miðvikudagur, 29. febrúar 2012

Á hákarlaslóðum


Vorum mjög treg til þess að yfirgefa Bangkok okkur líkaði svo vel við að vera þar, eða sérstaklega Grétu þar sem þar í borg er hægt að finna „alvöru“ Thailand (um leið og maður labbar út af Kao San auðvitað) því þegar maður fer suður á ferðamannastaðina hverfur það að mestu því miður. Borðuðum rosalega mikið af góðum mat og löbbuðum mikið um, fórum enn eina ferðina í MBK verslunarmiðstöðina og gleymdum okkur þar um stund. Eitt kvöldið fórum við á svokallað sjálfsafgreiðslugrill langt, langt frá öllum ferðamönnum, höfum ekki borðað svona yfir okkur síðan á jólahlaðborðinu í Búrma. Það voru ekki mjög skemmtilegir gestir sem deildu með okkur herbergi á gistiheimilinu okkar góða en það voru svokallaðar „bed bugs“ sem við höfum alveg verið laus við hingað til. Þessar pöddur búa í sprungum í veggjunum og koma ekki út nema á nóttunni og halda veislu á líkama fólks. Gréta varð fyrir valinu allar þrjár næturnar, og já við nenntum ekki að skipta um herbergi, einn daginn taldi hún 37 bit bara á handarbaki hægri handar. Höfum samt afsökun á að hafa ekki skipt um herbergi því við höfðum ekki hugmynd um hvaða kvikyndi þetta voru því þau fóru ekki í aksjón fyrr en maður var sofnaður. Þetta er næstógeðslegasta pödduævintýri okkar í þessari ferð, það versta var þegar Þorri fékk skógarmýtil í höfuðið eftir frumskógarferðina í Nepal. Síðasta daginn okkar í Bangkok mæltum við okkur mót við vinkonu Grétu frá Belgíu hana Winke sem var æðislega skemmtilegt, alltaf gaman að hitta fólk sem maður þekkir því það gerist ekki á hverjum degi á svona ferðalagi.
Bed bug, næturfélagi
Ákváðum loks að yfirgefa Bangkok þar sem við föttuðum einn morguninn þegar okkur var litið á dagatal að við áttum bara rétt rúma viku eftir af vegabréfsárituninni okkar, þá var ekkert annað í stöðunni en að panta rútu og bát til eyjar í suðurhlutanum sem heitir Koh Tao, lítil eyja sem er þekkt fyrir að vera fallegur köfunar- og snorklstaður. Þetta var virkilega þreytandi ferð niðureftir þar sem við lögðum af stað um kvöldmatarleytið með rútu, rútan stoppaði klukkan 4 um nóttina í bæ sem heitir Chumpon og þar úti á götu biðum við eftir einhverjum til að skutla okkur niður að höfn, eftir klukkutíma bið á vegkantinum kom farið loks og fór með okkur niður að bryggjuhúsi þar sem við þurftum að bíða í þrjá og hálfan tíma eftir að báturinn færi með okkur að eynni.  Þar kom uxaullarteppið frá Nepal sér gríðarlega vel sem rúm á gólfinu. Síðan kom báturinn loks og hann tók aðra þrjá tíma, við vorum gríðarlega þreytt þegar við komum loks á áfangastað þannig að sá dagur fór í bara í afslöppun á ströndinni. Það sama má segja um næstu daga á eftir þar sem við eyddum mestum hluta daganna svamlandi í sjónum og leikandi okkur við apakríli sem var voða kátur og elskaði að toga í hár.
Ávaxtasölumaður
Næst síðasta daginn okkar fórum við þó í skemmtilega snorkl-siglingu í kringum eyjuna, í fyrsta stoppinu var allt klökkt af black fin hákörlum sem við syntum með en þeir voru ekkert smá flottir. Í næsta stoppi hoppuðum við út í og reyndum að koma auga á hvítháfa (mannskæðustu hákarlar heims) sem eiga að vera þarna í kring en það var enginn sjáanlegur þennan daginn, sem var kannski bara gott mál því það verður mum skemmtilegra að koma heim með hausinn fastan á. Vorum svo orðnir algjörir tómatar eftir þennan dag og það rann vel úr Aloa Vera brúsanum það kvöldið.
Um kvöldið leitaði Þorri sér að sportbar til að horfa á úrslitaleikinn í deildarbikarnum þar sem Liverpool var að spila. Þar sem við vorum ekki við aðalströndina á eyjunni gekk það ekkert sérstaklega vel. Að lokum fann hann lítinn veitingastað með sjónvarpi, vandinn var hinsvegar sá að þau lokuðu klukkann tíu, heilum klukkutíma áður en leikurinn byrjaði. Eigandi staðarinns ætlaði hins vegar að horfa á leikinn sjálfur og bauð Þorra bara í heimsókn. Þegar leikurinn var flautaður á sat Þorri því meðal sex heimamanna og strák frá Singapore, þarna var einnig lítil læða sem kom sér þægilega fyrir í kjöltu Þorra og lét gæla við sig á meðan leiknum stóð.
Þorri á grillinu góða
Tælendingarnir voru víst búnir að sitja allan daginn yfir sjónvarpinu og veðja um úrslit allra leikja sem þeir gátu horft á þennan daginn og því var spennan mikil fyrir þessum úrslitaleik. Tælendingar fara sínar eigin leiðir í fótboltaútsendingum eins og svo mörgu öðru en í stað þess að nýta hálfleikinn fyrir auglýsingar eins og vanin er á flestum stöðum þá var leikurinn minnkaður og færður í eitt hornið á sjónvarpinu á meðan einni og einni auglýsingu var laumað að, þetta gerðu þeir á sirka tveggja mínútna fresti í fyrri hálfleiknum en róuðu sig sem betur fer eftir því sem leið á leikinn, Þorra og þeim Singapúrska (eða hvernig sem það er sagt) var ekkert sérstaklega skemmt yfir þessu fyrirkomulagi. Að leikslokum brutust síðan út mikil fagnaðarlæti enda höfðu allir veðjað á sigur Liverpool.
Skelltum okkur svo í næturbát (erum orðin ansi sjóvuð í nætur-alsskonar) til Ao Nang í Krabi héraði, þetta var óttalegur dallur en ferðin var eins og að vera vaggað ljúft í vöggu alla nóttina, þannig að við sváfum nokkuð ágætlega á flatsænginni ásamt 70 öðrum farþegum.
Í dag fórum við í skoðunarferð um Phi Phi eyjarnar og snorkluðum þar inn á milli, þetta var þriðja skiptið sem Gréta fer í þessa sömu skoðunarferð en þetta er alltaf jafn fallegt, þó sértaklega Maya Bay þar sem til dæmis bíómyndin The Beach með Leonardo Dicaprio var tekin upp.
Flatsængin fljótandi á næturbátnum
Skemmtum okkur vel með að fylgjast með rússneskum dömum í ýmiskonar stellingum á ströndinni með myndavélina á lofti, en þannig þekkir maður Rússana frá öðurm ferðamönnum auk þess að þær ganga varla í sundfötum. Gréta hefur einstakan hæfileika í að fá leiðsögumenn upp á móti sér og var engin breyting þar á í dag, það eina sem hún gerði af sér var að biðja vingjarnlega um snorklgrímu sem ekki læki. Eftir að hún fékk gamla og grútskýtuga grímuna í hendurnar fór hún og þreif hana í sjónum. Fór þetta eitthvað illa í strákgreyið sem fór í meiriháttar fýlu og sagði henni að það væri engin þörf á að þrífa grímuna. Endaði þetta með því að hann sagði henni að hún þyrfti að vera vingjarnleg og leit ekki á hana það sem eftir var dagsins, hins vegar var hann hinn almennilegasti við Þorra. Þetta er þriðji leiðsögumaðurinn sem hefur af einhverjum óskyljanlegum ástæðum orðið hundfúll við Grétu algjörlega að ástæðulausu.
Það má segja að við höfum orðið fyrir örlitlum vonbrigðum með Thailand, eða Gréta þar að segja, þar sem mikið er búið að breytast frá því hún var hérna fyrir 5-6 árum síðan. Það eru allt of margir ferðamenn hérna sem tekur svolítið sjarmann í burtu svo ekki sé talað um verðlagið sem hefur farið upp úr öllu valdi og kostar t.d. lítill bjór það sama og í vínbúðinni heima á Íslandi. Svo er Thailenskt fólk sem vinnur með ferðamenn svo allt öðruvísi en hinir „venjulegu“ Thailendingar að það er ekki hægt að líkja þeim saman. Gréta hefur orðið mikið vör við að starfsfólk sé að baktala okkur og aðra ferðamenn beint fyrir framan mann (þá á thailensku auðvitað) þegar þau halda að maður skilji ekki. Það er líka oft með ferðamannaheimamenn að ef maður byrjar að tala við þá thailensku þá undantekningalaust svara þeir manni til baka á ensku, þótt maður haldi samræðunum áfram á thailensku svara þeir alltaf á ensku en það getur verið frekar þreytandi til lengdar. Það má segja að örlítill gamall uppsafnaður pirringur sé að koma fram aftur frá því á skiptinemaárunum. Sorglegt hvað suðurhluti þessa yndislega lands er breyttur og svo langt frá því að sýna réttu hliðina á landinu, það er meira að segja svo erfitt að fá alvöru thailenskan mat því þeir þurfa alltaf að breyta honum og laga að ferðamönnum til dæmis með að setja tómatsósu í alskyns rétti sem eiga alls ekki að bragðast neitt í líkingu við það.
En núna síðasta kvöldið löbbuðum við langt frá ferðamannastaðnum í Ao Nang, sátumst á plaststólana úti við vegkant og fengum okkur dýrindis núðlusúpur, svona alvöru og gott að enda Thailandsförina okkar á því. Förum svo með rútu til Penang í Malasíu eldsnemma í fyrramálið.


Í Thailandi eyddum við 44,5 klukkutímum í rútum og 12,5 í bátum eða samtals tæpir 2,5 sólarhringar.

Verðdæmi:
-0.5 l bjór = 480 kr.
-Gisting (í mjög lélegum herbergjum, gluggalausum og skítugum) = 1.600-2.000 kr.
-1,5 l vatn = 56 kr.
-Máltíð fyrir tvo = 280 kr. (það er á götuhornum í Bangkok og annarsstaðar langt frá ferðamannastöðum)
-Máltíð fyrir tvo = 1.200 kr. (á ferðamannastöðum)
-Snorklferð heilan dag = 4.000 kr.
-Bensínlítri = 124 kr.

Jákvætt:
-Auðvelt að ferðast um
-Góður matur (þegar maður leitar uppi réttu local staðina)
-Alltaf fallegt umhverfi
-Mikið úrval staða til að ferðast til (eiginlega of mikið þegar maður hefur takmarkaðan tíma)
-Hvað það er auðvelt að prútta ef maður talar Thailensku
-Alltaf hægt að finna sér eitthvað að gera
-7-ELEVEN!!!!
Neikvætt:
-Dýrt!!
-Oft hrokafullt starfsfólk á ferðamannastöðum
-Hvaða heimamenn geta skemmt góðan mat þegar útlendingur pantar hann
-Allt of margir ferðamenn

Það sem kom mest á óvart (Þorri sér um þennan kafla)
- Hversu virkilega góður götumaturinn er, völdum hann alltaf fram yfir veitingastaðina.
- Hvað bjórinn er dýr (eftir 60 kr. Í Kambódíu og Víetnam), völdum við frekar að drekka ekkert með matnum
- Hvað Gréta er sleip í Thailenskunni
- Munurinn á hinum almenna Thailendingi (sem eru upp til hópa mjög vingjarnlegir og almennilegir) og Thailendingi sem vinnur í ferðaþjónustu.


Þorri að svamla í sjónum
p.s. þegar við vorum að panta Phi Phi ferðina  spurði konan í afgreiðslunni hvaðan við værum og hún missti andlitið og gapti þegar við sögðumst vera frá Íslandi, hún trúði því ekki að fólk byggi þar virkilega. Svo sagði hún að við gætum ekki verið þaðan vegna þess hversu brún við vorum. En hún má eiga það að hún er ein af virkilega fáum heimamönnum (heimamenn í öllum löndunum sem við höfum komið til) sem vita hvað og hvar Ísland er, flestir halda að við séum frá Írlandi og erum við bara farin að jánka því, þessar útskýringar eru orðnar svo þreyttar.

Kort af leiðinni sem við fórum, stjörnurnar eru staðirnir sem við stoppuðum á (merktum líka staðinn sem Gréta átti heima á, Udon Thani):


15 ummæli:

  1. Ekki öfunda ég ykkur af næturfélaganum sem myndin er af svo mikið er víst!! Það kom afmælispakki til Vals frá ykkur í gær svo eitthvað er að skila sér heim. Gott og gaman að heyra frá ykkur og þið haldið áfram að passa hvort annað. Bestu kveðjur, mamma.

    SvaraEyða
  2. Helga Gunnarsdóttir29. febrúar 2012 kl. 14:27

    Þetta er æðilsegt blogg! En ég skil samt ekkert í þessum leiðsögumönnum ykkar að verða svona fúlir útí hana Grétu Maríu. Það er heldur ekki gott til afspurnar að fólk í þjónustustörfum sé að tala illa um kúnnanan, alla vegna ekki fyrir framan þá! Verður gaman að heyra af ævintýrum ykkar í Malasíu.

    Knús og kram elskurnar
    Helga Gunn

    SvaraEyða
  3. Ojjj ekki langar mig að deila rúmi með svona pöddum :O Flest annað væri ég til ;) Góða ferð til Malasíu!

    SvaraEyða
  4. Aldeilis gaman að heyra frá ykkur:) Þetta er algjörlega ólíðandi og ógeðslegt með þessar pöddur hvernig gátuð þið verið þarna.. hehe :) En já það er ekki gott að þetta sé svo fljótt að breytast allt þarna með ferðamannastaðina að allt sé farið að vera svona dýrara og örugglega alltof mikið af fólki.. Vona að þið haldið áfram að hafa það gott :) kv. Bjarni Freyr

    SvaraEyða
  5. Og bara svona til að fyrirbyggja allan misskilning (sem Bjarni upplifði) þá væri ég s.s. til í að gera flest annað sem þið hafið verið að gera en ekki deila rúmi með flestu öðru hehe ;)

    SvaraEyða
  6. Gott að heyra frá ykkur. Í svona pöddubæli gæti ég ekki gist,þið eruð aldeilis orðin sjóuð að gera ykkur þetta að góðu. Erum í Hafnarfirði og sendum kærar kveðjur með von um að ykkur gangi vel á nýjum stað. Blönduós-amma og afi.

    SvaraEyða
  7. Skemmtilegt blogg að vanda. Já, Tæland er ótrúlega mikið túristaland. Það var svo skrýtið að þegar ég kom aftur til Bangkok eftir 6 vikna þvæling um Asíu tók ég eftir því hvað Tæland er í raun orðið vestrænt, svo vestrænt að meira að segja heimafólkið er sumt feitt. Það sér maður ekki í Laos, Kambódíu eða Víetnam. Pæling .... Kv. Inga Heiða

    SvaraEyða
  8. Hæhæ :) Ég hef sennilega ekki commentað hérna lengi, en alltaf les ég bloggin ykkar samt :) Ég vissi ekki alveg hvað ég átti að hugsa þegar ég las að þið hefðuð verið að synda með hákörlum... þangað til að ég googlaði þetta ;) Er ekki svo góð í hákarlategundum :p
    En skemmtið ykkur í Malasíu, bíð spennt eftir fréttum þaðan :)

    SvaraEyða
  9. Hæ, elskurnar alltaf jafn gaman að heyra frá ykkur, Verst með pöddurnar, þið fáið vonandi betri gistingu í Malasíu . Í Kuala Lumpur gistum við á Kínversku hóteli sem hét ("Twin happyness" ) eða eitthavð svoleiðis )en það var á góðum stað og ódýrt. Ég er ekkert hissa á þessu með leiðsögumennina þeir eru ekki vanir svona nákvæmu fólki eins og Grétu og Dagnýju . ... en gangi ykkur rosa vel áfram, við verðum með ykkur í huganum. kær kveða Amma og afi Rvík.

    SvaraEyða
  10. Gaman að lesa bloggið ykkar.
    Á morgun verið þið Siggi ótrúlega nálægt hvort öðru-í sama landi.
    Það var gaman að spjalla við þig á Skypinu um helgina.

    Knús
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  11. Obbobbbb...... er ég fúleggið,,,, ;-) gaman að heyra frá ykkur !
    kv
    Höskuldur

    SvaraEyða
  12. Sælar,

    Ég þakka kærlega fyrir afmælisgjöfina, alltaf gaman að fá pakka frá Kambodiu. Tollinum leyst samt greinilega ekkert á þetta þar sem þeir voru búnir að rífa þetta allt upp og tape-a svo saman aftur.

    Gaman að fá nýtt blogg, Þetta eru ekki falleg kvikindi þessi Bed bugs. Það er eins gott að þið flytjið þetta ekki með ykkur heim. En þangað til næst...

    Kv. Valur

    SvaraEyða
  13. Ég fylgist oft með blogginu ykkar. Mér finnst þið oft hitta ógeðslegar pöddur. Vona að ferðalagið gengi vel. Hlakka til að sjá ykkur þegar þið komið heim.
    ;)
    KV: Steinar Örn Ragnarsson

    SvaraEyða
  14. Flott umhverfi þegar þú ert í sjónum Þorri. Var þetta ekki kalt? Ef ég væri með myndi ég bara taka myndir ekkert annað. Ég myndi týna ykkur af því að ég væri svo upptekinn að taka myndir af þessu umhverfi ;)
    KV: Steinar Örn Ragnarsson

    SvaraEyða
  15. .....var búin að skrifa helling...þegar nettengingin datt og þmt allur textinn.arrrg

    Sendi frekar e-mail við tækifæri.....

    Yndislegt að lesa um Thailand og ævintýrin ykkar þar...spennt að heyra um Malasíu. Knús til ykkar , kv.Dagný

    SvaraEyða