föstudagur, 25. maí 2012

Ferðalok

Dvölin okkar í Xi‘An var voðalega notaleg,
eyddum dögunum þar í að rölta um göturnar og gamla markaði. Aðal ástæðan fyrir komu okkar til Xi‘An voru hinsvegar frægu Terracotta hermennirnir en þetta eru nokkrar risa stórar grafir með um það bil 15.000 leirhermönnum sem skornir voru út fyrir meira en 200 árum fyrir krist, þeir líta allir mismunandi út.
Þarna voru líka þúsundir hesta og mikið af allskonar varning til hernaðar. Ástæðan fyrir því að þetta var gert og grafið þarna neðanjarðar var sú að það var
merkur keisari sem lést og vildi hann ekki fara óvopnaður í næsta líf svo þessi her var gerður fyrir hann svo kallinn hefði einhverja til að verja sig. Það er ennþá mikil vinna eftir því það er stór partur grafarinnar sem á eftir að fara í gegnum.
Fyrir tæpri viku tókum við svo lestina þaðan til Peking sem er okkar síðasta stopp í þessari ferð, sú lestarferð var hins vegar mun viðburðarminni en síðasta lestarferð sem við fórum í.
Erum búin að taka því nokkuð rólega hér í Peking, erum búin að fara í síðustu verslunarferðina, labba mikið um borgina og fórum á torg hins himneska friðar og inn í Forboðnu borgina. Forboðna borgin fannst okkur ekkert allt of spennandi þar sem hvorugt okkar er mikið fyrir gamla kínverska sögu, þarna var ótrúlega mikið af fólki og allir að ýta í alla (sem
er reynar daglegt brauð hér í Kína). Það var í rauninni ekki mikið að sjá þarna inni enda á þessum fáu stöðum þar sem maður gat kíkt inn í herbergi var svo troðið fyrir utan að maður var ekkert mikið að leggja á sig til að komast á milli fólks til þess að sjá eitt rúm eða svo á miðju gólfi. Öll söfnin sem við höfðum lesið um að væru í borginn voru lokuð og því lítið annað að gera en að rölta um og virða fyrir sig byggingarnar sem voru reyndar virkilega flottar. Þennan sama dag kynntumst við skemmtilegum hóp af fólki, einum frá Bandaríkjunum, tveimur frá Kanada og einni rússneskri stelpu. Sá bandaríski náði að tala okkur Grétu og annan Kanadamannin með sér að skoða ólympíuleikvanginn að kvöldi til, hann væri víst miklu flottari þannig. Við vorum reyndar aðeins of sein í því og ekki hjálpaði leigubílstjórinn sem virtist hvorki getað lesið kort né talað kínversku, sá bandaríski talaði kínversku. Þar af leiðandi tók hann okkur risa hring sem endaði með bráðskemmtilegu rifrildi á kínversku milli þess bandaríska og leigubílstjórans.
Að lokum komumst við á réttan stað. Ólympíuþorpið læst og var eins og draugabær, öll ljós slökkt. Við vorum þó ekki tilbúin að játa okkur sigruð, fundum hlið sem auðvelt var að klifra yfir og brutumst því bara inn. Þegar inn var komið leist okkur ekkert á blikuna þegar við sáum öryggisverði út um allt en þeir voru ekkert að skipta sér af okkur, við náðum nokkrum skemmtilegum myndum og brutumst síðan út aftur. Daginn eftir gerðum við ekkert að viti nema hitta fleiri skemmtilega ferðalanga, þá einna helst strák frá Ástralíu sem var nýkominn niður af Everest. Við fórum öll saman út að borða og ákváðum síðan að kíkja á barinn fyrir utan hótelið þar sem við skemmtum okkur konunglega langt fram eftir nóttu. Þegar okkur var hent þaðan út fór Þorri að tala um að honum langaði að heilsa upp á Mao sem liggur uppstoppaður á torgi hins himneska
friðar. Þar sem klukkan var orðin ansi margt og Mao er bara til sýnis fyrir hádegi virtist það eina rétta í stöðuni að vaka bara áfram og vera fyrst á staðinn. Þorri, sá bandaríski og sá ástralski voru þeir einu sem fannst þetta góð hugmynd og fór því restin af liðunu upp á hótel að sofa. Eftir að hafa ráfað um borgina í leit að kaffi mættum við á torgið rétt eftir sjö, við vorum hins vegar langt frá því að vera þeir fyrstu á svæðið, fjöldin allur af kínverskum hópum höfðu safnast fyrir á torginu og var röðin því orðin ansi löng. Við biðum í röðinni í um tvo tíma og komumst loksins inn eftir mikið og strangt öryggistékk. Fyrst gengum við inn í stóran sal þar sem risa stytta af Mao, þakin blómum, stendur á miðju gólfinu. Heimamennirnir stoppa fyrir framan styttuna, fara með stutta bæn og skilja eftir rósir sem seldar eru fyrir utan (líklega eru rósirnar teknar í hádeginu, settar í kæli og seldar aftur næsta dag). Í næsta herbergi er síðan risavaxið glerbox með stóru rúmi þar sem uppstoppaður líkami Mao liggur undir rauða kommúnismafánanum. Það eru verðir allt í kring sem sjá til þess að enginn stoppi og því fékk maður ekki langan
tíma með honum. Það var ótrúlega skrítið að sjá hann liggjandi þarna, líktist helst vaxbrúðu en áhugavert engu að síður. Við vorum reyndar sammála því að okkur fannst meiri virðing sýnd og áhugaverðara að fylgjast með blómagjöfinni heldur en að sjá líkið sjálft því kínverska fólkið lét eins og hann væri einhver Guð. Eins og gefur að skilja var dagurinn eftir tekinn rólega.
Í dag gengum við síðan Kínamúrinn, loksins því við vorum búin að fresta því í þrjá daga vegna slappleika. Við ákváðum að fara á okkar eigin vegum í staðin fyrir að taka skipulagða ferð, okkur langaði ekki að vera háð einhverjum hóp og geta eitt eins löngum tíma á veggnum sjálfum og við vildum en ekki eins og einhver leiðsögumaður nennti. Við fórum ásamt þeim ástralska með lest, rútu og fólksbíl sem við leigðum. Hann skutlaði okkur
að „cable car“ sem tekur fólk upp á múrinn en við vildum frekar labba. Við tók mjög löng ganga upp brattan göngustíg að veggnum, loksins komumst við upp á sjálfan vegginn og byrjuðum okkar þriggja tíma Kínamúrsgöngu. Við gengum eins langt og við mögulega gátum allt frá endurbyggða hlutanum sem við komum upp á, fram hjá „cable car-num“ með sínum lötu ferðamönnum, upp 697 virkilega brött og erfið þrep og alveg að þeim hluta veggsins sem hefur lítið sem ekkert verið snertur síðan hann var byggður. Við létum þar við sitja enda hefði verið mjög hættulegt að halda áfram þar sem veggurinn var ekki í góðu standi. Þá var ekki annað að gera heldur en að labba alla leiðina til baka, við ætluðum sko ekki að taka „cable car-inn“ niður fyrst við höfðum labbað upp. Þetta tók ekki nema þrjá tíma en við náðum ansi stórum hluta veggsins á þeim tíma, við viljum meina að við höfum labbað um 1% hans. Öll þessi þrep 17 vaktturnar, það hlítur að skríða upp í prósentið.

Jákvætt:
-Auðvelt að ferðast með þægilegum næturlestum
-Alltaf gott í matinn
-Svo gott sem engar moskítóflugur
-Ótrúlega margir möguleikar, gætum ferðast hér í ár án þess að sjá allt
-Alltaf heitar sturtur á hótelunum

Neikvætt:
-Erfitt að tjá sig og reyna að gera sig skiljanlegan
-Frekar dýrar gistingar
-Allir labba utan í alla.. alltaf
-Alltaf hörð rúm

Það sem kom mest á óvart:
-Hvað það var lítið reynt að svindla á ferðamönnum (miðað við annarsstaðar í Asíu)
-Hvað fólk er sóðalegt oft, hrækjandi og snýtandi sér í jörðana svo maður þarf að stökkva frá til að verða ekki undir því
-Hvað fólk var duglegt að reyna að hjálpa þrátt fyrir að skilja ekki orð í ensku
-Hvað maður sér lítið af vestrænum ferðamönnum utan Peking

Það sem stóð upp úr:
-Yangshuo, einn af uppáhalds bæjunum okkar í ferðinni
-Pöndurnar í Chengdu
-Óperan í Chengdu
-Terracotta hermennirnir
-Næturlífið í Peking
-Kínamúrinn

Kort af ferðinni okkar í Kína:


Ferðalok

9 mánuðum, 5 flip-flop skóm, 275 dögum, 20 löndum, 8 heyrnatólum, 3 heimsálfum og 34 bloggum síðan og við erum loks að koma heim. Með reynslubankann stútfullan og mun betri sýn á heiminn og lífið í heild. Þetta er búið að vera eitt heljarinnar ævintýri þar sem við höfum séð bæði það vona og góða í heiminum, upplifað hluti sem okkur datt aldrei í hug að við myndum upplifa, sjá ótrúlega fallega staði sem við vissum ekki að væru til, kynnst fullt af frábæru fólki og svo mætti lengi telja.
Okkur tókst að lifa af stórhættulega vegi í Nepal, okkur tókst naumlega að sleppa frá óeiðrum í Egypalandi, okkur tókst að fá ekki í magann í mánaðardvöl í Indlandi, okkur tókst að stökkva niður 160 metra hátt gil bundin í teygju og síðast en ekki síst að læra að meta Ísland óendanlega mikið, þetta er svo frábært land sem við eigum og ættum að vera stolt af því, skítt með einhverja ríkisstjórn, banka og forsetaframboð.
Leiðin að ferðinni:
Þetta byrjaði allt þegar Gréta kom heim frá Thailandi, árið 2007, eftir skiptinemadvölina sína þar, hún var komin með ferðabakteríu og þráði að skoða meira af heiminum og var hún staðráðin í því að láta þennan næsta draum verða að veruleika. Þorra hafði alltaf langað að ferðast líka en hann er sennilega einn af þeim sem langar en lætur svo ekki verða að því nema að fá spark í rassinn, sem og hann fékk svo sannarlega.
Grétu fannst menntaskólalífið á Akureyri ganga of hægt fyrir sig og gat ekki hugsað sér að eyða fjórum árum í menntaskóla þegar hún gæti farið að vinna og safnað fyrir ferðinni  svo við fluttum suður, keyptum æðislega litla íbúð, Þorri byrjaði í háskólanum og Grétu tókst að klára stúdentinn á tveimur og hálfu ári til þess að geta byrjað að safna fyrir draumnum. Það tók ekki nema eitt og hálft ár að safna, en það tókst þrátt fyrir að vinna aðeins láglauna störf á hjúkrunarheimilum og veitingastað þar sem hver einasta aukavakt var tekin, 60% af laununum tekin frá hver mánaðarmót og lifað mjög spart. Þorri útskrifaðist svo úr háskólanum síðastliðið vor og síðustu tvö sumur voru svo tekin með trompi fyrir norðan þar sem við unnum bæði nánast hverja einustu vakandi stund.
Okkur langar bara að sýna fram á að hver sem er getur gert þetta, það eiga allir að láta drauma sína rætast hversu smáir eða stórir sem þeir eru og hvers kyns þeir eru. Þetta snýst um að gefast ekki upp og forgangsraða því sem manni þykir mikilvægast, kannski er það að kaupa nýjan bíl, fara í verslunarferð til Boston, taka húsið í gegn, já eða ferðast um heiminn.
Mjög margir hafa sagt við okkur hversu heppin við erum að fara í þessa ferð, en við erum því hins vegar hjartanlega ósammála. Við duttum ekki í neinn lukkpott, við unnum ekki í lottó, það skipulagði enginn þessa ferð og rétti okkur farseðlana, við einungis forgangsröðuðum því sem okkur þótti mikilvægast að gera og stefndum að þessum langþráða draum, ákveðin í að láta ekkert stoppa okkur.
En eins og kaninn segir: ,,You make your own luck“.
Við sjáum ekki eftir neinu í þessari ferð þetta var allt upplifun og ekkert sem við myndum vilja hafa gert öðruvísi. Að ferðast, þá sérstaklega í þriðjaheimslöndum, er sko ekki alltaf dans á rósum. Við höfum átt okkar lægðir eins og gengur og gerist, það má segja að okkar lægð hafi hellst yfir okkur í byrjun Filippseyja þar sem við vildum ekkert frekar en að komast þaðan í burtu. Þá þýðir samt ekkert annað en að slaka bara á, gista nokkrar nætur á sama stað og hlaða batteríin þar til lönginun til að halda áfram og gera eitthvað nýtt kemur aftur, sem og hún gerði.
Áður en við fórum út höfðum við lítið planað hvað við ættum að gera á hverjum stað heldur keyptum við aðeins flesta flugmiðana en við höfum lært að maður lendir oftast í skemmtilegustu ævintýrunum þar sem ekkert er skipulagt.
Á morgun fljúgum við til London og lendum á Íslandi á sunnudagsmorgun, okkur langaði bara að þakka öllum sem nenntu að lesa bloggið okkar og öllum þeim sem nenntu að kommenta hjá okkur, þið eruð yndi. Okkur hlakka mikið til að koma heim, verður sérstaklega gott að komast í sveitina.

Við eyddurm 705 klukkutímum í flugvélum, rútum, lestum og bátum í gegnum ferðina. Það gerir rúma 29 sólarhringa (ferðuðumst þó mest yfir næturnar)

Yfir og út..

Ferðin okkar í mynd:


15 ummæli:

  1. Aldeilis gaman að heyra frá ykkur :) Leiðinlegt þó að hugsa til þess að þetta sé síðasta bloggið frá ykkur þar sem það er búið að vera svo skemmtilegt að fylgjast með ykkur allan þennan tíma :) Sem ver nú heldur betur búinn að vera fljótur að líða ;) Vona að þið eigið góða ferð heim :) Heyrumst ;)

    SvaraEyða
  2. Já gaman að þessu. Þetta hlaut að taka enda, mér finnst þetta nú búið að vera fljótt að líða þegar maður hugsar til baka. Það verður gaman að sjá ykkur á sunnudaginn og vonandi að heimferðin gangi vel.

    SvaraEyða
  3. Getum ekki beðið eftir að fá ykkur heim!! Mamma pabbi Fróði og Mía.

    SvaraEyða
  4. Velkomin heim! þið eruð yndisleg...... foreldrar ykkar og fjölskyldur geta verið MJÖG hreikin af ykkur og að sjálfsögðu þið sjálf líka ;)
    Kær kveðja,
    Sigurlaug Ragnarsd.

    SvaraEyða
  5. Sigurlaug..... ég hefði betur ritskoðað.... auðvitað á að vera y í hreykin ;/

    SvaraEyða
  6. Takk fyrir öll skemmtilegu bloggin ykkar s.l. níu mánuði. Mikið verður gott að knúsa ykkur um helgina. Og gaman verður að heyra meira af þessu ævintýri ykkar undanfarna mánuði. Verið velkomin heim. Amma og afi á Blönduósi.

    SvaraEyða
  7. Búið að vera æðislegt að fylgjast með ykkur :) Hlakka til að sjá ykkur :)

    SvaraEyða
  8. Elskurnar mínar.
    Þið eruð frábær og flott það sem þið skrifið í enda bloggsins. Það geta allir allt ef þeir eru með nógu mikikinn vilja og mikla þrá til að upplifa drauminn. Þið eruð sannarlega fyrirmynd allra þeirra sóffadýra sem langar en bregðast ekki við lönguninni.
    Gangi ykkur vel heim (enda ætti það að vera pís offff keik eftir þessa ferð) og svakalega hlakka ég til að sjá ykkur hér í sveitinni. Þrátt fyrir það mun ég sem aðrir sakna bloggsins ykkar.

    Knús til ykkar, Jóhanna og co

    SvaraEyða
  9. Mikið ofboðslega hefur verið gaman að lesa bloggin ykkar og ferðast með ykkur í huganum, takk fyrir það. Góða ferð heim og góða heimkomu kv.Halla Benna

    SvaraEyða
  10. Takk fyrir skemmtilegt blogg og velkomin heim.
    Kveðja,
    Jóhanna finnbogad.

    SvaraEyða
  11. Örugglega gott að enda ferðina í Kína, hljómar vel og spennandi! Búið að vera skemmtilegt að fylgjast með ykkur á ferðalagi og lesa um öll þau ævintýri sem þið lentuð í :) Takk fyrir skemmtilegt og vel skrifað blogg, góða ferð heim til Íslands!

    SvaraEyða
  12. Þið eruð algjörar hetjur og það er búið að vera frábært að lesa bloggið ykkar! Velkomin heim!

    SvaraEyða
  13. Kæru ferðalangar! Takk og aftur takk fyrir frábært blogg og lokakaflinn ykkar er eins og talað út úr mínu hjarta, vissulega getur það verið kostnaðarsamt að ferðast en það er algjörlega ómetanleg lífreynsla sem er kannski pínu erfitt að útskýra fyrir þeim sem hafa ekki prufað þetta :) Hlakka til að sjá ykkur á Íslandinu, sólin tekur amk á móti ykkur. Það var svo gaman að lesa bloggið ykkar .. næsta skref er að búa til blogg bók á www.blurb.com .. ég er búin að gera tvær og er oft að skoða þær :) kv. Inga Heiða

    SvaraEyða
  14. Helga Gunnarsdóttir29. maí 2012 kl. 21:15

    Elsku bestu! Núna eruð þið komin heim en ég stóðst samt ekki mátið og ákvað að kíkja aðeins á bloggið ykkar sem hefur verið frábær lesning undanfarna mánuði. Alltaf þegar maður varð eitthvað þreyttur á lífinu vissi maður að lesning á þessu bloggi myndi fá mann til þess að brosa út um bæði og þakka ég ykkur hjartanlega fyrir það!

    Það er alveg rétt hjá ykkur að við eigum að láta drauma okkar rætast og ég er svo ánægð að þið framkvæmduð ykkar draum því hann hefur svo sannalega blásið ánægju í líf margra, enda eru margir fastalesendur af þessu bloggi eins og ég :)

    Knús og kram á ykkur
    Helga Gunn

    SvaraEyða
  15. Takk kærlega fyrir allt bloggið. Það er búið að vera frábært að lesa um ferðalagið ykkar og upplifa allt í gegnum ykkur.

    Hlakka ótrúlega til knúsa ykkur.

    Kv
    Sigurbjörg

    SvaraEyða