laugardagur, 29. október 2011

Stórborgarlíf


Ljufa lif
Á laugardaginn fyrir viku skunduðum við á flugvöllinn í Nairobi með vini gistiheimiliseigandans, kampakátur kall sem talaði mikið og sagði okkur meðal annars frá ástandinu sem er að byrja í Kenýa og Sómalíu en kenýski herinn er kominn til Sómalíu til að hefna þess að ákveðinn hryðjuverkahópur (tengdur al-qaeda) hefur verið að ræna ferðamönnum og hjálpastarfsmönnum í Kenýa og sagði vinur okkar að það væri hafið lítið stríð í Sómalíu og fjöldi manns verið drepinn en minnst af þessu kemst í heimsfréttirnar. Á leiðinni á flugvöllinn sáum við svo sorglega sjón þar sem tugir fjölskyldna ýmist báru búslóðirnar sínar á vögnum eða sátu við vegkantana með allt sitt dót. Bílstjórinn okkar sagði að ríkisstjórnin stundum „tæki til“ og henti öllum þessum fjölskyldum út úr íbúðunum sínum oft vegna þess að fólkið stóð ekki alltaf í skilum eða þá að ríkisstjórninni dettur í hug að nota landið í eitthvað annað, fólk hefur ekkert um það að segja og neyðist til að fara burt út í óvissuna. Búslóð flestra heimilanna var ekki stærri en svo að það þurfti oftast ekki nema 4-5 til að bera hana alla. Eins slæmt og við Íslendingar höldum að við höfum það þá er þetta eitthvað sem við myndum aldrei þurfa að horfa upp á bara vegna þess að einhver heldur að hann muni kannski geta notað jörðina í eitthvað annað.
Nyji besti vinur hans Þorra
Síðan var flugið tekið til Qatar, ferðin leið mjög hratt þar sem boðið var upp á rauðvín og osta á meðan sýnd var mörgæsamynd í sjónvarpinu og heimildamynd um bölvandi „rednecks“ í suðurríkjum Bandaríkjanna.
Komum svo á þetta svona líka flotta hótel í Doha höfuðborg Qatar, þetta var „ódýrasta“ hótel borgarinnar og 4 stjörnur. Um leið og við löbbuðum inn langaði okkur eiginlega bara að hlaupa út þaðan sem við komum því við pössuðum engan vegin inní þetta lobbý þöktu gulli og marmara, við nýkomin frá Kenýa í skítugum fötum með ennþá skítugri bakpoka á bakinu. Á móti okkur kom jakkafataklæddur töskuberi sem við þáðum ekki hjálp frá. Þetta stjörnulíf var nú samt ekki lengi að venjast þegar við komum inní herbergið sem var með flatskjá, loftkælingu og heitri sturtu ásamt sólahrings herbergisþjónustu. Það var samt mjög skrítið að í fyrsta skiptið í ferðinni þurftum við ekki að fara í skó áður en við stóðum uppúr rúminu.. gólfið var hreint!
Harpa Qatarbua
Fyrsta daginn röltum við aðeins í kring um bæinn þar sem við skoðuðum það sem nánasta umhverfi hafði upp á að bjóða, til dæmis merki borgarinnar sem er perla í stórri skel. Þessi borg er mjög öðruvísi hér er allt svo nýtt og flott, allir eru á nýjum bílum og háhýsi á hverju horni . Byggingarnar hérna eru rosalegar og greinilegt að það vantar ekkert peningaflæði inní þetta land. Svo er verið að byggja eyjar hérna allt í kring.
Ákváðum að kúpla okkur aðeins niður næstu tvo daga, fórum sem minnst út úr draumaherberginu okkar og nýttum herbergisþjónustuna í botn. Horfðum mikið á sjónvarpið og vöfruðum um netheimana, tókum semsagt svona gera-ekki-neitt helgi en skelltum okkur þó í bíó á eina ameríska og borðuðum karamellupopp.
Þorri vid perluna, olikt minni en a Islandi
Einn daginn ákváðum við að nú væri komið nóg af þessu letilífi, gerðumst menningarleg og fórum á safn íslamskrar listar sem er virkilega stórt og flott safn hérna í Doha en þar sem við erum ekkert mjög „arty“ í okkur entumst við ekki mjög lengi þarna og meira að segja slepptum fría bíóinu sem okkur var boðið í á safninu, mynd sem fjallaði um tilraunir til að bjarga listinni á tímum Sovétríkjanna. Þetta var samt rosalega flott bygging sem stóð á manngerðri eyju. Ætluðum svo á vopnasafnið en það var lokað vegna framkvæmda en héldum okkur þó á menningalegu nótunum og fórum þess í stað í bókabúð í leit að Lonely Planet bókum en þar sem það var ekki til tókum við bara tennisleik í X-box.
Löggan ad skamma Gretu a göngunni löngu
Leigubílakerfið í þessari borg er alveg fáránlegt miðað við hvað allt annað er fullkomið hérna. Þú veifar ekkert bara hendinni og kviss bang leigubíllinn er kominn, við biðum í örugglega 20 mínútur á umferðareyju að reyna að ná í einn en án árangurs því enduðum við á að labba á hótelið okkar og tók það ekki nema þrjá tíma en í staðinn ákváðum við að verðlauna okkur með hummus og nautasteik á geðveikum líbönskum veitingastað, þetta var allt mjög fullkomið nema það vantaði rauðvínið en það er náttúrulega alveg stranglega bannað í svona múslimsku ríki. Þarna sátum við og drekktum okkur í  umhverfið þar sem allt ilmaði af ávaxtatóbaki og myntuteslykt. Röltum síðan um gamla markaðinn sem var mjög skemmtilegur, mikið líf og fjör. Þarna var líka gæludýramarkaður þar sem aðal málið virðist vera að spreyja gæludýrin í allskonar litum, bleikum, gulum og grænum.
Litrikar kaninur
Þessi vika var mjög fljót að líða, erum við búin að nýta okkur þennan stóra og fína vask á herberginu okkar í að þvo þvottinn okkar, Þorri sýnir sértaklega góða takta í því miðað við byrjanda en Gréta hefur ársreynslu frá því í Thailandi þannig að það er ekkert að marka. Ætluðum nú reyndar að nýta okkur þvottaþjónustuna á hótelinu en þau þvo víst ekki þvott á föstudögum.  En nú erum við búin að hlaða öll batterí, tilbúin fyrir næsta ævintýri í Indlandi en við fljúgum þangað núna í kvöld. Í dag erum við búin að eyða deginum í verslunarmiðstöðinni, drekka gott kaffi og borða góðan mat. Þessi verslunarmiðstöð er sú stærsta í mið-austurlöndum og var þar stórt skautasvell og körfuboltavöllur. Gréta komst svo óvart að því að hér í borg væru tvær H&M búðir og var það andlega erfitt að freistast ekki og fara þangað inn, en það tókst.  Í dag löbbuðum við svo hérna um í „nýja“ bænum og sikksökkuðum um háhýsin dolfallin.

Qatar er mjög fjölmenningarlegt ríki og er aðeins einn fjórði íbúa innfæddir, hér er mjög mikið um Indverja, Kínverja og Philipseyjinga. Í heildina búa hérna 1,5 milljón og er landið níu sinnum minna en Ísland.
Þar sem við höfum ekki verið hérna það lengi treystum við okkur nú ekki í alla þessa samantekt eins og við höfum verið að gera, höfum ekki farið í neina rútu, bát eða lest en hendum þó nokkrum verðdæmum inn:

Bíómiði: 1.100 kr.
1,5 l vatn: 65 kr.
Núðlur: 480 kr.
Leigubíll í 10 mín: 800 kr.
„Ódýrasta“ hótelherbergið í Doha: 6.500 kr.
Nautasteik: 1.500 kr.

Settum svo inn síðbúið myndband frá Egyptalandi, Jórdaníu og Ísrael, það má nálgast HÉR
Og myndir frá Qatar koma svo mjög fljótlega, minnum svo aftur á að það er hægt að ýta á staðsetninguna herna fyrir neðan til ad fá upp kort.

laugardagur, 22. október 2011

Lokadagar i Afriku


Komumst áfallalaust í gegnum rútustöðina og alveg á leiðarenda, þó svo að rútuferðin hafi tekið 16 tíma í staðin fyrir 12 eins og okkur var sagt en við erum búin að komast að því að maður þarf alltaf að bæta við 3-5 tímum við það sem manni er sagt. Erum því komin til Nairobi núna á gamla gististaðinn okkar og voru kristnu nágrannarnir okkar samir við sig og blöstuðu bænaöskrum alla nóttina og fram eftir morgni. Í gær röltum við um göturnar hér í borg, fórum á pósthúsið og svoleiðis stúss.
Okkur fannst svolítið spennandi að fara inná kenýskt pósthús því á öllum þeim stöðum sem við höfum komið til hefur fúlasta og önugusta fólkið alltaf leinst á pósthúsunum, það væri því áhugavert að komast að því hvernig pósthússtarfsmenn í Kenýa myndu taka á móti okkur og viti menn það var tekið á móti okkur með bros á vör og vildi starfsfólkið allt fyrir okkur gera, þeir meira að segja gátu sent póst til Íslands, eitthvað sem fúlu starfsmennirnir í Tanzaníu gátu ekki gert. Þetta undirstrikr því hversu yndælt fólkið er hérna.
Í kvöld fljúgum við til Qatar sem er lítið olíufustaríki á arabíuskaganum, við stoppum þar í viku til að hlaða batteríin áður en við höldum svo áfram til Indlands.



Hér kemur svo smá samantekt í lokin um Kenýa og Tanzaníu.

Það sem kom okkur mest á óvart:
-Hvað ættbálkafólk er áberandi (héldum að þeir héldu sig einhversstaðar afskekkt).
-Hvað mikill hluti þorpanna sem maður keyrði í gegnum samanstóð nánast einungis af mykjukofum.
-Maður sá villt dýr mjög víða en ekki bara í þjóðgörðunum, þá aðallega sebrahestar og antilópur.
-Hvað er lítið um betlara.
-Hvað götusölumennirnir voru lítið uppáþrengjandi og létu „nei“ nægja sér.
-Hvað fólk er glaðlegt og jákvætt þrátt fyrir mikla og sýnilega fátækt.
-Veðrið.. það er ekki nærri eins heitt og við bjuggumst við, t.d. í Nairobi þarf maður að vera í buxum og peysu á kvöldin og morgnanna.

Það sem stóð uppúr:
-Safaríferðin númer eitt, tvö og þrjú.
-Heimsóknin í Masai þorpið.
-Að hanga í litlum þorpum bara með innfæddum.
-Ströndin á Zanzibar

Jákvæðar hliðar:
-Hvað maður fékk litla athygli
-Frekar lítið áreiti
-Það tala ALLIR ensku
-Allir tilbúnir að hjálpa
-Brosmildi (aðallega Kenýa þó)
-Maður sér mjög lítið rusl á víðavangi og á götunum.
-Ódýrt að lifa hér (Fyrir utan Zanzibar og safaríferð)

Neikvæðar hliðar:
-Rútustöðvar og vitleysan sem þeim fylgja.
-Maður fær smá ósanngirnistillfinningu að sitja hliðiná einhverjum t.d. í ferjunni til Zanzibar vitandi að maður er að borga 5 sinnum meira en manneskjan við hliðiná manni.
-Að maður geti ekki verið úti eftir myrkur (um 6 leytið) vegna þess hve hættulegt það er (fyrir utan ströndina í Zanzibar)
-Hvað ringdi mikið á meðan við vorum í Kenýa (samt mjög jákvætt fyrir grasið og uppskerur :) )
-Maturinn, erum orðin frekar leið á kjúkling og frönskum sem virðist vera oft það eina sem til er á matseðlunum (Nema í Zanzibar).
-Sómölsku sjóræningjarnir sem hindruðu ferð okkar til Lamu.

Sá tími sem við sátum í rútum eða bátum voru 69 klukkutímar (þar af 5 í bátum) og það gerir rétt tæpa þrjá sólahringa á ferðinni :)

Hér koma svo nokkur verðdæmi frá báðum löndum (að Zanzibar undanskildu)
1,5 l af vatni = 50 kr.
300 ml af gosi = 30 kr.
500 ml bjór á bar = 130 kr.
Þriggja rétta máltíð fyrir tvo = 700-1.000 kr.
Tveggjamannaherbergi á gistiheimili = 800-1.500 kr.
Leigubíll ca. 15 km = 1.100 kr.
Tveggja tíma snorklferð fyrir tvo (með öllum útbúnaði) = 3.000 kr.
4 daga safaríferð með öllu inniföldu fyrir tvo = 120.000 kr.

Hér kemur svo kort af leiðinni sem við höfum farið síðustu þrjár vikurnar:

Getid ytt a myndina til ad staekka!
Og svo viljum vid minna a myndirnar:

miðvikudagur, 19. október 2011

Zanzibar


Á laugardaginn tókum við ferju frá Dar es Salaam til eyjunnar Zanzibar sem liggur hérna við Indlandshafið. Sáum við komuna að við vorum komin á ferðamannastað og verðið í samanburði við það en hérna er allt svona þrisvar sinnum dýrara en það er svo sem í lagi að taka svona staði inná milli. Gistum eina nótt í höfuðstað Zanzibar sem heitir Stone Town, þetta er mjög krúttlegur bær þar sem er mikið um þröngar götur og lítið um bíla, leigubílsstjórinn okkar keyrði minni part leiðarinnar að gistiheimilinu okkar og labbaði með okkur megnið af henni. Það var mjög gaman að rölta þarna um og fylgjast með krökkunum leika sér með glerkúlurnar sínar á þessum litlu strætum. Maturinn þarna var betri heldur en við höfum vanist hingað til í Afríku en það eru líklegast indversku og miðausturlensku áhrifin sem spila þar inní (eru mjög sterk á eyjunni). Stóran hluta kvöldsins var bærinn alveg rafmagnslaus og var þetta eins og í myrku völundarhúsi að komast aftur að gistiheimilinu okkar sem okkur tókst þó að lokum, en það gerist mjög oft hérna að rafmagnið fari, bæði í Kenýa og hér í Tanzaníu.
Morguninn eftir skoðuðum við gamlan þrælamarkað en þessi eyja var mikil verslunareyja og var þetta miðstöð fyrir Indland, mið austurlönd og Afríku að skiptast á vörum og þar á meðal mikið af þrælum sem voru seldir útum allan heim frá Zanzibareyju. Þarna voru nokkrir litlir klefar í dýflisu  sem ógrinni af þrælum var troðið inní, þar dóu fjöldinn allur af þrælum úr matarskort, súrefnisleysi og troðningi börn, konur og menn. Þarna hliðiná var svo drungaleg kirkja sem var fyrsta dómkirkja Austur Afríku.
Fórum svo um hádegið með bíl nyrst á eyjuna og það má alveg segja að þetta er algjör paradís, skrítið að hugsa til þess að það hafi verið svona mikill hryllingur, eins og þrælaviðskiptin voru, á svona fallegum stað. Hérna er sjórinn alveg tær, sægrænn og sandurinn hvítur og mjúkur, hér er allt svo hreint og fínt og okkur leið strax mjög vel þarna og þá sérstaklega Þorra sem fann bar á ströndinni sem sýndi Liverpool-Manchester og seldi Kilimanjaro bjór, en hér snýst ALLT um Kilimanjaro, bjór, vatn, ferðaskrifstofur, hótel og meira að segja bátuinn sem við komum með hét Kilimanjaro. Fengum svo æðislegan kofa sem var alveg á ströndinni með frábært útsýni út á sjóinn.
Á sunnudaginn tókst okkur svo að bæta upp fyrir það sem rigningin tók frá okkur á Diani í Kenýa og fórum við í snorklferð en þar var stoppað við tvö kóralrif sem voru mjög falleg og litrík með mikið af lífi. Eftir ferðina gátum við sinnt okkar áhugamálum í sitthvoru lagi en Þorri sat við barinn að horfa á fótbolta á meðan Gréta workaði tanið á ströndinni :) Um kvöldið borðuðum við á mjög kósý stað þar sem sátum undir stjörnunum og borðuðum humar og túnfisksteik (ekki úr dós samt). Eftir matinn hófust svo skemmtiatriði upp úr þurru þegar fjórir sirkúskallar komu hlaupandi inn gargandi og syngjandi. Í miðju atriðinu drógu þeir Grétu uppá svið og létu hana fara í limbó undir brennandi stöng sem hún fór létt með og hélt öllum hárum á höfðinu.
Daginn eftir lágum við í algjöru leti á ströndinni og sleiktum sólina allan daginn og urðum bæði medium rare allan hringinn. Um kvöldið borðuðum við aftur undir stjörnunum á uppáhalds staðnum okkar og fengum okkur mjög gott humarpasta. Lífði á ströndinni var yndislegt og okkar einu áhyggjur samanstóðu af því hvar, hvenær og hvað við ættum að borða, allt annað skipti engu máli og við vissum aldrei hvað klukkan var né hvað var að gerast í umheiminum í kring um okkur.
Í gær pökkuðum við saman og kvöddum ströndina og sem betur fer var allur peningurinn okkar búinn og því ekki eins erfitt að kveðja en áður en við fórum höfðum við tekið eins mikinn pening út og við gátum því við vissum að enga hraðbanka væri að finna við ströndina. Á meðan við biðum eftir ferjunni í Stone Town gegnum við um bæin en þetta er fæðingarstaður Freddy Mercury fyrrum söngvara Queen og eru hinir ýmsu staðir nefndir í höfuðið á honum. Við tókum hröðu ferjuna í þetta skiptið því okkur var sagt að hæga ferjan færi klukkan níu um kvöldið og kæmi ekki fyrr en snemma um morguninn daginn eftir. Ástæðan fyrir því væri að hún hefði ekki leyfi til að fara að bryggjunni um nóttina og í staðin fyrir að leggja fyrr á stað að þá myndi hún dóla þetta alla nóttina og okkur leyst ekkert á að eyða nóttinni á sjó í lélegum sætum. Þegar við komum til Dar es salaam hófst kapphlaupið við myrkrið aftur og kæruleysið og öryggið við ströndina horfið, við drifum okkur að borða á leiðinni á gistiheimilið og eyddum kvöldinu síðan innandyra ala Afríka.
Vöknuðum fyrir allar aldir í morgun þar sem við ætluðum að ná rútu sem færi til Moshi sem er bær í norðurhluta Tanzaníu og er helst þekkur fyrir að liggja við rætur Mt. Kilimanjaro hæsta fjalls Afríku, ætluðum að eyða þar einni nóttu á leið okkar til Nairobi. Þegar við mættum á rútustöðina hópuðust fjöldinn allur af köllum sem toguðu í okkur í mismunandi áttir og var þetta allt saman ein stór ringulreið en það endaði með því að við náðum að slíta þá frá okkur, hlupum inná næstu skrifstofu og pöntuðum miða í rútu sem átti að fara klukkan 9 sama morgun. Þetta gekk allt saman ljómandi vel, fundum rútuna okkar og settumst inn, þetta var ekki alveg draumarútan fyrir 8-13 tíma rútuferðalag en ekkert við því að gera. Eftir mikla þolinmæði, klukkan orðin 11 og rútan ekki enn farin af stað verður allt í einu allt vitlaust í rútunni allir öskrandi á alla og eina sem við skildum var lögregla, lögregla þarna hópuðust allir saman á rútuganginum og fólk baðaði út höndunum hvert öðru reiðari. Okkur var ekki alveg sama og spurðum við einn, sem leit út fyrir að vera svona nokkuð rólegur, hvað væri eiginlega í gangi og þá sagði hann að það hafi verið hætt við ferðina, svo þustu allir fokreiðir út og við eltum, þar var okkur vísað inní nýja rútu, troðfulla með engum lausum sætum og þegar við sættum okkur ekki við að sitja á gólfinu í alla þessa klukkutíma var okkur bent á enn aðra rútuna og þegar inn var komið voru sætin eins og steinar að sitja á, 90° halli á bakinu og níðþröngt. Okkur var sagt að hún færi klukkan 11 en klukkan var þegar orðin hálf 12 og voru þeir greinilega að bíða eftir að hún fylltist áður en við gátum lagt af stað, þar sem hún var nánast tóm ákváðum við að gefast upp og fórum inná skrifstofuna aftur og reyndum að fá miðana okkar endurgreidda, það var frekar mikið þras en á endanum fengum við hluta miðana uppí aðra miða á morgun þar sem við ætlum beina leið til Nairobi í Kenýa, sú rúta á að vera „Luxury“ bus, en við sjáum hvað setur. Þessi rútustöð var algjört brjálæði út í gegn, þarna barðist starfsfólkið bókstaflega um hvern einasta farþega, það var slegið, sparkað og barið hvorn annan í von um að fá farþegann til sín maður gat ekki annað en hrist höfuðið. Þetta er rosalega ólíkt hinu rólega og yfirveguða Kenýa sem við getum ekki beðið eftir að komast aftur til. Við erum ekki alveg viss um ástæðuna afhverju fólk hér í landi er miklu reiðara heldur en nágrannarnir í Kenýa en við höfum giskað á hvort það gæti verið trúin því meirihlutinn hér í Tanzaníu eru múslimar (eins og reiðu bræður þeirra í Egyptalandi) en í Kenýa er meirihlutinn kristinn en kannski er þetta bara tilviljun, ætlum ekki að fullyrða neitt.
Sem sagt þá erum við enn föst í Dar es Salaam en það er svo sem ekkert svo slæmt og við reynum bara að gera gott úr því, það er heldur ekki hægt að ætlast til að allt gangi upp eins og það hefur gert hingað til :)

Fleiri myndir eru vaentanlegar inna facebookid hennar Gretu mjog fljotlega :)

fimmtudagur, 13. október 2011

Jambo, lookie lookie


Föstudaginn tókum við rólega og gerðum sem minnst, nauðsynlegt að taka svoleiðis daga inn á milli, eftir áreitið á ströndinni daginn áður ákváðum við að nenna ekki að fara þangað aftur því þessir sölumenn geta verið algjörar orkusugur. Við erum aðeins að reyna að fikra okkur áfram í matnum hérna en það gengur frekar hægt þar sem matseðlarnir eru yfirleitt frekar einhæfir og stendur valið oftast á milli einhverra geita- eða nautalíffæra, kjötstöppu eða kjúklings  og það kannski segir sig sjálft að kjúklingur, eða kuku eins og það er kallað hér, verður nær alltaf fyrir valinu og erum við orðin svona „örlítið“ leið á því. Núna erum við bæði búin að smakka egypska og kenýska pizzu (sem var eiginlega nokkurskonar eggjakaka með hakki á milli) en stigin standa 1-1 þar sem Þorra fannst sú egypska betri en Grétu sú kenýska. Maturinn hérna er samt hlægilega ódýr þar sem maður er að fá stórar máltíðir fyrir tvo með drykkjum á undir 700 kr. Ástæðan fyrir því er nú líklega sú að við höfum verið mjög dugleg að lifa í nálægð við heimamenn og forðast allt sem kalla mætti ferðamannasvæði, þannig gistum við á ódýrustu hótelunum sem aðeins heimamenn láta bjóða sér upp á langt frá ferðamannalúxusnum, ferðumst eins og heimamenn með enga loftkælingu í litlum bílum sem eru yfirfullir af fólki. Matsölustaðirnir sem við sækjum eru vanalega litlir götumatsölustaðir með plastgarðhúsgögnum fyrir innan og er hreinlæti þessarra matsölustaða og gistihúsa eftir því en hvað eru einn eða tveir kakkalakkar á milli vina. Við höfum mjög gaman af þessum ferðamáta og söknum ferðamannanna og þeirra lúxus ekki neitt.
Laugardagurinn var síðan tekinn snemma að vanda og drifið sig á rútustöðina, þetta var þó ekki meiri rútustöð en það að okkur var skutlað að gatnamótum þar sem hópuðust að okkur fjöldi fólks sem allir vildu fá okkur í hópferðabílinn sinn og gilti þarna greinilega að hlaupa, öskra sem hæst og flauta sem mest til að ná athygli okkar. Á endanum létum við undan og fengum okkur sæti aftast í einum bílanna sem var á leiðinni til Mombasa. Ferðin til Mombasa var mjög skemmtileg en þarna sátum við tvö hvít inní hópferðabíl fullum af heimamönnum með útvarpið í botni og nutum hressrar og skemmtilegrar kenýskrar tónlistar og fylgdumst með lífinu út um gluggann. Þar mátti t.d. sjá menn draga vagnana sem maður var vanur að sjá egypsku asnana draga fulla af hinum ýmsu vörum, þar voru verkamenn við störf, endalaust af götumörkuðum svo ekki sé talað um öll litlu þorpin útbúin strákofum og bárujárnskofum þar sem konurnar sinntu heimilisstörfunum fyrir utan. Einnig voru þarna fjöldinn allur af sláturhúsum og virðist vera hægt að troða sláturhúsum allsstaðar, þarna voru barir með sláturhúsi, veitingarhús með sláturhúsi og svo auðvitað hin ómissandi hótel með sláturhúsi. Í stemningunni frá útvarpinu með hressu lögin og útvarpsmennina að reyta af sér brandarana á Swahili og útsýnið út um gluggann var ekki annað hægt en að brosa út að eyrum eins og heimamenn sem virðast vera hver öðrum glaðlyndari. Þegar við síðan komum til Mombasa tókum við tuktuk að ferju sem flutti okkur yfir flóann (þangað sem fjöldi bíla fer til Diani beach en þangað lá leið okkar þennan daginn). Okkur leið helst eins og rollum á leið til slátrunar því við þurftum að byrja á því að standa í kássu ásamt hundruðum manna sem ýttu á hvorn annann. Þegar ferjan loksins lagðist að bryggju opnaðist hliðið fyrir framan okkur og fólk byrjaði að hlaupa í átt að ferjunni, við flutum með og höfðum okkur öll við til að verða ekki undir. Sem betur fer var ferðin stutt og ferjan tæmdist jafn fljótt og hún hafði fyllst og var síðan lögð af stað í næstu ferð áður en við vissum af. Þá tók við sama brjálæði og áður við að koma okkur í hópferðabíl á réttan stað, þessi bíll var svo troðfullur að einn farþeginn hékk hálfur út um bílinn með galopna rennihurðina mest alla leiðina. Loksins komumst við á áfangastað og fundum mjög fínt gistihús (innifalið í verðinu voru tvö gæludýr: kakkalakki, sem reyndar er ekki á meðal oss lengur og lítil eðla sem tekur að sér að halda öðrum skordýrunum í burtu) og urðum við strax ástfangin af staðnum, meira að segja áður en við höfðum svo mikið sem séð ströndina.
Á mánudeginum fórum við síðan á ströndina með matatu (litlir hópferðabílar sem eru út um allt) og við eignuðumst fullt af vinum á leiðinni og á ströndinni, það vildi svo skemmtilega til að þeir áttu allir búðir við ströndina, ótrúlegt. Þetta var virkilega falleg strönd sem liggur við Indlandshaf, sandurinn var svo fínn að maður sökk upp að kálfa við hvert skref. Á ströndinni fundum við skipstjóra sem talaði okkur í að fara á bát með glerbotni svo hægt er að fylgjast með dýralífinu í kórulunum fyrir neðan. Að vísu var ekki hægt að fara þennann daginn vegna öldugangs og pöntuðum við því ferð daginn eftir og keyptum af honum allskonar muni í staðinn. Á leiðinni til baka hittum við síðan mann sem vildi endilega fá okkur til að kíkja í búðina sína og eftir að við höfðum sagt honum að við værum ekki með neinn pening var hann fljótur til og sagði að það væri allt í lagi, benti á Þorra og sagði að hann hliti að eiga sokka því sokkar kosta jú peninga og var hann meira en til í 
Api i gipsi

að skipta á sokkapari og einhverjum munum úr búðinni sinni. Þorri var því miður ekki í sokkum og lofaði honum að koma með par af sokkum næsta dag til að skipta við hann, var hann mjög ánægður með það og lét okkur fá nafnspjaldið sitt (sem reyndar var handskrifað á blað frá hverfisapótekinu). Fyrr um daginn höfðum við fengið tilboð um að skipta á flip flop skónum okkar og vörum en sáum fram á erfiða leið heim skólaus og höfnuðum því þessu ágæta boði. Það er greinilegt að við þurfum að byrgja okkur upp af allskonar varningi  svo við séum samkeppnishæf. Um kvöldið fórum við síðan út að borða á stað sem kallar sig „fast food“ en við höfum aldrei beðið undir klukkutíma eftir matnum þar, það á að vísu við um alla matsölustaði hér í landi og virðist lífið hér oft vera í slow motion og enginn að stressa sig yfir því að bíða í klukkutíma eftir ristuðu brauði og hrærðu eggi. Á meðan við bíðum eftir matnum kemur hver götusölumaðurinn á fætur öðrum með allskonar drasl, allt frá gardínustöngum upp í kommóður og stór vegglandakort. Á þessum matsölustöðum er hið ótrúlegasta samansafn af fólki, við höfum lennt í því oftar en einusinni að menn taka sig til og byrja að dansa á milli borðanna með miklum töktum, ber þar helst að nefna heimamann sem var búinn að lita á sig hvítt skegg, augabrúnir og hár sem „moonwalk-aði“ t.d. á milli borða (náðum honum á myndband). Þeir eru samt ekki að biðja um pening heldur gera þeir þetta sér og öðrum til skemmtunar.
Á þriðjudaginn vöknuðum við spennt og tilbúin í bátsferðina vopnuð sokkapari í töskunni, gleðin stóð því miður ekki lengi því það var hellidemba úti og skipstjórinn hafði sagt að það væri ekki hægt að fara í rigningu. Við fórum því ekkert niður á strönd og hittum þess vegna ekki sokkavin okkar. Við vorum hins vegar staðráðin í því að láta þetta ekki eyðileggja daginn fyrir okkur og fórum í staðinn á Colobus trust sem stofnað var til að bjarga Colobus apategundinni sem er í útrýmingahættu hér í Kenýa. Þar er unnið mikið gott starf t.d. setja þeir brýr yfir umferðagötur svo aparnir komist öruggir yfir, klippa greinar sem liggja við rafmagnsstaura, fjarðlægja gildrur sem þeir festast í og fræða börn um að ekki sé sniðugt að kasta gróti í apana, sem þau eru gjörn á að gera. Einnig taka þau við öpum sem hafa verið haldið sem gæludýr og hjálpa  þeim að spjara sig í náttúrunni aftur, svo eru þau með dýralæknastofu og sáum við einn apa í gipsi sem hafði handleggsbrotnað. Rigninginn hafði að vísu sitt að segja í þessari heimsókn líka því við sáum ekki einn einasta Colobus apa því þeim er, eins og okkur, ekkert sérstaklega vel við rigninguna og voru því allir í felum einhversstaðar, en við fengum þó að sjá nokkra apa í búrum sem ekki voru tilbúnir í að vera hleypt út í nátturuna strax og við gáfum pening í mjög gott málefni, við vorum því nokkuð sátt með heimsóknina.

Masai madur ad tala i gsm sima

Það getur verið mjög skondið að rölta um bæina hérna þegar inn á milli birtast allt í einu menn frá  ættbálkunum þar sem þeir skera sig mjög úr í rauðu teppunum sínum, dekkjaskónum og með kylfu sem þeir hafa alltaf með sér (notuð til að verjst villidýrum). Við erum alveg fallin fyrir Kenýa enda ekki annað hægt þar sem allir eru svo afslappaðir og kátir, fólkið alltaf syngjandi og dansandi, ekki einu sinni höfum við séð fólk rífast eða æsa sig. Þó svo að okkur líki svona vel við Kenýa ákváðum við þó að kíkja í heimsókn til nágranna þeirra í Tanzaníu.
Gærdagurinn fór allur í keyrslu, við mættum snemma á rútustoppið, við þurftum að bíða eftir rútunni í um klukkutíma í mígandi rigningu, íslenska rigningin er bara smá úði miðað við þetta. Á meðan við biðum fylgdumst við með krökkunum á leið í skólann og var sorglegt að sjá útbúnaðinn á flestum þeirra, stór hluti þeirra gegnu um á tánum með plastpoka fyrir skólatösku. Sáum bara tvo foreldra sem fylgdu börnum sínum í skólann og héldu þeim þurrum með regnhlíf, hinir höfðu enga vörn gegn rigninguni og voru á floti. Okkur var sagt að ferðin til Dar es Salaam í Tanzaníu tæki átta klukkutíma en það drógst örlítið þar sem hún lengdist um 6 klukkutíma en svona ganga hlutirnir bara fyrir sig hér í Afríkunni og enginn að kippa sér neitt sérstaklega upp við það. Eftir að við fórum í gegn um landamæri Tanzaníu versnaði vegurinn til muna en hann var lokaður meirihluta leiðarinnar og keyrðum við í staðinn meðfram honum í drullusvaði eftir rigningu síðustu daga, vegurinn var mjög holóttur, svona svipað og maður myndi ímynda sér afríska vegi og rútan hljómaði eins og hún væri við það að gefast upp eða hrynja í sundur. Við keyrðum í gegnum fjöldan allan af þorpum á leiðinni og alltaf jafn gaman að fylgjast með þeim því þarna vorum við greynilega að fjarðlægjast  stórborgirnar en um 80% húsana sem við sáum á leiðinni voru byggð úr mykju og greinum, með stáþökum. Í einu þorpanna labbar maður út á miðjan veginn með hendina á lofti og stoppar rútuna, hann kemur inn og honum fylgja þrír aðrir óeinkennisklæddir menn með þrjá fanga í eftirdragi, tveir þeirra voru handjárnaðir saman en sá þriðji handjárnaður fyrir aftan bak. Þeir settust aftast í rútuna og byrjuðu strax með einhver læti, við skildum auðvitað ekkert hvað þeir voru að segja en allir aðrir í rútuni litu skelkaðir á þá. Rútan stoppaði við fangelsi  eftir að hafa haft fangana innanborðs í nokkra klukkutíma, einn fanganna stoppaði svo við sætin okkar og reyndi að betla pening svo hann gæti verslað í 
Thad ma lengi troda i matatu-ana
fangelsinu og sagði okkur að hann hafði gert slæma hluti sem urðu til þess að hann hlaut lífstíðarfangelsisdóm. Í þessari 14 tíma rútuferð var aðeins eitt stopp sem við gátum staðið upp og teygt úr okkur, í þessu stoppi fylltist hins vegar rútan sem varð til þess að við þurftum að sitja með töskurnar okkar það sem eftir lifði leiðarinnar (í átta tíma). Loksins komumst við á leiðarenda og fundum sæmilegt gistiheimili. 
Í dag ætlum við að skoða okkur um hér í Dar es Salaam og á morgun ætlum við að taka ferju yfir til eyjunnar Zanzibar


Gerðum myndband úr safaríinu, fyrir þá sem ekki hafa séð það er linkur inná það HÉR
..og myndir þaðan HÉR

Við viljum líka benda á að fyrir neðan hvert blogg er hægt að sjá staðsetninguna okkar og ef þið ýtið á það opnast kort.

Svo má fólk endilega vera duglegra að skrfa comment eftir bloggin okkar því það er stór þáttur í því að við nennum að blogga, að vita að fólk er að fylgjast með :)

fimmtudagur, 6. október 2011

Hakunamatata

Við lenntum í Nairobi, Kenýa, fimmtudagsnóttina. Dvöl okkar í Kenýa byrjaði á því að bílstjórinn sem átti að sækja okkur á flugvöllinn var hvergi sjáanlegur, en í staðin fengum við endalaust af tilboðum annarra vafasamra bílstjóra sem vildu ólmir skutla okkur. Sá sem harðast gekk fram sagðist hafa verið beðinn um að fylla í skarðið fyrir bílstjórann okkar. Þessi hafði hins vegar ekki hugmynd um hvað við hétum, hann gerði samt heiðarlega tilraun og spurði hvort það gæti passað að Gréta héti Michael. Við vildum ekki taka neina áhættu í einni af hættulegustu borgum heims og tókum því venjulegan leigubíl sem skilaði okkur á réttan stað. Hótelið var skítsæmilegt (í orðsins fyllstu), en allar hurðir voru læstar með hengilásum og fannst okkur við því vera nokkuð örugg í miðborginni. Svefnfriður var að vísu ekki mikill því stanslaus umferð, flaut, partýstand og öskur voru alla nóttina fyrir utan gluggan okkar sem ekki var hægt að loka.
Á föstudaginn könnuðum við miðbæ Nairobi örlítið. Við komumst að því að fólkið er mjög viðkunnalegt og hjálpsamt, það sama er ekki hægt að segja um hraðbankanna. Við þurftum að taka út pening til að borga safarí ferðina okkar en það gekk vægast sagt illa að ná út pening, ætli við höfum ekki prófað alla hraðbanka Nairobi að minnsta kosti sex sinnum.  Allur dagurinn fór í hraðbankarölt og á endanum náðum við að skrapa saman upphæðinni í shillings, dollurum og pundum sem við áttum til vara.

Safarí
Dagur 1:
Vorum sótt á hótelið snemma um morguninn og okkur keyrt á skrifstofu fyrirtækisins þar sem við vorum kynnt fyrir ferðafélögum okkar og bílstjóra. Föruneyti okkar samanstóð af þremur bandaríkjamönnum, þar á meðal MJÖG bandarískum hjónum og tveim Kínverjum. Fyrsti dagurinn fór í langa keyrslu að Masai Mara þjóðgarðinum. Á leiðinni keyrðum við fram hjá fjölmörgum litlum þorpum og Það var mjög gaman að fylgjast með lífinu út um gluggann þar sem mátti sjá smaladrengi með kýrnar og geiturnar sínar, veifandi krakka í vegkanntinum og konur berandi vatnsbrúsa á höfðinu (Gréta er að hugsa um að fara bera bakpokann sinn á höfðinu til að falla betur inn í hópinn). Stoppuðum einnig á stað með frábært útsýni yfir Great Rift Valley. Á leiðinni varð bandaríska konan agndofa við ótrúlega sýn þegar hún sá bleik ský, gul og beislituð, Hún hafði aldrei séð neitt þessu líkt áður og spurði bílstjórann hvað útskýrði þessa litadýrð, hann hins vegar sá þessi ský hvergi og það sama átti við um okkur hin. Eftir mikla leit spurði Gréta kurteisislega hvort þessi litur á skýjunum gæti nokkuð stafað af því að hún væri með sólgleraugu á nefinu og viti menn þar lá kötturinn grafinn.
Eftir margra klukkutíma keyrslu á mjög svo frumstæðum vegum komum við loksins í Masai Mara sem er einn frægasti þjóðgarður heims fyrir dýralíf sitt. Þar var okkur vísað að „tjöldunum“ okkar, Tjaldið okkar var útbúið tveim rúmum og stóru baðherbergi með klósetti og heitri sturtu. Eftir að allir höfðu komið sér fyrir fórum við að kanna garðinn. Þennan fyrsta dag sáum við meðal annars: margar tegundi antilópa, fíla, gíraffa, vísunda, sebrahesta, ljón og rúsínan í pylsuendanum þennan daginn var blettatígur upp í tré (en það þykir mjög óalgeng sjón).


Dagur 2:
Vöknuðum snemma og lögðum í hann. Þennan daginn sáum við fjöldan allan af dýrum, sem virtust hafa fjölgað sér um nóttina því þau voru út um allt. Bandarísku hjónin héldu sínu striki og spurningunum flæddi yfir bílstjórann góða. Á meðal spurninga þennan daginn var hvað Masai ættbálkurinn gerði við allan þennan fílaskít, hvort hann væri kannski notaður í eldsneyti (Masai fólkið notast ekki við neinar vélar). Eftir að bílstjórinn hafði svarað því neitandi spurði konan hvort þeir myndu að minnsti kosti ekki leggja hann sér til munns. Samlandi þeirra fórnaði bara höndum og hló hálf skömmustulega. Að mikilli keyrslu lokinni fengum við að teygja úr okkur og labba um í fylgd hermanns vopnuðum AK-47 riffli (sem hann sagði vera til að vernda okkur gegn villtum dýrum og mönnum, þar á meðal honum sjálfum ;)). Á þessu rölti varð á vegi okkar fjöldi flóðhesta sem lágu í leti á árbakkanum ásamt krókódílum.  Á leiðinni aftur að tjaldbúðum okkar sáum við þúsundir „Wildebeest“ og sebrahesta sem ferðast í gríðarlega stórum hópum suður til Tansaníu, en bílstjórinn okkar sagði að þau ferðuðust á hálfsárs fresti á milli Tansaníu og Kenýa eftir því hvar grasið er grænna. Deginum lauk með heimsókn í eitt af Masai þorpunum en þar tók á móti okkur sonur höfðingja þorpsins. Þeir byrjuðu á því að dansa fyrir okkur „velkomin“ dansinn sinn, Þorri vildi ólmur taka spor með þeim og fékk því teppi heimamanns ásamt kylfu og dansaði með þeim nokkur vel valin spor, einnig fékk hann að prófa að blása í horn sem þeir notuðu sem hljóðfæri. Að dansinum loknum skoðuðum við þorpið ásamt því að okkur var boðið í heimsókn í einn af kofunum þeirra sem þeir byggja úr beljuskít og trjágreinum (það tekur tvo mánuði að byggja hvern kofa en þeir endast bara í tíu ár vegna termíta, þá þarf að byggja nýtt þorp á nýjum fyrirfram ákveðnum stað). Kofarnir verða seint taldir til glæsihýsa, en þó nokkuð notalegir. Við innganginn var herbergi sem innihélt kyðlinga og kálf til að halda hita í húsinu, því næst gengum við inn í eldhúsið/stofuna/svefnherbergið en á miðju gólfinu var eldstæði (sem bæði er notað til hitunar og eldunar), einnig voru þarna þrír litlir svefnstaðir: hjónaherbergi, barnaherbergi og herbergi fyrir ömmuna og afann. Aðeins var einn lítill gluggi í húsinu (gert til að halda hita inni og moskító úti) og því hitinn og stækjan af eldinum nánast óbærileg. Vatnið sækja þeir sér í ánna, en þar þrífa þeir einnig bæði föt og fólk, tannbursti þeirra er síðan einhverskonar trjábörkur. Þorri endaði heimsóknina með því að kaupa af þeim hálsfesti með ljónstönn sem á að boða gæfu.

Dagur þrjú:
Dagurinn byrjaði óvenju snemma en klukkan tvö um nóttina byrjaði fjörið. Í tjaldbúðunum sér Masai ættbálkurinn um næturgæslu og eru þar á vaktinni menn vopnaðir kylfum sér og okkur til varnar ásamt því að vera með fjöldan allan af hundum sér til hjálpar. Um tvö leitið vöknum við upp við urrandi og geltandi hunda allt í kring um tjaldið okkar, þessu fylgdi síðan ljósgeysli frá vasaljósi gæslu mannanna, svona gekk þetta alla nóttina með örlitlum frið inn á milli. Í eitt skiptið hrukkum við svakalega upp við mikinn skell þegar eitthvert dýr hljóp á tjaldið okkar. Um fjögurleytið ómuðu svo bjöllurnar sem beljur ættbálksins bera um hálsinn ásamt ljúfum söng þorpsbúa sem voru að smala. Um morguninn var okkur tjáð að hundarnir væru líklega að gelta á hýenur sem vappa stundum í kring um tjaldbúðirnar.
Eftir fjöruga nótt fórum við á fætur klukkann sex og beint upp í bíl að keyra um garðinn. Mjög snemma barst til tíðinda en út undan okkur sáum við nokkur ljón, þegar betur var að gáð voru þau að gæða sér á sebrahest sem þau höfðu veitt sér til matar og hálsfestin strax búin að sanna sig sem lukkugripur því þessi sjón var ólýsanleg. Þarna voru tvær ljónynjur með nokkra unga hvor, 8-10 talsins, sem tættu í sig hræið og ungarnir léku sér. Það var ótrúlegt að fylgjast með þessu úr aðeins fimm metra fjarðlægð. Þegar allir höfðu lokið sér af reyndi önnur ljónynjan að færa hræið í runna svo hægt væri að klára steikina seinna, hún fékk þó litla hjálp frá ungunum sem vildu miklu frekar leika sér að matnum. Að þessu loknu tók við löng keyrsla að Lake Naivasha þar sem við sigldum um meðal flóðhesta, hinum ýmsu tegundum fugla (þ.á.m. arna og pelikana) og stórra spendýra sem lifðu við vatnið og við kunnum ekki skil á. Einnig fengum við að ganga um eyju á svæðinu meðal viltra gíraffa, sebrahesta og antilópa. Gullmoli dagsins var þegar bílstjórinn fékk þá undarlegu spurningu um það hvort beljuskítur væri ekki stór útflutningsvara í Kenýa. Þessa nóttina gistum við á mjög fínu hóteli og fengum mjög góðan kvöldmat.

Dagur 4:
Lögðum af stað til þjóðgarðsins Lake Nakuru klukkan hálf átta. Heimsóknin byrjaði ekki vænlega en slóttugir bavíanar reyndu mikið að komast inn í bílinn okkar ásamt því að elta Grétu sem hljóp öskrandi í burtu (náðist því miður ekki á myndband), þeir róuðust loksins eftir að við gáfum þeim sleikjó sem þeir smjöttuðu á hamingjusamir. Við Lake Nakuru sáum við mikið fuglalíf (t.d. pelíkana og flamingo), sebrahesta, vatnavísunda og bavíana. Toppurinn þennan daginn var þó klárlega þegar við sáum nokkra nashyrninga, þeir voru því miður allir í mikilli fjarðlægð en nashyrningar engu að síður. Einnig sáum við litríka apa sem bílstjórinn sagði okkur að væru mjög sjaldgæf sýn því þeir væru í útrýmingahættu. Að þessu loknu lá leið okkar aftur í Nairobi þar sem við enduðum daginn á að fara út að borða með kínverjunum tveim og bandaríska stráknum. Bandaríski strákurinn og annar kínverjinn ákváðu að velja bara eitthvað á matseðlinum en það fór ekki betur en svo að þjónustustúlkan kom með innyfli úr geit. Við hin vorum hins vegar svo svöng að við vildum ekki taka neina áhættu með matinn þetta kvöldið. Eftir mat vorum við dauðþreytt og drifum okkur á hótelið, við vonuðumst eftir að geta loksins sofið almennilega því nýja herbergið okkar snéri ekki að götunni eins og áður. Við fengum ósk okkar ekki uppfyllta því þetta var enn ein andvökunóttin. Þegar við mættum upp á hótel virtist vera í gangi gospelmessa, það var sungið hástöfum og höndum klappað, við sofnuðum þó á endanum en ætli messan hafi ekki enst til svona fjögur. Loksins hætti tónlistin en við tók ekkert betra þegar ofsatrúarfólkið í blokkinni á móti setti í botn einhverskonar heilunarathöfn þar sem presturinn öskraði af öllum lífsins sálarkröftum og ákallaði Jesú krist í von um að hann hjálpaði þessum glötuðu sálum. Þessi öskur stóðu frá sirka 5-8. Hótelstjórinn var sammála okkur um að þetta væri nú ekki alveg að gera sig og sagðist ekkert skilja í þessu fólki því hann hafði haldið að þau væru að byðja til sama Guðs og hann en hann hefði greinilega skrópað í kristnifræðitímann þar sem kennt var um heyrnarleysi Guðs.
Í gær var ferðinni haldið til Mombasa sem var næturstopp okkar á leið til Lamu. Rútan sem við ferðuðumst með minnti helst á flugvél (þó ekki jafn hraðskreið) því þar voru rútufreyjur og þjónar og boðið var upp á veitingar ásamt bíómyndum, bandarískum í þetta skiptið (ágætis tilbreyting frá arabíska barnaefninu sem við fengum að njóta í fluginu til Kenýa). Það er allt annað að ferðast með Kenýubúum en Egyptum því í stað þess að öskra og skammast í hvor öðrum er brosað og spjallað. Kenýubúar virðast vera mjög rólegt og afslappað fólk, mjög vingjarnlegt og allir til í að hjálpa manni án þess þó að byðja um greiðslu fyrir.
Við ákváðum að við nenntum ekki að fara beina leið til Lamu til að losna við enn eina langferðina með rútu, því ákváðum við að fara frekar til Malindi og eyða þar einum til tveim dögum áður en við héldum áfram til Lamu. Þegar í rútuna var komið breyttist ferðaplanið eftir að starfsmaður rútufyrirtækisins spurði áhyggjufullur hvort við værum nokkuð á leiðinni til Lamu. Þegar við sögðum honum að við ætluðum bara til Malindi í dag sagði hann að það væri eins gott því hvítir menn væru ekki öruggir á Lamu (lítil eyja nálægt landamærum Sómalíu) vegna þess að þessa dagana væri mikið sport hjá Sómölskum sjóræningjum að ræna hvítu fólki (og drepa ef greiðsla berst ekki) af ströndum eyjunnar. Við litum á hvort annað og orð voru óþörf, við ætlum að snúa við og halda suður! Þar sem við höfðum nú þegar borgað miðann til Malindi (sem er í leiðinni til Lamu) var ekki aftur snúið og hingað erum við komin. Við röltum um bæinn í leit af ströndinni, á leiðinni fengum við okkur að borða, ís í búðinni og bjór á barnum. Umræðuefnið yfir bjórnum var hversu mikið við höfðum spreðað í dag en eftir að hafa farið yfir spreðið komumst við hinsvegar að því að við höfðum aðeins „spreðað“ undir 1.000 kr. Þegar við loksins fundum ströndina var sólin farin, ásamt fólkinu en á móti okkur tóku fjórir leiðindapésar sem ólmir vildu selja okkur rándýrar köfunarferðir og til að suða aur. Svo ætluðum við að ná smá tíma í næði eftir fjörið á ströndinni og fórum út að borða á local stað. Það gekk ekki betur en svo að við borðið hjá okkur settist kona með barnið sitt (við kipptum okkur ekkert upp við þetta, þar sem það virðist vera siður hér að setjast bara við borðið þó svo að einhver sé þar fyrir). Þegar við vorum að klára síðustu kjúklingabitana segir konan allt í einu: „Strákurinn vill kjúkling“ við gáfum honum því síðasta bitann en reyndar át mamman allt frá honum, síðan stóð hún upp og labbaði upp í næstu rútu. Þarna sátum við allt í einu tvö með tveggja ára strák hágrátandi og kallandi á mömmu sína og þetta leit helst út eins og við hefðum rænt honum. Eftir þó nokkra stund kom mamman aftur, setti símann sinn í hleðslu og betlaði restina af afgöngunum okkar. Mæður okkar geta verið stoltar af okkur núna, því eins og þær kenndu okkur á maður alltaf að hugsa um svöngu börnin í Afríku áður en maður leyfir matnum sínum, í þetta skiptið tókum við þetta bókstaflega og leifðum litla stráknum að naga kjötið af beinunum (það litla sem var eftir), greyið virtist ekki hafa borðað neitt heillengi en mamman passaði sig þó á því að hún fengi sinn skammt og gott betur. Við höfðum nú þegar vanist betlandi hundum, köttum og flugum allt í kring um matarborðið en þetta er nýtt fyrir okkur.
Á morgun ætlum við bara að taka því rólega og jafnvel kíkja á ströndina ef við finnum kraft til að takast á við hrægammana sem bíða okkar þar með búðirnar sínar og allskyns gylliboð.

Við setjum inn myndir og jafnvel myndbönd frá safaríinu á facebook-ið hennar Grétu um leið og tími og net leyfir.