fimmtudagur, 8. september 2011

Welcome to Alaska

Við kvöddum gamla góða Ísland á þriðjudagsmorgun tilbúin með bakpokana okkar tvo og nesti frá Ástu ömmu í farteskinu. Lentum um hádegið og komum okkur niðrí miðbæ þar sem hostelið okkar var staðsett sem er örugglega ekki það besta í bænum en kannski fínn staður til að byrja að undirbúa sig undir gistingar komandi mánuði! Herbergið sem okkur var úthlutað var 6 manna svíta innréttuð með þrem kojum og sex brotnum skápum,  engin hurð er á sturtunum svo næði er ekki mikið, eitthvað segir manni  þó að þetta hostel sé mun meiri lúxus en það sem koma skal. 

 









Svo kom nú að því að leita af bakpokarabúðinni sem selur allskonar bráðsniðugt bakpokaradót sem á að vera alveg bráðnauðsynlegt en það fór nú ekki betur en svo að miðasjálfsalinn fyrir strætóinn át alla smápeningana okkar og aldrei fengum við miða, svo bætti nú ekki úr skák að það var úrhelli eins og það gerist best og við ekki með nein hlý föt með okkur þannig að eftir rennblautt tveggja tíma rölt um Piccadilly játuðum við okkur sigruð og fórum uppá hostel og biðum eftir Lore sem kom með lest frá Belgíu seinna um kvöldið. Eftir að Lore kom fórum við á Jamie Oliver veitingastað og höfðum það notalegt. Um nóttina var komist að því að eyrnatappar er ein besta uppfinning frá upphafi.. ja hún bjargaði allavegana nóttinni frá hrjótandi kalli sem svaf í næsta rúmi. Í gærmorgun vöknuðum við snemma og fengum okkur morgunmat á Starbucks og tókum svo röltið á Oxford street sem var bara kvöl og pína (fyrir Grétu) því það er ekki hægt að bæta mikið við bakpokann góða. 
Eftir góðan göngutúr var Lore kvödd og við brunuðum með lestinni til Heathrow þar sem við áttum flug til Cairo höfuðborgar Egyptalands. Áður en vélin lagði af stað kom að sjálfsögðu upp bænir til Allah á skjáinn á hverju sæti og eftir þann lestur fór vélin í loftið. Þegar við vorum að fara að lenda kom fyrsta ,,Ó nei“ augnablikið en þá höfðum við gleymt að taka passamyndirnar okkar í handfarangurinn fyrir vegabréfsáritunina en það reddaðist allt : ) Svo á meðan við biðum eftir farangrinum okkar voru öskreiðir karlar í hverju horni og liggur við slagsmál en öryggisverðirnir sáu um þá! Svo sá maður alla mannmergðina fyrir utan flugstöðina sem biðu eins og hræætur eftir túristum í leigubílana sína, hins vegar höfðum við fengið góð fyrirmæli frá manninum sem sat við hliðina á okkur í vélini ásamt því að maður á upplýsingaborðinu var okkur innan handar og fylgdi okkur í leigubílinn okkar. Ferðin á hostelið gekk samt framar vonum þrátt fyrir brjálaða umferð (okkur fannst það bílstjórinn sagði að þetta væri mjög rólegt kvöld) það virðast ekki vera margar reglur og engar akgreinar þannig að flautan er notuð óspart. Við mættum til að mynda þremur hjálmlausum, ljóslausum  á vespu komandi upp úr göngum á móti umferðinni, bílstjóranum fannst það hins vegar ekki mikið tiltökumál, það sama á við um að stoppa á rauðu ljósi, fólk er ekki mikið að hafa fyrir því. Hostelið sem við erum  á núna er nokkuð ágætt, haugskítugt reyndar en það er á góðum stað og er staðsett uppá þaki  á einni byggingu hérna eiginlega alveg við Tharir torgið, það kom okkur skemmtileg á óvart að hér eru venjuleg klósett en setan þakin skítugum kisuförum, eitthvað verða greyin að drekka (þetta er allt staðsett úti á þakinu þannig að hér eru margir villikettir). 

Fyrsta nóttin var mjög sérstök hérna í Cairo, en silkisvefnpokarnir okkar komu að góðum notum þar sem hér eru bara skítug gömul teppi sem var ekki voða notalegt að leggja yfir sig. Svo um miðja nótt hrukkum við bæði upp þar sem bænaköllin ómuðu um allan bæinn og stóð það yfir í alveg 10-15 mínútur.. aftur komu eyrnatapparnir sér vel. Vöknuðum fyrir allar aldir til að geta notað daginn sem best en eftir kalda sturtu byrjuðum við á því að fara og sjá píramítana í Giza þegar við vorum að keyra inn hljóp fólk að bílnum hjá okkur og reyndu að opna hurðirnar en við rétt náðum að læsa og bílstjórinn brunaði í gegnum þau og við komumst inná svæðið. Það var alveg ótrúlega lítið af ferðamönnum á svæðinu (þeim er víst búið að fækka gífulega eftir óeirðirnar fyrr á árinu) aðallega bara Egyptar og þar af leiðandi reyndi hver einasti að selja okkur eitthvað eða bjóða okkur á bak á kameldýri eða asna en það skemmdi nú ekkert fyrir þessari frábæru sjón sem píramítarnir eru og þetta var eins og að labba inní póstkort, svo var gamli góði Spinx þarna líka og var hann alveg glæsilegur nema það vantaði bara á hann nefið. 






Eftir smá viðræður við leigubílstjóra komumst við niður í miðbæ þar sem við ætluðum að skoða egypska safnið, fyrir utan létum við plata okkur aðeins en það kom maður til okkar og sagði að inngangurinn að safninu væri hinum megin og að það væri lokað í hádeginu nema fyrir hópa og þá sögðum við að við myndum nú bara fá okkur að borða á meðan en hann hélt nú ekki, hann sagði að allir veitingastaðir væru lokaðir í hádeginu vegna bænastunda en það væri þarna frábær búð sem við gætum kíkt í á meðan við biðum og allt í einu var hann kominn með okkur yfir götuna og inní búðina svo föttuðum við þetta ekki fyrr en hann var farinn og maðurinn í búðinni að reyna að selja okkur einhverjar myndir á fullu og hann meira að segja bauð okkur te, einhvernvegin þá trúðum við manninum á götunni því hann var indæll og maður treystir bara að fólk sé að segja satt og ekki ljúga að manni svona vitleysu, en það endaði með að við keyptum ekki neitt og röltum í safnið (inngangurinn var öfugumegin við það sem hann sagði) sem var að sjálfsögðu opið öllum. Safnið er alveg gríðalega stórt og gæti maður eitt þarna mörgum klukkutímum og jafnvel dögum. Það var eitthvað svo skrítið að vera þarna og horfa á hluti (skartgripi, rúm, líkkistur, styttur, vagna o.fl.) frá því allt að 3000 fyrir krist, svo voru þarna að sjálfsögðu múmíur í öllu sínu veldi karlar og kerlingar, dýr og börn. Eftir smá overload röltum við um miðbæinn í kringum Tharir torgið (þar sem öll mótmælin voru/eru haldin) en þar var mikið mannlíf og voru þarna skriðdrekar á hverju götuhorni og hermenn tilbúnir með byssurnar sínar. Þarna sáum við líka konu með ekkert andlit en ætli það hafi ekki verið helt á hana sýru fyrir að vera ekki með rétta manninum, maður heyrir allavegana að það sé mjög algengt hérna í miðausturlöndum. Að fara yfir götu í Cairo er ákveðin kúnst en hún er að demba sér útí umferðina (sama hvað þú bíður lengi það munu aldrei vera það fáir bílar á götunni að þú getir hlaupið yfir og sama hvað þú bíður lengi þeir munu aldrei stoppa fyrir þér) og ganga rösklega eftir götunni á sama hraða og hvað sem gerist ekki hika, eins og fyrsti leigubílsstjórinn okkar sagði að í umferðinni horfir enginn í baksýnisspegilinn, bara fram fyrir sig og ef allir gera það ætti þetta að ganga upp, og þótt ótrúlegt sé þá gerir það það (fyrir utan það eru samt allir bílar mjög rispaðir allan hringinn). Húsin hérna eru líka frekar sérstök en það eru eiginlega engin hús alveg tilbúin, eins og það eigi eftir að byggja nokkrar hæðir í viðbót en okkur var sagt að það sé vegna þess að þá borgar fólkið minni skatta. Við höfum líka tekið eftir því að arabískir karlmenn kissast rosalega mikið og knúsast þegar þeir sjá hvorn annan.
Á morgun verða víst einhver kröftug mótmæli hérna í miðbænum (hostelið okkar er staðsett rétt hjá Tharir torginu) eftir bænastundina í hádeginu en eins og við sáum niðri í bæ er herinn og lögreglan tilbúin því allan daginn standa þeir í hring við torgið brynvarðir. En við ætlum nú ekki að taka þátt í því neitt heldur ætlum við að skella okkur suður á bóginn til Aswan sem er 12 tíma lestaferð héðan. 











**Til að útskýra titilinn þá höfum við heyrt þessa setningu nokkrum sinnum í dag og við vitum ekki hvort þeir eru að vera svona kaldhæðnir útaf veðrinu hérna eða þá að við séum svona hvít!

16 ummæli:

  1. Hæ.
    Frábært blogg gaman að fylgjast með. Í guðs bænum passið ykkur á bílunum og öllum þessum lygalubbunum þarna niðurfrá ;o)
    Kær kveðja
    mamma ;o)

    SvaraEyða
  2. Vá frábært að sjá færslu frá ykkur strax. Greinilega búin að afreka þó nokkuð á þessum stutta tíma :) Hlakka til að sjá fleiri myndir ;) kv.Tinna

    SvaraEyða
  3. Já gaman af þessu og gaman að sjá myndir :)
    Kveðja úr slyddunni.

    SvaraEyða
  4. Gaman að heyra þetta...og shit hvað er í gangi með umferðina þarna!! Gott þið passið ykkur vel og hlakka til að sjá næsta pistil=)
    kv. Nína Hrefna

    SvaraEyða
  5. Gaman að heyra frá ykkur og sjá myndirnar.
    Hlakka til næstu færslu.Kv.Mamma

    SvaraEyða
  6. gaman að lesa frá ykkur og sjá myndirnar.
    kveðja
    Hulda Klara og fjölskylda Sandefjord

    SvaraEyða
  7. Gaman að lesa bloggið hjá ykkur :) Flottar myndir.. Já passið ykkur á þessum svikurum :) Gangi ykkur vel í lestaferðinn.. Hlakka til að sjá meira;)
    kv. Bjarni Freyr

    SvaraEyða
  8. Gaman að sjá myndir of blogg svona strax....við erum sjúklega spennt hérna heima í sófa að fylgjast með ykkur - en farið varlega og passið ykkur á bílunum :-)

    kv Inga og Heimir

    SvaraEyða
  9. Gott að heyra og sjá frá ykkur. Greinilegt að fjörið er strax byrjað. Gott ráð til að fara yfir götu og við lærðum í Damaskus um árið er að fara á eftir gömlum svarklæddum konum, sem teygja út höndina og stoppa þannig alla umferð. Gangi ykkur vel elskurnar okkar og njótið daganna. Kveðja frá ömmu og afa á Blönduósi.

    SvaraEyða
  10. Gaman að lesa og váááá hvað píramídarnir eru flottir. Ég var í Gulaþingi að kveðja öll litlu (og stóru) krúttin. Allir hressir, ég legg af stað á þriðjudaginn og er að verða nokkuð spennt. Skrýtið samt að ég hef nánast ekkert planað ferðina sem er algjörlega andstæða síðustu ferðar. Gangi ykkur vel og hlakka til að lesa meira. Inga Heiða p.s. hér blása haustvindar svo njótið hitans!

    SvaraEyða
  11. Hæ hæ, maður bara fílaði sig í Cairo... Ég sagði þetta með píramídana.... allt í einu birtast þeir.. og já einmitt eins og póstkort! Eru þið ekki búin að smakka eitthvað góðgæti hjá Egyptunum... sterkar cillisósur og fleira nammi namm!! Passið ykkur og töskurnar í lestarferðinni... Ég myndi ekki treysta neinum eins og hefur sýnt sig nú þegar... Risa knús Dagný

    SvaraEyða
  12. Hæ hæ gaman að heyra frá ykkur og ævintýrin greinilega hafin! Bíð spennt eftir næstu fréttum. Góða ferð!

    SvaraEyða
  13. Já sælll
    "Við mættum til að mynda þremur hjálmlausum, ljóslausum á vespu komandi upp úr göngum á móti umferðinni, bílstjóranum fannst það hins vegar ekki mikið tiltökumál, það sama á við um að stoppa á rauðu ljósi, fólk er ekki mikið að hafa fyrir því."""

    Ég segi nú bara - hvar var lögreglan ;-)
    Bestu kv.Höskuldur

    SvaraEyða
  14. nidri i bae ad passa motmaelendur en fordudu ser svo um leid og tau byrjudu ad einhverri alvoru i gaer!

    SvaraEyða
  15. Gaman að lesa bloggið. Vona að þið skemmtið ykkur vel í sólinni og sandinum ;)
    Kv Jóhanna

    SvaraEyða
  16. Helga Gunnarsdóttir20. september 2011 kl. 12:30

    Æðislegt að lesa frá dvöl ykkar fyrstu dagana. Það er alltaf gaman að lesa góðar ferðasögur ;) Hafið það gott elskurnar :*
    Kv. Helga

    SvaraEyða