fimmtudagur, 5. janúar 2012

Brunað um Laos

Miðvikudaginn var tókum við á móti Guðrúnu og Tomma í Bangkok sem voru mætt í asíuna fögru eftir jól á Ítalíu. Fórum við beint í að rölta um götur Bangkok, skoða gamla markaði, borða góðan götumat og fleira.
Godur gotumaturinn i Bangkok
Við fjögur skelltum okkur, ásamt Hiro, Japana sem við kynntumst í Nepal, á ekta thailenskan kvöldverð þar sem maður velur sér hrátt kjöt og grænmeti og steikir svo sjálfur á grilli sem er á miðju borðinu. Þarna var svo thailensk hljómsveit að spila. Þetta var voða kósý og vorum við einu útlendingarnir sjáanlegir þarna í ágætum radíus. Áttum svo skemmtilegt og áhugavert kvöld þar sem Þorri fékk loksins að sjá hvað Khao San gatan hefur upp á að bjóða að kvöldi til. Vorum við í félagsskap fleiri ferðamanna og Thailenskra klæðskiptinga eða „Lady boy“ eins og þeir kalla sig sjálfir, þar sem dansað var fyrir utan bankann langt fram eftir nóttu með viskýfötu við hönd. Daginn eftir var slakað á og skellt sér í nudd sem klikkar aldrei en eitthvað er nú Þorri hræddur við þessar Thailensku og situr frekar yfir fótboltanum með bjór heldur en að láta teygja svona á sér, stirði maðurinn sem hefði nú aldeilis gott af þessu. Um kvöldið áttum við svo rútu til Nong Khai sem er fallegur bær alveg við landamæri Laos.
Þessi bær er rétt hjá Udon Thani, bænum sem Gréta bjó í 2006-2007, við stoppuðum því miður ekkert í Udon Thani en Grétu fannst mjög gaman að sjá aftur fornar slóðir og að fara eftir veginum sem hún fór í skólann á hverjum morgni. Stoppuðum heldur ekkert í Nong Khai heldur drifum okkur yfir Mekong ánna þar sem Laos beið okkar með eftirvæntingu. Allt gekk voðalega vel fyrir sig á landamærunum og fyrr en varði vorum við sest upp í eina af „local“ rútunum á leiðinni til Vang Vieng. Það hljómar ekkert athugavert við „Local“ rútu en maður fer ekki í þær ef maður ætlar að flýta sér en þær geta verið mjög skemmtilegar og áhugaverðar ef maður hefur allan tíma heimsins, eins og við. Svona rútur stoppa fyrir hverjum sem veifar á götu úti og þau passa sig að engin sæti séu ónotuð. Við fjögur sátum í kremju á aftasta bekk með mesta lagi 15 sentimetra fótapláss fyrir framan okkur og þessi ferð (um 150 km) sem tekur venjulega 3 klukktíma tók 7 í þetta skiptið. Ástæðurnar fyrir því voru ekki bara mörg stopp fyrir veifandi fólki á leiðinni heldur virtust allir þurfa að pissa á 5 mínútna fresti, vegirnir voru í virkilega slæmu ásigkomulagi og auðvitað sprakk á einu dekkjanna og þurfti að skipta á miðri leið. Náðum til Vang Vieng fyrir myrkur og fundum þetta fínasta gistiheimili. Vang Vieng er mikill ferðamanna- og partýbær, umhverfið var eins og klippt út úr póstkorti það er svo fallegt. Tókum því rólega um kvöldið, kíktum á bar og gripum í spil.
Hellirinn i Vang Vieng
Á gamlársdag leigðum við okkur mótorhjól til þess að skoða okkur betur um, keyrðum um moldótta sveitavegina í gegnum ótal falleg lítil þorp innan um hrísgrjónaakra þar sem fólk var á fullu í sínu daglega amstri. Eftir að hafa villst nokkrum sinnum og smá fjallgöngu komumst við að aðal hellinum sem var gríðalega stór og fallegur. Auðvitað tók vasaljósið okkar upp á því að bila þannig að við sáum ekki nema brot af hellinum. Eftir svitabað í hellinum fórum við í Bláa lónið sem rann þar fyrir neðan, nafn sem þeir stálu klárlega frá okkur Íslendingum. Þetta var hluti af á sem rennur þarna í gegn með fjölda lítilla fiska sem svamla með fólkinu og stóru tréi sem hægt er að stökkva úr niður í vatnið. Eftir að hafa baðað okkur settumst við í lítið tréskýli við ánna og snæddum ferska ávexti á meðan við þornuðum. Á leiðinni heim fundum við mjög góðan lífrænan veitingastað í litlu smáþorpi, þar héngum við í hengirúmum á meðan við biðum eftir matnum með frábært útsýni yfir ánna og fjöllin í kring. Eftir að hafa skolað af sér allt rykið og drulluna eftir daginn héldum við út á lífið ásamt hinum útlendingunum í bænum. Áramótamaturinn þetta árið var nokkuð frábrugðin því sem við eigum að venjast, kjúklingaréttur, papaya salat og vorrúllur en engu að síður gríðarlega gott. Við vorum staðsett úti á miðri götu þegar klukkan sló 12 og fögnuðum nýja árinu með nokkrum kellingum sem stóðu á horninu og elduðu pönnukökur, við hlupum inn á næsta bar þar sem við fengum frí viský skot í tilefni dagsins. Skemmtum okkur síðan fram eftir nóttu ásamt hinum heimilislausu útlendingunum við varðeld og sáum heilar þrjár ragettur.  Hér var hvorki Geirmundur né Bjartmar að spila en náðum við engu að síður að skemmta okkur konunglega.

Gudrun, Greta og kommarnir

Við byrjuðum árið 2012 með því að leigja okkur dekkjaslöngu (svona eins og maður renndi sér á niður Skúlahornið hér í denn) og flutum niður aðal partý ánna. Þetta er sport sem mikið er stundað í þessum bæ og gengur út á það að fljóta niður ánna og stoppa á sem flestum börum sem eru staðsettir meðfram ánni og fá sér drykk. Barirnir eru útbúnir stórum leiktækjum eins og risa rennibrautum, stökkpöllum, rólum og vegasöltum. Fjörið byrjar á efsta barnum og er partýhluti áinnar um 4 km. Eftir nokkra kílómetra í ánni gáfust við hins vegar upp fyrir kuldanum þar sem sólin var horfin á bak við fjöllin og fundum við mann sem var tilbúinn að skutla okkur á bátnum sínum að næsta tuk tuk. Um kvöldið tókum við því síðan bara rólega enda þreytt eftir fjör dagsins.
Á mánudaginn leigðum við okkur aftur vespur og rúntuðum um. Byrjuðum á því að keyra að litlu fjalli sem átti að vera auðvelt að klifra upp, fjallgangan var örlítið strembnari en við bjuggumst við en gekk þó ágætlega. Þaðan lá leiðin að helli með lóni fyrir framan til að synda í. Að sjálfsögðu gekk dagurinn ekki slysalaust fyrir sig og bilaði vespan okkar á leiðinni að hellinum. Guðrún og Tommi brunuðu aftur á vespuleiguna til að ná í viðgerðarmann en Þorri þurfti að gjöra svo vel og teyma vespuna alla leiðina til baka að fjallinu. Eftir að hafa fengið nýja vespu brunuðum við meðfram partýánni og fundum okkur mjög notalegan stað og snæddum Laos mat við ánna umkringd heimamönnum sem vakti mikla lukku meðal þeirra. Staðurinn sem við vorum á var svona local staður þar sem heimamenn koma með fjölskyldurnar, borða góðan mat og drekka viský á meðan börnin svamla um í ánni. Aðal skemmtiefnið eru drukknu útlendingarnir sem fljóta framhjá á dekkjunum sínum í misgóðu ástandi. Við keyrðum síðan ennþá lengra upp ánna og langt frá öllu partýstandi fundum við fallegan stað við árbakkann þar sem fólk frá nærliggjandi þorpum kom saman til að baða sig.
Á þriðjudeginum beið okkar síðan rútuferð til Luang Prabang og eins og svo oft áður gekk hún ekki vandræðalaust. Rútan sem tók okkur á rútustöðina stoppaði á einhverri ferðaskrifstofu og skildi þar eftir miðana frá öllum farþegunum, þ.a.l. höfðum við enga miða í höndunum og því engin sæti merkt okkur. Okkur var vísað inn í rútu sem leit ágætlaga út en þegar inn kom sáum við að engin sæti voru laus fyrir okkur, því næst var okkur bent á aðra rútu sem var tóm. Eftir að hafa sett töskurnar niður í farangursgeymsluna og fundið okkur sæti var okkur tilkynnt að þetta væri ekki rútan til Luang Prabang heldur væri það önnur rúta. Auðvitað var enginn starfsmaður lengur til staðar og þurfti Þorri ásamt öðrum ferðamanni að troða sér inn í farangursgeymsluna og koma töskunum út til allra hinna. Allt er þegar þrennt er og reyndist næsta rúta sú rétta. Þar sem þetta var tveggja hæða rúta vorum við með besta mögulega útsýnið því við sátum fremst í rútunni og vorum alveg við gluggan og höfðum nánast 180° útsýni yfir fjöllin í kring. Vegurinn var þessi týpíska ein og hálf breidd og flautan ræður ríkjum. Þetta voru allt hlykkjóttir fjallvegir og þverhnýpi fyrir neðan, sáum t.d. eitt stykki vörubíl í klessu langt fyrir neðan vegin í einni af u-beygjunum. Bílstjóranum tókst líka að losa heiminn við eins og eitt stykki hænuunga og kettling, skemmtilegast var þó að fylgjast með mannfólkinu sem bjó í um hálfan metra frá veginum allt í kring. Þar hlupu börnin um berrössuð á meðan gömlu konurnar sátu naktar hliðina á veginum og böðuðu sig, þarna var líka eitt stykki partý og hoppuðu þar kampakátir karlar og vinkuðu bílunum sem keyrðu framhjá. Við komum í bæinn um kvöldið og römbuðum beint inn á aðalsmerki bæjarinns sem er risa kvöldmarkaður þar sem er til sölu mikið af fallegum munum, við ákváðum þó að bíða með spreðið því við vorum nokkuð þreytt eftir rútuferðina.
Thorri fekk ad labba heim med bilada vespuna
Á miðvikudaginn gegnum við um bæinn og skoðuðum stærsta og merkasta hofið hér í bæ, okkur finnst þessi hof öll nokkuð svipuð og létum okkur nægja að njóta sólarinnar á neðsta pallinum á meðan Guðrún og Tommi borguðu sig inn og gengu upp á topp. Þar sem við stoppuðum sáum við hin ýmsu Búddalíkneski ásamt stórri holu sem þeir vilja meina að sé fótspor sjálfs Búdda. Við skoðuðum svo seinna lítið og skemmtilegt safn um Laos og menningu þeirra. Ferðinni var síðan heitið út á litla eyju þar sem við gengum í gegn um lítið þorp og skoðuðum búðirnar þeirra. Leiðin til baka á gistiheimilið lá síðan meðfram Mekong ánni og var mjög falleg. Um kvöldið spiluðum við UNO á belgískri krá og höfðum það gott.
Tubing fjör
Í dag leyfðum við okkur þann munað að sofa út og þar af leiðandi gerðum við ekki mikið, sátum aðeins við Mekong ánna og reyndum að fara í sund en auðvitað var sundlaugin á fína hótelinu aðeins ætluð gestum, urðum fyrir smá vonbrigðum en hugguðum við okkur með því að fá okkur góðgæti í skandinavísku bakaríi sem leynist hér í bæ. Gréta var ekki enn búin að jafna sig eftir gotteríið og fór í dekur til að toppa daginn.
Planið er að skoða gríðarfallega fossa á morgunn og skella okkur í sund undir þeim í staðin.

Thorri ad slaka a eftir matinn :)

Vang Vieng

15 ummæli:

  1. Alltaf gaman að lesa frá ykkur bloggin.. Ég væri nú alveg til í að svamla niður þessa á með ykkur :) Gott að þið hafið það gott ;) Vona að Þorri fari nú að átta sig á því að það er alveg örugglega ekki slæmt að fra í dekur hjá þessum tælensku :) Gestur ætti að geta frætt hann um það :) Hlakka til að heyra meira frá ykkur.. Vonandi komist þið á skype fljótlega;)

    SvaraEyða
  2. Gleðilegt nýtt ár! Gott að þið áttuð skemmtileg áramót. Þessi partýá hljómar mjög skemmtilega :) Og grey Þorri.. þarf alltaf að vera að teyma einhver farartæki ;)

    SvaraEyða
  3. Gaman að lesa ferðasöguna og alltaf fylgja skemmtilegar myndir með.Það hlýtur að vera gaman að hitta vini sína þarna í "buskanum" og vonandi skemmtið þið ykkur vel saman. Hvað er þetta með þig Þorri minn og hjólin? og svo held ég þú ættir að prófa smá dekur eins og Gréta. Kærar kveðjur til ykkar allra frá ömmu og afa á Blönduósi.

    SvaraEyða
  4. Þið hafið það greinilega gott og það er líka gott;-) Við pabbi vorum að koma frá Akureyri en Fróði er kominn á vistina og við orðin 2 í kotinu með Míu sem heldur uppi fjörinu hérna heima.
    Gaman að sjá myndirnar af ykkur með Guðrúnu Höllu og Tomma. Bestu kveðjur úr kuldanum mamma og pabbi.

    SvaraEyða
  5. hæ hæ þið hafið átt góð áramót já og gleðilegt nýtt ár gamann að lesa og skoða myndirnar hjá ykkur hafið það sem allra best
    kveðja Guðný frænka

    SvaraEyða
  6. Djö, Bjarni og Tinna stálu kommentinu mínu! Læt það samt koma núna; Ég held að hann Þorri eigi það svo sannarlega skilið að fara í nudd og dekur eftir að vera alltaf að teyma farartæki ;-) Hehe ... anyway, ég sé pínu eftir því að hafa ekki farið til Vang Vieng, vissi ekki að það væri svona fallegt þar. Sakna hins vegar ekki rútuferðanna í Laos, jesús! Luang Prabang er svo kósý og sætur bær og við skulum nú ekki einu sinni ræða skandinavíska bakaríið. Góða skemmtun í fossunum, þeir eru víst súper fallegir um þessar mundir. Voru mórauðir þegar ég var þar í október. Takk fyrir skemmtilegt blogg. Kv. Inga Heiða

    SvaraEyða
  7. Gleðilegt árið :)
    Alltaf gaman að lesa nýtt blogg og sjá myndir. Ég sé að Hjól hvort sem er fótstigið eða vélknúið er ekki allveg fararmátinn fyrir þorra. Mér líst vel á ykkur að hafa skellt ykkur í ána, Svo verð ég nú að vera sammála Bjarna, Þorri ætti nú að skella sér í smá dekur.

    SvaraEyða
  8. Gleðilegt ár. Ég fékk frábæra hugmynd þegar ég las bloggið ykkar. Þegar þið komið heim þá komið þið upp svona dekkjabátasiglingu á t.d. Blöndu. Fólk verður í blautbúningum og þið getið verið með drykkjastöðvar niður allan Langadal.

    En án alls gríns góða skemmtun í Laos.

    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  9. Elsku ferðalangar.
    Gleðilegt nýár bæði tvö - gaman að heyra frá ykkur. Þið virðist vera stödd í draumalandinu - bæði fallegt og skemmtilegt - samt skrítið að það skuli vera Laos - sem maður tengdi bara ömurlegum fréttum hér áður fyrr.
    Ætti maður að fara að athuga hvort áarsprænan hérna gæti orðið svona partýá með dekkjum og börum?
    Stattu þig Þorri minn - ekkert að láta þær tailensku fara að klípa þig - ég stend með þér.
    Bestu kveðjur
    amma

    SvaraEyða
  10. Þetta er frábær hugmynd hjá Sigurbjörgu...rafting hvað;-) Kv.mamma

    SvaraEyða
  11. Alltaf jafn gaman að heyra frá ykkur, þið verðið aldeilis sjóuð þegar þið komið heim ,eftir allar siglingar og böð í þessum ám, maður tengir bara Mekong við hermenn og stríð, en þetta hlýtur að vera rosalega gaman og vonandi njótið þið ykkar vel áfram. Við óskum ykkur gleðilegs nýs árs og mikillar velgengni í ævintýraferðinni ykkar. Kær kveðja Amma og afi Rvík.

    SvaraEyða
  12. Helga Gunnarsdóttir6. janúar 2012 kl. 11:30

    Gleðilegt ár elskurnar!!!

    Það er alltaf jafn gaman að lesa ferðasöguna ykkar. Greinilega gaman hjá ykkur um áramótin eins og það á að vera, enda ekki slæmt að fá vini sína í "heimsókn". Ég verð að vera sammála nokkrum hér á undan með að Þorra er augljóslega ekki ætlað að hjóla... Eins tek ég undir með mörgum að þú ættir að prófa svona dekur Þorri. Svo hljómar þessi partýá mjög skemmtileg og skrautleg, maður verður greinilega að fara til Laos einn daginn ;)

    Hafið það gott og skemmtið ykkur vel í fossunum og öllum hinum ævintýrunum sem bíða ykkar.
    Knús og kram
    Helga Gunn

    SvaraEyða
  13. nice to meet you guys again in bangkok. it was crazy and great night. thank you for inviting us.

    i hope we can meet somewhere in the world again.


    now we r in phnom phen (cambodia) HIRO

    SvaraEyða
  14. Takk fyrir bloggið alltaf gaman að lesa það. Hvernig er það Þorri, fékkst þú ekki að smakka bjór fyrr en Guðrún kom til ykkar? Kveðja pabbi.

    SvaraEyða
  15. Gleðilegt ár! Alltaf jafn gaman að lesa bloggin ykkar...og ekki verra að geta aðeins fylgst með dóttur minni í gegnum ykkur.
    Njótiði áfram lífsins, hér er kalt og mikill snjór.
    kveðja, Jóna Fanney

    SvaraEyða