fimmtudagur, 10. maí 2012

Í Kínaveldi

Þann 1. maí yfirgáfum við Filippseyjar og ef við eigum að vera alveg hreinskilin þá var ekki mikill söknuður þar á ferðinni, enda alltaf spennandi að koma á nýjan stað. Lentum í Hong Kong þar sem allt var svo hreint, fínt, skipulagt og stórt! Hoppuðum upp í tveggjahæða strætóinn á flugvellinum og brostum út af eyrum þegar við sáum sætisbelti, það eru ekki einu sinni belti í strætóum á Íslandi og já enn og aftur þá þarf ekki mikið til að kæta okkur. Fundum litla kompu til að gista í, í Kolwoon hverfinu, sem var á 13. hæð í einu af háhýsunum þarna í Hong Kong. Erum nokkuð viss um að brunavarnaeftirlitið er ekkert alveg að standa sig í þessari annars ágætu borg, okkur langar ekki einu sinni leiða hugann að því hvernig fólk eigi að koma sér úr þessari byggingu myndi kveikna í. Verðið á gistingunni þarna sveið þar sem það var svona fjórum sinnum dýrara en gegnur og gerist í þessari ferð okkar.

Fyrsta verk á dagskránni var auðvitað að skella sér í H&M en það var búið að vera mikil eftirvænting eftir því hjá öðrum helmingnum. Það þarf varla að taka það fram hvað Þorri stóð sig með prýði eins og alltaf í að halda á pokum og koma með verslunarhvatningaorð.
Dagur tvö og þrjú fóru einnig í verslunarleiðangra þar sem við þustum þvers og kruss um bæinn með hraðlestinni og auðvitað var stoppað vel og lengi í uppáhalds búð allra íslenskra kvenna.

Síðan var rölt um hverfið okkar sem iðaði af mannlífi og virkilega skemmtilegt að labba þar um sérstaklega að kvöldi til, enduðum svo á að kaupa okkur auka tösku sem var stútfyllt á nóinu. Hong Kong er lítið annað en háhýsi eftir háhýsi og milljónir manna allir að flýta sér í allar áttir, allir að labba utan í alla og í enda dags er maður orðinn svo þreyttur á öllu saman enda erum við ekki alin upp við svona öfgar þar sem Blönduós og Húnavatnssýslan almennt samanstanda ekki af mjög mörgum háhýsum og fólki að ýta í hvort annað allandaginn (nema kannski á einstaka böllum en það er önnur saga).

Síðasta daginn okkar í Hong Kong fórum við með rútu upp á Ngong Ping fjall, til þess að sjá útsýnið yfir borgina en þegar upp var komið byrjaði að helli rigna og það var þoka yfir öllu þannig að það var lítið hægt að sjá nema auðvitað Búddann Tian Tan sem sat þarna í öllu sínu veldi uppi á toppnum. Þannig að þetta varð engin alvarleg fýluferð og rosalega gott að anda að sér fjallaloftinu og geta rétt úr höndunum til hliðar án þess að vera að berja einhvern frá sér.

Eftir að hafa fengið vegabréfið okkar til baka daginn eftir með vegabréfsáritunina til Kína klára var ekki til neins að bíða nema að skella sér yfir landamærin. Við tóku allskyns lestir og fengum miða strax sama kvöld til borgar sem heitir Guilin, sennilega er þetta bær fyrir kínverjum en þetta er ekkert nema stórborg. Þetta var sem sagt næturlest og tók hún sirka 14 tíma en það er alveg ótrúlega mikill munur að ferðast með næturlestum heldur en næturrútum því í lestunum fær maður sitt rúm, sæng og mjúkan kodda og getur rölt um ef maður er orðinn þreyttur á að liggja. Fyrir utan það hvað maður er miklu öruggari með sig þar sem maður þarf ekki að horfa upp á ástand ökumannsins og minni líkur á að lenda í slysi. Lásum það í Lonely Planet bókinni okkar að það deyja að meðaltali 600 manns á DAG í umferðaslysum í Kína, en þar sem það býr 1,3 milljarður manna hér er það kannski ekki svo há tala sé hún sett í samhengi.

Við höfum ekki farið í næturlest síðan daginn örlagaríka í lestinnni í Indlandi þar sem við vorum rænd flestum mikilvægu eigunum okkar. Ferðinn gekk vel og við vorum komin til Guilin daginn eftir þar sem við fórum beint upp í næstu rútu sem fór með okkur að bæ sem heitir Yangshuo. Það má segja að þessi bær hafi verið ást við fyrstu sýn, það er alveg ólýsanlega fallegt hérna, allir svo vingjarnlegir og sölumenn sem kunna sig. Þetta allt varð Grétu reyndar um megn og lagðist hún strax fyrir komin með einhverja leiðinda flensu, hita og kvef. Þar af leiðandi varð ekkert úr næstu þremur dögum þar sem þeir fóru í rúmlegu milli þess að Þorri fór út og keypti mat.

Í gær ákvað Gréta að þetta gengi nú ekki lengur, við hefðum ekki tíma í svona þannig að við skelltum okkur út og leigðum okkur æðislegt tveggjamanna hjól og hjóluðum hér um allar trissur eins og hinar verstu turtildúfur. Eftir aðeins rúman klukkutíma var ekki mikið eftir af þessari tilbúnu orku þannig að við settumst í skuggan skófluðum í okkur hálfum lítra af ferskum mangósmoothie og fórum upp á hótel.

Í dag fórum við í smá siglingaferð á Li ánni sem var voðalega krúttlegt, en þessi bær og allt í kring er eitthvað svo krúttlegt, held að það sé alveg rétta orðið yfir hann. Silglingin hefði mátt vera miklu lengri því útsýnið var alveg stórbrotið, ólýsanlegt alveg. Eftir siglinguna fórum við inn í byggingu þar sem var til sýnis ýmsar aðferðir við gerð ýmissa hluta, eins og stimlpagerð, pappírsgerð, leturgerð o.fl. Auðvitað talaði leiðsögumaðurinn okkar ekki stakt orð í ensku en það er mjög, mjög sjalgjæft að fólk tali einhverja ensku, sama þótt við séum í svona ferðamannabæ en reyndar er lang stærsti ferðamanna hér heimamenn svo það útskýrir það kannski.
Þessi bær er kominn mjög ofarlega á toppinn yfir uppáhalds bæinn í ferðinni og trónir á toppnum ásamt Udaipur í Indlandi. Mælum með fyrir alla að koma hingað það er svo afslappað, margt hægt að gera (ef maður er ekki veikur) og endalaust fallegt hérna.
Kommúnistarnir hérna í Kína eru hins vegar mjög strangir og eitthvað hræddir við að fólkið sitt láti í sér heyra út fyrir landsteinana og hafa því brugðið á það ráð að loka fyrir allar helstu samskiptasíðurar eins og til dæmis Facebook, Twitter, bloggsíður (þar á meðal þessa) og margt fleira. Meira að segja ef maður googlar eitthvað sem þeir vilja ekki að maður sé að skoða loka þeir fyrir mann, við prófuðum að googla eins og Dalai Lama og ýmiskonar upplýsingar um Kína en komumst ekki inn á neitt því tengt. Mætti halda að þeir hafi eitthvað að fela... En við erum búin að finna leið bakdyramegin með því að borga áskrift.

Á morgun bíður okkar svo 27 tíma lestaferð til borgar sem heitir Chengdu.

Ps. Það eru bara 16 dagar þangað til við leggjum af stað heim til Íslands... 16 dagar erum varla að trúa því!!!

Ps2. HÉR eru myndir frá Filippseyjum

12 ummæli:

  1. 16.dagar!! við erum sko alveg farin að telja niður hérna heima:-) Sýnist á öllu að Kína sé áhugavert að skoða, bestu kveðjur til ykkar, mamma og pabbi.

    SvaraEyða
  2. Ykkur hefur tekist að snúa á Kínverjana og koma blogginu frá ykkur.
    Vonandi eigið þið góða daga í Kína og góða heimkomu eftir rúmar 2 vikur.
    Ástarkveðjur frá ömmu og afa.

    SvaraEyða
  3. Hæ,
    Ætlið þið ekki til Xian og skoða Terracottahermennina?? Ég silgdi á Liánni og alveg heillaðist af fjöllunum i hring og umhverfinu.
    Kveðja,
    Jóhanna Finnbogad.

    SvaraEyða
  4. Þetta hlítur að vera alveg meiriháttar,sé oft svona ferðaþætti frá Kína á Kínversku fréttastöðinni, það er rosalega fallegt sýnist mér. Gangi ykkur vel áfram og vonandi hressistu fljótt Gréta mín, Hlakka mikið til að sjá ykkur hress og kát eftir 16-17 daga. Förum á morgun að skoða íbúðina ykkar, stelpan er að fara. Kær kveðja . Amma Ásta.

    SvaraEyða
  5. 16 dagar já, þetta styttist, og ekki nema rúmur 1 dagur af þessum 16 sem fer lestarferðina til chengdu. En já það verður gaman að fá ykkur aftur heim. og smá úr hinu blogginu, leiðinlegt fyrir ykkur að missa af hvalahákörlunum. Annars bið ég að heilsa Jackie Chan ef þið sjáið hann.

    SvaraEyða
  6. Gaman að heyra frá ykkur :) Vona að þú hressist fljótt Gréta, og vona að þið finnið pandabirnina :) Njótið síðustu dagana vel ;) kv. Bjarni Freyr

    SvaraEyða
  7. 16. dagar það er svo stutt, en samt eruð þið nýfarin :)njótið nú síðustu daganna ykkar og við hlökkum til að hitta ykkur 9.júní ;) já einmitt 9.júní erum við búin að panta hitting þannig það er betra fyrir ykkur að vera laus þá ;)

    Risa knús :)

    kv Inga og Heimir

    SvaraEyða
  8. Mér heyrist Gréta hafi farið hamförum í búðum, ágætt að fá loksins að verlsa eftir svona langa "utanlandsferð" hehe ;) Njótið Kína vel! Ég bið að heilsa pandabjörnunum ef þið sjáið þá ;)

    SvaraEyða
  9. Mig hefur alltaf langað til Kína svo ég verð að fá að upplifa ferðalagið í gegnum ykkur :) Skemmtið ykkur vel og ég hlakka ótrúlega mikið til að fá ykkur heim.

    Kv
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  10. Enn og aftur er skemmtilegt blogg. Ég bið ykkur um að blogga þegar þið komið heim því að skrifin ykkar eru ávanabindandi. Góða skemmtun, þessa síðustu daga og njótið Kína. Þar er örugglega ótrulega margt að sjá. Heilsist ykkur vel og passið hvort annað. kv Jóhanna E.Pá.

    SvaraEyða
  11. Elsku ferðalangar.
    Loksins næ ég að lesa áður en bloggið er orðið of gamalt til að svara því ....
    Finnst ykkur ekki gaman að enda á svona heillandi og spennandi landi eins og Kína er? - hugsið ykkur ef þið hefðuð endað á Filippseyjunum! Síðustu dagarnir verða örugglega stórkostlegir. Og eruð þið að basla með H&M töskuna með ykkur núna? Ég var að heyra af ótrúlegu afreki þínu Gréta María - og fylltist miklu stolti. Kannski fréttist það í næsta bloggi.
    Njótið ferðarinnar til enda og gangi ykkur vel!
    kveðjur
    amma

    SvaraEyða
  12. Gaman að þessu bloggi eins og öllum hinum ;o)
    Rosalega fallegt þarna sýnist mér á myndum.
    Vonandi hafið þið það bara sem allra best og passið ykkur á litlu ljótu Kínverjunum sem stela ;o)
    Knús á ykkur og alla pandabirnina ;o)
    Hlakka ekkert smá til að taka á móti ykkur í Keflavík eftir 12 dag, gaman, gaman ;o)
    Bestu kveðjur
    Mamma ;o)

    p.s. á ekkert að smakka rottur, hunda og ketti ?? ;o)
    neineinei.........verið ekkert að því ;o)

    SvaraEyða