miðvikudagur, 23. nóvember 2011

Líkbrennslur og rán


Það er eins og það hafi liðið heil öld síðan við blogguðum síðast fyrir rúmri viku en það er alveg ótrúlega margt búið að gerast allt frá því að vera mjög skemmtilegt, fræðandi og alveg hreint ömurlegt þannig að þið verðið að búa ykkur undir heldur langt blogg að þessu sinni.

En á sunnudaginn fyrir rúmri viku tókum við enn eina svefnrútuna frá eyðurmerkurbænum Jaisalmer til bleiku borgarinnar Jaipur. Fyrsta daginn löbbuðum við um bæinn til að sjá öll merkilegheitin en eftir langa og sveitta göngu horfðum við eiginlega bara á hvort annað og ypptum öxlum, við sáum allavegana ekki alveg töfra þessarar borgar og lítið um bleik hús sem gerði þar af leiðandi þessa borg mjög venjulega og ekki mjög áhugaverða fyrir ferðamenn. Við ákváðum þó að gera eitthvað extra skemmtilegt þennan daginn og hvað er svona „must do“ í Indlandi? Jú, maður fer í bíó á ekta Bollywoodmynd, við ákváðum að fara á myndina sem var á stærstu skiltunum og hét hún „Rockstar“. Bíóhúsið í Jaipur er þekkt fyrir að vera einkar fallegt og var það alveg satt þetta var eins og ganga inn í glæsilegt leikhús. Þarna var starað á okkur eins og við værum nýlent frá Júpiter og einmitt þegar störurnar voru í hámarki missti Gréta kókglasið sitt í gólfteppið og langaði henni helst að hverfa niður í teppið með því. Sem betur fer var fljótlega hleypt inn í salinn og eins og Indverjum einum er lagið hlupu allir, ungir sem aldnir, inn í salinn og tróðust og börðu frá sér eins og þeir væru að missa af einhverju (sætin eru öll númeruð).  Þegar myndin byrjaði ætlaði allt um koll að keyra og áhorfendur misstu sig í fagnaðarlátunum þegar aðal „rokk“stjarna Indverja steig á svið. Myndin var öll á Hindí en við náðum nú aðalatriðunum og fjallaði myndin um þessa Bollywoodrokkstjörnu sem er að „meika það“ í Evrópu með dans og söng (á Hindí auðvitað) og kærustuna hans. Okkur varð hugsað til þess að Bjarni bróðir og Eyþór frændi hefðu fílað sig í botn í þessu bíói þar sem fólk hló öfgafengnum hlátri, klappaði og söng með öllum lögunum. Þarna var fólk líka alltaf að öskra inn á milli eins og „kysstu hana“ og „lemdu hann“, svo þegar fyrsti kossinn í myndinni kom trylltist lýðurinn í salnum af fagnaðarlátum. Já, það má segja að bíóferð í Indlandi sé nokkuð frábrugðin þeim íslensku. Um kvöldið borðuðum við svo æðislegan mat í félagsskap kanadískrar konu sem er búin að ferðast hér ein í um þrjá mánuði.
Daginn eftir tókum við smá ferð um bæinn með tuk tuk til þess að láta einhvern sem þekkir bæinn sýna okkur aðal staðina. Hann byrjaði að fara með okkur í hof lengst upp í fjalli sem heitir Monkey Temple og það svo sem skýrir sig sjálft þarna var hof og gríðalega mikið af öpum. Þar sem Hindú hof eru yfirleitt ekkert mjög áhugaverð voru aparnir miklu skemmtilegri afþreying. Þaðan fórum við svo að sjá hof sem er byggt útá miðju vatni, sáum það reyndar bara úr fjarlægð en það var mjög fallegt engu að síður. Eins og hver einasta ferð sem maður fer með svona tuktuk (eða rickshaw eins og þetta heitir hér) endar maður í búð sem hann fer með okkur í og við neyðumst til að fara inn og „bara skoða“, síðan er maður eiginlega neyddur til þess að kaupa eitthvað þar sem búið er að henda í mann allskonar gjöfum og tei, ef maður sýnir lítinn áhuga verða sölumennirnir mjög ágengir og hálf reiðir, þar af leiðandi kaupir maður eitthvað smá, tuktukbílstjórinn fær umboðslaunin sín frá sölumönnunum og allir græða nema við því seinna föttum við að við hefðum getað keypt sama hlut á helmingi lægra verði einhversstaðar annarsstaðar. En svona er þetta og alls ekki bara hérna í Indlandi.
Jæja svo var förinni heitið til Agra. Vorum mætt þar um kvöldið á ágætis gistiheimili, tékkuðum okkur inn og röltum svo uppá þak þar sem sjálft Taj Mahal blasti við okkur í myrkrinu, svolítið eins og málverk.
Daginn eftir borðuðum við morgunmatinn upp á þessu sama þaki og var voðalega kósý að hafa eitt af undrum veraldar til að stara á meðan við fengum okkur ristað brauð og lassi, frekar „basic“. Leigðum okkur aftur svona tuktuk yfir daginn, með bílstjóra inniföldnum auðvitað. Þar byrjuðum við að skoða hof sem heitir Baby Taj og er það einhversskonar mini útgáfa af stóra Taj, vitum ekki alveg söguna bak við það enda sérlega þögull bílstjórinn sem við fengum, hann var heldur betur ekki svona þögull þegar hann var að reyna að „selja sig“ daginn áður þar sem hann bókstaflega hengdi sig á okkur.  Síðan sýndi hann okkur borgarvirkið, Taj Mahal frá hinum ýmsu sjónarhornum, fór með okkur á veitingastað þar sem hann fékk umboðslaun, fór með okkur í búð þar sem hann fékk umboðslaun en þegar hann ætlaði svo með okkur í enn aðra búð til að fá enn ein umboðslaunin sögðum við hart nei en hann sagði að við ættum nú að gera þetta fyrir hann, þar sem við sáum ekki tilganginn með því að gera honum þann greiða sögðum við að hann fengi þá ekkert þjórfé frá okkur og var hann ekki lengi að hoppa aftur inn í sportkerruna sína og keyra í burtu. Eftir þetta marga klukkutíma í þessari klikkuðu umferð sem er í Agra vorum við hálf hissa á að vera enn lifandi og með alla útlimi áfasta, en við klesstum bara á einn aftanívagn fullan af grjóti og einn tuktuk. Eftir ævintýralega ferð með þessum hálfleiðnlega kalli skutlaði hann okkur loksins að Taj Mahal sjálfu og er erfitt að lýsa því þegar maður stígur í gegnum hliðið og sér þetta risa stóra mannvirki, maður gerir sér engan vegin grein fyrir því hversu gríðarlega stórt það er í raun og veru fyrr en maður er kominn svona nálægt. Fyrir þá sem ekki vita söguna í grófum dráttum var hún þannig að það var hershöfðingi sem lét byggja þetta hof fyrir konuna sína sem dó við barnsburð. Hann sagði að þetta væri svo fallegt að tuglið og sólin myndu meira að segja gráta. Nú eru þau bæði grafin inni í hofinu. Þetta var svona extra stutt útskýring. Það er svo sem ekki meira að segja frá þessum degi, eyddum nokkrum klukkutímum þarna stylltum okkur upp í fáeinar myndatökur og horfðum á sólina setjast. Þar sem við vorum ekki alveg komin með nóg borðuðum við svo kvöldmat með útsýni yfir hofið og drukkum „sérstakt te“  eins og þeir kalla bjórinn hér sem er borinn fram í tekatli vegna þess að mjög fáir staðir í Indlandi hafa vínveitingaleyfi. Um miðnætti tókum við svo næturlest til Varanasi sem er í norðausturhluta landsins. Næturlestin var mun mýkri yfirferðar heldur en næturrúturnar og sváfum við alveg yndislega vel.
Varanasi er heilagasta borg Indlands og koma milljónir pýlagríma þangað á hverju ári. Í gegnum borgina rennur Ganges áin og er hún móðir Hindúisma og hún er staðurinn sem allir Hindúar vilja enda í þegar þeir eru látnir. Hótelið okkar var staðsett á besta stað í bænum alveg við ánna og vorum við í miðju „aksjóninu“. Í þessari borg er allt í gangi og öll skynfæri fara á fullt. Lyktin er hræðileg, svíðandi sterk hlandlykt og lykt af brennandi líkum manna til skiptis. En á tveimur stöðum við ánna fara fram líkbrennslur allan sólahringinn (um 300 lík á sólahring) á svæði opnu fyrir almenning að fylgjast með, þeir hafa meira að segja komið fyrir bekkjum svo fólk geti látið fara betur um sig. Það eru margar reglur í kringum þetta allt. Í fyrsta lagi er ástæðan fyrir brennslunni sú að það er verið að hreinsa líkamann, það þarf ekki að brenna alla því það eru ekki allir óhreinir, þeir sem teljast ekki óhreinir er hent beint út í ánna með steina bundna við líkamann en mjög oft losna böndin þegar líkið er búið að vera í einhvern tíma og fljóta þau þá upp á yfirborðið. „Hreint“ fólk eru börn, óléttar konur, heilagir menn, fólk sem hefur verið bitið af snák, fólk með hlaupabólu og fleira. Flestir teljast því óhreinir og þarf að hreinsa þá með því að brenna þá á báli, eru það ættingjar hins/hinnar látnu sem sjá um að brenna líkið en karlmenn er bara leyfðir því konurnar eru of tilfinninganæmar og má ekki fella tár við þessa athöfn. Athöfnin byrjar á heimili hins látna þar sem hann/hún er þrifin og líkið smurt með einhverskonar efni og það fært í klæði (hvítt fyrir karla en rautt fyrir konur)og skreytt með blómum, síðan bera karlmennirnir líkið eftir götunni og niður að ánni þar sem viðurinn sem þeir hafa keypt bíður þeirra. Fyrst fara þeir með líkið í ánna og skola það, setja það svo á viðinn, strá dufti á það svo það brenni betur og kveikja svo undir. Það tekur svo um þrjá og hálfan tíma fyrir líkið að brenna alveg. Okkur skildist að það eina sem brennur ekki á líkamanum sé naflinn en hann er eins og gúmmí sem skreppur saman, ættingjarnir leita svo af naflanum í öskunni og fleygja honum í ánna, þegar því er lokið eiga allir ættingjar að taka sopa úr ánni (Indverjar hljóta að hafa gríðalega sterkt ónæmiskerfi) og að lokum er eldurinn slökktur með vatni úr ánni. Það er greinilega samt ekki svo mikilvægt að naflinn haldist í ánni því við fylgdumst með þar sem hundur kom, hoppaði útí ánna á eftir honum og gæddi sér á herlegheitunum. Síðan skiptir máli hversu mikinn við ættingjarnir geta keypt því hann er víst mjög dýr og hafa margir ekki efni á að kaupa við sem nær að hylja allan líkamann frá höfði til iljar þannig að oft stendur höfuðið útúr ásamt fótunum og þurfa því ættingjarnir að bíða eftir að miðjuparturinn brenni svo þeir geti stungið restinni inní eldinn (þið afsakið hreinskilnar lýsingar en svona er þetta þarna og er eðlilegasti hlutur í heimi). Einn ferðamaðurinn sagði að hann hafi horft á ættingjana hlaupa á eftir höfði sem hafði sloppið úr bálinu. Það var mjög skrítið að fylgjast með þessu en samt eitthvað svo rosalega eðlilegt á þeim tímapunkti. Svo í byggingunum fyrir aftan brennslustöðvarnar býr sjúkt og gamalt fólk sem bíður eftir að deyja svo það verði hægt að brenna þau en þannig spara þau ættingjum ferðakostnaðinn á líkinu, alltaf svo hagsýnir. Allsstaðar við ánna má líka sjá alla þessa heilögu menn og það eru nokkuð kátir kallar og mjög litskrúðugir allir saman, málaðir ýmist hvítir eða gulir. Um kvöldið var svo einhverskonar hátíð þar sem munkar færðu þakkir sínar til Ganges og kyrjuðu eitthvað óskiljanlegt.
Daginn eftir löbbuðum við meðfram ánni og fylgdumst með lífinnu við hana, þarna er fólk alltaf að baða sig, þvo föt, veiðandi fisk og fleira, skiljum samt ekki hvernig fólk hefur list á að borða fiskinn þarna því þeir lifa bókstaflega á líkum manna, eins er erfitt að trúa að þeir verði mjög hreinir á baði í þessari á .
Þriðja daginn í Varanasi var Gréta komin með eitthvað kvefslen og lá í rúminu allan daginn, borgin greinilega ekki alveg að fara vel í hana og þaðan í frá fór allt niður á við. Þegar við vöknuðum var svo mikil þoka að við sáum ekki ánna frá svölunum en ætlunin var að fara í siglingu á ánni áður en við færum á lestarstöðina en við áttum pantaða lest til Delhi sem átti að koma hálf tólf að hádegi, eftir morgunnmatinn lagaðist skyggnið örlítið og við létum slag standa og skelltum okkur í klukkutíma siglingu á Ganges ánni. Við mættum á lestarstöðina á síðustu stundu og hlökkuðum til að komast í kojuna þar sem heilsan var ekki upp á sitt besta. Þorri byrjaði á að stíga í mannahlandspoll í sandölunum sínum og teljum við það hafa verið merkið um það að þar áttum við að snúa við og hætta við þessa lestaferð og fara bara daginn eftir. En nei við gerðum það ekki og gerðum það ekki heldur í öll þau skipti sem lestinni seinkaði alltaf meira og meira vegna þokunnar. Biðum á lestarpallinum í um fjóra klukkutíma, það var bara eitt skemmtilegt sem gerðist og það var þegar það stóð fyrir framan okkur virkilega pirrandi sölumaður sem var búinn að standa fyrir framan okkur mjög lengi en allt í einu kemur naut röltandi að okkur og stangaði sölumanninn í burtu, við gátum ekki haldið niðri í okkur hlátrinum og sölumaðurinn sást ekki aftur en nautið varð nýji besti vinur okkar. Það er alveg ótrúlegt hvað Indverjar geta verið miklir sóðar en þeir (þá karlmennirnar) míga og gera þarfir sínar ALLSSTAÐAR, skiljum ekki hvernig þeir geta ekki bara farið á klósettið eins og konurnar gera greinilega, þar að leiðandi er lyktin í landinu með hlandskýi yfir sér og lestarstöðvar eru sértaklega slæmar. Hérna láta foreldrarnir líka börnin hoppa niður á lestarteinana til að gera þarfir sínar þar í staðin fyrir að rölta með þau á almenningsklósettið, horfðum á eitt mjög óþægilegt atvik þar sem ein mamman henti krakkanum sínum á teinana og lestin var alveg að koma, hún náði sem betur fer upp aftur. Við höfum stundum djókað með það að Indland sé stundum eins og eitt stórt almenningssalerni. Lestin lét svo loksins sjá sig og við fengum okkar kojur og sváfum eins og steinar alla nóttina, við áttum að koma til Delhi klukkan 8 um morguninn en klukkan tvö vorum við ekki enn komin og þar sem við vorum ekki með neinn mat fór Þorri og pantaði mat fyrir okkur, eftir að hafa borðað hann komumst við að því að það vantaði aðal bakpokann okkar með flest öllum okkar mikilvægu og verðmætu hlutum í. Einhver hafði náð að koma inn í klefann okkar, tekið bakpokann og stokkið með hann út úr lesinni (dyrnar sem áttu að vera læstar voru opnar) hugsanlega þegar Þorri fór og pantaði matinn. Við skiljum engan vegin hvernig þetta var mögulegt því Gréta lá vakandi í efri kojunni og svo var annað par sem lá í neðri kojunni við hliðina á þar sem kojan hans Þorra var (þar var pokinn). En það breytir ekki öllu pokinn var horfinn ásamt fartölvunni, myndavélinni, videovélinni, símanum, visa korti, lítilli dagbók, nokkrum jólagjöfum og helling af allskonar hlutum sem við notum dagsdaglega svo ekki sé talað um innihald tölvunnar sem var nú glatað en þá helst öll videoin sem við höfum tekið en myndirnar eigum við nær allar á öruggum stað, þökk sé Dropbox. Það er því miður mikið af svona „fagmönnum“ hér í landi en þetta hefur verið einhver sem hafði verið búinn að fylgjast með okkur lengi. Parið í hinni kojunni (þetta er svona fjögurramanna klefi sem er lokaður með gardínum) var virkilega yndælt og vildi allt fyrir okkur gera, fóru með okkur að leita í stórum hluta lestarinnar því þegar við fórum til lögreglunnar í lestinni ypptu þeir bara öxlum og vildu ekkert gera. En það var svo sem vitað að einhver hafði hoppað úr lestinni og þá ekkert hægt að gera.
Þegar við komum loksins til Delhi eftir 27 tíma lestaferð sem átti að vera 16 tímar fórum við beint á lögreglustöðina til þess að fá skýrslu og tók það þá 4 tíma að búa hana til því þeir voru miklu uppteknari í að hlægja, segja hvor öðrum brandara og veifa byssunum sínum út í loftið, ekki alveg það sem við þurftum á að halda, fyrir utan það þá talaði eiginlega enginn þeirra ensku svo það var lítið hægt að útskýra. Komumst svo loksins á gistiheimilið okkar og það má segja að við höfum verið nokkuð buguð á þessum tímapunkti.
Í gær vöknuðum við svo og vonuðum að þetta hafi bara verið vondur draumur, opnuðum þriðjudagsbréfið okkar sem var kveðja frá ömmu í sveitinni þar sem var tilvitnun í Buddha um að maður eigi ekki að hugsa um fortíðina heldur lifa fyrir augnablikið og var það virkilega viðeigandi þennan daginn og ákváðum við að ekki láta þetta eyðileggja meira en það hafði nú þegar gert. Fórum því brosandi út í daginn sem reyndar byrjaði á enn einum vonbrigðunum þegar við mættum á skrifstofu Qatar airways þar sem átti að bíða okkar bætur vegna flugsins sem þeir klúðruðu í Qatar, þennan pening ætluðum við okkur að nota í að endurnýja það sem við höfðum misst, en þar beið okkar bara leiðinlegt starfsfólk sem ekkert vildi fyrir okkur gera og fengum við ekki neitt. Engu að síður fór dagurinn í það að skoða myndavélar og tölvur. Það er ákveðin lífsreynsla að ferðast með metrolest hér í Delhi því maður þarf bókstaflega að pakka sér inn í lestina og ýta ef þú ætlar að komast með og má segja að sá hæfasti lifir af í því samhengi. Eftir mikið labb og búðarölt fjárfestum við einu stykku lítilli fartölvu og fundum myndavélina sem við ætlum að kaupa í dag. Síðasta indverska kvöldmáltíðin var svo á Subway, en stundum verður maður að komast í eitthvað kunnuglegt en við réttlættum þetta með því að fá okkur tandoori bát með myntusósu.
Í kvöld eigum við svo flug til Kathmandu höfuðborg Nepals en við erum full tillhlökkunar fyrir því, höfum heyrt að það sé aðeins afslappaðara þar en hér í Indlandi og verður það góð tilbreyting.


Svo eins og áður kemur hér smá samantekt:

Jákvætt:
-Getur pantað hvað sem er á matseðlinum og getur verið viss um að maturinn sem þú færð er góður
-Hinn almenni Indverji er mjög yndæll og vill allt fyrir mann gera (getur reyndar verið flókið að sigta þessa almennu út frá hinum leiðinlegu sölumönnum)
-Mjög þægilegt veðurfar (á þessum árstíma)
-Möguleikinn á að geta ferðast í rúmi yfir nótt og losna þannig við kostnað af hóteli og missa ekki út heilu dagana í ferðalög
-Hægt er treysta lesta- og rútukerfinu hérna (þ.e. fyrir utan þessa síðustu hryllingsferð)
-Sama hversu ódýrt og lélegt gistiheimilið er, það er alltaf sjónvarp með fjölda stöðva inn á herbergjunum
-Merkilegir og fallegir staðir út um allt og erfitt að velja og hafna
Neikvætt:
-Svindlarar og þjófar leynast hér út um allt og þarf maður að vera stanslaust á varðbergi og treysta engum, sem er sérstaklega leiðinlegt þegar maður lendir loks á einhverjum almennilegum
-Landið lyktar af hlandi (að vísu með reykelsis og karrý lykt inn á milli)
-Að vera rænd
-Fær hvergi að vera í friði þegar maður gengur um göturnar, allir að garga til að ná athygli manns í von um að koma manni í búðina sína
-Óhreinindin á götunum, þau eru að vísu ekki jafn mikil og í Egyptalandi en þar sem naut, geitur, hundar og menn ganga laus um allar götur er skítur út um allt og þarf maður því að passa hvert einasta skref
-Lögreglan í landinu er jafn gagnslaus og ruslatunna í Egyptalandi
-Hvað kjötið hér er varasamt og maður þarf oft að velja grænmetisrétti fram yfir girnilegri kjötrétti
-Hvað allir virðast finnast þeir knúnir til þess að ljúga, þeir ljúga að manni um minnstu ómerkilega hluti sem skipta samt engu máli

Það sem kom mest á óvart:
-Hvað fátæktin er rosalega sýnileg og mikið um börn sem búa á götunni og neyðast til að hugsa um sig sjálf og jafnvel lítil systkini sín líka
-Hversu landið er virkilega stórt og getur verið flókið og tekið óratíma að fara frá punkti A til B
-Að frægðin hafi ekki stigið okkur til höfuðs og við sátum fyrir á myndum með heimamönnum allt til enda dvalarinnar hér
-Hvað Bollywood tónlistin og myndirnar er virkilega stór og vinsæl hérna
-Hvað það eru margir starfsmenn alltaf sama hversu búðin er lítil. T.d. fórum við inní eina mjög litla ísbúð þar sem voru fjórir starfsmenn og plús einn gjaldkeri

Það sem stóð upp úr:
-Ellora og Ajanta hellarnir
-Kamelsafaríið
-Að sitja á rooftop veitingastöðunum á kvöldin
-Bíóferðin á Bollywood myndina
-Taj Mahal
-Göngurnar um bakka Ganges og upplifunin sem þeim fylgdi

Hér koma síðan nokkur verðdæmi:
-Hótelherbergi : 500-1.500 kr.
-Þriggjarétta kvöldverður fyrir tvo: 800 – 1.000 kr.
-Einkabílstjóri í heilan dag: 700 kr.
-Klukkutíma sigling á Ganges fyrir tvo: 400 kr.
-Líter af vatni: 40 kr.
-Bjór: 260 kr.
-12 tíma rútuferð: 1.200 kr.
-Inngangseyrir í Taj Mahal: 1.800 kr.

Tími í rútum og lestum (þetta eru ekki haldbærar upplýsingar þar sem allar skráningar fóru með töskunni okkar en þetta það sem okkur minnir): 109 klst. sem gerir rúma 4 sólarhringa.

Hér er svo kort af leiðinni sem við erum búin ad fara:

P.s. Náðum svo þeim merka áfanga að fá ekki í magann hér í Indlandi en það er víst mjög sjalgjæft, sérstaklega eftir að hafa verið hér í tæpan mánuð.

P.s. II Vorum búin að setja saman skemmtilegt myndband um Indland sem átti eftir að setja á netið, en sá eini sem getur fengið að njóta þess er Indverja asninn sem rændi töskunni okkar.  Við gátum heldur ekki sett inn fleiri myndir núna en við munum setja inn myndir  á facebook um leið og við getum.

23 ummæli:

  1. Hæ,,, það er spurning með að ég skjótist þarna út og taki að mér löggæslu ;-) gangi ykkur annars vel og ég er viss um að ferðin til Nepal verður mikil upplifun. Bestu kveðjur
    Höskuldur

    SvaraEyða
  2. Elsku Þorri og Gréta það er ótrúlega gott að heyra frá ykkur og heyra hvað þið eruð jákvæð og brött eftir þessa leiðinlegu lífsreynslu. Mestu máli skiptir þó að þið eruð heil á húfi og að ekkert kom fyrir ykkur sjálf. Góða ferð til Nepal og ég hlakka til að lesa frá ævintýrum ykkar þar. Hérna biðja allir kærlega að heilsa ykkur. Bestu kveðjur mamma.

    SvaraEyða
  3. Já það ætti sko greinilega vel við Bjarna og Eyþór að skella sér í bíó í Indlandi hehe ;) En þetta land hefur greinilega upp á ýmis ævintýri að bjóða. Góða ferð til Nepal :)

    SvaraEyða
  4. Elsku Þorri og Gréta. Það er gott að þetta leiðinda atvik truflar ekki ferðina ykkar og það sem mest er um vert að þið sjálf eruð ósködduð. Það er greinilega mikil upplifun að ferðast um Indland og ótrúlegt að lesa um greftrunarsiði þeirra. Vonum að þið njótið dvalarinnar í Nepal og eins og stóð í þriðjudagsbréfinu ykkar, verið ekki að velta ykkur upp úr því sem liðið er heldur njótið dagsins og passið hvort annað.
    Kveðja frá ömmu og afa á Blönduósi.

    SvaraEyða
  5. Eins og alltaf var frábært að lesa bloggið ykkar :) þrátt fyrir leiðindar atvik. fannst reyndar best setningin um lögregluna á Indlandi -Lögreglan í landinu er jafn gagnslaus og ruslatunna í Egyptalandi- :)

    Kveðja Heimir og Inga

    SvaraEyða


  6. Þetta er sannkölluð ÆVINTÝRAFERÐ hjá ykkur ;o)
    ahaha... góð samlíking með lögregluna og ruslatunnuna í Egyptalandi ;o)
    Ég skelli hló og sá þetta alveg fyrir mér með nautið sem stangaði sölumanninn ahahaha.....þið þyrftuð að hafa svona naut með ykkur alla daga ;o) Þetta hefur svo verið ansi neyðarleg stund þegar þú helltir niður í bíóinu ;o)
    Þið eruð ótrúlega dugleg, takk fyrir gott blogg.
    Gangi ykkur sem allra best á næsta áfangastað ;o)
    Bestu kveðjur
    Mamma ;o)

    SvaraEyða
  7. Komi þið sæl og takk fyrir þetta skemmtilega blogg. Látið þetta ekki fá á ykkur þið eruð bæði heilbrigð og eruð að skemmta ykkur, þetta eru bara hlutið sem alltaf er hægt að bæta þó það sé leiðinlegt að taka dagbók og myndum. Njótið þess bara að ferðast og hugsið jákvætt um væntanleg ævintýri til ferðaloka. Okkar bestu kveðjur Pabbi og Sandra

    SvaraEyða
  8. Það hefur verið viðeigandi að taka umslagið upp frá mömmu. Ég er samt fegin að þeir stálu ekki umslögunum líka helvískir...
    Finnst ótrúlega leiðinlegt að þið misstuð svona mikið af dótinu ykkar.
    En þið eruð nú einstaklega bjartsýn og jákvæð. Góða ferð til Nepal!
    kiss kiss
    Jóhanna María

    SvaraEyða
  9. Vá, hvað ég vorkenni ykkur að hafa lent í þessu .. þetta eru jú "bara" hlutir og mikilvægara að hafa heilsuna og hvort annað en þetta hefur auðvitað sett strik í reikninginn. Gott að þið eruð komin með nýja litla tölvu :)Segi það sama og JMK .. gott að hann náði ekki þriðjudagsbréfunum :) Hlakka mikið til að lesa ferðasöguna frá Nepal og ég er svo ánægð með samantektina ykkar, algjör snilld. Knús til ykkar! kv. Inga Heiða

    SvaraEyða
  10. Mikið er nú gott að fá þessar fréttir af ykkur. Og þær eru alveg magnaðar þessar ömmur toppa alltaf á réttum tímum.Góða skemmtun áfram
    KVeðja Raddý

    SvaraEyða
  11. Vonandi verður Nepal betra ;) örugglega mjög herðandi að fara í gegn um Indland og þetta rán :/ En gott að þið eruð komin með einhverjar græjur aftur :)
    ps. Þessi síða verður/er örugglega gullnáma fyrir fólk sem ætlar að fara að ferðast! good job ;D

    kv. Inga :)

    SvaraEyða
  12. hahaha..er að fíla hvernig stóri broskallinn fékk yfirvaraskegg með þessari skrift haha ;)

    kv. Inga aftur

    SvaraEyða
  13. Gott að heyra frá ykkur elskurnar, Já það er víst partur af ævintýrinu að lenda í ráni, en þið lærið af þessu eins og öðru, Þið farið varlega í Nepal ,vonandi hefur Dagný sagt ykkur hvað á að varast.t.d. að ferðast með öruggum aðilum. Gangi ykkur vel,, og vonandi eru engir Indverja asnar í Nepal. Kær kveðja, hlö.kkum til að fá meira að heyra. Amma og afi Rvík.

    SvaraEyða
  14. Halló, Alla heiti ég og tengist mömmu þinni þar sem Höskuldur og maðurinn minn eru náfrændur:-) Mamma þín er svo dugleg að benda á bloggið ykkar að ég kíki oft og öfundast yfir að maður hafi ekki farið út í svona reisu fyrir 10 árum. Leiðinlegt að lesa um ránið en mikið hlýtur þetta að vera mikil upplifun!
    Hafið það gott í Nepal
    Alla Drangsnesi

    SvaraEyða
  15. Hæ snúllurnar mínar. Ömurlegt þetta með tölvuna, myndavélina og allt hitt!! Þetta er svo svekkjandi en einmitt... gleyma fortíðinni og halda bara áfram.... ! Já, Indland er bæði sjokkerandi, pirrandi, þrungið, óhreint en ótrúlega heillandi á sinn hátt. Það verður mikill léttir hjá ykkur að koma í fjallaloftið og kyrrðina í Nepal. Ég er svo spennt núna að heyra frá ykkur þegar þið komið til Nepal... ÉG er sko með ykkur í huganum en væri til í að vera þarna með ykkur....!! Þið eruð ótrúleg að hafa komist í gegnum Indland án magavandamála..... sjáum hvað Nepal gerir ;) KNús til ykkar beggja og gangi ykkur vel í Nepal!! Dagný

    SvaraEyða
  16. Svo gaman að fylgjast með ykkur og verð að segja að ég öfunda ykkur smá ;) Merkilegt með líkbrennslurnar! og helv. þjófar en bara líta á björtu hliðarnar ;D

    kveðja, Bubba!

    SvaraEyða
  17. Elsku ferðalangar.
    Það var æðislegt að heyra frá ykkur - jákvæð og bjartsýn altaf - líka þegar er auðvelt að vorkenna sér dálítið, ég vissi alveg að þið tækjuð mótlætinu þannig. Þorri - ég ætlaði ekki að trúa hálsskrautinu sem þú ert með á myndinni - hvernig er þetta hægt, ég fékk hroll!!!
    Fyndin lyktarsamsetning hlandlykt + karrý og reykelsi - virkar mjög framandi. Ég held að Nepal verði yndislegt - eins og allt hitt. Njótið lífsins - og góða ferð áfram.
    kveðjur
    amma

    SvaraEyða
  18. Já ég hefði sko til í að vera með ykkur í bíó þetta er draumurinn að lifa sig almennilega inn í myndina :)
    Þegar ég las þetta um að fólkið fá sér síðan eitt glas að dekka úr ánni þá muynaði engu að ég hafi ælt.. Þegar ég hugsaði um þessa hluti sem fara útí ánna... Er ekki í lagi heima hjá þeim...
    Gott að þið séuð komin með nýja tölvu og myndvél vona að allt gangi bara vel í framhaldinu...
    Hlakka til að heyra frá ykkur.. kv. Bjarni Freyr

    SvaraEyða
  19. Helga Gunnarsdóttir24. nóvember 2011 kl. 21:12

    Elskurnar mínar! Þetta er hræðilegt allt saman, en gott að þið hafið eitthvað hjá ykkur ennþá og erðu heil heilsu! Það er augljóslega ekki hægt að verjast þessum ræningjum og ruplurum þegar þeir eru á þessum klassa sem þeir augljósega eru þarna niðurfrá. Bréfið frá Grétu ömmu hefur heldur betur komið á réttum tímapunkti :)

    En það hefur augljóslega verið frábært að fara í bíó þarna enda finnst mér Boolywood myndir frábærar ;) Og get ég rétt ímyndað mér að Taj Mahal sé stórkoslegt í allri sinni dýrð!

    Vona að Nepalar komi betur fram við ykkur. Passiði vel uppá hvort annað og ég hlakka til að lesa næsta blogg frá ykkur.

    Knús og kram
    Helga Gunn

    SvaraEyða
  20. Jóhanna Finnbogadóttir24. nóvember 2011 kl. 23:48

    Sæl Gréta og Þorri,
    Þú veist ábyggilega ekki hver ég er en ég er frænka þín Gréta, mamma er systir Kristjáns.
    Alla vega ofsalega er gaman að lesa þetta frá ykkur. Ég hef verið í Nepal og það er bara æðislegt þó það séu 14 ár síðan. Tíbet er líka eitthvað sem er þess virði en á þessum tíma er mjög kalt þar.
    Kveðja,
    Jóhanna Finnbogadóttir

    SvaraEyða
  21. Ótrúlega leiðinlegt að hafa lent í ráninu en ótrúlega heppin að hafa verið búið að setja öll blogg og myndir og allt þannig á netið eða öruggan stað :D

    Njótið bara ferðarinnar áfram :D

    SvaraEyða
  22. Fólk getur verið svo illa innrætt...en þið látið greinilega ekkert á ykkur fá elskurnar ;)
    Hlakka til að sjá mynd af svefnrútu =)
    Góða ferð (áfram) ;)

    SvaraEyða
  23. Gaman að lesa nýtt blogg frá ykkur þótt það sé ekki gaman að heira hvað kom fyrir. Það er gott að vita að þið séuð komin til Nepal maður býst þá við myndum af toppi Everest í næsta bloggi :)

    SvaraEyða