mánudagur, 30. janúar 2012

Á stríðsslóðum


Hríðskotapía
Við skildum við ykkur daginn fyrir gamlárs í Nha Trang og erum við búin að ferðast svolítið í millitíðinni. Gamlársdagsmorgunn fórum við með sendiferðabíl til lítils krúttlegs bæjar í miðhálendum Víetnam sem heitir Dalat.Þegar við komum var eiginlega búið að loka öllu og ekki auðvelt að finna gistiheimili þar sem enginn heimamaður vill fá ferðamenn til að sjá um svona yfir háhátíðirnar. Í flestum tilfellum var horft á okkur eins og við værum einhver skrímsli sem væru að ráðast inn á yfirráðarsvæði þeirra og þau hristu höfuðið í hryllingi þegar við spurðum hvort þau ættu laust herbergi. En eftir þónokkra leit fundum við eitt gistiheimili sem við fengum heimild fyrir að gista á. Þetta var mjög fallegur bær og fann maður í loftinu allan hátíðarspenninginn fyrir áramótin, allir að flýta sér að kaupa lukkumandarínutré, kökur og annað fyrir fjölskyldur sínar. Þar sem flest var lokað þennan daginn löbbuðum við í kringum stöðuvatnið og fórum í fallegan blómagarð, borðuðum svo núðlusúpu á eina matsölustaðnum sem var opinn. Á nýársdag ætluðum við að reyna að fara í einhverja skoðunarferð eða að leigja okkur mótorhjól en það var alveg vonlaust dæmi og bjartsýni okkar varð að engu í lokinn.
Crazy House hótelið
Fórum hinsvegar að skoða eitt stórkostlegasta hótel sem við höfum séð en það er kallað „Crazy house“, það er byggt eins og eitthvað ævintýri þar sem herbergin eru mismunandi byggð með risamaurum, kengúrum með gljáandi rauð augu og tígristýrum. Svo labbaði maður upp og niður stiga sem voru byggðir eins og í trjáhýsi, þetta var mjög skemmtilegt að skoða en að gista nótt þarna var ekki alveg á viðráðanlegu verði fyrir okkur.Þetta reyndist vera eina sem við gátum gert þennan daginn og banhungruð leituðum við að einhverjum stað með næringu fyrir okkur en eftir mikla leit fundum við loks stað með núðlusúpur og var það eins og himnasending að fá mat. Ákváðum að þetta væri komið gott af þessum bæ og má segja að væntingarnar höfðu verið meiri því okkur langaði svo að ferðast um hálendið á mótorhjólum því það á víst að vera gríðarlega fallegt en þetta gefur manni bara ástæðu til að koma aftur, ekki satt?
Næst á dagskrá var svo lítill strandbær sem heitir Mui Ne en hann er þekktastur fyrir alla „Kite surferana“ en þetta á víst að vera einn besti staður í heiminum til þess að stunda þá íþrótt. Fyrir þá sem ekki vita þá ertu sem sagt á brimbretti en heldur í risastóran flugdreka og þeytist um sjóinn á þessu, ótrúlegt en satt prófuðum við þetta ekki í þetta skiptið heldur sóluðum okkur frekar á ströndinni heilu og hálfu dagana Þorra til mikillar „gleði“, en það var svo sem ekki mikið annað í boði í þessum bæ. Reyndar fórum við í smá skoðunarferð síðasta daginn um umhverfið hér í kring en það samanstendur einfaldlega af eyðimörkum. Byrjuðum á að labba eftir litlum læk með sandsteina allt í kring, voðalega fallegt.
Hver hefur ekki látið sig dreyma um að vera á baki fugls og sjá allt með þeirra augum, við fengum þann draum uppfylltann þann daginn þar sem við fórum á bak strúts. Þar sem þeir fljúga nú ekki sáum við bara sandinn fyrir neðan þá en þrátt fyrir það vorum við á fulgsbaki og það gerist ekki á hverjum degi. Eftir strútsævintýrið fórum við að skoða hvíta eyðimörk, þar á eftir rauða eyðimörk og má segja að við höfum verið vel sandblásin eftir góðan dag í sand- og strútsleiðangrinum.
Strútsknapinn mikli
Morguninn eftir var förinni svo heitið til höfuðborgarinnar Ho Chi Minh City en það á víst að vera borg með einni brjáluðustu umferð Asíu og allt á ys og þysi en svo kom á daginn að þetta er bara nokkuð róleg borg en nóg að gera, okkur líkar allavegana mun betur við hana en við bjuggumst við þar sem við erum ekki mikið fyrir svona stórborgir. Við gerðumst meira að segja svo stórborgarleg og skelltum okkur til tannlæknis, þar sem það kostar um 15.000 krónur á Íslandi að opna munninn er það alveg frítt hérna en það kom á daginn að Gréta þarf að koma aftur að laga eins og tvær tennur en það mun ekki kosta nema 2.500 krónur að gera við það, langar ekki vita hvað það kostar á Íslandi þannig að það er um að gera að gera þetta hérna á meðan maður hefur tækifæri til þess en þessi stofa leit voðalega fín út og tannlæknarnir voru örugglega með leyfi. Þetta hefði samt aldrei getað farið verr heldur en það sem ónefndur tannlæknir á Blönduósi gerði hér um árið þegar hann skildi eftir bómul á milli fyllingar og tannar hjá Grétu, það þarf varla að taka það fram að tönnin eyðilagðist.
Dagurinn í gær var svo mjög áhugaverður og við lærðum rosalega margt um stríðið hér í Víetnam. Við fórum í skoðunarferð að Cu Chi göngunum hérna norður af Ho Chi Minh City en þetta voru göng sem Víetnamarnir grófu til að verjast árásum Bandaríkjamanna. Göngin voru alveg ótrúlega þröng en þau voru á köflum á þremur hæðum og 200 kílómetrar að lengd, alveg að landamærum Kambódíu. Þeir grófu þessi göng öll í höndunum með litlum skóflum og banbuskörfum eftir það fleygðu þeir jarðveginum út í ánna. Í göngunum var allt til staðar, eldhús, sjúkrahús, vopnabúr og fleira. Þeir voru eitthvað svo klárir þeir sem byggðu þetta því þarna var allt út í gildrum ef Bandaríkjamenn reyndu að komast inn fyrir einnig höfðu þeir gert göngin þannig að allt í einu þrengdust þau svo stóru Bandaríkjamennirnir myndu festast í þeim. Svo urðu Víetnamarnir einstaklega þakklátir þegar Bandaríkjamenn ætluðu að hræða þá upp úr göngunum með að handa fullt af snákum niður í holurnar því þar fengu heimamenn ókeypis mat á silfurfati.
Inngangur í göngin

Þorri í göngunum

M16
Þeir gerðu loftgöt á 15 metra fresti sem á yfirborðinu leit út fyrir að vera holur eftir termíta eða mýs, þá voru þeir líka með op út í ánna þar sem þeir gátu flúið göngin ef á þurfti. Þúsundir barna fæddust líka og ólust upp í þessum gögnum og var leiðsögumaðurinn okkar eitt þessara barna. Það „fyndnasta“ við þetta allt saman var að göngin þeirra lágu upp við og undir stærstu bækistöð Bandaríkjamanna en þeir höfðu auðvitað ekki hugmynd um það. Við fengum að fara sjálf ofan í göngin sem voru fáránlega þröng þrátt fyrir að hafa verið stækkuð svo ferðamenn kæmust nú inn í þau, þetta er allavegana ekki fyrir fólk með innilokunarkennd það er alveg á hreinu.
 Eftir að hafa fræðst heilmikið um söguna og staðinn fengum við tækifæri til að skjóta úr nokkrum vel völdum byssum sem notaðar voru í stríðinu, eftir nokkra umhugsun völdum við að skjóta úr M16 hríðskotabyssu og fjárfestum í skotum. Það var mjög skrítin tilfinning að vera á þessu svæði og taka þátt í skothríðinni, svolítið óviðeigandi en hversu oft fær maður tækifæri til þess að skjóta úr hríðskotabyssu? Á leiðinni til baka stoppuðum við svo í galleríi þar sem fjöldinn allur af stríðsfórnalömbum, bæði fyrstu og annars kynslóðar, vann linnulaust við að gera allskonar fallega muni til að selja.
Eftir þessa merkilegu skoðunarferð vorum við enn með pláss fyrir frekari fróðleik og enduðum daginn á því að fara á stríðsmynjasafnið sem var hreint út sagt ótrúlegt, erum svo endalaust þakklát fyrir að vera ekki frá Bandaríkjunum ekki viss um að maður hefði getað skoðað allan þennan hryllig vitandi til þess að landið manns hafi staðið fyrir flestra þessara hörmunga. Þeir drápu svo ótrúlega mikið af saklausu fólki, konum og börnum og þetta „seka“ fólk sem þeir misþyrmtu og drápu voru bara með ólíkar stjórnmálaskoðanir en þeir, ótrúleg afskiptasemi í einni þjóð. Leiðsögumaðurinn okkar sagði líka fyrr um daginn að fyrir þeim snérist þetta stríð ekki um kommúnisma eða aðskilnaðar suður og norður Víetnam heldur lýðræði og frelsi því þeir höfðu verið undir Kínverjum og Frökkum í yfir 1000 ár og þeim fannst Bandaríkjamenn vera komnir til að taka yfir landinu sínu, loksins þegar þeir höfðu losnað undan Frökkunum. Jæja, nóg komið af fróðleiksstund Grétu en þetta safn var alveg ótrúlegt og náttúrulega enn ótrúlegra að þetta hafi verið staðreindin fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Fólk er ennþá að þjást eftir stríðið vegna efnavopna sem Bandaríkjamenn notuðu og enn eru börn að fæðast með engar hendur eða fætur og mikið heilaskemmd, þá voru birt á safninu mörg bréf frá þessu vanskapaða fólki þar sem það er að biðja Barak Obama um hjálp því þeir virðast ekki hafa neinn áhuga á að bæta fyrir þetta fáránlega stríð þeirra.
Stríðshrjáðir listamenn
Þessi börn eru oft á tíðum geymd öskrandi í búrum alla daga og þetta er að gerast núna 2012. Samt sem áður brosir þessi þjóð til hvíta mannsins (gera ekki mun á hvort um Evrópubúa eða Ameríkana er að ræða) og vilja allt fyrir hann gera, þeir erfa þetta ekki við þá heldur vilja bara gleyma þessu og halda áfram með lífið sitt.
Jæja, nóg komið af stríði nú fer að líða undir lok okkar ferð til Víetnam og við förum fljótlega yfir til Kambódíu. Í dag fór Gréta til tannsa en annars ætlum við bara að taka því rólega í dag og á morgun ætlum við að skoða borgina aðeins betur, síðan er förinni heitið í þriggja daga skoðunarferð um Mekong Delta sem endar á bátsferð til Phnom Phen í Kambódíu. Þangað til næst..

Alltaf gott í matinn

laugardagur, 21. janúar 2012

Gleðilegt nýtt drekaár


Dvöldum bara eina nótt í Ninh Binh því við vorum orðin svo örvæntingafull að komast í betra veður því þar eins og annarsstaðar í norður Víetnam var þoka, rigning og kalt alla daga. Létum samt veðrið ekki stoppa okkur í að skoða þetta fallega svæði í kringum þennan annars óspennandi bæ. Þetta var svolítið eins landslag og í siglingunni okkar áður í Bai Tu Long bay, grænir kalksteinsklettar (e. Limestone) allt í kring. Leigðum okkur mótorhjól fyrir daginn klædd fallegu regnslánnum okkar tilbúin að mæta rigningu dagsins. Brunuðum um fallegar sveitir og lítil þorp, ætluðum okkur svo að skoða eitt hof þarna en hvort sem það var mótorhjólið eða kunnátta okkar á því komumst við ekki upp að því vegna mikillar drullu og leðju. En eins og með hof yfir höfuð skoðum við þau aðallega af skildurækni frekar en áhuga þannig að við grétum þetta ekki mikið. Fórum í staðinn í mjög fallega siglingu á æðislega fallegu stöðuvatni með risaháa kletta allt í kring, þarna voru flest fjöllin hol að innan svo við silgdum í gegnum þau mörg. Um kvöldið fórum við svo út að borða með mjög furðulegu samansafni af allskonar fólki, það var þögla kínverska pían, snarklikkaður heimsspekingur frá Spáni, miðaldraður furðufugl frá Hollandi, venjuleg stelpa frá Ástralíu og svo við.. vitum svo sem ekki hvað við erum á þessum lista. Þurftum svo frá að hverfa þegar háværar umræður um fasteignagjöld í heiminum byrjuðu því við áttuðum pantaða rútuferð til Hue þarna seinna um kvöldið.
Sváfum alveg ótrúlega vel í svefnrútunni og mættum hress tilbúin að takast á við næsta bæ sem hét eins og áður sagði Hue en þar var auðvitað rigning svo við skelltum okkur aftur í regnslánnar og skoðuðum það sem bærinn hafði upp á að bjóða. Við vissum í rauninni ekki neitt um þennan bæ áður en við komum en þetta er svona bær þar sem flest allir stoppa í þannig að við ætluðum ekkert að vera neitt öðruvísi og stoppuðum þar líka. Komumst svo að því þegar leið á daginn og eftir smá lestur í elsku Lonely Planet bókinni að þessi bær höfðaði ekki mikið til okkar, mikið af hofum og fornborgum löngudauðra keisara. En til þess að gera eitthvað yfir þennan grámyglulega rigningardag ákváðum við að skoða fornborg löngudauðra keisara. Löbbuðum þar um í dágóðan tíma, rústir eftir rústir og í lokinn vorum við sammála um að gullfiskarnir í tjörninni voru mest spennandi þarna inni og gáfum þeim því að borða og gerðum mikla veislu úr. Þrátt fyrir áhugaleysi og rigningu skemmtum við okkur nokkuð vel þennan daginn. Pöntuðum okkur samt rútu að næsta bæ strax næsta morgunn.
Hoi An var næst á dagskrá og er þekktur fyrir alla klæðskerana sína. Strax á fyrsta degi vorum við mætt til eins klæðskerans sem fólk hafði mælt með fyrir okkur. Við fengum gríðarþykka vörulistabæklinga og einfaldlega bentum á það sem okkur langaði í, völdum efnið og þar á eftir voru tekin mál af okkur og við áttum að koma svo í mátun daginn eftir. Gréta pantaði sér kjól, peysu, kápu og sérsmíðuð stígvél á meðan Þorri lét sníða á sig jakkaföt, skyrtur og frakka og það má segja að þetta hafi verið gjöf en ekki gjald nánast bókstaflega. En þetta var nú ekki nóg svo Þorri fór og pantaði sér gleraugu sem kostuðu tæplega 10% af því verði sem þau myndu kosta á Íslandi.
Þorri hjá augnlækninum
Daginn eftir var allt saman mátað og látið laga það sem þurfti að laga fengum svo allt afhent um kvöldið, allir gríðalega sáttir og þetta leit meira að segja út fyrir að vera vandað. Sennilega draumur hverrar stúlku að komast í þennan bæ þar sem þú getur komið með mynd af hverju því sem þig langar í og þeir gera það
nákvæmlega eins, svo borgar maður nánast ekkert fyrir það, en jæja svo kemur það í ljós seinna hvernig gæðin eru. Þetta var svo fyrsti dagurinn okkar í Víetnam sem sást til sólar og gerði það allavegana Grétu mjög hamingjusama, sérstaklega þar sem það var sundlaug við hótelið okkar. Við skelltum okkur því á sólbekkina og Gréta er búin að læra það að ef Þorri á að liggja þolinmóður við hliðiná henni og hlustað á brúnku vitleysuna í henni þá verður hún einfaldlega að láta bjórinn flæða til hans, það snarvirkar og allir eru sáttir. Fórum síðan á markaðinn í bænum og var margt skemmtilegt að skoða og kaupa þar, þetta var bara eitthvað svo krúttlegur bær í alla staði svo ekki sé minnst á kökurnar á kaffihúsunum. 
Það var einhver slappleiki í Grétu næsta dag þannig að við tókum því bara rólega upp á herbergi og gerðum lítið annað en að horfa á Discovery en það er ágæt leið til að hlaða aðeins batteríin því við vorum búin að vera alveg á fullu síðan við komum til Víetnam. 
Næsta kvöld var svo svefnrútuferð til Nha Trang þar sem við erum enn og hér lætur sko sólin sig ekki vanta, en það er bara svo gott að vera sólarmegin í lífinu.. Ok, við getum samt ekkert verið að kvarta þið með allan snjóinn ykkar heima á Íslandi, en við erum ekki þar svo við megum alveg vera með og kvarta svolítið líka. Löbbuðum mikið hér um bæinn fyrsta daginn en bærinn liggur við gríðarlega langa strandlengju. Í gær fórum við í rosalega flottan vatnsrennibrautargarð og tívolí sem er hér á eyju rétt fyrir utan bæinn, tókum heimsins lengsta „cable car“ eða snúru bíl (mjög lausleg þýðing, vitum ekki hvort það sé til íslenskt orð yfir þetta) en það flutti okkur yfir sjóinn frá meginlandinu yfir til eyjarinnar. Það má segja að við höfum fundið börnin í sjálfum okkur og renndum okkkur hverja ferðina á eftir annarri í sundlaugagarðinum og létum skamma okkur í gegnum gjallarhorn í sjónum, kútarnir máttu víst ekki fara út í sjóinn, dísus aldrei má maður neitt. Eftir að hafa æslast í sundinu tók tívolíið við og gríðarlega flott gosbrunnasýning ásamt því að við skelltum okkur í 4D bíó og óteljandi spilakassa og klessubíla. Þar sem ekki var mikið um gesti þennan daginn vorum við bara tvö í rússíbananum og gátum því farið eins margar ferðir í röð og við vildum og fengum klessubílabrautina útaf fyrir okkur.
Sáttur með afraksturinn
Vorum þarna því frá 10-21 og dauðþreytt eftir allt saman en eins og sönnum Íslending sæmir vöktum við eftir handboltaleiknum (byrjaði um miðnætti) einungis til þess að verða fyrir miklum vonbrigðum.
Rólegur eftir bjórinn
Í dag ætluðum við í skoðunarferð hér um eyjarnar en þar sem öryggisvörðurinn í lobbýinu í gær var svo blindfullur gátum við ekki pantað þessa ferð hjá honum því við skildum ekki orð af því sem hann sagði hann var svo þvoglumæltur. Við létum okkur því bara nægja í dag að liggja á ströndinni hérna fyrir framan hótelið okkar.
Á morgun er svo gamlársdagur og er mikill spenningur í heimamönnum, mikið drukkið og mikið sungið karaókí. Nýárið þeirra telur þrjá daga frá 23.-25. janúar en þá er víst allt lokað og getur jafnvel verið erfitt að finna matsölustaði yfir þennan tíma. Þessi hátíð er svipað mikilvæg fyrir þau og jólin fyrir okkur. Á þessum tíma koma allar fjölskyldur saman og borða mikið af mat þetta er einnig einu frídagar ársins fyrir lang flesta en samkvæmt því sem heimamenn hafa sagt okkur vinna flestir alla daga ársins nema þessa þrjá. Held að við getum prísað okkur sæla með okkar tvo frídaga í viku. En launin þeirra eru bara svo lág að þau geta ekki
misst úr vinnu og yfirleitt sér maður sama fólkið í vinnunni frá því eldsnemma um morguninn til seint á kvöldin, hittum til dæmis eina sem hafði farið í frí til Malasíu og á sjö dögum þar eyddi hún árslaunum sínum.
Gréta í mátun
Víetnamar eru mjög hjátrúarfullir og lentum við svolítið í því um daginn þegar við ætluðum að taka út pening í hraðbanka en málið var að þeir voru allir tómir. Þegar við spurðum fólk afhverju það væri sögðu þau að Víetnamar tryðu því að ef þeir byrja nýja árið með mikið af peningum munu þeir græða meira það árið, þannig að þeir fara allir í hraðbankana og taka út eins og þeir geta af seðlum til þess að byrja nú nýja árið rétt. Gjaldmiðillinn hér er líka nokkuð skemmtilegur og maður er milljónamæringur á hverjum degi hér því yfirleitt erum við að taka út tvær milljónir í hvert sinn en það
jafngildir 12 þúsund krónum.
Við erum líka búin að vera dugleg að smakka nýja hluti hér í Nha Trang og nú getum við strokað út af listanum krókódíl, strút og smokkfisk.
Þorri ásamt hinum börnunum í tívolíinu

Hótelherbergi á hjólum
Þorri að narta í krókódíl

miðvikudagur, 11. janúar 2012

Good morning Vietnam!


Á fimmtudagskvöldinu fórum við á tískusýningu á einum af börunum í Luang Prabang en þar var boðið upp á þá búninga sem ættbálkarnir í Laos klæðast, að tískusýningunni lokinni tók við hip hop sýning þar sem ungir Laos töffarar tóku sviðið og break-uðu eins og enginn væri morgundagurinn. Að þessu loknu snæddum við kvöldmat á local stað en í götunni á móti stóð yfir heljarinnar partý, þar sátu karlarnir og drukku bjór á meðan konurnar og börnin dönsuðu, þegar bjórinn var farinn að hafa sín áhrif tóku karlarnir sig hins vegar til og dönsuðu macarena.
Við fundum okkur tuk tuk bílstjóra á föstudeginum sem skutlaði okkur, ásamt tveim stelpum frá bretlandi, að Kuang Si fossunum. Fossarnir voru gríðarlega fallegir, þetta var samansafn fjölda lítilla fossa og var hægt að synda í lóninu við nokkra þeirra, Gréta varð því miður bílveik á leiðinni að fossunum, Guðrún var kvefuð og Tommi með í maganum, því var Þorri sá eini sem hafði áhuga á sundspretti en nennti ekki einn ofaní þannig að það var ekkert synt þennan daginn. Í staðinn fórum við að stærsta fossinum á svæðinu sem er ca. 100 metrar á að giska og mjög tignarlegur, við gengum upp meðfram fossinum og nutum útsýnisins á toppnum. Þarna á svæðinu var líka risastór girðing sem innihélt fjölda bjarndýra sem bjargað hafði verið frá dýranýðingum og fólki sem hafði fangað þá það unga að þeir munu aldrei geta bjargað sér í náttúrunni aftur. Þarna bjuggu þeir og höfðu ýmislegt sér til afþreyingar t.d. sundlaug, hengirúm og bolta. Það var ótrúlega gaman að fylgjast með þeim og lesa um það góða starf sem unnið er við að bjarga þeim frá fólkinu sem fangar þá. Um kvöldið röltum við um kvöldmarkaðinn og skoðuðum hvað þau höfðu upp á að bjóða, borðuðum síðan á kóresku grilli líkt og í Bangkok, algjört lostæti.
Á föstudaginn borðuðum við hádegismat á stað sem mikið hafði verið mælt með, hann var staðsettur á eyju við Luang Prabang og eina leiðin þangað var yfir bambusbrú þar sem rukkað var gjald fyrir að komast yfir en þessi peningur fer í uppbyggingu þessarar brúr vegna þess að hún hrynur á hverju ári þegar vatnsmagn eykst í ánni. Eftir matinn fórum við á safn þeirra bæjarbúa, þar var að finna litla styttu af Búddanum sem bærinn er nefndur eftir. Styttan var læst inni í herbergi með verði fyrir utan og stranglega bannað að taka myndir. Þarna var líka að finna bílasýningu sem hafði að geyma bílaflota fyrrverandi kónga og drottninga landsins. Síðan var ekkert annað en að skella sér í nudd og vegna fjölda áskoranna eftir síðasta blogg lét Þorri slag standa og skellti sér í klukkutíma nudd ásamt Grétu og Guðrúnu. Eins og hann grunaði var nuddið mjög sársaukafullt fyrir hans veika bak og ekki eins æðislegt og Gréta hafði lofað honum, þessar ungu Laos dömur voru þó ekki neitt voðalega góðar í þessu og hefur Þorri lofað að leyfa þeim tælensku að fá sitt tækifæri til að breyta viðhorfi hans. Við enduðum dvölina í Laos á því að skella okkur á skandinavískt bakarí (eftir ábendingar Ingu Heiðu takk takk!!) og fá okkur kræsingar en því næst var komið að kveðjustund, því okkar beið rútuferð til Hanoi í Víetnam á meðan Guðrún og Tommi tóku rútu til Chang Mai í Thailandi. Okkur hafði verið lofað rútu með rúmum í „Falang size“ (hvítra manna) en rútan reyndist bara vera með sætum, sem þó var hægt að halla nánast alla leið niður og pláss var fyrir fæturnar, ef þú ert ca. 150 cm á hæð. Það var ljóst strax í byrjun að starfsmennirnir voru ekki þessir kátu litlu Asíubúar því þeir höfðu heraga yfir þessum vitlausu útlendingum, þeir töluðu enga ensku og því eina rétta í stöðuni auðvitað bara að öskra og skammast. Ferðin sjálf gekk ágætlega fyrir sig og okkur tókst nokkurnvegin að koma okkur vel fyrir, í byrjun var okkur sagt að ferðin tæki 24 tíma en eins og gengur og gerist dróst hún í 30 tímanar með svona 5 klósett stoppum og EINU matarstoppi. Okkur hætti nú að lítast á blikuna þegar við vorum að nálgast Hanoi því rútubílstjórinn stökk út úr rútunni og læsti okkur inni, eftir nokkra stund kom hann aftur inn vopnaður stórri sveðju og setti dúndrandi techno tónlist í græurnar með sígarettuna hangandi í munnvikinu og lá á flautunni keyrandi á móti umferð. Þetta fór þó allt vel og við komumst heil og höldnu á áfangastað, ein af þessum rútuferðum þar sem maður þakkar fyrir að vera á lífi eftir á.
Villtumst um götur gamla hluta Hanoi á mánudaginn, þar er voðalega fallegt vatn sem við röltum í kringum, settumst niður á bekk þar við og tókum okkur til við að lesa heilmikið um stríðið og hörmungarnar í þessu landi sem gerðist ekki fyrir svo löngu síðan. Okkur finnst rétt að vita aðeins um sögu landanna sem við erum í, höfum einnig mikið hugsað út í hvernig sérstaklega eldra fólkið hér lítur á hvíta fólkið sem er að ferðast um landið þeirra. Höfum ekki þorað að spyrja neinn enn en við myndum skilja fullvel ef þeir séu með einhverja fordóma fyrir þeim.
Víetnamar eru svolítið skondið fólk en til dæmis á veitingastöðum er gólfið oft þakið matarleifum, hnetuskeljum og tannstönglum en með því að fleygja þessu á gólfið eru þeir að koma á framfæri  til komandi gesta að maturinn sé góður á þessum ákveðna stað. Þetta minnir helst á samskiptaaðferðir dýra frekar en manna á 21. öldinni en nokkuð skemmtilegt þó, sérstaklega þar sem við þurfum ekki að þrýfa gólfin :)
Daginn eftir áttum við pantaða siglingu til Bai Tu Long bay sem er við hliðina á Halong bay sem er einn þekktasti staður Víetnam. Okkur var sagt að þessi eyjaklasi væri jafnvel fallegri en fræga Halong og nær engir aðrir túristar þar þannig að við ákváðum að slá til. Vorum í þessum fína tíu manna hóp og var mikið spjallað þessa fimm tíma sem það tók að komast í skipið. Við erum greinilega ekki á besta árstímanum til þess að ferðast hér um norður Víetnam en það er mjög kalt og mikil þoka en núna er vetrarmonsúnið en svo leið og maður fer aðeins sunnar verður komin sól og sumar. Þar að leiðandi var útsýnið ekki eins og það verður best en ótrúlega fallegt samt sem áður. Eftir nokkurra klukkutíma siglingu lögðumst við í höfn á lítilli fiskimannaeyju, þar biðu okkar reiðhjól þar sem við hjóluðum að gististaðnum okkar í litlu krúttlegu þorpi. Þegar þangað var komið biðu okkar skælbrosandi eldri hjón sem buðu okkur velkomin inn á heimilið sitt en þetta var svokölluð heimagisting. Í stofunni bauð gamli maðurinn okkur grænt te í litla postulínsbolla og fyllti á eins og enginn væri morgundagurinn. Eftir smá spjall og mikla tedrykkju hófumst við handa og hjálðuðum við að elda kvöldmatinn en við lærðum meðal annars að gera vorrúllur sem var mjög áhugavert og æðislega gott. Eftir frábæran mat bauð húsbóndinn upp á „Happy water“ sem er ákveðin tegund af hrísgrjónavíni sem þeir taka í skotglösum en þetta bragðaðist mun betur en þetta hljómar, við máttum svo gjöra svo vel að klára tvær flöskur af þessum dulafulla drykk.

Vöknuðum eldsnemma morguninn eftir til þess að fara á fiskmarkaðinn í þorpinu en á hverjum morgni frá klukkan 5-7 koma konur fiskimannanna saman og selja afla næturinnar, fiskurinn gerist varla ferskari og spriklaði þarna ennþá að berjast fyrir lífi sínu. Þetta var mjög skemmtilegt og þeim fannst alveg jafn merkilegt að sjá okkur þarna á þessari litlu eyju þar sem sjaldan sést til ferðamanna. Fórum svo aftur á bátinn okkar þar sem við sigldum áfram um eyjarnar þarna í kring, stoppuðum svo og fórum á kajak þar sem við dóluðum okkur um þetta ótrúlega umhverfi. Síðan var ekkert eftir en að sigla í land. Vorum rosalega sátt við þessa ferð og það var satt sem maðurinn á ferðaskrifstofunni sagði því á þessum tvemur dögum sáum við ekki einn einasta ferðamann, erum samt viss um að það muni breytast á næstu árum.
 Við sáum ekki mikla ástæðu í að fara aftur til Hanoi þannig að við tókum rútuna suður til lítils bæjar sem heitir Ninh Binh en umhverfið hér í kring á víst að vera voðalega fallegt, en við komumst að því á morgun.
Erum svo nokkuð viss um að við þurfum að fara í afvötnun þegar við komum aftur heim því bjórinn hérna kostar heilar 60 krónur og það á veitingastað. Hver þarf vatn á 30 krónur þegar maður hefur bjór á 60 krónur??

Hér kemur svo örstutt (vegna stutts tíma) samantekt frá Laos:

-Eyddum 27,5 klukkutímum í rútum.

Verðdæmi:
- Hótelherbergi: 1200 kr.
-Máltíð fyrir tvo: 900 kr.
-1,5 l af vatni: 80 kr.
-7 tíma rútuferð með „local bus“: 660 kr.
-Bjór 650 ml: 165 kr.

Kort af leiðinni sem við fórum:

fimmtudagur, 5. janúar 2012

Brunað um Laos

Miðvikudaginn var tókum við á móti Guðrúnu og Tomma í Bangkok sem voru mætt í asíuna fögru eftir jól á Ítalíu. Fórum við beint í að rölta um götur Bangkok, skoða gamla markaði, borða góðan götumat og fleira.
Godur gotumaturinn i Bangkok
Við fjögur skelltum okkur, ásamt Hiro, Japana sem við kynntumst í Nepal, á ekta thailenskan kvöldverð þar sem maður velur sér hrátt kjöt og grænmeti og steikir svo sjálfur á grilli sem er á miðju borðinu. Þarna var svo thailensk hljómsveit að spila. Þetta var voða kósý og vorum við einu útlendingarnir sjáanlegir þarna í ágætum radíus. Áttum svo skemmtilegt og áhugavert kvöld þar sem Þorri fékk loksins að sjá hvað Khao San gatan hefur upp á að bjóða að kvöldi til. Vorum við í félagsskap fleiri ferðamanna og Thailenskra klæðskiptinga eða „Lady boy“ eins og þeir kalla sig sjálfir, þar sem dansað var fyrir utan bankann langt fram eftir nóttu með viskýfötu við hönd. Daginn eftir var slakað á og skellt sér í nudd sem klikkar aldrei en eitthvað er nú Þorri hræddur við þessar Thailensku og situr frekar yfir fótboltanum með bjór heldur en að láta teygja svona á sér, stirði maðurinn sem hefði nú aldeilis gott af þessu. Um kvöldið áttum við svo rútu til Nong Khai sem er fallegur bær alveg við landamæri Laos.
Þessi bær er rétt hjá Udon Thani, bænum sem Gréta bjó í 2006-2007, við stoppuðum því miður ekkert í Udon Thani en Grétu fannst mjög gaman að sjá aftur fornar slóðir og að fara eftir veginum sem hún fór í skólann á hverjum morgni. Stoppuðum heldur ekkert í Nong Khai heldur drifum okkur yfir Mekong ánna þar sem Laos beið okkar með eftirvæntingu. Allt gekk voðalega vel fyrir sig á landamærunum og fyrr en varði vorum við sest upp í eina af „local“ rútunum á leiðinni til Vang Vieng. Það hljómar ekkert athugavert við „Local“ rútu en maður fer ekki í þær ef maður ætlar að flýta sér en þær geta verið mjög skemmtilegar og áhugaverðar ef maður hefur allan tíma heimsins, eins og við. Svona rútur stoppa fyrir hverjum sem veifar á götu úti og þau passa sig að engin sæti séu ónotuð. Við fjögur sátum í kremju á aftasta bekk með mesta lagi 15 sentimetra fótapláss fyrir framan okkur og þessi ferð (um 150 km) sem tekur venjulega 3 klukktíma tók 7 í þetta skiptið. Ástæðurnar fyrir því voru ekki bara mörg stopp fyrir veifandi fólki á leiðinni heldur virtust allir þurfa að pissa á 5 mínútna fresti, vegirnir voru í virkilega slæmu ásigkomulagi og auðvitað sprakk á einu dekkjanna og þurfti að skipta á miðri leið. Náðum til Vang Vieng fyrir myrkur og fundum þetta fínasta gistiheimili. Vang Vieng er mikill ferðamanna- og partýbær, umhverfið var eins og klippt út úr póstkorti það er svo fallegt. Tókum því rólega um kvöldið, kíktum á bar og gripum í spil.
Hellirinn i Vang Vieng
Á gamlársdag leigðum við okkur mótorhjól til þess að skoða okkur betur um, keyrðum um moldótta sveitavegina í gegnum ótal falleg lítil þorp innan um hrísgrjónaakra þar sem fólk var á fullu í sínu daglega amstri. Eftir að hafa villst nokkrum sinnum og smá fjallgöngu komumst við að aðal hellinum sem var gríðalega stór og fallegur. Auðvitað tók vasaljósið okkar upp á því að bila þannig að við sáum ekki nema brot af hellinum. Eftir svitabað í hellinum fórum við í Bláa lónið sem rann þar fyrir neðan, nafn sem þeir stálu klárlega frá okkur Íslendingum. Þetta var hluti af á sem rennur þarna í gegn með fjölda lítilla fiska sem svamla með fólkinu og stóru tréi sem hægt er að stökkva úr niður í vatnið. Eftir að hafa baðað okkur settumst við í lítið tréskýli við ánna og snæddum ferska ávexti á meðan við þornuðum. Á leiðinni heim fundum við mjög góðan lífrænan veitingastað í litlu smáþorpi, þar héngum við í hengirúmum á meðan við biðum eftir matnum með frábært útsýni yfir ánna og fjöllin í kring. Eftir að hafa skolað af sér allt rykið og drulluna eftir daginn héldum við út á lífið ásamt hinum útlendingunum í bænum. Áramótamaturinn þetta árið var nokkuð frábrugðin því sem við eigum að venjast, kjúklingaréttur, papaya salat og vorrúllur en engu að síður gríðarlega gott. Við vorum staðsett úti á miðri götu þegar klukkan sló 12 og fögnuðum nýja árinu með nokkrum kellingum sem stóðu á horninu og elduðu pönnukökur, við hlupum inn á næsta bar þar sem við fengum frí viský skot í tilefni dagsins. Skemmtum okkur síðan fram eftir nóttu ásamt hinum heimilislausu útlendingunum við varðeld og sáum heilar þrjár ragettur.  Hér var hvorki Geirmundur né Bjartmar að spila en náðum við engu að síður að skemmta okkur konunglega.

Gudrun, Greta og kommarnir

Við byrjuðum árið 2012 með því að leigja okkur dekkjaslöngu (svona eins og maður renndi sér á niður Skúlahornið hér í denn) og flutum niður aðal partý ánna. Þetta er sport sem mikið er stundað í þessum bæ og gengur út á það að fljóta niður ánna og stoppa á sem flestum börum sem eru staðsettir meðfram ánni og fá sér drykk. Barirnir eru útbúnir stórum leiktækjum eins og risa rennibrautum, stökkpöllum, rólum og vegasöltum. Fjörið byrjar á efsta barnum og er partýhluti áinnar um 4 km. Eftir nokkra kílómetra í ánni gáfust við hins vegar upp fyrir kuldanum þar sem sólin var horfin á bak við fjöllin og fundum við mann sem var tilbúinn að skutla okkur á bátnum sínum að næsta tuk tuk. Um kvöldið tókum við því síðan bara rólega enda þreytt eftir fjör dagsins.
Á mánudaginn leigðum við okkur aftur vespur og rúntuðum um. Byrjuðum á því að keyra að litlu fjalli sem átti að vera auðvelt að klifra upp, fjallgangan var örlítið strembnari en við bjuggumst við en gekk þó ágætlega. Þaðan lá leiðin að helli með lóni fyrir framan til að synda í. Að sjálfsögðu gekk dagurinn ekki slysalaust fyrir sig og bilaði vespan okkar á leiðinni að hellinum. Guðrún og Tommi brunuðu aftur á vespuleiguna til að ná í viðgerðarmann en Þorri þurfti að gjöra svo vel og teyma vespuna alla leiðina til baka að fjallinu. Eftir að hafa fengið nýja vespu brunuðum við meðfram partýánni og fundum okkur mjög notalegan stað og snæddum Laos mat við ánna umkringd heimamönnum sem vakti mikla lukku meðal þeirra. Staðurinn sem við vorum á var svona local staður þar sem heimamenn koma með fjölskyldurnar, borða góðan mat og drekka viský á meðan börnin svamla um í ánni. Aðal skemmtiefnið eru drukknu útlendingarnir sem fljóta framhjá á dekkjunum sínum í misgóðu ástandi. Við keyrðum síðan ennþá lengra upp ánna og langt frá öllu partýstandi fundum við fallegan stað við árbakkann þar sem fólk frá nærliggjandi þorpum kom saman til að baða sig.
Á þriðjudeginum beið okkar síðan rútuferð til Luang Prabang og eins og svo oft áður gekk hún ekki vandræðalaust. Rútan sem tók okkur á rútustöðina stoppaði á einhverri ferðaskrifstofu og skildi þar eftir miðana frá öllum farþegunum, þ.a.l. höfðum við enga miða í höndunum og því engin sæti merkt okkur. Okkur var vísað inn í rútu sem leit ágætlaga út en þegar inn kom sáum við að engin sæti voru laus fyrir okkur, því næst var okkur bent á aðra rútu sem var tóm. Eftir að hafa sett töskurnar niður í farangursgeymsluna og fundið okkur sæti var okkur tilkynnt að þetta væri ekki rútan til Luang Prabang heldur væri það önnur rúta. Auðvitað var enginn starfsmaður lengur til staðar og þurfti Þorri ásamt öðrum ferðamanni að troða sér inn í farangursgeymsluna og koma töskunum út til allra hinna. Allt er þegar þrennt er og reyndist næsta rúta sú rétta. Þar sem þetta var tveggja hæða rúta vorum við með besta mögulega útsýnið því við sátum fremst í rútunni og vorum alveg við gluggan og höfðum nánast 180° útsýni yfir fjöllin í kring. Vegurinn var þessi týpíska ein og hálf breidd og flautan ræður ríkjum. Þetta voru allt hlykkjóttir fjallvegir og þverhnýpi fyrir neðan, sáum t.d. eitt stykki vörubíl í klessu langt fyrir neðan vegin í einni af u-beygjunum. Bílstjóranum tókst líka að losa heiminn við eins og eitt stykki hænuunga og kettling, skemmtilegast var þó að fylgjast með mannfólkinu sem bjó í um hálfan metra frá veginum allt í kring. Þar hlupu börnin um berrössuð á meðan gömlu konurnar sátu naktar hliðina á veginum og böðuðu sig, þarna var líka eitt stykki partý og hoppuðu þar kampakátir karlar og vinkuðu bílunum sem keyrðu framhjá. Við komum í bæinn um kvöldið og römbuðum beint inn á aðalsmerki bæjarinns sem er risa kvöldmarkaður þar sem er til sölu mikið af fallegum munum, við ákváðum þó að bíða með spreðið því við vorum nokkuð þreytt eftir rútuferðina.
Thorri fekk ad labba heim med bilada vespuna
Á miðvikudaginn gegnum við um bæinn og skoðuðum stærsta og merkasta hofið hér í bæ, okkur finnst þessi hof öll nokkuð svipuð og létum okkur nægja að njóta sólarinnar á neðsta pallinum á meðan Guðrún og Tommi borguðu sig inn og gengu upp á topp. Þar sem við stoppuðum sáum við hin ýmsu Búddalíkneski ásamt stórri holu sem þeir vilja meina að sé fótspor sjálfs Búdda. Við skoðuðum svo seinna lítið og skemmtilegt safn um Laos og menningu þeirra. Ferðinni var síðan heitið út á litla eyju þar sem við gengum í gegn um lítið þorp og skoðuðum búðirnar þeirra. Leiðin til baka á gistiheimilið lá síðan meðfram Mekong ánni og var mjög falleg. Um kvöldið spiluðum við UNO á belgískri krá og höfðum það gott.
Tubing fjör
Í dag leyfðum við okkur þann munað að sofa út og þar af leiðandi gerðum við ekki mikið, sátum aðeins við Mekong ánna og reyndum að fara í sund en auðvitað var sundlaugin á fína hótelinu aðeins ætluð gestum, urðum fyrir smá vonbrigðum en hugguðum við okkur með því að fá okkur góðgæti í skandinavísku bakaríi sem leynist hér í bæ. Gréta var ekki enn búin að jafna sig eftir gotteríið og fór í dekur til að toppa daginn.
Planið er að skoða gríðarfallega fossa á morgunn og skella okkur í sund undir þeim í staðin.

Thorri ad slaka a eftir matinn :)

Vang Vieng