miðvikudagur, 11. janúar 2012

Good morning Vietnam!


Á fimmtudagskvöldinu fórum við á tískusýningu á einum af börunum í Luang Prabang en þar var boðið upp á þá búninga sem ættbálkarnir í Laos klæðast, að tískusýningunni lokinni tók við hip hop sýning þar sem ungir Laos töffarar tóku sviðið og break-uðu eins og enginn væri morgundagurinn. Að þessu loknu snæddum við kvöldmat á local stað en í götunni á móti stóð yfir heljarinnar partý, þar sátu karlarnir og drukku bjór á meðan konurnar og börnin dönsuðu, þegar bjórinn var farinn að hafa sín áhrif tóku karlarnir sig hins vegar til og dönsuðu macarena.
Við fundum okkur tuk tuk bílstjóra á föstudeginum sem skutlaði okkur, ásamt tveim stelpum frá bretlandi, að Kuang Si fossunum. Fossarnir voru gríðarlega fallegir, þetta var samansafn fjölda lítilla fossa og var hægt að synda í lóninu við nokkra þeirra, Gréta varð því miður bílveik á leiðinni að fossunum, Guðrún var kvefuð og Tommi með í maganum, því var Þorri sá eini sem hafði áhuga á sundspretti en nennti ekki einn ofaní þannig að það var ekkert synt þennan daginn. Í staðinn fórum við að stærsta fossinum á svæðinu sem er ca. 100 metrar á að giska og mjög tignarlegur, við gengum upp meðfram fossinum og nutum útsýnisins á toppnum. Þarna á svæðinu var líka risastór girðing sem innihélt fjölda bjarndýra sem bjargað hafði verið frá dýranýðingum og fólki sem hafði fangað þá það unga að þeir munu aldrei geta bjargað sér í náttúrunni aftur. Þarna bjuggu þeir og höfðu ýmislegt sér til afþreyingar t.d. sundlaug, hengirúm og bolta. Það var ótrúlega gaman að fylgjast með þeim og lesa um það góða starf sem unnið er við að bjarga þeim frá fólkinu sem fangar þá. Um kvöldið röltum við um kvöldmarkaðinn og skoðuðum hvað þau höfðu upp á að bjóða, borðuðum síðan á kóresku grilli líkt og í Bangkok, algjört lostæti.
Á föstudaginn borðuðum við hádegismat á stað sem mikið hafði verið mælt með, hann var staðsettur á eyju við Luang Prabang og eina leiðin þangað var yfir bambusbrú þar sem rukkað var gjald fyrir að komast yfir en þessi peningur fer í uppbyggingu þessarar brúr vegna þess að hún hrynur á hverju ári þegar vatnsmagn eykst í ánni. Eftir matinn fórum við á safn þeirra bæjarbúa, þar var að finna litla styttu af Búddanum sem bærinn er nefndur eftir. Styttan var læst inni í herbergi með verði fyrir utan og stranglega bannað að taka myndir. Þarna var líka að finna bílasýningu sem hafði að geyma bílaflota fyrrverandi kónga og drottninga landsins. Síðan var ekkert annað en að skella sér í nudd og vegna fjölda áskoranna eftir síðasta blogg lét Þorri slag standa og skellti sér í klukkutíma nudd ásamt Grétu og Guðrúnu. Eins og hann grunaði var nuddið mjög sársaukafullt fyrir hans veika bak og ekki eins æðislegt og Gréta hafði lofað honum, þessar ungu Laos dömur voru þó ekki neitt voðalega góðar í þessu og hefur Þorri lofað að leyfa þeim tælensku að fá sitt tækifæri til að breyta viðhorfi hans. Við enduðum dvölina í Laos á því að skella okkur á skandinavískt bakarí (eftir ábendingar Ingu Heiðu takk takk!!) og fá okkur kræsingar en því næst var komið að kveðjustund, því okkar beið rútuferð til Hanoi í Víetnam á meðan Guðrún og Tommi tóku rútu til Chang Mai í Thailandi. Okkur hafði verið lofað rútu með rúmum í „Falang size“ (hvítra manna) en rútan reyndist bara vera með sætum, sem þó var hægt að halla nánast alla leið niður og pláss var fyrir fæturnar, ef þú ert ca. 150 cm á hæð. Það var ljóst strax í byrjun að starfsmennirnir voru ekki þessir kátu litlu Asíubúar því þeir höfðu heraga yfir þessum vitlausu útlendingum, þeir töluðu enga ensku og því eina rétta í stöðuni auðvitað bara að öskra og skammast. Ferðin sjálf gekk ágætlega fyrir sig og okkur tókst nokkurnvegin að koma okkur vel fyrir, í byrjun var okkur sagt að ferðin tæki 24 tíma en eins og gengur og gerist dróst hún í 30 tímanar með svona 5 klósett stoppum og EINU matarstoppi. Okkur hætti nú að lítast á blikuna þegar við vorum að nálgast Hanoi því rútubílstjórinn stökk út úr rútunni og læsti okkur inni, eftir nokkra stund kom hann aftur inn vopnaður stórri sveðju og setti dúndrandi techno tónlist í græurnar með sígarettuna hangandi í munnvikinu og lá á flautunni keyrandi á móti umferð. Þetta fór þó allt vel og við komumst heil og höldnu á áfangastað, ein af þessum rútuferðum þar sem maður þakkar fyrir að vera á lífi eftir á.
Villtumst um götur gamla hluta Hanoi á mánudaginn, þar er voðalega fallegt vatn sem við röltum í kringum, settumst niður á bekk þar við og tókum okkur til við að lesa heilmikið um stríðið og hörmungarnar í þessu landi sem gerðist ekki fyrir svo löngu síðan. Okkur finnst rétt að vita aðeins um sögu landanna sem við erum í, höfum einnig mikið hugsað út í hvernig sérstaklega eldra fólkið hér lítur á hvíta fólkið sem er að ferðast um landið þeirra. Höfum ekki þorað að spyrja neinn enn en við myndum skilja fullvel ef þeir séu með einhverja fordóma fyrir þeim.
Víetnamar eru svolítið skondið fólk en til dæmis á veitingastöðum er gólfið oft þakið matarleifum, hnetuskeljum og tannstönglum en með því að fleygja þessu á gólfið eru þeir að koma á framfæri  til komandi gesta að maturinn sé góður á þessum ákveðna stað. Þetta minnir helst á samskiptaaðferðir dýra frekar en manna á 21. öldinni en nokkuð skemmtilegt þó, sérstaklega þar sem við þurfum ekki að þrýfa gólfin :)
Daginn eftir áttum við pantaða siglingu til Bai Tu Long bay sem er við hliðina á Halong bay sem er einn þekktasti staður Víetnam. Okkur var sagt að þessi eyjaklasi væri jafnvel fallegri en fræga Halong og nær engir aðrir túristar þar þannig að við ákváðum að slá til. Vorum í þessum fína tíu manna hóp og var mikið spjallað þessa fimm tíma sem það tók að komast í skipið. Við erum greinilega ekki á besta árstímanum til þess að ferðast hér um norður Víetnam en það er mjög kalt og mikil þoka en núna er vetrarmonsúnið en svo leið og maður fer aðeins sunnar verður komin sól og sumar. Þar að leiðandi var útsýnið ekki eins og það verður best en ótrúlega fallegt samt sem áður. Eftir nokkurra klukkutíma siglingu lögðumst við í höfn á lítilli fiskimannaeyju, þar biðu okkar reiðhjól þar sem við hjóluðum að gististaðnum okkar í litlu krúttlegu þorpi. Þegar þangað var komið biðu okkar skælbrosandi eldri hjón sem buðu okkur velkomin inn á heimilið sitt en þetta var svokölluð heimagisting. Í stofunni bauð gamli maðurinn okkur grænt te í litla postulínsbolla og fyllti á eins og enginn væri morgundagurinn. Eftir smá spjall og mikla tedrykkju hófumst við handa og hjálðuðum við að elda kvöldmatinn en við lærðum meðal annars að gera vorrúllur sem var mjög áhugavert og æðislega gott. Eftir frábæran mat bauð húsbóndinn upp á „Happy water“ sem er ákveðin tegund af hrísgrjónavíni sem þeir taka í skotglösum en þetta bragðaðist mun betur en þetta hljómar, við máttum svo gjöra svo vel að klára tvær flöskur af þessum dulafulla drykk.

Vöknuðum eldsnemma morguninn eftir til þess að fara á fiskmarkaðinn í þorpinu en á hverjum morgni frá klukkan 5-7 koma konur fiskimannanna saman og selja afla næturinnar, fiskurinn gerist varla ferskari og spriklaði þarna ennþá að berjast fyrir lífi sínu. Þetta var mjög skemmtilegt og þeim fannst alveg jafn merkilegt að sjá okkur þarna á þessari litlu eyju þar sem sjaldan sést til ferðamanna. Fórum svo aftur á bátinn okkar þar sem við sigldum áfram um eyjarnar þarna í kring, stoppuðum svo og fórum á kajak þar sem við dóluðum okkur um þetta ótrúlega umhverfi. Síðan var ekkert eftir en að sigla í land. Vorum rosalega sátt við þessa ferð og það var satt sem maðurinn á ferðaskrifstofunni sagði því á þessum tvemur dögum sáum við ekki einn einasta ferðamann, erum samt viss um að það muni breytast á næstu árum.
 Við sáum ekki mikla ástæðu í að fara aftur til Hanoi þannig að við tókum rútuna suður til lítils bæjar sem heitir Ninh Binh en umhverfið hér í kring á víst að vera voðalega fallegt, en við komumst að því á morgun.
Erum svo nokkuð viss um að við þurfum að fara í afvötnun þegar við komum aftur heim því bjórinn hérna kostar heilar 60 krónur og það á veitingastað. Hver þarf vatn á 30 krónur þegar maður hefur bjór á 60 krónur??

Hér kemur svo örstutt (vegna stutts tíma) samantekt frá Laos:

-Eyddum 27,5 klukkutímum í rútum.

Verðdæmi:
- Hótelherbergi: 1200 kr.
-Máltíð fyrir tvo: 900 kr.
-1,5 l af vatni: 80 kr.
-7 tíma rútuferð með „local bus“: 660 kr.
-Bjór 650 ml: 165 kr.

Kort af leiðinni sem við fórum:

17 ummæli:

  1. Þessar rútuferðir ykkar!! En gott að heyra frá ykkur og mjög fallegar myndir. Hér er allt á kafi í snjó og þorrablót á næsta leiti. Bestu kveðjur frá okkur Míu, mamma.

    SvaraEyða
  2. Sæl og blessuð bæði tvö og takk fyrir skemmtilega ferðasögu og fallegar myndir. Þessi sigling milli eyjanna hlýtur að hafa verið stórkostleg þarna er svo mikil náttúrufegurð skv.myndum. Þú verður að prófa aftur nudd Þorri minn þar sem farið verður um þig mýkri höndum. Við sendum okkar bestu kveðjur héðan úr snjónum og vonum að allt gangi vel hjá ykkur og passið hvort annað.
    Amma og afi á Blönduósi

    SvaraEyða
  3. Hæ,, gaman að heyra af ykkur ,,, en af því að ég er nú sérstakur áhugamaður um mat,,, hvað er þetta sem að hann Þorri er að borða með prjónum ?? Annars bestu kveðjur
    Höskuldur

    SvaraEyða
    Svör
    1. Þetta er önd, eins og þær sem hanga í bakrunn, tekin nánanst heil önd og söxuð niður, engin bringa hér heldur bara allt heila klabbið. Smakkaðist mjög vel en við lögðum ekki í að bryðja beinin eins og heimamenn, bestu kveðjur

      Eyða
  4. Helga Gunnarsdóttir11. janúar 2012 kl. 18:29

    Takk fyrir nýtt blogg elsku ferðalangarnir mínir!

    Það eru aldeilis ævintýrin sem þið lendið í þegar þið farið í rútur! Þessi bílstjóri hljómar eins og hann geti auðveldlega lent á topp 10 yfir verstu rútubílstjóra í heimi! Ég er ánægð að þið komuðst heil úr þeirri rútuferð.

    Eins er gaman að sjá þessar flottu myndir frá ykkur, af ykkur og landslaginu. Það er greinilega mjög fallegt í henni Asíu :) Svo verður gaman að fá að smakka vorrúllur hjá ykkur þegar þið komið heim, enda er það brjálæðislega góður matur :)

    Ég hlakka til að heyra frá ykkur næst. Hafið það sem allra best elskurnar.

    Knús og kram frá snjónum
    Helga Gunn

    P.s. Þorri það þýðir ekkert að gefast strax upp á nuddinu, mæli með því að þú prófir nokkrum sinnum aftur áður en þú hættir alveg :)

    SvaraEyða
  5. Sælar,
    Já ég held að sögurnar af þessum rútuferðum geri það að verkum að ég sé ekki á leið í heimsreisu, allavega ekki á næstunni. Ég skellti mér nú á Vietnamskan stað hérna heima um daginn, Ég geri ráð fyrir að maturinn sé aðeins betri hjá ykkur. Flottar myndir. Ég er viss um að Þorri eigi eftir að komast upp á lag með nudddið. Þarf hann ekki bara nokkra bjóra eða Happy water til að mýkja sig upp

    SvaraEyða
  6. Gaman að heyra frá ykkur, vá hvað ég hefði verið stressuð með þessum klikkaða bílstjóra og ég tala nú ekki um þegar hann læsti ykkur inní rútunni ég fæ fæ alveg sting, en bara frábært að allt gengur vel ;o)
    Ég hélt að Guðrún ætlað að vera lengur í samfloti með ykkur :o)
    Þorri þú verður að velja tæju með reynslu í nuddinu ;o)
    Takk fyrir bloggið og myndirnar ;o)
    Bestu kveðjur
    Mamma ;o)

    SvaraEyða
  7. Þið haldið áfram að skoppa á milli landa eins og ekkert sé ;) Gaman að lesa nýtt blogg og sjá myndir! Tvær flöskur af happy water og bjórinn á 60kr.. já kannski bara að afvötnun verði málið eftir þetta allt saman hehe ;p

    SvaraEyða
  8. Virkilega gaman að lesa frá ykkur bloggið..

    Vá hvað ég öfunda ykkur ekki mikið af þessari 30klst rútuferð:)

    Hvernig líður manni eftir að hafa drukkið tvær flöskur af hrísgrjónavíni?

    Vona að þið hafið það sem allra best.. og vona líka að fara að heyra í ykkur bráðum á skype ;)

    kv. Bjarni Freyr

    SvaraEyða
    Svör
    1. viljum nú taka það fram að við vorum 10 manns plús gamli kallinn að drekka þessar tvær flöskur! ;)

      Eyða
  9. Æðislegar myndir! Svo gaman að lesa og hugsa til þess að ég var á þessum slóðum bara fyrir nokkrum mánuðum síðan! En ég sakna ekki rútuferðanna .. haha .. takk fyrir að deila upplifunum ykkar með okkur. kv. Inga Heiða

    SvaraEyða
  10. Gott og gaman að heyra frá ykkur, farið þið nú varlega í öllum þessum vínum. Gréta min fékstu ekki adressu hjá" vinum "Dagnýjar þarna í Vietnam sem þið getið heimsótt ? Þið eigið örugglega eftir að sjá margt fallegt þarna. Gangi ykkur vel elskurnar og takk kærlega fyrir bloggið ! Amma og afi Rvik.

    SvaraEyða
  11. Gaman að fá fréttir frá ykkur :)
    Kv. Sigurveig

    SvaraEyða
  12. Elsku ferðalangar.
    Þetta var skemmtilegt að heyra og sjá.
    Ég er auðvitað búin að "gúggla" staðina - þeir eru æðislegir, eiginlega hver öðrum fallegri. Gott hjá ykkur að taka siglinguna - greinilega eru margir ferðamenn sem sleppa henni - og missa af miklu! Fossarnir líka stórkostlegir.
    Eruð þið orðin dálítið leikin með prjónana? Þér virðist takast vel Þorri að handleika þá. Kannski þurfið þið líkka í megrun þegar heim kemur

    Ætlið þið til Saigon líka?
    Knús til ykkar - vonandi fer að heyrast frá ykkur á skype.
    Kveðjur frá okkur afa - farið vel með ykkur.
    amma

    SvaraEyða
  13. Alltaf finni þið eitthvað skemmtilegt að gera. Þvílík ævintýri! Allt gott að frétta úr slabbinu og hálkunni. Kv johanna og co

    SvaraEyða
  14. Mikið er nú alltaf gaman að fá fréttir af ykkur, ég er náttulega ekki að standa mig að kvitta fyrir komuna en gerið það hér með. Greinilega ekkert smá flott umhverfi sem þið eruð í miðað við myndirnar. Gréta þú átt alla mína samúð með bílveikina það er alltaf verið að auglýsa sleikjó við bílveiki,spurning um að reyna að senda til þín nokkra. Hafið það gott Raddý

    SvaraEyða
  15. Takk fyrir skemmtilega og spennandi ferðasögur og hreint út sagt frábærar myndir. Bestu kveðjur til ykkar, Sólveig Z.

    SvaraEyða