miðvikudagur, 14. desember 2011

Jólakveðjur frá Nepal

Á laugardaginn síðasta, sem var afmælisdagurinn hans Þorra, yfirgáfum við hið yndislega Pokhara. Vorum búin að hafa það virkilega gott þar og mikil afslöppun. Keyrðum þessa fáránlegu fjallavegi til baka til Kathamandu. Maður er alltaf jafn hissa þegar maður er kominn á áfangastað og áttar sig á að maður lenti ekki í neinu bílslysi á leiðinni! Fórum aftur á gistiheimilið sem við höfðum verið á áður og okkur til mikillar „ánægju“ voru haninn og hundarnir jafn sprækir og fyrr með öll sín læti allar nætur.
Fórum beint á kaffihús og fengum okkur kökusneið og heitt súkkulaði í tilefni dagsins. Um kvöldið fórum við svo á Everest Steakhouse og fengum þessa dýrindis nautasteik, eina sem vantaði var bara bernéssósan. Eftir matinn fórum við svo inn á ferðaskrifstofu og pöntuðum okkur ferð daginn eftir í einhverskonar teygjustökksrólu, án þess þó að átta okkur fyllilega á hvað við vorum búin að koma okkur í, mjög auðvelt að panta bara einhverja svona ferð en þurfa svo að taka afleiðingunum seinna.
Vöknuðum sem sagt klukkan 5 næsta morgunn (fyrir okkur ennþá fullgild nótt) og brunuðum eftir þessum „yndislegu“ fjallavegum alla leiðina til landamæra Tíbet þar sem trygjustökksrólið átti að eiga sér stað. Eftir að hafa farið yfir öll öryggisatriði gengum við eins og dæmd,  15 manna hópur, eftir langri brú þar sem við áttum að stökkva fram af. Það var tvennt í boði þarna í þessu 160 metra háa gili, annarsvegar venjulegt teygjustökk sem gefur manni  tvær sekúndur af frjálsu falli og maður skoppar upp og niður eða Rólan sem gefur manni 7 sekúndur af frjálsu falli og maður sveiflast svo meðfram gilinu í um 250 metra á 150 km/klst hraða. Þar sem við höfðum heyrt að rólan væri mun skemmtilegri ákváðum við auðvitað að taka það. Til að fólk geri sé betur grein á þessari hæð niður er þetta aðeins hærra en tvær Hallgrímskirkjur saman, þetta er hæsta róla í heiminum.
Þorri fékk að byrja að stökkva og var virkilega erfitt að horfa á eftir honum niður gilið en mikill léttir þegar hann byrjaði að sveiflast eins og Tarzan þarna lengst niðri. Þorri hélt „coolinu“ áður og á meðan hann stökk en Gréta var aðeins hræddari enda frekar lofthrædd þó hún vilji ekki viðurkenna það. Þetta var alveg ótrúlega gaman og eitt af því besta sem við höfum gert, tilfinningin er ólýsanleg maður frýs alveg í fallinu og svo yndisleg tilfinning að finna fyrir þegar bandið tekur í.
Fengum svo góðan mat eftir stökkið og héldum svo fljótlega aftur með rútunni til Kathmandu, við getum svo svarið það að stundum á leiðinni var maður hræddari inni í rútunni heldur en að standa á pallinum fyrir stökkið.
Á mánudaginn hófst svo skrifstofuvesen og eintómt gaman, eða þannig. Þar sem ríkistjórnin í Búrma ákvað að hætt við að leyfa okkur að koma inn í landið með leyfinu sem við vorum þegar búin að fá þurftum við að fara í sendiráðið þeirra hérna í Kathmandu til þess að fá vonandi vegabréfsáritun. Það var ekkert grín að finna þetta sendiráð þurftum að taka nokkra leigubíla hingað og þangað, þurftum meira að segja að ýta einum þeirra í gang. Eftir nokkra klukkutíma fundum við þó sendiráðið og skildum vegabréfin okkar eftir þar og krosslögðum fingur um hvort við myndum fá áritunina fyrir flugið okkar á morgun eða ekki. Síðan þurftum við aftur að fara á Qatar Airways skrifstofuna sem við erum orðin virkilega þreytt á en þau lofuðu öllu fögru sem var svo auðvitað svikið strax daginn eftir.
Gerðum svo sem ekkert í gær, fórum bara í bakarí, smjöttuðum mandarínur og spiluðum mikið af Rommý.
Í dag gekk allt upp eins og við óskuðum okkur, fengum vegabréfsáritunina til Búrma í vegabréfið, endurgreiðslan frá Qatar skilaði sér og ekkert leigubílavesen, alveg ótrúlegt.

Í fyrramálið eigum við svo flug til Thailands með 11 klukkutíma millilendingu í Mumbai, erum búin að safna þó nokkrum bíómyndum til að gera þá bið bærilegri. Eigum svo að lenda í Thailandi á föstudagsmorgunn, þar gistum við tvær nætur og fljúgum svo til Búrma á sunnudaginn.

Nepal er búið að vera æðislegt í flesta staði og kærkominn „slaka-á-staður“ þar sem við erum búin að vera svo mikið á fullu í öllum löndunum áður.
Hér kemur svo samantektin okkar frá Nepal:

Við eyddum 25,5 klukkutímum í rútum.

Jákvætt:
-Allir rólegir og yfirvegaðir (kærkomið eftir Indland)
-Venjulegt fólk gerir ALLT til þess að hjálpa þér, klárlega hjálpsamasta þjóðin hingað til
-Ótrúleg náttúrufegurð
-Ekkert of leiðinlegir sölumenn
-Endalaust afþreyging í boði (aðallega í formi útivistar)
-Góð steikhús og löglegt að kaupa bjór (þarft ekki að fá hann í tekönnu)

Neikvætt:
-Hvað það er ótrúlega kalt og auðvitað engin hitun í boði, oft kaldara inni en úti
-Rafmagnsleysið er um 8 tímar á dag, sem er reyndar ekkert miðað við 18 tíma á dag í janúar
-Vegakerfið er bara alveg hræðilegt og stórhættulegt
-Getum ekki þvegið þvottinn okkar sjálf því hann þornar ekki í kuldanum og rakanum
-Mikið mistur á þessum árstíma og erfitt að sjá Himalayafjöllin
-Nepalskur matur samanstendur af einum rétt, Dahl Bath og það er ekkert voðalega góður matur en þetta borða Nepalar á hverjum degi allan daginn

Það sem kom mest á óvart:
-Hvað Jackie Chan á marga bræður í Nepal
-Annar hver maður býður manni dóp hér í Kathmandu
-Hvað það er virkilega kalt, bjuggumst við kulda en ekki svona miklum
-Hvað fólki hér er virkilega umhugað um umhverfið sitt
-Hversu mörg börn eru á götunni miðað við öll úrræðin fyrir þau og kom líka á óvart að það voru svona mörg úrræði

Hvað stóð upp úr:
-Chitwan þjóðgarðurinn, fílaböðunin og reiðin
-Paragliding
-Gistingin uppi í fjallaþorpinu
-Teygjustökksrólan
-Þegar við loksins sáum Himalayafjöllin við sólarupprásina

Verðdæmi:
-Hótel (með þráðlausu net, TV, heitri sturtu o.fl.): 900 kr.
-Eins dags ferð í teygjustökksrólu: 11.000 kr.
-Máltíð fyrir tvo: 1200 kr.
-1 l af vatni: 40 kr.
-Leigubíll í 15 mín: 500 kr.
-Bjór 650 ml: 240 kr.
-6 klst. rútuferð: 750 kr.

Kort af leiðinni sem við erum búin að fara, megnið af landinu er bara fjöll og lítil þorp og því ekki margir staðir sem fólk er að ferðast til almennt:

Erum búin að setja inn myndir frá:
Indlandi HÉR
Nepal  HÉR

Og hér má sjá myndböndin af okkur stökkva í teygjustökksrólunni:
Gréta HÉR
Þorri HÉR

Ps. Þar sem þetta er mjög líklega síðasta blogg fyrir jól (höfum heyrt að internetið sé mjög stopult í Búrma og lokað fyrir margar svona alþjóðlegar síður) sendum við öllum jólakveðjur, vonum að allir hafi það notalegt og borði yfir sig af góðum íslenskum jólamat :) 

15 ummæli:

  1. Alltaf jafn skemmtileg að lesa fréttirnar frá ykkur. Kærar þakkair fyrir það. Ég er búin að horfa á myndböndin af teygjustökkinu og maginn á mér fór á flug bara við að horfa, það var nóg fyrir mig.Stórt jólaknús til ykkar og ég hlakka til að heyra frá ykkur næst.Jólakveðja Raddý

    SvaraEyða
  2. Ja maður fær svo sannarlega í magann að horfa á ykkur! Gott að þið fenguð vegabréfsáritunina til Burma svo ferðaplanið haldist og vonandi bara að við getum eitthvað heyrt frá ykkur um jólin þótt það verði bara smá. Það verður skrítið og tómlegt að hafa ykkur ekki....
    Bestu kveðjur og gleðileg jól elskurna mínar ef við náum ekkert sambandi, mamma og pabbi.

    SvaraEyða
  3. þökkum fyrir myndir og blogg. Þó þið væruð búin að lýsa þessu stökki fyrir okkur á skype fer sannarlega um mann að sjá myndböndin. Vonandi getið þið verið í einhverju sambandi um jólin en við sendum ykkur innilegar jólakveðjur og vonum að þið eigið góða jóladaga þarna í fjarskanum.
    Ástarkveðjur frá ömmu og afa á Blönduósi.

    SvaraEyða
  4. Frábært að þið fenguð ártiunina og peninginn frá flugfélaginu :) Vona að þið haldið áfram að hafa það gaman og gott:) Vona að maður heyri nú samt eitthvað frá ykkur fyrir jól :) kv. Bjarni

    SvaraEyða
  5. Beztu jóla, - og áramótakveðjur til ykkar líka og hafið það sem allra bezt ;-) ( það voru 2 zetur í þessu !!! ) Vonandi getið þið látið eitthvað heyrast í ykkur
    kv
    Höskuldur

    SvaraEyða
  6. Gaman að heyra frá ykkur :) Gleðileg jól! :)

    SvaraEyða
  7. Elsku ferðalangar.
    Mikið hljóta fjallvegirnir í Nepal að vera hræðilegir ef þeir eru hættulegri en fjárans teygjustökkið - þá held eg vildi nú frekar horfa á sólarupprásina! Ekki láta mig vita um áhættuatriðin ykkar fyrr en eftir á :-)
    Ætla að heyra í ykkur fyrir Burma.
    Einkennilegt verðlag þarna samanber rúta í 6 tíma og leigubíll í 15 mín. Og nautasteikin og bjórinn!!
    Góða ferð og gangi ykkur vel.
    amma

    SvaraEyða
  8. Vá hvað ég er spennt að lesa bloggið frá Búrma. Gaman að allt gekk upp með vegabréfsáritun og endurgreiðslu og slysalausa ferð í Nepal :) Hvenær ætli sé besti tíminn til að heimsækja Nepal? Gangi ykkur vel. kveðja, Inga Heiða

    SvaraEyða
  9. Hæ elskurnar... Svooo gaman að lesa bloggið ykkar!! Þetta með hundana rifjar upp gamlar minningar! Þeir eru greinilega ennþá þarna og eru alltaf "úti á kvöldin."" Maður mátti einmitt ekki fara út mjög seint til þess að vera ekki ráðist á mann af hundagengi sem eltu sérstaklega þá sem voru á hjólum!! 'otrúlegt hvað ekkert breytist á 20 árum;) Frábærar myndir og manni langar í þær allar upp á vegg!! knús á ykkur tvö, kv. Dagný!!

    SvaraEyða
  10. Elskurnar mínar.... ef þið náið að lesa eitthvað fyrir jólin.. þá sendum við ykkur RISA JÓla knús... og vonandi eigið þið yndislega öðruvísi jól!!! Hlökkum svo til að hitta ykkur á nýja árinu en njótið lífsins í öllum ykkar ævintýrum þangað til. XXX JÓLAKNÚS og annað JÓLAKNÚS!! frá okkur öllum; Dagný, Alastair, Ásta og Alice (PS: Ásta og Alice eru búin að teikna margar myndir fyrir ykkur og skrifa kort.... en við verðum bara að safna þessu saman þar til við heimkomuna: En þær sakna ykkar mikið og senda ykkur risa risa jólaknús!!)

    SvaraEyða
  11. Úfffff.....maður er bara ennþá með í maganum eftir að hafa horft á stökkið ykkar ;o)
    Gott að þið skulið hafa komið heil út úr þessu ásamt öllum bílferðunum þarna í fjöllunum ;o)
    Mér finnst gott að þið séuð komin til Thailands þar sem mér finnst það vera eins og að koma heim allavega fyrir Grétu ;o)
    Ég vil bara óska ykkur gleðilegra jóla elsku dúllurnar mínar og hafi það sem allra best ;o)
    Bestu kveðjur ;o)

    p.s. Ég googlaði Búrma og horfði á nokkur video af landinu til að sjá hvert þið eruð að fara næst, það virðist allavega ekkert vanta gull þarna eftir myndunum að dæma ;o)

    SvaraEyða
  12. Þið eruð náttúrulega kolcrazy að fara í fallhlífastökk og Gréta þú varst hrædd upp á Spákonufelli !!!
    Góða skemmtun í Búrma, hlakka til að heyra frá ykkur þaðan (ef það er hægt). Sendi ykkur jólakort á netinu rétt fyrir jólin.

    Knús
    Sigurbjörg og co.

    SvaraEyða
  13. alltaf gaman að lesa þetta hjá ykkur, ekkert smá flottaf myndirnar ykkar og rosalegt að sjá myndböndin úr teyjustökksrólunni.
    vonadni heyri ég nú eithvað meira í ykkur fyrir jól en hafið það sem allra best um jólin og gleðileg jól:D

    Kv. Fróði

    SvaraEyða
  14. Þóra Stína frænka19. desember 2011 kl. 09:34

    Gleðileg jól og hafið það rosalega gott svo gaman að fylgjast með ykkur.

    SvaraEyða
  15. Gleðileg Jól elskurnar, hlökkum til að fá fréttir frá Burma. Hér er hvínandi rok í augnablikinu. vonandi gott veður hjá ykkur. Kær kveðja, Amma og afi Rvík.

    SvaraEyða