mánudagur, 6. febrúar 2012

Frá Mekong sléttunum til Kambódíu


Við höfum sko ekki setið auðum höndum síðan síðasta blogg var sett inn og mikið búið að skoða og gera. Kvöddum loks Ho Chi Minh city eftir að hafa ílengst þar í fimm nætur, við sem ætluðum ekki einu sinni að fara þangað til að byrja með en svo kom á daginn að okkur líkaði hún svona vel. Ferðinni var heitið í þriggja daga skoðunarferð um Mekongslétturnar eða Mekong Delta eins og þetta er nú kallað. Fyrsta daginn fengum við að fylgjast með hvernig þeir búa til hinar ómótstæðilegu kókoskaramellur þeirra, þetta er engin verksmiðja sem þeir notast við því þetta var voðalega frumstætt miðað við magnið sem þeir framleiða. Fyrir utan það að þá er örugglega ekkert sem heitir heilbrigðiseftirlit í þessum bransa en hverjum er ekki sama um það svo sem þetta er svo æðislega gott. Eftir mikið smakk fengum við að knúsast með svona eins og einu stykki af Python kyrkislöngu, alveg ótrúlega stórt og þungt kvikindi sem var svo uppdópað að það var alveg til í að leika við okkur aðeins. Þá var komið að því að skoða geitungabýli þar sem okkur var sýnt hvernig þeir framleiða hunang en þegar hunangsbóndinn tók upp eitt hunangsspjaldið þakið geitungum tóku flestir skref aftur á bak en Gréta var svo spennt að fá að halda á því að hún stökk fram og þar sem hún var ekki stungin prófaði geitungahræddi Þorri líka að halda á spjaldinu og svo fleiri úr hópnum í framhaldi af því. Fengum svo æðislegt hunangste og ávexti á meðan heimamenn spiluðu á hljóðfæri og sungu. Fórum í fallega siglingu eftir lítilli á þar sem við komum að krókódílabúgarði, ótrúlegt hvað maður nennir að fylgjast með þessum húðlötu dýrum sem gera lítið annað en að liggja þarna með opinn kjaftinn, eins og þeir bíði eftir að maturinn komi fljúgandi til þeirra. Á meðan við vorum að fylgjast með þessum herlegheitum fengum við aftur svona Indlands-móment þar sem heimamenn voru rosalega spenntir fyrir að láta taka mynd af sér með okkur til dæmis stillti einn eiginmaðurinn Þorra upp eins og hann vildi hafa hann og lagði hönd Þorra yfir axlir konu sinnar svo var smellt af þar til allir fengu mynd af sér með hvíta fólkinu. Þá var kominn tími til að koma sér aftur upp í rútu og keyra á svefnstaðinn okkar í borg sem heitir Can Tho þar röltum við inn á local veitingastað þar sem boðið var upp á allskyns kræsingar sem bjuggu lifandi í búrum í veitingasalnum bíðand eftir að einhver pantaði sig á matseðlinum. Þarna var hægt að velja um froska, ál, eiturslöngur og síðast en ekki síst rottur. Það má taka fram að við fengum okkur nautakjöt því á þessum tímapunkti vorum við svo svöng að við gátum ekki hugsað okkur að taka áhættur í þetta skiptið, hins vegar var maðurinn á næsta borði að gæða sér á dýrindis rottukjeti og þegar við hofðum upp á það vorum við afskaplega ánægð með að vera bara að borða nautakjöt og hrísgrjón.

Vöknuðum fyrir klukkan sex daginn eftir þar sem við vorum drifin í siglingu, á Mekong ánni að sjálfsögðu, til að sjá morgunmarkaðinn þeirra sem fer fram á ánni sjálfri. Þarna er fólk að selja allskyns varning á bátunum sínum þó aðallega ávexti en þetta er gömul hefð þar sem aðeins nýlega voru byggðar brýr á svæðinu en áður fyrr fór fólk allra sinna leiða á bátum. Eftir markaðinn fórum við í litla útiverksmiðju þar sem okkur var sýnt hvernig þeir framleiða hrísgrjóanúðlur sem var mjög áhugavert en eins og með kókosnammið var þetta líka allt gert í höndunum og frekar seinvirkt. Enn og aftur var þetta staður sem heilbrigðiseftirlitið gleymdi alveg að stoppa á, nema víetnamska heilbrigðiseftirlitið samþykki kakkalakka, rottur og mikið öskufok yfir allt hráefnið. Það var ekkert annað planað þennan daginn nema rútuferð til landamærabæjarinns Chau Doc. Þar á leiðinni kynntumst við mjög skemmtilegu fólki, þremur Áströlum og einum Frakka. Þar sem ferðaskrifstofan okkar sveik okkur öll um dagskránna það sem eftir var dags ákváðum við að taka málin í okkar hendur og fórum við með hver sínum mótorhjólabílstrjóranum upp á fjall þar sem við horfðum á sólina setjast við Mekong ánna liggjandi í hengirúmum. Þarna uppi var svo hægt að skjóta úr loftbyssum og sýndi Gréta þar svakalega takta og vann sér inn appelsínugos með skotfimninni. Skáluðum svo í síðasta Saigon bjórinn okkar allra (ja, í bili allavegana) þegar niður var komið.
Morguninn eftir kvöddum við litla hópinn okkar í bili því við fórum með sitthvorum bátnum yfir til Phnom Penh, höfuðborgar Kambódíu. Þetta var hin ágætasta bátsferð eftir rólegri ánni og lögðum svo að höfn í steikjandi hita sex tímum seinna. Um kvöldið hittum við svo félaga okkar aftur og fórum út að borða með þeim og þar var setið fram eftir nóttu með Angkor í hönd og chilli mangó. Þarna voru líka blindfullir en mjög hressir lögreglumenn, á vakt auðvitað, sem spjölluðu mikið við okkur og hlógu að öllu sem við sögðum hvort sem þeir skildu það eða ekki. Lögreglustjórinn var svo grand á því að hann bauð okkur könnu af bjór, hann sagði að barþjónninn hafði ekki um annað að velja en að gefa okkur hana fría svo hló hann og labbaði í burtu.
Morguninn eftir hittumst við öll aftur og fórum með tuk tuk að stað sem heitir Killing Fields og er það nafn með rentu.
Árið 1975 ákvað hershöfðinginn Pol Pot og stjórnin hans, Rauðu Khmerarnir, að gera landið að landbúnaðarsamfélagi, þar af leiðandi smalaði hann hverri einustu manneskju út úr borgum landsins og neyddi alla til að vinna í ákveðnum vinnubúðum upp í sveit þar sem það vann 12-15 tíma hvernn dag og fengu tvær skálar af hrísgrjónum á dag. Síðan var allt menntað fólk, fólk með gleraugu, fólk sem talaði annað tungumál, fólk sem ekki var með sygg á höndunum, kennarar og svo framvegis, útrýmt. Þetta var gert á mörgum stöðum um landið. Það var flutt með trukkum í þessar útrýmingabúðir (búðir eins og Killing Fields) og fólk tekið af lífi eitt af öðru.Eftir fjögur ár af þessari útrýmingu komu nágrannar þeirra frá Víetnam þeim til bjargar og stoppuðu þetta en þá höfðu þeir drepið einn fjórða af sínu eigin fólki eða þrjár milljónir manns.Mottóið þeirra var: ,,Það er betra að gera mistök og drepa saklausan mann heldur en að gera mistök og sleppa ,,sekum“ manni.“ Það kaldhæðnislega við þetta allt saman var að Pol Pot og hinir aðal karlarnir í þessu voru mjög menntað fólk sem höfðu farið til Frakklands í skóla.
Það var mjög óraunverulegt að vera á þessu svæði og hlusta á frásagnir þeirra sem höfðu lent í þessu en þetta var líka mjög raunverulegt þar sem þarna voru geymdar um 8.000 hauskúpur sem fundust á svæðinu í mörgum fjöldagröfum. Tennur og bein lágu á víð og dreif og allsstaðar á göngustígunum mátti sjá föt sem voru hálf komin upp úr jörðinni. Í hverjum mánuði þarf starfsfólkið að týna þetta lauslega saman upp og setja í sérstakar beina- og fatageymslur. Þetta er líka staður þar sem heimamenn koma og syrgja og biðja fyrir fólkinu sínu því það má segja að hver einasta manneskja í landinu varð fyrir áhrifum þessi fjögur ár sem þetta stóð yfir.
Eftir að hafa skoðað þetta hörmungasvæði fórum við á hið næsta sem var S-21 fangelsið sem var áður skóli. Þetta var ákveðin stoppustöð áður en fólkið var fært þaðan með vörubílum og tekið af lífi. Þarna var fólk yfirheyrt og pyntað (oft til dauða) þar til það játaði eitthvað sem þeir höfðu ekki gert, þar að leiðandi réttlættu þeir þessi dráp þeirra. Þarna var til sýnis öll þau pyntingatæki sem voru notuð og skólastofur sem búið var að breyta í litla klefa (0,8x2 metrar). Um 20.000 manns voru í þessu pyntingafangelsi og þar eru ekki talin með öll börnin, meðaltíminn í fangelsinu var 4-7 mánuðir áður en þau voru færð í útrýmingabúðirnar og tekin af lífi. Þetta er alveg ótrúleg saga og það tekur nokkuð á að vera á þessum svæðum sérstaklega þar sem þetta er svo rosalega stutt síðan þetta var.
Svo má taka fram að Sameinuðu þjóðirnar leyfðu Rauðu Khmerunum að eiga sæti hjá sér í 12 ár eftir að þessu lauk sem þýddi að morðingjarnir voru í svari fyrir fórnarlömbin og ættingja þeirra.
Um kvöldið fórum við svo á næturmarkaðinn þar sem við fengið æðislega góðan mat og versluðum hitt og þetta fyrir nánast engan pening. Á leiðinni á barinn „okkar“ skelltum við okkur í fótafiskanudd sem er furðulegasta nudd sem hvert okkar hafði farið í, það var virkilega erfitt að halda fótunum kyrrum ofan í vatnstankinum þar sem fiskarnir nörtuðu og fengu fylli sína á húðflögum fóta okkar. Lögreglumennirnir voru sem fyrr á sínum stað á barnum en þó ekki eins hressir þetta kveldið sennilega þar sem þeir voru með eiginkonurnar með sér og ekki á vakt. Við létum okkar samt ekki eftir liggja og kláruðum allan kranabjórinn á staðnum sem þýddi bara það að við fundum okkur annan stað. Um kvöldið kvöddum við hins vegar Ástralana þrjá, alltaf leiðinlegt að kveðja skemmtilegt fólk sem maður hittir á leiðinni.
Fórum svo í gær með franska félaga okkar í rúnt um bæinn, en þar sem Þorri var kominn með einhverja augnaflensu fórum við í svaðilför í apótek sem endaði á besta bakaríinu í bænum með hálfgerðum rúmum sem maður gat lagst í, alveg æðislegt. Hertum okkur svo upp brunuðum á risastóran markað sem ber nafnið rússneski markaðurinn, þó ekkert rússneskt við hann. Þar var misst sig aðeins og kaupunum sem þýðir að við þurfum að skunda á pósthús í framhaldinu, erum svolítið dugleg í því og gaman að vita hvað af öllu dótinu okkar kemst alla leið til Íslands, jólapakkarnir sem við sendum frá Nepal eru allavegana ekki enn komnir en hver vill ekki jólapakka í apríl eða júní. Eftir markaðinn fórum við með tukkara lengst út úr bænum til þess að horfa á alvöru Kick box og það í sjónvarpssal í beinni útsendinu, þannig að núna höfum við komið fram í kabódísku sjónvarpi. Það var mjög gaman að fylgjast með þessu og álíka gaman að horfa á heimamenn að missa sig yfir hverju höggi en þeir eru flestir að leggja pening undir í veð. Þarna voru bæði konur og karlar að berjast en engin rothögg í þetta skiptið. Enduðum svo daginn á góðum mat og miklu spileríi þar til við þurftum að kveðja franska félagann okkar og þar af leiðandi erum við orðin ein í kotinu aftur.

Hér kemur svo samantekt frá Víetnam. Víetnam var eiginlega bara æðislegt í alla staði og erfitt að finna eitthvað neikvætt um það, frábært fólk og skemmtilegir staðir allsstaðar.

Við eyddum 94,5 klukkutímum í rútum eða rétt tæpum 4 sólarhringum.

Jákvætt:
-Mjög ódýrt land
-Hár „standard“ á hótelherbergjum
-Mjög mikið af áhugaverðum og skemmtilegum stöðum
-Ótrúlega auðvelt að ferðast um það, þarf ekkert að hugsa
-Flestir tala mjög góða ensku
-Það er hægt að kaupa ALLT í Víetnam

Neikvætt:
-Mikil þoka og kuldi í norðurhlutanum
-Allt lokað yfir hátíðirnar og því ekkert hægt að gera (skiljanlegt samt)
-Landið stórt og því langar vegalengdir á milli
-Hvað flestir rútubílstjórarnir voru reiðir og leiðinlegir

Það sem kom mest á óvart:
-Hvað fólkið var vingjarnlegt við útlendingana þrátt fyrir hörmungarnar sem þeir ollu
-Lokað fyrir facebook og bloggið okkar stundum (en við finnum alltaf okkar leiðir)
-Umferðin var alls ekki eins slæm og við héldum
-Hversu fljótt fólkið virðist vera búið að jafna sig eftir stríðið


Það sem stóð upp úr:
-Bai Tu Long ferðin og heimagistingin þar
-Bátsferðin í Ninh Binh
-Sérsniðna fataævintýrið í Hoi An
-Skemmtigarðurinn í Nah Trang
-Cu Chi göngin og M16 byssan
-Mekong Delta ferðin
-Borða Pho (núðlusúpu) með heimamönnum
Og fleira, og fleira..

Verðdæmi:
-Hótel (með öllum lúxus þægindum): 900 kr.
-Gleraugu (með besta glerinu): 7.000 kr.
-Máltíð fyrir tvo og drykkir: 600 kr.
-1,5 l af vatni: 50 kr.
-Sérsniðin jakkaföt úr kashmir og silki: 10.000 kr.
-Bjór 500 ml: 60 kr.
-12 klst. svefnrútuferð: 1.800 kr.

Kort af leiðinni sem við höfum farið, stjörnurnar eru staðirnir þar sem við stoppuðum:

HÉR er linkur inn á myndirnar okkar frá Laos

14 ummæli:

  1. Jú hú fyrstur til að skrifa ;-) gangi ykkur vel sem fyrr ;-)
    kv
    Höskuldur

    SvaraEyða


  2. Jibbý,,,, ég er númer tvö að kvitta ;o)
    Frábær ferðasaga eins og alltaf ;o)
    það hlýtur að vera erfitt að vera staddur í þessum útrýmingarbúðum :o(
    Greinilega margt skemmtilegt og spennandi að gera og sjá þarna ;o)
    Gangi ykkur vel áfram :o)
    Kær kveðja
    Mamma ;o)

    SvaraEyða
  3. Krókódíllinn er með blett á tungunni og því pott þétt ekki með hreina samvisku :)
    Þið eruð frábær :)
    Kær kveðja,
    Sigurlaug Ragnars

    SvaraEyða
  4. Skemmtileg lesning eins og venjulega og alltaf nóg af ævintýrum. Bestu kveðjur frá okkur hérna heima og þið haldið áfram að passa hvort annað,mamma.

    SvaraEyða
  5. Alltaf gaman að lesa ferðasögurnar ykkar. Gangi ykkur vel.
    Eruð þið viss um að nautakjötið hafi verið nautakjöt en ekki eitthvað annað?

    Kveðja
    Gunnbjörn

    SvaraEyða
  6. Hæ,gott að heyra frá ykkur og sjá myndirnar. Það hefur greinilega verið gaman hjá ykkur í fótsnyrtingunni og ótrúlegt að rifja upp hryllinginn sem gerðist í Kambódíu og svo stutt síðan. Kortið sem þið settuð í póst 13.jan.skilaði sér 2.febr. takk fyrir það. Óskum ykkur góðrar ferðar áfram hlökkum til að heyra meira. Amma og afi Blönduósi.

    SvaraEyða
  7. Helga Gunnarsdóttir6. febrúar 2012 kl. 18:10

    Komiði sæl og takk fyrir frábært ferðablogg enn og aftur.
    Nú þegar Víetnam er búið hlakka ég mikið til að heyra um næstu ævintýri sem þið lendið í. Gott að heyra að fólkið í Víetnam er svona ánægt og búið að jafna sig í heildina vel eftir þetta hörmulega stríð. En þetta var líka hræðileg saga frá útrýmingabúðunum þarna í Kambódíu! Og þetta eru hörmungar sem maður fær ekki eins mikið að heyra af og ótrúlegt að Sameinuþjóðirnar hafi ekkert sett út á veru þessara manna í samstarfinu.
    Verð nú að segja að ég var fegin að þið fenguð ykkur bara nautakjöt (sem ég vona að hafi verið nautakjöt) því rottukjöt hljómaði virkilega illa! Eins hljómaði þessi matvinnsla sem þið skoðuð ekki alveg nógu vel, en það er kannski bara pjatt í manni...

    Hafið það sem allra best elskurnar mínar!
    Knús og kram
    Helga Gunn

    SvaraEyða
  8. Sæl elskurnar.
    Gaman að lesa bloggið en ég fékk gæsahúð við lesninguna á þessum hörmungum. Þar liggja mörg tár og mikið blóð.
    Best er þó að þið skemmtið ykkur vel og passið hvort annað, Hlakka til að lesa næsta blogg,
    Jóhanna og co. Akri

    SvaraEyða
  9. Þið hafið aldeilis þrætt Víetnam vel enda greinilegt að þar er margt að sjá og skoða! Góða skemmtun í Kambódíu :)

    SvaraEyða
  10. Elsku ferðalangar.
    Gott að þið eruð ekki týnd - var dálítið lengi fréttalaust.Vietnam virðist vera frjálslegt land laust við allskyns eftirlit og vestræna smámunasemi. Alla vega virkar þessi lýsing mjög vel- frábær þjóð!Þótt ég hefði nú e.t.v. sleppt ýmsu sem þið tókuð ykkur fyrir hendur þar en markaður eldsnemma dags úti á fljóti er nú spennandi. Byrjunin í Kambodiu lofar líka góðu - alveg óstressuð lögregla - þið eigið væntanlega eftir að kynnast rútubílstjórrum þar - áhugavert skapferli rútubílstjóra í hinum ýmsu löndum. Munið eftir þeim jórdanska?
    Mér finnst fréttirnar af rauðu Khmerunum ótrúlega stutt frá í tíma - ég held að fréttamenn hafi ekki verið velkomnir í landið en allir vissu samt af að útrýming var í gangi - hræðilegt að sjá tréð.
    Er mikið um "hvítt" ferðafólk þarna?
    Gangi ykkur áfram vel.
    Kveðjur
    amma

    SvaraEyða
  11. Alltaf jafn gaman að fylgjast með ykkur og lesa frá ykkur bloggin :)
    Haldið áfram að njóta þess að vera á ferðalagi og vona að það verði jafn gaman hjá ykkur í Kambódíu ;)
    kv. Bjarni Freyr

    SvaraEyða
  12. Gaman að lesa nýtt blogg, Það er gott að þið skemmtið ykkur.

    SvaraEyða
  13. mmm.... víetnam.. vatn í munninn..
    Alltaf gaman að lesa ræ ræ.
    -E

    SvaraEyða
  14. Bara að kvitta en vá hvað allt er ódýrt!
    Bjór á 60kr...
    Alltaf gaman að lesa bloggið

    SvaraEyða