þriðjudagur, 13. mars 2012

Raunir bakpokaferðalanga


Eyddum nokkrum góðum dögum uppi á hálendi Malasíu eða Cameron Highlands eins og það er kallað. Fyrstu dagana vorum við voðalega löt og tókum einn og hálfan dag í svona innidag þar sem við gerðum nákvæmlega ekki neitt. Svoleiðis dagar eru bráðnauðsynlegir til þess að endurhlaða batteríin, samt sem áður fáum við alltaf svolítið samviskubit fyrir að taka okkur svona hvíldardaga, finnst alltaf eins og við ættum að vera á fullu alltaf og að gera eitthvað nýtt. Þannig gengur það víst ekki alveg fyrir sig. Í Cameron Highlands er að finna stærsta blóm í heimi og var hægt að fara í 4 tíma fjallgöngu til að sjá það þar sem það blómstrar bara í sjö daga áður en það deyr. Þorra vildi ólmur fara en Gréta var ekki alveg eins spennt þar sem fjallgöngur eru ekki hennar tebolli og hvað þá bara til þess að sjá eitt blóm. Fórum samt á eina ferðaskrifstofu og spurðumst fyrir um þessa ferð en þar var okkur sagt að blómið væri ekki fallegt í þetta skiptið vegna verðurs (var búið að rigna mikið undanfarna daga). Hann sagði okkur að allar hinar ferðaskrifstofurnar væru að ljúga að fólki að það væri fallegt og svo þegar það var komið að blóminu urðu allir fyrir vonbrigðum vegna þess að það væri í raun hálf dautt. Í barnslegri einlægni okkar þökkuðum við honum fyrir að vera svona hreinskilinn við okkur (vegna þess að þessi ferð var frekar dýr) og bókuðum hjá honum aðra dagsferð sem innihélt ekki þessa blómagöngu, sú var mun ódýrari og bauð upp á skoðunarferð um svæðið í kring. Þegar við komum upp á gistiheimili sögðum við stelpunni í lobbýinu frá þessu öllu og þá komumst við að því að þetta fyrirtæki gerði út á að ljúga að fólki að blómið væri dautt svo það veldi frekar að fara í hina ferðina, þannig myndu þeir græða meiri pening.
 Þetta er bara svona smá dæmi og það sorglega er að ef maður ætlar ekki að láta svindla á sér verður maður að læra að efast um allt og  treysta engum, við erum greinilega ennþá að læra þar sem manni langar að geta treyst því að það sem fólk segir við mann sé satt. En það má svo sem taka það fram að Gréta var alveg smá fegin að þurfa ekki í þessa blómafjallgöngu, en bara pirrrandi að vera að fara í aðra ferð með fyrirtæki sem er
búið að ljúga að manni.
Fórum sem sagt í þessa ferð um svæðið í kring sem er alveg ótrúlega fallegt en þar má finna stærstu te akra heims, skoðuðum hluta þeirra auk teverksmiðju. Stoppuðum svo á fiðrilda og skordýragarði, jarðaberjaræktun og að lokum tókum smá göngu í mosafrumskógi (Mossy forest), sem er svona skógur eins og má sjá í Avatar myndinni, en hann var mjög fallegur.
 Daginn eftir héldum við aftur niður á jafnsléttuna þar sem Kuala Lumpur beið okkar. Það byrjaði nú ekkert allt of vel þar sem það byrjaði að rigna um leið og við komum, það er ekkert verra en að vera mættur í nýja stórborg með bakpokana á bakinu og þurfa að leita sér af gistingu á meðan það rignir. Auðvitað enduðum við því á að sætta okkur við litla holu, sem við kölluðum fangaklefann, bara til að við þyrftum ekki að leita lengur (fundum svo seinna fullt af bed bugs þar inni sem líkaði blóðið okkar). Það kvöld var ekki um neitt annað að ræða en að fá sér stóran Subway í tilefni þess að okkur langaði ekki í hrísgrjón eða núðlur svona einu sinni. Mikið sem okkur langar bara í lambalæri, skyr, flatköku með hangikjöti eða bara venjulega brauðsneið með Gottaosti.
Förinni daginn eftir var svo heitið í miðbæinn til þess að skoða Petrona Towers sem eru kennileiti borgarinnar en það vildi svo vel til að þegar við komum með neðanjarðarlestinni að turnunum enduðum við ekki úti heldur beint inni í risastórri verslunarmiðstöð og henni fylgdi yndisleg loftkæling að sjálfsögðu og búðarrölt í framhaldinu. Kíktum svo rétt út til þess að skoða þessa blessuðu turna, smelltum af nokkrum myndum og skottuðumst svo inn aftur. Í miðri myndatöku gekk maður frá Nígeríu að Þorra og vildi ólmur fá mynd af sér með honum. Gréta, sem fékk hlutverk myndatökumanns, spurði hvort hann vildi ekki hafa turnana frægu í bakrunn en hann sagði að honum væri nú alveg sama um þessa turna. Því miður átti þessi vingjarnlegi maður engan konungsborinn ættingja og við eigum þar af leiðandi ekki von á fúlgu fjár á bankareikning okkar á næstu tveim árunum. Um kvöldið skildi Þorri síðan Grétu eftir upp á hóteli og stakk af á rokktónleika. Að sjálfsögðu kom hann við á hárgreiðslustofu á leiðinni og lét krúnuraka sig í tilefni kvöldsins. Þegar á tónleikastaðinn var komið tók við löng bið þar sem tónleikarnir byrjuðu ekki fyrr en þrem tímum seinna en þeir voru auglýstir. Þorri tók sig á tal við hressan heimamann á meðan hann beið og fræddist eilítið um land og þjóð. Það sem kom mest á óvart á meðan biðinni stóð var að meðlimir hljómsveitarinnar sem kallar sig The Dillinger Escape Plan voru bara á vappi þarna frammi á meðal hljómsveitagesta og fengu að vera algjörlega í friði, hvort það stafi af því að enginn hafi þekkt þá í sjón eða þá að Asíubúar séu svona hlédrægir skal ekki segja. En tónleikarnir sjálfir voru rosalega skemmtilegir og stemninginn alveg ótrúleg.
Næsta dag skelltum við okkur í eitt stærsta sædýrasafn í Asíu. Þarna var boðið upp á hin ýmsu kvikindi, allt frá litlum sæhestum upp í risaskjaldbökur. Heimsóknin byrjaði á að við fengum að handleika stórfurðulegan krabba og hákarla, síðan fylgdumst við með matartíma risa rottna, kolkrabba, risaskjaldbaka og hákarla. Eftir rúma tvo tíma í vatnaveröldinni og þriðju yfirferð Þorra á hverju einasta búri (Grétu til mikillar hamingju) ákváðum við að skella okkur í bíó. Fyrir valinu var myndin The Woman in Black og kom hún nokkuð á óvart, hápunktur bíóferðarinnar var þó án efa möguleikinn á að fá saltað popp, sem samkvæmt auglýsingunni er glænýtt hér í Malasíu.

Síðustu tveir dagarnir í Kuala Lumpur fóru í að skoða þjóðarmoskuna þeirra og Batu hellana. Grétu var meinaður aðgangur í moskuna nema að klæðast búrku með öllu tilheyrandi, þar sem hún hafði valið sér annan fatnað þegar hún klæddi sig þennan morguninn fékk hún fjólubláa búrku og brúnan höfuðklút lánað hjá moskustarfsmönnunum, það má segja að þarna hafi átt sér stað múslimskt tískuslys. Þorri fékk hins vegar aðgang án neinna orða þótt svo hann hafi berað meira svæði líkamans heldur en Gréta fyrir búrkuna. Moskan var mjög stór en þegar inn var komið var frekar lítið að sjá því þar sem múslimar notast við hinar ýmsu líkamsstöður í bænum sínum eru engin húsgögn inn í moskum. Þarna var síðan risa stórt teppalagt herbergi sem einungis var ætlað múslimum til að biðja inní. Það sem okkur fannst áhugaverðast þarna inni voru bæklingarnir sem ætlaðir voru til að fræða fólk af annarri trú um Islamtrú. Þarna mátti t.d. lesa um sannleikann um Jesú Krist en samkvæmt þeim bæklingi var hann ekkert sérstaklega merkilegur maður, heldur einungis ómerkilegur sendimaður Allah, sem var jú auðvitað sá sem kom honum fyrir í maga Maríu mey. Það sem meira er þá kom fram í þessum bæklingi að allir menn eru fæddir múslimar en vegna lélegs uppeldis eru margir afvegaleiddir í aðra „síðri“ trú. Svona hélt þetta áfram og var gert lítið úr öðrum trúm hvað eftir annað. Hinir bæklingarnir voru hins vegar mjög áhugaverðir og fræddu okkur um þessa trú sem er svo fjarlæg okkur.
Eftir tuttugu mínútna lestarferð til Batu hellanna tók við erfið ganga upp 272 þrep í steikjandi hita. Þegar upp var komið gengum við inn í risastóran helli. Þar inni voru fjöldinn allur af styttum og flottheitum í anda hindútrúnnar. Það sem við höfðum mest gaman af var þó gömul kona sem greinilega er álitinn heilög því fólk beið í röð eftir að fá blessun frá henni, í okkar augum var þetta þó einungis kolrugluð kona sem bjó í helli og var með svo sítt hár að það hékk í stórum skítugum klump og þurfti hún að halda á honum vegna þyngdar hans.
Eftir nokkra góða daga í Kuala Lumpur var ferðinni heitið til Melaka. Við drifum okkur á rútustöðina og fengum miða í rútu, ásamt sex öðrum, ótrúlegt að rútukerfið hér skuli ganga þar sem flestar þær rútur sem við sjáum eru hálf tómar. Á rútustöðinni við komuna erum við gripin af einu af rándýrunum sem lokka ferðamenn í bælin sín. Nokkrum metrum frá gistiheimilinu okkar er risastór verslunarmiðstöð á sjö hæðum og auðvitað fékk Gréta stjörnur í augun við þessa sýn, við komumst því ekki lengra þennan daginn. En verslunarmiðstöðvar eru því miður forboðni ávöxturinn hennar Grétu í þessari ferð, því eins mikið og hana langar að versla þá telur bakpokinn hennar ekki nema 34 lítra. Þorri fann að vísu eitthvað við sitt hæfi og fékk að skjóta úr boga með hinum krökkunum.
Í dag tókum við okkur síðan langan göngutúr, á dagsskrá var að skoða fljótandi mosku. Á leiðinni sáum við svo auglýsingu frá „wildlife theater“ sem okkur fannst örlítið meira spennandi og settum því stefnuna þangað. Þetta var klukkutíma sýning með slöngum, páfagaukum, sæljónum og dansandi ættbálkafólki. Það var hins vegar hin hvíta Gréta María sem stal senuni og var tekinn upp við hvert tækifæri til að taka þátt í sýningunni, Þorri fékk líka sinn skerf og var í annað skiptið í ferðinni látinn dansa með ættbálksfólki. Eftir sýninguna tók sig á tal við okkur gamall tannlaus maður sem var yfir sig hrifinn af Grétu og hrósaði henni í hástert fyrir hugrekki innan um slöngurnar. Við höfðum síðan ekki labbað nema nokkra metra þegar yndælis fjölskylda stoppaði við hlið okkar og bauð okkur far til baka í bæinn, sem við þáðum með þökkum enda byrjað að rigna. Um kvöldið fór Þorri síðan til augnlæknis sem vill meina að augnlæknarnir á Íslandi hafi látið hann fá alltof sterk gleraugu og hann hafi því séð betur en hinn almenni maður síðustu ár og sé með betri sjón en íslensku starfsbræður hennar halda fram.
Á morgunn yfirgefum við Malasíu og höldum til Singapore þar sem tekur við nýtt land og ný ævintýr.

Malasía stóðst allar okkar væntingar en við vildum að við hefðum haft meiri tíma hérna þar sem við eigum alveg eftir austurströndina og Borneohluta landsins. Maður verður nú líka að eiga eitthvað eftir fyrir komandi ferðir.

Við eyddum 17,5 klukkutímum í rútum.

Jákvætt:
- Yndislegt fólk
- Mikið af stöðum til að skoða
- Mjög nútímalegt, að minnsta kosti í borgunum
- Hreint
- Góðar samgöngur

Neikvætt:
- Bed bugs
- Dýr gisting
- Hefur ringt flesta dagana okkar hér
- Flest allur heimamatur sem við smökkuðum var frekar bragðlaus

Það sem stóð upp úr:
- Dagsferðin í Cameron Highlands
-Þjóðgarðurinn í Penang
- Sædýrasafnið í Kuala Lumpur
- The Dillinger Escape Plan tónleikarnir hans Þorra

Verðdæmi:
-0.33 l bjór = 344 kr.
-Gisting (í mjög lélegum herbergjum, gluggalausum og skítugum) = 1.200–2.000kr.
-1,5 l vatn = 108 kr.
-Máltíð fyrir tvo = 950 kr.
- Dagsferð um Cameron Highlands fyrir einn = 1.700 kr.
- Fjögurra tíma rútuferð = 1.000 kr.
- Inngöngumiði í sædýrasafn fyrir einn= 1.500 kr.


HÉR eru myndir frá Thailandi
HÉR eru myndir frá Kambódíu

Kort af leiðinni sem við fórum:

19 ummæli:

  1. Helga Gunnarsdóttir13. mars 2012 kl. 17:00

    Æðislegt blogg hjá ykkur!

    Ég sé að þetta hefur verið áhugaverð ferð í moskvuna, enda ekki á hverjum degi sem manni er bannaður aðgangur vegna klæðaburðar ;) Leiðinlegt að þið sáuð ekki þetta stóra blóm, kannski þið sjáið það bara næst?

    Hafið það gott í Singapore, hlakka mikið til að lesa næsta blogg :)

    Knús og kram
    Helga Gunn

    SvaraEyða
  2. Hei þið tvö, langaði bara að senda ykkur kveðju héðan frá Selfossi...þið eruð nú bæði flökkukindur og virðist vera rosa stuð hjá ykkur..hafið það sem best og haldið afram að blogga..
    Birna

    SvaraEyða
  3. Við skelltum okkur á nákvæmlega sama pakkann í Cameron! Mig dreymir enn um jarðaberjasjeikinn sem ég fékk þarna á strawberry farm-inum.. mmmmmmmmmmmm.....
    Gaman að fylgjast með ykkur. :) Og Gréta, mikið svakalega ertu fín í búrkunni!
    Góða skemmtun í Singapore.
    KNÚS

    SvaraEyða
  4. Sæl elskurnar og takk fyrir skemmtilegt blogg og flottar myndir. Mér finnst Gréta fín,klædd eins og múslimsk kona og þetta er ólíkt fallegri mussa heldur ég þurfti að klæðast í moskunni sem við skoðuðum í Damaskus forðum. Nú er Mía í pössun hjá ömmu og afa og unir hag sínum vel sýnist okkur. Þorri minn þú ert flottur með þessa klippingu. Mikil breyting frá dreddunum forðum daga. Góða skemmtun í Singapore og passið hvort annað. Kærar kveðjur frá ömmu og afa á Blönduósi.

    SvaraEyða
  5. Hæ Gréta og Þorri,
    Skemmtilegt blogg eins og alltaf. Ekki frá því að ég hafi farið í þessa sömu Mosku í Kuala Lumpur og var sett í burku man eftir ógeðslegri lyktinni af henni.
    Fór líka í verslunarmiðstöðina, fannst ekki mikið varið í hana.
    Gréta fullt af búðum fyrir þig í Singapore.
    Kveðja,
    Jóhanna Finnbogad.

    SvaraEyða
  6. Alltaf gaman að lesa um ævintýri ykkar :) Góða ferð til Singapore!

    SvaraEyða
  7. Hæ, mikið er ég fegin að sjá loksins blogg frá ykkur. Malasía er greinilega land sem ég verð að heimsækja einhvern tímann- nóg að skoða og fallegt landslag.
    Góða ferð á næsta áfangastað.

    Kveðja
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  8. Takk fyrir skemmtilegt blogg, sit hér í Hafnarfirði við hliðina á Alla frænda mínum sem syngum með Bláum ópal "Stattu upp fyrir sjálfum þér". Þið vitið auðvita ekkert hvað ég er að tala um:-). Bestu kveðjur til ykkar og við verðum í sambandi, mamma.

    SvaraEyða
  9. Gaman að lesa bloggin ykkar :) Yndisleg ævintýri sem þið eruð stödd í. Gangi ykkur vel. Kv. Hugrún Sif

    SvaraEyða
  10. Guð hvað ég skil þig vel Gréta að hafa ekki nennt að fara að skoða eitthvað blóm... alveg nóg að skoða bara myndir af því í bókum eða á netinu ;)

    Annars mjög skemmtilegt blogg, nema mér líst ekkert á þetta slönguvesen í ykkur... ;)

    Kv. Arnheiður

    SvaraEyða
  11. Alltaf jafn gaman að fá fréttir frá ykkur og öllum ævintýrunum, þú ert flott í búrkunni Gréta mín, ég fékk bara svarta slæðu.Gangi ykkur vel í Singapore og passið ykkur að missa ekki neitt rusl á göturnar.Kær kveðja, Ásta amma.

    SvaraEyða
  12. alltaf svo gaman að lesa bloggið ykkar og tala nú ekki um myndirnar frá ykkur
    koss og knús frá Noregi

    SvaraEyða
  13. Hæ hæ bara snilld. Ég er alltaf jafn ánægður með klippinguna þína Þorri ;-)
    kv
    Höskuldur

    SvaraEyða
  14. Sæl elskurnar.
    Ég skil mannin vel að finnast Þorri flottari en einhverjir turnar sem alltaf er hægt að góna á. Ég er nú hálf svekkt fyrir hönd Þorra að hafa ekki séð blómið en hva.... þið skellið ykkur bara síðar. Gréta mín. Mér finnst púrkudæmið þitt ganga vel upp :) Fékkstu ekki eitthvern aur fyrir að koma svona fram í Wildlife Theater?
    Knús frá okkur hér fyrir norðan, Jóhanna

    SvaraEyða
  15. Takk fyrir frábært blogg, ég skil ekkert í mér að hafa ekki komið við í Malasia. Frábærar myndir.

    SvaraEyða
  16. Þorri á ekki að halda upp á mottumors???

    SvaraEyða
  17. Ég gleymi alltaf að commenta hjá ykkur. En jæja gaman að fá nýtt blogg, og sérstaklega skemmtilegt að sjá myndir. Svo er ég allveg sammála Steinari og var nú búinn að nefna þetta við þig Þorri, Það er Mottumars og allveg lágmark að setja í eina mottu. Ferð ekkert að láta Grétu stjórna því neitt :)

    SvaraEyða
  18. Get ekki hugað mér neitt eins ógeðslegt og risa rottur að éta. Gott hjá ykkur að skella ykkur í bíó og fá saltað popp. Ég skal hafa til hangikjöt flatkökur og ristað brauð með osti og sultu þegar þið komið heim! Hlakka til að fá ykkur heim, nú bara tveir mán ;)

    SvaraEyða
  19. Kv ur gulaþinginu jmk og co ;)

    SvaraEyða