laugardagur, 21. janúar 2012

Gleðilegt nýtt drekaár


Dvöldum bara eina nótt í Ninh Binh því við vorum orðin svo örvæntingafull að komast í betra veður því þar eins og annarsstaðar í norður Víetnam var þoka, rigning og kalt alla daga. Létum samt veðrið ekki stoppa okkur í að skoða þetta fallega svæði í kringum þennan annars óspennandi bæ. Þetta var svolítið eins landslag og í siglingunni okkar áður í Bai Tu Long bay, grænir kalksteinsklettar (e. Limestone) allt í kring. Leigðum okkur mótorhjól fyrir daginn klædd fallegu regnslánnum okkar tilbúin að mæta rigningu dagsins. Brunuðum um fallegar sveitir og lítil þorp, ætluðum okkur svo að skoða eitt hof þarna en hvort sem það var mótorhjólið eða kunnátta okkar á því komumst við ekki upp að því vegna mikillar drullu og leðju. En eins og með hof yfir höfuð skoðum við þau aðallega af skildurækni frekar en áhuga þannig að við grétum þetta ekki mikið. Fórum í staðinn í mjög fallega siglingu á æðislega fallegu stöðuvatni með risaháa kletta allt í kring, þarna voru flest fjöllin hol að innan svo við silgdum í gegnum þau mörg. Um kvöldið fórum við svo út að borða með mjög furðulegu samansafni af allskonar fólki, það var þögla kínverska pían, snarklikkaður heimsspekingur frá Spáni, miðaldraður furðufugl frá Hollandi, venjuleg stelpa frá Ástralíu og svo við.. vitum svo sem ekki hvað við erum á þessum lista. Þurftum svo frá að hverfa þegar háværar umræður um fasteignagjöld í heiminum byrjuðu því við áttuðum pantaða rútuferð til Hue þarna seinna um kvöldið.
Sváfum alveg ótrúlega vel í svefnrútunni og mættum hress tilbúin að takast á við næsta bæ sem hét eins og áður sagði Hue en þar var auðvitað rigning svo við skelltum okkur aftur í regnslánnar og skoðuðum það sem bærinn hafði upp á að bjóða. Við vissum í rauninni ekki neitt um þennan bæ áður en við komum en þetta er svona bær þar sem flest allir stoppa í þannig að við ætluðum ekkert að vera neitt öðruvísi og stoppuðum þar líka. Komumst svo að því þegar leið á daginn og eftir smá lestur í elsku Lonely Planet bókinni að þessi bær höfðaði ekki mikið til okkar, mikið af hofum og fornborgum löngudauðra keisara. En til þess að gera eitthvað yfir þennan grámyglulega rigningardag ákváðum við að skoða fornborg löngudauðra keisara. Löbbuðum þar um í dágóðan tíma, rústir eftir rústir og í lokinn vorum við sammála um að gullfiskarnir í tjörninni voru mest spennandi þarna inni og gáfum þeim því að borða og gerðum mikla veislu úr. Þrátt fyrir áhugaleysi og rigningu skemmtum við okkur nokkuð vel þennan daginn. Pöntuðum okkur samt rútu að næsta bæ strax næsta morgunn.
Hoi An var næst á dagskrá og er þekktur fyrir alla klæðskerana sína. Strax á fyrsta degi vorum við mætt til eins klæðskerans sem fólk hafði mælt með fyrir okkur. Við fengum gríðarþykka vörulistabæklinga og einfaldlega bentum á það sem okkur langaði í, völdum efnið og þar á eftir voru tekin mál af okkur og við áttum að koma svo í mátun daginn eftir. Gréta pantaði sér kjól, peysu, kápu og sérsmíðuð stígvél á meðan Þorri lét sníða á sig jakkaföt, skyrtur og frakka og það má segja að þetta hafi verið gjöf en ekki gjald nánast bókstaflega. En þetta var nú ekki nóg svo Þorri fór og pantaði sér gleraugu sem kostuðu tæplega 10% af því verði sem þau myndu kosta á Íslandi.
Þorri hjá augnlækninum
Daginn eftir var allt saman mátað og látið laga það sem þurfti að laga fengum svo allt afhent um kvöldið, allir gríðalega sáttir og þetta leit meira að segja út fyrir að vera vandað. Sennilega draumur hverrar stúlku að komast í þennan bæ þar sem þú getur komið með mynd af hverju því sem þig langar í og þeir gera það
nákvæmlega eins, svo borgar maður nánast ekkert fyrir það, en jæja svo kemur það í ljós seinna hvernig gæðin eru. Þetta var svo fyrsti dagurinn okkar í Víetnam sem sást til sólar og gerði það allavegana Grétu mjög hamingjusama, sérstaklega þar sem það var sundlaug við hótelið okkar. Við skelltum okkur því á sólbekkina og Gréta er búin að læra það að ef Þorri á að liggja þolinmóður við hliðiná henni og hlustað á brúnku vitleysuna í henni þá verður hún einfaldlega að láta bjórinn flæða til hans, það snarvirkar og allir eru sáttir. Fórum síðan á markaðinn í bænum og var margt skemmtilegt að skoða og kaupa þar, þetta var bara eitthvað svo krúttlegur bær í alla staði svo ekki sé minnst á kökurnar á kaffihúsunum. 
Það var einhver slappleiki í Grétu næsta dag þannig að við tókum því bara rólega upp á herbergi og gerðum lítið annað en að horfa á Discovery en það er ágæt leið til að hlaða aðeins batteríin því við vorum búin að vera alveg á fullu síðan við komum til Víetnam. 
Næsta kvöld var svo svefnrútuferð til Nha Trang þar sem við erum enn og hér lætur sko sólin sig ekki vanta, en það er bara svo gott að vera sólarmegin í lífinu.. Ok, við getum samt ekkert verið að kvarta þið með allan snjóinn ykkar heima á Íslandi, en við erum ekki þar svo við megum alveg vera með og kvarta svolítið líka. Löbbuðum mikið hér um bæinn fyrsta daginn en bærinn liggur við gríðarlega langa strandlengju. Í gær fórum við í rosalega flottan vatnsrennibrautargarð og tívolí sem er hér á eyju rétt fyrir utan bæinn, tókum heimsins lengsta „cable car“ eða snúru bíl (mjög lausleg þýðing, vitum ekki hvort það sé til íslenskt orð yfir þetta) en það flutti okkur yfir sjóinn frá meginlandinu yfir til eyjarinnar. Það má segja að við höfum fundið börnin í sjálfum okkur og renndum okkkur hverja ferðina á eftir annarri í sundlaugagarðinum og létum skamma okkur í gegnum gjallarhorn í sjónum, kútarnir máttu víst ekki fara út í sjóinn, dísus aldrei má maður neitt. Eftir að hafa æslast í sundinu tók tívolíið við og gríðarlega flott gosbrunnasýning ásamt því að við skelltum okkur í 4D bíó og óteljandi spilakassa og klessubíla. Þar sem ekki var mikið um gesti þennan daginn vorum við bara tvö í rússíbananum og gátum því farið eins margar ferðir í röð og við vildum og fengum klessubílabrautina útaf fyrir okkur.
Sáttur með afraksturinn
Vorum þarna því frá 10-21 og dauðþreytt eftir allt saman en eins og sönnum Íslending sæmir vöktum við eftir handboltaleiknum (byrjaði um miðnætti) einungis til þess að verða fyrir miklum vonbrigðum.
Rólegur eftir bjórinn
Í dag ætluðum við í skoðunarferð hér um eyjarnar en þar sem öryggisvörðurinn í lobbýinu í gær var svo blindfullur gátum við ekki pantað þessa ferð hjá honum því við skildum ekki orð af því sem hann sagði hann var svo þvoglumæltur. Við létum okkur því bara nægja í dag að liggja á ströndinni hérna fyrir framan hótelið okkar.
Á morgun er svo gamlársdagur og er mikill spenningur í heimamönnum, mikið drukkið og mikið sungið karaókí. Nýárið þeirra telur þrjá daga frá 23.-25. janúar en þá er víst allt lokað og getur jafnvel verið erfitt að finna matsölustaði yfir þennan tíma. Þessi hátíð er svipað mikilvæg fyrir þau og jólin fyrir okkur. Á þessum tíma koma allar fjölskyldur saman og borða mikið af mat þetta er einnig einu frídagar ársins fyrir lang flesta en samkvæmt því sem heimamenn hafa sagt okkur vinna flestir alla daga ársins nema þessa þrjá. Held að við getum prísað okkur sæla með okkar tvo frídaga í viku. En launin þeirra eru bara svo lág að þau geta ekki
misst úr vinnu og yfirleitt sér maður sama fólkið í vinnunni frá því eldsnemma um morguninn til seint á kvöldin, hittum til dæmis eina sem hafði farið í frí til Malasíu og á sjö dögum þar eyddi hún árslaunum sínum.
Gréta í mátun
Víetnamar eru mjög hjátrúarfullir og lentum við svolítið í því um daginn þegar við ætluðum að taka út pening í hraðbanka en málið var að þeir voru allir tómir. Þegar við spurðum fólk afhverju það væri sögðu þau að Víetnamar tryðu því að ef þeir byrja nýja árið með mikið af peningum munu þeir græða meira það árið, þannig að þeir fara allir í hraðbankana og taka út eins og þeir geta af seðlum til þess að byrja nú nýja árið rétt. Gjaldmiðillinn hér er líka nokkuð skemmtilegur og maður er milljónamæringur á hverjum degi hér því yfirleitt erum við að taka út tvær milljónir í hvert sinn en það
jafngildir 12 þúsund krónum.
Við erum líka búin að vera dugleg að smakka nýja hluti hér í Nha Trang og nú getum við strokað út af listanum krókódíl, strút og smokkfisk.
Þorri ásamt hinum börnunum í tívolíinu

Hótelherbergi á hjólum
Þorri að narta í krókódíl

19 ummæli:

  1. Það er mjög fallegt þarna í Víetnam greinilega og ekki spillir fyrir hvað ódýrt er að kaupa sér föt;-) Mér líst líka vel á það sem þið eruð að borða. Gott að sjá að þið njótið lífsins þannig á það að vera. Bestu kveðjur,erum að fara á þorrablót við pabbi og Fróði, mamma.

    SvaraEyða
  2. Ekki amalegt að komast til svona klæðskera og augnlæknis :) Hvernig bragðaðis svo krókódóll? Gaman að lesa frá ykkur bloggið og haldið áfram að hafa það gott :) Þorri flottur í hringjeggjunni með littlu krökkunum..

    SvaraEyða
  3. Sæl og blessuð,gott að sjá blogg og myndirnar alltaf jafn skemmtilegar. Þorri þú ert flottur í nýju fötunum. Erum í góðu yfirlæti hér í Hafnarfirði. Hér verður þorrablót í kvöld og ætlar Valur að vera með okkur. Bestu kveðjur frá öllum hér og haldið áfram að hafa það gott. Amma og afi Blönduósi.

    SvaraEyða
  4. vá, það er svo gaman að lesa frásögn ykkar frá stöðunum sem ég er nýbúin að heimsækja :) Frábærar myndir. Hlakka til að lesa meira :)kv. Inga Heiða

    SvaraEyða
  5. Hefði ekkert á móti því að komast til klæðskera og fá sérsaumuð ódýr föt ;) Gott að þið fenguð loksins að sjá sólina þarna og skemmtuð ykkur vel í skemmtigörðunum :)

    SvaraEyða
  6. Ég er mjög forvitin að vita hvernig krókódíll smakkast :p Og heppin þið að komast til klæðskera!! :)
    Hlakka til að heyra frá ykkur næst :)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Krókódíll er alveg nokkuð góður :) Hann er svona svolítið eins og blanda af kjúkling og svínakjöti, svolítið seigt! Knús á þig ;*

      Eyða
  7. Alltaf jafn gaman að fá fréttir af ykkur, Nú er Þorrinn kominn til okkar með snjó og kulda , en ÞORRI er rosalega flottur í nýju fötunum. Það hefði verið gaman að sjá tískumyndir af þér líka Gréta mín, annars eru allar myndirnar mjög fallegar, Haldið áfram að vera hress og gangi ykkur vel áfram . Kær kveðja , amma og afi Rvík.

    SvaraEyða
  8. Kallinn flottur í jakkafötunum.

    SvaraEyða
  9. Hvað ætti þið séuð búin að skoða mörg hof í allri ferðinni? Þau eru orðin nokkur. Ætlið þið að stinga öllum fínu fötunum í bakpokann eða sendið þau heim?
    Hlakka til að heyra næsta ferðablogg. Finnst stundum líða aðeins of langt á milli.

    kv
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  10. Elsku ferðalangar.
    Hrikalegt að vaka fram á nótt til að sjá "strákana okkar" tapa - vonandi sáuð þið leikinn í dag!
    Hann bætti það upp. Þið haldið bara aftur upp á áramótin með Vietnömum og gerið ekki neitt í 3 daga nema hafa það gott.
    Gangi ykkur vel!
    Amma

    SvaraEyða

  11. Frábært að heyra hvað allt gengur vel :o)
    Ég væri sko líka til í að fá föt fyrir lítið ;o)
    Góða skemmtun áfram ;o)
    Bestu kveðjur
    Mamma og co. ;o)

    SvaraEyða
  12. ekkert smá flott jakkaföt:)

    SvaraEyða
  13. Sæl elskurnar.
    Ég er nú líka farin að undrast yfir því hvað þið nennið að skoða mörg hof ef þau eru ekki skemmtileg. Trúlega er þetta eitt af því sem maður verður að gera. Best er þó að heyra að ykkur gengur allt í haginn og ég er fegin því að Þorri þurfti ekki að draga þessi hjól aftur til byggða. Njótið ykkar elskurnar, Jóhanna o.com Akri

    SvaraEyða
  14. Alltaf jafn gaman að lesa og sérstaklega að sjá mynd af yndislegu saumakonunum í Hoi An. Mér fannst þetta algjörlega best :)
    keep on rocking!
    -Eva

    SvaraEyða
  15. alltaf svo gaman að lesa bloggið ykkar. koss og knús frá Noregi
    kv Hulda frænka Þorra

    SvaraEyða
  16. Hæ snúllurnar mínar!! Já rigningin getur verið leiðinlegt í Asíu eins og alls staðar!!!! Það er eins gott að það sé ekki mikil sól því þá myndir Gréta verða að ösku og Þorri þyrfti innlögn vegna óhóflegrar bjórdrykkju!!!:) Það hlýtur að birta til í Saigon en ég veit að það verður nóg að gera þar svo enginn tími fyrir slökun..... eða þannig sko. Flott þetta með fötin.... Þorri bara flottastur!!!! Ég man þetta með hofin.... þau verða öll eins eftir að hafa skoðað svona 5 stk. Þetta er eins og að skoða allar kirkjur á Íslandi á hverju krummaskuði....! Saigon verður bara meira spennandi- stríðmynjasafnið.....ofl. Gangi ykkur áfram vel og borðið víetnömsku vorrúllurnar á hverjum degin fyrir mig!!! nammmm. Knús til ykkar , kv. Dagný, Ásta og Alice (heima í flensu:()

    SvaraEyða
  17. Helga Gunnarsdóttir27. janúar 2012 kl. 17:22

    Sæl elskurnar!

    Alltaf jafn gaman að lesa bloggin ykkar :) Víetnam hljómar eins og frábært land, þegar það hættir að rigna ;) En Hoi An hljómar eins og frábær staður!!! Æðisleg fötin hans Þorra, hlakka mikið til að sjá fötin hennar Grétu. Ég vona að þið hafið átt góð kínversk (asísk) áramót. Hlakka til að lesa næsta blogg :)

    Kær kveðja úr snjónum hér heima
    Helga Gunn

    SvaraEyða
  18. Vá hvað þorri er fínn. Fáum við ekki að sjá myndir af grétur líka, í nýju fötunum. Gott þið funduð leið til að liggja bæði í sólbaði :) heyrumst vonandi a morgun kiss kiss - joka spoka

    SvaraEyða