mánudagur, 30. apríl 2012

Fíluferðin til Donsol

Fórum með minivan frá El Nido til Puerta Princesa þann 23. og flugum daginn eftir til höfuðborgarinnar Manila. Að sjálfsögðu var fluginu seinkað en það kom ekki að sök vegna þess að við pössuðum okkur á því að hafa dag á milli næsta flugs því hér er engan vegin hægt að treysta á samgöngurnar hvort sem um flug eða rútur er að ræða. Við eyddum þessari kvöldstund í Manila í rólegheitum upp á hóteli og fengum sendan mat heim til að fullkomna letina. Morgunin eftir hófst leit af leigubíl sem leiddi okkur í frekar fátækt og skuggalegt hverfi þar sem hópaðist að okkur skítugir krakkar að betla pening, sem betur fer þurftum við ekki að bíða lengi eftir næsta bíl en vorum sammála að þarna læddist að okkur tilfinning sem við höfum ekki fundið fyrir síðan við vorum í Nairobi í Kenýja en það er sú tilfinning sem kemur þegar við lítum á hvort annað og hugsum „hvern djöfulinn erum við að gera hér?“. Í Filippseyjum er gríðaleg fátækt, spilling og mjög há glæpatíðni, Manila ber þess greinileg merki og getur verið erfitt að horfa upp á lítil börn sem ganga bílana á milli í von um nokkra Pesóa, hvort sem þeim er svo eytt í mat, fíkniefni eða til að láta einhvern fullorðinn einstakling hafa peninginn sem þrælar þeim út það er önnur saga. Það kom okkur ekkert á óvart þegar okkur var tjáð að fluginu okkar þennan dagin var seinkað enn eina ferðina.
Við lentum í Legazpi á einni flottustu flugbraut sem við höfum séð þar sem útsýnið bauð upp á risa stórt eldfjall sem rauk úr. Ferðin hingað var hins vegar ekki farinn fyrir Legazpi né eldfjallið heldur drifum við okkur með minivan til bæjar sem heitir Donsol en það er lítill bær sem hefur aðeins upp á eitt að bjóða fyrir ferðamenn en þarna koma saman hundruðir hvalhákarla (whale sharks) sem synda um og nærast alveg við yfirborðið. Frá Donsol er hægt að leigja bát sem leitar uppi þessi risa kvikindi og þegar þau finnast er hoppað útí með snorklgræjur og synt ásamt þeim en þeir verða stærstir 14 m á lengd. Við náðum til Donsol rétt fyrir lokun miðstöðvarinnar sem sér um ferðirnar og skráðum okkur í ferð fyrir næsta dag. Við höfðum lesið um að apríl væri frábær mánuður til að sjá hvalhákarlana og að þetta væri ekki spurning um hvort heldur hve marga við myndum sjá, við vorum því virkilega spennt þegar við mættum til skráningar. Dagurinn okkar versnaði hins vegar til muna þegar konan sagði okkur að síðustu fjórir dagar hefðu verið mjög lélegir og dagin áður sáust bara tveir hákarlar. Við mættum eldsnemma dagin eftir með væntingarnar í lágmarki og fórum í rándýra þriggjatíma syglingu án þess að sjá neitt. Við vorum þó ekki tilbúin að gefast upp og skráðum okkur aftur fyrir næsta dag. Því miður var það hins vegar sama sagan og engir hákarlar sjáanlegir. Ferðin til Donsol var því mikil fíluferð enda eina ástæðan fyrir því að við fórum þangað var fyrir hvalhákarlana sem voru meðal annars eitt af því sem við vorum hvað spenntust fyrir áður en við fórum í þessar reisu okkar. Vonbrigðin voru svakaleg en svona er víst móður náttúra og maður verður að taka áhættur ef maður ætlar að reyna að sjá dýrin villt og í sínu rétta umhverfi, annars færi maður bara í dýragarð. Ekki var það svo til að kæta okkur þegar tilkynningin kom um að klukkutíma fluginu okkar til Manila væri seinkað um þrjá tíma, mælum sem sagt ekki með flugfélaginu Cebu Pacific en sennilega er ekkert annað flugfélag í Filippseyjum eitthvað skárra. Í Donsol vorum við samt í einnu bestu gistingu sem við höfum verið í, ekki reyndar í herbergisgæðum séð heldur vorum við bara inná heimili hjá fólki sem leigðu út nokkur herbergi á efri hæðinni heima hjá sér. Það var svo gott að vera inná svona alvöru heimili (home stay)þar sem það voru tannbustar í glasi við vaskinn á klósettinu og matarlykt niðri í eldhúsi, manni leið næstum því eins og maður væri komin „heim“, eini gististaðurinn okkar þar sem maður er ávarpaður með nafni í hvert skipti sem talað er við mann. Ef svo vill til að einhver er að fara á svipaðar slóðir heitir þetta Aguluz Homestay.
Þessir bjuggu fyrir utan herbergið okkar
Leitað af hvalhákörlum
Í Manila áttuðum við okkur á því hversu virkilega lítið er eftir af ferðinni okkar og því opnaði Gréta veskið í tilefni þess, við eyddum deginum okkar í Manila í Mall of Asia sem er ein af tíu stærstu verslunamiðstöðvum í heimi. Þorri sem er virkilega vel upp alinn herramaður gekk á eftir Grétu sinni haldandi á pokunum og fötum á herðatrjám, hann meira að segja kom með einstaka verslunarhvatningar þar sem hann benti á búðir sem átti eftir að skoða eða sagði: ,,Ætlarðu nú ekki að kaupa meira en þetta?“ Gréta mælir sem sagt með honum sem fylgifisk í verslunarleiðangra og planð er að setja hann í útleigu gegn sanngjörnu verði. Núna erum við í bæ sem heitir Angelas sem er einungis í 10 kílómetra fjarlægð frá Mexico en við fljúgum héðan til Hong Kong í nótt með tilheyrandi seinkunum og fjöri. Við erum meira að segja búin að búa til nýjan leik sem heitir: ,,Hversu mikil seinkun verður?“ en það er kærkomin pása frá leikjunum: ,,Hvað er klukkan?“ eða ,,Hvaða vikudagur er í dag?“.
Algengur faramáti
Filippseyjar heilluðu okkur ekkert sérstaklega við fyrstu kynni en okkur leist aðeins betur á landið eftir því sem á leið en kemst ekki eins ofarlega á listan okkar yfir áhugaverðustu löndin eins og við hefðum vonað. Filippseyjingar virðast samt alveg heillaðir af Þorra en hann hefur eignast ótal kúrufélaga hér í hinum ýmsu farartækjum.
Þessir voru hressir

Hér er síðan uppgjörið góða:

Við eyddum rúmum 20 klst. í rútum eða flugvélum (sem er sennilega met)

Jákvætt:
- Það er ekki mikið um ferðamenn og því eru ferðamannastaðirnir nokkuð ósnertir
- Mikið um rafmagnsleysi
- Auðvelt að gera sig skiljanlegan því allir tala góða ensku

Neikvætt:
- Samgöngurnar í Filippseyjum eru þær verstu sem við höfum kynnst í ferðinni. Öllum okkar flugferðum var seinkað og rúturnar hafa ekki tímasetningu heldur er bara farið þegar rútan er full. Þetta getur tekið hálftíma en þetta getur líka tekið allan daginn. Gerir manni mjög erfitt fyrir að plana fram í tímann
- Gisting er mjög dýr miðað við gæði
- Heimamannamaturinn var ekki góður í þau fáu skipti sem við fundum hann

Það sem kom okkur á óvart:
- Að engir hvalhákarlar sáust
- Hversu mikið er um bandarískan skyndibita, sérstaklega í Manila og ber fólkið það líka algjörlega utan á sér
- Verðlag á miðað við gæði
- Hversu lítið er um ferðamenn

Það sem stóð upp úr:
- Hvíldin í El Nido
- Siglingin í El Nido

Verðdæmi:
- 330 ml bjór = 120 kr.
- 1,5 l vatn = 105 kr.
- Máltíð fyrir tvo = 1.000 - 1.500 kr.
- Fjögurra tíma sigling = 2.100 kr. á mann
- Klukkutíma flug fram og til baka = 10.000 kr. á mann
-Gisting = 2.100 – 3.500 kr.

Kort af leiðinni sem við fórum:

föstudagur, 20. apríl 2012

Eyjaskeggjar


Flugum frá Bali til Filippseyja þann 10. Apríl, vorum mætt á flugvöllin um miðja nótt langt á undan flest öllu starfsfólkinu og tékkuðum okkur inn. Eftir mikla bið komumst við loksins í flugvélina sem átti að fara með okkur til Singapore þar sem við áttum að eyða fimm tímum áður en tengiflug okkar til Filippseyja færi. Þegar um borð var komið var okkur tilkynnt að einhvers konar vandamál hefði komið upp og fluginu því frestað um klukkutíma. Okkur til mikilla vonbrigða var flugið okkar frá ódýrasta terminalinu á þessum stóra og flotta flugvelli, sem var enganvegin jafn flott og það terminal sem við vorum á í síðustu heimsókn okkar á þennan flugvöll. Engu að síður voru þarna nuddstólar sem styttu biðina, hjá Grétu það er að segja, Þorri lét sig þó hafa það að prófa en lét ekki heillast af vélrænu höndunum. Flugið til Filippseyja átti að fara klukkan 16:30, við fengum hins vegar að bíða í röð í rúma tvo tíma á meðan eitthvað var lagað í vélini eins og fyrr um daginn. Loksins var vélin klár í rigninguna og þrumuveðrið og okkur hleipt um borð, á þessu ódýra terminali var enginn barki tengur húsinu og við fengum því regnhlíf að láni og hlupum út í vél. Þar tók við enn meiri bið á meðan eitthvað annað var lagað, þegar flugfreyjurnar voru búnar að selja öllum rándýran flugvélamat var okkur tilkynnt að við færum ekkert í bráð og vélin rýmd og enn á ný tók við meiri bið á flugstöðinni. Klukkan 20:00 fengum við að vita að seinkunin væri enn lengri en flugfélagið ætlaði að koma til móts við okkur og hafði pantað fjögurra stjörnu hótel fyrir okkur að eyða nóttinni á, okkur til mikillar hamingju enda ekki á hverjum degi sem við bakpokaferðalangarnir sjáum lúxus.
Hlaðborðið í Singapore
ÆÐISLEGA hótelið :)

Okkur var keyrt á risavaxið hótel í miðju viðskiptahverfinu sem innihélt líkamsrækt, sundlaug og bar svo eitthvað sé nefnt. Við fengum lykil að herbergi sem var svipað stórt og íbúðin okkar heima og allt til staðar. Við drifum okkur samt niður í veislusalin þar sem beið okkar dýrindis hlaðborð með ótrúlegu úrvali af mat, eftir að hafa étið yfir okkur fórum við í sturtu og sofnuðum í mjúku sloppunum sem við fundum inn í skáp. Adam var þó ekki lengi í paradís því við vorum vakin upp klukkan þrjú um nóttina og drifin niður á flugvöll þar sem flugvélin beið okkar og var loksins til í slaginn. Það má líka taka það fram að við vorum í loftinu á meðan stóri jarðskjálftinn reið yfir stóran hluta Suð-Austur Asíu.
El Nido
Við lentum í borg sem heitir Clark í Filippseyjum en þurftum að koma okkur til Manila þar sem við áttum enn eitt flugið. Við settumst upp í stórfurðulegan langferðabíl sem tók okkur að rútustöð dauðans, þar var ekki hægt að kaupa miða og skapaðist því mikil múgæsing þegar rúturnar mættu á svæðið. Tugir manns slógust um þau örfáu sæti sem stóðu til boða og við stóru útlendingarnir með töskurnar vorum ekki sigurstrangleg í þessari baráttu sem snéristu um að vera frekari og lúmskari en maðurinn við hliðina á þér. Eftir að hafa horft eftir hverri rútuni á fætur annari hverfa á brott fullri af atvinnu frekjudollum sem hikuðu ekki við að hrinda í burtu gamlingjum jafnt sem litlum börnum til að ná sínu fram ákváðum við að spila út okkar trompi. Sem bakpokaferðalangar sættum við okkur við ýmislegt og við ruddumst upp í næstu rútu og hlömmuðum okkur á gólfið þ.e. Þorri hlammaði sér á gólfið en Gréta var svo heppin að fá sæti hliðiná gömlum manni, ferðin gekk ágætlega fyrir sig og lítið frá að segja ef ekki væri fyrir nokkur hænsn inn í rútunni sem gögguðu alla leiðina. Við náðum til Manila rétt tímanlega fyrir flugið okkar og hittum á leiðinni yndælan mann sem var einnig á leiðinni á flugvöllin því hann var á leið til Ástralíu að vinna á fraktskipi. Sá vildi allt fyrir okkur gera og samdi við leigubílstjóra um að koma okkur á flugvöllin. Sá var þó ekki á því að hleypa okkur óáreitt úr bílnum og tilkynnti okkur það að hann þyrfti að taka bensín og okkur bæri að borga brúsann sem kostaði rúmlega helmingi meira en það verð sem við höfðum sæst á, við héldum nú ekki hann skyldi bara koma okkur á flugvöllin þar sem hann fengi þá upphæð sem um var samið og ekki krónu meira, enda tankurinn hálf fullur. Hann lét segjast með fýlusvip og var ekkert að hafa fyrir því að þakka fyrir. Enn eina ferðina var fluginu okkar seinkað en loksins lauk þessu ferðalagi og við komin til Puerto Princesa þar sem við eyddum næstu 5 dögum í leti.
Litli Komodofrændi
Þaðan fórum við til El Nido og erum þar enn. Hér höfum við flatmagað á ströndinni dag eftir dag og erum orðin ansi útitekin. Þessi staður er mjög fallegur, strönd inn í flóa umkringt kalksteinsklettum (limestones). Þetta er þó heldur frumstæður bær og er rafmagnslaust alla daga frá sex á morgnanna til þrjú á daginn og því vöknum við alla daga í svitabaði. Það eina sem við höfum afrekað hér er dagssigling um eyjarnar hér í kring með snorkli inn á milli, siglingin var mjög góð og fallegar eyjarnar sem við stoppuðum á.
Endalaus afslöppun!
Snorklið var hins vegar ekkert spes því Filippseyjingar hugsa því miður ekki vel um kóralinn sinn og alls staðar sem við snorkluðum sáum við merki þess, dauð kóralrif vegna akkera og lítið sem ekkert dýralíf. Við sáum síðan 1,5m langa eðlu sem læddist að hádegisborðinu okkar á einni eyjunni og snýkti afganga, fékk bein af heilum fisk sem hún gleypti í einum bita. Þessi eðla var ekki ólík Komodo drekunum í útliti en ekki nema rétt helmingur þeirra að lengd en gaman að fá að fylgjast með henni éta sem var eitthvað sem við gátum ekki fengið að sjá drekana gera, kannski sem betur fer. Við ætlum að eyða nokkrum dögum hér til viðbótar áður en við höldum til Puerto Princesa aftur þar sem okkar bíður flug til Manila.

HÉR eru svo myndir frá Indónesíu

sunnudagur, 8. apríl 2012

Komodoævintýri


Rinca eyjan
Sunnudaginn fyrir viku síðan lögðum við af stað í heljarinnar ævintýraferð. Stefnan var tekin á smábæinn Labuanbajo austur í Flores. Okkur var sagt að ferðalagið þangað myndi taka 18 klukkustundir sem hljómar alls ekki það langur tími en vegna fyrri reynslu af síljúgandi sölumönnum ákváðum við að halda að ferðin tæki að minnsta kosti 22-24 tíma.
Við lögðum í þessa ferð einungis til þess að sjá hina alræmdu komododreka sem aðeins er hægt að finna á fjórum eyjum í kringum Flores hér í Indónesíu. Við ákváðum að taka ódýrustu en jafnframt lang erfiðustu leiðina á staðinn þar sem ferðamátinn samantóð af smábát-sendiferðabíl-rútu-ferju-rútu-troðinni heimamanna rútu-ferju, loksins komum við á áfangastað ekki nema 32 klukkustundum eftir að hafa lagt af stað eða 14 tímum eftir áætlun. Ferðin gekk alveg ágætlega fyrir sig en alltaf mikil bið á milli farartækja t.d. þar sem við biðum í þrjá klukkutíma á stétt fyrir utan bílaverkstæði. Þegar við keyrðum Sumbawa eyjuna þvera bilaði rútan okkar sem var mjög kærkomið þar sem bílstjórinn hafði örugglega tekið eitthvað örvandi fyrir rúntinn af akstrinum að dæma. Vegirnir voru hræðilegir fjallamoldarvegir með þverhnýpi niður við hliðarnar, þetta var ein þeirra rútuferða þar sem maður hugsaði að þetta yrði sennilega manns síðasta ferð. Eftir að rútan bilaði virtist hann ekki koma henni í háan gír sem hélt bílstjóranum aðeins niðri á jörðinni. Þetta eru engar lúxusrútur eins og í Víetnam eða Indland þar sem maður fær sín rúm heldur reyndi maður yfir nóttina að dotta eitthvað aðeins sitjandi í 90 gráðum. Nokkur pissustopp voru á leiðinni og það má segja það að við höfum aldrei séð önnur eins klósett (sáum þau reyndar líka á Jövu), og höfum við nú séð þau mörg og misjöfn, en þetta var bara flísalagt gólf með einu litlu niðurfalli í horninu. Í fyrsta sinn sem Þorri kom inn á svona klósett steig hann inn, fór út aftur, klóraði sér í hausnum en laumaði sér svo inn aftur, lét vaða á mitt gólfið og hljóp svo út óviss hvort hann hafi gert eitthvað af sér. Án þess að láta Grétu vita af þessu fór hún grandalaus í átt að klósettunum, þar var einnig stigið inn, út, inn og aftur út og alltaf reyndi heimamaður að sannfæra hana um að þetta væri klósettið, eftir að hafa farið inn á þau nokkur og hvergi var hola eða klósett sjáanlegt lét hún einnig vaða á mitt gólfið. Svo þegar það átti að „sturta niður“ með vatni í fötu sem þarna var í boði dreyfðist þá allt um jafnslétta gólfið og var lyktin á þessum klósettum eftir því. Við erum enn að hugleiða hvað fólk gerir þegar það þarf að sinna stærri köllunum á klósettinu því niðurfallið hefði svo sannarlega ekki dugað til. Þegar maður tekur ódýrustu leiðirnar fylgir því oftar en ekki að við séum eina hvíta fólkið innan um heimamenn. Í ferjunum fundum við okkur sæti innandyra með loftkælingu, okkur leið eins og sirkúsdýrum því heimamennirnir söfnuðust saman fyrir utan gluggann til að stara á okkur, börnin hlupu um og kölluðu á vini sína til að koma og sjá þessar furðuverur. Svo var starað og bent þangað til við komum á leiðarenda. Við komum til Flores um kvöldmatarleitið, drifum okkur í langþráða sturtu, borðuðum fyrsta næringarríka matinn í tvo daga og fundum okkur ferð um Komodo eyjarnar ásamt hollensku pari og breskum manni. Við höfðum reyndar áhyggjur af því á leiðinni að við kæmumst kannski ekkert í neina ferð því lítið var um ferðamenn og hefði því verið gríðarlega dýrt að fara bara tvö.
Flugeðla

 Við vöknuðum eldsnemma og full tilhlökkunar daginn eftir og skunduðum niður á höfn þar sem báturinn beið okkar. Fyrst þurftum við reyndar í hraðbanka og sagði skipstjórinn að það væri nú lítið mál að koma okkur þangað, eftir að Þorri hafði gengið með honum smá spöl sagði hann að betra væri að fara á mótorhjóli. Hann fór því á miðja götuna og veifaði í næsta hjól, hjá okkur stoppuðu fimm menn á vespum sem þeir díluðu við, einn var til í að lána okkur hjólið sitt gegn vægu gjaldi og beið eftir okkur á vegkanntinum á meðan Þorri og skipstjórinn brunuðu í burtu á hjólinu hans. Sjáiði þetta ekki fyrir ykkur gerast á Íslandi? Fyrsta stopp var á eyju sem heitir Rinca en það er næst stærsta eyjan þar sem hinir alræmdu Komododrekar búa á eða um 1.200 talsins. Eina mannfólkið sem býr á þessari eyju eru þjóðgarðsverðirnir sem halda eyjunni við og ganga um eyjuna með forvitna ferðamenn í eftirdragi. Allar nætur standa nokkrir menn vörð um hina enda hika drekarnir ekki við að ráðast á og éta menn, eins og hefur sýnt sig en í einni af göngunni um eyjuna fyrir nokkrum árum varð Svissneskur ferðamaður viðskila við hópinn sinn, það eina sem fannst af honum voru gleraugu og myndavél. En Komodo drekarnir éta bráð sína upp til agna og beinin með. Samkvæmt leiðsögumanninum okkar lifir manneskja aðeins í tvær klukkustundir eftir bit drekanna vegna mikilla baktería sem fylgja munnvatni þeirra, það er hins vegar hægt að koma í veg fyrir dauða með sýklalyfjum. Aðspurður hvort þeir væru ekki með byrgðir af sýklalyfjum á eyjunni sagði hann okkur að svo væri ekki og það þyrfti að fara alla leið til Bali til að fá þau, þess má geta að næsti flugvöllur er í fimm klukkustunda siglingafjarðlægð og svo tekur það einn og hálfan tíma að fljúga. Sem betur fer hafa drekarnir nóg æti á eyjunni í formi apa, vísunda og dádýra. Það segir ýmislegt um stærð þeirra að þeir éta vísund eins og hann leggur sig. Þeir fela sig milli trjánna og koma aftan að þeim, bíta þá í fæturnar og bíða eftir að þeir deyja en það getur tekið allt að tvær vikur. Apana gleypa þeir hins vegar í einum munnbita. Komododrekarnir á Rinca eru um 2,5 metrar að lengd, þeir stærstu eru á Komodo eyjunni og verða allt að 3,5 metrar. Við fengum ósk okkar uppfyllta strax við komuna þar sem það lágu fimm kvikindi við eldhús starfsfólksins.
Hittum þessa kátu gaura á Komodo eyjunni
Þeir voru sem betur fer ekki svangir og virtust vera alveg sama um þá athygli sem þeir fengu, við komumst í svona fimm metra fjarðlægð frá þeim áður en leiðsögumaðurinn kyppti okkur til baka. Eftir að hafa dáðst að þessum skepnum í nokkurn tíma tók við fjallganga um frumskóg eyjunnar. Okkur til verndar var lítill asíubúi með V-laga prik sem hann vildi meina að hægt væri að stoppa hlaupandi svangan dreka með. Við tókum því með miklum fyrirvara en eltum hann í halarófu því okkur datt engin betri leið í hug, þeir hlaupa á 18 km/klst þannig að það að hlaupa í burtu er ekki árángursrík leið. Það að klifra upp í tré myndi heldur ekki hjálpa mikið þar sem drekarnir eyða fyrstu árum lífs síns upp í tré og eru þeir því mjög góðir klifrarar, enda með risa klær sem auðvelda prílið. Við sáum því miður enga dreka á göngunni en umhverfið var stórkostlegt, sérstaklega þegar við komum upp á fjallstopp og horfðum yfir eyjuna.
Þessi var eins árs

Eftir þessa ævintýralegu heimsókn var næsta stopp við litla eyju þar sem við fengum að hoppa út í sjó og snorkla eins og enginn væri morgundagurinn. Þar mátti sjá stærðarinnar skjaldbökur, ála, skötur og ótrúlega falleg kóralrif. Daginn enduðum við með því að setja niður akkerið innan um fallegar eyjur, fylgdumst með sólsetrinu og sáum stærstu leðurblökur í heimi en þær heita „fruit bats“ og vængjahafið þeirra verður allt að 1,5 metrar að lengd. Um leið og við stoppuðum hópuðust að okkur fullt af litlum kæjökum, í fyrstu héldum við að um veiðimenn væri að ræða en auðvitað voru þetta sölumenn með allskonar drasl til sölu. Við enduðum á því að kaupa nokkra minjagripi og bjór fyrir kvöldið. Nóttinni eyddum við svo upp á dekki undir stjörnubjörtum himninum.
Vöknuðum við sólarupprás daginn eftir og brunuðum á Komodoeyjuna sem er stærsta eyjan af þessum fjórum og hefur að geyma 1.300 dreka. Sú hollenska treysti sér ekki í þessa heimsókn vegna þess að hún var byrjuð á túr, við höfðum verið vöruð við því áður en ferðin hófst að ekki sé æskilegt að konur á túr séu að fara um eyjunna því það er ávísun á drekaárásir þar sem þeir finna blóðlykt í fimm kílómetra fjarlægð. Þegar við sögðum leiðsögumanninum okkar frá ástæðum hennar fyrir því að verða eftir í bátnum varð hann mjög feginn því að tveimur vikum áður neyddist hann til að nota prikið góða sér til varnar er dreki þefaði uppi franska konu á blæðingum sem hann var að sýna eyjuna. Hann sagði okkur einnig að fyrir fimm árum hafi dreki laumast inn í 1.000 manna þorp (sem er eina bygðin á þessum fjórum eyjum) og át sjö ára dreng sem var á leið í skólann. Við vorum alveg að fara að gefa upp alla von um að sjá dreka á þessari göngu þegar sá stærsti sem við höfðum séð hingað til skaut upp kollinum við ströndina, sá var um 2,70 metrar að lengd og var mjög tignarlegur en nokkuð var um sig. Þegar við komum síðan í búðirnar bættust þrír við og labbaði einn þeirra í átt til okkar með tunguna úti, við litum öll á prikið og hristum hausinn í vantrú. Sem betur fer var hann bara á leiðinni í skugga og hafði ekki mikinn áhuga á okkur í morgunmat enda éta þeir bara einu sinni í mánuði. Sá stærsti sem við sáum var 3,10 metrar að lengd. Á leiðinni til baka var stoppað á hinum ýmsu stöðum til að snorkla og baða sig í sólinni, sjórinn var tærari en sundlaug og við höfum aldrei á ævinni séð jafn litríkan og flottan kóral. Í einu af stoppinu sáum við risa stóra svarta bletti í sjónum og okkur var sagt að stinga okkur út í á núll einni á eftir honum. Þarna var á ferðinni „Manta ray“ sem eru stærstu skötur í heimi og verða allt að 7 metrar að lengd en eru yfirleitt um 3-4 metrar. Þessar voru líklega um tveir til þrír metrar og svifu tignarlega um hafsbotninn, það var ótrúleg tilfinning að synda meðal þessara risa skepna og fannst okkur öllum þetta mjög óraunverulegt. Við sáum fjórar skötur sem syntu í röð á eftir hvor annarri og við fylgdum með. Þar með var þessari ævintýalegu ferð lokið og fer hún mjög ofarlega á listann yfir það sem við höfum upplifað síðustu mánuði. Við sömdum síðan við skipstjórann um að fá að gista í bátnum aðra nótt við höfnina, honum fannst það nú lítið mál ef við bara leggðum í púkk og keyptum „frumskógar djús“  fyrir áhöfnina, sem við að sjálfsögðu gerðum.
Daginn eftir hófst síðan næsta langa ferðalag alla leið til baka á Bali. Þetta var sama leið og við komum, nema með einni ferju meira og tók 35 tíma. Þetta ferðalag var samt algjörlega 67 klukkutímana virði. Hálfur afmælisdagur hennar Grétu fór í þetta ferðalag, þar sem ekki er mikið í boði á rútustöðvum í Asíu samanstóð afmælisgjöf hennar frá Þorra af vínberjum og flipp flopp skóm. Um kvöldið fengum við okkur síðan dýrindis steik og fórum snemma í háttinn enda dauð þreytt. Núna erum við stödd í Ubud umkringd hrísgrjónaökrum þar sem við ætlum að slaka á áður en við fljúgum til Filippseyja á þriðjudaginn. Ubud hefur bjargað ímynd okkar á Bali, hér er ótrúlega notalegt að vera, fjarri brjálæðinu á ströndinni í Kuta. Svo styttist óðum að við komum heim en það eru bara 7 vikur þangað til, upphaflega voru þær 38!! Okkur fynnst bæði nokkuð óhugnalegt hversu stutt það er þangað til við komum heim en einnig rosalega spennt, verður ótrúlega gott að komast í sumarrokið og rigninguna!

Svo er Indónesíuuppjörið:

Indónesía stóðst allar væntingar, ótrúlegt samt að sjá hversu þéttbýlt fólk býr, þó sérstaklega á Jövu. Þó svo að maður keyrði í 14 klukkustundir þá leið manni alltaf eins og maður væri í sama bænum.

-Við eyddum 61,5 klst. í rútum og 35,5 klst. í ferjum/bátum eða samtals rúmir fjórir sólarhringar.

Jákvætt:
- Að vera á low-season en samt gott veður
- Mikið af góðum heimamannamat
- Flores ótrúlega fallegt, einn fallegasti staður sem við höfum komið á
- Auðvelt að finna sér einkaströnd og hafa allt útaf fyrir sig
- Fólk var sérstaklega vinalegt á Jövu

Neikvætt:
- Smagöngur mjög hægfara
- Mjög dýrt á ferðamannastöðum (ekki þó ef miðað er við Evrópu)
- Umferðin óþægileg, brjáluð umferð á litlum götum og auðvitað engar gangstéttir
- Strandmenningin á Bali stóðst eingar væntingar
-Starfsmenn í ferðamannaiðnaðnum á Bali var ekkert til að hrópa húrra fyrir

Það sem kom okkur á óvart:
-Allir virðast vita hvað Ísland er!
-Að Kuta á Bali (einn vinsælasti staðurinn) er ógeðslegur og óspennandi að okkar mati
-Hversu þéttbýlt er á Jövu
-Hvað allt gerist hægt

Það sem stóð upp úr:
-Borobudur
-Rólega lífið í Malang
-Gili afslöppunin og strendurnar þar
- Komodoævintýrið

Verðdæmi:
-650 ml bjór = 507 kr.
-Kokteill á bar = 1.200 kr.
-Gisting (í frekar lélegum herbergjum) = 1.450–2.200kr.
-1,5 l vatn = 50 kr.
-Máltíð fyrir tvo = 1.200 kr.
-Máltíð fyrir tvo á götunni (t.d. steikt hrísgrjón í pappír) = 145 kr.
- Tveggja daga sigling um Komodoeyjar fyrir einn (allt innifalið) = 8.700 kr.
- 14 tíma rútuferð á Jövu = 1.900 kr.

Kort af leiðinni sem við fórum (getið ýtt á myndina til að fá hana stærri):