föstudagur, 25. maí 2012

Ferðalok

Dvölin okkar í Xi‘An var voðalega notaleg,
eyddum dögunum þar í að rölta um göturnar og gamla markaði. Aðal ástæðan fyrir komu okkar til Xi‘An voru hinsvegar frægu Terracotta hermennirnir en þetta eru nokkrar risa stórar grafir með um það bil 15.000 leirhermönnum sem skornir voru út fyrir meira en 200 árum fyrir krist, þeir líta allir mismunandi út.
Þarna voru líka þúsundir hesta og mikið af allskonar varning til hernaðar. Ástæðan fyrir því að þetta var gert og grafið þarna neðanjarðar var sú að það var
merkur keisari sem lést og vildi hann ekki fara óvopnaður í næsta líf svo þessi her var gerður fyrir hann svo kallinn hefði einhverja til að verja sig. Það er ennþá mikil vinna eftir því það er stór partur grafarinnar sem á eftir að fara í gegnum.
Fyrir tæpri viku tókum við svo lestina þaðan til Peking sem er okkar síðasta stopp í þessari ferð, sú lestarferð var hins vegar mun viðburðarminni en síðasta lestarferð sem við fórum í.
Erum búin að taka því nokkuð rólega hér í Peking, erum búin að fara í síðustu verslunarferðina, labba mikið um borgina og fórum á torg hins himneska friðar og inn í Forboðnu borgina. Forboðna borgin fannst okkur ekkert allt of spennandi þar sem hvorugt okkar er mikið fyrir gamla kínverska sögu, þarna var ótrúlega mikið af fólki og allir að ýta í alla (sem
er reynar daglegt brauð hér í Kína). Það var í rauninni ekki mikið að sjá þarna inni enda á þessum fáu stöðum þar sem maður gat kíkt inn í herbergi var svo troðið fyrir utan að maður var ekkert mikið að leggja á sig til að komast á milli fólks til þess að sjá eitt rúm eða svo á miðju gólfi. Öll söfnin sem við höfðum lesið um að væru í borginn voru lokuð og því lítið annað að gera en að rölta um og virða fyrir sig byggingarnar sem voru reyndar virkilega flottar. Þennan sama dag kynntumst við skemmtilegum hóp af fólki, einum frá Bandaríkjunum, tveimur frá Kanada og einni rússneskri stelpu. Sá bandaríski náði að tala okkur Grétu og annan Kanadamannin með sér að skoða ólympíuleikvanginn að kvöldi til, hann væri víst miklu flottari þannig. Við vorum reyndar aðeins of sein í því og ekki hjálpaði leigubílstjórinn sem virtist hvorki getað lesið kort né talað kínversku, sá bandaríski talaði kínversku. Þar af leiðandi tók hann okkur risa hring sem endaði með bráðskemmtilegu rifrildi á kínversku milli þess bandaríska og leigubílstjórans.
Að lokum komumst við á réttan stað. Ólympíuþorpið læst og var eins og draugabær, öll ljós slökkt. Við vorum þó ekki tilbúin að játa okkur sigruð, fundum hlið sem auðvelt var að klifra yfir og brutumst því bara inn. Þegar inn var komið leist okkur ekkert á blikuna þegar við sáum öryggisverði út um allt en þeir voru ekkert að skipta sér af okkur, við náðum nokkrum skemmtilegum myndum og brutumst síðan út aftur. Daginn eftir gerðum við ekkert að viti nema hitta fleiri skemmtilega ferðalanga, þá einna helst strák frá Ástralíu sem var nýkominn niður af Everest. Við fórum öll saman út að borða og ákváðum síðan að kíkja á barinn fyrir utan hótelið þar sem við skemmtum okkur konunglega langt fram eftir nóttu. Þegar okkur var hent þaðan út fór Þorri að tala um að honum langaði að heilsa upp á Mao sem liggur uppstoppaður á torgi hins himneska
friðar. Þar sem klukkan var orðin ansi margt og Mao er bara til sýnis fyrir hádegi virtist það eina rétta í stöðuni að vaka bara áfram og vera fyrst á staðinn. Þorri, sá bandaríski og sá ástralski voru þeir einu sem fannst þetta góð hugmynd og fór því restin af liðunu upp á hótel að sofa. Eftir að hafa ráfað um borgina í leit að kaffi mættum við á torgið rétt eftir sjö, við vorum hins vegar langt frá því að vera þeir fyrstu á svæðið, fjöldin allur af kínverskum hópum höfðu safnast fyrir á torginu og var röðin því orðin ansi löng. Við biðum í röðinni í um tvo tíma og komumst loksins inn eftir mikið og strangt öryggistékk. Fyrst gengum við inn í stóran sal þar sem risa stytta af Mao, þakin blómum, stendur á miðju gólfinu. Heimamennirnir stoppa fyrir framan styttuna, fara með stutta bæn og skilja eftir rósir sem seldar eru fyrir utan (líklega eru rósirnar teknar í hádeginu, settar í kæli og seldar aftur næsta dag). Í næsta herbergi er síðan risavaxið glerbox með stóru rúmi þar sem uppstoppaður líkami Mao liggur undir rauða kommúnismafánanum. Það eru verðir allt í kring sem sjá til þess að enginn stoppi og því fékk maður ekki langan
tíma með honum. Það var ótrúlega skrítið að sjá hann liggjandi þarna, líktist helst vaxbrúðu en áhugavert engu að síður. Við vorum reyndar sammála því að okkur fannst meiri virðing sýnd og áhugaverðara að fylgjast með blómagjöfinni heldur en að sjá líkið sjálft því kínverska fólkið lét eins og hann væri einhver Guð. Eins og gefur að skilja var dagurinn eftir tekinn rólega.
Í dag gengum við síðan Kínamúrinn, loksins því við vorum búin að fresta því í þrjá daga vegna slappleika. Við ákváðum að fara á okkar eigin vegum í staðin fyrir að taka skipulagða ferð, okkur langaði ekki að vera háð einhverjum hóp og geta eitt eins löngum tíma á veggnum sjálfum og við vildum en ekki eins og einhver leiðsögumaður nennti. Við fórum ásamt þeim ástralska með lest, rútu og fólksbíl sem við leigðum. Hann skutlaði okkur
að „cable car“ sem tekur fólk upp á múrinn en við vildum frekar labba. Við tók mjög löng ganga upp brattan göngustíg að veggnum, loksins komumst við upp á sjálfan vegginn og byrjuðum okkar þriggja tíma Kínamúrsgöngu. Við gengum eins langt og við mögulega gátum allt frá endurbyggða hlutanum sem við komum upp á, fram hjá „cable car-num“ með sínum lötu ferðamönnum, upp 697 virkilega brött og erfið þrep og alveg að þeim hluta veggsins sem hefur lítið sem ekkert verið snertur síðan hann var byggður. Við létum þar við sitja enda hefði verið mjög hættulegt að halda áfram þar sem veggurinn var ekki í góðu standi. Þá var ekki annað að gera heldur en að labba alla leiðina til baka, við ætluðum sko ekki að taka „cable car-inn“ niður fyrst við höfðum labbað upp. Þetta tók ekki nema þrjá tíma en við náðum ansi stórum hluta veggsins á þeim tíma, við viljum meina að við höfum labbað um 1% hans. Öll þessi þrep 17 vaktturnar, það hlítur að skríða upp í prósentið.

Jákvætt:
-Auðvelt að ferðast með þægilegum næturlestum
-Alltaf gott í matinn
-Svo gott sem engar moskítóflugur
-Ótrúlega margir möguleikar, gætum ferðast hér í ár án þess að sjá allt
-Alltaf heitar sturtur á hótelunum

Neikvætt:
-Erfitt að tjá sig og reyna að gera sig skiljanlegan
-Frekar dýrar gistingar
-Allir labba utan í alla.. alltaf
-Alltaf hörð rúm

Það sem kom mest á óvart:
-Hvað það var lítið reynt að svindla á ferðamönnum (miðað við annarsstaðar í Asíu)
-Hvað fólk er sóðalegt oft, hrækjandi og snýtandi sér í jörðana svo maður þarf að stökkva frá til að verða ekki undir því
-Hvað fólk var duglegt að reyna að hjálpa þrátt fyrir að skilja ekki orð í ensku
-Hvað maður sér lítið af vestrænum ferðamönnum utan Peking

Það sem stóð upp úr:
-Yangshuo, einn af uppáhalds bæjunum okkar í ferðinni
-Pöndurnar í Chengdu
-Óperan í Chengdu
-Terracotta hermennirnir
-Næturlífið í Peking
-Kínamúrinn

Kort af ferðinni okkar í Kína:


Ferðalok

9 mánuðum, 5 flip-flop skóm, 275 dögum, 20 löndum, 8 heyrnatólum, 3 heimsálfum og 34 bloggum síðan og við erum loks að koma heim. Með reynslubankann stútfullan og mun betri sýn á heiminn og lífið í heild. Þetta er búið að vera eitt heljarinnar ævintýri þar sem við höfum séð bæði það vona og góða í heiminum, upplifað hluti sem okkur datt aldrei í hug að við myndum upplifa, sjá ótrúlega fallega staði sem við vissum ekki að væru til, kynnst fullt af frábæru fólki og svo mætti lengi telja.
Okkur tókst að lifa af stórhættulega vegi í Nepal, okkur tókst naumlega að sleppa frá óeiðrum í Egypalandi, okkur tókst að fá ekki í magann í mánaðardvöl í Indlandi, okkur tókst að stökkva niður 160 metra hátt gil bundin í teygju og síðast en ekki síst að læra að meta Ísland óendanlega mikið, þetta er svo frábært land sem við eigum og ættum að vera stolt af því, skítt með einhverja ríkisstjórn, banka og forsetaframboð.
Leiðin að ferðinni:
Þetta byrjaði allt þegar Gréta kom heim frá Thailandi, árið 2007, eftir skiptinemadvölina sína þar, hún var komin með ferðabakteríu og þráði að skoða meira af heiminum og var hún staðráðin í því að láta þennan næsta draum verða að veruleika. Þorra hafði alltaf langað að ferðast líka en hann er sennilega einn af þeim sem langar en lætur svo ekki verða að því nema að fá spark í rassinn, sem og hann fékk svo sannarlega.
Grétu fannst menntaskólalífið á Akureyri ganga of hægt fyrir sig og gat ekki hugsað sér að eyða fjórum árum í menntaskóla þegar hún gæti farið að vinna og safnað fyrir ferðinni  svo við fluttum suður, keyptum æðislega litla íbúð, Þorri byrjaði í háskólanum og Grétu tókst að klára stúdentinn á tveimur og hálfu ári til þess að geta byrjað að safna fyrir draumnum. Það tók ekki nema eitt og hálft ár að safna, en það tókst þrátt fyrir að vinna aðeins láglauna störf á hjúkrunarheimilum og veitingastað þar sem hver einasta aukavakt var tekin, 60% af laununum tekin frá hver mánaðarmót og lifað mjög spart. Þorri útskrifaðist svo úr háskólanum síðastliðið vor og síðustu tvö sumur voru svo tekin með trompi fyrir norðan þar sem við unnum bæði nánast hverja einustu vakandi stund.
Okkur langar bara að sýna fram á að hver sem er getur gert þetta, það eiga allir að láta drauma sína rætast hversu smáir eða stórir sem þeir eru og hvers kyns þeir eru. Þetta snýst um að gefast ekki upp og forgangsraða því sem manni þykir mikilvægast, kannski er það að kaupa nýjan bíl, fara í verslunarferð til Boston, taka húsið í gegn, já eða ferðast um heiminn.
Mjög margir hafa sagt við okkur hversu heppin við erum að fara í þessa ferð, en við erum því hins vegar hjartanlega ósammála. Við duttum ekki í neinn lukkpott, við unnum ekki í lottó, það skipulagði enginn þessa ferð og rétti okkur farseðlana, við einungis forgangsröðuðum því sem okkur þótti mikilvægast að gera og stefndum að þessum langþráða draum, ákveðin í að láta ekkert stoppa okkur.
En eins og kaninn segir: ,,You make your own luck“.
Við sjáum ekki eftir neinu í þessari ferð þetta var allt upplifun og ekkert sem við myndum vilja hafa gert öðruvísi. Að ferðast, þá sérstaklega í þriðjaheimslöndum, er sko ekki alltaf dans á rósum. Við höfum átt okkar lægðir eins og gengur og gerist, það má segja að okkar lægð hafi hellst yfir okkur í byrjun Filippseyja þar sem við vildum ekkert frekar en að komast þaðan í burtu. Þá þýðir samt ekkert annað en að slaka bara á, gista nokkrar nætur á sama stað og hlaða batteríin þar til lönginun til að halda áfram og gera eitthvað nýtt kemur aftur, sem og hún gerði.
Áður en við fórum út höfðum við lítið planað hvað við ættum að gera á hverjum stað heldur keyptum við aðeins flesta flugmiðana en við höfum lært að maður lendir oftast í skemmtilegustu ævintýrunum þar sem ekkert er skipulagt.
Á morgun fljúgum við til London og lendum á Íslandi á sunnudagsmorgun, okkur langaði bara að þakka öllum sem nenntu að lesa bloggið okkar og öllum þeim sem nenntu að kommenta hjá okkur, þið eruð yndi. Okkur hlakka mikið til að koma heim, verður sérstaklega gott að komast í sveitina.

Við eyddurm 705 klukkutímum í flugvélum, rútum, lestum og bátum í gegnum ferðina. Það gerir rúma 29 sólarhringa (ferðuðumst þó mest yfir næturnar)

Yfir og út..

Ferðin okkar í mynd:


fimmtudagur, 17. maí 2012

Gréta og ræninginn


Fimmtudaginn síðasta skildum við við
Yangshuo og kvöddum herbergisfélaga okkar til fimm daga, risastóra vespu sem var með ekki eitt heldur tvö bú inni í glugganum hjá okkur. Samkomulagið okkar á milli var að ef þú angrar okkur ekki, öngrum við þig ekki og það hélt. Við lögðum við af stað í lestarferð til borgarinnar Chengdu í miðvestur-Kína. Byrjuðum á að taka rútu frá Yangshuo til Guilin þaðan sem lestin okkar átti að fara. Þegar við komum á rútustöðina fórum við út úr rútunni og Gréta byrjaði að taka sínar töskur neðan úr geymslunni en á meðan Þorri er að ná í sína tösku sá Gréta út undan sér mann vera að draga veskið hans Þorra upp úr vasanum hans. Það tók hana smá stund að átta sig á hvað væri virkilega að gerast en því næst henti hún töskunni frá sér og hljóp á eftir manninum, reif í axlirnar á honum, snéri honum við og hristi hann svo til alveg þangað til hann loks sleppti veskinu. Eftir þetta hljóp hann eins og fætur toguðu í burtu, skíthræddur við hvítu skessuna. Fengum svo „Thumbs up“ frá manninum sem var að vinna í ruslinu. Þetta hefði samt getað endað mjög illa því maður veit aldrei hvernig svona lið er, hann hefði vel getað verið með hníf eða jafnvel byssu og ekki hikað við að nota það. Stendur einmitt í Lonely Planet bókinni okkar að mjög margir ferðamenn hafa verið drepnir fyrir verðmætin sín í Kína. Maður hugsar bara ekki á svona augnabliki enda helltist yfir mann tilfinningin þegar við vorum rænd í Indlandi og það er eitthvað sem maður vill ekki upplifa aftur, þó svo að það hafi verið mun minni verðmæti í þessu veski heldur en voru í bakpokanum okkar þá. Þorri mundi samt eftir að þessi maður var búinn að vera að þvælast fyrir honum á meðan hann var að ná í töskuna en þá hafði hann verið að losa töluna á innanverðum vasanum og ekki náð veskinu strax. Það verður ekki annað sagt en að þessir menn kunni sitt fag. Þorri hafði séð þennan mann áður sveimandi í kring um sig og hélt að hann hefði verið með okkur í rútuni og væri bara æstur í að ná töskunni sinni úr rútunni, eins og svo margir Kínverjar eru við heimkomu. Allt í einu öskrar Gréta á hann að passa sig og því næst stekkur hún á mannin, Þorri hélt hins vegar bara að önnur rúta væri að koma og hún ætlaði að bjarga manninum frá því að verða fyrir henni. Því næst sér Þorri að maðurinn missir veskið sitt í jörðina, beygir sig eftir því með það í huga að rétta honum það.


En þegar betur er að gáð var þetta veskið hans Þorra, það er ekki fyrr en á því augnabliki sem Þorri áttar sig á því sem er að gerast. Semsagt þessir menn vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera, velja augnablik þar sem athyglin er annars staðar og ríða á vaðið, ef ekki hefði verið fyrir vökul augu Grétu hefðum við ekki fattað að veskið vantaði fyrr en við þurftum að sýna lestamiðana okkar, sem við geymdum í veskinu, til að komast um borð.
Lestaferðin tók tæpar 29 klukkustundir og ótrúlegt en satt þá leið ferðin mjög hratt, hún var hins vegar stórfurðuleg. Klefafélagar okkar skelltu bjórkassa á gólfið og unnu sig hægt og rólega í gegn um hann um kvöldið, ásamt því að stúta a.m.k. einum viský pela með tilheyrandi röfli. Í matsalnum lá áfengisdauður maður á einu borðanna og um fimmtán miðaldra kerlingar sungu, görguðu og dönsuðu mest alla ferðina á meðan gamall maður sem þær voru með í eftirdragi kvikmyndaði herlegheitinn, best fannst okkur þó þegar lestin var þrædd eins og hún leggur sig í „allir dansa kónga“.
 Kínverjar geta verið alveg ótrúlega ótillitsamir (hvort sem það er menning eða ekki mennig) en þeir reykja ofan í mann stanslaust hvar sem maður er. Í lestinni voru að minnsta kosti þrír karlmenn sem reyktu nánast stanslaust alla ferðina inn í lestarklefanum þó svo að skilti sögðu til um að það væri bannað og önguðum við eins og öskubakkar þegar við stigum út úr lestinni daginn eftir. Þegar við mættum á lestastöðina í Chengdu fengum við mjög góðan göngutúr þar sem við vorum að reyna að finna neðanjarðarlestina eltum fjöldann allan af skiltum sem sögðu okkur alltaf að fara í mismunandi áttir. Eftir að hafa reynt að spyrja fólk til vegar gáfumst við endanlega upp og tókum leigubíl. Seinna komumst við að því að það er engin neðanjarðarlest á stöðinni þrátt fyrir mörg skilti sem bentu hingað og þangað.
Laugardagurinn var ótrúlega grámyglulegur, þar sem það ringdi og var skítkalt ákváðum við bara að skella okkur á Subway og setja svo mynd í tækið á hótelinu. Horfðum á myndina „The Lady“ sem fjallar um Aung San Suu og ástandið í Búrma, mælum eindregið með að fólk horfi á þessa mynd, ótrúlegt hvað er mikil spilling í þessu landi. Við erum viss um að við hefðum aldrei farið þangað í desember vitandi af hversu slæmt ástandið væri, maður á ekki að styðja við svona því með að fara þangað er óhjákvæmilegt að einhver peningur fari til herforingjastórnarinnar, þó svo að við pössuðum okkur mikið hvar við gistum og hvaða ferðamáta við notuðum til þess að styðja frekar við einkafyrirtæki.
Um kvöldið fórum við hins vegar í hina frægu Sichuan óperu en Chengdu er í Sichuan héraði, héraðinu sem varð fyrir stóra skjálftanum árið 2008 þar sem 88.000 manns létu lífið og yfir 11 milljónir urðu heimilislausir. Óperan var ótrúlega flott, búningarnir, tónlistin og allar grímurnar. Skiljum samt ekki afhverju þetta er kallað ópera þar sem það var enginn sem söng neitt, þetta var meira bara svona „show“. Aðal númerið í sýningunni voru grímuskiptin þar sem nokkrir grímuklæddir menn stigu á svið og dönsuðu, síðan á einhvern óskiljanlegan hátt skiptu þeir um grímur á svipstundu. Án þess einusinni að snerta grímuna sína breyttist hún um lit og svipbrigði eða bara hvarf og byrtist aftur seinna, heimamenn segja að þeir notist við galdra og við höfum enga gáfulegri skýringu. Það var einnig fólk á sviðinu sem skipti um föt á sama hátt, alveg ótrúlegt að fylgjast með þeim.
Daginn eftir löbbuðum við mikið um borgina, þræddum markaði, gamlar götur og stóran samkomugarð. Áður en við fórum í garðinn héldum við að þetta væri bara rólegur garður og fjölskyldur í lautarferð, nei nei þetta var eins og að ganga inn í fuglabjarg. Allskonar „tónlistaratriði“ þar sem fólk kepptist um að hafa sem allra hæst í hátölurunum, fólk að dansa við dúndrandi tónlist, menn í karaókí, lúðrasveit sem hafði aldrei farið á eina einustu æfingu saman og svo framvegis. Ef maður er ekki með höfuðverk áður en maður fer í garðinn má bóka að maður fer út úr honum með hann.Við höfum tekið eftir að Kínverjar eru yfirhöfuð rosalega háværir, sérstaklega þegar þeir tala í símann og bara þegar fólk situr hlið við hlið í rólegheitunum finnst þeim þau þurfa að öskra til þess að koma orðunum frá sér. En það er kannski ekki svo skrítið í svona stóru landi með svona mörgum íbúum.
Á þriðjudaginn vöknuðum við snemma en við vorum að fara í garð sem er stór pöndumiðstöð. Tilgangurinn með þessari miðstöð er að viðhalda stofninum (bæði risapöndur og rauðpöndur) sem er í bráðri útrýmingarhættu en það eru aðeins 1600 risapöndur eftir í heminum, þrátt fyrir að hafa lifað í 8 milljón ára. Ástæðan fyrir því að þær eru í útrýmingarhættu núna er sú að til að byrja með voru pöndurnar rándýr en með tímanum hættu þær að borða kjöt og borðuðu einungis eina ákveðna tegund af bambus. Feldurinn þeirra  er líka mjög verðmætur á svörtum markaði auk þess að Kínverjum fjölgar svo hratt að svæðin þeirra verða alltaf minni og minni. Það var mjög gaman að skoða þessa miðstöð og gaman að sjá hvað pöndurnar hafa það gott þarna með stórt svæði útaf fyrir sig, alveg ótrúlega sæt dýr sem éta 16 klukkutíma á dag og sofa restina af sólahringnum, ástæðan fyrir því er að það er svo rosalega lítil næring í bambusnum að þær hafa ekki orku í að hreyfa sig meira en þetta. Þarna var fæðingadeild, sjúkrahús og skóli allt fyrir pöndurnar. Fæðingadeildin er sérstaklega mikilvæg þar sem pöndurnar eignast oft tvö afkvæmi í einu en hugsa bara um eitt og skilja hitt eftir til að deyja, mennirnir sjá þá um greyið sem skilið er eftir.
Samskipti í þessu landi eru ótrúlega erfið eins og við höfum nefnt og í lokinn langar okkur til að koma með eitt lítið dæmi um hvernig það er að tala við einhvern sem „talar“ ensku.

Þorri: Good evening, could I get two towels to room 319
Starfskona: Tower?? (horfir hissa á Þorra og hina starfsmennina)
Þ: No towel, you know after shower to dry yourself (sýnir með handahreyfingum)
S: Oh, you need shower?
Þ: No not shower, a towel!
S: Tower? (eitt spurningamerki í framan)
Þ: No, a TOWELLLLL, there is no towel in my room
S: Oh, you need a room? Do you want one bed or two
Þ: No, I have a room, I need a towel in that room, you know to dry myself after shower (aftur handahreyfingar)
S: There is a public shower, no shower in the room
Þ: Yes I know but I need a TOWELLLL (fann mynd af uppbúnu herbergi og bendi á handklæðið sem liggur á rúminu)
Eftir að hafa spurt aftur hvort ég væri að biðja um herbergi kallaði hún á nýja starfsstúlku og afsakaði sig því hún væri ekki góð í ensku. Eldri kona mætir á svæðið og tilkynnir mér enn eina ferðina að það sé sameiginleg sturta á ganginum sem ég get notað. Sú á jafn erfitt með L-ið og segir Tower? Og þær horfa hvor á aðra, það var ekki fyrr en þær kölluðu á þriðju stelpuna (frá næsta hóteli) að hlutirnir fara að ganga betur, sú skilur orðið „towel“ í fyrstu tilraun og spyr hvort ég þurfi eitt eða tvö. Það má taka fram að þetta er stutta útgáfan af korters samtali, maður getur ekki annað en hlegið af þessum samskiptaörðuleikum okkar við kínverjana.


fimmtudagur, 10. maí 2012

Í Kínaveldi

Þann 1. maí yfirgáfum við Filippseyjar og ef við eigum að vera alveg hreinskilin þá var ekki mikill söknuður þar á ferðinni, enda alltaf spennandi að koma á nýjan stað. Lentum í Hong Kong þar sem allt var svo hreint, fínt, skipulagt og stórt! Hoppuðum upp í tveggjahæða strætóinn á flugvellinum og brostum út af eyrum þegar við sáum sætisbelti, það eru ekki einu sinni belti í strætóum á Íslandi og já enn og aftur þá þarf ekki mikið til að kæta okkur. Fundum litla kompu til að gista í, í Kolwoon hverfinu, sem var á 13. hæð í einu af háhýsunum þarna í Hong Kong. Erum nokkuð viss um að brunavarnaeftirlitið er ekkert alveg að standa sig í þessari annars ágætu borg, okkur langar ekki einu sinni leiða hugann að því hvernig fólk eigi að koma sér úr þessari byggingu myndi kveikna í. Verðið á gistingunni þarna sveið þar sem það var svona fjórum sinnum dýrara en gegnur og gerist í þessari ferð okkar.

Fyrsta verk á dagskránni var auðvitað að skella sér í H&M en það var búið að vera mikil eftirvænting eftir því hjá öðrum helmingnum. Það þarf varla að taka það fram hvað Þorri stóð sig með prýði eins og alltaf í að halda á pokum og koma með verslunarhvatningaorð.
Dagur tvö og þrjú fóru einnig í verslunarleiðangra þar sem við þustum þvers og kruss um bæinn með hraðlestinni og auðvitað var stoppað vel og lengi í uppáhalds búð allra íslenskra kvenna.

Síðan var rölt um hverfið okkar sem iðaði af mannlífi og virkilega skemmtilegt að labba þar um sérstaklega að kvöldi til, enduðum svo á að kaupa okkur auka tösku sem var stútfyllt á nóinu. Hong Kong er lítið annað en háhýsi eftir háhýsi og milljónir manna allir að flýta sér í allar áttir, allir að labba utan í alla og í enda dags er maður orðinn svo þreyttur á öllu saman enda erum við ekki alin upp við svona öfgar þar sem Blönduós og Húnavatnssýslan almennt samanstanda ekki af mjög mörgum háhýsum og fólki að ýta í hvort annað allandaginn (nema kannski á einstaka böllum en það er önnur saga).

Síðasta daginn okkar í Hong Kong fórum við með rútu upp á Ngong Ping fjall, til þess að sjá útsýnið yfir borgina en þegar upp var komið byrjaði að helli rigna og það var þoka yfir öllu þannig að það var lítið hægt að sjá nema auðvitað Búddann Tian Tan sem sat þarna í öllu sínu veldi uppi á toppnum. Þannig að þetta varð engin alvarleg fýluferð og rosalega gott að anda að sér fjallaloftinu og geta rétt úr höndunum til hliðar án þess að vera að berja einhvern frá sér.

Eftir að hafa fengið vegabréfið okkar til baka daginn eftir með vegabréfsáritunina til Kína klára var ekki til neins að bíða nema að skella sér yfir landamærin. Við tóku allskyns lestir og fengum miða strax sama kvöld til borgar sem heitir Guilin, sennilega er þetta bær fyrir kínverjum en þetta er ekkert nema stórborg. Þetta var sem sagt næturlest og tók hún sirka 14 tíma en það er alveg ótrúlega mikill munur að ferðast með næturlestum heldur en næturrútum því í lestunum fær maður sitt rúm, sæng og mjúkan kodda og getur rölt um ef maður er orðinn þreyttur á að liggja. Fyrir utan það hvað maður er miklu öruggari með sig þar sem maður þarf ekki að horfa upp á ástand ökumannsins og minni líkur á að lenda í slysi. Lásum það í Lonely Planet bókinni okkar að það deyja að meðaltali 600 manns á DAG í umferðaslysum í Kína, en þar sem það býr 1,3 milljarður manna hér er það kannski ekki svo há tala sé hún sett í samhengi.

Við höfum ekki farið í næturlest síðan daginn örlagaríka í lestinnni í Indlandi þar sem við vorum rænd flestum mikilvægu eigunum okkar. Ferðinn gekk vel og við vorum komin til Guilin daginn eftir þar sem við fórum beint upp í næstu rútu sem fór með okkur að bæ sem heitir Yangshuo. Það má segja að þessi bær hafi verið ást við fyrstu sýn, það er alveg ólýsanlega fallegt hérna, allir svo vingjarnlegir og sölumenn sem kunna sig. Þetta allt varð Grétu reyndar um megn og lagðist hún strax fyrir komin með einhverja leiðinda flensu, hita og kvef. Þar af leiðandi varð ekkert úr næstu þremur dögum þar sem þeir fóru í rúmlegu milli þess að Þorri fór út og keypti mat.

Í gær ákvað Gréta að þetta gengi nú ekki lengur, við hefðum ekki tíma í svona þannig að við skelltum okkur út og leigðum okkur æðislegt tveggjamanna hjól og hjóluðum hér um allar trissur eins og hinar verstu turtildúfur. Eftir aðeins rúman klukkutíma var ekki mikið eftir af þessari tilbúnu orku þannig að við settumst í skuggan skófluðum í okkur hálfum lítra af ferskum mangósmoothie og fórum upp á hótel.

Í dag fórum við í smá siglingaferð á Li ánni sem var voðalega krúttlegt, en þessi bær og allt í kring er eitthvað svo krúttlegt, held að það sé alveg rétta orðið yfir hann. Silglingin hefði mátt vera miklu lengri því útsýnið var alveg stórbrotið, ólýsanlegt alveg. Eftir siglinguna fórum við inn í byggingu þar sem var til sýnis ýmsar aðferðir við gerð ýmissa hluta, eins og stimlpagerð, pappírsgerð, leturgerð o.fl. Auðvitað talaði leiðsögumaðurinn okkar ekki stakt orð í ensku en það er mjög, mjög sjalgjæft að fólk tali einhverja ensku, sama þótt við séum í svona ferðamannabæ en reyndar er lang stærsti ferðamanna hér heimamenn svo það útskýrir það kannski.
Þessi bær er kominn mjög ofarlega á toppinn yfir uppáhalds bæinn í ferðinni og trónir á toppnum ásamt Udaipur í Indlandi. Mælum með fyrir alla að koma hingað það er svo afslappað, margt hægt að gera (ef maður er ekki veikur) og endalaust fallegt hérna.
Kommúnistarnir hérna í Kína eru hins vegar mjög strangir og eitthvað hræddir við að fólkið sitt láti í sér heyra út fyrir landsteinana og hafa því brugðið á það ráð að loka fyrir allar helstu samskiptasíðurar eins og til dæmis Facebook, Twitter, bloggsíður (þar á meðal þessa) og margt fleira. Meira að segja ef maður googlar eitthvað sem þeir vilja ekki að maður sé að skoða loka þeir fyrir mann, við prófuðum að googla eins og Dalai Lama og ýmiskonar upplýsingar um Kína en komumst ekki inn á neitt því tengt. Mætti halda að þeir hafi eitthvað að fela... En við erum búin að finna leið bakdyramegin með því að borga áskrift.

Á morgun bíður okkar svo 27 tíma lestaferð til borgar sem heitir Chengdu.

Ps. Það eru bara 16 dagar þangað til við leggjum af stað heim til Íslands... 16 dagar erum varla að trúa því!!!

Ps2. HÉR eru myndir frá Filippseyjum