sunnudagur, 6. nóvember 2011

Sláturhús og útvíðar buxur

Þorri hitti frænku sína :)
Þegar við mættum á flugvöllinn í Qatar á laugardaginn var kom það í ljós að við værum hvergi skráð í kerfinu, vélin væri full og ekkert annað fyrir okkur að gera en að fara á biðlista fyrir flugið og kannski kæmumst við með ef einhver mætti ekki. Við vorum sallaróleg yfir þessu alveg þangað til starfsmaðurinn kom til okkar og sagði að allir hefðu skráð sig inn þannig að við kæmumst ekki með og ekki heldur daginn eftir þar sem það flug væri líka fullbókað. Við fórum því aftur uppá hótelið okkar og reyndum að hafa samband við ferðaskrifstofuna okkar sem bókaði miðana (flugfélagið sagði  að ferðaskrifstofan hefði afbókað okkur í flugið) en þar sem það var laugardagur var skrifstofan þeirra lokuð og opanði ekki aftur fyrr en á mánudaginn sem þýddi að vegna tímamismunar hefði hún opnað seint um mánudagskvöldið að okkar tíma og sáum við fram á að vera föst í Qatar að minnsta kosti til þriðjudags, þá var nú komið svolítið stress í okkur þar sem það væri mikill tími að missa í Indlandi þar sem tæpur mánuður er ekki mjög mikill tími fyrir svo stórt land og vorum við búin að bóka lestarmiða þar sem maður verður að bóka sig í lestar með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara.
Á sunnudagsmorgunn ákváðum við að taka málin í okkar hendur og fórum á aðalskrifstofur Qatar Airways þar sem þeir loksins viðurkenndu að þetta hafi verið þeirra mistök að skrá okkur úr fluginu en það væri allt fullt næstu daga þannig að þeir gátu ekkert gert fyrir okkur. Við sættum okkur ekki alveg við það og báðum hana um að tala við yfirmann sinn og eftir það gekk þetta allt eins og í sögu, eftir fjögurra tíma bið vorum við komin með miðana í hendurnar og fengum flug samdægurs.
Við lentum í Mumbai um miðja nótt, tókum leigubíl að einhverju hóteli sem við vonuðum að væri ekki fullt, heppnin var með okkur og við fengum herbergi.
Börn í Dharavi fátæktrahverfinu að leit að einhverju nytsamlegu
Daginn eftir sváfum við út, þegar við vöknuðum og opnuðum gluggann var útsýni yfir hafið og svo sáum við þarna líka Gateway of India, það var ekki eftir neinu að bíða þannig að við röltum um Colaba hverfið og skoðuðum það sem þar var að sjá. Gateway of India var mjög stórt og svakalega mikið af fólki allsstaðar í kring. Þræddum svo markaðina sem voru þarna meðfram götunum og fengum okkur geðveikan indverskan mat.
Gandhi sjálfur
Á þriðjudeginum ákváðum við fá okkur einkabílstjóra til að þræða borgina og helstu staðina því það er svo langt á milli allra staða hérna. Við byrjuðum á að labba aðeins um Dharavi hverfið sem er stærsta fátæktrahverfi Indlands en þarna var Slumdog Millioner tekin upp og sýndi bílstjórinn okkur staðina. Það er alveg ótrúlegt við hvernig aðstæður sumt fólk býr við og öll börnin í ruslagámunum að leita sér að mat eða plasti. Eftir að hafa labbað þarna aðeins um fórum við í húsið þar sem Gandhi bjó á meðan hann var í Mumbai en þetta er núna rosalega flott safn um ævi hans. Því næst var ferðinni heitið að risastóru þvottasvæði en þar var fjöldinn allur af risastórum körum full af vatni og stóð fólk upp á körunum og hrærði í þvottinum með priki. Síðan fór bílstjórinn með okkur í Hanging Garden almenningsgarðinn sem er mjög fallegur garður með flottu útsýni yfir borgina. Dagurinn endaði síðan á því að skoða Gateway of India aftur, í þetta skiptið tókum við okkur betri tíma og fórum nær en við höfðum gert daginn áður. Umferðin í Indlandi minnir nokkuð á brjálæðið í Egyptalandi en hún er nokkuð hægari hér og því aðeins auðveldara að komast um fótgangandi. Í bílferðinni gátum við síðan aðeins fylgst með mannlífinu út um gluggan en það var nokkuð spes, hérna ganga margir krakkar um buxnalausir og gera þarfir sínar bara á götuna eins og ekkert sé sjálfsagðara, beljur og geitur ganga lausar um göturnar og sofandi fólk á gangstéttunum.
Þorri við Gateway of India

Miðvikudagurinn fór allur í lestarstöðvar og lestarferð. Mættum á lestarstöðina upp úr hádegi og sáum að lestinni okkar seinkaði, við ákváðum þá að nýta tímann og panta næstu lestarferð en eftir tveggja tíma biðröð fengum við að vita að sú lest væri full (auðvitað.. bjartsýn!), eitthvað sem við munum líklega heyra oft í þessu landi. Loksins kom lestin okkar og ferðin til Aurangabad gat hafist en hún tók um 7 tíma og ótrúlegt en satt þá er akkúrat ekkert að segja frá þessari ferð. Í Aurangabad hittum við hressann kall sem vildi ólmur labba með okkur á milli gistiheimila og hjálpa okkur að finna rétta kostinn, hann ljómaði allur þegar hann komst að því að Þorri væri að læra sálfræði og sagðist hafa lært sálfræði í mörg ár, þegar við spurðum hann afhverju hann væri þá að labba um göturnar og hjálpa ferðamönnum í leit af hótelum sagðist hann aldrei hafa fengið að vinna við það sem hann væri menntaður í vegna spillingar stjórnvalda og engin gæti unnið nema hann ætti áhrifamikla vini eða gæti borgað háar upphæðir til að fá að vinna. Hótelið sem við völdum leit ágætlega út í fyrstu, þetta virtist vera þetta venjulega óhreina herbergi sem við erum svo vön með grjóthörðu rúmi og pínulitlum hörðum kodda, þarna var reyndar heit sturta og sjónvarp, þvílíkur lúxus. Eftir að við höfðum verið í herberginu í dágóða stund og komið okkur fyrir í hörðu beddunum í sillkinu með peysur fyrir kodda fórum við hins vegar að sjá nýja hlið á þessu hótelherbergi. Okkur var litið á veggina í kring um rúmin okkar  en þarna lágum við umvafin storknuðum blóðslettum sem höfðu lekið niður alla veggi, bæði á veggnum fyrir ofan rúmin en einnig á veggnum á móti rúminu sem var í ágætis fjarðlægð, það var því ljóst að eitthvað rosalegt hafði gengið á í þessu herbergi. Við nánari athugun sáum við að það voru líka blóðslettur á hurðinni. Við litum hvort á annað og ímyndunaraflið tók völdin, við komum upp með hinar ýmsu kenningar um hvað hefði gerst og nýttum alla okkar reynslu frá því að hafa horft á C.S.I. og Dexter í mörg ár. Þegar við spurðumst fyrir um hvað hefði eininglega gerst vildu eigendurnir  ekki segja okkur sannleikann,
Indverskur morgunverður
þeir þóttust ekki skilja okkur en sögðu síðan að þetta væri bara málning, sem gegnur ekki alveg upp því það var ekkert í herberginu málað rautt og engin er svona mikill klaufi með pensilinn. Stóru skiltin frá Kenýa um „Hotel and Butchery“ fengu nýja merkingu í okkar huga, þetta var hið eina sanna hótel með sláturhúsi.
Eftir svefnlitla nótt fórum við að hellum sem heita Ellora, þetta eru hof sem byggð voru inní kletta. Þeir voru fimm aldir í byggingu en þeir byrjuðu að byggja þá um 600 eftir krist. Þetta var rosalega stórt og flott enda á heimsmynjaskráinni. Þar sem að við nenntum ekki þennan morguninn að pakka saman og finna nýtt hótel áður en við fórum í hellaskoðunina neyddumst við að eyða annarri nótt í sláturhúsinu.
Næsti morgunn fór allur í það að reyna að redda okkur rútumiðum, það gekk hálf brösulega enda er lesta- og rútukerfið í landinu svo gríðalega stórt og flókið að það er ekki fyrir alla að skilja en auðvitað tókst þetta allt saman á endanum.
Eitt af mörgum hofum í Ellora

Eftir hádegið fórum við að skoða fleiri hof sem einnig voru byggð inní kletta nema að þessir voru byggðir miklu fyrr. Þessir voru líka rosalega flottir og er alveg ótrúlegt að hugsa til þess hvernig það var mögulegt að byggja þetta á þessum tímum. Þessi hof gáfu veggjakroti fornegypta ekkert eftir. Okkur leið mjög skringilega í þessum hellaskoðunum því heimamenn komu fram við okkur eins og Hollywood stjörnur, við vorum stoppuð við flesta hellana af fólki sem vildi ólmt fá að taka myndir af sér með okkur (og þá aðallega Grétu). Þegar einn byrjaði að taka myndir af sér með hvíta fólkinu hópuðust fleiri að og oftar en einu sinni var Gréta umkringd af æstum miðaldra karlmönnum sem biðu í biðröðum eftir að láta taka mynd af sér haldandi í höndina á Grétu eins og hún væri sjálfur Bandaríkjaforseti, einn karl meira að segja rétti Þorra myndavélina og lét hann taka mynd af Grétu með fjölskyldunni. Börnin voru líka rosa spennt og fékk Gréta stóran koss frá einni stelpunni. Þorri fékk þó líka sínar 15 mínútur af frægð og sumir sem vildu einnig ná honum með í fjölskyldualbúmið, fengum við síðan miklar þakkir fyrir. Það væri fyndið ef við Íslendingar stoppuðum Indverja á gangi á Ingólfstorgi og bæðum um mynd af sér með honum, við erum ekki frá því að það væri kallað fordómar af einhverjum, við höfðum þó bara gaman af þessu og settum upp stórt bros. Þarna var líka mikið dýralíf og þá sérstaklega mikið um apa sem léku sér í trjánum og reyndu sitt besta til að stelast í matinn hjá fólkinu, spurning hvort vakti meiri athygli hvíta fólkið eða aparnir, ég held að við höfum haft vinninginn. Aparnir voru ekki jafn liðlegir að láta taka mynd af sér og við hvíta fólkið og sýndi einn apinn Þorra tennurnar og urraði þegar hann rak sig óvart í skottið á honum. Þarna voru líka mikið af íkornum og skrautlegum páfagaukum. Að hellaskoðun lokinni fundum við rútu til Jalgaon, þessari rútuferð gleymum við líklega seint, það var komið myrkur og bílstjórinn slökkti öll ljós í rútunni og því sáum við lítið sem ekkert, við sátum aftast í rútunni og sáum því ekki heldur út um framrúðuna, kannski sem betur fer því á þriggja mínúta fresti nelgdi bílstjórinn niður og rykti rútunni út í kannt, með háuljósin á bílnum á móti í andlitinu. Við þurftum líka oft að negla niður svo við myndum ekki keyra aftan á vagna sem dregnir voru áfram af beljum, beljurnar eru jú ljóslausar og því sá bílstjórinn þær frekar seint og þurfti oft að nauðhemla. Við komumst þó á leiðarenda og vorum mjög fegin þegar við stigum út úr rútunni á lífi en með auma rassa. Í rútunni kom til okkar maður í einu stoppinu og spjallaði heillengi við okkur, honum fannst mjög spennandi að hitta fólk frá Íslandi. Þetta var ekki í fyrsta skiptið og enganvegin í það síðasta sem við lendum á spjalli við heimafólk, hér býr yndislegt fólk sem allir vilja spjalla við ferðamennina og eru mjög áhugasamir um það hvaðan maður kemur og hvað dregur mann til Indlands. Á meðan við biðum eftir mat um kvöldið buðu þrír karlar okkur að setjast hjá þeim og spjölluðu heillengi við okkur um allt milli himins og jarðar yfir viskyglasi. Þetta er mikill munur frá því sem við höfum vanist frá Afríku þar sem fólki er nokk sama um hver þú ert eða hvaðan þú kemur svo lengi sem hann getur grætt á þér. Helgin fór síðan í tvær langar rútuferðir, byrjuðum á 14 tíma næturrútu á aðfaranótt sunnudags með rúmum í stað sæta til Ahmedabad, þessi ferðamáti er gríðarlega kósý þar sem maður fær sitt pláss í nokkurskonar koju með glugga og tjaldi til að draga fyrir. Að sjálfsögðu var sjónvarp í „káetunni“ og Bollywood mynd stillt á hæsta styrkleika. Þarna ruggar maður fram og til baka og upp og niður, allt eftir því hvernig umferðin og vegurinn liggur. Gekk þessi ferð eins og í sögu og náðum við bæði ágætis svefn á milli hraðahindranna. Ahmedabad er ekki merkilegur bær og er þar ekkert að sjá, fyrir utan Subway sem var kærkomin sýn, þar sátum við heillengi í loftkælingunni og horfðum á bandarísku sjónvarpsstöðina þangað til næsta rúta lagði af stað. Við höfðum bókað á netinu 6 tíma rútu til Udaipur í norðvesturhluta landsins, þessi rúta átti líka að vera með rúmum og sáum við þau í hyllingum. Þegar við mættum á rútustöðina var okkur hins vegar sagt að það væru engin rúm í þessari rútu og við þyrftum að sætta okkur við að sitja en það væri nú ekki svo slæmt, þetta var nefnilega Volvo og hann ætlaði ekkert að rukka okkur
Gréta í einni af MÖRGUM myndatökunum
aukalega fyrir það (heppin við)!!  Nú erum við loksins komin á leiðarenda og ætlum að stoppa hér í þrjá daga og skoða þessa fallegu borg.
Indland er mjög stórt land og það sem þeir kalla lítinn bæ er fjórum sinnum fjölmennara en allt Ísland.
Karlatískan hérna er líka nokkuð áhugaverð og hefur hún greinilega staðið í stað síðan um 1970, brókaðar útvíðar glansbuxur og rósaskyrtur girtar ofaní er greinilega inn hér í landi, það er allavegana svona nettur diskófílingur í þessu. Konurnar eru samt alltaf jafn fallega klæddar, passa enganvegin við karlpeninginn, í sínum litskrúðuga klæðnaði með bert á milli.

Við ákváðum að setja inn nokkrar staðreyndir um Mumbai.

-Það búa 16,4 milljónir í Mumbai
-60% þeirra búa í fátæktrarhverfum
-Það búa 29.000 manns á hvern ferkílómeter
-Meðal árslaun eru um 1000 dollarar (um 114.000 kr.)
-Það eru 17 almenningsklósett á hverja milljón íbúa
-2.5 milljón manns fara í gegnum aðallestastöðina dag hvern
-Fjöldi Bollywoodmyna síðan 1931= 68.500
-Fjöldi fólks í lest sem tekur 1.800 manns á annatíma = 7.000

Sitjum núna upp á þakinu á gistiheimilinu okkar í Udaipur með bjór í hönd og horfum á bíó með flugeldasýningu í bakgrunninn, voða notalegt :)

15 ummæli:

  1. Takk fyrir skemmtilegt blogg :) Kveðja, Inga Heiða

    SvaraEyða
  2. úúú diskó fílingur. ég þangað :D
    Gaman að lesa, have fun!!

    SvaraEyða
  3. En æðislegt :O) komust þið að einhverri niðurstöðu með blóðsletturnar?? nýttist CSI reynslan eitthvað í þessu máli? :) Annars leist okkur asskoti vel á morgunmatinn á myndinni - sjúklega girnilegt :P

    Knús frá Laugarvatni
    Inga og Heimir

    SvaraEyða
  4. Hljómar kósý þar sem þið eruð og vonandi verður Indland gott við ykkur! Ég er samt að spá í að biðja einhvern um að taka mynd af mér með einhverjum útlending og sjá viðbrögðin haha=)

    SvaraEyða
  5. Ég er ekkert hissa á að þið vekið athygli eins fín og sæt og þið eruð;-) Gaman að lesa um Indlandsævintýrin ykkar...hlakka til að heyra meira. Þorri ertu ekki búinn að fjárfesta í buxum?
    Kveðja frá okkur öllum. Mamma.

    SvaraEyða
  6. Elsku Indland!! ;) Er öfundsjúk! En njótið ykkar í botn! :D
    kv. Fanney

    SvaraEyða
  7. Takk fyrir skemmtilega framhaldssögu. Hlýtur að vera upplifun að ganga um sömu slóðir og Slumdog Millioner var tekin. Við skiljum alveg áhugann á að fá að vera með ykkur á mynd jafn frábær og þið eruð. Haldið áfram að njóta daganna og passið hvort annað. Ástarkveðjur frá ömmu og afa á Blönduósi.

    SvaraEyða
  8. Mér líður næstum því eins og ég sé labbandi þarna með ykkur :P Ógeðslega spennandi og skemmtið ykku ótrúlega vel og hafið það gott :D

    kv. Sigurveig

    SvaraEyða
  9. Hæhæ..
    Þetta hljómar nú ekki vel með hótelið sem þið voruð á.. Vona að þið lendið ekki á fleirum svona hótelum :)
    Ég ætla að gera þetta næst þegar ég sé Indverja.. Láta taka mynd af mér með honum og hengja myndina svo upp á vegg:) hehe..
    Bíð spenntur eftir fleiri myndum frá ykkur:)
    Gangi ykkur vel...
    kv. Bjarni Freyr

    SvaraEyða
  10. Takk fyrir skemmtilega ferðasögu, Ekki skrítið að þið vekið athygli,þið berið höfuð og herðar yfir litlu Indverjana, (samanber mynd). Gangi ykkur æðislega vel áfram , bíðum spennt eftir framhaldi, kær kveðja ,Amma og afi Þykkvabæ.

    SvaraEyða
  11. Spennandi hjá ykkur. Er maturinn ekki sterkur ? Er maginn ekkert að stríða ykkur? Siggi vill vita hvort hægðirnar séu í lagi :)
    Hann fylgjist spenntur með ferðinni hjá ykkur í Indlandi en hann fór bæði um norður og suður Indland árið 2006.
    Knús
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  12. Elsku ferðalangar. Loksins! Var meira að segja farin að fara inn á feisbókina daglega til að gá að fréttum...
    Hrikalega fyndin rútuferðin með öllum snöggbremsunum - hlaut eitthvað að koma fyrst lestarferðin var viðburðasnauð! Eruð þið ekki á fjölmennum ferðamannastöðum? Láta Indverjar svona við alla ferðamenn sem hljóta að vera milljónir eða sjá þeir bara að þið eruð alveg spes?? En ég sé þig Gréta María fyrir mér leiða litla Inverjakarla sinn við hvora hönd. Æðislegt! Eruð þið nærri sólarhring á undan okkur? Væri gaman að vera með ykkur á þakinu smástund. Látið ykkur líða vel og haldið áfram að njóta lífsins.
    amma

    SvaraEyða
  13. Helga Gunnarsdóttir7. nóvember 2011 kl. 17:58

    Takk fyrir skemmtilegt blogg mín kæru!

    Gott að þið komust til Indlands á endanum! Þetta með myndatökurnar er eitthvað sem maður þarf kannski að hugsa... Held samt að það sé rétt hjá ykkur ef við tækjum þetta upp væri litið á þetta sem kynþáttafordóma og alls ekki skemmtilegt. En ég skil vel að Indverjar vilja eiga myndir af ykkur enda bæði svo bráðmyndarleg og falleg :) Rúta með rúmum hljómar bara eins og eitthvað sem maður les og sér í heimi Harry Potters en það er víst til ;) Og að sjálfsöðgu Bollywood myndirnar sem eru alltaf jafn skemmtilegar :D Þorri getur kannski kennt þessum mönnum eitthvað um tísku, eða má maður bíða spenntur eftir að sjá hann koma heim í útvíðum buxum og í diskóskirtu???

    Knús og kram elskurnar
    Helga Gunn

    SvaraEyða
  14. Alltaf svo gaman að lesa bloggið ykkar koss og knús á ykkur

    SvaraEyða
  15. Komi þið sæl.
    Gaman að lesa lesa bloggið ykkar. Haldið áfram að eiga góða ferð. Við biðjum að heilsa.
    Pabbi og Sandra

    SvaraEyða