föstudagur, 9. desember 2011

Leitin að Himalayafjöllunum

Löngu kominn tími á nýtt blogg en við erum bara búin að vera svo slök og haft það gott síðustu vikuna hérna í Pokhara að við höfum hreinlega bara ekki nennt að blogga.
Gréta lá í rúminu alveg fyrstu tvo dagana okkar hér í Pokhara að jafna sig á því sem hún náði sér í í Chitwan, Þorri fór út tvisvar til þrisvar á dag til kaupa mat og sinnti almennri hjúkrun. Það er nóg hægt að gera hér í bæ en þó aðallega langar fjallgöngur og þeir sem þekkja okkur rétt vita að við erum ekkert mikið fyrir svoleiðis sport. Í stað þess að eyða mörgum dögum og vikum í að klífa fjöll til að anda að okkur fjallaloftinu og sjá fallegt útsýni pöntuðum við okkur tíma í „Paragliding“. Á mánudaginn lögðum við því í hann, hoppuðum aftan á pall fyrirtækisjeppans og brunuðum upp stærðarinnar fjall, aldeilis munur að geta keyrt upp á mörg fjöll hér í kring (allavegana þessi „litlu“ sem eru undir 2000m). Þegar upp var komið vorum við krækt við sitthvoran „flugmanninn“  sem löguðu til fallhlífina og þegar allt var tilbúið tókum við tilhlaup í brekkunni, hlupum fram af fjallinu og skyndilega svifum við um í loftinu eins og hinir fuglarnir. Flugmennirnir nota hlýju loftstraumana til þess að hækka og halda við fluginu. Það getur oft verið erfitt að finna réttu straumana og í þau skipti nota þeir erni og aðra ránfugla, sem svífa þarna allt í kring, til að vísa leiðinia. Það var alveg ótrúleg tilfinning að svífa þarna í tveggja kílómetra hæð með fjöll allt í kring og akrana og litlu fjallaþorpin fyrir neðan, tala nú ekki um þegar maður horfir niður á fljúgandi fuglana. Það hefði samt mátt vera betra útsýni þennan daginn en það var þónokkuð mistur og Himalayafjöllin sem eru þarna hjá sáust því ekki. Það kom virkilega á óvart hversu auðvelt er að stýra fallhlífinni en við fengum bæði að taka stjórnina og stóðum við okkur með mikilli prýði :) Þurftum reynar að lenda aðeins fyrr en ætlunin var því Gréta var orðin svo flugveik á þessu sveimi í þessari hæð að það kom ekkert annað til greina. Vorum samt alveg í tæpan klukkutíma í loftinu sem þykir nokkuð ágætur tími því skilirðin fyrir fluginu voru góð þennan daginn. Þetta var frábær dagur enda eitthvað sem maður gerir ekki á hverjum degi, en til þess er þessi ferð nú gerð.
Um kvöldið fórum við út að borða með fólki sem við kynntumst í paraglidingferðinni og ákváðum við að fara með þeim morguninn/nóttina eftir að sjá sólarupprásina upp á fjalli hérna í nágrennininu. Himalayafjöllin eiga víst að sjást best við sólarupprásina og minna mistur. Vöknuðum því fyrir allar aldir eða fyrir klukkan fimm og brunuðum með þeim í leigubíl upp megnið af fjallinu, allt virtist nokkuð bjart og geðrum við okkur miklar vonir um gott útsýni. Það var búið að segja okkur að við þyrftum að labba upp svolítinn spotta til að komast á toppinn til þess að fá besta útsýnið en þegar við byrjuðum hins vegar að labba virtist þetta ekki vera svo lítill spotti. Þetta var rúmleg klukkutíma ganga í bratta, þreytt og í skíta kulda bara til þess að sjá að umhverfið var skyndilega þakið mistri og ekki eitt einasta Himalayjafjall að sjá. Biðum þarna uppi í góðan tíma í von um að það myndi eitthvað birta til en það gerði það ekki þannig að þetta var hálf tilgangslaust. Gangan niður var þó mun ánægjulegri því sólin var komin upp og þar að leiðandi var búið að birta svo mikið til og sáum við vel grænu fjöllin allt í kring og fullt af litlum þorpum og sveitabæjum, þannig að þetta var nú ekki svo tilgangslaust eftir allt saman, hver hefur ekki gott af fjallgöngu svona í morgunsárið??
Þorri fór í jólaklippinguna :)
Gréta að sveima um loftin



Við ásamt Hiro og Alex
Þar sem við vorum orðin nokkuð leið á að hanga aðgerðarlaus í Pokhara ákváðum við að fara í aðra fjallferð og gista þar yfir eina nótt. Við drógum Nýsjálendinginn Alex og Japanann Hiro með okkur í hana. Fengum jeppa til að skutla okkur upp fjallið sem var í þónokkurri fjarlægð frá Pokhara, leiðin var afar falleg en brött og langt frá öllu borgarlífi. Eftir mjög hossótta ferð komum við á virkilega fallegan stað í litlu þorpi efst á einhverju fjalli sem við gleymdum alveg að spyrja hvað héti en við vorum þarna í 1600m hæð sem er náttúrulega bara smá hóll í Nepal. Útsýnið var ótrúlega fallegt þar sem Himalayafjöllin gnæfðu yfir allt í kring, loksins fengum við að sjá þau eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir. Staðurinn sem við gistum á var rosalega kósý með stórum og fallegum garði þar sem fólkið á bænum ræktuðu allt milli himins og jarðar og nota bara sitt eigið hráefni í alla matargerð. Þarna safna þau kúamykju til að búa til gas fyrir eldamennsku og nota sólarrafhlöður fyrir rafmagn.
Jólastjarnan vex hér allsstaðar
Þegar við mættum á staðinn var verið að taka upp bollywoodtónlistarmyndband þar sem algjör gúmmítöffari sýndi væmna takta fyrir framan fallega konu í sarifötum. Á meðan hann heillaði alla í sveitinni upp úr skónum tókum við göngutúr um þorpið, skoðuðum lítinn skóla, týndum mandarínur af trjám (já, hérna eru sko jólamandarínur, það eina sem minnir okkur á jólin.. erum búin að borða nokkur kíló) og litum við á nokkrum bæjum þar sem fólk var ýmist að hreinsa hrísgrjón eða vinna á litlu ökrunum sínum. Hittum mörg börn sem voru virkilega spennt að hitta okkur, sungu og dönsuðu fyrir okkur og heimtuðu að láta taka myndir af sér og prófa sjálf myndavélina.
Við fjórmenningarnir tókum svo gott spilakvöld sem endaði svo með varðeld með litlu nepölsku fjölskyldunni sem býr þarna. Þetta var yndisleg fjölskylda og sungu þau nokkur þjóðlög og tóku nokkur spor í kringum eldinn, allt saman mjög heimilislegt og notalegt. Eftir mjög skemmtilegt kvöld steinsofnuðum við í ískulda undir þremur þykkum teppum í litla kofanum okkar með trefil um hálsinn og húfu á hausnum.
Annapurna, 8.091m
Ákváðum að taka tvö með þessa sólarupprás en í þetta skiptið þurftum við bara að stíga út á veröndina okkar þar sem Himalayjafjöllin blöstu við okkur í allri sinni dýrð, skærbleik á litinn. Svona smá fróðleiksmoli þá á Nepal átta af tíu hæstu fjöllum heims (öll yfir 8000m). Við sáum þarna þrjú af þessum átta og er mjög erfitt að átta sig á hvað þetta er virkilega stórt, eitt þessara fjalla þarna í kring er friðað og má því enginn klífa það, ástæðan fyrir því er að fjöldinn allur af fólki reyndi það en enginn komst lifandi niður aftur. Það er mjög aðdáunarvert að vita af fólki sem leggur leið sína á þessi fjöll.
Aðal gæjinn á fjallinu

Lítil sveitastelpa að heilsa okkur
Deginum eyddum við í garðinum að spila og um leið að brenna all hressilega í framan þar sem við áttuðum okkur ekki alveg á því að maður brennur mjög auðveldlega í svona mikilli hæð. Síðan var kominn tími til að yfirgefa þennan æðislega stað en við hefðum glöð viljað vera lengur en það er kominn tími til að koma sér aftur til Kathmandu svo við náum að útrétta ýmislegt áður en við förum héðan. Það er ekki hægt að segja að við höfum tekið auðveldu leiðina aftur til Pokhara því við ákváðum að labba niður fjallið ásamt tveimur mönnum úr þorpinu. Heimamönnum finnst þessi ganga nú lítið mál þar sem börnin sem búa á fjallinu ganga upp og niður þetta fjall sex daga vikunnar til þess að sækja skóla í bænum fyrir neðan það.  Veit ekki hvort íslenskir foreldrar myndu sætta sig við að senda börnin sín að klífa fjall sem er 1600m með þverhnýpi við hvert fótmál. Þau hljóta því að vera í fanta góðu formi og þessi þjóð þarf ekkert að hafa áhyggjur af því að vera á lista yfir að vera ein feitasta þjóð heims. Allavegana á meðan svitinn lak af okkur blésu heimamennirnir tveir ekki úr nös. Fengum svo far með þeim hingað til Pokhara og á morgun munum við taka rútuna aftur til Kathmandu þar sem það mun vera fyrsti afmælisdagurinn hans Þorra í mörg ár þar sem hann er ekki að lesa fyrir próf.
Fyrir fjallaferðina vorum við á spjalli við konu eiganda gistiheimilisins okkar þar sem hún var með lítinn fimm ára strák með sér sem ljómaði af gleði í nýju skólafötunum sínum með glænýja skólatösku á bakinu. Þá kom í ljós að fyrir viku síðan hefði kona frá munaðarleysingjahæli komið með þennan litla gutta til hennar og skilið hann eftir hjá henni og þar að leiðandi tóku hjónin hann inn á heimilið sitt því þau höfðu það ekki í sér að skilja hann eftir einann á götunni. Þau gáfu honum að borða því hann var banhungraður og þeim fór að þykja svo vænt um hann að þau eru núna búin að taka hann alveg að sér og hann byrjaður að kalla þau mömmu og pabba. Þau eiga fimm börn fyrir og eiga frekar erfitt núþegar en þetta var bara eitthvað svo falleg saga og hann var svo ánægður með nýja dótið sitt í nýju fjölskyldunni sinni. Þetta var sama fjölskylda og var með okkur upp á fjallinu en þau eru bara eitthvað svo yndisleg, þessi strákur er einn af þessum heppnu götubörnum. Þegar við komum svo niður af fjallinu fórum við og keyptum nokkrar bækur og blýanta fyrir litla Filman, það þarf svo lítið til að gleðja.

17 ummæli:


  1. Alltaf jafn gaman að fá nýjar fréttir ;o)
    Mér verður bara óglatt ( flugveik ) að sjá myndina af þér svífandi í loftinu, það hlýtur samt að vera gaman að hafa afrekað þetta ;o)
    Myndirnar alltaf jafn fallegar og það er aldeilis jólalegt hjá ykkur þarna með snjóinn í fjöllunum, jólarósir og mandarínur út um allt,
    bara frábært ;o)
    Þorri innilega til hamingju með afmælið á morgun og eigið þið góða daga ;o)
    Bestu kveðjur
    Mamma ;o)

    SvaraEyða
  2. Hæææ,, skil ekkert í ykkur að skella ykkur ekki upp á eins og einn hól í 8.000 metrum ;-) en,,, þetta paragliding megið þið alveg eiga,,, það færi ég ekki í nema með byssu við hausinn ;-)
    kv
    Höskuldur
    PS; UBER sáttur með klippinguna hans Þorra,,, nú er hann sko í tískunni,,,

    SvaraEyða
  3. Alltaf jafn gaman að fá svona fréttir af ykkur,maður fær nú í magann að sjá Grétu svífandi yfir fjöllunum en hún hefur alltaf haft gaman af svona áhættuatriðum svo þetta hefur örugglega verið mjög spennandi og allt er gott sem endar vel. Æðislega fallegar jólarósirnar og litlu börnin og þið líka Vonandi gengur ykkur vel áfram, Kærar kveðjur og afmælisóskir til Þorra, Amma og afi Rvík.

    SvaraEyða
  4. það er svo gaman að lesa bloggið ykkar.
    Elsku Þorri til hamingju með afmælið.
    Haldið áfram að hafa það svona gott og njóta ykkar.

    SvaraEyða
  5. Helga Gunnarsdóttir10. desember 2011 kl. 09:46

    Takk fyrir þetta æðislega blogg og frábæru myndir! Himalayafjöll eru augljóslega jafn unaðsleg í návígi eins og þau virðast í sjónvarpinu. Gott að Gréta er búin að jafna sig á þessari pest, vona að þið verðið ekki aftur veik. Einnig svo sætt af ykkur að kaupa skóladót handa þessum litla strák.

    Svo er það afmælissöngur fyrir Þorra:
    Hann á afmæli í dag.
    Hann á afmæli í dag.
    Hann á afmæli hann Þorri.
    Hann á afmæli í dag.
    Hann er 24 ára í dag.
    Hann er 24 ára í dag.
    Hann er 24 ára hann Þorri.
    Hann er 24 ára í dag.
    Hann lifi lengi og vel.
    Hann lifi lengi og vel.
    Hann lifi lengi hann Þorri.
    Hann lifi lengi og vel.
    HÚRRA! HÚRRA! HÚÚÚRRRRRRAAAAAAAAAAAAAAAA!!!

    Til hamingju með afmælið Þorri minn, ég vona að þú njótir hans þó svo að þú sért ekki að lesa fyrir próf ;)

    Ég vona að þið hafið það sem allra best!

    Knús og kram
    Helga

    SvaraEyða
  6. Hæ, hæ ferðalangar!
    Alltaf gaman að fylgjast með ykkur! Pistlarnir eru frábærlega skemmtilegir og myndirnar æðislegar.
    Gangi ykkur sem allra best með framhaldið.
    Þorri! Til hamingju með afmælið og megið þið njóta dagsins !

    Bestu kveðjur úr Laxakvíslinni!

    SvaraEyða
  7. Elsku ferðalangar.
    Þetta hlýtur að vera æðislegt að komast þarna upp á "hólana" í Nepal. Blýanta- og bókakaup lýsa ykkar innri manni. Þið eruð yndisleg. Njótið ferðarinnar og Þorri minn: Til hamingju með afmælið og vonandi skyggir það ekki á að hafa ekki námsbók í hönd. Njótið ykkar elskurnar, Jóhanna EP og co.

    SvaraEyða
  8. Mér tekst aldrei að setja þetta inn nema í gegn um hann "nafnlausa" vin minn. Þið verðið að afsaka það. JEP

    SvaraEyða
  9. Til hamingju með daginn Þorri:) Vona að þið eigið ánægjulegan dag.. Eins og alla aðra ;) Alltaf gaman af nýju bloggi;) kv. Bjarni Freyr

    SvaraEyða
  10. Nepal hljóma mjög fallegt og frískandi :) Vona þið eigið góðan dag í tilefni afmælis Þorra :)

    SvaraEyða
  11. Þetta er bara yndislegt!! Þú hefðir bara mátt taka strákinn með þér heim handa mér:):):) Til hamingju með daginn Þorri!!!! Það er auðvitað mikið skemmtilegra að vera í Nepal en að vera að lesa fyrir próf...!! Þetta er svo fallegt land.... BARA YNDISLEGT!! Góða ferð aftur til Kathmandu!!! (ég flaug þessa leið þar sem hún var víst erfið og seinfarin..... vonandi hafa vegirnir eitthvað skánað!!) Afmælisknús, Dagný og co!

    SvaraEyða
  12. Elsku ferðalangar.
    Var að koma úr Rvk. og sá ekki nýja bloggið fyrr en núna - til hamingju með gærdaginn Þorri minn - jólaklippingin fín! Getur maður orðið sjóveikur í lofti? Gott ég vissi ekki að þið ætluðuð í svona glæfraferð ... ótrúlegt. Hlýtur að vera alveg ný tilfinning - svona fuglatilfinning. Og morguninn á fjöllunum er örugglega eitt af mörgu í þessari ferð sem á aldrei eftir að gleymast.
    Kveðjur og hringið fljótlega.
    amma

    SvaraEyða
  13. Gréta, hvernig datt þér í hug að ætla að ganga á fjall í Nepal þegar þér fannst nógu erfitt að ganga upp á Spákonufell.

    knús
    Sigurbjörg
    P.s. þið eruð klikk að fara bæði í fallhlífastökk og teygjustökk.

    SvaraEyða
  14. Yndislegt blogg og nú langar mig alveg ótrúlega mikið til Nepal! Frábært hjá ykkur að fara í paragliding. Ég fór á svoleiðis námskeið hér á Íslandi en náði aldrei að fara í loftið, kannski ég geri það bara í Nepal. Ótrúlega fallegar myndir. Til hamingju með afmælið, Þorri og nýju klippinguna. Bestu kveðjur til ykkar. kv. Inga Heiða

    SvaraEyða
  15. Skemmtilegt blogg og flottar myndir eins og venjulega:-) Gaman að tala við ykkur áðan á skype..bestu kveðjur frá öllum Mamma.

    SvaraEyða
  16. Sælir ferðalangar. Fallegar myndir og skemmtileg lesning eins og alltaf. Gott að vita ekki fyrirfram um allt þetta glæfralega sem þið takið ykkur fyrir hendur. Það lýsir ykkur vel að gleðja lítinn strák í fjöllunum og er sannarlega í anda jólanna. Þarna virðast jólastjörnurnar nánast vaxa upp úr klettunum en hér á Hlíðarbrautinni tekst þeim að drepast á nökkrum dögum þrátt fyrir dekur (eða kannski vegna þess). Innilegar afmæliskveðjur til þín Þorri minn frá okkur afa. Gangi ykkur áfram vel.

    SvaraEyða
  17. Þið hafið farið í skemmtilega fjallaferðið :) Hamingjuóskir til Þorra með afmælið :)
    Jóhanna Marí og co

    SvaraEyða