miðvikudagur, 29. febrúar 2012

Á hákarlaslóðum


Vorum mjög treg til þess að yfirgefa Bangkok okkur líkaði svo vel við að vera þar, eða sérstaklega Grétu þar sem þar í borg er hægt að finna „alvöru“ Thailand (um leið og maður labbar út af Kao San auðvitað) því þegar maður fer suður á ferðamannastaðina hverfur það að mestu því miður. Borðuðum rosalega mikið af góðum mat og löbbuðum mikið um, fórum enn eina ferðina í MBK verslunarmiðstöðina og gleymdum okkur þar um stund. Eitt kvöldið fórum við á svokallað sjálfsafgreiðslugrill langt, langt frá öllum ferðamönnum, höfum ekki borðað svona yfir okkur síðan á jólahlaðborðinu í Búrma. Það voru ekki mjög skemmtilegir gestir sem deildu með okkur herbergi á gistiheimilinu okkar góða en það voru svokallaðar „bed bugs“ sem við höfum alveg verið laus við hingað til. Þessar pöddur búa í sprungum í veggjunum og koma ekki út nema á nóttunni og halda veislu á líkama fólks. Gréta varð fyrir valinu allar þrjár næturnar, og já við nenntum ekki að skipta um herbergi, einn daginn taldi hún 37 bit bara á handarbaki hægri handar. Höfum samt afsökun á að hafa ekki skipt um herbergi því við höfðum ekki hugmynd um hvaða kvikyndi þetta voru því þau fóru ekki í aksjón fyrr en maður var sofnaður. Þetta er næstógeðslegasta pödduævintýri okkar í þessari ferð, það versta var þegar Þorri fékk skógarmýtil í höfuðið eftir frumskógarferðina í Nepal. Síðasta daginn okkar í Bangkok mæltum við okkur mót við vinkonu Grétu frá Belgíu hana Winke sem var æðislega skemmtilegt, alltaf gaman að hitta fólk sem maður þekkir því það gerist ekki á hverjum degi á svona ferðalagi.
Bed bug, næturfélagi
Ákváðum loks að yfirgefa Bangkok þar sem við föttuðum einn morguninn þegar okkur var litið á dagatal að við áttum bara rétt rúma viku eftir af vegabréfsárituninni okkar, þá var ekkert annað í stöðunni en að panta rútu og bát til eyjar í suðurhlutanum sem heitir Koh Tao, lítil eyja sem er þekkt fyrir að vera fallegur köfunar- og snorklstaður. Þetta var virkilega þreytandi ferð niðureftir þar sem við lögðum af stað um kvöldmatarleytið með rútu, rútan stoppaði klukkan 4 um nóttina í bæ sem heitir Chumpon og þar úti á götu biðum við eftir einhverjum til að skutla okkur niður að höfn, eftir klukkutíma bið á vegkantinum kom farið loks og fór með okkur niður að bryggjuhúsi þar sem við þurftum að bíða í þrjá og hálfan tíma eftir að báturinn færi með okkur að eynni.  Þar kom uxaullarteppið frá Nepal sér gríðarlega vel sem rúm á gólfinu. Síðan kom báturinn loks og hann tók aðra þrjá tíma, við vorum gríðarlega þreytt þegar við komum loks á áfangastað þannig að sá dagur fór í bara í afslöppun á ströndinni. Það sama má segja um næstu daga á eftir þar sem við eyddum mestum hluta daganna svamlandi í sjónum og leikandi okkur við apakríli sem var voða kátur og elskaði að toga í hár.
Ávaxtasölumaður
Næst síðasta daginn okkar fórum við þó í skemmtilega snorkl-siglingu í kringum eyjuna, í fyrsta stoppinu var allt klökkt af black fin hákörlum sem við syntum með en þeir voru ekkert smá flottir. Í næsta stoppi hoppuðum við út í og reyndum að koma auga á hvítháfa (mannskæðustu hákarlar heims) sem eiga að vera þarna í kring en það var enginn sjáanlegur þennan daginn, sem var kannski bara gott mál því það verður mum skemmtilegra að koma heim með hausinn fastan á. Vorum svo orðnir algjörir tómatar eftir þennan dag og það rann vel úr Aloa Vera brúsanum það kvöldið.
Um kvöldið leitaði Þorri sér að sportbar til að horfa á úrslitaleikinn í deildarbikarnum þar sem Liverpool var að spila. Þar sem við vorum ekki við aðalströndina á eyjunni gekk það ekkert sérstaklega vel. Að lokum fann hann lítinn veitingastað með sjónvarpi, vandinn var hinsvegar sá að þau lokuðu klukkann tíu, heilum klukkutíma áður en leikurinn byrjaði. Eigandi staðarinns ætlaði hins vegar að horfa á leikinn sjálfur og bauð Þorra bara í heimsókn. Þegar leikurinn var flautaður á sat Þorri því meðal sex heimamanna og strák frá Singapore, þarna var einnig lítil læða sem kom sér þægilega fyrir í kjöltu Þorra og lét gæla við sig á meðan leiknum stóð.
Þorri á grillinu góða
Tælendingarnir voru víst búnir að sitja allan daginn yfir sjónvarpinu og veðja um úrslit allra leikja sem þeir gátu horft á þennan daginn og því var spennan mikil fyrir þessum úrslitaleik. Tælendingar fara sínar eigin leiðir í fótboltaútsendingum eins og svo mörgu öðru en í stað þess að nýta hálfleikinn fyrir auglýsingar eins og vanin er á flestum stöðum þá var leikurinn minnkaður og færður í eitt hornið á sjónvarpinu á meðan einni og einni auglýsingu var laumað að, þetta gerðu þeir á sirka tveggja mínútna fresti í fyrri hálfleiknum en róuðu sig sem betur fer eftir því sem leið á leikinn, Þorra og þeim Singapúrska (eða hvernig sem það er sagt) var ekkert sérstaklega skemmt yfir þessu fyrirkomulagi. Að leikslokum brutust síðan út mikil fagnaðarlæti enda höfðu allir veðjað á sigur Liverpool.
Skelltum okkur svo í næturbát (erum orðin ansi sjóvuð í nætur-alsskonar) til Ao Nang í Krabi héraði, þetta var óttalegur dallur en ferðin var eins og að vera vaggað ljúft í vöggu alla nóttina, þannig að við sváfum nokkuð ágætlega á flatsænginni ásamt 70 öðrum farþegum.
Í dag fórum við í skoðunarferð um Phi Phi eyjarnar og snorkluðum þar inn á milli, þetta var þriðja skiptið sem Gréta fer í þessa sömu skoðunarferð en þetta er alltaf jafn fallegt, þó sértaklega Maya Bay þar sem til dæmis bíómyndin The Beach með Leonardo Dicaprio var tekin upp.
Flatsængin fljótandi á næturbátnum
Skemmtum okkur vel með að fylgjast með rússneskum dömum í ýmiskonar stellingum á ströndinni með myndavélina á lofti, en þannig þekkir maður Rússana frá öðurm ferðamönnum auk þess að þær ganga varla í sundfötum. Gréta hefur einstakan hæfileika í að fá leiðsögumenn upp á móti sér og var engin breyting þar á í dag, það eina sem hún gerði af sér var að biðja vingjarnlega um snorklgrímu sem ekki læki. Eftir að hún fékk gamla og grútskýtuga grímuna í hendurnar fór hún og þreif hana í sjónum. Fór þetta eitthvað illa í strákgreyið sem fór í meiriháttar fýlu og sagði henni að það væri engin þörf á að þrífa grímuna. Endaði þetta með því að hann sagði henni að hún þyrfti að vera vingjarnleg og leit ekki á hana það sem eftir var dagsins, hins vegar var hann hinn almennilegasti við Þorra. Þetta er þriðji leiðsögumaðurinn sem hefur af einhverjum óskyljanlegum ástæðum orðið hundfúll við Grétu algjörlega að ástæðulausu.
Það má segja að við höfum orðið fyrir örlitlum vonbrigðum með Thailand, eða Gréta þar að segja, þar sem mikið er búið að breytast frá því hún var hérna fyrir 5-6 árum síðan. Það eru allt of margir ferðamenn hérna sem tekur svolítið sjarmann í burtu svo ekki sé talað um verðlagið sem hefur farið upp úr öllu valdi og kostar t.d. lítill bjór það sama og í vínbúðinni heima á Íslandi. Svo er Thailenskt fólk sem vinnur með ferðamenn svo allt öðruvísi en hinir „venjulegu“ Thailendingar að það er ekki hægt að líkja þeim saman. Gréta hefur orðið mikið vör við að starfsfólk sé að baktala okkur og aðra ferðamenn beint fyrir framan mann (þá á thailensku auðvitað) þegar þau halda að maður skilji ekki. Það er líka oft með ferðamannaheimamenn að ef maður byrjar að tala við þá thailensku þá undantekningalaust svara þeir manni til baka á ensku, þótt maður haldi samræðunum áfram á thailensku svara þeir alltaf á ensku en það getur verið frekar þreytandi til lengdar. Það má segja að örlítill gamall uppsafnaður pirringur sé að koma fram aftur frá því á skiptinemaárunum. Sorglegt hvað suðurhluti þessa yndislega lands er breyttur og svo langt frá því að sýna réttu hliðina á landinu, það er meira að segja svo erfitt að fá alvöru thailenskan mat því þeir þurfa alltaf að breyta honum og laga að ferðamönnum til dæmis með að setja tómatsósu í alskyns rétti sem eiga alls ekki að bragðast neitt í líkingu við það.
En núna síðasta kvöldið löbbuðum við langt frá ferðamannastaðnum í Ao Nang, sátumst á plaststólana úti við vegkant og fengum okkur dýrindis núðlusúpur, svona alvöru og gott að enda Thailandsförina okkar á því. Förum svo með rútu til Penang í Malasíu eldsnemma í fyrramálið.


Í Thailandi eyddum við 44,5 klukkutímum í rútum og 12,5 í bátum eða samtals tæpir 2,5 sólarhringar.

Verðdæmi:
-0.5 l bjór = 480 kr.
-Gisting (í mjög lélegum herbergjum, gluggalausum og skítugum) = 1.600-2.000 kr.
-1,5 l vatn = 56 kr.
-Máltíð fyrir tvo = 280 kr. (það er á götuhornum í Bangkok og annarsstaðar langt frá ferðamannastöðum)
-Máltíð fyrir tvo = 1.200 kr. (á ferðamannastöðum)
-Snorklferð heilan dag = 4.000 kr.
-Bensínlítri = 124 kr.

Jákvætt:
-Auðvelt að ferðast um
-Góður matur (þegar maður leitar uppi réttu local staðina)
-Alltaf fallegt umhverfi
-Mikið úrval staða til að ferðast til (eiginlega of mikið þegar maður hefur takmarkaðan tíma)
-Hvað það er auðvelt að prútta ef maður talar Thailensku
-Alltaf hægt að finna sér eitthvað að gera
-7-ELEVEN!!!!
Neikvætt:
-Dýrt!!
-Oft hrokafullt starfsfólk á ferðamannastöðum
-Hvaða heimamenn geta skemmt góðan mat þegar útlendingur pantar hann
-Allt of margir ferðamenn

Það sem kom mest á óvart (Þorri sér um þennan kafla)
- Hversu virkilega góður götumaturinn er, völdum hann alltaf fram yfir veitingastaðina.
- Hvað bjórinn er dýr (eftir 60 kr. Í Kambódíu og Víetnam), völdum við frekar að drekka ekkert með matnum
- Hvað Gréta er sleip í Thailenskunni
- Munurinn á hinum almenna Thailendingi (sem eru upp til hópa mjög vingjarnlegir og almennilegir) og Thailendingi sem vinnur í ferðaþjónustu.


Þorri að svamla í sjónum
p.s. þegar við vorum að panta Phi Phi ferðina  spurði konan í afgreiðslunni hvaðan við værum og hún missti andlitið og gapti þegar við sögðumst vera frá Íslandi, hún trúði því ekki að fólk byggi þar virkilega. Svo sagði hún að við gætum ekki verið þaðan vegna þess hversu brún við vorum. En hún má eiga það að hún er ein af virkilega fáum heimamönnum (heimamenn í öllum löndunum sem við höfum komið til) sem vita hvað og hvar Ísland er, flestir halda að við séum frá Írlandi og erum við bara farin að jánka því, þessar útskýringar eru orðnar svo þreyttar.

Kort af leiðinni sem við fórum, stjörnurnar eru staðirnir sem við stoppuðum á (merktum líka staðinn sem Gréta átti heima á, Udon Thani):


sunnudagur, 19. febrúar 2012

Strendur og Angkor Wat

Það hefur nú ekki dregið mikið til tíðinda síðan í síðasta bloggi, erum aðallega búin að hafa það notalegt á ströndinni í Kambódíu. Eftir að hafa eytt dágóðum tíma í indælu borginni Phnom Penh ákváðum við að halda suður á bóginn eða til Sihanoukville sem er strandbær ekki svo langt frá höfuðborginni.
Leikid ser a milli vinnustunda
Það er ekki hægt að segja að fyrstu kynnin hafi verið góð því við vorum svo vitlaus að enda á strönd sem var ekki alveg við okkar hæfi en á þessum stað eru nokkrar strendur. Þegar betur var að gáð voru þarna aðallega gamlir hvítir karlar með ungu kambódísku dömunum sínum sem þeir versla sér fyrir næturnar. Þetta var frekar sorglegt og eiginlega bara viðbjóðslegt að sjá þar sem margar þeirra eru bara ennþá börn en Kambódía er þekkt fyrir ferðamennsku sem snýst út á barnaníð og eru ótal ferðaskrifstofur út um allan heim sem fara í svona ákveðnar ferðir. Við vorum búin að ákveða að fara á aðra strönd strax daginn eftir en þá urðum við bæði allt í einu veik og skriðum eiginlega ekkert úr rúminu næstu þrjár næturnar, fórum reyndar eitt kvöldið á Pub-Quiz sem var ekkert gaman þar sem þú varðst helst að vera Breti yfir sextugu til að geta svarað einhverju.
Sluppum svo loksins af þesstum stað þar sem við fundum æðislega strönd þar sem var fólk á okkar aldri og okkur leið strax mun betur. Þarna var svo tekið á því á ströndinni og synt í æðislega heita sjónum. Þessi staður var ekkert afgerandi fallegur þannig séð en þegar maður hefur sól, sand og sjó skiptir umhverfið svo sem litlu máli. Venjulegur dagur þarna samanstóð af að vakna í hádegismat, skella sér í sundlaugina, ströndina og svo borða kvöldmat þannig það má segja að lífið hafi verið ljúft og áhyggjulaust, alveg þangað til við vorum trufluð í rútínunni okkar einn daginn þegar við vorum að labba af ströndinni þegar það var kallað á eftir okkur: ,,Hey, þið eruð Íslendingar“. En þannig var sagan okkar þegar við hittum óvart Íslendinga í fyrsta skiptið í ferðinni (fyrir utan Guðrúnu auðvitað en það var planað). Þetta voru tvær stelpur frá Dalvík, Alexandra og Eva María, og þegar leið á kvöldið komumst við að því að við þekktum fullt af sameiginlegu fólki og þær voru á sama tíma og Gréta í Menntaskólanum á Akureyri, alltaf skemmtilegar svona tilviljanir. Fögnuðum þessu að sjálfsögðu um kvöldið og skemmtum okkur ærlega fram eftir nóttu.
Ananas"sleikjo"
Tókum daginn eftir nokkuð rólega og leiðgum okkur öll litla bíóstofu en það er snilldar hugmynd sem einhverjum datt í hug þar sem þú getur leigt herbergi með sófum, flatskjá og flakkara með öllum þeim bíómyndum sem maður getur ímyndað sér. Í fyrsta skipti leið okkur eins og við værum bara komin heim í stofu en það var mjög notaleg tilfinning. Kíktum svo aftur út um kvöldið og höfðum gaman. Síðan var komið að kveðjustund daginn eftir þar sem við vorum á leið til Siam Reap en þær á leið til eyju ekki svo langt frá Sihanoukville en það var æðislegt að hitta loksins Íslendinga og það ekki af verri endanum.
Fórum með enn einni svefnrútunni, sem eru alveg ótrúlega hentugar, að þessu sinni til Siam Reap í vesturhluta Kambódíu en þar má finna hið fræga hof Angkor Wat. Um leið og við komum um morguninn var byrjað að svindla á okkur en þar sem við erum orðin svo sjóuð í þessu tækluðum við það nokkuð vel. Okkur var sem sagt lofað að vera sótt á rútustöðina og keyrt að hótelinu okkar frítt (sem er náttúrulega aldrei frítt þar sem það er bara innifalið í miðanum sem við keyptum). Þegar við komum stóð þar maður með skilti með nöfnunum okkar á og þegar við vorum sest inn í tuk tukinn hans fyrir utan stöðina spurði hann hvort við ætluðum ekki að skoða hofin yfir daginn, jú, jú við ætluðum að gera það. Þá spurði hann hvort við myndum ekki örugglega fara með honum í það og við svöruðum að við myndum kannski gera það ef hann gæfi okkur gott verð í það, þar sem hann gaf upp frekar hátt verð sögðumst við bara ætla fara á hótelið okkar og skoða málin þar og spyrja nokkra um verð. Þá varð okkar maður frekar önugur og sagðist ekki fara með okkur frítt á hótelið okkar nema við myndum taka ferðina um hofin hjá honum yfir daginn, við héldum nú ekki þar sem það var ekkert í samningnum.
Islendingabiostofan :)
Þá sauð svolítið upp úr þangað til við sögðumst þá fara með honum en hann þyrfti að skutla okkur á hótelið fyrst til að skila töskunum okkar, þegar þangað var komið sögðum við houm að við værum búin að skipta um skoðun og ætluðum ekki með honum í ferðina þar sem hann væri greinilega bara að reyna að svindla á okkur en þá varð hann alveg brjálaður og á endanum hringdum við á skrifstofuna sem við pöntuðum miðann hjá og fengum það staðfest að það væri ekkert smáa letur um að þurfa að taka dagsferð hjá honum. Þegar við svo réttum honum símann til að tala við ferðaskrifstofuna skellti bílstjórinn á því hann þorði ekki að tala við þá. Fórum svo bara inn á herbergi og biðum í svoltila stund til að vera viss um að hann væri farinn, þegar við komum svo niður sagði konan í lobbýinu að hann hafi orðið alveg star vitlaus og reynt að komast að því í hvaða herbergi við værum í. Fengum svo ósköp ljúfan og góðan bílstjóra til að fara með okkur um hofin yfir daginn. Það má segja að Angkor Wat hafi ekki alveg staðið undir nafni hjá okkur enda kannski væntingarnar of miklar en þetta er hof hofanna og eitt það merkilegasta í allri Asíu. Hofin í kringum Angkor voru þó mun fallegri en eftir þrjá klukkutíma að þræða hof eftir hof byrjuðum við að líta á klukkuna og telja niður í sólsetur en þá áttir túrinn okkar að klárast.Þarna voru líka mjög mikið af börnum sem voru að selja allsskonar dót, allt niður í tveggja, þriggja ára, það er mjög sorglegt en maður verður að passas sig á að kaupa ekkert af þeim því það er í raun það besta sem þú getur gert,  með því að versla ekki af þeim hætta vonandi foreldrarnir að senda þau í söluleiðangra og senda þau vonandi í skóla en því miður eru margir ferðamenn ekki að meðtaka þetta. Þessi börn fá heldur aldrei þennan pening fyrir sig, þau eru þjálfuð í að þykjast vera sorgmædd, sáum við til dæmis hóp af litlum börnum sem voru að æslast og leika sér glöð og kát en svo um leið og þau komu auga á okkur hættu þau og urðu niðurlút og þóttust vera voðalega sorgmædd og settu upp hvolpaaugun. Mjög margir kaupa þriggja daga passa til að skoða öll hofin vandlega og það er eitthvað sem við skiljum ekki en það er kannski ekkert að marka við erum alveg hræðileg í svona hofastússi. Viljum samt alls ekki gera lítið úr þessum merkilega stað þetta er alveg ótrúlega flott hof sum þeirra og maður fer náttúrulega ekki til Kambódíu nema að koma við þarna.
Þurftum að fara strax daginn eftir því förinni var heitið til elsku Thailands eða nánar tiltekið til eyju sem heitir Koh Chang en þar beið Evelien, vinkona Grétu, eftir okkur ásamt thailenskum kærasta hennar honum Joy. Það tók ekki nema ellefu klukkutíma að koma okkur frá Siam Reap og til eyjarinnar en um næstum því um leið og við komum til Thailands byrjaði að helli rigna, sem er mjög skrítið þar sem það á að vera þurrkatímabil núna. Það urðu svo miklir fangaðarfundir þegar við komum og við spjölluðum okkur inn í nóttina. Daginn eftir þurfti auðvitað að rigna allan tímann svo við héngum bara inni í skjóli fram eftir degi og pöntuðum okkur ferð til Bangkok strax daginn eftir því okkur leist ekkert það vel á þessa eyju fyrst veðurguðirnir létu svona illum látum. Gisting er líka mjög dýr hérna þannig að við urðum mjög hamingjusöm þegar við fundum lítinn kofa fyrir þúsund krónur nóttina þó svo að við þyrftum að tannbursta okkur yfir klósettskálina. Þennan dag var mikið spjallað og spilað og tíminn leið allt of hratt.  
Í morgunn skein auðvitað sólin og ekkert að veðrinu, þá loks sáum við hversu æðislga falleg þessi eyja er og hálf leiðinlegt að hafa ekki getað notið hennar lengur en Evelien þurfti að fara því hún hefur svo lítinn tíma áður en hún fer aftur til Belgíu. Tókum svið svo ferjuna í land og rútuna alla leið til Bangkok og erum nú lent á Kao San götunni góðu og hér ætlum við að vera eitthvað næstu dagana og njóta borgarinnar. 
Greta og Evelien

Solsetur vid Angkor Wat

 
Örstutt samantekt frá Kambódíu sem stóðst flestar okkar væntingar, þó aðallega Phnom Penh. Aðal vonbrigðin voru þó þau að Þorri fann enga steikta tarantúlu til að smakka á, en við höldum enn í vonina:

Við eyddum 23,5 klukkutímum í rútum.

Hvað stóð uppúr:
- Killing fields og S-21 fangelsið
- Að rölta um næturmarkaðinn í Phnom Penh
- Að sitja á pöbbnum ásamt kátum heimamönnum og skemmtilegum ferðafélögum í P.P.
- Að liggja eins og skötur á ströndinni í Sihanoukville
- Hitta Íslendinga
- Angkor Wat hofin

Verðdæmi:
-Hótelgisting: 1.000 kr.
-Máltíð fyrir tvo og drykkir: 750 kr.
-1,5 l af vatni: 100 kr.
-Stór bjór á krana: 100 kr.
-12 klst. svefnrútuferð: 2.100 kr.
-Dagspassi í Angkor Wat: 2.600 kr.

Kort af leiðinni sem við höfum farið, stjörnurnar eru staðirnir þar sem við stoppuðum:

 
 HER eru myndir fra Vietnam

mánudagur, 6. febrúar 2012

Frá Mekong sléttunum til Kambódíu


Við höfum sko ekki setið auðum höndum síðan síðasta blogg var sett inn og mikið búið að skoða og gera. Kvöddum loks Ho Chi Minh city eftir að hafa ílengst þar í fimm nætur, við sem ætluðum ekki einu sinni að fara þangað til að byrja með en svo kom á daginn að okkur líkaði hún svona vel. Ferðinni var heitið í þriggja daga skoðunarferð um Mekongslétturnar eða Mekong Delta eins og þetta er nú kallað. Fyrsta daginn fengum við að fylgjast með hvernig þeir búa til hinar ómótstæðilegu kókoskaramellur þeirra, þetta er engin verksmiðja sem þeir notast við því þetta var voðalega frumstætt miðað við magnið sem þeir framleiða. Fyrir utan það að þá er örugglega ekkert sem heitir heilbrigðiseftirlit í þessum bransa en hverjum er ekki sama um það svo sem þetta er svo æðislega gott. Eftir mikið smakk fengum við að knúsast með svona eins og einu stykki af Python kyrkislöngu, alveg ótrúlega stórt og þungt kvikindi sem var svo uppdópað að það var alveg til í að leika við okkur aðeins. Þá var komið að því að skoða geitungabýli þar sem okkur var sýnt hvernig þeir framleiða hunang en þegar hunangsbóndinn tók upp eitt hunangsspjaldið þakið geitungum tóku flestir skref aftur á bak en Gréta var svo spennt að fá að halda á því að hún stökk fram og þar sem hún var ekki stungin prófaði geitungahræddi Þorri líka að halda á spjaldinu og svo fleiri úr hópnum í framhaldi af því. Fengum svo æðislegt hunangste og ávexti á meðan heimamenn spiluðu á hljóðfæri og sungu. Fórum í fallega siglingu eftir lítilli á þar sem við komum að krókódílabúgarði, ótrúlegt hvað maður nennir að fylgjast með þessum húðlötu dýrum sem gera lítið annað en að liggja þarna með opinn kjaftinn, eins og þeir bíði eftir að maturinn komi fljúgandi til þeirra. Á meðan við vorum að fylgjast með þessum herlegheitum fengum við aftur svona Indlands-móment þar sem heimamenn voru rosalega spenntir fyrir að láta taka mynd af sér með okkur til dæmis stillti einn eiginmaðurinn Þorra upp eins og hann vildi hafa hann og lagði hönd Þorra yfir axlir konu sinnar svo var smellt af þar til allir fengu mynd af sér með hvíta fólkinu. Þá var kominn tími til að koma sér aftur upp í rútu og keyra á svefnstaðinn okkar í borg sem heitir Can Tho þar röltum við inn á local veitingastað þar sem boðið var upp á allskyns kræsingar sem bjuggu lifandi í búrum í veitingasalnum bíðand eftir að einhver pantaði sig á matseðlinum. Þarna var hægt að velja um froska, ál, eiturslöngur og síðast en ekki síst rottur. Það má taka fram að við fengum okkur nautakjöt því á þessum tímapunkti vorum við svo svöng að við gátum ekki hugsað okkur að taka áhættur í þetta skiptið, hins vegar var maðurinn á næsta borði að gæða sér á dýrindis rottukjeti og þegar við hofðum upp á það vorum við afskaplega ánægð með að vera bara að borða nautakjöt og hrísgrjón.

Vöknuðum fyrir klukkan sex daginn eftir þar sem við vorum drifin í siglingu, á Mekong ánni að sjálfsögðu, til að sjá morgunmarkaðinn þeirra sem fer fram á ánni sjálfri. Þarna er fólk að selja allskyns varning á bátunum sínum þó aðallega ávexti en þetta er gömul hefð þar sem aðeins nýlega voru byggðar brýr á svæðinu en áður fyrr fór fólk allra sinna leiða á bátum. Eftir markaðinn fórum við í litla útiverksmiðju þar sem okkur var sýnt hvernig þeir framleiða hrísgrjóanúðlur sem var mjög áhugavert en eins og með kókosnammið var þetta líka allt gert í höndunum og frekar seinvirkt. Enn og aftur var þetta staður sem heilbrigðiseftirlitið gleymdi alveg að stoppa á, nema víetnamska heilbrigðiseftirlitið samþykki kakkalakka, rottur og mikið öskufok yfir allt hráefnið. Það var ekkert annað planað þennan daginn nema rútuferð til landamærabæjarinns Chau Doc. Þar á leiðinni kynntumst við mjög skemmtilegu fólki, þremur Áströlum og einum Frakka. Þar sem ferðaskrifstofan okkar sveik okkur öll um dagskránna það sem eftir var dags ákváðum við að taka málin í okkar hendur og fórum við með hver sínum mótorhjólabílstrjóranum upp á fjall þar sem við horfðum á sólina setjast við Mekong ánna liggjandi í hengirúmum. Þarna uppi var svo hægt að skjóta úr loftbyssum og sýndi Gréta þar svakalega takta og vann sér inn appelsínugos með skotfimninni. Skáluðum svo í síðasta Saigon bjórinn okkar allra (ja, í bili allavegana) þegar niður var komið.
Morguninn eftir kvöddum við litla hópinn okkar í bili því við fórum með sitthvorum bátnum yfir til Phnom Penh, höfuðborgar Kambódíu. Þetta var hin ágætasta bátsferð eftir rólegri ánni og lögðum svo að höfn í steikjandi hita sex tímum seinna. Um kvöldið hittum við svo félaga okkar aftur og fórum út að borða með þeim og þar var setið fram eftir nóttu með Angkor í hönd og chilli mangó. Þarna voru líka blindfullir en mjög hressir lögreglumenn, á vakt auðvitað, sem spjölluðu mikið við okkur og hlógu að öllu sem við sögðum hvort sem þeir skildu það eða ekki. Lögreglustjórinn var svo grand á því að hann bauð okkur könnu af bjór, hann sagði að barþjónninn hafði ekki um annað að velja en að gefa okkur hana fría svo hló hann og labbaði í burtu.
Morguninn eftir hittumst við öll aftur og fórum með tuk tuk að stað sem heitir Killing Fields og er það nafn með rentu.
Árið 1975 ákvað hershöfðinginn Pol Pot og stjórnin hans, Rauðu Khmerarnir, að gera landið að landbúnaðarsamfélagi, þar af leiðandi smalaði hann hverri einustu manneskju út úr borgum landsins og neyddi alla til að vinna í ákveðnum vinnubúðum upp í sveit þar sem það vann 12-15 tíma hvernn dag og fengu tvær skálar af hrísgrjónum á dag. Síðan var allt menntað fólk, fólk með gleraugu, fólk sem talaði annað tungumál, fólk sem ekki var með sygg á höndunum, kennarar og svo framvegis, útrýmt. Þetta var gert á mörgum stöðum um landið. Það var flutt með trukkum í þessar útrýmingabúðir (búðir eins og Killing Fields) og fólk tekið af lífi eitt af öðru.Eftir fjögur ár af þessari útrýmingu komu nágrannar þeirra frá Víetnam þeim til bjargar og stoppuðu þetta en þá höfðu þeir drepið einn fjórða af sínu eigin fólki eða þrjár milljónir manns.Mottóið þeirra var: ,,Það er betra að gera mistök og drepa saklausan mann heldur en að gera mistök og sleppa ,,sekum“ manni.“ Það kaldhæðnislega við þetta allt saman var að Pol Pot og hinir aðal karlarnir í þessu voru mjög menntað fólk sem höfðu farið til Frakklands í skóla.
Það var mjög óraunverulegt að vera á þessu svæði og hlusta á frásagnir þeirra sem höfðu lent í þessu en þetta var líka mjög raunverulegt þar sem þarna voru geymdar um 8.000 hauskúpur sem fundust á svæðinu í mörgum fjöldagröfum. Tennur og bein lágu á víð og dreif og allsstaðar á göngustígunum mátti sjá föt sem voru hálf komin upp úr jörðinni. Í hverjum mánuði þarf starfsfólkið að týna þetta lauslega saman upp og setja í sérstakar beina- og fatageymslur. Þetta er líka staður þar sem heimamenn koma og syrgja og biðja fyrir fólkinu sínu því það má segja að hver einasta manneskja í landinu varð fyrir áhrifum þessi fjögur ár sem þetta stóð yfir.
Eftir að hafa skoðað þetta hörmungasvæði fórum við á hið næsta sem var S-21 fangelsið sem var áður skóli. Þetta var ákveðin stoppustöð áður en fólkið var fært þaðan með vörubílum og tekið af lífi. Þarna var fólk yfirheyrt og pyntað (oft til dauða) þar til það játaði eitthvað sem þeir höfðu ekki gert, þar að leiðandi réttlættu þeir þessi dráp þeirra. Þarna var til sýnis öll þau pyntingatæki sem voru notuð og skólastofur sem búið var að breyta í litla klefa (0,8x2 metrar). Um 20.000 manns voru í þessu pyntingafangelsi og þar eru ekki talin með öll börnin, meðaltíminn í fangelsinu var 4-7 mánuðir áður en þau voru færð í útrýmingabúðirnar og tekin af lífi. Þetta er alveg ótrúleg saga og það tekur nokkuð á að vera á þessum svæðum sérstaklega þar sem þetta er svo rosalega stutt síðan þetta var.
Svo má taka fram að Sameinuðu þjóðirnar leyfðu Rauðu Khmerunum að eiga sæti hjá sér í 12 ár eftir að þessu lauk sem þýddi að morðingjarnir voru í svari fyrir fórnarlömbin og ættingja þeirra.
Um kvöldið fórum við svo á næturmarkaðinn þar sem við fengið æðislega góðan mat og versluðum hitt og þetta fyrir nánast engan pening. Á leiðinni á barinn „okkar“ skelltum við okkur í fótafiskanudd sem er furðulegasta nudd sem hvert okkar hafði farið í, það var virkilega erfitt að halda fótunum kyrrum ofan í vatnstankinum þar sem fiskarnir nörtuðu og fengu fylli sína á húðflögum fóta okkar. Lögreglumennirnir voru sem fyrr á sínum stað á barnum en þó ekki eins hressir þetta kveldið sennilega þar sem þeir voru með eiginkonurnar með sér og ekki á vakt. Við létum okkar samt ekki eftir liggja og kláruðum allan kranabjórinn á staðnum sem þýddi bara það að við fundum okkur annan stað. Um kvöldið kvöddum við hins vegar Ástralana þrjá, alltaf leiðinlegt að kveðja skemmtilegt fólk sem maður hittir á leiðinni.
Fórum svo í gær með franska félaga okkar í rúnt um bæinn, en þar sem Þorri var kominn með einhverja augnaflensu fórum við í svaðilför í apótek sem endaði á besta bakaríinu í bænum með hálfgerðum rúmum sem maður gat lagst í, alveg æðislegt. Hertum okkur svo upp brunuðum á risastóran markað sem ber nafnið rússneski markaðurinn, þó ekkert rússneskt við hann. Þar var misst sig aðeins og kaupunum sem þýðir að við þurfum að skunda á pósthús í framhaldinu, erum svolítið dugleg í því og gaman að vita hvað af öllu dótinu okkar kemst alla leið til Íslands, jólapakkarnir sem við sendum frá Nepal eru allavegana ekki enn komnir en hver vill ekki jólapakka í apríl eða júní. Eftir markaðinn fórum við með tukkara lengst út úr bænum til þess að horfa á alvöru Kick box og það í sjónvarpssal í beinni útsendinu, þannig að núna höfum við komið fram í kabódísku sjónvarpi. Það var mjög gaman að fylgjast með þessu og álíka gaman að horfa á heimamenn að missa sig yfir hverju höggi en þeir eru flestir að leggja pening undir í veð. Þarna voru bæði konur og karlar að berjast en engin rothögg í þetta skiptið. Enduðum svo daginn á góðum mat og miklu spileríi þar til við þurftum að kveðja franska félagann okkar og þar af leiðandi erum við orðin ein í kotinu aftur.

Hér kemur svo samantekt frá Víetnam. Víetnam var eiginlega bara æðislegt í alla staði og erfitt að finna eitthvað neikvætt um það, frábært fólk og skemmtilegir staðir allsstaðar.

Við eyddum 94,5 klukkutímum í rútum eða rétt tæpum 4 sólarhringum.

Jákvætt:
-Mjög ódýrt land
-Hár „standard“ á hótelherbergjum
-Mjög mikið af áhugaverðum og skemmtilegum stöðum
-Ótrúlega auðvelt að ferðast um það, þarf ekkert að hugsa
-Flestir tala mjög góða ensku
-Það er hægt að kaupa ALLT í Víetnam

Neikvætt:
-Mikil þoka og kuldi í norðurhlutanum
-Allt lokað yfir hátíðirnar og því ekkert hægt að gera (skiljanlegt samt)
-Landið stórt og því langar vegalengdir á milli
-Hvað flestir rútubílstjórarnir voru reiðir og leiðinlegir

Það sem kom mest á óvart:
-Hvað fólkið var vingjarnlegt við útlendingana þrátt fyrir hörmungarnar sem þeir ollu
-Lokað fyrir facebook og bloggið okkar stundum (en við finnum alltaf okkar leiðir)
-Umferðin var alls ekki eins slæm og við héldum
-Hversu fljótt fólkið virðist vera búið að jafna sig eftir stríðið


Það sem stóð upp úr:
-Bai Tu Long ferðin og heimagistingin þar
-Bátsferðin í Ninh Binh
-Sérsniðna fataævintýrið í Hoi An
-Skemmtigarðurinn í Nah Trang
-Cu Chi göngin og M16 byssan
-Mekong Delta ferðin
-Borða Pho (núðlusúpu) með heimamönnum
Og fleira, og fleira..

Verðdæmi:
-Hótel (með öllum lúxus þægindum): 900 kr.
-Gleraugu (með besta glerinu): 7.000 kr.
-Máltíð fyrir tvo og drykkir: 600 kr.
-1,5 l af vatni: 50 kr.
-Sérsniðin jakkaföt úr kashmir og silki: 10.000 kr.
-Bjór 500 ml: 60 kr.
-12 klst. svefnrútuferð: 1.800 kr.

Kort af leiðinni sem við höfum farið, stjörnurnar eru staðirnir þar sem við stoppuðum:

HÉR er linkur inn á myndirnar okkar frá Laos