þriðjudagur, 27. desember 2011

Fundum lítil jól í Búrma


Fengum faranlega mikinn gjaldeyri fyrir dollarana$$
Á föstudaginn fyrir rúmri viku lentum við í Bangkok eftir tæplega sólahrings ferðalag frá Kathmandu, Nepal með 11 klukkutíma millilendingu í Mumbai. Það var allt voða jólalegt á flugvellinum í Mumbai og alveg spiluð tvö jólalög stanslaust allan tíman á meðan við biðum þar. Það var svo alveg yndislegt að vera komin til Thailands, Gréta var alveg í skýunum yfir að vera komin aftur „heim“ eftir 5 ára fjarveru. Þorri fór strax í kennslustund um hvar og hvað ætti að borða, var farið með hann beint á næsta götuhorn þar sem risarottur og kakkalakkar voru hlaupandi allt í kring (en það er víst óvenju mikið um þau kvikindi á yfirborðinu núna því eftir flóðin fylltust öll holræsi af vatni og upp kemur allt sem bjó þar). Á götunni er einfaldlega best og ódýrast að borða og líkaði Þorra vel, eða hann þorði að minnsta kosti ekki að segja annað. Gréta er orðinn algjör nískupúki eftir að við komum til Thailands því þegar hún var hér síðast og tók til dæmis 4.000 Bath út úr hraðbanka var það þá 8.000 krónur en nú eru þessi 4.000 Bath orðin að 16.000 krónum og er það mjög sárt. Það eru lítil ummerki um að hér séu nýafstaðin hamfaraflóð þar sem um þúsund manns létust, bara á nokkrum stöðum þar sem búið er að steypa lágreista veggi í kringum búðir annars allt vatn farið en enn eru krókódílar sem á eftir að handsama eftir að krókódílabúgarður fór á flot.
Það fyrsta sem við gerðum þegar við komum á Khao San (sem er aðal staðurinn fyrir bakpokaferðalanga eins og okkur) var að finna sama gamla, góða gistiheimilið sem Gréta var vön að gista á. Khao San er í raun bara einn stór markaður sem mjög gaman er að ganga um og skoða það sem þeir hafa upp á að bjóða, þarna eru líka matarstandar á hjólum út um allt og gefa markaðnum yndislegan ilm. Eftir að hafa rölt þarna um var Gréta fljót að þefa uppi hárgreiðslustofu og lét slétta á sér hárið. Það ferli tók ekki nema fjóra tíma og sat Þorri hálfsofandi við hliðina á henni á meðan, alltaf jafn þolinmóður þessi elska.
Kat born med leir i andlitinu eins og tidkast
Á laugardaginn fórum við með strætó í verslunarmiðstöð hér í bæ, þar tók á móti okkur jólasveinn með tilheyrandi jólalögum og notalegheytum, því þrátt fyrir að jólin séu ekki haldin hátíðleg í Thailandi þá skreyta þau allt hátt og lágt og blasta jólalögum bara til þess að hafa tilefni til þess að halda upp á eitthvað. Í verslunarmiðstöðinni sem var á sjö hæðum og hefur upp á að bjóða allt milli himins og jarðar og er að hluta til hálfgerður markaður þar sem maður prúttar fram og til baka, náðum við að versla okkur föt til að fylla upp í tóma plássið í bakpokunum okkar sem hefur verið að pirra okkur. „Stjörnu torgið“ þeirra var með því allra vænlegasta sem gerist og þurftum við að ganga þrjá hringi áður en við loksins gátum ákveðið okkur hvað við vildum borða (og það var enginn hamborgari og franskar fyrir okkur takk fyrir). Fyrir utan var í gangi einhverskonar tælensk útgáfa af jólahátið, þar stigu „tónlistamenn“ á svið og skemmtu trylltum líðnum. Komumst að því að til þess að stofna hljómsveit í Thailandi þarftu hvorki að kunna að syngja né spila á hljóðfæri bara að hreyfa varirnar nokkurnvegin í takt við tónlistina (þá breytir engu hvort karl eða kona sé að syngja undir). Þarna var líka fólk klætt í hina ýmsu búninga og bauð fólki að taka af sér mynd. Jólasveinninn, stelpa í „mini“ pilsi, geimverukarlar og gotharar var jólablanda sem við höfum ekki séð áður en fannst nokkuð athyglisverð. Þegar við komum til baka á Khao San var komin mjög skemmtileg kvöldstemning þar sem trúbadorar tóku lagið á börunum, krakkar dönsuðu á götunni klædd í þjóðbúninga og söfnuðu fyrir fórnalömb flóðana og sölumennirnir reyndu hvað þeir gátu til að ná pening út úr ferðamönnunum. Þarna eru líka nuddstofur á götunni og ákvað Gréta að skella sér í fótanudd eftir langan og erfiðan dag á búðarrölti, Þorra fannst hann ekkert hafa þörf á einhverju nuddi og fékk hann bara að stara út í loftið og bíða á meðan. Við vorum ótrúlega léleg þetta laugardagskvöld í miðborg Bankok og fórum snemma upp á hótel og spiluðum rommý þangað til við sofnuðum enda áttum við flug daginn eftir og vildum vera með hausinn rétt skrúfaðann á.
Sunnudagurinn fór síðan í að koma sér upp á flugvöll fyrir ferðalag til Yangon í Búrma, okkur þótti mjög leiðinlegt, og þá sérstaklega Grétu, að kveðja Thailand eftir svona stutt stopp en við munum koma hingað aftur fyrr en varir og eyða meiri tíma þar, Þorri er hins vegar hæst ánægður með að hafa loksins fengið að upplifa aðeins landið sem hann hefur heyrt svona mikið um í gegn um árin.
Eftir rétt rúmlega klukktíma flug vorum við lent í Yangon höfuðborg Búrma sem er tæknilega ekki höfuðborgin lengur. Vorum sótt á flugvöllinn af gistiheimilinu okkar og fórum fljótlega í háttinn eftir að hafa skipt peningnum okkar og pantað rútumiða fyrir næsta dag. Eitt af því fyrsta sem við tókum eftir í Búrma voru karlarnir en þeir klæðast nær undantekningalaust allir pilsum sem þeir binda saman í hnút framan á sér, meira að segja lögreglan gengur um í pilsi og með hjálm, vitum ekki alveg hvernig gengur að hlaupa upp glæpamenn í þessari múnderingu. Einnig tókum við eftir munnunum á þeim því þeir tyggja flestir einhverskonar mórautt tóbak sem þeir spýta svo út um allar trissur. Tennurnar á þeim eru þar af leiðandi rauðbrúnar og jafnvel svartar eftir margra ára notkun. Lang flestar konurnar hérna bera svo framan í sig og börnin einhversskonar gulan leir, það er gert bæði til fegrunar og til að verja sig fyrir hita og sól.
Áður en maður kemur inn til Búrma verður maður að vera búinn að hugsa fyrirfram hvað maður ætlar að eyða miklu því hér eru engir hraðbankar og enginn tekur við neinum greiðslukortum. Maður verður að koma með galdeyri í dollurum og þessir dollarar mega ekki vera með eina einustu krumpu á sér, ekki búið að brjóta þá saman, ekki vera með neitt blek á sér og hvað þá vera smá rifnir, verða að vera fullkomnir og vera gefnir út eftir 2006!!! Fyrir þá sem ekki hafa lesið sig til áður en þeir koma til landsins geta lent illa í því með að skipta gjaldeyri á löglegan hátt á til dæmis flugvellinum eða í banka. Ef þú skiptir dollurunum löglega færð þú 3 Kyat (gjaldmiðill Búrma) fyrir einn dollara, hins vegar ef þú skiptir á svarta markaðnum sem er til dæmis á gistiheimilum, gullbúðum o.s.frv. færð þú 780 Kyat fyrir einn dollara, þannig að það skiptir enginn löglega nema vita ekkert hvernig staðan er hérna.
Daginn eftir áttum við rútuferð til Bagan sem er bær fyrir norðan en þetta er heilagasti og jafnframt einn fallegasti staður landsins með 4.400 búddahof allt í kring. Rútuferðin var sú kaldasta hingað til og var Gréta búin að gleyma eða vildi ekki muna hvernig asíubúar misnota loftkælingu, þeir hafa engan milliveg, ef þetta er AC rúta á það að vera þannig og ekkert minna. Við skulfum þarna ásamt öllum hinum sem þó höfðu haft vit fyrir því að koma með þykkar úlpur og húfur. Þegar rútan stoppaði fengum við að fara í töskurnar okkar í farangursrýminu til að ná okkur í hlý föt og teppi sem við sem betur fer skildum ekki eftir í Nepal eftir kuldann þar. Þrátt fyrir að vera í peysu, flíspeysu með trefil og teppi skulfum við áfram og gerðum það sem eftir var ferðarinnar (10 tímar). Afþreyingin sem rútan bauð upp á voru rapplög á búrmísku (ef það er orð) og æsispennandi en illa leikna búrmíska bíómynd. Klukkan 3 um nóttina stoppar síðan rútan á síðasta stoppi og bærinn hvergi sjáanlegur, við ákváðum í sameiningu með austurrískum strák sem var líka í rútunni að við skyldum frekar ganga í bæinn sem tók um 10 mínútur frekar en að borga leiðinda hestvagnsstjóra fúlgu fjár fyrir að koma okkur þangað. Grétu tókst auðvitað að gleyma iPodnum sínum í sætisvasanum sem hún fattaði þegar við horfðum á rútuna keyra í burtu. Eftir það hófst mikil leit að gistiheimili en allt var lokað og læst, eftir klukkutíma leit náðum við að vekja einn starfsmann og fengum við inn, hringdum í rútufyrirtækið sem lofaði að við gætum komið og sótt iPodinn daginn eftir á rútustöðina. Tókum við þeim gleðifréttum með mjög miklum fyrirvara því hér blómstrar svarti markaðurinn og vel hægt að koma einu svona stykki í verð. Daginn eftir fórum við vonlítil á rútustöðina en okkur til mikillar undrunar var þar elskulegi iPodinn sem þeir réttu okkur með bros á vör, þeir meira að segja reyndu að afþakka þjórfé fyrir það. Þegar við hugsðum svo um þetta eftir á þá vorum við sammála um að í þeim löndum sem við höfum verið í hefði það ekki einu sinni tekið sig að hringja í rútustöðina. Vorum búin að heyra áður en við komum hingað hversu heiðarleg þjóð þetta er, sérstaklega í garð útlendinga en það stafar kannski að einhverju leiti af því að allt að lífstíðar fangelsisdómur hlýst ef þú stelur af ferðamanni (eitthvað sem Indland ætti að taka sér til fyrirmyndar).
Um daginn fórum við í heljarinnar hjólreiðatúr um svæðið og sikksökkuðum á milli ótal hofa allt í kring á sporthjólum með körfu framan á, hofin voru nokkuð flott en voðalega svipuð til lengdar. Þarna voru margir litlir markaðir sem gaman var að skoða, margar sölukonurnar vildu ólmar býtta eitthvað af sínu dótir fyrir maskara eða ilmvötn, þar sem við vorum ekki með neinar byrgðir af því fóru engin skipti fram. Í lok dags fundum við okkur stórt hof sem við gátum notið sólarlagsins með útsýni yfir svæðið.
Daginn eftir var dagskráin okkar á sömu leið nema það kom babb í bátinn mörgum kílómetrum frá bænum okkar þegar það kvellsprakk á dekkinu hjá Þorra í einum af töffaralátunum hans á „mótorhjólinu“ sínu.  Þá var ekkert annað að gera en að reiða hljólið alla leið til baka og rétt náðum við heim fyrir myrkur, hann fékk enga vorkun frá Grétu sem hló og hjólaði meðfram honum.
Á fimmtudaginn ákváðum við að vera svolítið löt og leigðum okkur hestvagn í stað hjólanna, enda komin með auma rassa eftir tvo heila daga á þeim. Hestvagnar eru mjög algengur ferðamáti hér í landi og er svolítill 17. aldar fílingur í þessu sem og svo margt annað í þessu landi. Hestvagnsstjórinn angaði af viskýi og svitalykt, þar sem okkur grunar að engin lög banna meðferð áfengis og stjórnun svona ökutækja vorum við svo sem ekki mikið að kippa okkur upp við þetta, nema þó einna helst Gréta sem neyddist til að sitja fyrir aftan hann í öllum fnyknum sem jókst alltaf eftir hvert stopp. Skoðuðum þennan dag þau hof sem okkur var sagt að við þyrftum að skoða svo við gætum farið héðan með hreina samvisku.
Þorri labbar heim med sprungid a dekkinu
Á Þorláksmessukvöld héldum við aftur af stað með rútu til „höfuðborgarinnar“ Yangon vopnuð okkar allra hlýustu fötum. Mættum þangað klukkan 3 um nóttina og lítið hægt að gera nema að setjast inn á eitt af rútustöðva „tea shops“ eins og þeir kalla það til að bíða eftir að nóttin liði aðeins áður en við tékkuðum okkur inn á gistiheimilið okkar. Sváfum svo af okkur stóran hluta aðfangadags en horfðum á bíómyndina Christmas Vacation þegar við vöknuðum svona í anda jólanna. Fljótlega eftir hana eða klukkan sex áttum við pantað borð á jólahlaðborð á einu af fínustu hótelunum hérna í borg í boði ömmu Grétu. Þetta var æðislega fínt og jólalegt og það allra flottasta jólahlaðborð sem við höfum nokkurntíman séð, þarna var allt sem maður gat ímyndað sér, humar, nautasteik, kalkúnn og endalaust af forréttum og eftirréttum.
Greta og asiskur sveinki
Borðuðum alveg á okkur gat, svona eins og maður á að gera um jólin. Þangað kom líka asískur jólasveinn sem gaf okkur nammi og barnakór sem söng jólalög þannig að þetta urðu mun betri jól heldur en við þorðum nokkurntíman að vonast eftir. Eftir alla þessa átu komum við aftur á litla gistiheimilið okkar, hringdum aðeins heim til Íslands og horfðum svo aftur á Christmas Vacation (eigum sko ekki margar bíómyndir inná tölvunni).
Á jóladag fórum við í smá rúnt um Yangon og skoðuðum aðal hofið þar í bæ sem er gríðarstórt og fallegt, við verðum nú samt að viðurkenna að þarna vorum við komin með smá nóg af hofum þannig að við stoppuðum ekki lengi þar en styrktum þó herforngjastjórnina um 10$ með þessari heimsókn okkar. Þegar Gréta spurði hvert þessi peningur færi var fátt um svör. Um kvöldið fórum við svo á fínan ítalskan veitingastað og fengum dýrindis fimm rétta jólakvöldverð.

Þar sem við stoppuðum ekki lengi í Búrma er svolítið erfitt fyrir okkur að gera samantekt en í staðin eru hér nokkrir fróðleiksmolar í boði Grétu.
Það er svolítið siðferðismál hvort maður eigi að ferðast til Búrma eða ekki, mikið af mannréttindasamtökum hafa hvatt fólk til að fara ekki þangað vegna gríðalegrar spillingar herforingjastjórnarinnar. Allur opinber peningur fer beint í vasann á þessum köllum sem kúga þjóðina sína. Til dæmis ef þú flýgur innanlands, tekur lest, borgar þig inná söfn eða ákveðin svæði, flest stóru hótelin reka þeir og fer allur sá peningur til herforingjanna. Þess vegna höfum við til dæmis bara tekið rútu, gist á litlum fjölskyldugistiheimilum og sniðgengið opinberar búðir. En maður kemst aldrei hjá því alveg að gefa þeim pening eins og þegar við vorum í Bagan þurfti maður að borga 10$ til að skoða öll hofin, svo erum við viss um að jólamatspeningurinn hafi líka farið beint til þeirra. Það er líka spurning hvort við komumst í gegnum tollinn með nokkur málverk sem við keyptum af götulistamönnum hérna en maður verður víst að sýna fram á kvittun að minjagripir hafi verið keyptir í opinberum búðum svo hinn venjulegi heimamaður fái nú örugglega engan gróða af vinnu sinni.
A adfangadagskvold

Það er alveg ótrúlegt hvað þeir eru búnir að kúga fólkið sitt, til dæmis árið 1985 ákvað einn hershöfðingi (þá við völd) að seðlar merktir 25, 50 og 100 (stærstu seðlarnir) myndu falla alveg úr gildi og nýjir tækju við en þeir fengu ekki að skipta þeim neitt, þetta varð bara allt í einu glatað fé í staðinn voru gerðir 15, 35 og 75 seðlar. Þetta gerði hann í tilefni 75 ára afmæli síns og gerði milljónir manna fátæka á einni nóttu. Tveimur árum seinna var hann enn ekki ánægður með þetta og henti út 35 og 75 seðlunum og bjó til í staðinn 45 og 90 seðla vegna þess að hann elskaði töluna 9! Í dag getur maður keypt þessa peninga sem ódýra minjagripi og enginn geymir peninga lengur í þessu landi heldur kaupa þeir gull í staðinn. Hérna eiga fæstir farsíma vegna þess að símkort eru fáránlega dýr og lítið sem ekkert GSM samband í landinu, ætli það sé ekki vegna þess að stóru kallarnir vilja ekki að fólk hringi mikið út úr landi og fræði annað fólk um ástandið. Einnig er internetið ekki upp á marga fiskana því fyrir almenning hér er lokað á flestar erlendar vefsíður og allar þeirra síður ritskoðaðar, en á svona ferðamannagistiheimilum eins og okkar eru þeir búnir að ná að stilla þær þannig að við komumst inn á þessar erlendu síður. Þetta eru bara lítil dæmi um kúgun þessa lands.
Búrma er aðeins að byrja að opnast ferðamönnum núna en það eru samt ótrúlega fáir ferðamenn hér, sérstaklega miðað við það að þetta er „high season“ núna. Það er líka mjög lítið um erlend áhrif hérna, þú finnur engar skyndibitakeðjur hér eða 7-eleven.



Lentum svo í Bangkok, Thailandi annan dag jóla og eftir þrjár lestar og einn strætó (sökum nísku) komum við loks á Khao San götuna okkar góðu.  Fljótlega fórum við svo í MBK verslunarmiðstöðina því Gréta átti stefnumót við systur sína Cake frá því hún var skiptinemi hér í Thailandi fyrir 5 árum síðan. Voru þetta miklir fagnaðarfundir og mikið spjallað, rosalega gaman að hittast loks aftur. Það helsta sem hefur á daga hennar drifið er erfið barátta við krabbamein og lifrabilun en eftir 7 mánaða legu á sjúkrahúsi virðist allt vera komið í samt lag og getur hún haldið áfram að reka ferðaskrifstofufyrirtækið ásamt fjölskyldunni sem þau stofnuðu fyrir 3 árum síðan.
Á morgun koma svo Guðrún Halla og Tommi vinur hennar, hlökkum við gríðalega til að fá meiri félagsskap en þau ætla að fara með okkur til Laos og eyða allavegana með okkur áramótunum þar.
Karlarnir ganga allir i pilsum

Leidin sem vid forum
Og HER eru svo myndir fra Burma

miðvikudagur, 14. desember 2011

Jólakveðjur frá Nepal

Á laugardaginn síðasta, sem var afmælisdagurinn hans Þorra, yfirgáfum við hið yndislega Pokhara. Vorum búin að hafa það virkilega gott þar og mikil afslöppun. Keyrðum þessa fáránlegu fjallavegi til baka til Kathamandu. Maður er alltaf jafn hissa þegar maður er kominn á áfangastað og áttar sig á að maður lenti ekki í neinu bílslysi á leiðinni! Fórum aftur á gistiheimilið sem við höfðum verið á áður og okkur til mikillar „ánægju“ voru haninn og hundarnir jafn sprækir og fyrr með öll sín læti allar nætur.
Fórum beint á kaffihús og fengum okkur kökusneið og heitt súkkulaði í tilefni dagsins. Um kvöldið fórum við svo á Everest Steakhouse og fengum þessa dýrindis nautasteik, eina sem vantaði var bara bernéssósan. Eftir matinn fórum við svo inn á ferðaskrifstofu og pöntuðum okkur ferð daginn eftir í einhverskonar teygjustökksrólu, án þess þó að átta okkur fyllilega á hvað við vorum búin að koma okkur í, mjög auðvelt að panta bara einhverja svona ferð en þurfa svo að taka afleiðingunum seinna.
Vöknuðum sem sagt klukkan 5 næsta morgunn (fyrir okkur ennþá fullgild nótt) og brunuðum eftir þessum „yndislegu“ fjallavegum alla leiðina til landamæra Tíbet þar sem trygjustökksrólið átti að eiga sér stað. Eftir að hafa farið yfir öll öryggisatriði gengum við eins og dæmd,  15 manna hópur, eftir langri brú þar sem við áttum að stökkva fram af. Það var tvennt í boði þarna í þessu 160 metra háa gili, annarsvegar venjulegt teygjustökk sem gefur manni  tvær sekúndur af frjálsu falli og maður skoppar upp og niður eða Rólan sem gefur manni 7 sekúndur af frjálsu falli og maður sveiflast svo meðfram gilinu í um 250 metra á 150 km/klst hraða. Þar sem við höfðum heyrt að rólan væri mun skemmtilegri ákváðum við auðvitað að taka það. Til að fólk geri sé betur grein á þessari hæð niður er þetta aðeins hærra en tvær Hallgrímskirkjur saman, þetta er hæsta róla í heiminum.
Þorri fékk að byrja að stökkva og var virkilega erfitt að horfa á eftir honum niður gilið en mikill léttir þegar hann byrjaði að sveiflast eins og Tarzan þarna lengst niðri. Þorri hélt „coolinu“ áður og á meðan hann stökk en Gréta var aðeins hræddari enda frekar lofthrædd þó hún vilji ekki viðurkenna það. Þetta var alveg ótrúlega gaman og eitt af því besta sem við höfum gert, tilfinningin er ólýsanleg maður frýs alveg í fallinu og svo yndisleg tilfinning að finna fyrir þegar bandið tekur í.
Fengum svo góðan mat eftir stökkið og héldum svo fljótlega aftur með rútunni til Kathmandu, við getum svo svarið það að stundum á leiðinni var maður hræddari inni í rútunni heldur en að standa á pallinum fyrir stökkið.
Á mánudaginn hófst svo skrifstofuvesen og eintómt gaman, eða þannig. Þar sem ríkistjórnin í Búrma ákvað að hætt við að leyfa okkur að koma inn í landið með leyfinu sem við vorum þegar búin að fá þurftum við að fara í sendiráðið þeirra hérna í Kathmandu til þess að fá vonandi vegabréfsáritun. Það var ekkert grín að finna þetta sendiráð þurftum að taka nokkra leigubíla hingað og þangað, þurftum meira að segja að ýta einum þeirra í gang. Eftir nokkra klukkutíma fundum við þó sendiráðið og skildum vegabréfin okkar eftir þar og krosslögðum fingur um hvort við myndum fá áritunina fyrir flugið okkar á morgun eða ekki. Síðan þurftum við aftur að fara á Qatar Airways skrifstofuna sem við erum orðin virkilega þreytt á en þau lofuðu öllu fögru sem var svo auðvitað svikið strax daginn eftir.
Gerðum svo sem ekkert í gær, fórum bara í bakarí, smjöttuðum mandarínur og spiluðum mikið af Rommý.
Í dag gekk allt upp eins og við óskuðum okkur, fengum vegabréfsáritunina til Búrma í vegabréfið, endurgreiðslan frá Qatar skilaði sér og ekkert leigubílavesen, alveg ótrúlegt.

Í fyrramálið eigum við svo flug til Thailands með 11 klukkutíma millilendingu í Mumbai, erum búin að safna þó nokkrum bíómyndum til að gera þá bið bærilegri. Eigum svo að lenda í Thailandi á föstudagsmorgunn, þar gistum við tvær nætur og fljúgum svo til Búrma á sunnudaginn.

Nepal er búið að vera æðislegt í flesta staði og kærkominn „slaka-á-staður“ þar sem við erum búin að vera svo mikið á fullu í öllum löndunum áður.
Hér kemur svo samantektin okkar frá Nepal:

Við eyddum 25,5 klukkutímum í rútum.

Jákvætt:
-Allir rólegir og yfirvegaðir (kærkomið eftir Indland)
-Venjulegt fólk gerir ALLT til þess að hjálpa þér, klárlega hjálpsamasta þjóðin hingað til
-Ótrúleg náttúrufegurð
-Ekkert of leiðinlegir sölumenn
-Endalaust afþreyging í boði (aðallega í formi útivistar)
-Góð steikhús og löglegt að kaupa bjór (þarft ekki að fá hann í tekönnu)

Neikvætt:
-Hvað það er ótrúlega kalt og auðvitað engin hitun í boði, oft kaldara inni en úti
-Rafmagnsleysið er um 8 tímar á dag, sem er reyndar ekkert miðað við 18 tíma á dag í janúar
-Vegakerfið er bara alveg hræðilegt og stórhættulegt
-Getum ekki þvegið þvottinn okkar sjálf því hann þornar ekki í kuldanum og rakanum
-Mikið mistur á þessum árstíma og erfitt að sjá Himalayafjöllin
-Nepalskur matur samanstendur af einum rétt, Dahl Bath og það er ekkert voðalega góður matur en þetta borða Nepalar á hverjum degi allan daginn

Það sem kom mest á óvart:
-Hvað Jackie Chan á marga bræður í Nepal
-Annar hver maður býður manni dóp hér í Kathmandu
-Hvað það er virkilega kalt, bjuggumst við kulda en ekki svona miklum
-Hvað fólki hér er virkilega umhugað um umhverfið sitt
-Hversu mörg börn eru á götunni miðað við öll úrræðin fyrir þau og kom líka á óvart að það voru svona mörg úrræði

Hvað stóð upp úr:
-Chitwan þjóðgarðurinn, fílaböðunin og reiðin
-Paragliding
-Gistingin uppi í fjallaþorpinu
-Teygjustökksrólan
-Þegar við loksins sáum Himalayafjöllin við sólarupprásina

Verðdæmi:
-Hótel (með þráðlausu net, TV, heitri sturtu o.fl.): 900 kr.
-Eins dags ferð í teygjustökksrólu: 11.000 kr.
-Máltíð fyrir tvo: 1200 kr.
-1 l af vatni: 40 kr.
-Leigubíll í 15 mín: 500 kr.
-Bjór 650 ml: 240 kr.
-6 klst. rútuferð: 750 kr.

Kort af leiðinni sem við erum búin að fara, megnið af landinu er bara fjöll og lítil þorp og því ekki margir staðir sem fólk er að ferðast til almennt:

Erum búin að setja inn myndir frá:
Indlandi HÉR
Nepal  HÉR

Og hér má sjá myndböndin af okkur stökkva í teygjustökksrólunni:
Gréta HÉR
Þorri HÉR

Ps. Þar sem þetta er mjög líklega síðasta blogg fyrir jól (höfum heyrt að internetið sé mjög stopult í Búrma og lokað fyrir margar svona alþjóðlegar síður) sendum við öllum jólakveðjur, vonum að allir hafi það notalegt og borði yfir sig af góðum íslenskum jólamat :) 

föstudagur, 9. desember 2011

Leitin að Himalayafjöllunum

Löngu kominn tími á nýtt blogg en við erum bara búin að vera svo slök og haft það gott síðustu vikuna hérna í Pokhara að við höfum hreinlega bara ekki nennt að blogga.
Gréta lá í rúminu alveg fyrstu tvo dagana okkar hér í Pokhara að jafna sig á því sem hún náði sér í í Chitwan, Þorri fór út tvisvar til þrisvar á dag til kaupa mat og sinnti almennri hjúkrun. Það er nóg hægt að gera hér í bæ en þó aðallega langar fjallgöngur og þeir sem þekkja okkur rétt vita að við erum ekkert mikið fyrir svoleiðis sport. Í stað þess að eyða mörgum dögum og vikum í að klífa fjöll til að anda að okkur fjallaloftinu og sjá fallegt útsýni pöntuðum við okkur tíma í „Paragliding“. Á mánudaginn lögðum við því í hann, hoppuðum aftan á pall fyrirtækisjeppans og brunuðum upp stærðarinnar fjall, aldeilis munur að geta keyrt upp á mörg fjöll hér í kring (allavegana þessi „litlu“ sem eru undir 2000m). Þegar upp var komið vorum við krækt við sitthvoran „flugmanninn“  sem löguðu til fallhlífina og þegar allt var tilbúið tókum við tilhlaup í brekkunni, hlupum fram af fjallinu og skyndilega svifum við um í loftinu eins og hinir fuglarnir. Flugmennirnir nota hlýju loftstraumana til þess að hækka og halda við fluginu. Það getur oft verið erfitt að finna réttu straumana og í þau skipti nota þeir erni og aðra ránfugla, sem svífa þarna allt í kring, til að vísa leiðinia. Það var alveg ótrúleg tilfinning að svífa þarna í tveggja kílómetra hæð með fjöll allt í kring og akrana og litlu fjallaþorpin fyrir neðan, tala nú ekki um þegar maður horfir niður á fljúgandi fuglana. Það hefði samt mátt vera betra útsýni þennan daginn en það var þónokkuð mistur og Himalayafjöllin sem eru þarna hjá sáust því ekki. Það kom virkilega á óvart hversu auðvelt er að stýra fallhlífinni en við fengum bæði að taka stjórnina og stóðum við okkur með mikilli prýði :) Þurftum reynar að lenda aðeins fyrr en ætlunin var því Gréta var orðin svo flugveik á þessu sveimi í þessari hæð að það kom ekkert annað til greina. Vorum samt alveg í tæpan klukkutíma í loftinu sem þykir nokkuð ágætur tími því skilirðin fyrir fluginu voru góð þennan daginn. Þetta var frábær dagur enda eitthvað sem maður gerir ekki á hverjum degi, en til þess er þessi ferð nú gerð.
Um kvöldið fórum við út að borða með fólki sem við kynntumst í paraglidingferðinni og ákváðum við að fara með þeim morguninn/nóttina eftir að sjá sólarupprásina upp á fjalli hérna í nágrennininu. Himalayafjöllin eiga víst að sjást best við sólarupprásina og minna mistur. Vöknuðum því fyrir allar aldir eða fyrir klukkan fimm og brunuðum með þeim í leigubíl upp megnið af fjallinu, allt virtist nokkuð bjart og geðrum við okkur miklar vonir um gott útsýni. Það var búið að segja okkur að við þyrftum að labba upp svolítinn spotta til að komast á toppinn til þess að fá besta útsýnið en þegar við byrjuðum hins vegar að labba virtist þetta ekki vera svo lítill spotti. Þetta var rúmleg klukkutíma ganga í bratta, þreytt og í skíta kulda bara til þess að sjá að umhverfið var skyndilega þakið mistri og ekki eitt einasta Himalayjafjall að sjá. Biðum þarna uppi í góðan tíma í von um að það myndi eitthvað birta til en það gerði það ekki þannig að þetta var hálf tilgangslaust. Gangan niður var þó mun ánægjulegri því sólin var komin upp og þar að leiðandi var búið að birta svo mikið til og sáum við vel grænu fjöllin allt í kring og fullt af litlum þorpum og sveitabæjum, þannig að þetta var nú ekki svo tilgangslaust eftir allt saman, hver hefur ekki gott af fjallgöngu svona í morgunsárið??
Þorri fór í jólaklippinguna :)
Gréta að sveima um loftin



Við ásamt Hiro og Alex
Þar sem við vorum orðin nokkuð leið á að hanga aðgerðarlaus í Pokhara ákváðum við að fara í aðra fjallferð og gista þar yfir eina nótt. Við drógum Nýsjálendinginn Alex og Japanann Hiro með okkur í hana. Fengum jeppa til að skutla okkur upp fjallið sem var í þónokkurri fjarlægð frá Pokhara, leiðin var afar falleg en brött og langt frá öllu borgarlífi. Eftir mjög hossótta ferð komum við á virkilega fallegan stað í litlu þorpi efst á einhverju fjalli sem við gleymdum alveg að spyrja hvað héti en við vorum þarna í 1600m hæð sem er náttúrulega bara smá hóll í Nepal. Útsýnið var ótrúlega fallegt þar sem Himalayafjöllin gnæfðu yfir allt í kring, loksins fengum við að sjá þau eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir. Staðurinn sem við gistum á var rosalega kósý með stórum og fallegum garði þar sem fólkið á bænum ræktuðu allt milli himins og jarðar og nota bara sitt eigið hráefni í alla matargerð. Þarna safna þau kúamykju til að búa til gas fyrir eldamennsku og nota sólarrafhlöður fyrir rafmagn.
Jólastjarnan vex hér allsstaðar
Þegar við mættum á staðinn var verið að taka upp bollywoodtónlistarmyndband þar sem algjör gúmmítöffari sýndi væmna takta fyrir framan fallega konu í sarifötum. Á meðan hann heillaði alla í sveitinni upp úr skónum tókum við göngutúr um þorpið, skoðuðum lítinn skóla, týndum mandarínur af trjám (já, hérna eru sko jólamandarínur, það eina sem minnir okkur á jólin.. erum búin að borða nokkur kíló) og litum við á nokkrum bæjum þar sem fólk var ýmist að hreinsa hrísgrjón eða vinna á litlu ökrunum sínum. Hittum mörg börn sem voru virkilega spennt að hitta okkur, sungu og dönsuðu fyrir okkur og heimtuðu að láta taka myndir af sér og prófa sjálf myndavélina.
Við fjórmenningarnir tókum svo gott spilakvöld sem endaði svo með varðeld með litlu nepölsku fjölskyldunni sem býr þarna. Þetta var yndisleg fjölskylda og sungu þau nokkur þjóðlög og tóku nokkur spor í kringum eldinn, allt saman mjög heimilislegt og notalegt. Eftir mjög skemmtilegt kvöld steinsofnuðum við í ískulda undir þremur þykkum teppum í litla kofanum okkar með trefil um hálsinn og húfu á hausnum.
Annapurna, 8.091m
Ákváðum að taka tvö með þessa sólarupprás en í þetta skiptið þurftum við bara að stíga út á veröndina okkar þar sem Himalayjafjöllin blöstu við okkur í allri sinni dýrð, skærbleik á litinn. Svona smá fróðleiksmoli þá á Nepal átta af tíu hæstu fjöllum heims (öll yfir 8000m). Við sáum þarna þrjú af þessum átta og er mjög erfitt að átta sig á hvað þetta er virkilega stórt, eitt þessara fjalla þarna í kring er friðað og má því enginn klífa það, ástæðan fyrir því er að fjöldinn allur af fólki reyndi það en enginn komst lifandi niður aftur. Það er mjög aðdáunarvert að vita af fólki sem leggur leið sína á þessi fjöll.
Aðal gæjinn á fjallinu

Lítil sveitastelpa að heilsa okkur
Deginum eyddum við í garðinum að spila og um leið að brenna all hressilega í framan þar sem við áttuðum okkur ekki alveg á því að maður brennur mjög auðveldlega í svona mikilli hæð. Síðan var kominn tími til að yfirgefa þennan æðislega stað en við hefðum glöð viljað vera lengur en það er kominn tími til að koma sér aftur til Kathmandu svo við náum að útrétta ýmislegt áður en við förum héðan. Það er ekki hægt að segja að við höfum tekið auðveldu leiðina aftur til Pokhara því við ákváðum að labba niður fjallið ásamt tveimur mönnum úr þorpinu. Heimamönnum finnst þessi ganga nú lítið mál þar sem börnin sem búa á fjallinu ganga upp og niður þetta fjall sex daga vikunnar til þess að sækja skóla í bænum fyrir neðan það.  Veit ekki hvort íslenskir foreldrar myndu sætta sig við að senda börnin sín að klífa fjall sem er 1600m með þverhnýpi við hvert fótmál. Þau hljóta því að vera í fanta góðu formi og þessi þjóð þarf ekkert að hafa áhyggjur af því að vera á lista yfir að vera ein feitasta þjóð heims. Allavegana á meðan svitinn lak af okkur blésu heimamennirnir tveir ekki úr nös. Fengum svo far með þeim hingað til Pokhara og á morgun munum við taka rútuna aftur til Kathmandu þar sem það mun vera fyrsti afmælisdagurinn hans Þorra í mörg ár þar sem hann er ekki að lesa fyrir próf.
Fyrir fjallaferðina vorum við á spjalli við konu eiganda gistiheimilisins okkar þar sem hún var með lítinn fimm ára strák með sér sem ljómaði af gleði í nýju skólafötunum sínum með glænýja skólatösku á bakinu. Þá kom í ljós að fyrir viku síðan hefði kona frá munaðarleysingjahæli komið með þennan litla gutta til hennar og skilið hann eftir hjá henni og þar að leiðandi tóku hjónin hann inn á heimilið sitt því þau höfðu það ekki í sér að skilja hann eftir einann á götunni. Þau gáfu honum að borða því hann var banhungraður og þeim fór að þykja svo vænt um hann að þau eru núna búin að taka hann alveg að sér og hann byrjaður að kalla þau mömmu og pabba. Þau eiga fimm börn fyrir og eiga frekar erfitt núþegar en þetta var bara eitthvað svo falleg saga og hann var svo ánægður með nýja dótið sitt í nýju fjölskyldunni sinni. Þetta var sama fjölskylda og var með okkur upp á fjallinu en þau eru bara eitthvað svo yndisleg, þessi strákur er einn af þessum heppnu götubörnum. Þegar við komum svo niður af fjallinu fórum við og keyptum nokkrar bækur og blýanta fyrir litla Filman, það þarf svo lítið til að gleðja.

fimmtudagur, 1. desember 2011

Á fílsbaki um frumskóga Nepals



Það var eins og að vera komin í annan heim þegar við lentum í Nepal á miðvikudaginn. Loftið minnti okkur svolítið á það þegar maður lendir á Keflavíkurflugvelli eftir sólarlandaferð, ískalt en frískandi. Í vegabréfseftirlitinu þurftum við að skaffa okkar eigin passamynd fyrir vegabréfsáritunina því ekki voru myndavélar eins og í öðrum löndum sem við höfum komið til og færibandið var ekki notað fyrir töskurnar heldur hafði þeim bara verið hent á gólfið þar sem fólk rótaði um eftir eigum sínum, enda rafmagnslaust. Þetta var allt mjög frumstætt og frábrugðið öðrum flugvöllum sem við höfum komið til. Við fundum okkur hótel og skriðum undir ískalda sæng í fyrsta skipti í tæpa þrjá mánuði.
Á Fimmtudaginn röltum við um þröng stræti Kathmandu og reyndum að ná áttum í þessari nýju borg. Hverfið sem við gistum í er hálfgerður markaður og þar eru litlar búðir útum allt að selja sömu hlutina á sama verðinu. Við fundum mun á Nepal og Indlandi um leið og við stigum út af hótelinu því þrátt fyrir alla sölumennina fengum við að ganga um óáreitt, einnig virðist fólk nota klósett hér í landi í stað þess að gera þarfir sínar á götuna við lappir næsta manns og er lyktin hér því mun skárri. Staða götubarna hér í Nepal er nokkuð sérstök en í öllum ferðabókum eru ferðamenn beðnir um að gefa þeim ekki neitt vegna þess að fjöldinn allur af hjálparsamtökum eru til staðar fyrir þessi börn sem eru að reyna að hjálpa þeim en mörg barnanna kjósa hinsvegar frekar að búa á götunni og betla heldur en að vera í skóla vegna þess að það er svo auðvelt að komast af með því að betla. Á göngum okkar um borgina höfum við einmitt séð mjög mörg börn sitjandi á ruslahaugum starandi tómum augum út í loftið og sniffa lím. Á göngunni römbuðum við inn á Durbar torgið sem er þakið alls konar hofum og skemmtilegheitum. Við tókum myndir til sönnunar að við höfðum farið og fundum okkur síðan stað til að borða á. Okkur langar að smakka nepalskan mat en hann er erfitt að finna á veitingastöðunum sem bjóða upp á nánast allt annað en nepalskan.
Það er margt áhugavert að skoða í Kathmandu dalnum og ákváðum við að kanna helstu staðina á sunnudeginum, fyrst á dagskrá var boudhanath stupa sem er stærsta „stupa“ í Nepal og heilagast Tíbetskra búddahofa utan Tíbet, þarna var fullt af pýlagrímsmunkum að kyrja og voða kósý. Því næst var ferðinni heitið til Pashupatinath sem er stórt svæði með fjölda hofa á víð og dreif, við höfðum að vísu meira gaman af öpunum og dádýrunum sem spígsporuðu þarna um. Þarna rennur líka heilagasta á Nepals og rétt eins og í Varanasi í Indlandi var verið að brenna lík út um allt með tilheyrandi lykt. Það var skondið að fylgjast með líkbrennslunni þarna þar sem fjölskyldur voru að brenna ættingja sína á bakkanum, öskunni var síðan hennt út í ánna og nokkrum metrum neðar í ánni stóðu nokkrir karlar og leituðu eftir skartgripum og öðrum verðmætum sem líkin gætu hafa verið með á sér við brennsluna. Um kvöldið borðuðum við síðan á stað þar sem nepölsk rokkhljómsveit hélt uppi fjörinu. Mánudagurinn fór allur í leiðindarstúss en ferð á pósthús tekur alltaf mjög langan tíma, sérstaklega í þetta skiptið þar sem við vorum að fara með allar jólagjafirnar og þurfa þau að kíkja á allt innihaldið áður en maður fær leyfi til að senda það. Síðan fórum við á Qatar Airways skrifstofuna í von um að fá bæturnar sem þeir lofuðu okkar en ekki gekk það í þetta skiptið svo við sjáum fram á að þurfa að fara enn og aftur næst þegar við förum til Kathmandu, einstaklega óliðlegt flugfélag.
Það var alveg ótrúlega mikið um hænsn og flækingshunda í Kathmandu og fengum við að finna fyrir því á hverri nóttu því hani nágrannans var mjög vanstylltur og byrjaði að gala um 02:30 allar nætur, þetta var ekki hið týpíska hanagal sem Tumi vaknar við alla morgna heldur er þetta mjög hás hani sem rembist við að garga alla nóttina hásri röddu okkur til mikillar ánægju. Haninn espir síðan alla hundana með sér sem geltu í kór, við óskuðum okkur helst að einn hundanna myndi éta hanann sem myndi síðan standa í honum.
Sunnudaginn tókum við eldsnemma og drifum okkur á rútustöðina með Kínverja í eftirdragi sem ekki gat stunið upp einu einasta orði á ensku. Eftir að hafa skilað honum af okkur á réttan stað fundum við rútuna okkar sem var ekki beint traustvekjandi. Ferðinni var heitið til Chitwan þjóðgarðsins í suðurhluta Nepals. Ferðin var mjög eftirminnileg þar sem við keyrðum upp og niður hvern fjallveginn á fætur öðrum, þetta voru örmjóir vegir með hundruð metra þverhnýpi fyrir neðan. Vegurinn var rétt rúmlega einbreiður og mikil umferð, aðallega rútur og vörubílar. Í hvert skipti sem bílstjórinn okkar bremsaði á bröttum veginum ískraði svo í bremsunum að öll rútan tók andköf. Þótt ótrulegt megi virðast komums við heil og höldnu á áfangastað þar sem okkur var komið fyrir á palli jeppa og okkur keyrt á rétt hótel. Hótelið okkar var mjög fínt og stóð við bakka fallegrar ár fullri af krókódílum. Hingað komum við í von um að hitta fyrir fíla, nashyrninga, krókódíla og tígrisdýr ef við værum heppin. Dvöl okkar byrjaði á göngutúr um skóginn þar sem við gengum að fílastýju og horfðum á sólina setjast við bakka árinnar. Um kvöldið var boðið upp á danssýningu þar sem dansar ættbálkana voru sýndir. Um kvöldið urðu fyrstu alvöru veikindi ferðarinnar að veruleika og eyddi Gréta nóttinni í að kasta upp á meðan Þorri svaf værum svefni. Morguninn eftir þurfti Gréta að gjöra svo vel og rífa sig fram úr því okkar beið stíf dagskrá sem ekki varð haggað. Fyrst á dagskrá var ferð um frumskóginn á fílsbaki, þegar við sögðum „bílstjóranum“ að við hefðum ekki séð nashyrninga daginn áður fór hann í ham og ætlaði sér að finna fyrir okkur nokkur stykki. Hann elti fótspor djúpt inn í þéttan skóginn í gegn um tré full af kóngulóarvefjum með feitum og pattaralegum kvikindum í þeim miðjum, þarna sátum við og plokkuðum vefinn úr hárinu okkar, Grétu og hennar ógleði til mikillar ánægju. Eftir tveggja tíma reið komum við aftur á byrjunarreit og höfðum enn ekki séð einn einasta nashyrning, bara skítinn þeirra og fótspor en dádýrin og kródódílarnir sem við sáum voru þó ágætis tilbreyting frá áttfættlunum. Eftir gögnutúrinn fórum við síðan ásamt fílnum í bað í ánni við hótelið þar sem við höfðum daginn áður séð fjöldann allan af kródódílum. Það var ótrúlega gaman að láta fílinn baða sig, við sátum á bakinu á honum og hann sprautaði vatni yfir okkur með rananum, síðan lagðist hann í ánna og við skrúbbuðum hann og nudduðum. Eftir hádegi fórum við síðan í siglingu á ánni sem rann meðfram hótelinu. Báturinn okkar var stórt tré sem búið var að skafa innan úr og koma fyrir litlum sætum í, báturinn var ekki sá stöðugasti og virtist alltaf vera við það að velta á hliðina en þar sem áin var stútfull af krókódílum var okkur ekkert alveg sama. Daginn áður hafði leiðsögumaðurinn okkar einmitt sagt okkur að fólk verði reglulega fyrir krókódílaárásum við ánna og væru það einmitt einna helst kæjak karlarnir sem lenntu í þessum árásum, traustvekjandi! Allt fór þetta nú vel og fengum við að sjá krókódíla bæði á landi og á sundi í eins mikilli nálægð og maður treystir sér í. Eftir að hafa athugað hvort allir útlimir væru á sínum stað fór leiðsögumaðurinn yfir nokkur öryggisatriði ef við skildum rekast á nashyrninga, tígrisdýr eða birni í frumskóginum. Það er nefnilega þannig að ef maður mætir nashyrningi á maður að hlaupa í sikk sakk og helst klifra upp í tré, það gengur hins vegar ekki ef maður hittir fyrir tígrisdýr sem eru mun sneggri og betri að klifra en við, besta leiðin til að sleppa við árás frá tígrisdýri er að ná augnsambandi við það og bakka hægt og rólega. Hitti maður björn á að búa til læti og lemja hann í trýnið, leiðsögumaðurinn var vopnaður bambus priki og tilbúinn í átök. Eftir nokkrar hetjusögur vorum við orðin ansi spennt og alveg viss um að nú væri komið að því að við fengum að sjá nashyrningana sem voru ástæðan fyrir því að við komum. Afrakstur tveggjatíma gögnutúrs um frumskóginn var hinsvegar sá að við höfum núna séð fótspor eftir nashyrninga og tígrisdýr, ásamt nashyrningakúk sem við vitum núna ansi margt um. Hins vegar sáum við mikið af fílum, reyndar ekki villtum því þessir voru hlekkjaðir á fótunum og notaðir til undaneldis í elephant breeding center. Að vísu vorum við svo heppin að á meðan við vorum þarna laumaði sér einn villtur karlkyns fíll að einni stýjunni, þá varð uppi fótur og fit og kepptust starfsmennirnir við að kveikja eld til að hræða hann í burtu. Kvenkyns fílarnir sýndu honum þó engan áhuga og höfðu ekki augun af matnum á meðan á öllu þessu stóð. Þarna var meðal annars að finna einn sjö mánaða gamlan fílsunga og þriggja ára tvíbura en samkvæmt leiðsögumanninum okkar eru þetta einu tvíburafílaungarnir í heiminum. Fílar eignast bara einn kálf í einu og hafa tvíburafílar aldrei lifað svona lengi svo vitað er. Eftir langan og viðburðaríkan dag var okkur boðið upp á ekta nepalskan mat, við vorum svosem ekki að missa af miklu en hann var engu að síður mjög góður.

Í dag áttum við enn eina rútuferðina. Í þetta skiptið var ekki hægt að halla sætunum og rútan full af háværum Kínverjum og Nepölum sem fór ekki vel í ógleðina hennar Grétu sem rétt hafði ferðina af. Gréta sem verður bílveik á leiðinni frá Árbænum til miðbæjar Reykjavíkur átti ekki auðvelt með þessa hlykkjóttu fjallaleið. Núna erum við stödd í Pokhara í norðurhluta Nepal sem er víst svipuð borg og Kathmandu nema bara rólegri. Næstu daga munum við taka rólega í von um að Gréta jafni sig sem fyrst.