miðvikudagur, 28. september 2011

Lokadagar í Egyptalandi

Þorri hjá Step Pyramid
Á sunndaginn ákváðum við að gera eitthvað menningarlegt í Alexandriu og skelltum okkur á bókasafnið en það er alveg hrikalega stórt og mikið af söfnum út frá því, sáum til dæmis fötin sem Sadat forseti (forsetinn á undan Moubarak) var í þegar hann var skotinn til bana. Já margt merkilegt og fræðandi en þar sem hvorugt okkar er mikið fyrir sögu eða arkíetktúr stöldruðum við ekki svo lengi við en skelltum okkur hins vegar í stutt bíó sem var í svona kúluhúsi og ferðuðumst við þar niður alla Níl í rafting.
Fornt letur ofaní einum af pýramítunum
Við komum hingað til Cairo á mánudaginn. Það má segja að við séum orðin nokkuð sjóvuð í borginni erum farin að rata og þekkja göturnar með bestu matsölustöðunum og svo framvegis.
En leiðin frá Alexandriu til Cairo var nokkuð skemmtileg, í þetta skiptið tókum við lest og fórum við í gegnum mikið af sveitum sem var mjög áhugavert að fylgjast með. Það má allavegana segja það að íslenskir bændur (nú til dags) geta verið mjög sáttir við sín tæki og tól á miðað við egypsku bændurna. Hérna eru allir akrarnir slegnir með ljá, rakað saman með hrífum og tekið saman með höndunum í heysátur sem eru svo bundnar saman með stráum og látnar liggja til þurrkunar til þerris, síðan er þetta sett á litla kerrur sem dregnar eru af litlum asna greyjum eða þá að konurnar beri þetta á höfðinu að hlöðunni. Heyið fer ekkert til spillis þarna því það er mikið notað sem þök á húsin þeirra. Á þessari þriggja tíma keyrslu sáum við aðeins tvær, æfafornar, dráttavélar en annars engin önnur tæki. Það er kannski ekki furða að meðalaldur egypskra karlmanna er aðeins um 65 ár.
Göng ofaní pýramíta
Í gær var dagurinn tekinn snemma enda höfðum við pantað okkur einkabílstjóra fyrir daginn til að klára að skoða alla pýramítana hér í nágrenni Cairo. Fórum fyrst til Saqqara en þar eru nokkrir gamlir og góðir en þar ber helst að nefna Step pyramid sem er elsti pýramíti heims (og elsta minnismerki heims), byggður 2650 fyrir Krist og það tók 20 ár að byggja hann. Fyrir tíma Step Pyramid  voru grafhýsi vanalega neðanjarðar en það breyttist með tilkomu þessa pýramíta sem gerður var í sex stigum/hæðum, með hverju stiginu jókst færni þeirra við bygginguna og þeir náðu betri tökum á tækninni sem þurfti til að koma steinunum fyrir. Síðan sáum við fimm pýramíta til viðbótar og ýmis önnur grafhýsi með mikið af fornu letri og myndum sem sumar eru ennþá í lit. Þröngvuðum okkur inní einn pýramítann (Red pyramid, sem er fyrsti pýramítinn sem var byggður með útlitinu sem við þekkjum öll), fyrst þurftum við að klífa upp hálfan pýramítann að utan (125 brött steinþrep) til að komast að þröngum og löngum stiga (63 m) niður í það sem virtist hið óendanlega. Þegar við loksins komum niður voru veggirnir þaktir teikningum og letri og háir veggir allt í kring, í öðru herbergi af tveim var svo gröfin sjálf. En einmitt þegar við töldum okkur vera búin að átta okkur á öllum þeirra svindlum létum við plata okkur. Fyrir framan pýramítann lá gamall maður sem við vöktum óvart þegar við komum, hann brosti til okkar og bauð okkur vasaljós til að hafa með niður í göngin sem við þáðum með þökkum án þess að hugsa okkur um, en að sjálfsögðu var leiðinn upplýst og því engin þörf á vasaljósi, við þökkuðum honum þó fyrir þegar upp var komið og borguðum honum smotterí með bros á vör. Fórum svo á safn sem innihélt allskyns fornar steinstyttur, þar voru líka nokkrir sölumenn og létum við freistast í að kaupa handofið veggteppi úr úlfaldahárum. Enduðum svo ferðina á papyrussafni þar sem okkur var sýnt hvernig svoleiðis myndir eru gerðar en það er mikil en þetta var fyrsti pappír mannkynssögunnar.
Á heimleiðinni keyrðum við svo fram hjá ísraelska sendiráðinu í Cairo en þar var allt morandi í hermönnum en þeir ætla greinilega að reyna að koma í veg fyrir aðra árás, en það varð ráðist á það og einhverjir drepnir þarna í síðustu mótmælunum, fyrsta föstudaginn okkar hérna.
Enduðum svo góðan dag á æðislegum egypskum mat (falafel, hummus, shawarma og cream caramel) á uppáhaldsstaðnum okkar og horfðum á egypskan fótboltaleik.
Í dag vorum við vöknuð fyrir klukkan 6, skottuðumst niður að aðalgötunni og fundum okkur leigubílsstjóra fyrir daginn en stefnan var sett á stærsta úlfaldamarkað Egyptalands, þangað kemur fólk með úlfaldana sína jafnvel alla leið frá Súdan, Eþópíu, Sómalíu og Lýbíu og skiptist á dýrum, hvort sem þau eru fyrir vinnu eða kjöt. Leiðin á markaðinn var mjög áhugaverð og skemmtileg, leigubílstjórinn okkar hafði greinilega ekki sofið neitt um nóttina, keyrði eins og brjálæðingur og nuddaði augun til skiptis. Fórum í gegnum mikið af litlum þorpum þar sem fólk var að koma sér í gang fyrir daginn, drengirnir hjólandi með heilu staflana af brauði raðað á stóran stiga sem þeir bera á höfðinu, lítill börn í skólabúningunum á leið í skólann, asnar berandi níðþungar kerrur fullar af fólki og öðrum varning, mömmurnar með vatnsbrúsana á höfðinu og pabbarnir sitjandi á veröndunum reykjandi. Þegar við komum svo loks á áfangastað var ekki mjög mikið um að vera, komumst að því seinna að föstudagar eru víst aðal dagarnir en það skemmdi svo sem ekkert fyrir þar sem það vantaði nú ekki úlfaldana sem voru þarna í hrömmum. Við vorum að vísu ekki stórtæk á markaðnum og á endanum varð þetta bara „window shopping“ hjá okkur, Þorri fékk ekki eitt einasta viðunandi boð í Grétu sem voru mikil vonbrigði því maðurinn í afgreiðslunni á hótelinu okkar hafði fyrr um morguninn upplýst okkur um það að hún væri að minnsta kosti fimm dýra virði. Við fórum því heim með skottið á milli lappanna á sama fararskjóta og við komum á.
Töffari á markaðnum smellti einum blautum á Grétu
Það eru nokkur skrítin lög og hefðir hér í landi sem við höfum heyrt af til dæmis heyrðum við einn mann segja að ef múslimskur pabbi hér í landi myndi koma að dóttur sinni að reykja sígarettu myndi hann þurfa að drepa hana heiðursins vegna, þá þarf ekki einu sinni að nefna allar hryllingssögurnar sem maður heyrir í fréttunum um heiðursmorð á konum í þessum löndum vegna makavals og annars. Hér stendur í lögum að konur megi ekki ferðast til annarra landa nema með samþykki eiginmanns síns og að nýlega hafa verið felld niður lög sem heimiluðu nauðgurum að ganga lausir ef þeir myndu giftast fórnalambi sínu. Það er greilega ekkert auðvelt að vera kona í svona strangtrúuðu múslimaríki enda sér maður mikið af konum á götunum með glóðuraugu og jafnvel afskræmdar vegna sýruárásar.
 
En á morgun kveðjum við svo Egyptaland og tökumst á við ný ævintýri sunnar í Afríkunni, í Kenýa. En í lokinn langar okkur að taka saman nokkur atriði um hvernig við upplifðum Miðausturlönd (þá aðallega Egyptaland)

Það sem kom okkur mest á óvart:
-Hvað það er rosalega lítið af ferðamönnum um allt landið (Ísrael undanskilið)
-Hversu margir karlmenn ganga í kufli með túrbína dagsdaglega
-Hvað það er lítið um skordýr
Guttar að leik
-Hversu margir tala ensku
-Hversu mikið er um „venjuleg“ klósett
-Umferðin!!
-Hversu mikið er um skotvopn og hermenn útum allt

Það sem stóð uppúr:
-Allir Pýramítarnir í Egyptalandi
-Blue Hole í Dahab
-Petra í Jórdaníu
-Dauða hafið
-Jerúsalem í Ísrael
-Að horfa á lífið útum gluggan í öllum rútu og lestarferðunum

Jákvæðar hliðar:
-Lang flestir eru mjög vingjarnlegir
-Góður matur
-Alltaf gott veður, sérstaklega á kvöldin
-Flest er frekar ódýrt
-Egyptar eru ennþá nokkuð lausir við vestræn áhrif og halda fast í sína menningu
-Góðar samgöngur
-Maður upplifir sig alltaf öruggan, jafnvel þó maður sé úti seint um kvöld og í afskektum strætum

Svona ganga Egyptar um gersemin sín

Neikvæðar hliðar:
-Reynt að svindla á manni hvert sem maður fer
-Fólk á götunni getur verið mjög þreytandi þegar það vill selja manni eitthvað
-Magakveisur
-Þegar það fer í 40°C+!!
-Þegar maður hrekkur við á nóttunni við hávær bænaköll
-Moskítóflugur (Þorri er samt mun meira gæðablóð en Gréta og tekur allt á sig)
-Rusl út um allt, egyptar eru miklir sóðar og henda rusli út um allt, allsstaðar

Við höfum líka tekið saman hversu lengi við höfum setið í lestum og rútum síðan við komum:
Rútur: 35,5 klukkutímar
Lestar: 33 klukkutímar
Það gera sem sagt rétt tæpa þrjá sólahringa :)

Og svo við skellum nú nokkrum verðdæmum (frá Egyptalandi, Jórdanía og Ísrael voru mum dýrari lönd):
1,5 l af vatni = 50 kr.
Þriggja rétta máltíð fyrir tvo = 1.000 kr.
Tveggjamannaherbergi á gistiheimili = 800-2.000 kr.
Morgunverður á gistiheimili = 100 kr.
Leigubíll í 40 mín. = 300 kr.
Seglskúta með stýrimanni í 2 tíma á Níl = 1.200 kr.
Einkabílstjóri frá 8:00-16:00 = 4.000 kr.
Aðgangseyrir á Pýramítana = 1.200 kr.

ATH það er hægt að fá allt miklu dýrara en þetta er það sem við höfum verið að fylgja.


Hér kemur svo kort af leiðinni sem við höfum farið síðustu þrjár vikurnar (Hægt að ýta á myndina til að stækka hana): 


 
Svo í lokinn viljum við benda á myndirnar inná Facebookinu hjá Grétu (opið öllum) og video sem við gerðum um fyrripart ferðarinnar (fleiri væntanleg mjög fljótlega) en HÉR er linkur inná það.

Bæ, bæ Miðausturlönd

17 ummæli:

  1. Frábært blogg....en ég var að pæla hvort þið nenntuð að senda mér einn fílsunga eða ljónsunga:)

    kv Inga og Heimir

    SvaraEyða
  2. Hehe, þið eigið eftir að fá sjokk þegar þið komið aftur heim þegar þið þurfið að fara að borga svona tífalt meira fyrir allt ;)
    En alltaf gaman að fylgjast með ykkur, og skemmtið ykkur geðveikt vel í Kenýa :)

    Kv. Arnheiður

    SvaraEyða
  3. Gaman að flygjast með ykkur á ferðalaginu, ekki alveg eins gaman að öfunda ykkur! :P

    Kær kveðja:

    Sindri Jó

    SvaraEyða
  4. Alltaf jafn gaman að lesa!!! Hlakka til að lesa pistlana frá Kenýa og þið haldið áfram að passa vel uppá hvort annað. Ástarkveðjur mamma

    SvaraEyða
  5. Takk fyrir að fá að ferðast með ykkur, maður býður spenntur eftir næstu ævintýrum :)
    kveðja Sigga

    SvaraEyða
  6. Hæhæ..

    Alltaf jafn gaman að lesa bloggin frá ykkur.. Mjög skemmtilega skrifað..
    Virkilega gaman af þessari samantekt hjá ykkur vona að þið haldið áfram að gera það á næstu stöðum :)

    kv. Bjarni

    SvaraEyða
  7. Rosalega gaman alltaf að lesa ferðabloggið ykkar. Góða ferð til Kenýa ;)

    SvaraEyða
  8. Ekkert smá gaman að lesa bloggin ykkar, haldið áfram að skemmta ykkur þarna úti :)

    kv. Sigurdís

    SvaraEyða
  9. Frábær lesning. Hafið það sem best ;)
    kv JMK

    SvaraEyða
  10. Djöfulli langar mig að sjá pýramída núna! Ég er nú einnig svekt að ekkert boð hafi boðist í Grétu...óskiljanlegt! haha =) Góða ferð til kenýa

    SvaraEyða
  11. Ótrúlega skemmtilegt blogg. Frábær samantektin, vona að þið gerið samskonar samantekt á hinum stöðunum, góða ferð til Kenya :)

    SvaraEyða
  12. Helga Gunnarsdóttir29. september 2011 kl. 16:43

    Eins og alltaf, gott blogg sem gaman er að lesa. Sammála Bjarna Frey um að það er gaman að sjá samantektina hjá ykkur í lokin og hlakka til að sjá hana frá hinum löndunum ;)
    Held samt að ef þið hefðuð farið á úlfaldamarkaðinn á föstudegi hefði verið boðið í Grétu Maríu eins og hótelstjórinn ykkar sagði.
    Vona að þið hafið það gott í Kenýa og hlakka mikið til að lesa pistla frá því landi næst :)

    Knús og kram
    Helga

    SvaraEyða
  13. Ég hefði aldrei þorað að fara inní þennan pýramída :P
    @Gréta: Væri gaman að heyra í þér í gegnum skype við tækifæri ;) prófaði að fara inná það en sá ekkert request frá þér, en mitt er sigurveig18, addaði greta.maria. .. ert það þú ? ;)

    Kv. Sigurveig

    SvaraEyða
  14. Mjög gaman að sjá það sem þið tókuð saman í lokin, það sem kom mest á óvart og allt það.
    Góða ferð í Kenýa. Ætlið þið ekki að hitta Fanney og fjölskyldu ?
    Kv
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  15. Ég var dálítið sein að ná þessu bloggi - en það er jafn skemmtilegt fyrir það.
    Það eru greinilega miklu fleiri plúsar en mínusar við Egyptaland - eiginlega gott þið eruð farin þaðan þið eruð orðin svo egypsk!!! Grín.
    Hlakka til að heyra frá ykkur næst - passið hvort annað og farið varlega innan um villidýrin í Kenya.
    kveðja
    amma

    SvaraEyða
  16. Ekkert nýtt blogg??
    kv Jóhanna

    SvaraEyða
  17. slaka a!! :) kemur um leid og vid finnum somasamlegt net, hvar svosem thad nu verdur! :) (thad var ekki mikid um nettengingu i frumskoginum :)
    STORT knus
    Greta og Thorri

    SvaraEyða