mánudagur, 5. mars 2012

Gréta í beinni

Lögðum eldsnemma af stað til Malasíu síðastliðinn fimmtudag þar sem við kvöddum Thailand með ekkert sérlega miklum söknuði, enda alltaf spennandi að koma til nýs lands. Höfum samt tekið eftir því að það er ekki eins mikill spenningur að koma til nýs lands þegar maður fer þangað landleiðina eins og það er að koma með flugi. Erum búin að vera svo dugleg að fara bara landleiðirnar að við höfum ekki farið í flug síðan í desember.
Fyrsti dagurinn í nýju landi er oft mjög áhugaverður, manni er hent út einhversstaðar í miðri borg sem maður hefur aldrei komið til fyrr og hefur ekki hugmynd um hvert maður á að fara, hvernig maður á að komast að stað sem maður gæti mögulega fundið gistingu og hvað sé passlegt verð að borga fyrir að komast frá A til B. Þetta er til dæmis dagurinn sem mest er svindlað á manni og yfirleitt í enda dags slær maður lófanum við ennið á sér yfir því hversu vitlaus maður var. Það átti þó ekki við þegar við komum til George Town á Penang eyju hérna í norður Malasíu, að vísu vissum við ekkert hvert við áttum að fara og stóðum lengi með kort af borginni og snérum okkur í hringi en það reyndi enginn að svindla á okkur og skemmtilegur leigubílsstjóri keyrði okkur beint í China Town þar sem við fundum gistingu á yndælu gistiheimili. Við vorum þó ekki ein því á leiðinni frá Thailandi höfðum við kynnst Símoni frá Sviss sem var svo með okkur allan tímann í Penang, alltaf gaman að fá auka félagsskap. Hann er líka í 9 mánaða reisu en þó örlítið öðruvísi en okkar því hann leitar uppi alla þungarokkstónleika í asíu.
Á föstudaginn fórum við í göngutúr um borgina sem er ótrúlega hreinleg, skipulögð og krúttleg. Þetta er mjög sérstakt því þarna er mikið um hús í evrópskum stíl, síðan fer maður í næstu götu við og þá er maður kominn til Litla Indlands, næstu götu er maður kominn til arabíu, Kína og svo framvegis.
Þar sem Malasía er að stórum hluta múslimskt land er kominn smá Egypalands fílingur í þetta þegar þeir byrja með bænirnar í kallkerfinu. Þetta er þó ekki nærri því eins strangt og í mið austurlöndunum því hérna höfum við séð múslimskar konur keyra bíla, þær eru í mjög litríkum fötum og það er í lagi að það sjáist í andlitið á þeim. Enda líta þær út fyrir að vera mun hamingjusamari en kynsystur þeirra í mið austurlöndum því hérna sér maður þær brosandi. Fórum svo upp í særsta turninn í Penang til að sjá útsýnið sem var mjög fallegt eftir það fórum við svo í lítinn virkisgarð frá því að Bretarnir tóku yfir eynni. Í George Town voru skilti út um allt sem tilkynntu þér það að ef þú sést henda rusli á götunum áttu von á að fá 20.000 kr. sekt. Fengum okkur svo æðislegan hádegismat í Litla Indlandi þar sem við fengum stórt bananalaufblað fyrir framan okkur með hrísgrjónum og allskonar sósum og mauki á, síðan gerðum við eins og allir hinir í kringum okkur og borðuðum með höndunum, þó alls ekki þeirri vinstri því það er ekki við hæfi þar sem flestir í þessum heimshluta nota hana til þess að hreinsa á sér óæðri endann eftir klósettferðir.
Daginn eftir fórum við með strætó hinum megin á eyjunni til þess að skoða þjóðgarðinn, héldum að við værum að fara að rölta í kringum eitthvað vatn og slappa af en svo þegar við mættum þarna tók við heljarinnar 3 kílómetra fjallganga í gegnum regnskóginn til þess að sjá stöðuvatn sem átti að vera ótrúlega merkilegt. Þegar við komum þangað rennandi sveitt og þyrst var þetta ekki nema uppþornaður pollur. Þarna var þó líka strönd og falleg skjaldbökumiðstöð sem er að reyna að sporna við útrýmingarhættu á grænu skaldbökunum sem eru þær stærstu í heimi. Þær vera allt að 2,5 metrar að lengd og 600 kíló og lifa þær í allt að 150 ár. Fólkið þarna girðir eggin í sandinum af, fóstra svo ungana í nokkrar vikur og hleypa þeim í sjóinn þegar þær eru orðnar tilbúnar. Fólkið getur líka haft áhrif á kyn skjaldbakanna með hitastjórnun til þess að það verði nokkurnvegin jafnt hlutfall. En ef eggin eru öll í of heitum sandinum klekjast bara kvenskjaldbökur út en með því að hafa sum eggin á kaldari stað verður meirihlutinn karlkyns. Gréta og Símon voru svo hneppt í sjónvarpsviðtal á meðan Þorri faldi sig svo hann þyrfti ekki að taka þátt í því. Heppnin var svo með okkur þar sem við ströndina voru nokkrir bátar og fengum við far með þeim leiðina til baka ásamt nokkrum hressum heimamönnum, því við (þó aðallega Gréta) nenntum ekki að fara tveggja tíma fjallgöguna aftur til baka, enda bara á flip flop skónum góðu og það var stutt í það að það færi að dimma.
Daginn eftir var kominn tími til að fara á næsta áfangastað en við ætluðum til Cameron Highlands. Á meðan við biðum eftir að vera sótt í forstofu gistiheimilisins sat þar bandarískur maður sem tók sig á tal við okkur. Það fyrsta sem hann sagði var að hann væri ekkert búinn að sofa því hann væri svo þunglyndur, þar á eftir spurði hann hvaðan við værum, þegar við sögðumst vera frá Íslandi rann á hann önnur gríma og byrjaði hann hreinlega að drulla yfir okkur og okkar þjóð. Hann hafði setið við drykkju alla nóttina og því skyldum við ekki helminginn af því sem hann sagði en nokkuð af því sem við náðum var að við ættum að skammast okkar, Ísland ætti með réttu að vera þriðjaheims ríki vegna þess að við stæðum ekki við skuldir okkar eins og aðrar þjóðir og að við skyldum passa okkur, því við yrðum á endanum elt uppi og gert að borga skuldir okkar. Þessa ræðu sína endaði hann svo á nokkrum vel völdum orðum um fasisma. Loks kom rútan okkar og við losnuðum undan svívirðingum þessa sorglega litla manns frá „fullkomnu“ Bandaríkjunum. Okkar viðbrögð voru þau að hunsa hann og leggjast ekki á sama plan með því að svara þessum fáránlegu fullyrðingum sem hann persónugerði á okkur. Við hefðum eins getað endað samtalið við hann á þeim nótum að við værum að minnsta kosti ekki hryðjuverkamenn sem bærum ábyrgð á dauða milljóna saklausra manna um allan heim. Í staðinn snérum við baki í hann og yrtum ekki á hann þegar hann fór að sjá af sér og biðjast afsökunnar á framferði sínu, sumir ættu bara að halda sig heima hjá sér.


Vorum dauðfegin þegar rútan loksins kom og fór með okkur upp á fjöll þar sem við erum núna í góðu yfirlæti. Erum búin að taka síðustu tveimur dögum rólega og rölta aðeins um þorpið hérna og borða góðan mat. Veðrið hér er eins og á ágætum íslenskum sumardegi, lítil sól, gola en peysuveður, yndislegt!

15 ummæli:

  1. Vá hvað skjaldbökurnar eru sætar!! :)
    En ótrúlega gaman að sjá blogg :) Bið að heilsa frá kalda Íslandi... ;)

    SvaraEyða
  2. Gaman að lesa bloggið frá ykkur. Kveðja frá koldu Fróni Jóhanna Finnbogad.

    SvaraEyða
  3. Skemmtilegt og hressandi blogg til að lesa hér í tilbreytingarleysinu:-) Mér líst vel á hvað Þorri er orðinn duglegur að borða hvað sem er. Biðjum að heilsa ykkur og hafið það svona gott áfram, bestu kveðjur, mamma.
    PS:Mía er búin að eignast grábröndóttan aðdáanda en geldur ekki þá aðdáun á móti;-)

    SvaraEyða
  4. Helga Gunnarsdóttir5. mars 2012 kl. 14:24

    Komiði sæl elskurnar!

    Gaman að lesa bloggið ykkar að vanda. Gaman að fræðast um skjaldbökur, ég vissi ekki að maður gæti stjórnað svona kyninu á þeim. Þær eru svo sætar! Og ég er mjög stolt af ykkur að hafa ekki farið í sandkassaleik við Ameríkanan sem hljómar óendanlega leiðinlegur maður! Vona að þið hafið það gott

    Knús og kram
    Helga Gunn

    SvaraEyða
  5. Alltaf jafn gaman að lesa bloggið frá ykkur og fá að fylgjast með öllum ævintýrunum. Það er samt skrýtið að hugsa til þess hvað er eitthvað stutt þangað til að þið komið heim. Núna var sérstaklega gaman að lesa um skjaldökurnar, ég er alltaf með í þvottahúsinu fiskabúr...froskabúr eða eitthvað.. ef þið komið með eitthvað kvikindi með ykkur heim, ég er viss um að Valur er til í að lána ykkur það. Bestu kveðjur til ykkar Raddý

    SvaraEyða
  6. Sæl elskurnar. Gott að heyra frá ykkur og að ennþá gerast ævintýr og allt gengur vel.Erum enn í Hafnarfirði í góðu yfirlæti. Allir biðja að heilsa, kærar kveðjur frá Blönduós-ömmu og afa.

    SvaraEyða
  7. Ég trúi ekki að Gréta María hafi getað hunsað manninn frá USA!!!Þið getið lesið bloggið hans Sigga ef þið hafið tíma. Góða skemmtun í Malasíu.
    Kv
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  8. Gaman að heyra frá ykkur, hvað var verið að spyrja þig í þessu sjónvarpsviðtali ?? ;o)
    Jákvæður þessi Bandaríkjamaður ;o)
    Bestu kveðjur og hafið það gott
    Mamma ;o)

    SvaraEyða
  9. Skemmtilegt blogg hjá ykkur, hefði viljað sjá þetta skjaldbökuævintýri =)
    Góða skemmtun! =)

    SvaraEyða
  10. Mikið hafa skjalbökurnar verið skemmtilegri en þessi fúli maður. Flott hjá ykkur að láta hann ekki plata ykkur í karp. Mig langar líka til að vita út á hvað þetta viðtal gekkHaldið áfarm að njóta lífsins. Kveðjur úr hífandi stormi. Er svo þakklát fyrir að búa í steinhúsi. Jóhanna E.P.

    SvaraEyða
  11. Gaman að fá fréttir frá Penang, Við vorum á þessum slóðum gistum á
    hóteli við ströndina, reyndar fyrstu næturnar vorum við í heimagistingu í litlu þorpi við ströndina mjög kósí ,vöknuðum við hanagal á morgnana.Sáum för eftir skjaldbökurnar i sandinum. Erum með ykkur í huganum.Gangi ykkur rosa vel elskurnar Kær kveðja . Amma og afi Rvík.

    SvaraEyða
  12. Á hvaða stöð mun þetta viðtal fara og hvað var verið að spurja ykkur að???

    SvaraEyða
    Svör
    1. Þetta verður sýnt á einhverri Malasískri stöð, spurðum ekki að því. En það var verið að spyrja um staðinn sem við vorum á og hvernig þeim líkaði við bæinn

      Eyða
  13. hæ hæ, Gaman að vita af ykkur í Malasíu. Gat Þorri ekki tekið ameríkanann á sálfræðinni? Já sumir ættu að vera heima hjá sér í sínu þunglyndi...! Fannst ykkur ekki fallegt í Cameroon Highlands? Yndislegt að sjá konurnar týna telaufin í hlíðunum með körfuna á hausnum. Vonandi eru þau orðin eitthvað þróaðri með þetta! Þar sem ég er að bara heima núna að jafna mig eftir blóðtappann og hundleiðist.... þá máttu endilega skype-a á mig þegar þú ert í tölvusambandi. Það væri gaman að sjá þig og heyra meira...
    Knús til ykkar,
    kv Dagný

    SvaraEyða
  14. Elsku ferðalangar.
    Þori varla að svara svona löngu eftir blogg - kemst upp að ég kíki ekki á hverju kvöldi....
    Flottur bananadiskurinn þinn Þorri - það kemst mikið á svona disk og varst þú nokkuð að fella þetta myndarlega tré? Þessi staður virkar æðislegur - hljótið að vera glöð með hreinlætið eftir pödduvesenið (bed bugs)um daginn. Ævintýrin bíða á næsta horni - ég opna tölvuna snemma um helgina og vonast eftir að heyra í ykkur. Gangi ykkur vel áfram.
    Kveðjur amma

    SvaraEyða