laugardagur, 31. mars 2012

Letilíf

Við ílengdumst heldur lengi í bænum Malang í austur Jövu þar sem við gistum 5 nætur. Þessi bær er ekki þekktur fyrir neitt sérstakt, þarna voru engir ferðamenn og ekkert sérstakt hægt að gera, sem var kannski ástæðan fyrir því að við stoppuðum þarna svona lengi. Það var svo notalegt að labba um göturnar því allir heimamenn brostu til manns og heilsuðu, enda ekki vanir að sjá mikið af útlendingum. Við borðuðum allskonar góðan mat sem var sérstaklega ódýr eins og til dæmis steikt bleik hrísgrjón vafin í brúnan pappír kosta aðeins 80 krónur, færð varla ódýrari máltíð en það. Ástæðan fyrir því að við fórum til Malang var samt til þess að fara í ferð upp á eldfjall sem er þar 4 tímum frá. Þessi ferð var hins vegar alveg ótrúleg dýr og við biðum alltaf og vonuðum að fleiri ferðamenn myndu skrá sig í þessa ferð svo hún yrði ódýrari fyrir okkur en það kom aldrei neinn svo á fimmta degi gáfumst við upp og héldum leið okkar áfram austur til Bali.
Næturrútuferðin til Bali var algjört helvíti. Það byrjaði með því að við þurftum að eiga við tvær konur sem höfðu tekið sætin okkar og endurheimta þau, enda rútan full, annað af sætunum sem við þurftum að berjast fyrir var rennandi blautt og fékk Gréta því samanbrotinn pappakassa til að sitja á, voðaleg notalegt. Loksins virtist allt vera að smella og rútan lagði loksins af stað, Gréta komst þó strax að því að heyrnatólin af iPodnum voru biluð og því engin hljóðbók til að stytta stundirnar í rútunni. Stuttu seinna áttuðum við okkur á því hvers vegna sætið hennar var blautt en loftkælinginn sem Asíubúar eru alltaf að stæra sig af var ekki betri en svo að hún míglak. Við náðum að setja plástur á eitt gatið sem lak úr og koma gardínunni þannig fyrir að hún tók mest alla bleytuna, samt sem áður sat Gréta í hellidembu, Þorri fékk líka sinn skammt en slapp þó mun betur. Þegar ferðin var hálfnuð ákváðum við að skipta um sæti svo Gréta gæti náð einhverjum svefni en það var ómögulegt að sofa í sætinu við gluggan því að um leið og maður var að sofna fékk maður bununa yfir sig og mest í andlitið, þá var ekkert annað að gera en að þurrka dropana í loftinu bara til að þeir byrjuðu aftur að falla þegar maður var við það að sofna. Þetta minnti helst á einhverja pyntingaaðferð þar sem við vorum svo þreytt og um leið og maður var við það að dotta hrundi bunan niður á andlitið. Við hugsuðum ýmsar leiðir til að stoppa lekann og í örvæntingu okkar fórum við að leita af einhverju góðu rakadrægu dömubindi til að bjarga okkur. Þar sem við vorum ekki með dömubindi við hendina ákváðum við að fara aldrei aftur í rútu án þess að vera vopnuð regnfötum og regnhlíf. Ef rigningin var ekki nógu slæm þá sáu æðri máttarvöld til þess að við hefðum tvo krakka fyrir aftan okkur sem spörkuðu stanslaust í sætin okkar alla leiðina og gamla konu sem ropaði og gaf frá sér æluhljóð á tveggja mínútna fresti... og já svo var auðvitað Indónesísk tónlist á hæsta styrk mest alla leiðina, þessi ferð stóð í langar 15 klukkustundir með engum svefni.
Ströndin á Kuta, Bali!!

Okkar fyrsta verk eftir að við komum til Kuta á Balí var að finna gistiheimili og sofa af okkur daginn með martraðir um rútuferðina. Við sáum okkur til mikillar ánægju þegar við loksins stauluðumst á fætur að það var sundlaug við gistiheimilið okkar. Næsta dag klæddum við okkur upp í sundföt og vorum gríðarlega spennt fyrir að eyða deginum á ströndini og slaka á eftir allt sem á hafði gengið (já meira að segja Þorri var spenntur fyrir ströndinni). Þetta gekk ekki betur en svo að þegar á ströndina var komið sáum við að það var rusl hvert sem við litum, þetta er án efa ógeðlsegasta strönd sem við höfum nokkurntíman séð, við höfðum því ekki minnstu lyst á að leggjast í sandinn inn á milli pappaglasana og plastpokana, ekki beint það sem maður ímyndar sér þegar hugsað er um Bali. Við eyddum því næstu tveimur dögum við sundlaugarbakkann ásamt einni heimsókn í verslunarmiðstöðina. Við höfðum hins vegar ekkert gaman af því að rölta um stræti þessa bæjar með brjálaða umferð og dónalega, örvæntingafulla sölumenn út um allt.
Uppáhalds veitingastaðurinn á Gili
Við tókum því þá ákvörðun um að fara út úr öllum látunum sem fyrst og keyptum okkur ferjumiða til eyju rétt utan við Lombok, austur af Bali sem heitir Gili Trawangan. Sú eyja hefur þann æðislega kost að vélknúin farartæki eru með öllu bönnuð. Hér höfum við hlaðið batteríin í þrjár nætur og vildum óska þess að við gætum eytt nokkrum til viðbótar. Hér eru strendur sem þú átt alveg útaf fyrir þig fyrir utan nokkrar geitur og hænur, turkislitur sjórinn og sólin skín alla daga, veitingastaðir alveg við ströndina þar sem maður tekur sér sundsprett á meðan maður bíður eftir satay kjúklinginum sínum og fullri skál af ferskum ávöxutum. En svona áður en þið hrækið á skjáinn úr öfund þá getum við sagt ykkur að morgunverkin okkar eru reyndar ekki alveg eins spennand en dagarnir byrja á því að Þorri þarf að veiða allt að fimm stærðarinnar fljúgandi kakkalakka sem hafa komið sér inn í herbergið okkar yfir nóttina þar sem þakið er ekki fest á kofann okkar. Tilgangur ferðarinnar var hins vegar ekki að slaka á og því eigum við um 20 tíma rútu- og bátsferðir í fyrramálið til Flores þar sem við förum á vit ævintýranna og leitum uppi Komodo drekana sem eru stærstu eðlur í heimi og verða allt að þrír metrar að lengd.

Þetta er lífið! Gili Trawangan

14 ummæli:

  1. Þetta hljómar alltaf jafn vel hjá ykkur (nema kakkalakka og rútu dæmið). Gott að hlaða batteríin við og við.
    Haldið áfram að hafa það sem best=)

    SvaraEyða
  2. Úffffff,,,,,,,, ég get alveg séð fyrir mér stemninguna í rútunni. Dauðöfunda ykkur á því að vera að fara að kíkja á drekana - það verður örugglega ævintýri ;-)
    kv
    Höskuldur

    SvaraEyða
  3. Þetta hefur nú verið meiri hörmungin þessi rútuferð og æðislega gaman hjá Þorra örugglega að veiða kakkalakka.. Vona að þið eigið eftir að finna ykkur dreka sem þið getið þá væntanlega notað til þess að sleppa við fleiri rútuferðir :) Gangi ykkur vel og hafið það gott:) Kv. Bjarni Freyr ;)

    SvaraEyða
  4. Greinilega hrikaleg rútuferð! En örugglega mjög ánægjulegt að finna fallega og góða strönd til að taka því aðeins rólega ;) Vonandi náið þið að sjá Komodo dreka :)

    SvaraEyða
  5. Alltaf sama fjörið;-) Erum í Hafnarfirði og það er ferming á morgun. Góða ferð áfram og bestu kveðjur. Mamma og pabbi.

    SvaraEyða
  6. Gott að frétta af ykkur. Það er líf og fjör hjá ykkur eins og hér í Lækjarberginu, en hér er fermingarveisla á morgun og nóg að gera í kotinu. Við gömlu ætlum samt að slappa af í kvöld og skella okkur í leikhús. Vona að rútuferðirnar sem þið eigið eftir að fara verði betri en þessi sem þið lýsið í blogginu. Gangi ykkur vel áfram allir biðja að heilsa. Kveðja frá ömmu og afa.

    SvaraEyða
  7. Helga Gunnarsdóttir31. mars 2012 kl. 16:06

    Sæl elskurnar mínar!

    Takk fyrir þetta skemmtilega blogg. Ég skil vel að þið hafið verið lengur í Malang fyrst hann var svona yndislegur bær. Þessi rútuferð hljómar eins og mesta marthröð!!! Ég er sammála ykkur að maður hefði ekki haldið að strendurnar væru svona viðbjóðslegar á Bali en gott að þið funduð aðra huggulega og notalega strönd þó að henni filgji kakkalakkar... Verður spennandi að heyra frá drekaslóðum :)

    Knús og kram á ykkur
    Helga Gunn

    SvaraEyða
  8. Elsku ferðalangar.

    Gott þið fenguð hvíta, hreina strönd og túrkisbláan sæ - virkar yndislegt. Ég hefði ekki trúað að hin baðstrandarmyndin væri frá Bali - eruð þið viss um að þið hafið ekki villst á einhverja aðra og verri eyju? Jæja allir staðir eiga sína ruslahauga. Ég held að þið + rútuferðir eigið ekki samman!!
    Vonandi eigið þið mjög góða og spennandi daga í vændum.
    Kveðjur til ykkar
    amma

    SvaraEyða
  9. Það eru alltaf ævinttýralegar þessar rútuferðir ykkar, Eruð þið ekki búin með þann kafla og farið bara fljúgandi næst.Gangi ykkur vel áfram og farið svo að koma heim ,hlökkum til að fara að sjá ykkur kær kveðja, amma og afi Rvík.

    SvaraEyða
  10. Frábært að sjá myndirnar af svona fallegri stönd.
    Já, þið eruð ekki að segja alla söguna af risaeðlunni sem þið ætlið að skoða. Því Komodo getur étið mann, þetta er hræðilega stórt og ógeðslegt kvikindi. Vona að þið skoðið Komodo úr mikilli fjarðlægð.

    Knús
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  11. Einhvertímann eigi þið eftir að hlæja að þessari rútuferð, en kannski ekki núna ;)
    Amk hafði ég gaman af thíhihi
    kv JMK ;)

    SvaraEyða
  12. Hvað er þessi maður að bera.
    Ég held að þetta sé mjólk.

    SvaraEyða
  13. Til hamingju með afmælið Gréta ;)

    SvaraEyða
  14. Við amma þín erum orðnar þreyttar á þessu letilífi. Viljum lesa eitthvað nýtt!!
    kv jmk

    SvaraEyða