mánudagur, 30. apríl 2012

Fíluferðin til Donsol

Fórum með minivan frá El Nido til Puerta Princesa þann 23. og flugum daginn eftir til höfuðborgarinnar Manila. Að sjálfsögðu var fluginu seinkað en það kom ekki að sök vegna þess að við pössuðum okkur á því að hafa dag á milli næsta flugs því hér er engan vegin hægt að treysta á samgöngurnar hvort sem um flug eða rútur er að ræða. Við eyddum þessari kvöldstund í Manila í rólegheitum upp á hóteli og fengum sendan mat heim til að fullkomna letina. Morgunin eftir hófst leit af leigubíl sem leiddi okkur í frekar fátækt og skuggalegt hverfi þar sem hópaðist að okkur skítugir krakkar að betla pening, sem betur fer þurftum við ekki að bíða lengi eftir næsta bíl en vorum sammála að þarna læddist að okkur tilfinning sem við höfum ekki fundið fyrir síðan við vorum í Nairobi í Kenýja en það er sú tilfinning sem kemur þegar við lítum á hvort annað og hugsum „hvern djöfulinn erum við að gera hér?“. Í Filippseyjum er gríðaleg fátækt, spilling og mjög há glæpatíðni, Manila ber þess greinileg merki og getur verið erfitt að horfa upp á lítil börn sem ganga bílana á milli í von um nokkra Pesóa, hvort sem þeim er svo eytt í mat, fíkniefni eða til að láta einhvern fullorðinn einstakling hafa peninginn sem þrælar þeim út það er önnur saga. Það kom okkur ekkert á óvart þegar okkur var tjáð að fluginu okkar þennan dagin var seinkað enn eina ferðina.
Við lentum í Legazpi á einni flottustu flugbraut sem við höfum séð þar sem útsýnið bauð upp á risa stórt eldfjall sem rauk úr. Ferðin hingað var hins vegar ekki farinn fyrir Legazpi né eldfjallið heldur drifum við okkur með minivan til bæjar sem heitir Donsol en það er lítill bær sem hefur aðeins upp á eitt að bjóða fyrir ferðamenn en þarna koma saman hundruðir hvalhákarla (whale sharks) sem synda um og nærast alveg við yfirborðið. Frá Donsol er hægt að leigja bát sem leitar uppi þessi risa kvikindi og þegar þau finnast er hoppað útí með snorklgræjur og synt ásamt þeim en þeir verða stærstir 14 m á lengd. Við náðum til Donsol rétt fyrir lokun miðstöðvarinnar sem sér um ferðirnar og skráðum okkur í ferð fyrir næsta dag. Við höfðum lesið um að apríl væri frábær mánuður til að sjá hvalhákarlana og að þetta væri ekki spurning um hvort heldur hve marga við myndum sjá, við vorum því virkilega spennt þegar við mættum til skráningar. Dagurinn okkar versnaði hins vegar til muna þegar konan sagði okkur að síðustu fjórir dagar hefðu verið mjög lélegir og dagin áður sáust bara tveir hákarlar. Við mættum eldsnemma dagin eftir með væntingarnar í lágmarki og fórum í rándýra þriggjatíma syglingu án þess að sjá neitt. Við vorum þó ekki tilbúin að gefast upp og skráðum okkur aftur fyrir næsta dag. Því miður var það hins vegar sama sagan og engir hákarlar sjáanlegir. Ferðin til Donsol var því mikil fíluferð enda eina ástæðan fyrir því að við fórum þangað var fyrir hvalhákarlana sem voru meðal annars eitt af því sem við vorum hvað spenntust fyrir áður en við fórum í þessar reisu okkar. Vonbrigðin voru svakaleg en svona er víst móður náttúra og maður verður að taka áhættur ef maður ætlar að reyna að sjá dýrin villt og í sínu rétta umhverfi, annars færi maður bara í dýragarð. Ekki var það svo til að kæta okkur þegar tilkynningin kom um að klukkutíma fluginu okkar til Manila væri seinkað um þrjá tíma, mælum sem sagt ekki með flugfélaginu Cebu Pacific en sennilega er ekkert annað flugfélag í Filippseyjum eitthvað skárra. Í Donsol vorum við samt í einnu bestu gistingu sem við höfum verið í, ekki reyndar í herbergisgæðum séð heldur vorum við bara inná heimili hjá fólki sem leigðu út nokkur herbergi á efri hæðinni heima hjá sér. Það var svo gott að vera inná svona alvöru heimili (home stay)þar sem það voru tannbustar í glasi við vaskinn á klósettinu og matarlykt niðri í eldhúsi, manni leið næstum því eins og maður væri komin „heim“, eini gististaðurinn okkar þar sem maður er ávarpaður með nafni í hvert skipti sem talað er við mann. Ef svo vill til að einhver er að fara á svipaðar slóðir heitir þetta Aguluz Homestay.
Þessir bjuggu fyrir utan herbergið okkar
Leitað af hvalhákörlum
Í Manila áttuðum við okkur á því hversu virkilega lítið er eftir af ferðinni okkar og því opnaði Gréta veskið í tilefni þess, við eyddum deginum okkar í Manila í Mall of Asia sem er ein af tíu stærstu verslunamiðstöðvum í heimi. Þorri sem er virkilega vel upp alinn herramaður gekk á eftir Grétu sinni haldandi á pokunum og fötum á herðatrjám, hann meira að segja kom með einstaka verslunarhvatningar þar sem hann benti á búðir sem átti eftir að skoða eða sagði: ,,Ætlarðu nú ekki að kaupa meira en þetta?“ Gréta mælir sem sagt með honum sem fylgifisk í verslunarleiðangra og planð er að setja hann í útleigu gegn sanngjörnu verði. Núna erum við í bæ sem heitir Angelas sem er einungis í 10 kílómetra fjarlægð frá Mexico en við fljúgum héðan til Hong Kong í nótt með tilheyrandi seinkunum og fjöri. Við erum meira að segja búin að búa til nýjan leik sem heitir: ,,Hversu mikil seinkun verður?“ en það er kærkomin pása frá leikjunum: ,,Hvað er klukkan?“ eða ,,Hvaða vikudagur er í dag?“.
Algengur faramáti
Filippseyjar heilluðu okkur ekkert sérstaklega við fyrstu kynni en okkur leist aðeins betur á landið eftir því sem á leið en kemst ekki eins ofarlega á listan okkar yfir áhugaverðustu löndin eins og við hefðum vonað. Filippseyjingar virðast samt alveg heillaðir af Þorra en hann hefur eignast ótal kúrufélaga hér í hinum ýmsu farartækjum.
Þessir voru hressir

Hér er síðan uppgjörið góða:

Við eyddum rúmum 20 klst. í rútum eða flugvélum (sem er sennilega met)

Jákvætt:
- Það er ekki mikið um ferðamenn og því eru ferðamannastaðirnir nokkuð ósnertir
- Mikið um rafmagnsleysi
- Auðvelt að gera sig skiljanlegan því allir tala góða ensku

Neikvætt:
- Samgöngurnar í Filippseyjum eru þær verstu sem við höfum kynnst í ferðinni. Öllum okkar flugferðum var seinkað og rúturnar hafa ekki tímasetningu heldur er bara farið þegar rútan er full. Þetta getur tekið hálftíma en þetta getur líka tekið allan daginn. Gerir manni mjög erfitt fyrir að plana fram í tímann
- Gisting er mjög dýr miðað við gæði
- Heimamannamaturinn var ekki góður í þau fáu skipti sem við fundum hann

Það sem kom okkur á óvart:
- Að engir hvalhákarlar sáust
- Hversu mikið er um bandarískan skyndibita, sérstaklega í Manila og ber fólkið það líka algjörlega utan á sér
- Verðlag á miðað við gæði
- Hversu lítið er um ferðamenn

Það sem stóð upp úr:
- Hvíldin í El Nido
- Siglingin í El Nido

Verðdæmi:
- 330 ml bjór = 120 kr.
- 1,5 l vatn = 105 kr.
- Máltíð fyrir tvo = 1.000 - 1.500 kr.
- Fjögurra tíma sigling = 2.100 kr. á mann
- Klukkutíma flug fram og til baka = 10.000 kr. á mann
-Gisting = 2.100 – 3.500 kr.

Kort af leiðinni sem við fórum:

10 ummæli:

  1. Það er fúlt að þið skilduð ekki sjá þessa hvalhákarla. Já hann Þorri minn er vel uppalinn drengur;-) Mikið rosalega erum við farin að hlakka til að fá ykkur heim en fyrst eigið þið eftir að njóta Hong Kong og Kína. Hlakka til að fá sögur þaðan. Bestu kveðjur og passið hvort annað á lokasprettinum. Mamma og pabbi.

    SvaraEyða
  2. Leiðinlegt að þið sáuð enga hvalhákarla en það hlýtur nú samt að hafa verið ágætt að fara í svona siglingu.Góða ferð til Hong Kong og skemmtið ykkur vel að versla ;)

    SvaraEyða
  3. leiðinlegt að þið hafið ekki séð neina hvalhákarla :/ Hafði það gott það sem eftir er :)

    Kv.Sara

    SvaraEyða
  4. Gaman að heyra frá ykkur :) Það var nú ekki gott að þið funduð ekki hvalhákarlana ;) Þið eigið þá allavega eitthvað eftir ;) Annars hljómar þetta nú eins og að það sé ekkert agalega spennandi að fara til Philippine.. Annars er nú aldeilis farið að styttast í að þið farið heim vona að þið séuð farið að undirbúa ykkur andlega fyrir íslenskt verðlag þar sem þið eruð að tala um rándýrar siglingar þarna út :) kv. Bjarni Freyr

    SvaraEyða
  5. Fáránlega lítið eftir hjá ykkur :O !! En hafið það bara ótrúlega gott seinasta mánuðinn :D Hlakka ekkert smá til að sjá ykkur í júní ;)

    SvaraEyða
  6. Kveðjur til ykkar frá öllum í Lækjarberginu. Smá spurning í tilefni dagsins: Hver á afmæli í dag?????
    Þetta á amk Þorri að vita. Hlökkum til að sjá ykkur í næsta mánuði. Passið hvort annað á lokasprettinum. Amma og afi

    SvaraEyða
  7. Æj, glatað að sjá ekki whaleskarks :/
    En skemmtið ykkur að versla, öfunda þig Gréta af því hvernig Þorri er í búðunum, hann þarf sennilega að kenna mínum manni eitthvað ;)
    Hlakka til að sjá ykkur!

    SvaraEyða
  8. Alltaf jafn skemmtilegar frásagnir af ferðum ykkar og ævintýrum. Bara yndisleg. Bestu kveðjur til ykkar og það verður gaman að hitta ykkur þegar þið komið heim. Kveðja Raddý
    Ps kveðja frá Míu ég var að klóra henni og klappa áðan, svo fékk hún kisunammi í verðlaun fyrir það hvað hún er alltaf góð.

    SvaraEyða
  9. Leitt að þið sáuð ekki hvalhákarlanna. Góða skemmtun í Hong Kong. Verð að viðurkenna að ég er orðin mjög spennt að fá ykkur heim.

    Kv
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  10. Alltaf jafn spennandi fyrir ykkur að fara í rútu og flugferðir ;o)
    Mín aldeilis komin í lit, lúkkar aldeilis vel þarna á bátnum ;o)
    Rosalega er Þorri góður og vel upp alin, þú ekkert smá heppin að hafa hann þér við hlið ;o)
    Þið eruð greynilega lent í Hong Kong og vonandi eigi þið góða daga þar og líka í Kína ;o)
    Hlakka svo rosalega mikið til að fá ykkur heim og ég ætla sko að verð fyrst til að knúsa ykkur og taka á móti ykkur í Keflavík, heppin ég ;o)
    Alla vega góða ferð það sem eftir er af þessari skemmtilegu ævintýraferð ykkar ;o)
    Bestu kveðjur
    Mamma ;o)

    SvaraEyða