miðvikudagur, 19. október 2011

Zanzibar


Á laugardaginn tókum við ferju frá Dar es Salaam til eyjunnar Zanzibar sem liggur hérna við Indlandshafið. Sáum við komuna að við vorum komin á ferðamannastað og verðið í samanburði við það en hérna er allt svona þrisvar sinnum dýrara en það er svo sem í lagi að taka svona staði inná milli. Gistum eina nótt í höfuðstað Zanzibar sem heitir Stone Town, þetta er mjög krúttlegur bær þar sem er mikið um þröngar götur og lítið um bíla, leigubílsstjórinn okkar keyrði minni part leiðarinnar að gistiheimilinu okkar og labbaði með okkur megnið af henni. Það var mjög gaman að rölta þarna um og fylgjast með krökkunum leika sér með glerkúlurnar sínar á þessum litlu strætum. Maturinn þarna var betri heldur en við höfum vanist hingað til í Afríku en það eru líklegast indversku og miðausturlensku áhrifin sem spila þar inní (eru mjög sterk á eyjunni). Stóran hluta kvöldsins var bærinn alveg rafmagnslaus og var þetta eins og í myrku völundarhúsi að komast aftur að gistiheimilinu okkar sem okkur tókst þó að lokum, en það gerist mjög oft hérna að rafmagnið fari, bæði í Kenýa og hér í Tanzaníu.
Morguninn eftir skoðuðum við gamlan þrælamarkað en þessi eyja var mikil verslunareyja og var þetta miðstöð fyrir Indland, mið austurlönd og Afríku að skiptast á vörum og þar á meðal mikið af þrælum sem voru seldir útum allan heim frá Zanzibareyju. Þarna voru nokkrir litlir klefar í dýflisu  sem ógrinni af þrælum var troðið inní, þar dóu fjöldinn allur af þrælum úr matarskort, súrefnisleysi og troðningi börn, konur og menn. Þarna hliðiná var svo drungaleg kirkja sem var fyrsta dómkirkja Austur Afríku.
Fórum svo um hádegið með bíl nyrst á eyjuna og það má alveg segja að þetta er algjör paradís, skrítið að hugsa til þess að það hafi verið svona mikill hryllingur, eins og þrælaviðskiptin voru, á svona fallegum stað. Hérna er sjórinn alveg tær, sægrænn og sandurinn hvítur og mjúkur, hér er allt svo hreint og fínt og okkur leið strax mjög vel þarna og þá sérstaklega Þorra sem fann bar á ströndinni sem sýndi Liverpool-Manchester og seldi Kilimanjaro bjór, en hér snýst ALLT um Kilimanjaro, bjór, vatn, ferðaskrifstofur, hótel og meira að segja bátuinn sem við komum með hét Kilimanjaro. Fengum svo æðislegan kofa sem var alveg á ströndinni með frábært útsýni út á sjóinn.
Á sunnudaginn tókst okkur svo að bæta upp fyrir það sem rigningin tók frá okkur á Diani í Kenýa og fórum við í snorklferð en þar var stoppað við tvö kóralrif sem voru mjög falleg og litrík með mikið af lífi. Eftir ferðina gátum við sinnt okkar áhugamálum í sitthvoru lagi en Þorri sat við barinn að horfa á fótbolta á meðan Gréta workaði tanið á ströndinni :) Um kvöldið borðuðum við á mjög kósý stað þar sem sátum undir stjörnunum og borðuðum humar og túnfisksteik (ekki úr dós samt). Eftir matinn hófust svo skemmtiatriði upp úr þurru þegar fjórir sirkúskallar komu hlaupandi inn gargandi og syngjandi. Í miðju atriðinu drógu þeir Grétu uppá svið og létu hana fara í limbó undir brennandi stöng sem hún fór létt með og hélt öllum hárum á höfðinu.
Daginn eftir lágum við í algjöru leti á ströndinni og sleiktum sólina allan daginn og urðum bæði medium rare allan hringinn. Um kvöldið borðuðum við aftur undir stjörnunum á uppáhalds staðnum okkar og fengum okkur mjög gott humarpasta. Lífði á ströndinni var yndislegt og okkar einu áhyggjur samanstóðu af því hvar, hvenær og hvað við ættum að borða, allt annað skipti engu máli og við vissum aldrei hvað klukkan var né hvað var að gerast í umheiminum í kring um okkur.
Í gær pökkuðum við saman og kvöddum ströndina og sem betur fer var allur peningurinn okkar búinn og því ekki eins erfitt að kveðja en áður en við fórum höfðum við tekið eins mikinn pening út og við gátum því við vissum að enga hraðbanka væri að finna við ströndina. Á meðan við biðum eftir ferjunni í Stone Town gegnum við um bæin en þetta er fæðingarstaður Freddy Mercury fyrrum söngvara Queen og eru hinir ýmsu staðir nefndir í höfuðið á honum. Við tókum hröðu ferjuna í þetta skiptið því okkur var sagt að hæga ferjan færi klukkan níu um kvöldið og kæmi ekki fyrr en snemma um morguninn daginn eftir. Ástæðan fyrir því væri að hún hefði ekki leyfi til að fara að bryggjunni um nóttina og í staðin fyrir að leggja fyrr á stað að þá myndi hún dóla þetta alla nóttina og okkur leyst ekkert á að eyða nóttinni á sjó í lélegum sætum. Þegar við komum til Dar es salaam hófst kapphlaupið við myrkrið aftur og kæruleysið og öryggið við ströndina horfið, við drifum okkur að borða á leiðinni á gistiheimilið og eyddum kvöldinu síðan innandyra ala Afríka.
Vöknuðum fyrir allar aldir í morgun þar sem við ætluðum að ná rútu sem færi til Moshi sem er bær í norðurhluta Tanzaníu og er helst þekkur fyrir að liggja við rætur Mt. Kilimanjaro hæsta fjalls Afríku, ætluðum að eyða þar einni nóttu á leið okkar til Nairobi. Þegar við mættum á rútustöðina hópuðust fjöldinn allur af köllum sem toguðu í okkur í mismunandi áttir og var þetta allt saman ein stór ringulreið en það endaði með því að við náðum að slíta þá frá okkur, hlupum inná næstu skrifstofu og pöntuðum miða í rútu sem átti að fara klukkan 9 sama morgun. Þetta gekk allt saman ljómandi vel, fundum rútuna okkar og settumst inn, þetta var ekki alveg draumarútan fyrir 8-13 tíma rútuferðalag en ekkert við því að gera. Eftir mikla þolinmæði, klukkan orðin 11 og rútan ekki enn farin af stað verður allt í einu allt vitlaust í rútunni allir öskrandi á alla og eina sem við skildum var lögregla, lögregla þarna hópuðust allir saman á rútuganginum og fólk baðaði út höndunum hvert öðru reiðari. Okkur var ekki alveg sama og spurðum við einn, sem leit út fyrir að vera svona nokkuð rólegur, hvað væri eiginlega í gangi og þá sagði hann að það hafi verið hætt við ferðina, svo þustu allir fokreiðir út og við eltum, þar var okkur vísað inní nýja rútu, troðfulla með engum lausum sætum og þegar við sættum okkur ekki við að sitja á gólfinu í alla þessa klukkutíma var okkur bent á enn aðra rútuna og þegar inn var komið voru sætin eins og steinar að sitja á, 90° halli á bakinu og níðþröngt. Okkur var sagt að hún færi klukkan 11 en klukkan var þegar orðin hálf 12 og voru þeir greinilega að bíða eftir að hún fylltist áður en við gátum lagt af stað, þar sem hún var nánast tóm ákváðum við að gefast upp og fórum inná skrifstofuna aftur og reyndum að fá miðana okkar endurgreidda, það var frekar mikið þras en á endanum fengum við hluta miðana uppí aðra miða á morgun þar sem við ætlum beina leið til Nairobi í Kenýa, sú rúta á að vera „Luxury“ bus, en við sjáum hvað setur. Þessi rútustöð var algjört brjálæði út í gegn, þarna barðist starfsfólkið bókstaflega um hvern einasta farþega, það var slegið, sparkað og barið hvorn annan í von um að fá farþegann til sín maður gat ekki annað en hrist höfuðið. Þetta er rosalega ólíkt hinu rólega og yfirveguða Kenýa sem við getum ekki beðið eftir að komast aftur til. Við erum ekki alveg viss um ástæðuna afhverju fólk hér í landi er miklu reiðara heldur en nágrannarnir í Kenýa en við höfum giskað á hvort það gæti verið trúin því meirihlutinn hér í Tanzaníu eru múslimar (eins og reiðu bræður þeirra í Egyptalandi) en í Kenýa er meirihlutinn kristinn en kannski er þetta bara tilviljun, ætlum ekki að fullyrða neitt.
Sem sagt þá erum við enn föst í Dar es Salaam en það er svo sem ekkert svo slæmt og við reynum bara að gera gott úr því, það er heldur ekki hægt að ætlast til að allt gangi upp eins og það hefur gert hingað til :)

Fleiri myndir eru vaentanlegar inna facebookid hennar Gretu mjog fljotlega :)

16 ummæli:

  1. Ég væri alveg til að vera í sólinni með ykkur!! Hlakka til að sjá fleiri myndir, það biðja allir voða vel að heilsa og ég segi einu sinni enn passið hvort annað vel. Bestu kveðjur mamma og pabbi.

    SvaraEyða
  2. Ég skil nú ekkert í ykkur að rölta ekki upp á Kilimanjaro :)

    SvaraEyða
  3. Hehe thad tekur ekki nema svona 5 daga ad klifa Kilimanjaro, held vid latum thad bida betri tima

    SvaraEyða
  4. Er þetta ekki bara svipað og Skúlahornið ?

    SvaraEyða
  5. Ju thetta er eitthvad svipad, allavegana eru tolurnar yfir tha sem hafa daid a leidinni upp skulahorn og Kilimanjaro svipadar, kannski adeins fleiri a skulahorninu

    SvaraEyða
  6. Þær eru ótrúlega líflegar og skemmtilegar þessar rútuferðir ykkar. Bestu kveðjur Raddý

    SvaraEyða
  7. Þessi strönd hljómar eins og algjör paradís :) En jahérna hér passið ykkur á þessu fólki, greinilega engin svaka regla á þessum rútum þarna :O Góða ferð aftur til Kenýa :)

    SvaraEyða
  8. Helga Gunnarsdóttir19. október 2011 kl. 16:41

    Þessi eyja hljómar eins og paradísareyjan! Skil vel að ykkur hafi liðið vel þar. En já þessar rútuferðir sem þið farið í hljóma bæði spennandi og áhugaverðar en það verður gott þegar þið eruð komin aftur til Kenýa þar sem fólk brosir meira og er rólegra. Hafið það gott elskurnar og ég hlakka mikið til að heyra frá næsta ævintýri.

    Knús og kram
    Helga

    SvaraEyða
  9. Elsku Gréta og Þorri, Þetta er nú mjög spennandi allt saman maður bíður óþolinmóður eftir framhaldinu,kær kveðja, amma og afi Þykkvabæ.

    SvaraEyða
  10. Þakka ykkur fyrir skemmtilegt blogg. Gott að heyra að þið komist vel frá baráttunni um rúturnar. Haldið áfram að njóta daganna og gæta hvers annars vel. Kveðja frá ömmu og afa Blönduósi.

    SvaraEyða
  11. Elsku ferðalangar. Gott var að heyra frá ykkur á draumaeyjunni en samt verð ég hálffegin þegar þið farið frá Afríku - Nairobi kannski ekki öruggasta borg í álfunni.
    En þið haldið áfram að finna einhverja skemmtilegar persónur - sniðugt að leigubílstjórinn tekur sig til og röltir með farþegunum á áfangastað þegar hann getur ekki keyrt lengra. Ætli íslenskir bílstjórar myndu gera það?
    Vegni ykkur vel og góða ferð á morgun.
    Kveðja amma

    SvaraEyða
  12. Elsku Gréta og Þorri.
    Þetta er heilt ævintýri og frábært að fá að fylgjast með. Látið ljótu kallana ekki gleypa ykkur og passið hvort annað. Ég skil vel að þið hafið komist í tímaleysi þarna á ströndinni. Mmmmmmmmmmm
    Njótið og njótið.

    SvaraEyða
  13. vel valið hjá ykkur að skoða fæðingastað freddie mercury :D og gott að þú (þorri) hafir náð að sjá þennan reyndar fúla leik,,veit reyndar ekkert hvort að þú sért eithvað þessum fótbolta og sé reyndar litla ástæðu til þess,,,, en gaman að sjá þessi blogg hjá ykkur og vonandi er alveg gýfurlega gaman hjá ykkur svo ég held bara að ég byðji bara að heylsa:D kveðja Fróði

    SvaraEyða
  14. Það er svo gaman að lesa bloggið ykkar og ég hlakka til að halda áfram að fylgjast með því þegar ég kem heim í kuldann og snjóinn. Þið eruð svo miklar hetjur varðandi ferðamátann, enginn lúxusmeðferð sko! Leiðinlega hljóðbókin er Kleifarvatn eftir Arnald, ég gafst upp. Ertu búin að hlusta á Dávaldinn, hún er góð ;-)

    SvaraEyða
  15. alltaf svo gaman að lesa bloggið ykkar.
    Hafið það áfram svona gott og passið hvort annað

    SvaraEyða
  16. hæ,

    ..asko..var búin að skrifa heilmikið...en svo bara birtist ekki neitt....hmmm
    Bara smá abbó að sjá svona fallegan sjó.. "wish I was there..". hefði sko viljað toppa tanið með þér Gréta eins og í denn!! Já það er betra að vera á öruggari farartækjum... svo það séu meiri líkur á að bremsurnar virki... J'a og fá þægileg sæti svo hægt sé að njóta margra klukkustunda ferðalags!! Þúsund kossar og knús, Dagný

    SvaraEyða