föstudagur, 20. apríl 2012

Eyjaskeggjar


Flugum frá Bali til Filippseyja þann 10. Apríl, vorum mætt á flugvöllin um miðja nótt langt á undan flest öllu starfsfólkinu og tékkuðum okkur inn. Eftir mikla bið komumst við loksins í flugvélina sem átti að fara með okkur til Singapore þar sem við áttum að eyða fimm tímum áður en tengiflug okkar til Filippseyja færi. Þegar um borð var komið var okkur tilkynnt að einhvers konar vandamál hefði komið upp og fluginu því frestað um klukkutíma. Okkur til mikilla vonbrigða var flugið okkar frá ódýrasta terminalinu á þessum stóra og flotta flugvelli, sem var enganvegin jafn flott og það terminal sem við vorum á í síðustu heimsókn okkar á þennan flugvöll. Engu að síður voru þarna nuddstólar sem styttu biðina, hjá Grétu það er að segja, Þorri lét sig þó hafa það að prófa en lét ekki heillast af vélrænu höndunum. Flugið til Filippseyja átti að fara klukkan 16:30, við fengum hins vegar að bíða í röð í rúma tvo tíma á meðan eitthvað var lagað í vélini eins og fyrr um daginn. Loksins var vélin klár í rigninguna og þrumuveðrið og okkur hleipt um borð, á þessu ódýra terminali var enginn barki tengur húsinu og við fengum því regnhlíf að láni og hlupum út í vél. Þar tók við enn meiri bið á meðan eitthvað annað var lagað, þegar flugfreyjurnar voru búnar að selja öllum rándýran flugvélamat var okkur tilkynnt að við færum ekkert í bráð og vélin rýmd og enn á ný tók við meiri bið á flugstöðinni. Klukkan 20:00 fengum við að vita að seinkunin væri enn lengri en flugfélagið ætlaði að koma til móts við okkur og hafði pantað fjögurra stjörnu hótel fyrir okkur að eyða nóttinni á, okkur til mikillar hamingju enda ekki á hverjum degi sem við bakpokaferðalangarnir sjáum lúxus.
Hlaðborðið í Singapore
ÆÐISLEGA hótelið :)

Okkur var keyrt á risavaxið hótel í miðju viðskiptahverfinu sem innihélt líkamsrækt, sundlaug og bar svo eitthvað sé nefnt. Við fengum lykil að herbergi sem var svipað stórt og íbúðin okkar heima og allt til staðar. Við drifum okkur samt niður í veislusalin þar sem beið okkar dýrindis hlaðborð með ótrúlegu úrvali af mat, eftir að hafa étið yfir okkur fórum við í sturtu og sofnuðum í mjúku sloppunum sem við fundum inn í skáp. Adam var þó ekki lengi í paradís því við vorum vakin upp klukkan þrjú um nóttina og drifin niður á flugvöll þar sem flugvélin beið okkar og var loksins til í slaginn. Það má líka taka það fram að við vorum í loftinu á meðan stóri jarðskjálftinn reið yfir stóran hluta Suð-Austur Asíu.
El Nido
Við lentum í borg sem heitir Clark í Filippseyjum en þurftum að koma okkur til Manila þar sem við áttum enn eitt flugið. Við settumst upp í stórfurðulegan langferðabíl sem tók okkur að rútustöð dauðans, þar var ekki hægt að kaupa miða og skapaðist því mikil múgæsing þegar rúturnar mættu á svæðið. Tugir manns slógust um þau örfáu sæti sem stóðu til boða og við stóru útlendingarnir með töskurnar vorum ekki sigurstrangleg í þessari baráttu sem snéristu um að vera frekari og lúmskari en maðurinn við hliðina á þér. Eftir að hafa horft eftir hverri rútuni á fætur annari hverfa á brott fullri af atvinnu frekjudollum sem hikuðu ekki við að hrinda í burtu gamlingjum jafnt sem litlum börnum til að ná sínu fram ákváðum við að spila út okkar trompi. Sem bakpokaferðalangar sættum við okkur við ýmislegt og við ruddumst upp í næstu rútu og hlömmuðum okkur á gólfið þ.e. Þorri hlammaði sér á gólfið en Gréta var svo heppin að fá sæti hliðiná gömlum manni, ferðin gekk ágætlega fyrir sig og lítið frá að segja ef ekki væri fyrir nokkur hænsn inn í rútunni sem gögguðu alla leiðina. Við náðum til Manila rétt tímanlega fyrir flugið okkar og hittum á leiðinni yndælan mann sem var einnig á leiðinni á flugvöllin því hann var á leið til Ástralíu að vinna á fraktskipi. Sá vildi allt fyrir okkur gera og samdi við leigubílstjóra um að koma okkur á flugvöllin. Sá var þó ekki á því að hleypa okkur óáreitt úr bílnum og tilkynnti okkur það að hann þyrfti að taka bensín og okkur bæri að borga brúsann sem kostaði rúmlega helmingi meira en það verð sem við höfðum sæst á, við héldum nú ekki hann skyldi bara koma okkur á flugvöllin þar sem hann fengi þá upphæð sem um var samið og ekki krónu meira, enda tankurinn hálf fullur. Hann lét segjast með fýlusvip og var ekkert að hafa fyrir því að þakka fyrir. Enn eina ferðina var fluginu okkar seinkað en loksins lauk þessu ferðalagi og við komin til Puerto Princesa þar sem við eyddum næstu 5 dögum í leti.
Litli Komodofrændi
Þaðan fórum við til El Nido og erum þar enn. Hér höfum við flatmagað á ströndinni dag eftir dag og erum orðin ansi útitekin. Þessi staður er mjög fallegur, strönd inn í flóa umkringt kalksteinsklettum (limestones). Þetta er þó heldur frumstæður bær og er rafmagnslaust alla daga frá sex á morgnanna til þrjú á daginn og því vöknum við alla daga í svitabaði. Það eina sem við höfum afrekað hér er dagssigling um eyjarnar hér í kring með snorkli inn á milli, siglingin var mjög góð og fallegar eyjarnar sem við stoppuðum á.
Endalaus afslöppun!
Snorklið var hins vegar ekkert spes því Filippseyjingar hugsa því miður ekki vel um kóralinn sinn og alls staðar sem við snorkluðum sáum við merki þess, dauð kóralrif vegna akkera og lítið sem ekkert dýralíf. Við sáum síðan 1,5m langa eðlu sem læddist að hádegisborðinu okkar á einni eyjunni og snýkti afganga, fékk bein af heilum fisk sem hún gleypti í einum bita. Þessi eðla var ekki ólík Komodo drekunum í útliti en ekki nema rétt helmingur þeirra að lengd en gaman að fá að fylgjast með henni éta sem var eitthvað sem við gátum ekki fengið að sjá drekana gera, kannski sem betur fer. Við ætlum að eyða nokkrum dögum hér til viðbótar áður en við höldum til Puerto Princesa aftur þar sem okkar bíður flug til Manila.

HÉR eru svo myndir frá Indónesíu

16 ummæli:

  1. Hæ...... flottar myndir og hrikaleg öfund ;-)
    kv
    Höskuldur

    SvaraEyða
  2. Gott að þið getið aðeins notið þess að slappa af, örugglega ekkert smá æðislegt að geta flatamagað á þessum fallega stað! Hefði sko ekkert á móti því ;) Og gaman að sjá myndir frá Indónesíu líka :)

    SvaraEyða
  3. Sæl elskurnar.
    Ég er viss um að þið getið skrifað heilt ritsafn um rútu- og flugferðir ykkar.
    Góða skemmtun og látið ekki eðlurnar éta ykkur. Bestu kveðjur héðan að norðan.
    Jóhanna o.com

    p.s. Lóan er komin :)

    SvaraEyða
  4. Sigurlaug Ragnars.
    Það er stórkostlegt að fá að fylgjast svona með ykkur, sjá alla þessa fegurð og dýrin stór og smá :)
    Kær kveðja og þakklæti til ykkar,
    Sigurlaug

    SvaraEyða
  5. Gaman að heyra frá ykkur, Já það var nú gott að þið sluppuð við þennan jarskjálfta. Þetta hljómar eins og þetta hafi verið eitt af þeim leiðinlegu og tímafreku ferðalögum sem þið hafið lent í.. En gott að þið fenguð þó hótelgistinguna í staðinn þó það hafi væntanlega ekki verið mikill svefn sem þið hafið náð þar.. Meira fíflið þessi leigubílstjóri.. Annars mjög flottar myndir sem þið voruð að setja inn og vonandi heyrir maður fljótlega í ykkur ;)
    kv. Bjarni Freyr

    SvaraEyða
  6. Vá.. þvílíkar myndir og öööfund yfir letilífinu hjá ykkur :) Biðin og leiðindin með flugið hefur alveg verið þess virði að fara þangað !! :) Njótið seinustu daganna :)

    Kv. Sigurveig

    SvaraEyða
  7. Takk fyrir frábært blogg, alltaf jafn gaman að lesa og skoða myndir. Þið heppin að sleppa við jarðskjálftann.
    Kveðja,
    Jóhanna finnbogad.

    SvaraEyða
  8. Skemmtilegt blogg eins og venjulega og fallegar myndir. Þetta breytist lítið með rútuferðirnar og biðina;-)Heyrumst vonandi um helgina. Bestu kveðjur frá pabba og Míu. Mamma.

    SvaraEyða
  9. Takk fyrir þessar fallegu myndir.Gott hjá ykkur að taka nokkra daga í letilíf í þessari Paradís.Kærar kveðjur úr gluggaveðrinu á Blönduósi frá ömmu og afa

    SvaraEyða

  10. Þetta er allt meiriháttar fallegt þarna bara eins og í ævintýralandi ;o)
    Ég mæli með að þið láti eftir ykkur eitthverja góða gistingu áður en þið komið heim ;o)
    Ótrúleg þessi flug og rútu ævintýri alltaf hjá ykkur, gott að þið eruð ákveðin í að láta þessa kalla ekki plata ykkur ;o)
    Ég vildi að ég væri með ykkur á þessum fallegu ströndum ;o)
    Gangi ykkur vel áfram ;o)
    Bestu kveðjur
    Mamma ;o)

    SvaraEyða
  11. Ummm dásamlegur staður!!! Kv johanna og co

    SvaraEyða
  12. endalaust gaman að lesa bloggið ykkar og skoða myndirnar.
    koss og knús frá okkur í Sandefjord

    SvaraEyða
  13. Takk fyrir góða ferðasögu eins og alltaf, Maður er farin að hlakka til að sjá ykkur hér heima, vonandi komið þið með góða veðrið með ykkur, en Kína er eftir , GÓÐA FERÐ þangað og hafið það ofsalega gott. Kær kveðja . Amma og afi Rvík.

    SvaraEyða
  14. Öfund, öfund, öfund.

    Kveðja
    Sigurbjörg og María

    SvaraEyða
  15. úff, hvað ég væri til í að vera á þessum ströndum með ykkur og snorkela allan daginn!! Ég get samt sagt að það sem þið leggið á ykkur í þessum rútuferðum væri ég ekki til í að taka þátt í. Hænurnar í fína lagi en bardaginn um sæti væri nú dálítið þreytandi. Skemmtilegt fyrir ykkur svo að komast á svona fínt hótel bara svona til að fá smjörþefinn af lífi ríka fólksins!! Læt mig dreyma um þessar strendur á meðan ég snorkela í heitapottinum í 8 stiga hita á morgun!!! KNús til ykkar! kv.Dagný

    SvaraEyða
  16. Þóra Stína frænka24. apríl 2012 kl. 14:38

    æðislegar myndir og alltaf gaman að heyra sögurnar frá ykkur

    SvaraEyða