mánudagur, 30. janúar 2012

Á stríðsslóðum


Hríðskotapía
Við skildum við ykkur daginn fyrir gamlárs í Nha Trang og erum við búin að ferðast svolítið í millitíðinni. Gamlársdagsmorgunn fórum við með sendiferðabíl til lítils krúttlegs bæjar í miðhálendum Víetnam sem heitir Dalat.Þegar við komum var eiginlega búið að loka öllu og ekki auðvelt að finna gistiheimili þar sem enginn heimamaður vill fá ferðamenn til að sjá um svona yfir háhátíðirnar. Í flestum tilfellum var horft á okkur eins og við værum einhver skrímsli sem væru að ráðast inn á yfirráðarsvæði þeirra og þau hristu höfuðið í hryllingi þegar við spurðum hvort þau ættu laust herbergi. En eftir þónokkra leit fundum við eitt gistiheimili sem við fengum heimild fyrir að gista á. Þetta var mjög fallegur bær og fann maður í loftinu allan hátíðarspenninginn fyrir áramótin, allir að flýta sér að kaupa lukkumandarínutré, kökur og annað fyrir fjölskyldur sínar. Þar sem flest var lokað þennan daginn löbbuðum við í kringum stöðuvatnið og fórum í fallegan blómagarð, borðuðum svo núðlusúpu á eina matsölustaðnum sem var opinn. Á nýársdag ætluðum við að reyna að fara í einhverja skoðunarferð eða að leigja okkur mótorhjól en það var alveg vonlaust dæmi og bjartsýni okkar varð að engu í lokinn.
Crazy House hótelið
Fórum hinsvegar að skoða eitt stórkostlegasta hótel sem við höfum séð en það er kallað „Crazy house“, það er byggt eins og eitthvað ævintýri þar sem herbergin eru mismunandi byggð með risamaurum, kengúrum með gljáandi rauð augu og tígristýrum. Svo labbaði maður upp og niður stiga sem voru byggðir eins og í trjáhýsi, þetta var mjög skemmtilegt að skoða en að gista nótt þarna var ekki alveg á viðráðanlegu verði fyrir okkur.Þetta reyndist vera eina sem við gátum gert þennan daginn og banhungruð leituðum við að einhverjum stað með næringu fyrir okkur en eftir mikla leit fundum við loks stað með núðlusúpur og var það eins og himnasending að fá mat. Ákváðum að þetta væri komið gott af þessum bæ og má segja að væntingarnar höfðu verið meiri því okkur langaði svo að ferðast um hálendið á mótorhjólum því það á víst að vera gríðarlega fallegt en þetta gefur manni bara ástæðu til að koma aftur, ekki satt?
Næst á dagskrá var svo lítill strandbær sem heitir Mui Ne en hann er þekktastur fyrir alla „Kite surferana“ en þetta á víst að vera einn besti staður í heiminum til þess að stunda þá íþrótt. Fyrir þá sem ekki vita þá ertu sem sagt á brimbretti en heldur í risastóran flugdreka og þeytist um sjóinn á þessu, ótrúlegt en satt prófuðum við þetta ekki í þetta skiptið heldur sóluðum okkur frekar á ströndinni heilu og hálfu dagana Þorra til mikillar „gleði“, en það var svo sem ekki mikið annað í boði í þessum bæ. Reyndar fórum við í smá skoðunarferð síðasta daginn um umhverfið hér í kring en það samanstendur einfaldlega af eyðimörkum. Byrjuðum á að labba eftir litlum læk með sandsteina allt í kring, voðalega fallegt.
Hver hefur ekki látið sig dreyma um að vera á baki fugls og sjá allt með þeirra augum, við fengum þann draum uppfylltann þann daginn þar sem við fórum á bak strúts. Þar sem þeir fljúga nú ekki sáum við bara sandinn fyrir neðan þá en þrátt fyrir það vorum við á fulgsbaki og það gerist ekki á hverjum degi. Eftir strútsævintýrið fórum við að skoða hvíta eyðimörk, þar á eftir rauða eyðimörk og má segja að við höfum verið vel sandblásin eftir góðan dag í sand- og strútsleiðangrinum.
Strútsknapinn mikli
Morguninn eftir var förinni svo heitið til höfuðborgarinnar Ho Chi Minh City en það á víst að vera borg með einni brjáluðustu umferð Asíu og allt á ys og þysi en svo kom á daginn að þetta er bara nokkuð róleg borg en nóg að gera, okkur líkar allavegana mun betur við hana en við bjuggumst við þar sem við erum ekki mikið fyrir svona stórborgir. Við gerðumst meira að segja svo stórborgarleg og skelltum okkur til tannlæknis, þar sem það kostar um 15.000 krónur á Íslandi að opna munninn er það alveg frítt hérna en það kom á daginn að Gréta þarf að koma aftur að laga eins og tvær tennur en það mun ekki kosta nema 2.500 krónur að gera við það, langar ekki vita hvað það kostar á Íslandi þannig að það er um að gera að gera þetta hérna á meðan maður hefur tækifæri til þess en þessi stofa leit voðalega fín út og tannlæknarnir voru örugglega með leyfi. Þetta hefði samt aldrei getað farið verr heldur en það sem ónefndur tannlæknir á Blönduósi gerði hér um árið þegar hann skildi eftir bómul á milli fyllingar og tannar hjá Grétu, það þarf varla að taka það fram að tönnin eyðilagðist.
Dagurinn í gær var svo mjög áhugaverður og við lærðum rosalega margt um stríðið hér í Víetnam. Við fórum í skoðunarferð að Cu Chi göngunum hérna norður af Ho Chi Minh City en þetta voru göng sem Víetnamarnir grófu til að verjast árásum Bandaríkjamanna. Göngin voru alveg ótrúlega þröng en þau voru á köflum á þremur hæðum og 200 kílómetrar að lengd, alveg að landamærum Kambódíu. Þeir grófu þessi göng öll í höndunum með litlum skóflum og banbuskörfum eftir það fleygðu þeir jarðveginum út í ánna. Í göngunum var allt til staðar, eldhús, sjúkrahús, vopnabúr og fleira. Þeir voru eitthvað svo klárir þeir sem byggðu þetta því þarna var allt út í gildrum ef Bandaríkjamenn reyndu að komast inn fyrir einnig höfðu þeir gert göngin þannig að allt í einu þrengdust þau svo stóru Bandaríkjamennirnir myndu festast í þeim. Svo urðu Víetnamarnir einstaklega þakklátir þegar Bandaríkjamenn ætluðu að hræða þá upp úr göngunum með að handa fullt af snákum niður í holurnar því þar fengu heimamenn ókeypis mat á silfurfati.
Inngangur í göngin

Þorri í göngunum

M16
Þeir gerðu loftgöt á 15 metra fresti sem á yfirborðinu leit út fyrir að vera holur eftir termíta eða mýs, þá voru þeir líka með op út í ánna þar sem þeir gátu flúið göngin ef á þurfti. Þúsundir barna fæddust líka og ólust upp í þessum gögnum og var leiðsögumaðurinn okkar eitt þessara barna. Það „fyndnasta“ við þetta allt saman var að göngin þeirra lágu upp við og undir stærstu bækistöð Bandaríkjamanna en þeir höfðu auðvitað ekki hugmynd um það. Við fengum að fara sjálf ofan í göngin sem voru fáránlega þröng þrátt fyrir að hafa verið stækkuð svo ferðamenn kæmust nú inn í þau, þetta er allavegana ekki fyrir fólk með innilokunarkennd það er alveg á hreinu.
 Eftir að hafa fræðst heilmikið um söguna og staðinn fengum við tækifæri til að skjóta úr nokkrum vel völdum byssum sem notaðar voru í stríðinu, eftir nokkra umhugsun völdum við að skjóta úr M16 hríðskotabyssu og fjárfestum í skotum. Það var mjög skrítin tilfinning að vera á þessu svæði og taka þátt í skothríðinni, svolítið óviðeigandi en hversu oft fær maður tækifæri til þess að skjóta úr hríðskotabyssu? Á leiðinni til baka stoppuðum við svo í galleríi þar sem fjöldinn allur af stríðsfórnalömbum, bæði fyrstu og annars kynslóðar, vann linnulaust við að gera allskonar fallega muni til að selja.
Eftir þessa merkilegu skoðunarferð vorum við enn með pláss fyrir frekari fróðleik og enduðum daginn á því að fara á stríðsmynjasafnið sem var hreint út sagt ótrúlegt, erum svo endalaust þakklát fyrir að vera ekki frá Bandaríkjunum ekki viss um að maður hefði getað skoðað allan þennan hryllig vitandi til þess að landið manns hafi staðið fyrir flestra þessara hörmunga. Þeir drápu svo ótrúlega mikið af saklausu fólki, konum og börnum og þetta „seka“ fólk sem þeir misþyrmtu og drápu voru bara með ólíkar stjórnmálaskoðanir en þeir, ótrúleg afskiptasemi í einni þjóð. Leiðsögumaðurinn okkar sagði líka fyrr um daginn að fyrir þeim snérist þetta stríð ekki um kommúnisma eða aðskilnaðar suður og norður Víetnam heldur lýðræði og frelsi því þeir höfðu verið undir Kínverjum og Frökkum í yfir 1000 ár og þeim fannst Bandaríkjamenn vera komnir til að taka yfir landinu sínu, loksins þegar þeir höfðu losnað undan Frökkunum. Jæja, nóg komið af fróðleiksstund Grétu en þetta safn var alveg ótrúlegt og náttúrulega enn ótrúlegra að þetta hafi verið staðreindin fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Fólk er ennþá að þjást eftir stríðið vegna efnavopna sem Bandaríkjamenn notuðu og enn eru börn að fæðast með engar hendur eða fætur og mikið heilaskemmd, þá voru birt á safninu mörg bréf frá þessu vanskapaða fólki þar sem það er að biðja Barak Obama um hjálp því þeir virðast ekki hafa neinn áhuga á að bæta fyrir þetta fáránlega stríð þeirra.
Stríðshrjáðir listamenn
Þessi börn eru oft á tíðum geymd öskrandi í búrum alla daga og þetta er að gerast núna 2012. Samt sem áður brosir þessi þjóð til hvíta mannsins (gera ekki mun á hvort um Evrópubúa eða Ameríkana er að ræða) og vilja allt fyrir hann gera, þeir erfa þetta ekki við þá heldur vilja bara gleyma þessu og halda áfram með lífið sitt.
Jæja, nóg komið af stríði nú fer að líða undir lok okkar ferð til Víetnam og við förum fljótlega yfir til Kambódíu. Í dag fór Gréta til tannsa en annars ætlum við bara að taka því rólega í dag og á morgun ætlum við að skoða borgina aðeins betur, síðan er förinni heitið í þriggja daga skoðunarferð um Mekong Delta sem endar á bátsferð til Phnom Phen í Kambódíu. Þangað til næst..

Alltaf gott í matinn

14 ummæli:

  1. Ja það er á hreinu að ég hefði ekki farið inn í þessi göng með mína innilokunarkennd. Mér líst samn mjög vel á Vietnam af myndum og lýsingum frá ykkur, gæti alveg hugsað mér að ferðast þangað. Þið eruð flott á strútnum;-)
    Um að gera að nota sér það að fara ódýrt til tannlæknis það er ekki svo ódýrt hérna heima. Það var gaman að tala svona lengi við ykkur um helgina og ég hlakka til að heyra í ykkur fljótlega-bestu kveðjur frá okkur öllum, mamma.

    SvaraEyða
  2. Hlakka alltaf til að sjá nýtt blogg frá ykkur. Þau eru svo skemmtileg.
    Ég er alveg sammála Kristínu með það að þarna niður færi ég ekki. Úff.
    Gangi ykkur vel elskurnar,
    Jóhanna EP

    SvaraEyða
  3. Alltaf jafn gaman að heyra frá ykkur og sjá ykkur svona sæt og glöð á myndunum og gott að allt gengur vel. Víetnam er greinilega áhugavert land þar sem býr gott fólk,þrátt fyrir allar þær hörmungar sem yfir það gekk fyrir ekki svo löngu. Maður man svo vel eftir stríðsfréttum þaðan og kannast við þessi borgarnöfn sem þið nefnið. Við erum komin heim eftir ágæta dvöl í Hafnarfirði í ótrúlegri snjókomu dag eftir dag, en svo kom rigningin og snjórinn allur farinn.
    Njótið lífsins, farið gætilega og passið vel hvort annað.
    Ástarkveðjur frá ömmu og afa á Blönduósi.

    SvaraEyða
  4. Vá hvað ég sakna þessa lands!! Skemmtið ykkur ótrúlega vel!!

    kv. Stefán

    SvaraEyða
  5. Mikið er gaman að ferðast með ykkur um heiminn. Það var sérstaklega gaman í dag þar sem þið eruð á kunnuglegum slóðum, en ég hef bæði verið í göngunum, Ho Chi Minh City og veit að framundan eru alveg frábærir dagar á Mekong sléttunni. Njótið lífsins áfram og leyfið okkur hinum að njóta með ykkur. Takk, Björk.

    SvaraEyða
  6. Það eru ekki allir sem fá að prófa að fara á fuglabak, fyndið að sjá myndir af ykkur á strút ;) Ótrúleg þessi göng og örugglega ekki fyrir alla að prófa að fara í þau! Skemmtilega fróðlegt blogg hjá ykkur :)

    SvaraEyða
  7. Elsku ferðalangar.
    Í raun og veru er þetta mjög sorgleg saga sem þið segið frá Vietnam - eitthvað sem maður hefur samt vitað lengi - ekki bað fólkið um afskipti Bandaríkjanna né annarra en situr uppi með afleiðingarnar.
    En ..... eru strútar með hnakk? Er ekki vont að tolla á baki ef þair taka á stökk? Og þið slepptuð "kite surfer" - bara búin að fá nóg af spennandi uppátækjum!
    En skemmtilega hótelið var snjallt!
    Hafið það gott - knús til ykkar.
    Kveðjur
    amma

    SvaraEyða
  8. Je minn eini, held að ég hefði frekar látið mig hafa það að fara í teygjustökk en á strútsbak !! haha .. snilld. Ég elska hvað þið eruð dugleg að gera alls konar skemmtilega og skrýtna hluti! Þið eruð fyrirmynd allra ferðalanga. Takk fyrir mig, Inga Heiða

    SvaraEyða
  9. Eg fór til tannsa um daginn og lét laga tvær tennur! Þið viljið ekki vita hvað ég borgaði :O
    En alltaf gaman að fylgjast með ykkur ;)

    - Bubba

    SvaraEyða
  10. Vá hvað þetta land hljómar vel...og gott þið gátuð farið til tannsa=) Haldið áfram að skemmta ykkur vel!

    SvaraEyða
  11. Sæi mömmu þína, Gréta, ekki fara inn í þessi göng - fräbær mynd af þér á strútsbakinu. Vona að bjórinn sé ódýr tveur dagar í sólbalði - kostar sitt að halda þorra góðum :) takk fyrri spjallið um daginn, svo gaman að heyra í ykkur. Kvedja jmk og co

    SvaraEyða
  12. Það er ótrúlegt hvað mannskepnan getur verið grimm (sb sögurnar úr Víetnamstríðinu). Það var rosalega gaman að sjá þig á Skypinu. Takk fyrir bloggið - er strax farin að hlakka til að heyra sögur frá Kambodíu.

    Kv
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  13. Alltaf jafn gaman að lesa bloggin ykkar ;o)
    Ahahaha....Jóhanna María rétt hjá þér ,aldrei í lífinu myndi ég fara ofaní svona göng ;o)
    En á strútinn myndi ég fara ;o)
    Bestu kveðjur og gangi ykkur vel til Kambodíu ;o)
    Kveðja
    mamma ;o)

    SvaraEyða
  14. Helga Gunnarsdóttir6. febrúar 2012 kl. 17:47

    Takk fyrir skemmtilegt og jafnramt frændandi blogg. Þetta ævintýrahótel hljómaði bæði frekar súrælískt sem og spennandi. Einnig gott að þið fenguð eitthvað að borða á Asísku áramótnum, upphafið hljómaði svona svipað og upphafið að Jólaguðspjallinu, mena að þið þurftuð ekki að sofa í fjárhúsi sem er ágætt ;)

    En já þessi saga Víetnmas er hreint og beint bara sorgleg og ég er sammála fleirum hér að ofan ég færi ekki ofan í þessi göng! En þið eruð náttúrulega hetjur að fara ofan í þau. Eins hljómaði ferð á strútsbaki svolítið spennandi þó ég hafi hugsað á svipuðum nótum og Gréta amma um hvernig var eiginlega að sitja á þessu? Gott að þið nýtið ykkur tannlæknana þarna úti, því þeir eru svo langt frá því að vera ókeypis hérna ;)

    Gangi ykkur vel!

    Knús og kram
    Helga Gunn

    SvaraEyða