fimmtudagur, 17. maí 2012

Gréta og ræninginn


Fimmtudaginn síðasta skildum við við
Yangshuo og kvöddum herbergisfélaga okkar til fimm daga, risastóra vespu sem var með ekki eitt heldur tvö bú inni í glugganum hjá okkur. Samkomulagið okkar á milli var að ef þú angrar okkur ekki, öngrum við þig ekki og það hélt. Við lögðum við af stað í lestarferð til borgarinnar Chengdu í miðvestur-Kína. Byrjuðum á að taka rútu frá Yangshuo til Guilin þaðan sem lestin okkar átti að fara. Þegar við komum á rútustöðina fórum við út úr rútunni og Gréta byrjaði að taka sínar töskur neðan úr geymslunni en á meðan Þorri er að ná í sína tösku sá Gréta út undan sér mann vera að draga veskið hans Þorra upp úr vasanum hans. Það tók hana smá stund að átta sig á hvað væri virkilega að gerast en því næst henti hún töskunni frá sér og hljóp á eftir manninum, reif í axlirnar á honum, snéri honum við og hristi hann svo til alveg þangað til hann loks sleppti veskinu. Eftir þetta hljóp hann eins og fætur toguðu í burtu, skíthræddur við hvítu skessuna. Fengum svo „Thumbs up“ frá manninum sem var að vinna í ruslinu. Þetta hefði samt getað endað mjög illa því maður veit aldrei hvernig svona lið er, hann hefði vel getað verið með hníf eða jafnvel byssu og ekki hikað við að nota það. Stendur einmitt í Lonely Planet bókinni okkar að mjög margir ferðamenn hafa verið drepnir fyrir verðmætin sín í Kína. Maður hugsar bara ekki á svona augnabliki enda helltist yfir mann tilfinningin þegar við vorum rænd í Indlandi og það er eitthvað sem maður vill ekki upplifa aftur, þó svo að það hafi verið mun minni verðmæti í þessu veski heldur en voru í bakpokanum okkar þá. Þorri mundi samt eftir að þessi maður var búinn að vera að þvælast fyrir honum á meðan hann var að ná í töskuna en þá hafði hann verið að losa töluna á innanverðum vasanum og ekki náð veskinu strax. Það verður ekki annað sagt en að þessir menn kunni sitt fag. Þorri hafði séð þennan mann áður sveimandi í kring um sig og hélt að hann hefði verið með okkur í rútuni og væri bara æstur í að ná töskunni sinni úr rútunni, eins og svo margir Kínverjar eru við heimkomu. Allt í einu öskrar Gréta á hann að passa sig og því næst stekkur hún á mannin, Þorri hélt hins vegar bara að önnur rúta væri að koma og hún ætlaði að bjarga manninum frá því að verða fyrir henni. Því næst sér Þorri að maðurinn missir veskið sitt í jörðina, beygir sig eftir því með það í huga að rétta honum það.


En þegar betur er að gáð var þetta veskið hans Þorra, það er ekki fyrr en á því augnabliki sem Þorri áttar sig á því sem er að gerast. Semsagt þessir menn vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera, velja augnablik þar sem athyglin er annars staðar og ríða á vaðið, ef ekki hefði verið fyrir vökul augu Grétu hefðum við ekki fattað að veskið vantaði fyrr en við þurftum að sýna lestamiðana okkar, sem við geymdum í veskinu, til að komast um borð.
Lestaferðin tók tæpar 29 klukkustundir og ótrúlegt en satt þá leið ferðin mjög hratt, hún var hins vegar stórfurðuleg. Klefafélagar okkar skelltu bjórkassa á gólfið og unnu sig hægt og rólega í gegn um hann um kvöldið, ásamt því að stúta a.m.k. einum viský pela með tilheyrandi röfli. Í matsalnum lá áfengisdauður maður á einu borðanna og um fimmtán miðaldra kerlingar sungu, görguðu og dönsuðu mest alla ferðina á meðan gamall maður sem þær voru með í eftirdragi kvikmyndaði herlegheitinn, best fannst okkur þó þegar lestin var þrædd eins og hún leggur sig í „allir dansa kónga“.
 Kínverjar geta verið alveg ótrúlega ótillitsamir (hvort sem það er menning eða ekki mennig) en þeir reykja ofan í mann stanslaust hvar sem maður er. Í lestinni voru að minnsta kosti þrír karlmenn sem reyktu nánast stanslaust alla ferðina inn í lestarklefanum þó svo að skilti sögðu til um að það væri bannað og önguðum við eins og öskubakkar þegar við stigum út úr lestinni daginn eftir. Þegar við mættum á lestastöðina í Chengdu fengum við mjög góðan göngutúr þar sem við vorum að reyna að finna neðanjarðarlestina eltum fjöldann allan af skiltum sem sögðu okkur alltaf að fara í mismunandi áttir. Eftir að hafa reynt að spyrja fólk til vegar gáfumst við endanlega upp og tókum leigubíl. Seinna komumst við að því að það er engin neðanjarðarlest á stöðinni þrátt fyrir mörg skilti sem bentu hingað og þangað.
Laugardagurinn var ótrúlega grámyglulegur, þar sem það ringdi og var skítkalt ákváðum við bara að skella okkur á Subway og setja svo mynd í tækið á hótelinu. Horfðum á myndina „The Lady“ sem fjallar um Aung San Suu og ástandið í Búrma, mælum eindregið með að fólk horfi á þessa mynd, ótrúlegt hvað er mikil spilling í þessu landi. Við erum viss um að við hefðum aldrei farið þangað í desember vitandi af hversu slæmt ástandið væri, maður á ekki að styðja við svona því með að fara þangað er óhjákvæmilegt að einhver peningur fari til herforingjastórnarinnar, þó svo að við pössuðum okkur mikið hvar við gistum og hvaða ferðamáta við notuðum til þess að styðja frekar við einkafyrirtæki.
Um kvöldið fórum við hins vegar í hina frægu Sichuan óperu en Chengdu er í Sichuan héraði, héraðinu sem varð fyrir stóra skjálftanum árið 2008 þar sem 88.000 manns létu lífið og yfir 11 milljónir urðu heimilislausir. Óperan var ótrúlega flott, búningarnir, tónlistin og allar grímurnar. Skiljum samt ekki afhverju þetta er kallað ópera þar sem það var enginn sem söng neitt, þetta var meira bara svona „show“. Aðal númerið í sýningunni voru grímuskiptin þar sem nokkrir grímuklæddir menn stigu á svið og dönsuðu, síðan á einhvern óskiljanlegan hátt skiptu þeir um grímur á svipstundu. Án þess einusinni að snerta grímuna sína breyttist hún um lit og svipbrigði eða bara hvarf og byrtist aftur seinna, heimamenn segja að þeir notist við galdra og við höfum enga gáfulegri skýringu. Það var einnig fólk á sviðinu sem skipti um föt á sama hátt, alveg ótrúlegt að fylgjast með þeim.
Daginn eftir löbbuðum við mikið um borgina, þræddum markaði, gamlar götur og stóran samkomugarð. Áður en við fórum í garðinn héldum við að þetta væri bara rólegur garður og fjölskyldur í lautarferð, nei nei þetta var eins og að ganga inn í fuglabjarg. Allskonar „tónlistaratriði“ þar sem fólk kepptist um að hafa sem allra hæst í hátölurunum, fólk að dansa við dúndrandi tónlist, menn í karaókí, lúðrasveit sem hafði aldrei farið á eina einustu æfingu saman og svo framvegis. Ef maður er ekki með höfuðverk áður en maður fer í garðinn má bóka að maður fer út úr honum með hann.Við höfum tekið eftir að Kínverjar eru yfirhöfuð rosalega háværir, sérstaklega þegar þeir tala í símann og bara þegar fólk situr hlið við hlið í rólegheitunum finnst þeim þau þurfa að öskra til þess að koma orðunum frá sér. En það er kannski ekki svo skrítið í svona stóru landi með svona mörgum íbúum.
Á þriðjudaginn vöknuðum við snemma en við vorum að fara í garð sem er stór pöndumiðstöð. Tilgangurinn með þessari miðstöð er að viðhalda stofninum (bæði risapöndur og rauðpöndur) sem er í bráðri útrýmingarhættu en það eru aðeins 1600 risapöndur eftir í heminum, þrátt fyrir að hafa lifað í 8 milljón ára. Ástæðan fyrir því að þær eru í útrýmingarhættu núna er sú að til að byrja með voru pöndurnar rándýr en með tímanum hættu þær að borða kjöt og borðuðu einungis eina ákveðna tegund af bambus. Feldurinn þeirra  er líka mjög verðmætur á svörtum markaði auk þess að Kínverjum fjölgar svo hratt að svæðin þeirra verða alltaf minni og minni. Það var mjög gaman að skoða þessa miðstöð og gaman að sjá hvað pöndurnar hafa það gott þarna með stórt svæði útaf fyrir sig, alveg ótrúlega sæt dýr sem éta 16 klukkutíma á dag og sofa restina af sólahringnum, ástæðan fyrir því er að það er svo rosalega lítil næring í bambusnum að þær hafa ekki orku í að hreyfa sig meira en þetta. Þarna var fæðingadeild, sjúkrahús og skóli allt fyrir pöndurnar. Fæðingadeildin er sérstaklega mikilvæg þar sem pöndurnar eignast oft tvö afkvæmi í einu en hugsa bara um eitt og skilja hitt eftir til að deyja, mennirnir sjá þá um greyið sem skilið er eftir.
Samskipti í þessu landi eru ótrúlega erfið eins og við höfum nefnt og í lokinn langar okkur til að koma með eitt lítið dæmi um hvernig það er að tala við einhvern sem „talar“ ensku.

Þorri: Good evening, could I get two towels to room 319
Starfskona: Tower?? (horfir hissa á Þorra og hina starfsmennina)
Þ: No towel, you know after shower to dry yourself (sýnir með handahreyfingum)
S: Oh, you need shower?
Þ: No not shower, a towel!
S: Tower? (eitt spurningamerki í framan)
Þ: No, a TOWELLLLL, there is no towel in my room
S: Oh, you need a room? Do you want one bed or two
Þ: No, I have a room, I need a towel in that room, you know to dry myself after shower (aftur handahreyfingar)
S: There is a public shower, no shower in the room
Þ: Yes I know but I need a TOWELLLL (fann mynd af uppbúnu herbergi og bendi á handklæðið sem liggur á rúminu)
Eftir að hafa spurt aftur hvort ég væri að biðja um herbergi kallaði hún á nýja starfsstúlku og afsakaði sig því hún væri ekki góð í ensku. Eldri kona mætir á svæðið og tilkynnir mér enn eina ferðina að það sé sameiginleg sturta á ganginum sem ég get notað. Sú á jafn erfitt með L-ið og segir Tower? Og þær horfa hvor á aðra, það var ekki fyrr en þær kölluðu á þriðju stelpuna (frá næsta hóteli) að hlutirnir fara að ganga betur, sú skilur orðið „towel“ í fyrstu tilraun og spyr hvort ég þurfi eitt eða tvö. Það má taka fram að þetta er stutta útgáfan af korters samtali, maður getur ekki annað en hlegið af þessum samskiptaörðuleikum okkar við kínverjana.


10 ummæli:

  1. Sæl elskurnar. Gott að fá nýtt blogg. Gréta þú ert snillingur að ná veskinu af kallskömminni en það hefði nú verið brandari ársins ef Þorra hefði svo tekist að rétta honum veskið "sitt" Gott að ekki hlaust verra af þessar uppákomu. Mikið verður gaman að sjá ykkur eftir rúma viku. Vonandi gengur heimferðin vel. Kveðja frá ömmu og afa.

    SvaraEyða
  2. Það eru alveg frábærar lýsingarnar á daglega lífinu ykkar, ránstilraunir, lestarferðir og samskipti við kínverska hótelstarfsmenn;-) Þið ættuð að taka Norðurleiðarrútuna heim og prufa að haga ykkur eins og ferðafélagar ykkar undanfarna mánuði. Hlökkum alltaf meira og meira til að fá ykkur heim, mamma og pabbi.
    PS: Mía er á einhverju vælutímabili og að gera okkur brj....

    SvaraEyða
  3. Takk fyrir frábært og skemmtilegt blogg eftir að ég fattaði ferðalagið ykkar og bloggið.
    Kveðja og velkomin heim.
    Jóhanna Finnbogad.

    SvaraEyða
  4. Gréta þú ert nýja hetjan mín ;)
    En hlakka til að sjá ykkur :)

    SvaraEyða
  5. Usss,,,, Gréta þú hefðir átt að sækja um í lögguna í sumar,,, þú hefðir verið flott fyrir utan félagsheimilið að hrista þá til ha ha,,,,, góða ferð heim. Sjáumst !
    kv
    Höskuldur

    SvaraEyða
  6. OMG hvað ég á eftir að sakna bloggsins ykkar. Mikið er ég fegin að ekkert gerðist hættulegt í þessari árás þinni Gréta mín en ekki vildi ég vera karlinn!
    Hlakka til að sjá ykkur elskurnar og njótið síðustu daganna.

    SvaraEyða
  7. Þetta er greinilega dásamlegt að ferðast um Kína. held að þetta sé fyndnasta bloggið ykkar. Mér fannst bæði lýsingin á því þegar Gréta stökk á þjófinn og þegar Þorri reyndi að fá handklæðið ótrúlega fyndið. En ég er ekki vissum að mér þætti þetta fyndið ef ég væri í þessum sporum.

    Kv
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  8. Elsku ferðalangar.
    Mikið á ég eftir að sakna bloggsins ykkar.
    Kannski að þið bloggið bara eitthvaða úr daglega lífinu hér fyrir norðan. Þið eruð svo mikið ævintýrafólk að ég held að þið haldið áfram að lenda í einhverju spennandi hér líka - (þó að það sé erfitt) Æðislega fyndin samskiptin við enskumælandi Kínverja - hvernig væri að hafa teikniblokk við hendina?
    Við hlökkum mikið til helgarinnar næastu. Ég reyndi að hringja í kvöld - var viss um að þið væruð við tölvuna þótt að væri hánótt!.
    Góða ferð heim.Knús til ykkar.
    amma

    SvaraEyða
  9. Helga Gunnarsdóttir23. maí 2012 kl. 16:34

    Sæl elskurnar!

    Komst loksins inn á bloggi ykkar og hef verið að lesa nokkrar færslur í einu sem voru allar mjög skemmtilegar. Sé þetta alveg ljóslifandi fyrir mér þegar Gréta er að hrista þjófinn til og Þorri skilur ekki hvað er á seiði :) Eins líka með handklæðin og móttökuna! En Kínverjar eru ekki alltaf þeir bestu til þess að tala ensku og að bera hana fram, hins vegar eru þeir oft frábærir í því að skilja ritað mál svo þið pófið það kannski næst ;)

    En núna fer að styttast í komu ykkar og ef veðrið heldur áfram að vera svona er hægt að segja að Húnavatnssýsla taki á móti ykkur í sínu besta skapi :)

    Gangi ykkur vel síðasta spölinn, hlakka mikið til að sjá ykkur!!!
    Knús og kram
    Helga Gunn

    SvaraEyða
  10. Snilldar blogg eins og venjulega. Ég get einmitt samsamað mig við handklæðavandræðin þar sem ég hef þurft að nota látbragð eins og Þorri til að fá eitt stykki. Öfund yfir að hafa séð pöndurnar =D

    kveðja
    Niels

    SvaraEyða