sunnudagur, 8. apríl 2012

Komodoævintýri


Rinca eyjan
Sunnudaginn fyrir viku síðan lögðum við af stað í heljarinnar ævintýraferð. Stefnan var tekin á smábæinn Labuanbajo austur í Flores. Okkur var sagt að ferðalagið þangað myndi taka 18 klukkustundir sem hljómar alls ekki það langur tími en vegna fyrri reynslu af síljúgandi sölumönnum ákváðum við að halda að ferðin tæki að minnsta kosti 22-24 tíma.
Við lögðum í þessa ferð einungis til þess að sjá hina alræmdu komododreka sem aðeins er hægt að finna á fjórum eyjum í kringum Flores hér í Indónesíu. Við ákváðum að taka ódýrustu en jafnframt lang erfiðustu leiðina á staðinn þar sem ferðamátinn samantóð af smábát-sendiferðabíl-rútu-ferju-rútu-troðinni heimamanna rútu-ferju, loksins komum við á áfangastað ekki nema 32 klukkustundum eftir að hafa lagt af stað eða 14 tímum eftir áætlun. Ferðin gekk alveg ágætlega fyrir sig en alltaf mikil bið á milli farartækja t.d. þar sem við biðum í þrjá klukkutíma á stétt fyrir utan bílaverkstæði. Þegar við keyrðum Sumbawa eyjuna þvera bilaði rútan okkar sem var mjög kærkomið þar sem bílstjórinn hafði örugglega tekið eitthvað örvandi fyrir rúntinn af akstrinum að dæma. Vegirnir voru hræðilegir fjallamoldarvegir með þverhnýpi niður við hliðarnar, þetta var ein þeirra rútuferða þar sem maður hugsaði að þetta yrði sennilega manns síðasta ferð. Eftir að rútan bilaði virtist hann ekki koma henni í háan gír sem hélt bílstjóranum aðeins niðri á jörðinni. Þetta eru engar lúxusrútur eins og í Víetnam eða Indland þar sem maður fær sín rúm heldur reyndi maður yfir nóttina að dotta eitthvað aðeins sitjandi í 90 gráðum. Nokkur pissustopp voru á leiðinni og það má segja það að við höfum aldrei séð önnur eins klósett (sáum þau reyndar líka á Jövu), og höfum við nú séð þau mörg og misjöfn, en þetta var bara flísalagt gólf með einu litlu niðurfalli í horninu. Í fyrsta sinn sem Þorri kom inn á svona klósett steig hann inn, fór út aftur, klóraði sér í hausnum en laumaði sér svo inn aftur, lét vaða á mitt gólfið og hljóp svo út óviss hvort hann hafi gert eitthvað af sér. Án þess að láta Grétu vita af þessu fór hún grandalaus í átt að klósettunum, þar var einnig stigið inn, út, inn og aftur út og alltaf reyndi heimamaður að sannfæra hana um að þetta væri klósettið, eftir að hafa farið inn á þau nokkur og hvergi var hola eða klósett sjáanlegt lét hún einnig vaða á mitt gólfið. Svo þegar það átti að „sturta niður“ með vatni í fötu sem þarna var í boði dreyfðist þá allt um jafnslétta gólfið og var lyktin á þessum klósettum eftir því. Við erum enn að hugleiða hvað fólk gerir þegar það þarf að sinna stærri köllunum á klósettinu því niðurfallið hefði svo sannarlega ekki dugað til. Þegar maður tekur ódýrustu leiðirnar fylgir því oftar en ekki að við séum eina hvíta fólkið innan um heimamenn. Í ferjunum fundum við okkur sæti innandyra með loftkælingu, okkur leið eins og sirkúsdýrum því heimamennirnir söfnuðust saman fyrir utan gluggann til að stara á okkur, börnin hlupu um og kölluðu á vini sína til að koma og sjá þessar furðuverur. Svo var starað og bent þangað til við komum á leiðarenda. Við komum til Flores um kvöldmatarleitið, drifum okkur í langþráða sturtu, borðuðum fyrsta næringarríka matinn í tvo daga og fundum okkur ferð um Komodo eyjarnar ásamt hollensku pari og breskum manni. Við höfðum reyndar áhyggjur af því á leiðinni að við kæmumst kannski ekkert í neina ferð því lítið var um ferðamenn og hefði því verið gríðarlega dýrt að fara bara tvö.
Flugeðla

 Við vöknuðum eldsnemma og full tilhlökkunar daginn eftir og skunduðum niður á höfn þar sem báturinn beið okkar. Fyrst þurftum við reyndar í hraðbanka og sagði skipstjórinn að það væri nú lítið mál að koma okkur þangað, eftir að Þorri hafði gengið með honum smá spöl sagði hann að betra væri að fara á mótorhjóli. Hann fór því á miðja götuna og veifaði í næsta hjól, hjá okkur stoppuðu fimm menn á vespum sem þeir díluðu við, einn var til í að lána okkur hjólið sitt gegn vægu gjaldi og beið eftir okkur á vegkanntinum á meðan Þorri og skipstjórinn brunuðu í burtu á hjólinu hans. Sjáiði þetta ekki fyrir ykkur gerast á Íslandi? Fyrsta stopp var á eyju sem heitir Rinca en það er næst stærsta eyjan þar sem hinir alræmdu Komododrekar búa á eða um 1.200 talsins. Eina mannfólkið sem býr á þessari eyju eru þjóðgarðsverðirnir sem halda eyjunni við og ganga um eyjuna með forvitna ferðamenn í eftirdragi. Allar nætur standa nokkrir menn vörð um hina enda hika drekarnir ekki við að ráðast á og éta menn, eins og hefur sýnt sig en í einni af göngunni um eyjuna fyrir nokkrum árum varð Svissneskur ferðamaður viðskila við hópinn sinn, það eina sem fannst af honum voru gleraugu og myndavél. En Komodo drekarnir éta bráð sína upp til agna og beinin með. Samkvæmt leiðsögumanninum okkar lifir manneskja aðeins í tvær klukkustundir eftir bit drekanna vegna mikilla baktería sem fylgja munnvatni þeirra, það er hins vegar hægt að koma í veg fyrir dauða með sýklalyfjum. Aðspurður hvort þeir væru ekki með byrgðir af sýklalyfjum á eyjunni sagði hann okkur að svo væri ekki og það þyrfti að fara alla leið til Bali til að fá þau, þess má geta að næsti flugvöllur er í fimm klukkustunda siglingafjarðlægð og svo tekur það einn og hálfan tíma að fljúga. Sem betur fer hafa drekarnir nóg æti á eyjunni í formi apa, vísunda og dádýra. Það segir ýmislegt um stærð þeirra að þeir éta vísund eins og hann leggur sig. Þeir fela sig milli trjánna og koma aftan að þeim, bíta þá í fæturnar og bíða eftir að þeir deyja en það getur tekið allt að tvær vikur. Apana gleypa þeir hins vegar í einum munnbita. Komododrekarnir á Rinca eru um 2,5 metrar að lengd, þeir stærstu eru á Komodo eyjunni og verða allt að 3,5 metrar. Við fengum ósk okkar uppfyllta strax við komuna þar sem það lágu fimm kvikindi við eldhús starfsfólksins.
Hittum þessa kátu gaura á Komodo eyjunni
Þeir voru sem betur fer ekki svangir og virtust vera alveg sama um þá athygli sem þeir fengu, við komumst í svona fimm metra fjarðlægð frá þeim áður en leiðsögumaðurinn kyppti okkur til baka. Eftir að hafa dáðst að þessum skepnum í nokkurn tíma tók við fjallganga um frumskóg eyjunnar. Okkur til verndar var lítill asíubúi með V-laga prik sem hann vildi meina að hægt væri að stoppa hlaupandi svangan dreka með. Við tókum því með miklum fyrirvara en eltum hann í halarófu því okkur datt engin betri leið í hug, þeir hlaupa á 18 km/klst þannig að það að hlaupa í burtu er ekki árángursrík leið. Það að klifra upp í tré myndi heldur ekki hjálpa mikið þar sem drekarnir eyða fyrstu árum lífs síns upp í tré og eru þeir því mjög góðir klifrarar, enda með risa klær sem auðvelda prílið. Við sáum því miður enga dreka á göngunni en umhverfið var stórkostlegt, sérstaklega þegar við komum upp á fjallstopp og horfðum yfir eyjuna.
Þessi var eins árs

Eftir þessa ævintýralegu heimsókn var næsta stopp við litla eyju þar sem við fengum að hoppa út í sjó og snorkla eins og enginn væri morgundagurinn. Þar mátti sjá stærðarinnar skjaldbökur, ála, skötur og ótrúlega falleg kóralrif. Daginn enduðum við með því að setja niður akkerið innan um fallegar eyjur, fylgdumst með sólsetrinu og sáum stærstu leðurblökur í heimi en þær heita „fruit bats“ og vængjahafið þeirra verður allt að 1,5 metrar að lengd. Um leið og við stoppuðum hópuðust að okkur fullt af litlum kæjökum, í fyrstu héldum við að um veiðimenn væri að ræða en auðvitað voru þetta sölumenn með allskonar drasl til sölu. Við enduðum á því að kaupa nokkra minjagripi og bjór fyrir kvöldið. Nóttinni eyddum við svo upp á dekki undir stjörnubjörtum himninum.
Vöknuðum við sólarupprás daginn eftir og brunuðum á Komodoeyjuna sem er stærsta eyjan af þessum fjórum og hefur að geyma 1.300 dreka. Sú hollenska treysti sér ekki í þessa heimsókn vegna þess að hún var byrjuð á túr, við höfðum verið vöruð við því áður en ferðin hófst að ekki sé æskilegt að konur á túr séu að fara um eyjunna því það er ávísun á drekaárásir þar sem þeir finna blóðlykt í fimm kílómetra fjarlægð. Þegar við sögðum leiðsögumanninum okkar frá ástæðum hennar fyrir því að verða eftir í bátnum varð hann mjög feginn því að tveimur vikum áður neyddist hann til að nota prikið góða sér til varnar er dreki þefaði uppi franska konu á blæðingum sem hann var að sýna eyjuna. Hann sagði okkur einnig að fyrir fimm árum hafi dreki laumast inn í 1.000 manna þorp (sem er eina bygðin á þessum fjórum eyjum) og át sjö ára dreng sem var á leið í skólann. Við vorum alveg að fara að gefa upp alla von um að sjá dreka á þessari göngu þegar sá stærsti sem við höfðum séð hingað til skaut upp kollinum við ströndina, sá var um 2,70 metrar að lengd og var mjög tignarlegur en nokkuð var um sig. Þegar við komum síðan í búðirnar bættust þrír við og labbaði einn þeirra í átt til okkar með tunguna úti, við litum öll á prikið og hristum hausinn í vantrú. Sem betur fer var hann bara á leiðinni í skugga og hafði ekki mikinn áhuga á okkur í morgunmat enda éta þeir bara einu sinni í mánuði. Sá stærsti sem við sáum var 3,10 metrar að lengd. Á leiðinni til baka var stoppað á hinum ýmsu stöðum til að snorkla og baða sig í sólinni, sjórinn var tærari en sundlaug og við höfum aldrei á ævinni séð jafn litríkan og flottan kóral. Í einu af stoppinu sáum við risa stóra svarta bletti í sjónum og okkur var sagt að stinga okkur út í á núll einni á eftir honum. Þarna var á ferðinni „Manta ray“ sem eru stærstu skötur í heimi og verða allt að 7 metrar að lengd en eru yfirleitt um 3-4 metrar. Þessar voru líklega um tveir til þrír metrar og svifu tignarlega um hafsbotninn, það var ótrúleg tilfinning að synda meðal þessara risa skepna og fannst okkur öllum þetta mjög óraunverulegt. Við sáum fjórar skötur sem syntu í röð á eftir hvor annarri og við fylgdum með. Þar með var þessari ævintýalegu ferð lokið og fer hún mjög ofarlega á listann yfir það sem við höfum upplifað síðustu mánuði. Við sömdum síðan við skipstjórann um að fá að gista í bátnum aðra nótt við höfnina, honum fannst það nú lítið mál ef við bara leggðum í púkk og keyptum „frumskógar djús“  fyrir áhöfnina, sem við að sjálfsögðu gerðum.
Daginn eftir hófst síðan næsta langa ferðalag alla leið til baka á Bali. Þetta var sama leið og við komum, nema með einni ferju meira og tók 35 tíma. Þetta ferðalag var samt algjörlega 67 klukkutímana virði. Hálfur afmælisdagur hennar Grétu fór í þetta ferðalag, þar sem ekki er mikið í boði á rútustöðvum í Asíu samanstóð afmælisgjöf hennar frá Þorra af vínberjum og flipp flopp skóm. Um kvöldið fengum við okkur síðan dýrindis steik og fórum snemma í háttinn enda dauð þreytt. Núna erum við stödd í Ubud umkringd hrísgrjónaökrum þar sem við ætlum að slaka á áður en við fljúgum til Filippseyja á þriðjudaginn. Ubud hefur bjargað ímynd okkar á Bali, hér er ótrúlega notalegt að vera, fjarri brjálæðinu á ströndinni í Kuta. Svo styttist óðum að við komum heim en það eru bara 7 vikur þangað til, upphaflega voru þær 38!! Okkur fynnst bæði nokkuð óhugnalegt hversu stutt það er þangað til við komum heim en einnig rosalega spennt, verður ótrúlega gott að komast í sumarrokið og rigninguna!

Svo er Indónesíuuppjörið:

Indónesía stóðst allar væntingar, ótrúlegt samt að sjá hversu þéttbýlt fólk býr, þó sérstaklega á Jövu. Þó svo að maður keyrði í 14 klukkustundir þá leið manni alltaf eins og maður væri í sama bænum.

-Við eyddum 61,5 klst. í rútum og 35,5 klst. í ferjum/bátum eða samtals rúmir fjórir sólarhringar.

Jákvætt:
- Að vera á low-season en samt gott veður
- Mikið af góðum heimamannamat
- Flores ótrúlega fallegt, einn fallegasti staður sem við höfum komið á
- Auðvelt að finna sér einkaströnd og hafa allt útaf fyrir sig
- Fólk var sérstaklega vinalegt á Jövu

Neikvætt:
- Smagöngur mjög hægfara
- Mjög dýrt á ferðamannastöðum (ekki þó ef miðað er við Evrópu)
- Umferðin óþægileg, brjáluð umferð á litlum götum og auðvitað engar gangstéttir
- Strandmenningin á Bali stóðst eingar væntingar
-Starfsmenn í ferðamannaiðnaðnum á Bali var ekkert til að hrópa húrra fyrir

Það sem kom okkur á óvart:
-Allir virðast vita hvað Ísland er!
-Að Kuta á Bali (einn vinsælasti staðurinn) er ógeðslegur og óspennandi að okkar mati
-Hversu þéttbýlt er á Jövu
-Hvað allt gerist hægt

Það sem stóð upp úr:
-Borobudur
-Rólega lífið í Malang
-Gili afslöppunin og strendurnar þar
- Komodoævintýrið

Verðdæmi:
-650 ml bjór = 507 kr.
-Kokteill á bar = 1.200 kr.
-Gisting (í frekar lélegum herbergjum) = 1.450–2.200kr.
-1,5 l vatn = 50 kr.
-Máltíð fyrir tvo = 1.200 kr.
-Máltíð fyrir tvo á götunni (t.d. steikt hrísgrjón í pappír) = 145 kr.
- Tveggja daga sigling um Komodoeyjar fyrir einn (allt innifalið) = 8.700 kr.
- 14 tíma rútuferð á Jövu = 1.900 kr.

Kort af leiðinni sem við fórum (getið ýtt á myndina til að fá hana stærri):

9 ummæli:

  1. Það er gott að lesa um svona svaðilfarir (rútu-dreka) eftir á og að vita að þið eruð heil á húfi. Ég veit reyndar að þið eigið örugglega eftir að fara í fleiri svona ferðir áður en þið komið heim. Það var gaman að heyra í ykkur á skype áðan. Bestu kveðjur áfram og þið passið hvort annað. Kveðjur mamma og pabbi.

    SvaraEyða
  2. Sæl elskurnar. Erum farin að hlakka til að sjá ykkur eftir 7 vikur. Þær verða fljótar að líða.Þessar rútuferðir ykkar eru alltaf jafn óhugnanlegar og vonandi fer þeim að ljúka. Við erum eina ferðina enn í Hafnarfirði og héðan biðja allir að heilsa. Sumarið er aðeins farið að kíkja til okkar þó enn sé kalt í veðri.Þið komið örugglega með góða veðrið heim þegar þið komið. Vonum að allt gangi vel hjá ykkur á Filipseyjum.Kærar kveðjur frá ömmu og afa.

    SvaraEyða
  3. Úff það er naumast sem þessi ferðalög taka alltaf langan tíma! Eftir heimildamyndirnar sem við Bjarni horfðum á var rosa gott að heyra að þið hefðuð komist heil frá þessum blessuðu drekum, ótrúlegt að leiðsögumennirnir skuli ekki vera með sýklalyf á sér í svona leiðangrum! En alltaf gaman að lesa um þessar ævintýraferðir ykkar :) Góða ferð til Filippseyja.

    SvaraEyða
  4. Skemmtilegt blogg og flottar myndir, það er ekki leiðinlegt að fá að sjá og umgangast þessi kvikindi.

    SvaraEyða
  5. Þvílíkt ævintýri sem þetta hefur verið hjá ykkur. Mér finnst þig vera óþarflega nálægt Komodo eðlunni. Ég er ekki viss um að ég hefði treyst prikinu fyrir lífi mínu.
    Góða skemmtun á næsta áfangastað.

    Kv
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  6. Þetta hefur nú verið meira ævintýrið hjá ykkur þarna, og eins gott að vita ekki um svona lagað fyrr en eftir á ,vonandi verður hættuminna það sem eftir er, en farið samt varlega og njótið Fillipseyja ég þekki góðar konur þaðan . Góða ferð elskurnar,

    SvaraEyða
  7. Elsku ferðalangar!
    Þetta var nú skemmtilegt ævintýri - og stendur greinilega uppúr sem eitt af því besta hingað til.
    Gaman væri að sjá númeraða viðburðaskrá eftir ferðina - nr.1 það langskemmtilegasta o.s.frv.
    Kannski gerið þið það í tómstundum í ellinni. (grín)
    En lífsreynslusarpurinn stækkar og stækkar - og næst þetta fræga frí í fríinu!!
    Gangi ykkur áfram vel og njótið viknanna sem eftir eru.
    amma

    SvaraEyða
  8. Gaman að heyra frá ykkur :) Þið eruð alveg ótrúleg að þora að vera að sniglast í kringum þessi dýr hvort sem það eru skötur, drekar eða leðurblökur :) Miðað við það sem maður sér um þau í sjónvarpinu :) En að sjálfsögðu er þetta frábær uplifun.. Gangi ykkur áfram vel og haldið áfram að ntjóta þess að vera á ferðalagi :) kv. Bjarni Freyr

    SvaraEyða
  9. Sigurlaug Ragnars.
    Sérlega athyglisverðar wc lýsingar...... :P
    Ég verð einnig að taka undir með þeim sem finnst þið hafa verið full nærgöngul við eðlurnar... þrátt fyrir prikið sem Þorri heldur á, skil vel að mömmum og öðrum ættingjum finnist gott að vita af þessu eftirá :)
    Ferðin ykkar er stórkostleg.......enn og aftur kærar þakkir fyrir að lýsa þessu svona vel í máli og myndum.
    Kær kveðja,
    Sigurlaug Ragnars

    SvaraEyða