miðvikudagur, 21. mars 2012

Jarðskjálfti og Þorri í pilsi

Borobudur og Þorri í pilsi
Ferðin til Singapore gekk ekki beint eins og í sögu. Við höfðum talað við eiganda gistiheimilisins kvöldið áður sem ráðlagði okkur að taka ekki leigubíl heldur skyldi hann skutla okkur gegn vægu gjaldi. Við vöknuðum tímalega daginn eftir og fundum kauða sem var hinn rólegasti og hélt því staðfastlega fram að við værum ekki að fara fyrr en þremur tímum seinna og varð jafn hissa í öll þau þrjú skipti sem við sögðum honum að rútan færi klukkan 9.
Singapore
Þegar tuttugu mínútur voru í að rútan færi ákveður hann að nú sé tíminn til að skella sér í sturtu. Þegar hann síðan kom úr sturtunni tók Þorri á móti honum í dyrunum og sagði að okkur væri ekki lengur sama og vildum fara að leggja í hann, enda rútustöðin í fimmtán mínútna fjarlægð. Þá kom það í ljós okkur til mikillar ánægju að hann var búinn að týna lyklunum af bílnum. Til að gera mjög langa sögu stutta kom hann okkur á endanum á rútustöðina en þurfti að punga út fyrir leigubíl og nýjum rútumiða fyrir okkur tveim tímum seinna. Þau hjónin voru þó mjög yndæl og voru greinilega mjög sár yfir því hvernig þetta fór allt saman og buðu okkur upp á te og naan brauð. Við skildum því við þau í sátt og héldum til Singapore.
Þar sem Singapore er mjög dýrt land höfðum við pantað ódýrasta herbergið sem við gátum fundið, sem var þó mun dýrara en það sem við erum vön þrátt fyrir að hafa verið í vist ásamt 6 öðrum. Eftir ævintýri morgunsins nenntum við engu þennan daginn enda komum við það seint að dagurinn var runnin frá okkur. Í staðin tókum við daginn eftir snemma og drifum okkur í miðbæinn. Þar lentum við inni í stórri verslunamiðstöð sem reyndist afar erfitt að komast út úr, þó ekki vegna búðarráps heldur stórundarlegs skipulags. Miðbærinn bauð upp á stærðarinnar skip sem strandað hafði ofan á þrem risa stórum turnum, hafmeyjuljóni og stærsta gosbrunni í heimi, bæjaryfirvöld höfðu þó ekkert fyrir því að skrúfa frá þennan daginn og því lítið að sjá fyrir utan stóran járnhring. Singapore er ótrúlega hrein og skipulögð borg, hvert háhýsið á fætur öðru og góðar samgöngur.
Þeir ganga meira að segja svo langt að banna tyggjó í landinu með lögum, Grétu til mikillar mæðu sem þó hafði smyglað tyggjópakka inn í landið frá Malasíu. Dinnig eru háar fjársektir á alla þá sem sjást henda rusli á göturnar. Eftir að hafa þrætt miðbæinn í steikjandi hita ákváðum við að leita skjóls í loftkældu verslunamiðstöðinni og fá okkur eins og einn kleinuhring. Gréta datt síðan í lukkupottinn þegar við viltumst inn í búð sem seldi rafmagnsnuddstóla, þar eyddi hún löngum tíma í að gera sér upp áhuga um að fjárfesta í einum slíkum, bara til þess að fá að sitja í honum aðeins lengur. Fórum út stólalaus en með nokkra bæklinga og mun fróðari um svona tæki.

Þorra leiddist ekki að vera settur í pils
Um kvöldið gerðumst við menningaleg og skelltum okkur á tónlistarhátíð sem var í fullum gangi og viðburðir á hverju horni. Hlustuðum á hræðilega Suður-Kóreska rokkhljómsveit sem tók hvert coverlagið á fætur öðru, hvert öðru lélegra. Borgin var samt æðisleg svona að næturlagi og ótrúlega mikil ljósadýrð.
Næsta morgunn áttum við svo flug til Yogjakarta á mið-Jövu í Indónesíu. Upphaflegt plan var að taka bát frá Singapore til Súmötru en við áttuðum okkur svo á að við hefðum sennilega ekki nægan tíma til að fara frá Súmötru og alla leið niður til Bali á aðeins þremur vikum.
Þar sem við eins og svo margir aðrir vitum ekki mjög mikið um Indónesíu þá má til gamans geta að landið er tæplega 19 sinnum stærra en Ísland, sem dreyfist á yfir 17.500 eyjar og hér búa um 237 milljónir manns sem gerir þetta að fjórða fjölmennasta landi heims. 80% heimamanna eru múslimar og fjölmennasta og stæsta eyjan er Java. Það var frekar mikið stökk að fara frá skipulaginu og hreinlætinu í Singapore til Yogjakarta þar sem sjást nánast engin hús sem eru meira en tvær hæðir. Hér hittum við líka aftur fyrir karlana á hestvögnunum og hjólunum sem við höfum ekki séð í langan tíma, lélegu vegina og umferðarmenninguna sem við munum líklega aldrei skilja.Við erum hér í Indónesíu á „low season“ og því ótrúlega fáir ferðamenn, það er bæði jákvætt og neikvætt. Það jákvæða er að þú hefur allt útaf fyrir þig, auðvelt að prútta og hótelin eru aldrei fullbókuð. Það neikvæða er að ferðamenn hafa ástæðu fyrir því að vera ekki hér á þessari árstíð og er það veðrið en búið er að rigna alla dagana okkar hér í Indónesíu, þó bara á köflum þannig að það sleppur alveg til. Fyrstu tvo dagana tókum við rólega og gerðum lítið annað en að rölta um hverfið okkar og kynnast aðeins matarmenningunni hér, sem boðar gott. Vöknuðum einn morguninn við að hótelið okkar hristist til og frá og tók það okkur dágóðan tíma að átta okkur á að um jarðskjálfta væri að ræða því hvorugt okkar hefur fundið fyrir jarðskjálfta áður, enda búið á örugga og góða norðurlandinu. Hann var ekki mjög stór þessi skjálfti sem betur fer og einn heimamaðurinn sagði okkur að hann hafi átt upptök sín úti á hafi, svo enginn skaði skeður. Hvað ætli þessi bær sé nú frægur fyrir? Jú auðvitað hof! Hof þetta heitir Borobudur og er ekki ómerkilegra en það að þetta er stærsta búddahof í heimi. Eftir að Angkor Wat hafði ekki heillað okkur neitt sérstaklega upp úr skónum höfðum við ekkert endilega ætlað okkur að skoða fleiri hof en maður kemur víst ekki til Yogjakarta nema að skoða Borobudur svo við létum í minni pokann með vægast sagt litlar væntingar. Fengum okkur einkabílstjóra sem keyrði okkur að staðnum sem kom okkur vægast sagt skemmtilega á óvart. Eftir hver vonbrigðin á fætur öðru þegar kemur að hofum gengum við þarna upp að risastóru og ótrúlega flottu hofi á níu hæðum. Hver hæðin var skreitt með mismunandi útskornum fígúrum og stórum búddastyttum inn á milli. Þetta hof fer klárlega efst á listan okkar sem flottasta hof sem við höfum séð (já, flottara en Angkor Wat!) og þau eru orðin nokkur. Það voru þó smá Monu Lisu áhrif þarna þar sem við héldum að hofið væri mun stærra en það var í raun, var samt ekki eins lítið og málverkið. Þetta hof var byggt um árið 800 úr tveimur milljónum steinklumpa en með falli búddismans var hofið yfirgefið stuttu eftir að það var klárað. Eftir það lá það gleymt undir eldfjallaösku þangað til árið 1815 að svæðið var hreinsað og það uppgvötaðist aftur og mikilfengleiki þess kom í ljós.

Núna erum við komin til Malang sem er í austur Jövu og nálgumst Balí óðfluga. Á dagskrá hér er að taka bíltúr upp á eldfjall sem kallast Bromo og á það að vera mjög fallegt og útsýnið stórkostlegt.

HÉR eru myndir frá Malasíu
HÉR eru myndir frá Singapore

16 ummæli:

  1. Gaman að heyra af ykkur eins og alltaf ;-) Þorri ertu að safna í mottumars ;-)
    kv
    Höskuldur

    SvaraEyða
  2. Ég hefði ekki trúað hvað það fer þér vel að vera í pilsi Þorri. Þetta er kannski eithvað sem þú ættir að fara að ganga oftar í. Annars gaman að heyra frá ykkur :)

    SvaraEyða
  3. Sæl elskurnar og takk fyrir skemmtilegar myndir og frásögn.Við værum alveg til í að verða ykkur samferða til Balí en það verður líklega að bíða betri tíma. Vorum að koma frá Hafnarfirði, búin að vera tæpa viku að heiman. Nú styttist í fermingu í Lækjarberginu og nóg að gera á þeim bæ. Vonum að þið hafið það gott og að allt gangi vel áfram.Kveðja frá ömmu og afa á Blönduósi

    SvaraEyða
  4. hæ hæ allta jafn gamann að fylgjast með ykkur
    kveðja Guðný frænka

    SvaraEyða
  5. Helga Gunnarsdóttir21. mars 2012 kl. 17:03

    Sæl elskurnar!

    Ég er sammála þeim hér að ofan að það er alltaf jafn skemmtilegt að lesa næsta blogg og hlakka ég alltaf til að lesa næsta pistil :) En gaman að þið hafið komist til Singapore þó seitn væri :) Singapore hljómar mjög flott land, enda alltaf gaman að koma á staði sem eru hreinir :) Eins og þið töluðu um þá veti maður ekki margt um Indónesíu svo það hlítur að vera frábært að vera þar. Eins gaman að eftir öll þessi hof hafi ennþá verið hægt að koma ykkur á óvart ;) Ég er sammála Val, Þorri er flottur í pilsi, enda Þorri flottur í öllu, en hvers vegna varstu í pilsi Þorri?

    Hafið það sem allra best yndislegu ferðalangar!
    Knús og kram frá Fróni :*
    Helga Gunn

    SvaraEyða
  6. Hei þið tvö, skemmtilegt að segja frá því að ég er að kenname' einni frá Indonesíu
    að er held ég eina manneskjan sem ég þekki frá því landi.
    Þess vegna var gaman að lesa um ævintýrin ykkar þarna
    Kv.Birna

    SvaraEyða
  7. Gaman eins og venjulega að lesa bloggið frá ykkur. Var sjálf ekkert sérlega hrifin af Singapore og Bali fannst mér túristagettó en það er kannski öðruvísi að vera á low season tíma. Verð þó að segja að það er fallegt á Bali en þar eru sko sölumenn hræðilegir og hef þó ýmsilegt reynt. Passið ykkur bara ef þið kaupið af sölumanni og hann fer burt til að pakka inn að þið fáið örugglega það sem þið voruð að kaupa þeir eru alveg vissir til að skipta út fyrir gallaðan og ljótan grip, reyndu það við okkur, hef ekki lent í því annars staðar.
    Kveðja,
    Jóhanna Finnbogadóttir

    SvaraEyða


  8. Alltaf rosalega gaman að heyra frá ykkur og sjá myndirnar, rosalega flott myndin af Grétu þar sem hún situr og fellur svo vel inní umhverfið í gráa kjólnum ;o)
    Þorri tekur sig líka vel út í pilsinu þó ég kunni nú betur við hann í einhverskonar buxum ;o)
    Það er mikill munur á gamla tímanum og nútímanum miðað við tvær efstu myndirnar hér á síðunni, hvorutveggja mjög flott ;o)
    Hafið það sem allra best og góða ferð áfram ;o)
    Bestu kveðjur
    Mamma ;o)

    SvaraEyða
  9. Gaman að sjá myndir og skemmtilegt blogg :) Passið ykkur á jarðskjálftunum ;)

    SvaraEyða
  10. Ég er búin að bíða og bíða eftir bloggi frá ykkur. Já, mér finnst bara svo gaman að fylgjast með ferðalaginu ykkar. Mér finnst alltaf gaman að fá smá fróðleik eins og þið skrifið stundum um löndin sem þið eruð að heimsækja. Ég hafði t.d. ekki gert mér grein fyrir hvað Indonesía sér rosalega stór.
    Var að koma að árshátíð hjá Maríu þar sem hún fór með leiksigur sem litla feita hænan í Kattholti.

    Knús
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  11. Gaman að lesa eins og venjulega og sjá ykkur á myndunum, Þorri tekur sig vel út í pilsi! Hlökkum til að heyra í ykkur á skype um helgina eins og við stefnum að. Bestu kveðjur og haldið áfram að ferðast og hafa gaman, mamma.

    SvaraEyða
  12. Takk fyrir skemmtilega og fróðlega ferðasögu, farið varlega á Bali, hef heyrt að það sé rosalega mikll raki þar. En gangi ykkur vel áfram elskurnar, kær kveðja. Amma og afi Rvík.

    SvaraEyða
  13. Elsku ferðalangar.
    Þetta var nú margt skemmtilegt nema - misstuð þið semsagt af rútunni þegar þið fóruð frá Malasíu? Og er þetta ekki teppið ykkar sem hefur breyst í pils? Ég er ekki viss um að mér myndi líka við Indónesíu - af því mér finnst ég ekkert vita um þetta land - en kannski kemur það einmitt skemmtilega á óvart - allavega eru jarðhræringar þarna. Á svo að vera á Bali á afmælinu þínu Gréta María?
    Vona að ykkur gangi allt í haginn og að ég heyri í ykkur um helgina.
    Kveðjur
    afi og amma

    SvaraEyða
    Svör
    1. já hann lét okkur missa af rútinni og þar að leiðandi höfðum við styttri tíma í Singapore, náðum samt seinni rútunni. Nei pilsið var ekki teppi þetta áttu allir að fara í sem fóru að hofinu, við spurðum einskis þannig að við vitum ekki ástæðuna :) Það er auðvelt að líka við Indónesíu, við vissum ekki heldur neitt áður en við komum hingað. Er ekki alveg viss hvar nákvæmlega við verðum á afmælinu, sennilega á einhverri eyju fyrir utan Bali.
      Heyrumst um helgina eða í kvöld jafnvel, það myndi henta vel :)
      kv. GMB

      Eyða
  14. Alltaf gaman að heyra frá ykkur:) Hafið það sem allra best.. Settu þeir þetta skip uppá húsin til að flýja í ef það kemur flóðbylgja?

    SvaraEyða
  15. Þorri tekur sig bara vel út í pilsi :) Þið getið gefið út ritsafn um hof eftir þessa ferð. Hélt þetta væri að mestuleiti allt eins.
    Kiss kiss johanna m

    SvaraEyða