fimmtudagur, 1. desember 2011

Á fílsbaki um frumskóga Nepals



Það var eins og að vera komin í annan heim þegar við lentum í Nepal á miðvikudaginn. Loftið minnti okkur svolítið á það þegar maður lendir á Keflavíkurflugvelli eftir sólarlandaferð, ískalt en frískandi. Í vegabréfseftirlitinu þurftum við að skaffa okkar eigin passamynd fyrir vegabréfsáritunina því ekki voru myndavélar eins og í öðrum löndum sem við höfum komið til og færibandið var ekki notað fyrir töskurnar heldur hafði þeim bara verið hent á gólfið þar sem fólk rótaði um eftir eigum sínum, enda rafmagnslaust. Þetta var allt mjög frumstætt og frábrugðið öðrum flugvöllum sem við höfum komið til. Við fundum okkur hótel og skriðum undir ískalda sæng í fyrsta skipti í tæpa þrjá mánuði.
Á Fimmtudaginn röltum við um þröng stræti Kathmandu og reyndum að ná áttum í þessari nýju borg. Hverfið sem við gistum í er hálfgerður markaður og þar eru litlar búðir útum allt að selja sömu hlutina á sama verðinu. Við fundum mun á Nepal og Indlandi um leið og við stigum út af hótelinu því þrátt fyrir alla sölumennina fengum við að ganga um óáreitt, einnig virðist fólk nota klósett hér í landi í stað þess að gera þarfir sínar á götuna við lappir næsta manns og er lyktin hér því mun skárri. Staða götubarna hér í Nepal er nokkuð sérstök en í öllum ferðabókum eru ferðamenn beðnir um að gefa þeim ekki neitt vegna þess að fjöldinn allur af hjálparsamtökum eru til staðar fyrir þessi börn sem eru að reyna að hjálpa þeim en mörg barnanna kjósa hinsvegar frekar að búa á götunni og betla heldur en að vera í skóla vegna þess að það er svo auðvelt að komast af með því að betla. Á göngum okkar um borgina höfum við einmitt séð mjög mörg börn sitjandi á ruslahaugum starandi tómum augum út í loftið og sniffa lím. Á göngunni römbuðum við inn á Durbar torgið sem er þakið alls konar hofum og skemmtilegheitum. Við tókum myndir til sönnunar að við höfðum farið og fundum okkur síðan stað til að borða á. Okkur langar að smakka nepalskan mat en hann er erfitt að finna á veitingastöðunum sem bjóða upp á nánast allt annað en nepalskan.
Það er margt áhugavert að skoða í Kathmandu dalnum og ákváðum við að kanna helstu staðina á sunnudeginum, fyrst á dagskrá var boudhanath stupa sem er stærsta „stupa“ í Nepal og heilagast Tíbetskra búddahofa utan Tíbet, þarna var fullt af pýlagrímsmunkum að kyrja og voða kósý. Því næst var ferðinni heitið til Pashupatinath sem er stórt svæði með fjölda hofa á víð og dreif, við höfðum að vísu meira gaman af öpunum og dádýrunum sem spígsporuðu þarna um. Þarna rennur líka heilagasta á Nepals og rétt eins og í Varanasi í Indlandi var verið að brenna lík út um allt með tilheyrandi lykt. Það var skondið að fylgjast með líkbrennslunni þarna þar sem fjölskyldur voru að brenna ættingja sína á bakkanum, öskunni var síðan hennt út í ánna og nokkrum metrum neðar í ánni stóðu nokkrir karlar og leituðu eftir skartgripum og öðrum verðmætum sem líkin gætu hafa verið með á sér við brennsluna. Um kvöldið borðuðum við síðan á stað þar sem nepölsk rokkhljómsveit hélt uppi fjörinu. Mánudagurinn fór allur í leiðindarstúss en ferð á pósthús tekur alltaf mjög langan tíma, sérstaklega í þetta skiptið þar sem við vorum að fara með allar jólagjafirnar og þurfa þau að kíkja á allt innihaldið áður en maður fær leyfi til að senda það. Síðan fórum við á Qatar Airways skrifstofuna í von um að fá bæturnar sem þeir lofuðu okkar en ekki gekk það í þetta skiptið svo við sjáum fram á að þurfa að fara enn og aftur næst þegar við förum til Kathmandu, einstaklega óliðlegt flugfélag.
Það var alveg ótrúlega mikið um hænsn og flækingshunda í Kathmandu og fengum við að finna fyrir því á hverri nóttu því hani nágrannans var mjög vanstylltur og byrjaði að gala um 02:30 allar nætur, þetta var ekki hið týpíska hanagal sem Tumi vaknar við alla morgna heldur er þetta mjög hás hani sem rembist við að garga alla nóttina hásri röddu okkur til mikillar ánægju. Haninn espir síðan alla hundana með sér sem geltu í kór, við óskuðum okkur helst að einn hundanna myndi éta hanann sem myndi síðan standa í honum.
Sunnudaginn tókum við eldsnemma og drifum okkur á rútustöðina með Kínverja í eftirdragi sem ekki gat stunið upp einu einasta orði á ensku. Eftir að hafa skilað honum af okkur á réttan stað fundum við rútuna okkar sem var ekki beint traustvekjandi. Ferðinni var heitið til Chitwan þjóðgarðsins í suðurhluta Nepals. Ferðin var mjög eftirminnileg þar sem við keyrðum upp og niður hvern fjallveginn á fætur öðrum, þetta voru örmjóir vegir með hundruð metra þverhnýpi fyrir neðan. Vegurinn var rétt rúmlega einbreiður og mikil umferð, aðallega rútur og vörubílar. Í hvert skipti sem bílstjórinn okkar bremsaði á bröttum veginum ískraði svo í bremsunum að öll rútan tók andköf. Þótt ótrulegt megi virðast komums við heil og höldnu á áfangastað þar sem okkur var komið fyrir á palli jeppa og okkur keyrt á rétt hótel. Hótelið okkar var mjög fínt og stóð við bakka fallegrar ár fullri af krókódílum. Hingað komum við í von um að hitta fyrir fíla, nashyrninga, krókódíla og tígrisdýr ef við værum heppin. Dvöl okkar byrjaði á göngutúr um skóginn þar sem við gengum að fílastýju og horfðum á sólina setjast við bakka árinnar. Um kvöldið var boðið upp á danssýningu þar sem dansar ættbálkana voru sýndir. Um kvöldið urðu fyrstu alvöru veikindi ferðarinnar að veruleika og eyddi Gréta nóttinni í að kasta upp á meðan Þorri svaf værum svefni. Morguninn eftir þurfti Gréta að gjöra svo vel og rífa sig fram úr því okkar beið stíf dagskrá sem ekki varð haggað. Fyrst á dagskrá var ferð um frumskóginn á fílsbaki, þegar við sögðum „bílstjóranum“ að við hefðum ekki séð nashyrninga daginn áður fór hann í ham og ætlaði sér að finna fyrir okkur nokkur stykki. Hann elti fótspor djúpt inn í þéttan skóginn í gegn um tré full af kóngulóarvefjum með feitum og pattaralegum kvikindum í þeim miðjum, þarna sátum við og plokkuðum vefinn úr hárinu okkar, Grétu og hennar ógleði til mikillar ánægju. Eftir tveggja tíma reið komum við aftur á byrjunarreit og höfðum enn ekki séð einn einasta nashyrning, bara skítinn þeirra og fótspor en dádýrin og kródódílarnir sem við sáum voru þó ágætis tilbreyting frá áttfættlunum. Eftir gögnutúrinn fórum við síðan ásamt fílnum í bað í ánni við hótelið þar sem við höfðum daginn áður séð fjöldann allan af kródódílum. Það var ótrúlega gaman að láta fílinn baða sig, við sátum á bakinu á honum og hann sprautaði vatni yfir okkur með rananum, síðan lagðist hann í ánna og við skrúbbuðum hann og nudduðum. Eftir hádegi fórum við síðan í siglingu á ánni sem rann meðfram hótelinu. Báturinn okkar var stórt tré sem búið var að skafa innan úr og koma fyrir litlum sætum í, báturinn var ekki sá stöðugasti og virtist alltaf vera við það að velta á hliðina en þar sem áin var stútfull af krókódílum var okkur ekkert alveg sama. Daginn áður hafði leiðsögumaðurinn okkar einmitt sagt okkur að fólk verði reglulega fyrir krókódílaárásum við ánna og væru það einmitt einna helst kæjak karlarnir sem lenntu í þessum árásum, traustvekjandi! Allt fór þetta nú vel og fengum við að sjá krókódíla bæði á landi og á sundi í eins mikilli nálægð og maður treystir sér í. Eftir að hafa athugað hvort allir útlimir væru á sínum stað fór leiðsögumaðurinn yfir nokkur öryggisatriði ef við skildum rekast á nashyrninga, tígrisdýr eða birni í frumskóginum. Það er nefnilega þannig að ef maður mætir nashyrningi á maður að hlaupa í sikk sakk og helst klifra upp í tré, það gengur hins vegar ekki ef maður hittir fyrir tígrisdýr sem eru mun sneggri og betri að klifra en við, besta leiðin til að sleppa við árás frá tígrisdýri er að ná augnsambandi við það og bakka hægt og rólega. Hitti maður björn á að búa til læti og lemja hann í trýnið, leiðsögumaðurinn var vopnaður bambus priki og tilbúinn í átök. Eftir nokkrar hetjusögur vorum við orðin ansi spennt og alveg viss um að nú væri komið að því að við fengum að sjá nashyrningana sem voru ástæðan fyrir því að við komum. Afrakstur tveggjatíma gögnutúrs um frumskóginn var hinsvegar sá að við höfum núna séð fótspor eftir nashyrninga og tígrisdýr, ásamt nashyrningakúk sem við vitum núna ansi margt um. Hins vegar sáum við mikið af fílum, reyndar ekki villtum því þessir voru hlekkjaðir á fótunum og notaðir til undaneldis í elephant breeding center. Að vísu vorum við svo heppin að á meðan við vorum þarna laumaði sér einn villtur karlkyns fíll að einni stýjunni, þá varð uppi fótur og fit og kepptust starfsmennirnir við að kveikja eld til að hræða hann í burtu. Kvenkyns fílarnir sýndu honum þó engan áhuga og höfðu ekki augun af matnum á meðan á öllu þessu stóð. Þarna var meðal annars að finna einn sjö mánaða gamlan fílsunga og þriggja ára tvíbura en samkvæmt leiðsögumanninum okkar eru þetta einu tvíburafílaungarnir í heiminum. Fílar eignast bara einn kálf í einu og hafa tvíburafílar aldrei lifað svona lengi svo vitað er. Eftir langan og viðburðaríkan dag var okkur boðið upp á ekta nepalskan mat, við vorum svosem ekki að missa af miklu en hann var engu að síður mjög góður.

Í dag áttum við enn eina rútuferðina. Í þetta skiptið var ekki hægt að halla sætunum og rútan full af háværum Kínverjum og Nepölum sem fór ekki vel í ógleðina hennar Grétu sem rétt hafði ferðina af. Gréta sem verður bílveik á leiðinni frá Árbænum til miðbæjar Reykjavíkur átti ekki auðvelt með þessa hlykkjóttu fjallaleið. Núna erum við stödd í Pokhara í norðurhluta Nepal sem er víst svipuð borg og Kathmandu nema bara rólegri. Næstu daga munum við taka rólega í von um að Gréta jafni sig sem fyrst.

19 ummæli:

  1. Elska bloggin ykkar, alltaf ný og ný ævintýri :) Hlýtur að hafa verið geggjað á fílsbakinu og að láta hann þvo sér :D En með krókódílana þá hefði ég aldrei látið sjá mig nálægt ánni einu sinni, þannig mér þykir þið mjög hugrökk að hafa farið svona nálægt þeim ;)
    Hlakka til næstu frétta :)

    SvaraEyða
  2. Alltaf jafn gaman að lesa um ævintýri ykkar! Skemmtilegar myndirnar sem fylgja með, gaman að sjá ykkur á fílsbaki í baði hehe ;)

    SvaraEyða
  3. Sæl elskurnar mínar. Gott að heyra frá ykkur og takk fyrir skemmtilegt blogg. Þessar rútu-og lestarferðir ykkar virðast frekar glæfralegar en vonandi gengur allt vel og vonandi hefur Grétu batnað svo þið getið haldið áfram að njóta ferðalagsins. Bestu kveðjur frá okkur og öllum hér í Lækjarberginu en við erum enn og aftur í Hafnarfirði.
    Blönduós amma og afi

    SvaraEyða
  4. What! Eru krókódílar í Nepal!? Ja hérna hér. Æðisleg myndin af bátnum og sólinni. Gaman að lesa, kv. Inga Heiða

    SvaraEyða
  5. Ekki líst mér á þessa krókódíla en myndirnar af ykkur á fílsbaki eru rosalega flottar..já og allar hinar myndirnar líka. Það er örugglega ekki gaman að ferðast eins og þið lýsið og vera óglatt Gréta mín:-( Bestu kveðjur eins og alltaf og hlakka til að heyra meira frá ykkur elskurnar, mamma og pabbi.

    SvaraEyða
  6. hæ elsku Þorri og Greta það er svo gamann að geta fylst með ykkur og ævintýrinu hjá ykkur og myndirnar eru æði takk fyrir
    elska ykkur Guðný A frænka

    SvaraEyða
  7. Hæhæ

    Alltaf jafn gaman að skoða bloggið ykkur:)

    KV. Heiðrún Edda

    SvaraEyða
  8. Takk fyrir Nepalssöguna ,þetta hefur verið mjög spennandi,vonandi gengur vel áfram og heilsan batni Gréta mín,farðu bara vel með þig . Kær kveðja, Amma og Afi Rvík.

    SvaraEyða
  9. ahahahah..... alltaf jafn gaman að lesa bloggin ykkar ;o) Ég er rosalega ánægð með hvað þið voruð vel undirbúin ef þið skilduð mæta villidýrunum og þið hljótið að hafa verið með mikla öryggistilfiningu að vita af manninum svona vel vopnum búin með bambusprikið ;o)
    Vonandi batnar þér fljótt Gréta mín og hafið það sem allra best og farið varlega ;o)
    Bestu kveðjur
    Mamma ;o)

    SvaraEyða
  10. hæhæ
    það er svo gaman að lesa bloggið ykkar og vonandi fer Grétu að batna ekki gaman að vera veik í svona ferð. Hafið það áfram gott
    bestu kvejur frá okkur í Sandefjord

    SvaraEyða
  11. Þetta eru nú meiri ævintýrin sem þið eruð alltaf í:) Skemmtilegar myndir.. Ég er nú óskup feginn að þið sáuð ekkert af þessum dýrum í skóginum þar sem þið hefðuð sjálfsagt ekki gert mikið með bambuspriki á móti hungruði tígrisdýri ;) Vona að þú hressist fljótt Gréta og þið haldið áfram að hafa það gott ;) kv. Bjarni Freyr

    SvaraEyða
  12. Alltaf gaman að lesa bloggin ykkar & geggjaðar myndir ;) aðeins of spennandi líf sem þið eruð að lifa núna :) en bara vonandi að þér batni Gréta og hafið það bæði gott :)

    SvaraEyða
  13. Sigurlaug Ragnars....
    Það er svo skemmtilegt að fá að upplifa ferðina með ykkur. Bloggin ykkar eru hrein snilld og myndirnar æði :)
    Kær kveðja til ykkar, þið eruð frábær!

    SvaraEyða
  14. Komi þið sæl takk kærlega fyrir bloggið það er alltaf skemmtilegt að lesa það. Vona að þú hressist fljótt Gréta mín og þið eigið góða ferð í framhaldinu. Kveðja að heiman. Pabbi

    SvaraEyða
  15. Elsku ferðalangar.
    Gott að heyra frá ykkur - ég held að þetta sé eitt af því flottasta ... kannski er allt flottast en myndir frá Pokhara eru æðislegar og myndirnar ykkar líka. Ég er ekki viss um að mig myndi langa til að keyra mikið um í rútu eða sigla á ám .. eða ganga í skóginum. En sem betur fer þorið þið annars væri ekkert ævintýri :-).
    Hvenær ætli þið komist á hættulausan stað? OK. hann yrði ekkert spennandi. Ég heyri ykkur segja það!!
    Kveðjur héðan að heiman.
    amma

    SvaraEyða
  16. Skemmtileg lesning. Æðislegar myndir af ykkur á fílabaki. Fróðlegar leiðbeiningar sem þið fenguð fyrir ferðina í skóginn ;)
    Vona að GM hressist fljótt og örugglega!
    Kveðja Jóhanna og co

    SvaraEyða
  17. Yoyo Sælar skepnur.

    Gaman að lesa nýtt blogg og mjög flottar myndir. Það væri gaman að skella sér svona á fílsbak. Ætli það séu ekki einu skepnunar sem ég myndi hætta mér á bak á án þess að eiga á hættu að vera kærður fyrir íllameðferð á dýrum :)

    SvaraEyða
  18. NAMASTE... elskurnar mínar, Vonandi ertu orðin hress Gréta mín og Nepalógleðin að hverfa!!! (Mannstu það tók mig eitt ár...;) en vonadi sleppur þú betur;) Hvert eru þið komin núna? Er þýska bakaríið ennþá í Kathmandu (hét Pumpernikkel...eða eitthvað svoleiðis). Þar var einmitt hægt að fá ekta brauð og snúða og annað gott bakkelsi svona til tilbreytingar frá hrísgrjónunum. Svo er það Lazzí drykkurinn... væri þið til í að fá ykkur einn fyrir mig....nammmm. Stórt knús til ykkar kv. Dagný

    SvaraEyða
  19. Helga Gunnarsdóttir10. desember 2011 kl. 09:23

    Æðislegar myndir og frábær ferðasaga, fyrir utan veikindi náttúrulega. Ég vona að Gréta hafi batnað fljótt.

    Knús og kram
    Helga

    SvaraEyða