þriðjudagur, 27. desember 2011

Fundum lítil jól í Búrma


Fengum faranlega mikinn gjaldeyri fyrir dollarana$$
Á föstudaginn fyrir rúmri viku lentum við í Bangkok eftir tæplega sólahrings ferðalag frá Kathmandu, Nepal með 11 klukkutíma millilendingu í Mumbai. Það var allt voða jólalegt á flugvellinum í Mumbai og alveg spiluð tvö jólalög stanslaust allan tíman á meðan við biðum þar. Það var svo alveg yndislegt að vera komin til Thailands, Gréta var alveg í skýunum yfir að vera komin aftur „heim“ eftir 5 ára fjarveru. Þorri fór strax í kennslustund um hvar og hvað ætti að borða, var farið með hann beint á næsta götuhorn þar sem risarottur og kakkalakkar voru hlaupandi allt í kring (en það er víst óvenju mikið um þau kvikindi á yfirborðinu núna því eftir flóðin fylltust öll holræsi af vatni og upp kemur allt sem bjó þar). Á götunni er einfaldlega best og ódýrast að borða og líkaði Þorra vel, eða hann þorði að minnsta kosti ekki að segja annað. Gréta er orðinn algjör nískupúki eftir að við komum til Thailands því þegar hún var hér síðast og tók til dæmis 4.000 Bath út úr hraðbanka var það þá 8.000 krónur en nú eru þessi 4.000 Bath orðin að 16.000 krónum og er það mjög sárt. Það eru lítil ummerki um að hér séu nýafstaðin hamfaraflóð þar sem um þúsund manns létust, bara á nokkrum stöðum þar sem búið er að steypa lágreista veggi í kringum búðir annars allt vatn farið en enn eru krókódílar sem á eftir að handsama eftir að krókódílabúgarður fór á flot.
Það fyrsta sem við gerðum þegar við komum á Khao San (sem er aðal staðurinn fyrir bakpokaferðalanga eins og okkur) var að finna sama gamla, góða gistiheimilið sem Gréta var vön að gista á. Khao San er í raun bara einn stór markaður sem mjög gaman er að ganga um og skoða það sem þeir hafa upp á að bjóða, þarna eru líka matarstandar á hjólum út um allt og gefa markaðnum yndislegan ilm. Eftir að hafa rölt þarna um var Gréta fljót að þefa uppi hárgreiðslustofu og lét slétta á sér hárið. Það ferli tók ekki nema fjóra tíma og sat Þorri hálfsofandi við hliðina á henni á meðan, alltaf jafn þolinmóður þessi elska.
Kat born med leir i andlitinu eins og tidkast
Á laugardaginn fórum við með strætó í verslunarmiðstöð hér í bæ, þar tók á móti okkur jólasveinn með tilheyrandi jólalögum og notalegheytum, því þrátt fyrir að jólin séu ekki haldin hátíðleg í Thailandi þá skreyta þau allt hátt og lágt og blasta jólalögum bara til þess að hafa tilefni til þess að halda upp á eitthvað. Í verslunarmiðstöðinni sem var á sjö hæðum og hefur upp á að bjóða allt milli himins og jarðar og er að hluta til hálfgerður markaður þar sem maður prúttar fram og til baka, náðum við að versla okkur föt til að fylla upp í tóma plássið í bakpokunum okkar sem hefur verið að pirra okkur. „Stjörnu torgið“ þeirra var með því allra vænlegasta sem gerist og þurftum við að ganga þrjá hringi áður en við loksins gátum ákveðið okkur hvað við vildum borða (og það var enginn hamborgari og franskar fyrir okkur takk fyrir). Fyrir utan var í gangi einhverskonar tælensk útgáfa af jólahátið, þar stigu „tónlistamenn“ á svið og skemmtu trylltum líðnum. Komumst að því að til þess að stofna hljómsveit í Thailandi þarftu hvorki að kunna að syngja né spila á hljóðfæri bara að hreyfa varirnar nokkurnvegin í takt við tónlistina (þá breytir engu hvort karl eða kona sé að syngja undir). Þarna var líka fólk klætt í hina ýmsu búninga og bauð fólki að taka af sér mynd. Jólasveinninn, stelpa í „mini“ pilsi, geimverukarlar og gotharar var jólablanda sem við höfum ekki séð áður en fannst nokkuð athyglisverð. Þegar við komum til baka á Khao San var komin mjög skemmtileg kvöldstemning þar sem trúbadorar tóku lagið á börunum, krakkar dönsuðu á götunni klædd í þjóðbúninga og söfnuðu fyrir fórnalömb flóðana og sölumennirnir reyndu hvað þeir gátu til að ná pening út úr ferðamönnunum. Þarna eru líka nuddstofur á götunni og ákvað Gréta að skella sér í fótanudd eftir langan og erfiðan dag á búðarrölti, Þorra fannst hann ekkert hafa þörf á einhverju nuddi og fékk hann bara að stara út í loftið og bíða á meðan. Við vorum ótrúlega léleg þetta laugardagskvöld í miðborg Bankok og fórum snemma upp á hótel og spiluðum rommý þangað til við sofnuðum enda áttum við flug daginn eftir og vildum vera með hausinn rétt skrúfaðann á.
Sunnudagurinn fór síðan í að koma sér upp á flugvöll fyrir ferðalag til Yangon í Búrma, okkur þótti mjög leiðinlegt, og þá sérstaklega Grétu, að kveðja Thailand eftir svona stutt stopp en við munum koma hingað aftur fyrr en varir og eyða meiri tíma þar, Þorri er hins vegar hæst ánægður með að hafa loksins fengið að upplifa aðeins landið sem hann hefur heyrt svona mikið um í gegn um árin.
Eftir rétt rúmlega klukktíma flug vorum við lent í Yangon höfuðborg Búrma sem er tæknilega ekki höfuðborgin lengur. Vorum sótt á flugvöllinn af gistiheimilinu okkar og fórum fljótlega í háttinn eftir að hafa skipt peningnum okkar og pantað rútumiða fyrir næsta dag. Eitt af því fyrsta sem við tókum eftir í Búrma voru karlarnir en þeir klæðast nær undantekningalaust allir pilsum sem þeir binda saman í hnút framan á sér, meira að segja lögreglan gengur um í pilsi og með hjálm, vitum ekki alveg hvernig gengur að hlaupa upp glæpamenn í þessari múnderingu. Einnig tókum við eftir munnunum á þeim því þeir tyggja flestir einhverskonar mórautt tóbak sem þeir spýta svo út um allar trissur. Tennurnar á þeim eru þar af leiðandi rauðbrúnar og jafnvel svartar eftir margra ára notkun. Lang flestar konurnar hérna bera svo framan í sig og börnin einhversskonar gulan leir, það er gert bæði til fegrunar og til að verja sig fyrir hita og sól.
Áður en maður kemur inn til Búrma verður maður að vera búinn að hugsa fyrirfram hvað maður ætlar að eyða miklu því hér eru engir hraðbankar og enginn tekur við neinum greiðslukortum. Maður verður að koma með galdeyri í dollurum og þessir dollarar mega ekki vera með eina einustu krumpu á sér, ekki búið að brjóta þá saman, ekki vera með neitt blek á sér og hvað þá vera smá rifnir, verða að vera fullkomnir og vera gefnir út eftir 2006!!! Fyrir þá sem ekki hafa lesið sig til áður en þeir koma til landsins geta lent illa í því með að skipta gjaldeyri á löglegan hátt á til dæmis flugvellinum eða í banka. Ef þú skiptir dollurunum löglega færð þú 3 Kyat (gjaldmiðill Búrma) fyrir einn dollara, hins vegar ef þú skiptir á svarta markaðnum sem er til dæmis á gistiheimilum, gullbúðum o.s.frv. færð þú 780 Kyat fyrir einn dollara, þannig að það skiptir enginn löglega nema vita ekkert hvernig staðan er hérna.
Daginn eftir áttum við rútuferð til Bagan sem er bær fyrir norðan en þetta er heilagasti og jafnframt einn fallegasti staður landsins með 4.400 búddahof allt í kring. Rútuferðin var sú kaldasta hingað til og var Gréta búin að gleyma eða vildi ekki muna hvernig asíubúar misnota loftkælingu, þeir hafa engan milliveg, ef þetta er AC rúta á það að vera þannig og ekkert minna. Við skulfum þarna ásamt öllum hinum sem þó höfðu haft vit fyrir því að koma með þykkar úlpur og húfur. Þegar rútan stoppaði fengum við að fara í töskurnar okkar í farangursrýminu til að ná okkur í hlý föt og teppi sem við sem betur fer skildum ekki eftir í Nepal eftir kuldann þar. Þrátt fyrir að vera í peysu, flíspeysu með trefil og teppi skulfum við áfram og gerðum það sem eftir var ferðarinnar (10 tímar). Afþreyingin sem rútan bauð upp á voru rapplög á búrmísku (ef það er orð) og æsispennandi en illa leikna búrmíska bíómynd. Klukkan 3 um nóttina stoppar síðan rútan á síðasta stoppi og bærinn hvergi sjáanlegur, við ákváðum í sameiningu með austurrískum strák sem var líka í rútunni að við skyldum frekar ganga í bæinn sem tók um 10 mínútur frekar en að borga leiðinda hestvagnsstjóra fúlgu fjár fyrir að koma okkur þangað. Grétu tókst auðvitað að gleyma iPodnum sínum í sætisvasanum sem hún fattaði þegar við horfðum á rútuna keyra í burtu. Eftir það hófst mikil leit að gistiheimili en allt var lokað og læst, eftir klukkutíma leit náðum við að vekja einn starfsmann og fengum við inn, hringdum í rútufyrirtækið sem lofaði að við gætum komið og sótt iPodinn daginn eftir á rútustöðina. Tókum við þeim gleðifréttum með mjög miklum fyrirvara því hér blómstrar svarti markaðurinn og vel hægt að koma einu svona stykki í verð. Daginn eftir fórum við vonlítil á rútustöðina en okkur til mikillar undrunar var þar elskulegi iPodinn sem þeir réttu okkur með bros á vör, þeir meira að segja reyndu að afþakka þjórfé fyrir það. Þegar við hugsðum svo um þetta eftir á þá vorum við sammála um að í þeim löndum sem við höfum verið í hefði það ekki einu sinni tekið sig að hringja í rútustöðina. Vorum búin að heyra áður en við komum hingað hversu heiðarleg þjóð þetta er, sérstaklega í garð útlendinga en það stafar kannski að einhverju leiti af því að allt að lífstíðar fangelsisdómur hlýst ef þú stelur af ferðamanni (eitthvað sem Indland ætti að taka sér til fyrirmyndar).
Um daginn fórum við í heljarinnar hjólreiðatúr um svæðið og sikksökkuðum á milli ótal hofa allt í kring á sporthjólum með körfu framan á, hofin voru nokkuð flott en voðalega svipuð til lengdar. Þarna voru margir litlir markaðir sem gaman var að skoða, margar sölukonurnar vildu ólmar býtta eitthvað af sínu dótir fyrir maskara eða ilmvötn, þar sem við vorum ekki með neinar byrgðir af því fóru engin skipti fram. Í lok dags fundum við okkur stórt hof sem við gátum notið sólarlagsins með útsýni yfir svæðið.
Daginn eftir var dagskráin okkar á sömu leið nema það kom babb í bátinn mörgum kílómetrum frá bænum okkar þegar það kvellsprakk á dekkinu hjá Þorra í einum af töffaralátunum hans á „mótorhjólinu“ sínu.  Þá var ekkert annað að gera en að reiða hljólið alla leið til baka og rétt náðum við heim fyrir myrkur, hann fékk enga vorkun frá Grétu sem hló og hjólaði meðfram honum.
Á fimmtudaginn ákváðum við að vera svolítið löt og leigðum okkur hestvagn í stað hjólanna, enda komin með auma rassa eftir tvo heila daga á þeim. Hestvagnar eru mjög algengur ferðamáti hér í landi og er svolítill 17. aldar fílingur í þessu sem og svo margt annað í þessu landi. Hestvagnsstjórinn angaði af viskýi og svitalykt, þar sem okkur grunar að engin lög banna meðferð áfengis og stjórnun svona ökutækja vorum við svo sem ekki mikið að kippa okkur upp við þetta, nema þó einna helst Gréta sem neyddist til að sitja fyrir aftan hann í öllum fnyknum sem jókst alltaf eftir hvert stopp. Skoðuðum þennan dag þau hof sem okkur var sagt að við þyrftum að skoða svo við gætum farið héðan með hreina samvisku.
Þorri labbar heim med sprungid a dekkinu
Á Þorláksmessukvöld héldum við aftur af stað með rútu til „höfuðborgarinnar“ Yangon vopnuð okkar allra hlýustu fötum. Mættum þangað klukkan 3 um nóttina og lítið hægt að gera nema að setjast inn á eitt af rútustöðva „tea shops“ eins og þeir kalla það til að bíða eftir að nóttin liði aðeins áður en við tékkuðum okkur inn á gistiheimilið okkar. Sváfum svo af okkur stóran hluta aðfangadags en horfðum á bíómyndina Christmas Vacation þegar við vöknuðum svona í anda jólanna. Fljótlega eftir hana eða klukkan sex áttum við pantað borð á jólahlaðborð á einu af fínustu hótelunum hérna í borg í boði ömmu Grétu. Þetta var æðislega fínt og jólalegt og það allra flottasta jólahlaðborð sem við höfum nokkurntíman séð, þarna var allt sem maður gat ímyndað sér, humar, nautasteik, kalkúnn og endalaust af forréttum og eftirréttum.
Greta og asiskur sveinki
Borðuðum alveg á okkur gat, svona eins og maður á að gera um jólin. Þangað kom líka asískur jólasveinn sem gaf okkur nammi og barnakór sem söng jólalög þannig að þetta urðu mun betri jól heldur en við þorðum nokkurntíman að vonast eftir. Eftir alla þessa átu komum við aftur á litla gistiheimilið okkar, hringdum aðeins heim til Íslands og horfðum svo aftur á Christmas Vacation (eigum sko ekki margar bíómyndir inná tölvunni).
Á jóladag fórum við í smá rúnt um Yangon og skoðuðum aðal hofið þar í bæ sem er gríðarstórt og fallegt, við verðum nú samt að viðurkenna að þarna vorum við komin með smá nóg af hofum þannig að við stoppuðum ekki lengi þar en styrktum þó herforngjastjórnina um 10$ með þessari heimsókn okkar. Þegar Gréta spurði hvert þessi peningur færi var fátt um svör. Um kvöldið fórum við svo á fínan ítalskan veitingastað og fengum dýrindis fimm rétta jólakvöldverð.

Þar sem við stoppuðum ekki lengi í Búrma er svolítið erfitt fyrir okkur að gera samantekt en í staðin eru hér nokkrir fróðleiksmolar í boði Grétu.
Það er svolítið siðferðismál hvort maður eigi að ferðast til Búrma eða ekki, mikið af mannréttindasamtökum hafa hvatt fólk til að fara ekki þangað vegna gríðalegrar spillingar herforingjastjórnarinnar. Allur opinber peningur fer beint í vasann á þessum köllum sem kúga þjóðina sína. Til dæmis ef þú flýgur innanlands, tekur lest, borgar þig inná söfn eða ákveðin svæði, flest stóru hótelin reka þeir og fer allur sá peningur til herforingjanna. Þess vegna höfum við til dæmis bara tekið rútu, gist á litlum fjölskyldugistiheimilum og sniðgengið opinberar búðir. En maður kemst aldrei hjá því alveg að gefa þeim pening eins og þegar við vorum í Bagan þurfti maður að borga 10$ til að skoða öll hofin, svo erum við viss um að jólamatspeningurinn hafi líka farið beint til þeirra. Það er líka spurning hvort við komumst í gegnum tollinn með nokkur málverk sem við keyptum af götulistamönnum hérna en maður verður víst að sýna fram á kvittun að minjagripir hafi verið keyptir í opinberum búðum svo hinn venjulegi heimamaður fái nú örugglega engan gróða af vinnu sinni.
A adfangadagskvold

Það er alveg ótrúlegt hvað þeir eru búnir að kúga fólkið sitt, til dæmis árið 1985 ákvað einn hershöfðingi (þá við völd) að seðlar merktir 25, 50 og 100 (stærstu seðlarnir) myndu falla alveg úr gildi og nýjir tækju við en þeir fengu ekki að skipta þeim neitt, þetta varð bara allt í einu glatað fé í staðinn voru gerðir 15, 35 og 75 seðlar. Þetta gerði hann í tilefni 75 ára afmæli síns og gerði milljónir manna fátæka á einni nóttu. Tveimur árum seinna var hann enn ekki ánægður með þetta og henti út 35 og 75 seðlunum og bjó til í staðinn 45 og 90 seðla vegna þess að hann elskaði töluna 9! Í dag getur maður keypt þessa peninga sem ódýra minjagripi og enginn geymir peninga lengur í þessu landi heldur kaupa þeir gull í staðinn. Hérna eiga fæstir farsíma vegna þess að símkort eru fáránlega dýr og lítið sem ekkert GSM samband í landinu, ætli það sé ekki vegna þess að stóru kallarnir vilja ekki að fólk hringi mikið út úr landi og fræði annað fólk um ástandið. Einnig er internetið ekki upp á marga fiskana því fyrir almenning hér er lokað á flestar erlendar vefsíður og allar þeirra síður ritskoðaðar, en á svona ferðamannagistiheimilum eins og okkar eru þeir búnir að ná að stilla þær þannig að við komumst inn á þessar erlendu síður. Þetta eru bara lítil dæmi um kúgun þessa lands.
Búrma er aðeins að byrja að opnast ferðamönnum núna en það eru samt ótrúlega fáir ferðamenn hér, sérstaklega miðað við það að þetta er „high season“ núna. Það er líka mjög lítið um erlend áhrif hérna, þú finnur engar skyndibitakeðjur hér eða 7-eleven.



Lentum svo í Bangkok, Thailandi annan dag jóla og eftir þrjár lestar og einn strætó (sökum nísku) komum við loks á Khao San götuna okkar góðu.  Fljótlega fórum við svo í MBK verslunarmiðstöðina því Gréta átti stefnumót við systur sína Cake frá því hún var skiptinemi hér í Thailandi fyrir 5 árum síðan. Voru þetta miklir fagnaðarfundir og mikið spjallað, rosalega gaman að hittast loks aftur. Það helsta sem hefur á daga hennar drifið er erfið barátta við krabbamein og lifrabilun en eftir 7 mánaða legu á sjúkrahúsi virðist allt vera komið í samt lag og getur hún haldið áfram að reka ferðaskrifstofufyrirtækið ásamt fjölskyldunni sem þau stofnuðu fyrir 3 árum síðan.
Á morgun koma svo Guðrún Halla og Tommi vinur hennar, hlökkum við gríðalega til að fá meiri félagsskap en þau ætla að fara með okkur til Laos og eyða allavegana með okkur áramótunum þar.
Karlarnir ganga allir i pilsum

Leidin sem vid forum
Og HER eru svo myndir fra Burma

13 ummæli:

  1. Snilldar jól

    kv Valdi

    SvaraEyða
  2. Gott að fá loksins blogg og skemmtilega ferðasögu að vanda og það frábært að geta spjallað við ykkur í tölvunni rétt áður en jólahátíðin gekk í garð.
    Við áttum góðan jóladag í Blönduvirkjun með þínu fólki Þorri minn í snjó og jólalegu umhverfi, en sáum þó engan jólasvein á fjöllunum.
    Vonum að áramótin verði ánægjuleg hjá ykkur í félagsskap vina ykkar.
    Haldið áfram að skoða skondna staði og skemmtilegt fólk og passið hvort annað.
    Ástarkveðjur frá ömmu og afa á Blönduósi.

    SvaraEyða
  3. Gaman að lesa og frábært að heyra í ykkur á aðfangadag og jóladag, söknuðum ykkar mikið.
    Bestu kveðjur frá öllum heima ykkar mamma.

    SvaraEyða
  4. Gleðileg jól Þorri og Gréta, það er nú gott að þið höfðuð það gott um jólin.

    Mér fannst dálítið skrítið að þið skuluð hafa farið til Burma, veit nú ekki mikið um það land en ég held ég hefði nú ekki farið þangað af sjálfsdáðum með það litla sem ég vissi um landið í kollinum. Það er mjög spes hvernig þessir spilltu hershöfðingjum hafa tekist að fatta það að ferðamenn koma með pening. Kannski verður skárra ástandið í Búrma eftir 25-50 ár, þeir eru samt ótrúlega harðir á því að berja niður byltingar og það er ekki langt síðan það var gert.

    Kveðja frá Sauðárkróki,
    Sindri Jóelsson

    SvaraEyða
  5. Ja vid pontudum eiginlega midann adur en vid vissum svo mikid um astandid tharna! En eg er buin ad lofa sjalfri mer ad fara ekki thangad aftur fyrr en astandid er ordid betra tharna.. yndislegt land samt sem adur (fyrir utan hershofdingjana ad sjalfsogdu)
    Kv. Greta

    SvaraEyða
  6. Frábært að það var gaman á jólunum hjá ykkur :) Og æðislegur kjóllinn þinn Gréta sem þú ert í á nokkrum myndunum hérna :)

    Jóla- og áramótakveðjur úr kuldanum á Íslandi :)

    SvaraEyða
  7. Helga Gunnarsdóttir27. desember 2011 kl. 18:12

    Gleðileg jól elskurnar!

    Gaman að heyra frá jólunum ykkar og að þau hafi verið nokkuð jólalegri en þið áttuð von á. Vissi ekki að Búrma væri stjórnað svona... En samt gott að þið fenguð iPotinn aftur, hefði verið slæmt að tapa honum líka. Eflaust gaman að hitta Cake aftur samt hræðilegt að heyra um þessi veikindi hennar. Vona bara að hún hafi það gott. Ég vona svo að þið hafið það gott um áramótin með Guðrúnu Höllu og Tomma. Hlakka mikið til að lesa næsta blogg frá ykkur.

    Hafið það sem allra best!

    Jólakveðja
    Helga Gunn

    P.s. Gleðilegt ár :*

    SvaraEyða
  8. Ég vona að Steingrímur fatti ekki þetta með seðlana eins og herforinginn í Búrma árið 1985..
    Kv.Mamma;-)

    SvaraEyða
  9. Elsku ferðalangar.
    Það var gaman að heyra frá Burma og ótrúlegt að þar sé hægt að upplifa jól.- Líka gaman að heyra í ykkur á aðfangadag - vonandi heyrist aftur til ykkar á gamlaársdag - frá Laos. Gangi ykkur vel að ferðast þar - ekki henda nepölsku teppunum. Af hverju var svona kalt í rútunni? - ofnota þeir loftkæklinguna?
    Kveðjur til ykkar allra - góða ferð áfram.
    amma

    SvaraEyða
  10. Elsku Gréta og Þorri
    Gleðileg jól, við erum búin að hafa það rosalega gott og varla farið í tölvu. Þið verðið að kíkja á faceið því ég sendi ykkur jólakortið.
    það hefur verið upplifun að koma til Burma. Mikið skil ég þig Gréta að finnast þú vera komin ,,heim".

    Góða skemmtun í laos.
    kv
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  11. Gaman að þið gátuð haldið smá jól og skemmtilegt að heyra í ykkur frá Búrma :) Gott að fólkið er heiðarlegt þarna enda þorir það kannski engu öðru.. Örugglega ekki frábært land að búa í :/

    SvaraEyða
  12. Takk fyrir bloggið alltaf gaman að lesa frá ferðalaginu ykkar, Þorri þú ert góður með skeggið. Síðan óskum við hérna heima á Húnstöðum 2 gleðilegs nýs árs og megi nýtt ár verða ykkur ánægjulegt, verst að þið komist ekki á áramótaballið með Bjartmari Guðlaugssyni. Kveðja Pabbi og Sandra

    SvaraEyða
  13. Takk fyrir skemmtilegan pistil. Gott þið fenguð smá jólastemningu a aðfangadag. Svo taka ný ævintýri við á nýju ári. Kveðja til ykkar beggja fra okkur öllum i gulaþinginu. Kiss kiss

    SvaraEyða