mánudagur, 19. september 2011

Hoppað á milli landa

Við erum orðnir algjörir morgunhanar.. vitum ekki hvað arabía er að gera okkur, höfum verið að sofna milli hálf 9 og 10 undanfarið og vaknað um 6-7 leytið!! Allavegana þá vöknuðum við á mjög svo ókristnilegum tíma á sunnudaginn og tókum rútuna frá Dahab til landamæra Ísrael. Á leiðinni var gerð heiðarleg tilraun (af bílstjóranum) til að ná smá pening af okkur ferðamönnunum, en allt í einu í miðri eyðimörkinni stöðvaði hann rútuna og labbaði aftur í til okkar, tók rútumiðann og reif hann í sundur hlægjandi og sagði að hér væri  miðinn okkar búinn og við þyrftum að borga meira ef við ætluðum að komast að landamærunum. Við héldum nú ekki og byrjuðum að mótmæla ásamt öðrum ferðamönnum, að lokum gafst hann upp og keyrði með okkur á endastöðina. Við landamærin beið okkar ótrúlega strangt öryggistékk (kannski ágætt að það sé svona strangt) sem virtist taka heila eilífð, en að labba inná landamærastöðina var eins og að fara í annan heim.. konurnar voru í háum hælum, níðþröngum buxum, stuttermabol og með hárið slegið.. já og sumar þeirra gengu með hríðskotabyssur. En það entist ekki lengi þar sem klukkutíma síðar vorum við komin til Jórdaníu þar sem menningin er frekar svipuð Egyptalandi. En þarna vorum við búin að fara í gegnum þrjú lönd á rúmum klukkutíma.
Okkur leist nú ekki mikið á Jórdaníu við fyrstu kynni þar sem við lentum í leiðinlegum bílstjórum sem reyndu eins og þeir mögulega gátu að svindla á okkur, enduðum síðan á ömurlegu gistiheimili.
Næsti dagur var tekinn mjög snemma eins og svo aðrir dagar hjá okkur og þá var förinni heitið í egypska sendiráðið til að fá vegabréfsáritun aftur til Egyptalands (ekki það að við höfðum strax gefist upp á Jórdaníu heldur vildum við bara vera búin að því áður en við förum aftur þangað) það tók nú sinn tíma, fyrsti leigubílsstjórinn fór með okkur hálfa leið út á flugvöll, annar fór með okkur í eitthvað gamalt sendiráð og sá þriðji kom okkur þangað með naumindum. Þegar við loksins áttum að fá stimpilinn í vegabréfið vorum við kölluð á fund sjálfs sendiherra Egyptalands og hans aðstoðarmanns þar sem honum fannst eitthvað skrítið að hérna væri á ferð fólk frá einhverju Íslandi og spurði okkur spjörunum úr og vorum við orðin hálf stressuð að geta ekki farið til baka og náð fluginu okkar í lok september. En allt gekk þetta nú og við náðum að heilla hann uppúr skónum og við fengum stimpilinn.
Tókum svo rútuna til bæjar sem heitir Wadi Musa (eða Mósesdalurinn) og fundum þar ágætis gistiheimili sem Gréta náði að prútta niður í sæmilegt verð (hér prúttar maður líka á veitingastöðum). Þetta var rosalega flottur bær sem minnti einna helst á gilið á Akureyri nema bara mun stærra og brattara.
Á miðvikudaginn fórum við að skoða fornu borgina Petru sem er ólýsanleg sjón, en þarna eru ótal hof og „íbúðir“ meðfram öllum klettaveggjunum, byggt um 300 árum fyrir Krist og síðasta fólkið fluttist þaðan burt um 300 eftir krist, aðal hofið þarna er eitt af sjö nýju undrum veraldar og stóð það algjörlega undir væntingum.
 Við gengum líka lengst uppá fjall en á toppnum var risa stórt musteri sem gerði þessa rúmlega klukkutíma göngu í 35°C hita og bröttum tröppum vel þess virði ásamt því að bjóða upp á frábært útsýni yfir alla borgina.


 Eftir sjö tíma stanslaust labb vorum við alveg uppgefin og búin á því enda gífurlega heitt og vatnið á þrotum þannig að við fórum uppá gistiheimili og skoluðum af okkur skítinn. Um kvöldið var að sjálfsögðu horft á Indiana Jones – The last crusade í boði gistiheimilisins (eigandinn dæsti eftir að myndin kláraðist og sagði „ahh.. every night, for the last 10 years“, en það vill nefnilega svo skemmtilega til að myndin er að miklum hluta tekin upp í Petru.
Á fimmtudaginn tókum við rútu (ef rútu má kalla) til Amman, höfuðborgar Jórdaníu, á leiðinni kynntumst við tveimur ferðalöngum og ákváðum við á leiðinni að deila saman leigubíl til að fara að Dauða hafinu. Þennan daginn voru heilar 40°C og hafið sjálft var 32°C. Það var alveg stórfurðulegt að synda þarna því maður flaut bara á yfirborðinu, þó svo að maður var í miklu dýpi stóð maður bara uppréttur með höfuðið uppúr án þess að hreyfa sig. Eftir svamlið í Dauða hafinu fórum við að landamærunum við Palestínu, eins og allsstaðar annarsstaðar við landamærin vorum við sérstaklega tekin fyrir en í þetta skiptið tóku þeir vegabréfið hennar Grétu, eftir að fjöldi starfsmanna hafði yfirfarið það ásamt því að nota málmleitartækið til að kanna það fékk hún það í hendurnar eftir þónokkra stund. 
Gyðinga Þorri ásamt Miguel frá Spáni og Vitto frá BNA
Þegar við mættum til Jerúsalem fundum við (ásamt hinum ferðalöngunum tveim) ágætis hostel í gamla hluta borgarinnar. Um kvöldið var rölt um þessi þröngu stræti og skoðað okkur um. Það sem vakti athygli okkar þetta kvöld var fjöldinn allur af hermönnum/lögreglum vopnuðum sínum stærstu byssum, það er frekar óhugnalegt að labba um með öll þessu vopn í kringum sig og allir eru þeir með fingurinn á gikknum. Einnig fannst okkur áhugavert að sjá þessa ólíku trúarhópa (kristnir, gyðingar og múslimar) búandi saman á svona litlum stað. Þrátt fyrir þessa fjölbreytni eru Palestínumenn ekki velkomnir inn í landið. Leið okkar lá svo að Grátmúrnum, þar sem Grétu var meinaður aðgangur... skiljanlega, hún er nú einu sinni kona. Þorri hinsvegar fékk að fara inn með því skilyrði að hann setti svona gyðinga húfu á kollinn, ekki leiddist honum það. Við grátmúrin tók við undarleg sýn, fullorðnir karlmenn rugguðu sér fram og aftur af miklum ákafa með lokuð augun og hrópuðu út í loftið. Þegar komið var inn í byggingu við veggin var einhverskonar messa í gangi, þar stóð einn maður við pontu og gólaði yfir hina mennina sem góluðu á móti í kór, þetta minnti helst á geðveikrahæli þar sem allir sitja með hendur fyrir andlitinu og rugga fram og aftur muldrandi út í loftið. Á meðan strákarnir skoðuðu grátmúrin fylgdist Gréta með athöfninni sem var í gangi fyrir utan, en þar var verið að innrita nýliða í Ísraelska herinn. Nýliðarnir voru á miðju torginu umvafnir hríðskotabyssum, hoppandi og öskrandi. Herskylda er í Ísrael og þurfa allir strákar að þjóna í þrjú ár en stelpurnar í tvö ár.
Á föstudaginn gengum við leiðina sem Jesú bar krossinn. Þessi ganga leiddi okkur að kirkju sem byggð er yfir staðinn þar sem Jesú var krossfestur og grafinn. Þar inni var upprunalegi steinninn sem krossin stóð á, staðurinn þar sem gert var að líki hans ásamt sjálfri gröfinni (heilagasti staður kristna manna). Eftir þessa heimsókn gengum við aðeins meira um gömlu borgina áður en við drifum okkur niður á rútustöðina þar sem leið okkar lá til Eilat. Sessunautur okkar í rútunni var stelpa úr hernum en handfarangur hennar var hríðskotabyssa.
Við gröf Jesús
Laugardagurinn var að vanda tekinn snemma því okkar beið 7 tíma rútuferð til Cairo. Ferðin byrjaði ekki gæfulega því minnstu munaði að til handalögmála kæmi í sætunum fyrir aftan okkur. Við áttum okkur á því að mennirnir fyrir aftan okkur eru byrjaðir að öskra á hvorn annan, þegar við litum aftur fyrir okkur sjáum við um sex menn ýtandi í hvern annan alveg óðir, það var ekki fyrr en aðstoðarmaður bílstjórans skarst í leikinn að mönnunum var stíað í sundur. Við Suez skurðinn stoppar bílstjórinn rútuna og öskrar eitthvað á arabísku í kallkerfið, allir farþegarnir tóku töskurnar sínar og fóru út. Við þorðum ekki öðru en að gera slíkt hið sama þar sem vopnaðir hermenn og skriðdrekar voru allt í kring. Þegar út var komið voru allir látnir taka töskurnar sínar úr rútunni og opna þær fyrir hermönnum sem leituðu í öllum töskunum

Í gær vöknuðum við klukkan sex og drifum okkur á lestarstöðina til að ná lestinni til Aswan, kvöldið áður höfðum við reynt að kaupa miða en var tjáð að morgunlestin væri full næstu daga og við yrðum að taka kvöldlestina (kvöldlestin er dýrari og bara ætluð ferðamönnum). Við létum nú ekki segjast og tókum „þetta reddast“ á þetta, leituðum upp lestina, þar sem arabískukunnátta Grétu kom vel að notum (þegar hún var tólf ára fékk hún þá flugu í hausinn að læra sjálf arabísku tölustafina) þar sem einungis er notast við arabískt letur á lestarstöðinni og benda allir í sitthvora áttina. Þegar lestin var loks fundin hoppuðum við inn án miða og fundum okkur sæti, það gékk ekki betur en svo að vagnin fylltist og við þurftum að standa, við fengum þó sæti á endanum og gátum keypt miða af starfsmanni. Ferðin niður Níl var stórkostleg og að líta útum gluggann var eins og að horfa á bestu bíómynd (..14 tíma langa) þarna var fólk að handplægja túnin, asnarnir að slóðadraga, konurnar að þvo þvottinn í ánni og börnin syndandi í kring. 
Skemmtilegir ferðalangar sem við hittum í Jórdaníu og fundum aftur í Ísrael
Í dag leyfðum við okkur að sofa út, alveg til níu, eftir morgunmat tókum við rölt um bæinn og skoðuðum okkur um. Leigðum okkur seglskútu með einkastýrimanni í tvo tíma og silgdum á Níl með táslurnar ofaní og sólina í augunum, en við dóluðum þarna í kringum nágranna eyjurnar, þar ber helst að nefna eyjuna Elephantine.
Á morgun er stefnan að taka lífinu með ró og gera sem minnst.




P.s. . Við komumst að því að leigubílstjóri dauðans er fluttur til Cairo (fyrir þá sem hafa gaman af Fóstbræðrum).

19 ummæli:

  1. Snilld alltaf jafn gaman að lesa bloggið hjá ykkur :) Þetta er greinilega mjög spennandi allt hjá ykkur :) Ekki amalegt að leigja sér seglskútu með einka stýrimanni :) Vona að þið haldið áfram að hafa það gott og að það gangi vel :) Heyri svo í ykkur vonandi fljótlega :) kv. Bjarni

    SvaraEyða
  2. Fyndin myndin af ykkur í Dauðhafinu :) Væri alveg til í að prófa þetta... Var Þorri fullur í grátmúrnum ? hehe..

    SvaraEyða
  3. Æðislegt að 'heyra' um hvað þið eruð að sjá og skoða ;) Fyndin myndin af ykkur í Dauða hafinu hehe :p

    SvaraEyða
  4. :D !! Frábærlega gaman að lesa þessa yndislega ferðasögu! Bíð spenntur eftir meiru ...!!
    p.s. Þorri minn, þú mættir alveg breyta fontinu, það er svo erfitt fyrir gamlan mann að lesa þetta, híhí! Gangi ykkur vel, elskurnar og hafiði það sem allra, allra best ;) ! Kveðja frá Blósi ... Egill

    SvaraEyða
  5. Endalaus ævintýri....gott að heyra frá ykkur og gaman að lesa..bestu kveðjur frá mömmu og pabba.

    SvaraEyða
  6. hehe nei Thorri var ekki fullur, hann var bara ad einbeita ser ad syna gydingahufuna sina ;)

    SvaraEyða
  7. Alltaf jafn gaman að fylgjast með ævintýrunum ykkar! Farið nú varlega ;)
    mbk
    Eva Gataway

    SvaraEyða

  8. Takk fyrir bloggið ;o)
    Þetta er nú ótrúlegt fólk þarna.
    Ég held að ég myndi ekki þora að vera þarna þar sem engum virðist vera treystandi. Maður rekinn út úr rútunum og stoppað út í miðri eyðimörk og miðarnir rifnir, allir með byssur osf.;o(
    Ég dáist að því hvað þið eruð dugleg ;o)
    Gangi ykkur vel ;o)
    Kveðja mamma ;o)

    SvaraEyða
  9. ég yrði bara hrædd að sjá allt fólkið með byssur í kring um mig! En þetta 'hljómar' aðeins of vel hjá ykkur!!=)

    SvaraEyða
  10. Jesús, þetta er allt eins og ævintýri hjá ykkur :) Gaman að lesa og sjá myndirnar!

    Kv. Arnheiður og Höskuldur

    SvaraEyða
  11. Takk fyrir skemmtilegan pistil ;)
    Saknaðarkveðjur
    Jóhanna María og co

    SvaraEyða
  12. Elsku ferðalangar.
    Skil þetta ekki með landamæraverðina og þig Gréta María - finnst þeim þú mjög grunsamleg á svipinn?
    Hefurðu prófað blíðubros á þá?
    Ótrúlega gaman að skoða staðina á mynda-google. Wadi Musa eins og myndirnar í Biblíusögunum - mér líst best á Dahab og Aswan - æðislegt.
    Gangi ykkur vel í næstu ævintýrum.
    Kveðjur að heiman
    amma

    SvaraEyða
  13. Vá, það er magnað að lesa ferðasöguna ykkar. Svæðið sem er er að ferðast um er bara barnvænt miðað við ykkar ferðalög :) Engu að síður geggjaðir staðir sem þið eruð að skoða. Mig hefur lengi dreymt um að skoða Petru, Jérusalem og vá hvað ég væri til í að svamla í Dauðahafinu! Gangi ykkur vel, Kveðja, Inga Heiða

    SvaraEyða
  14. Jeminn þvílík ævintýri :) þetta hljómar svo endalaust spennandi allt saman:)
    Haldið áfram að hafa sjúklega gaman af þessu:)

    knús frá Laugarvatni
    Inga og Heimir

    SvaraEyða
  15. Ástarkveðjur frá ömmu og afa á Blönduósi.

    SvaraEyða
  16. Helga Gunnarsdóttir20. september 2011 kl. 12:58

    Þetta er heldur betur ævintýri hjá ykkur!!! Er sammála mörgum hér að ofan ég myndi eflaust verða hrædd að vera innan um allar þessar byssur :s

    Dauðahafið hljómar líka mjög spennandi og eflaust gaman að fljóta þar :)

    Knús frá Íslandi
    Helga Gunn

    SvaraEyða
  17. vá, gaman að lesa :)
    Ótrúleg ævintýri, held að það sé möst fyrir alla að prufa þetta.
    kveðja
    Rut

    SvaraEyða
  18. Það er frábært að lesa um ferðalagið ykkar. Var næstum búin að kaupa mér miða til ykkar þegar ég las um siglinguna niður Níl (öfund)

    Kv
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  19. Heil og sæl. Fyrir 21 ári síðan var ég á þessum sömu slóðum og þið eruð nú og á svipaðar myndir af grátmúrnum, staðnum sem kross jesús stóð á osfrv. Gaman að rifja þetta upp. Fór einnig og skoðaði Pýramídana og Svingsinn í Egyptalandi. Þjóðminjasafnið þar er ógleymanlegt.
    Gaman að fylgjast með ykkur.
    Gangi ykkur sem best.
    Bestu kveðjur úr Hafnarfirði.
    R

    SvaraEyða