldi fólks sem allir vildu fá okkur í hópferðabílinn sinn og gilti þarna greinilega að hlaupa, öskra sem hæst og flauta sem mest til að ná athygli okkar. Á endanum létum við undan og fengum okkur sæti aftast í einum bílanna sem var á leiðinni til Mombasa. Ferðin til Mombasa var mjög skemmtileg en þarna sátum við tvö hvít inní hópferðabíl fullum af heimamönnum með útvarpið í botni og nutum hressrar og skemmtilegrar kenýskrar tónlistar og fylgdumst með lífinu út um gluggann. Þar mátti t.d. sjá menn draga vagnana sem maður var vanur að sjá egypsku asnana draga fulla af hinum ýmsu vörum, þar voru verkamenn við störf, endalaust af götumörkuðum svo ekki sé talað um öll litlu þorpin útbúin strákofum og bárujárnskofum þar sem konurnar sinntu heimilisstörfunum fyrir utan. Einnig voru þarna fjöldinn allur af sláturhúsum og virðist vera hægt að troða sláturhúsum allsstaðar, þarna voru barir með sláturhúsi, veitingarhús með sláturhúsi og svo auðvitað hin ómissandi hótel með sláturhúsi. Í stemningunni frá útvarpinu með hressu lögin og útvarpsmennina að reyta af sér brandarana á Swahili og útsýnið út um gluggann var ekki annað hægt en að brosa út að eyrum eins og heimamenn sem virðast vera hver öðrum glaðlyndari. Þegar við síðan komum til Mombasa tókum við tuktuk að ferju sem flutti okkur yfir flóann (þangað sem fjöldi bíla fer til Diani beach en þangað lá leið okkar þennan daginn). Okkur leið helst eins og rollum á leið til slátrunar því við þurftum að byrja á því að standa í kássu ásamt hundruðum manna sem ýttu á hvorn annann. Þegar ferjan loksins lagðist að bryggju opnaðist hliðið fyrir framan okkur og fólk byrjaði að hlaupa í átt að ferjunni, við flutum með og höfðum okkur öll við til að verða ekki undir. Sem betur fer var ferðin stutt og ferjan tæmdist jafn fljótt og hún hafði fyllst og var síðan lögð af stað í næstu ferð áður en við vissum af. Þá tók við sama brjálæði og áður við að koma okkur í hópferðabíl á réttan stað, þessi bíll var svo troðfullur að einn farþeginn hékk hálfur út um bílinn með galopna rennihurðina mest alla leiðina. Loksins komumst við á áfangastað og fundum mjög fínt gistihús (innifalið í verðinu voru tvö gæludýr: kakkalakki, sem reyndar er ekki á meðal oss lengur og lítil eðla sem tekur að sér að halda öðrum skordýrunum í burtu) og urðum við strax ástfangin af staðnum, meira að segja áður en við höfðum svo mikið sem séð ströndina.
Á mánudeginum fórum við síðan á ströndina með matatu (litlir hópferðabílar sem eru út um allt) og við eignuðumst fullt af vinum á leiðinni og á ströndinni, það vildi svo skemmtilega til að þeir áttu allir búðir við ströndina, ótrúlegt. Þetta var virkilega falleg strönd sem liggur við Indlandshaf, sandurinn var svo fínn að maður sökk upp að kálfa við hvert skref. Á ströndinni fundum við skipstjóra sem talaði okkur í að fara á bát með glerbotni svo hægt er að fylgjast með dýralífinu í kórulunum fyrir neðan. Að vísu var ekki hægt að fara þennann daginn vegna öldugangs og pöntuðum við því ferð daginn eftir og keyptum af honum allskonar muni í staðinn. Á leiðinni til baka hittum við síðan mann sem vildi endilega fá okkur til að kíkja í búðina sína og eftir að við höfðum sagt honum að við værum ekki með neinn pening var hann fljótur til og sagði að það væri allt í lagi, benti á Þorra og sagði að hann hliti að eiga sokka því sokkar kosta jú peninga og var hann meira en til í 
Api i gipsi

að skipta á sokkapari og einhverjum munum úr búðinni sinni. Þorri var því miður ekki í sokkum og lofaði honum að koma með par af sokkum næsta dag til að skipta við hann, var hann mjög ánægður með það og lét okkur fá nafnspjaldið sitt (sem reyndar var handskrifað á blað frá hverfisapótekinu). Fyrr um daginn höfðum við fengið tilboð um að skipta á flip flop skónum okkar og vörum en sáum fram á erfiða leið heim skólaus og höfnuðum því þessu ágæta boði. Það er greinilegt að við þurfum að byrgja okkur upp af allskonar varningi  svo við séum samkeppnishæf. Um kvöldið fórum við síðan út að borða á stað sem kallar sig „fast food“ en við höfum aldrei beðið undir klukkutíma eftir matnum þar, það á að vísu við um alla matsölustaði hér í landi og virðist lífið hér oft vera í slow motion og enginn að stressa sig yfir því að bíða í klukkutíma eftir ristuðu brauði og hrærðu eggi. Á meðan við bíðum eftir matnum kemur hver götusölumaðurinn á fætur öðrum með allskonar drasl, allt frá gardínustöngum upp í kommóður og stór vegglandakort. Á þessum matsölustöðum er hið ótrúlegasta samansafn af fólki, við höfum lennt í því oftar en einusinni að menn taka sig til og byrja að dansa á milli borðanna með miklum töktum, ber þar helst að nefna heimamann sem var búinn að lita á sig hvítt skegg, augabrúnir og hár sem „moonwalk-aði“ t.d. á milli borða (náðum honum á myndband). Þeir eru samt ekki að biðja um pening heldur gera þeir þetta sér og öðrum til skemmtunar.
Á þriðjudaginn vöknuðum við spennt og tilbúin í bátsferðina vopnuð sokkapari í töskunni, gleðin stóð því miður ekki lengi því það var hellidemba úti og skipstjórinn hafði sagt að það væri ekki hægt að fara í rigningu. Við fórum því ekkert niður á strönd og hittum þess vegna ekki sokkavin okkar. Við vorum hins vegar staðráðin í því að láta þetta ekki eyðileggja daginn fyrir okkur og fórum í staðinn á Colobus trust sem stofnað var til að bjarga Colobus apategundinni sem er í útrýmingahættu hér í Kenýa. Þar er unnið mikið gott starf t.d. setja þeir brýr yfir umferðagötur svo aparnir komist öruggir yfir, klippa greinar sem liggja við rafmagnsstaura, fjarðlægja gildrur sem þeir festast í og fræða börn um að ekki sé sniðugt að kasta gróti í apana, sem þau eru gjörn á að gera. Einnig taka þau við öpum sem hafa verið haldið sem gæludýr og hjálpa  þeim að spjara sig í náttúrunni aftur, svo eru þau með dýralæknastofu og sáum við einn apa í gipsi sem hafði handleggsbrotnað. Rigninginn hafði að vísu sitt að segja í þessari heimsókn líka því við sáum ekki einn einasta Colobus apa því þeim er, eins og okkur, ekkert sérstaklega vel við rigninguna og voru því allir í felum einhversstaðar, en við fengum þó að sjá nokkra apa í búrum sem ekki voru tilbúnir í að vera hleypt út í nátturuna strax og við gáfum pening í mjög gott málefni, við vorum því nokkuð sátt með heimsóknina.

Masai madur ad tala i gsm sima

Það getur verið mjög skondið að rölta um bæina hérna þegar inn á milli birtast allt í einu menn frá  ættbálkunum þar sem þeir skera sig mjög úr í rauðu teppunum sínum, dekkjaskónum og með kylfu sem þeir hafa alltaf með sér (notuð til að verjst villidýrum). Við erum alveg fallin fyrir Kenýa enda ekki annað hægt þar sem allir eru svo afslappaðir og kátir, fólkið alltaf syngjandi og dansandi, ekki einu sinni höfum við séð fólk rífast eða æsa sig. Þó svo að okkur líki svona vel við Kenýa ákváðum við þó að kíkja í heimsókn til nágranna þeirra í Tanzaníu.
Gærdagurinn fór allur í keyrslu, við mættum snemma á rútustoppið, við þurftum að bíða eftir rútunni í um klukkutíma í mígandi rigningu, íslenska rigningin er bara smá úði miðað við þetta. Á meðan við biðum fylgdumst við með krökkunum á leið í skólann og var sorglegt að sjá útbúnaðinn á flestum þeirra, stór hluti þeirra gegnu um á tánum með plastpoka fyrir skólatösku. Sáum bara tvo foreldra sem fylgdu börnum sínum í skólann og héldu þeim þurrum með regnhlíf, hinir höfðu enga vörn gegn rigninguni og voru á floti. Okkur var sagt að ferðin til Dar es Salaam í Tanzaníu tæki átta klukkutíma en það drógst örlítið þar sem hún lengdist um 6 klukkutíma en svona ganga hlutirnir bara fyrir sig hér í Afríkunni og enginn að kippa sér neitt sérstaklega upp við það. Eftir að við fórum í gegn um landamæri Tanzaníu versnaði vegurinn til muna en hann var lokaður meirihluta leiðarinnar og keyrðum við í staðinn meðfram honum í drullusvaði eftir rigningu síðustu daga, vegurinn var mjög holóttur, svona svipað og maður myndi ímynda sér afríska vegi og rútan hljómaði eins og hún væri við það að gefast upp eða hrynja í sundur. Við keyrðum í gegnum fjöldan allan af þorpum á leiðinni og alltaf jafn gaman að fylgjast með þeim því þarna vorum við greynilega að fjarðlægjast  stórborgirnar en um 80% húsana sem við sáum á leiðinni voru byggð úr mykju og greinum, með stáþökum. Í einu þorpanna labbar maður út á miðjan veginn með hendina á lofti og stoppar rútuna, hann kemur inn og honum fylgja þrír aðrir óeinkennisklæddir menn með þrjá fanga í eftirdragi, tveir þeirra voru handjárnaðir saman en sá þriðji handjárnaður fyrir aftan bak. Þeir settust aftast í rútuna og byrjuðu strax með einhver læti, við skildum auðvitað ekkert hvað þeir voru að segja en allir aðrir í rútuni litu skelkaðir á þá. Rútan stoppaði við fangelsi  eftir að hafa haft fangana innanborðs í nokkra klukkutíma, einn fanganna stoppaði svo við sætin okkar og reyndi að betla pening svo hann gæti verslað í 
Thad ma lengi troda i matatu-ana
fangelsinu og sagði okkur að hann hafði gert slæma hluti sem urðu til þess að hann hlaut lífstíðarfangelsisdóm. Í þessari 14 tíma rútuferð var aðeins eitt stopp sem við gátum staðið upp og teygt úr okkur, í þessu stoppi fylltist hins vegar rútan sem varð til þess að við þurftum að sitja með töskurnar okkar það sem eftir lifði leiðarinnar (í átta tíma). Loksins komumst við á leiðarenda og fundum sæmilegt gistiheimili. 
Í dag ætlum við að skoða okkur um hér í Dar es Salaam og á morgun ætlum við að taka ferju yfir til eyjunnar Zanzibar


Gerðum myndband úr safaríinu, fyrir þá sem ekki hafa séð það er linkur inná það HÉR
..og myndir þaðan HÉR

Við viljum líka benda á að fyrir neðan hvert blogg er hægt að sjá staðsetninguna okkar og ef þið ýtið á það opnast kort.

Svo má fólk endilega vera duglegra að skrfa comment eftir bloggin okkar því það er stór þáttur í því að við nennum að blogga, að vita að fólk er að fylgjast með :)

22 ummæli:

  1. Jæja loksins. Gaman að lesa nýtt blogg, Gott að menn eru hressir þarna í afríku. Hver hefði trúað því að Þorri myndi græða á táfýlusokkunum sínum. Annars bíð ég spenntur eftir að sjá myndband af moonwalk gæjanum :) Annars bið ég að heilsa Kunta Kinta, er hann ekki þarna einhverstaðar?

    SvaraEyða
  2. Helga Gunnarsdóttir13. október 2011 kl. 14:28

    Sammála Val, það var gaman að lesa þetta nýja blogg :) Ég þarf greinilega að bregða mér til Kenýa þar sem hægt er að versla fyrir sokka ;) Hljómar líka land að mínu skapi, brosandi, syngjandi og dansandi fólk! Hlít að hafa verið Kenýabúi í fyrra lífi ;)
    Leiðinlegt að þið komust ekki á bátinn með glergólfinu, vonandi komist þið á hann eða einhvern svipaðan seinna í þessu ævintýri ykkar.
    Undarlegt að nota rútur til þess að flytja fanga í fangelsi, hefði haldið að það væri hættu minna að flytja þá með sér bílum... Greinilegt að fólkið í Afríku hugsar öðruvísi.
    Hlakka mikið til að lesa næsta blogg hjá ykkur.
    Knús og kram
    Helga

    SvaraEyða
  3. Greta Björg Lárusdóttir13. október 2011 kl. 14:29

    Jæja er ekki best að kvitta eftir lesturinn :) Búin að fylgjast með ferðasögunni og hafa þvíklíkt gaman af, greinilega mikið ævintýri.
    Takk fyrir skemmtilegt blogg :)

    SvaraEyða
  4. Gott að heyra frá ykkur og alltaf jafn gaman að lesa um ævintýrin ykkar. Bestu kveðjur að heiman. Mamma
    PS: Mía er orðin ofdekruð og feit;-)

    SvaraEyða
  5. Gaman að heyra frá ykkur og lesa um þessi ótrúlegu ævintýri sem þið lendið í. Þetta er svo ólíkt því sem við eigum að venjast. Það sem þið lýsið hefur maður bara séð í sjónvarpi. Eftir að lesa um matinn sem þið borðið þarna, bíð ég ykkur hér með í sviðmessuna næsta haust og sé fram á að þurfa ekki oftar að kaupa pizzu handa Þorra.
    Passið vel hvort annað elskurnar mínar.
    Kveðja frá ömmu og afa Blönduósi.

    SvaraEyða
  6. Loksins koma nýjar fréttir frá ykkur ;) Þetta hljómar allt svo hrikalega spennandi! Ágætt að Kenýabúar eru rólegri í tíðinni en Egyptar.. það er líklega öruggara :) Já og ekki amalegt að geta verslað fyrir sokkapar hehe. Haldið áfram að hafa gaman en munið að fara varlega :)
    kv.Tinnsi

    SvaraEyða
  7. Alltaf janf upplífgandi í lærdómnum að lesa bloggin ykkar. Endalaust mikið af spennandi og skemmtilegum ævintýrum :-)
    Kveðjur frá vatninu
    Inga og Heimir

    SvaraEyða
  8. Endalaus skemmtun hjá ykkur og okkur að lesa bloggin frá ykkur. Þetta er greinilega bara skemmtilegt sem maður náttulega vissi að yrði.Þorri er greinilega orðin lífvanari og frjálsari, þegar hann var yngri var hann nú ekki tilbúin að fara úr blautu sokkunum í öðrum húsum. Bestu kveðjur úr bankanum Raddý

    SvaraEyða
  9. Ótrúlega krúttlegur api í gifsinu =) Alltaf gaman að lesa bloggin ykkar.

    SvaraEyða
  10. Alltaf jafn gaman að fylgjast með ævintýrunum ykkar og lifa drauminn í gegnum ykkur, Skemmtið ykkur fallega og lengi lifi diskóið :D

    SvaraEyða
  11. alltaf gaman að lesa bloggið ykkar haldið áfram að skemmta ykkur svona vel.

    SvaraEyða
  12. Elsku ferðalangar - gaman að lesa frá ykkur og gaman að heyra í ykkur á milli. Hvernig er svo Dar el Saalam og Zansibar? - Ótrúlegt að vera á þessum ævintýraslóðum. Hvernig er að standa í 8 tíma í rútu á holóttum vegi? Líklega eins gott að vera dálítið hraustur.-Voru ekki allir hættir að brosa eftir 14 tímana? - Samt er þetta spennandi saga1
    Haldið áfram að sjá alla spaugilegu hlutina.
    Kveðjur frá okkur afa

    SvaraEyða
  13. Er Jambo, lookie, lookie swahili?
    ..og þýðir???

    SvaraEyða
  14. Frábær pistill, mann langar bara að dansa haha - djók!
    Þarf svo að kíkja á videoið. Maður er bara í fullri vinnu að fylgjast með ferðabloggum vina og vandamanna ;)
    Sérðu póstinn þinn visir.is?
    kveðja og kossar frá okkur öllum
    Jóhanna og co

    SvaraEyða

  15. Alltaf jafn spennandi og skemmtilegt að fylgjast með framhaldssögunni ;o)
    Ég dáist að ykkur hvernig þið getið ferðast í þessum troðningi alltaf.Eg þyrfti pottþétt eitthvað róandi eða hreinlega svefnlyf til þess að geta setið í svona marga klukkutíma í þessum mannfjölda og ég tala nú ekki um að vera svo með einhverja geðveika fanga innanum alla stöppuna, ekki alveg að gera sig fyrir mig ;o)
    Þið eruð æði ;o)
    Bestu kveðjur
    mamma ;o)

    SvaraEyða
  16. Frábær pistill, rosa gaman að geta fylgst svona með og sett sig í spor ykkar. Vel skrifað og skemmtilegt :)

    Gangi ykkur vel áfram...

    kveðja, Jóna Fanney

    SvaraEyða
  17. Alltaf jafn gaman að lesa bloggið... Þið segjið svo skemmtilega frá :) Þetta er nú meiri rútan sem þið hafið verið í það hlítur að hafa verið svoldið erfitt að geta ekki fengið að tegja úr sér á svona löngum tíma.. Er það bara sjálfsagt mál að gríta steinum í apa :)
    Hlakka til að lesa næsta blogg:)
    kv. Bjarni Freyr

    SvaraEyða
  18. Hæ, hæ
    Gott hjá ykkur að kíkja til nágrannanna í Tansaníu.
    Hlakka til að sjá myndbandið.

    wako
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  19. Hæhæ :)
    Gaman að fatta það að gera skoðað staðsetninguna ykkar :P
    Alltaf gaman að lesa bloggið ykkar! :)

    Kv. Arnheiður

    SvaraEyða
  20. Gaman að fyljast með blogginu ykkar !

    SvaraEyða
  21. Elsku Gréta og Þorri,
    Takk innilega fyrir skemmtilega og spennandi ferðasögu Hlökkum til að heyra meira. óskum ykkur áframhaldandi velgengi í þessari spennandi ævinrýraferð. kær kveðja. Amma og afi Þykkvabæ.

    SvaraEyða