miðvikudagur, 28. september 2011

Lokadagar í Egyptalandi

Þorri hjá Step Pyramid
Á sunndaginn ákváðum við að gera eitthvað menningarlegt í Alexandriu og skelltum okkur á bókasafnið en það er alveg hrikalega stórt og mikið af söfnum út frá því, sáum til dæmis fötin sem Sadat forseti (forsetinn á undan Moubarak) var í þegar hann var skotinn til bana. Já margt merkilegt og fræðandi en þar sem hvorugt okkar er mikið fyrir sögu eða arkíetktúr stöldruðum við ekki svo lengi við en skelltum okkur hins vegar í stutt bíó sem var í svona kúluhúsi og ferðuðumst við þar niður alla Níl í rafting.
Fornt letur ofaní einum af pýramítunum
Við komum hingað til Cairo á mánudaginn. Það má segja að við séum orðin nokkuð sjóvuð í borginni erum farin að rata og þekkja göturnar með bestu matsölustöðunum og svo framvegis.
En leiðin frá Alexandriu til Cairo var nokkuð skemmtileg, í þetta skiptið tókum við lest og fórum við í gegnum mikið af sveitum sem var mjög áhugavert að fylgjast með. Það má allavegana segja það að íslenskir bændur (nú til dags) geta verið mjög sáttir við sín tæki og tól á miðað við egypsku bændurna. Hérna eru allir akrarnir slegnir með ljá, rakað saman með hrífum og tekið saman með höndunum í heysátur sem eru svo bundnar saman með stráum og látnar liggja til þurrkunar til þerris, síðan er þetta sett á litla kerrur sem dregnar eru af litlum asna greyjum eða þá að konurnar beri þetta á höfðinu að hlöðunni. Heyið fer ekkert til spillis þarna því það er mikið notað sem þök á húsin þeirra. Á þessari þriggja tíma keyrslu sáum við aðeins tvær, æfafornar, dráttavélar en annars engin önnur tæki. Það er kannski ekki furða að meðalaldur egypskra karlmanna er aðeins um 65 ár.
Göng ofaní pýramíta
Í gær var dagurinn tekinn snemma enda höfðum við pantað okkur einkabílstjóra fyrir daginn til að klára að skoða alla pýramítana hér í nágrenni Cairo. Fórum fyrst til Saqqara en þar eru nokkrir gamlir og góðir en þar ber helst að nefna Step pyramid sem er elsti pýramíti heims (og elsta minnismerki heims), byggður 2650 fyrir Krist og það tók 20 ár að byggja hann. Fyrir tíma Step Pyramid  voru grafhýsi vanalega neðanjarðar en það breyttist með tilkomu þessa pýramíta sem gerður var í sex stigum/hæðum, með hverju stiginu jókst færni þeirra við bygginguna og þeir náðu betri tökum á tækninni sem þurfti til að koma steinunum fyrir. Síðan sáum við fimm pýramíta til viðbótar og ýmis önnur grafhýsi með mikið af fornu letri og myndum sem sumar eru ennþá í lit. Þröngvuðum okkur inní einn pýramítann (Red pyramid, sem er fyrsti pýramítinn sem var byggður með útlitinu sem við þekkjum öll), fyrst þurftum við að klífa upp hálfan pýramítann að utan (125 brött steinþrep) til að komast að þröngum og löngum stiga (63 m) niður í það sem virtist hið óendanlega. Þegar við loksins komum niður voru veggirnir þaktir teikningum og letri og háir veggir allt í kring, í öðru herbergi af tveim var svo gröfin sjálf. En einmitt þegar við töldum okkur vera búin að átta okkur á öllum þeirra svindlum létum við plata okkur. Fyrir framan pýramítann lá gamall maður sem við vöktum óvart þegar við komum, hann brosti til okkar og bauð okkur vasaljós til að hafa með niður í göngin sem við þáðum með þökkum án þess að hugsa okkur um, en að sjálfsögðu var leiðinn upplýst og því engin þörf á vasaljósi, við þökkuðum honum þó fyrir þegar upp var komið og borguðum honum smotterí með bros á vör. Fórum svo á safn sem innihélt allskyns fornar steinstyttur, þar voru líka nokkrir sölumenn og létum við freistast í að kaupa handofið veggteppi úr úlfaldahárum. Enduðum svo ferðina á papyrussafni þar sem okkur var sýnt hvernig svoleiðis myndir eru gerðar en það er mikil en þetta var fyrsti pappír mannkynssögunnar.
Á heimleiðinni keyrðum við svo fram hjá ísraelska sendiráðinu í Cairo en þar var allt morandi í hermönnum en þeir ætla greinilega að reyna að koma í veg fyrir aðra árás, en það varð ráðist á það og einhverjir drepnir þarna í síðustu mótmælunum, fyrsta föstudaginn okkar hérna.
Enduðum svo góðan dag á æðislegum egypskum mat (falafel, hummus, shawarma og cream caramel) á uppáhaldsstaðnum okkar og horfðum á egypskan fótboltaleik.
Í dag vorum við vöknuð fyrir klukkan 6, skottuðumst niður að aðalgötunni og fundum okkur leigubílsstjóra fyrir daginn en stefnan var sett á stærsta úlfaldamarkað Egyptalands, þangað kemur fólk með úlfaldana sína jafnvel alla leið frá Súdan, Eþópíu, Sómalíu og Lýbíu og skiptist á dýrum, hvort sem þau eru fyrir vinnu eða kjöt. Leiðin á markaðinn var mjög áhugaverð og skemmtileg, leigubílstjórinn okkar hafði greinilega ekki sofið neitt um nóttina, keyrði eins og brjálæðingur og nuddaði augun til skiptis. Fórum í gegnum mikið af litlum þorpum þar sem fólk var að koma sér í gang fyrir daginn, drengirnir hjólandi með heilu staflana af brauði raðað á stóran stiga sem þeir bera á höfðinu, lítill börn í skólabúningunum á leið í skólann, asnar berandi níðþungar kerrur fullar af fólki og öðrum varning, mömmurnar með vatnsbrúsana á höfðinu og pabbarnir sitjandi á veröndunum reykjandi. Þegar við komum svo loks á áfangastað var ekki mjög mikið um að vera, komumst að því seinna að föstudagar eru víst aðal dagarnir en það skemmdi svo sem ekkert fyrir þar sem það vantaði nú ekki úlfaldana sem voru þarna í hrömmum. Við vorum að vísu ekki stórtæk á markaðnum og á endanum varð þetta bara „window shopping“ hjá okkur, Þorri fékk ekki eitt einasta viðunandi boð í Grétu sem voru mikil vonbrigði því maðurinn í afgreiðslunni á hótelinu okkar hafði fyrr um morguninn upplýst okkur um það að hún væri að minnsta kosti fimm dýra virði. Við fórum því heim með skottið á milli lappanna á sama fararskjóta og við komum á.
Töffari á markaðnum smellti einum blautum á Grétu
Það eru nokkur skrítin lög og hefðir hér í landi sem við höfum heyrt af til dæmis heyrðum við einn mann segja að ef múslimskur pabbi hér í landi myndi koma að dóttur sinni að reykja sígarettu myndi hann þurfa að drepa hana heiðursins vegna, þá þarf ekki einu sinni að nefna allar hryllingssögurnar sem maður heyrir í fréttunum um heiðursmorð á konum í þessum löndum vegna makavals og annars. Hér stendur í lögum að konur megi ekki ferðast til annarra landa nema með samþykki eiginmanns síns og að nýlega hafa verið felld niður lög sem heimiluðu nauðgurum að ganga lausir ef þeir myndu giftast fórnalambi sínu. Það er greilega ekkert auðvelt að vera kona í svona strangtrúuðu múslimaríki enda sér maður mikið af konum á götunum með glóðuraugu og jafnvel afskræmdar vegna sýruárásar.
 
En á morgun kveðjum við svo Egyptaland og tökumst á við ný ævintýri sunnar í Afríkunni, í Kenýa. En í lokinn langar okkur að taka saman nokkur atriði um hvernig við upplifðum Miðausturlönd (þá aðallega Egyptaland)

Það sem kom okkur mest á óvart:
-Hvað það er rosalega lítið af ferðamönnum um allt landið (Ísrael undanskilið)
-Hversu margir karlmenn ganga í kufli með túrbína dagsdaglega
-Hvað það er lítið um skordýr
Guttar að leik
-Hversu margir tala ensku
-Hversu mikið er um „venjuleg“ klósett
-Umferðin!!
-Hversu mikið er um skotvopn og hermenn útum allt

Það sem stóð uppúr:
-Allir Pýramítarnir í Egyptalandi
-Blue Hole í Dahab
-Petra í Jórdaníu
-Dauða hafið
-Jerúsalem í Ísrael
-Að horfa á lífið útum gluggan í öllum rútu og lestarferðunum

Jákvæðar hliðar:
-Lang flestir eru mjög vingjarnlegir
-Góður matur
-Alltaf gott veður, sérstaklega á kvöldin
-Flest er frekar ódýrt
-Egyptar eru ennþá nokkuð lausir við vestræn áhrif og halda fast í sína menningu
-Góðar samgöngur
-Maður upplifir sig alltaf öruggan, jafnvel þó maður sé úti seint um kvöld og í afskektum strætum

Svona ganga Egyptar um gersemin sín

Neikvæðar hliðar:
-Reynt að svindla á manni hvert sem maður fer
-Fólk á götunni getur verið mjög þreytandi þegar það vill selja manni eitthvað
-Magakveisur
-Þegar það fer í 40°C+!!
-Þegar maður hrekkur við á nóttunni við hávær bænaköll
-Moskítóflugur (Þorri er samt mun meira gæðablóð en Gréta og tekur allt á sig)
-Rusl út um allt, egyptar eru miklir sóðar og henda rusli út um allt, allsstaðar

Við höfum líka tekið saman hversu lengi við höfum setið í lestum og rútum síðan við komum:
Rútur: 35,5 klukkutímar
Lestar: 33 klukkutímar
Það gera sem sagt rétt tæpa þrjá sólahringa :)

Og svo við skellum nú nokkrum verðdæmum (frá Egyptalandi, Jórdanía og Ísrael voru mum dýrari lönd):
1,5 l af vatni = 50 kr.
Þriggja rétta máltíð fyrir tvo = 1.000 kr.
Tveggjamannaherbergi á gistiheimili = 800-2.000 kr.
Morgunverður á gistiheimili = 100 kr.
Leigubíll í 40 mín. = 300 kr.
Seglskúta með stýrimanni í 2 tíma á Níl = 1.200 kr.
Einkabílstjóri frá 8:00-16:00 = 4.000 kr.
Aðgangseyrir á Pýramítana = 1.200 kr.

ATH það er hægt að fá allt miklu dýrara en þetta er það sem við höfum verið að fylgja.


Hér kemur svo kort af leiðinni sem við höfum farið síðustu þrjár vikurnar (Hægt að ýta á myndina til að stækka hana): 


 
Svo í lokinn viljum við benda á myndirnar inná Facebookinu hjá Grétu (opið öllum) og video sem við gerðum um fyrripart ferðarinnar (fleiri væntanleg mjög fljótlega) en HÉR er linkur inná það.

Bæ, bæ Miðausturlönd

laugardagur, 24. september 2011

Alexandría

Silgt um Níl
Eftir afslöppun suður í Aswan tókum við aftur lestina meðfram Níl til Cairo, í þetta skiptið tók ferðin sextán tíma vegna bilunar eða slyss (skildum ekki alveg hvað maðurinn var að segja). Eins og vanalega rifust og skömmuðust heimamenn í hvor öðrum langan hluta leiðarinnar, það er alveg ótrúlegt að ekki brjótist út slagsmál miðað við hitann í mönnum, þá eru þetta ekki bara tveir, þrír sem eru að rífast í einu heldur svona 6-8 manns og allir að ýta í hvorn annan. Gréta fékk næstum hjartaáfall  á leiðinni þar sem aðal sportið hjá litlu strákunum í sveitunum er að grýta steinum í lestarnar þegar þær þjóta hjá, einum stráksa tókst það með eindæmum vel og kom þessi myndalega sprunga í rúðuna hliðiná Grétu.  
Maður er orðinn alveg ruglaður í verðum hérna til dæmis eina nóttina ætluðum við að fara á uppáhalds hostelið okkar í Cairo en það var fullt þannig að okkur bauðst bara herbergi með 4 rúmum og þar af leiðandi aðeins dýrara en við höfðum áður verið að borga. Okkur fannst þetta nú ekkert sniðugt þannig að við fórum á næsta hótel sem við sáum og þar bauðst okkur ódýrari gisting, það herbergi minnti helst á fangaklefa þar sem dýnurnar voru úr hesthárum og rúmið svo bogið að þetta var eins og að sofa í hengirúmi úr járngrind, koddarnir voru blóðugir og svo brúnir að það virtist ekki hafa verið skipt um sængurföt síðan á Eiðum ´64 (spyrjið Þorra!!). Þegar við báðum um hrein komu  þau bara með aðra kodda í staðinn sem voru jafnvel skítugri en þeir gömlu.  Þarna voru veggirnir með veggjakroti, skítugir eyrnapinnar útum allt og eigandinn sat við lobbýið, reykti og henti svo stubbunum á gólfið fyrir framan fæturna á okkur. Við hugsuðum ekkert útí það fyrr en eftir á að þetta herbergi var aðeins 300 krónum ódýrara en fallega herbergið á uppáhalds hótelinu okkar!!
Gréta alltof lítið klædd á ströndinni
Tókum rútu á fimmtudaginn til Alexandriu sem er næst stærsta borg Egyptalands og liggur við Miðjarðarhafið og ekki ímynda ykkur bláan, tæran sjó og hvítar strendur, hann er brúnn og fullur af pokum og pepsi dósum ala Egyptaland. Létum hins vegar á þetta reyna og skelltum okkur á ströndina einn daginn, þar voru allar konurnar kappklæddar í  svarta einkennisbúningnum sínum svo það rétt glitti í augun á þeim, karlarnir þeirra voru hins vegar létt klæddir og léku sér hamingjusamir í sjónum á meðan  þær sátu undir sólhlíf og horfðu á. Gréta var hins vegar klædd í hnésíðan kjól og vakti það mikla lukku hjá karlmönnunum en ólukku hjá konunum sem gáfu henni illt augnaráð því karlarnir þeirra snéru sér næstum úr hálsliðunum og tóku svona tvær til þrjár ferðir til að labba fram hjá. Einn fékk þó heldur betur að finna fyrir því þar sem hann starði á Grétu því konan hans var nú ekki sátt við það og löðrungaði hann þvert yfir beðið (spyrjið Þorra..). Fengum mjög fljótlega leið á þessu strandlífi enda ekkert sérlega gaman í sólbaði fullklæddur og tókum sporvagninn heim, á leiðinni lenti Þorri í djúpum samræðum við einn heimamanninn sem ólmur vildi útskýra fyrir honum hvernig lestin virkaði, þetta útskýrði hann vel og lengi og notaði meðal annars myndir sér til rökstuðnings, sem hann teiknaði inní lófann á sér. Eftir nokkuð ýtarlega útlistun á því hvernig lestin gékk festi hann blað í pennann sinn svo hann leit út eins og flugvél og lét hann fljúga í kring um okkur, á meðan lýsti hann nýstárlegum hugmyndum sínum og nýrri tækni sem hann hafði sjálfur þróað til að stórbæta flugsamgöngur. Þetta samtal stóð yfir í ca. hálftíma, meðan á þessu samtali stóð kom maður og settist við hlið Þorra og reyndi að útskýra fyrir manninum að við töluðum ekki arabísku og myndum að öllum lýkindum ekki skilja stakt orð af því sem hann sagði og bað hann vinsamlegast um að hætta að tala. Hann hélt nú ekki og blaðraði áfram, á meðan brosti Þorri og kinkaði kolli í takt við manninn (og hló þegar það átti við). Maðurinn vakti mikla lukku og voru allir farþegar lestarinnar farnir að fylgjast með þessum gamla verkfræðingi sem að öllum líkindum hefur lesið yfir sig.
Erum búin að vera dugleg að smakka Egypskan mat og búin að finna okkar uppáhöld, sætindin eru líka hættulega góð og er Gréta farin að velja veitingastaði eftir eftirréttunum ;)
Við höfum tekið eftir að lang flestir mennirnir hérna eru með svokallaða „rúsínu“ á enninu (þeirra orðalag) en það er hringlaga svartur blettur og stafar hann af nuddi við bænamotturnar, það þykir frekar flott því það þýðir að þú biðjir mikið og höfum við heyrt að oft nuddi þeir blettinn líka til að gera hann meira áberandi og halda honum við. Einnig eru margir menn hérna með langa nögl á litla fingri, eftir að hafa googlað það komumst við að því að það getur merkt ýmislegt en þó aðallega er það merki um auð og velgengni útaf því að þú vinnur enga verkamannavinnu með svona flotta nögl.
Erum semsagt bara að slappa af hérna í Alexandríu og skoða okkur um og ætlum svo að fikra okkur að Cairio eftir helgi (ekki það að hver dagur sé ekki helgi hjá okkar) og skoða aðeins fleiri pýramíta og fara á kameldýramarkað :) 

P.s. Höfum sett slatta af myndum inn og fleiri væntanlegar. En fyrir þá sem ekki eru "vinir" Grétu á facebook þá eru myndirnar þar og opnar öllum sem vilja skoða :)

P.s. II Eins gaman og fólk hefur að lesa þetta hjá okkur þykir okkur líka rosalega gaman á að fá lítil comment fyrir, alltaf gaman að sjá hverjir eru að fylgjast með :) 

mánudagur, 19. september 2011

Hoppað á milli landa

Við erum orðnir algjörir morgunhanar.. vitum ekki hvað arabía er að gera okkur, höfum verið að sofna milli hálf 9 og 10 undanfarið og vaknað um 6-7 leytið!! Allavegana þá vöknuðum við á mjög svo ókristnilegum tíma á sunnudaginn og tókum rútuna frá Dahab til landamæra Ísrael. Á leiðinni var gerð heiðarleg tilraun (af bílstjóranum) til að ná smá pening af okkur ferðamönnunum, en allt í einu í miðri eyðimörkinni stöðvaði hann rútuna og labbaði aftur í til okkar, tók rútumiðann og reif hann í sundur hlægjandi og sagði að hér væri  miðinn okkar búinn og við þyrftum að borga meira ef við ætluðum að komast að landamærunum. Við héldum nú ekki og byrjuðum að mótmæla ásamt öðrum ferðamönnum, að lokum gafst hann upp og keyrði með okkur á endastöðina. Við landamærin beið okkar ótrúlega strangt öryggistékk (kannski ágætt að það sé svona strangt) sem virtist taka heila eilífð, en að labba inná landamærastöðina var eins og að fara í annan heim.. konurnar voru í háum hælum, níðþröngum buxum, stuttermabol og með hárið slegið.. já og sumar þeirra gengu með hríðskotabyssur. En það entist ekki lengi þar sem klukkutíma síðar vorum við komin til Jórdaníu þar sem menningin er frekar svipuð Egyptalandi. En þarna vorum við búin að fara í gegnum þrjú lönd á rúmum klukkutíma.
Okkur leist nú ekki mikið á Jórdaníu við fyrstu kynni þar sem við lentum í leiðinlegum bílstjórum sem reyndu eins og þeir mögulega gátu að svindla á okkur, enduðum síðan á ömurlegu gistiheimili.
Næsti dagur var tekinn mjög snemma eins og svo aðrir dagar hjá okkur og þá var förinni heitið í egypska sendiráðið til að fá vegabréfsáritun aftur til Egyptalands (ekki það að við höfðum strax gefist upp á Jórdaníu heldur vildum við bara vera búin að því áður en við förum aftur þangað) það tók nú sinn tíma, fyrsti leigubílsstjórinn fór með okkur hálfa leið út á flugvöll, annar fór með okkur í eitthvað gamalt sendiráð og sá þriðji kom okkur þangað með naumindum. Þegar við loksins áttum að fá stimpilinn í vegabréfið vorum við kölluð á fund sjálfs sendiherra Egyptalands og hans aðstoðarmanns þar sem honum fannst eitthvað skrítið að hérna væri á ferð fólk frá einhverju Íslandi og spurði okkur spjörunum úr og vorum við orðin hálf stressuð að geta ekki farið til baka og náð fluginu okkar í lok september. En allt gekk þetta nú og við náðum að heilla hann uppúr skónum og við fengum stimpilinn.
Tókum svo rútuna til bæjar sem heitir Wadi Musa (eða Mósesdalurinn) og fundum þar ágætis gistiheimili sem Gréta náði að prútta niður í sæmilegt verð (hér prúttar maður líka á veitingastöðum). Þetta var rosalega flottur bær sem minnti einna helst á gilið á Akureyri nema bara mun stærra og brattara.
Á miðvikudaginn fórum við að skoða fornu borgina Petru sem er ólýsanleg sjón, en þarna eru ótal hof og „íbúðir“ meðfram öllum klettaveggjunum, byggt um 300 árum fyrir Krist og síðasta fólkið fluttist þaðan burt um 300 eftir krist, aðal hofið þarna er eitt af sjö nýju undrum veraldar og stóð það algjörlega undir væntingum.
 Við gengum líka lengst uppá fjall en á toppnum var risa stórt musteri sem gerði þessa rúmlega klukkutíma göngu í 35°C hita og bröttum tröppum vel þess virði ásamt því að bjóða upp á frábært útsýni yfir alla borgina.


 Eftir sjö tíma stanslaust labb vorum við alveg uppgefin og búin á því enda gífurlega heitt og vatnið á þrotum þannig að við fórum uppá gistiheimili og skoluðum af okkur skítinn. Um kvöldið var að sjálfsögðu horft á Indiana Jones – The last crusade í boði gistiheimilisins (eigandinn dæsti eftir að myndin kláraðist og sagði „ahh.. every night, for the last 10 years“, en það vill nefnilega svo skemmtilega til að myndin er að miklum hluta tekin upp í Petru.
Á fimmtudaginn tókum við rútu (ef rútu má kalla) til Amman, höfuðborgar Jórdaníu, á leiðinni kynntumst við tveimur ferðalöngum og ákváðum við á leiðinni að deila saman leigubíl til að fara að Dauða hafinu. Þennan daginn voru heilar 40°C og hafið sjálft var 32°C. Það var alveg stórfurðulegt að synda þarna því maður flaut bara á yfirborðinu, þó svo að maður var í miklu dýpi stóð maður bara uppréttur með höfuðið uppúr án þess að hreyfa sig. Eftir svamlið í Dauða hafinu fórum við að landamærunum við Palestínu, eins og allsstaðar annarsstaðar við landamærin vorum við sérstaklega tekin fyrir en í þetta skiptið tóku þeir vegabréfið hennar Grétu, eftir að fjöldi starfsmanna hafði yfirfarið það ásamt því að nota málmleitartækið til að kanna það fékk hún það í hendurnar eftir þónokkra stund. 
Gyðinga Þorri ásamt Miguel frá Spáni og Vitto frá BNA
Þegar við mættum til Jerúsalem fundum við (ásamt hinum ferðalöngunum tveim) ágætis hostel í gamla hluta borgarinnar. Um kvöldið var rölt um þessi þröngu stræti og skoðað okkur um. Það sem vakti athygli okkar þetta kvöld var fjöldinn allur af hermönnum/lögreglum vopnuðum sínum stærstu byssum, það er frekar óhugnalegt að labba um með öll þessu vopn í kringum sig og allir eru þeir með fingurinn á gikknum. Einnig fannst okkur áhugavert að sjá þessa ólíku trúarhópa (kristnir, gyðingar og múslimar) búandi saman á svona litlum stað. Þrátt fyrir þessa fjölbreytni eru Palestínumenn ekki velkomnir inn í landið. Leið okkar lá svo að Grátmúrnum, þar sem Grétu var meinaður aðgangur... skiljanlega, hún er nú einu sinni kona. Þorri hinsvegar fékk að fara inn með því skilyrði að hann setti svona gyðinga húfu á kollinn, ekki leiddist honum það. Við grátmúrin tók við undarleg sýn, fullorðnir karlmenn rugguðu sér fram og aftur af miklum ákafa með lokuð augun og hrópuðu út í loftið. Þegar komið var inn í byggingu við veggin var einhverskonar messa í gangi, þar stóð einn maður við pontu og gólaði yfir hina mennina sem góluðu á móti í kór, þetta minnti helst á geðveikrahæli þar sem allir sitja með hendur fyrir andlitinu og rugga fram og aftur muldrandi út í loftið. Á meðan strákarnir skoðuðu grátmúrin fylgdist Gréta með athöfninni sem var í gangi fyrir utan, en þar var verið að innrita nýliða í Ísraelska herinn. Nýliðarnir voru á miðju torginu umvafnir hríðskotabyssum, hoppandi og öskrandi. Herskylda er í Ísrael og þurfa allir strákar að þjóna í þrjú ár en stelpurnar í tvö ár.
Á föstudaginn gengum við leiðina sem Jesú bar krossinn. Þessi ganga leiddi okkur að kirkju sem byggð er yfir staðinn þar sem Jesú var krossfestur og grafinn. Þar inni var upprunalegi steinninn sem krossin stóð á, staðurinn þar sem gert var að líki hans ásamt sjálfri gröfinni (heilagasti staður kristna manna). Eftir þessa heimsókn gengum við aðeins meira um gömlu borgina áður en við drifum okkur niður á rútustöðina þar sem leið okkar lá til Eilat. Sessunautur okkar í rútunni var stelpa úr hernum en handfarangur hennar var hríðskotabyssa.
Við gröf Jesús
Laugardagurinn var að vanda tekinn snemma því okkar beið 7 tíma rútuferð til Cairo. Ferðin byrjaði ekki gæfulega því minnstu munaði að til handalögmála kæmi í sætunum fyrir aftan okkur. Við áttum okkur á því að mennirnir fyrir aftan okkur eru byrjaðir að öskra á hvorn annan, þegar við litum aftur fyrir okkur sjáum við um sex menn ýtandi í hvern annan alveg óðir, það var ekki fyrr en aðstoðarmaður bílstjórans skarst í leikinn að mönnunum var stíað í sundur. Við Suez skurðinn stoppar bílstjórinn rútuna og öskrar eitthvað á arabísku í kallkerfið, allir farþegarnir tóku töskurnar sínar og fóru út. Við þorðum ekki öðru en að gera slíkt hið sama þar sem vopnaðir hermenn og skriðdrekar voru allt í kring. Þegar út var komið voru allir látnir taka töskurnar sínar úr rútunni og opna þær fyrir hermönnum sem leituðu í öllum töskunum

Í gær vöknuðum við klukkan sex og drifum okkur á lestarstöðina til að ná lestinni til Aswan, kvöldið áður höfðum við reynt að kaupa miða en var tjáð að morgunlestin væri full næstu daga og við yrðum að taka kvöldlestina (kvöldlestin er dýrari og bara ætluð ferðamönnum). Við létum nú ekki segjast og tókum „þetta reddast“ á þetta, leituðum upp lestina, þar sem arabískukunnátta Grétu kom vel að notum (þegar hún var tólf ára fékk hún þá flugu í hausinn að læra sjálf arabísku tölustafina) þar sem einungis er notast við arabískt letur á lestarstöðinni og benda allir í sitthvora áttina. Þegar lestin var loks fundin hoppuðum við inn án miða og fundum okkur sæti, það gékk ekki betur en svo að vagnin fylltist og við þurftum að standa, við fengum þó sæti á endanum og gátum keypt miða af starfsmanni. Ferðin niður Níl var stórkostleg og að líta útum gluggann var eins og að horfa á bestu bíómynd (..14 tíma langa) þarna var fólk að handplægja túnin, asnarnir að slóðadraga, konurnar að þvo þvottinn í ánni og börnin syndandi í kring. 
Skemmtilegir ferðalangar sem við hittum í Jórdaníu og fundum aftur í Ísrael
Í dag leyfðum við okkur að sofa út, alveg til níu, eftir morgunmat tókum við rölt um bæinn og skoðuðum okkur um. Leigðum okkur seglskútu með einkastýrimanni í tvo tíma og silgdum á Níl með táslurnar ofaní og sólina í augunum, en við dóluðum þarna í kringum nágranna eyjurnar, þar ber helst að nefna eyjuna Elephantine.
Á morgun er stefnan að taka lífinu með ró og gera sem minnst.




P.s. . Við komumst að því að leigubílstjóri dauðans er fluttur til Cairo (fyrir þá sem hafa gaman af Fóstbræðrum).

sunnudagur, 11. september 2011

Snorklað í Rauða hafinu

Á fimmtudagskvöldið lá leið okkar á Khan el Kalyly markaðinn sem er alveg risa stór og liggur í allar áttir, þetta er mikið gert fyrir ferðamenn en við sáum ekki einn einasta ferðamann þarna, þetta er mjög skrítið það er eins og það sé enginn að ferðast um landið núna, þar af leiðandi fengum við lítinn frið til að skoða hvað þeir höfðu uppá að bjóða því ef þeir ná manni skoða dótið hjá sér kemstu ekki í burtu nema kaupa eitthvað hjá þeim, og ef þú kaupir bara einn hlut hjá þeim fara þeir í fýlu. Það var mikið basl að komast aftur á hostelið okkar þar sem bílstjórinn var alveg týndur í lífinu og vissum við leiðina frekar en hann, þurftum að borga alveg 300 kr sem var þrisvar sinnum meira en leiðin á markaðinn. Þorri er minntur á það á hverju götuhorni hversu heppinn hann sé, því  egypsku karlmennirnir eru yfir sig hrifnir af Grétu og hvert sem við förum er kallað lucky man á eftir Þorra, en á markaðnum kom síðan besta boðið, þar hittum við mann sem sagðist eiga tvær konur og var meira en til í að skipta við Þorra á þeim og Grétu, Þorri sagðist ætla að hugsa málið en að lokum varð ekkert úr þessum skiptum þeirra.
Vöknuðum klukkan 7 á föstudagsmorguninn til að vera viss um að komast út úr borginni áður en hádegisbænirnar myndu klárast því þá áttu að hefjast yfir milljón manna mótmæli. Mættum um átta leytið á Tharir torgið (þar sem mótmælin fara alltaf fram) til þess að fara í sendiráðið og fá vegabréfsáritun aftur inn í Egyptaland (þegar við komum til baka frá Jóradíu) það gekk ekki betur en svo að það var lokað vegna þess að það var föstudagur. Það var mjög sérstakt andrúmsloft á torginu þar sem menn voru þegar komnir saman og byrjaðir að ganga með egypskufánana í fylkingum öskrandi „Revolution“. Það sem kom helst á óvart var að allir skriðdrekarnir, hermennirnir og brynvörðu lögreglumennirnir sem voru þarna daginn áður voru allir á bak og burt nú þegar mesta þörfin var á þeim.  Það kom okkur því ekkert á óvart að lesa í fréttunum að allt hafi soðið uppúr og orðið vitlaust þarna, bensínsprengjur, ofbeldi og byggingar eyðilagðar.
Skunduðum síðan á lestastöðina bara til þess að komast að því að lestin til Aswan var alveg full þannig að ekki gekk það eftir og þá var bara að finna eitthvað annað plan og ákváðum við því að fara frekar með rútu austur á Sinai skagann til bæjar sem heitir Dahab og í framhaldi af því að fikra okkur nær Jórdaníu. Við biðum þarna á rútustöðinni alveg til hálf 2 og strax þegar byrjað var að kirja bænirnar í hádeginu byrjaði fólk að loka öllum búðum og allir þustu í burtu, það var mjög skrítið að fylgjast með þessu því maður fann spennuna í loftinu. Svo þegar við lögðum loksins af stað með rútunni sáum við fólk útúm allan bæ í fylkingum stefnandi að miðbænum allir með fána og baráttusvipinn sinn.
Leiðin til Dahab tók átta og hálfan tíma, en það leið nú ansi fljótt þótt ótrúlegt sé, enda góð afþreying í boði, tveir skjáir voru í rútunni og á þeim voru sýndar tvær arabískar myndir, hljóðið var stillt svo hátt að maður varla heyrði í ipodinum. Á leiðinni var stoppað á svona klukkutíma fresti alla leiðina þar sem við fórum í gegnum tollhlið og voru hermenn með byssur allsstaðar sjáanlegir á leiðinni.. Það var líka þarna indæll maður sem sat við hliðina á okkur sem var að reyna að hjálpa okkur með SIM kortið sem við vorum nýbúin að kaupa, en þetta virkaði ekkert hjá, eftir nokkur símtöl og miklar pælingar heimtaði hann að gefa okkur sitt kort því hann sagði að hann yrði að hjálpa okkur. Við gátum ekki tekið við því hjá honum og eftir mikið þras gafst hann upp, gæti verið að við höfum verið dónaleg að taka ekki við þessu en okkur fannst bara of mikið að þiggja þetta annars góða boð, þetta sýnir bara gestrisnina hjá Egyptunum, þeir brosa líka alltaf til manns og segja „Welcome to Egypt“. Í svona langri rútuferð þar sem er bara stoppað einu sinni væri gott að hafa klósett um borð, en stundum væri bara betra að sleppa því... því ekkert klósett er betra en yfirfullt klósett sem skvettir hlandi um allan klósettklefann og stigann fyrir framan hann.
Í Dahab duttum við inná frábært tilboð á gistingu á rútustöðinni sem reyndar hljómaði of gott til að vera satt og komumst við að því að of gott getur stundum verið satt : ) Hér erum við með einka -hótel, -sundlaug, -veitingastað og –starfsmenn alveg útaf fyrir okkur, frábært herbergi og allt fyrir einn þúsundkall nóttin, innfalið í því var líka kakkalakki í matnum hans Þorra en við kipptum okkur lítið upp við það, hann færður í servíettuna og maturinn kláraður.
Í gær var bara chillað, farið á ströndina og legið við sunlaugarbakkann og viti menn við sáum svona 10 ferðamenn í þessum mikla ferðamannabæ. Í Egyptalandi er hægt að prútta allsstaðar, við meira að segja gátum prúttað í apótekinu!! Um kvöldið var svo borðað úti við sjóinn með útsýni yfir til Sádí Arabíu.
Í dag fórum við á stað sem heitir Blue Hole sem er stórt kóralrif ekki svo langt héðan frá Dahab, þar var deginum eytt í að snorkla í kringum rifin, sólböð og afslöppun. Þetta var rosalega flott og fiskar í öllum regnbogans litum, skjaldbökur og önnur sjókvikindi : ) Þetta er eins og einhver allt annar heimur, sem þetta nú er. Ferðin á staðinn var líka áhugaverð þar sem við sátum aftan á pikk-up bíl ásamt litlum strák sem við þurftum nánast að halda nirði því hann vildi ólmur príla upp á bílþakið eða sitja á kantinum þannig að Þorri þurfti að hafa sig allan við að ríghalda í bolinn hans alla leiðina.
Ferðin sjálf var samt mjög falleg mikið af háum fjöllum, eyðimörk og fólk á kameldýrum allt í kring.
Á morgun er planið að fara til Jórdaníu að skoða Petru og synda í Dauða hafinu, en það er aldrei að vita hvernig plönin breytast : )

fimmtudagur, 8. september 2011

Welcome to Alaska

Við kvöddum gamla góða Ísland á þriðjudagsmorgun tilbúin með bakpokana okkar tvo og nesti frá Ástu ömmu í farteskinu. Lentum um hádegið og komum okkur niðrí miðbæ þar sem hostelið okkar var staðsett sem er örugglega ekki það besta í bænum en kannski fínn staður til að byrja að undirbúa sig undir gistingar komandi mánuði! Herbergið sem okkur var úthlutað var 6 manna svíta innréttuð með þrem kojum og sex brotnum skápum,  engin hurð er á sturtunum svo næði er ekki mikið, eitthvað segir manni  þó að þetta hostel sé mun meiri lúxus en það sem koma skal. 

 









Svo kom nú að því að leita af bakpokarabúðinni sem selur allskonar bráðsniðugt bakpokaradót sem á að vera alveg bráðnauðsynlegt en það fór nú ekki betur en svo að miðasjálfsalinn fyrir strætóinn át alla smápeningana okkar og aldrei fengum við miða, svo bætti nú ekki úr skák að það var úrhelli eins og það gerist best og við ekki með nein hlý föt með okkur þannig að eftir rennblautt tveggja tíma rölt um Piccadilly játuðum við okkur sigruð og fórum uppá hostel og biðum eftir Lore sem kom með lest frá Belgíu seinna um kvöldið. Eftir að Lore kom fórum við á Jamie Oliver veitingastað og höfðum það notalegt. Um nóttina var komist að því að eyrnatappar er ein besta uppfinning frá upphafi.. ja hún bjargaði allavegana nóttinni frá hrjótandi kalli sem svaf í næsta rúmi. Í gærmorgun vöknuðum við snemma og fengum okkur morgunmat á Starbucks og tókum svo röltið á Oxford street sem var bara kvöl og pína (fyrir Grétu) því það er ekki hægt að bæta mikið við bakpokann góða. 
Eftir góðan göngutúr var Lore kvödd og við brunuðum með lestinni til Heathrow þar sem við áttum flug til Cairo höfuðborgar Egyptalands. Áður en vélin lagði af stað kom að sjálfsögðu upp bænir til Allah á skjáinn á hverju sæti og eftir þann lestur fór vélin í loftið. Þegar við vorum að fara að lenda kom fyrsta ,,Ó nei“ augnablikið en þá höfðum við gleymt að taka passamyndirnar okkar í handfarangurinn fyrir vegabréfsáritunina en það reddaðist allt : ) Svo á meðan við biðum eftir farangrinum okkar voru öskreiðir karlar í hverju horni og liggur við slagsmál en öryggisverðirnir sáu um þá! Svo sá maður alla mannmergðina fyrir utan flugstöðina sem biðu eins og hræætur eftir túristum í leigubílana sína, hins vegar höfðum við fengið góð fyrirmæli frá manninum sem sat við hliðina á okkur í vélini ásamt því að maður á upplýsingaborðinu var okkur innan handar og fylgdi okkur í leigubílinn okkar. Ferðin á hostelið gekk samt framar vonum þrátt fyrir brjálaða umferð (okkur fannst það bílstjórinn sagði að þetta væri mjög rólegt kvöld) það virðast ekki vera margar reglur og engar akgreinar þannig að flautan er notuð óspart. Við mættum til að mynda þremur hjálmlausum, ljóslausum  á vespu komandi upp úr göngum á móti umferðinni, bílstjóranum fannst það hins vegar ekki mikið tiltökumál, það sama á við um að stoppa á rauðu ljósi, fólk er ekki mikið að hafa fyrir því. Hostelið sem við erum  á núna er nokkuð ágætt, haugskítugt reyndar en það er á góðum stað og er staðsett uppá þaki  á einni byggingu hérna eiginlega alveg við Tharir torgið, það kom okkur skemmtileg á óvart að hér eru venjuleg klósett en setan þakin skítugum kisuförum, eitthvað verða greyin að drekka (þetta er allt staðsett úti á þakinu þannig að hér eru margir villikettir). 

Fyrsta nóttin var mjög sérstök hérna í Cairo, en silkisvefnpokarnir okkar komu að góðum notum þar sem hér eru bara skítug gömul teppi sem var ekki voða notalegt að leggja yfir sig. Svo um miðja nótt hrukkum við bæði upp þar sem bænaköllin ómuðu um allan bæinn og stóð það yfir í alveg 10-15 mínútur.. aftur komu eyrnatapparnir sér vel. Vöknuðum fyrir allar aldir til að geta notað daginn sem best en eftir kalda sturtu byrjuðum við á því að fara og sjá píramítana í Giza þegar við vorum að keyra inn hljóp fólk að bílnum hjá okkur og reyndu að opna hurðirnar en við rétt náðum að læsa og bílstjórinn brunaði í gegnum þau og við komumst inná svæðið. Það var alveg ótrúlega lítið af ferðamönnum á svæðinu (þeim er víst búið að fækka gífulega eftir óeirðirnar fyrr á árinu) aðallega bara Egyptar og þar af leiðandi reyndi hver einasti að selja okkur eitthvað eða bjóða okkur á bak á kameldýri eða asna en það skemmdi nú ekkert fyrir þessari frábæru sjón sem píramítarnir eru og þetta var eins og að labba inní póstkort, svo var gamli góði Spinx þarna líka og var hann alveg glæsilegur nema það vantaði bara á hann nefið. 






Eftir smá viðræður við leigubílstjóra komumst við niður í miðbæ þar sem við ætluðum að skoða egypska safnið, fyrir utan létum við plata okkur aðeins en það kom maður til okkar og sagði að inngangurinn að safninu væri hinum megin og að það væri lokað í hádeginu nema fyrir hópa og þá sögðum við að við myndum nú bara fá okkur að borða á meðan en hann hélt nú ekki, hann sagði að allir veitingastaðir væru lokaðir í hádeginu vegna bænastunda en það væri þarna frábær búð sem við gætum kíkt í á meðan við biðum og allt í einu var hann kominn með okkur yfir götuna og inní búðina svo föttuðum við þetta ekki fyrr en hann var farinn og maðurinn í búðinni að reyna að selja okkur einhverjar myndir á fullu og hann meira að segja bauð okkur te, einhvernvegin þá trúðum við manninum á götunni því hann var indæll og maður treystir bara að fólk sé að segja satt og ekki ljúga að manni svona vitleysu, en það endaði með að við keyptum ekki neitt og röltum í safnið (inngangurinn var öfugumegin við það sem hann sagði) sem var að sjálfsögðu opið öllum. Safnið er alveg gríðalega stórt og gæti maður eitt þarna mörgum klukkutímum og jafnvel dögum. Það var eitthvað svo skrítið að vera þarna og horfa á hluti (skartgripi, rúm, líkkistur, styttur, vagna o.fl.) frá því allt að 3000 fyrir krist, svo voru þarna að sjálfsögðu múmíur í öllu sínu veldi karlar og kerlingar, dýr og börn. Eftir smá overload röltum við um miðbæinn í kringum Tharir torgið (þar sem öll mótmælin voru/eru haldin) en þar var mikið mannlíf og voru þarna skriðdrekar á hverju götuhorni og hermenn tilbúnir með byssurnar sínar. Þarna sáum við líka konu með ekkert andlit en ætli það hafi ekki verið helt á hana sýru fyrir að vera ekki með rétta manninum, maður heyrir allavegana að það sé mjög algengt hérna í miðausturlöndum. Að fara yfir götu í Cairo er ákveðin kúnst en hún er að demba sér útí umferðina (sama hvað þú bíður lengi það munu aldrei vera það fáir bílar á götunni að þú getir hlaupið yfir og sama hvað þú bíður lengi þeir munu aldrei stoppa fyrir þér) og ganga rösklega eftir götunni á sama hraða og hvað sem gerist ekki hika, eins og fyrsti leigubílsstjórinn okkar sagði að í umferðinni horfir enginn í baksýnisspegilinn, bara fram fyrir sig og ef allir gera það ætti þetta að ganga upp, og þótt ótrúlegt sé þá gerir það það (fyrir utan það eru samt allir bílar mjög rispaðir allan hringinn). Húsin hérna eru líka frekar sérstök en það eru eiginlega engin hús alveg tilbúin, eins og það eigi eftir að byggja nokkrar hæðir í viðbót en okkur var sagt að það sé vegna þess að þá borgar fólkið minni skatta. Við höfum líka tekið eftir því að arabískir karlmenn kissast rosalega mikið og knúsast þegar þeir sjá hvorn annan.
Á morgun verða víst einhver kröftug mótmæli hérna í miðbænum (hostelið okkar er staðsett rétt hjá Tharir torginu) eftir bænastundina í hádeginu en eins og við sáum niðri í bæ er herinn og lögreglan tilbúin því allan daginn standa þeir í hring við torgið brynvarðir. En við ætlum nú ekki að taka þátt í því neitt heldur ætlum við að skella okkur suður á bóginn til Aswan sem er 12 tíma lestaferð héðan. 











**Til að útskýra titilinn þá höfum við heyrt þessa setningu nokkrum sinnum í dag og við vitum ekki hvort þeir eru að vera svona kaldhæðnir útaf veðrinu hérna eða þá að við séum svona hvít!