sunnudagur, 13. nóvember 2011

Eyðimerkursafarí


Á þriðjudaginn byrjuðum við á að skoða stærsta hof Rajasthan héraðsins, í hofinu var „messa“ í gangi og sátu fjöldin allur af fólki klætt í alla regnbogans liti. Í hofinu var í sjálfu sér lítið að sjá en hittum við mann sem dró okkur inn í búðina sína eftir að hafa þröngvað upp á okkur sorgarsögu sína og fjölskyldu sinnar sem neyddust til að flýja óeirðirnar í Kashmir héraði. Síðan var ekki aftur snúið og kaupæðið hófst, dagurinn fór allur í að versla sem var mjög gaman því þarna var mikið og fjölbreytt úrval af alls konar dóti og glingri. Eftir að hafa þrætt allar smágötur borgarinnar fórum við að ánni sem rennur í gegn um hana og fylgdumst með körlum að baða sig og þrýfa fötin sín í grútskýtugri ánni, mönnum að draga inn þara og konu sem safnaði saman kúamykju af mikilli alúð í leirkar. Við ánna sat hress karl og spilaði á hljóðfæri, þegar hann sá að Þorri veitti honum athygli vildi hann ólmur selja honum geisladiskinn sinn sem hann tók upp sjálfur og skrifaði á disk, Þorri stóðst ekki mátið og fjárfesti í einu stykki (því eina sem hann átti til). Kvöldinu eyddum við svo upp á þaki hótelsins þar sem sýnd var James Bond myndin Octopussy en stór hluti hennar var tekin umhverfis Udaipur og er hún því sýnd flest kvöld á öllum hótelum og að sjálfsögðu var flugeldasýning allt í kring eins og öll kvöldin vegna hátíðar sem var þar í gangi.
Daginn eftir skoðuðum við aðal höllina í borginni, meira vegna skildurækni heldur en brennandi áhuga jókst áhuginn ekki mikið eftir því sem við eyddum meiri tíma í þessu völundarhúsi þar sem aðeins ein leið var út og þurfti maður að gjöra svo vel að þræða alla höllina til að komast þangað. Eftir skemmtilega skoðunarferð um höllina ákváðum við að gera vel við okkur og skelltum okkur í nudd. Þorra leyst nú ekkert allt of vel á hugmyndina til að byrja með og ekki skánaði það þegar inn gekk lítill feitur karl með mullet, hann lét sig þó hafa það og sá ekki eftir því. Um kvöldið fórum við síðan á mjög skemmtilega danssýningu þar sem sýndir voru dansar héraðsins, þarna voru strengjabrúður og allskyns aðrar kúnstir sýndar.
Á fimmtudaginn var Gréta slöpp og sátum við því allan daginn á hótelinu og biðum eftir rútunni okkar sem átti að fara klukkan átta um kvöldið, þegar við mættum á rútustöðina tók á móti okkur kátur karl sem sagði okkur að allir ferðamenn þyrftu að geyma töskurnar sínar í farangursgeymslunni og fyrir það þurftu þeir auðvitað að borga honum, við héldum nú ekki, það væri líklega okkar mál ef það væri þröngt í básnum okkar með þær í rútunni. Við þetta brjálaðist karlinn og byrjaði að öskra á okkur að við skildum borga eða hann myndi skilja okkur eftir, á endanum sóttum við karlinn á skrifstofunni sem tók okkar málsstað og kom okkur loksins í rútuna, með töskurnar hjá okkur. Í rútunni beið okkar klefi með tvíbreyðu rúmi og glugga sem vildi ekki haldast lokaður annars var þetta bara nokkuð notalegur svefnstaður fyrir utan hvað vegurinn var hræðilegur og rúlluðum við fram og til baka alla nóttina.
 
Komum svo til eyðurmerkurbæjarins Jaisalmer í morgunsárið, koman í rútustöðina var kunnugleg en þar var rifist um mann og maður þarf að vera mjög harður til að láta ekki vaða yfir sig og plata sig í eitthvað rugl. Ákváðum að fá far hjá einum sem virtist ekki svo alslæmur og fengum gistingu á gistiheimilinu hans. Eftir mikla söluræðu og allskyns gylliboð fékk hann okkur til að fara í úlfaldasafarí í gegn um hann. Þetta hljómaði allt voða vel, við áttum að vera í hóp með fjórum öðrum, áttum að fara leið sem ekkert annað fyrirtæki fer og sjá þorp þar sem engin myndi betla af okkur og ekkert rusl væri sjáanlegt. Við áttum að fara snemma næsta morgunn en í millitíðinni bað hann okkur um að passa okkur á öllu fólkinu þarna úti sem væri að tala illa um sig og sitt fyrirtæki, það væri allt bara bull. Fyrst á dagskrá var að versla okkur föt fyrir ferðina og hoppuðum við því inn í fyrstu „tískuvöruverslun“ sem við sáum og dressuðum okkur upp áður en við héldum áfram í borgarvirkið (þó ekki hið eina sanna borgarvirki) sem er í hjarta borgarinnar og inniheldur gömul hús og þröngar götur ásamt fjölda hofa og lítilla búða, þarna eyddum við deginum og börðum frá okkur sölumenn.
Um kvöldið ákváðum við að fara að ráðum eiganda gistiheimilisins og skoða síðuna www.tripadvisor.com (heimasíða þar sem ferðamenn geta gefið gistiheimilum umsögn og komið á framfæri hvað sé vel gert og hvað ekki) því hann hafði sagt okkur að þeir væru með svo góðar umsagnir. Það kom hinsvegar í ljós að flestar umsagnir um gistiheimilið innihéldu viðvaranir til ferðamanna um að halda sig fjarri þessum svikurum og glæpamönnum, allar sögurnar byrjuðu eins og okkar saga en enduðu flestar með ósköpum þar sem öll loforð voru svikin og fólkinu hent út á endanum. Okkur var nú ekki farið að lítast á blikuna en þar sem við höfðum nú þegar borgað fyrir ferðina var lítið sem við gátum gert annað en að bíða og vona að við værum ein af þessum fáu heppnu sem sluppu vel frá þeim.
Á föstudaginn vöknuðum við eldsnemma og spennt fyrir safaríinu en þó með smá áhyggjur,  okkur var skutlað inn í eyðimörkina þar sem við hittum hressann karl sem var að gera kameldýrin klár fyrir ferðina, hann fullvissaði okkur um að allt væri eins og það átti að vera en hins vegar var hópurinn okkar hvergi sjáanlegur, okkur hafði verið sagt fyrst að hann væri á sama gistiheimili, síðan áttum við að hitta hann klukkan átta og svo var það orðið ellefu, þegar við hinsvegar spurðum leiðsögumannin vissi hann ekkert hvað við værum að tala um því það væri engin hópur, bara við tvö (sem var þó alls ekkert verra). Við vorum að vísu undirbúin undir þetta því allar sögurnar byrjuðu á því að hópinn var hvergi að sjá en í staðinn kom aðstoðarmaður leiðsögumannsin sem átti að fara með okkur í ferðina, 15 ára gutti sem hafði unnið við þetta síðan hann var 9 ára. Við fengum sitthvort kameldýrið sem litu nokkurnvegin jafn kjánalega út og lögðum af stað. Þorpin sem okkur var lofað að skoða höfðu greinilega horfið um nóttina því þau voru hvergi sjáanleg en hins vegar sáum við ferðamenn í staðinn, ótrúlegt hvernig eyðimörkin getur breyst yfir nótt. Fyrsta stopp var við lítið skítugt vatn svo dýrin gætu safnað vatni fyrir ferðina, við vatnið stútfyllti leiðsögumaðurinn líka tvo brúsa sem við seinna komumst að að væri vatn til að elda matinn okkar upp úr (samkvæmt eigandanum var bara eldað upp úr keyptu hreinu vatni). Þarna strax var Þorri orðinn mjög aumur í
rassinum og var hugsað til baka á öll skiptin sem Gréta hafði reynt að fá hann á hestbak og hann þráast við. Eftir þriggja tíma reið stoppuðum við undir tré umkringd hundruðum prumpandi geita. Eftir að hafa safnað saman eldivið byrjaði leiðsögumaðurinn að elda fyrir okkur hádegismat upp úr skítuga vatninu. Við vorum spurð hvort við vildum ekki fá te á meðan við biðum og við þáðum það, þá hljóp guttinn upp eina geitina og mjólkaði úr henni í glas og skellti í pott, tíu mínútum seinna fengum við í hendurnar teið okkar sem við drukkum ásamt geitahirðunum sem höfðu safnast saman allt í kring við matarlyktina eins og maurarnir. Hádegismaturinn samanstóð af soðnu grænmeti og naan brauði sem þeir steiktu á staðnum en þennan mat fengum við í öll mál í þessari ferð. Eftir matinn var „stáltauið“ vaskað upp með sandi, geitahirðirnir þökkuðu fyrir máltíðina með því að sjá um eftirmatinn en það voru eins ferskar vatnsmelónur og hægt er að finna beint úr eyðimörkinni, þær uxu þar út um allt. síðan héldum við áfram leið okkar lengra inn í eyðimörkina og enn voru þorpin ósjáanleg. Um fimm leitið komum við loks að gististaðnum okkar en þar lágu beddar undir berum himni með eyðimörk allt í kring. Í þetta skiptið hjálpuðum við til við matargerðina, söfnuðum eldivið og skárum niður grænmeti umkring stórum eyðimerkurbjöllum. Leiðsögumaðurinn var hinn fullkomni indverski karlmaður og rétti Grétu hnífinn og grænmetið og sagði: „Cut“ sem hún og gerði samviskusamlega á meðan hann og Þorri horfðu út í loftið. Eftir matinn horfðum við á sólsetrið og höfðum það síðan notalegt við varðeld og fylgdumst með fullu tunglinu skríða upp. Þetta var allt mjög kósý og eftir að hafa gripið í spil sofnuðum við undir stjörnunum með smjattandi úlfaldana við hliðina á okkur.
Þetta blasti við okkur þegar við vöknuðum
Vöknuðum við sólarupprás og skriðum fram úr, hoppuðum á bak kameldýrana eftir morgunmat og lögðum af stað. Þennan daginn sáum við loksins þorp eins og okkur var lofað, fyrsta þorpið sem við sáum var sígaunaþorp en þeir flakka á milli staða í eyðimörkinni og búa í litlum skýlum, við sáum líka fjöldan allan af herstöðvum sem voru á víð og dreif á þessu svæði enda vorum við í 15 km fjarðlægð frá landamærum Pakistan. Á heimleiðinni sáum við síðan yfirgefið þorp en fyrir 30 árum voru allir þorpsbúarnir drepnir af nágrönnum sínum. Dýrin fengu aldeilis að vinna fyrir kaupinu sínu eftir þetta síðasta stopp og voru látin hlaupa heim eins og hastir hestar gerast bestir og vorum við mjög fegin þegar við loksins komumst á leiðarenda. Þrátt fyrir að ekki hafi verið staðið við öll þau loforð sem gefin voru í byrjun vorum við mjög sátt með ferðina okkar og höfum ekki yfir neinu að kvarta um ferðina sjálfa, það sama má segja um svissnesku stelpurnar tvær sem við hittum á gistiheimilinu en það hafði líka verið búið að ljúga þær fullar. Þetta kvöld leituðum við uppi mjög góðan veitingastað og fengum okkur safaríkan kjúklingarétt og eftirmat eftir allt grænmetisdetoxið síðustu daga og skriðum dauðþreytt upp í rúm.
Dagurinn í dag fer í að bíða eftir næturrútunni okkar til bleiku borgarinnar Jaipur.                                                                     

P.s. Fyrir þá sem ekki kunna að skrifa athugasemd við bloggið þá þurfið þið að byrja á að ýta á Athugasemdir - Síðan skrifiði eitthvað sætt til okkar - Fyrir neðan textann þarf að velja: Name/URL - Skrifa nafnið ykkar (þurfið ekki að skrifa neina vefslóð) - Ýtið á Halda áfram - Ýtið á Post Comment. Þá verðum við rosalega hamingjusöm ;)                                                                                             

24 ummæli:

  1. þið eruð svo jákvæð og yndisleg enda held ég að það þýði ekkert annað í svona ferðalagi.
    Haldið áfram að hafa gaman.

    SvaraEyða
  2. Alltaf jafn skemmtilegt að lesa blogin ykkar maður fer strax að bíða eftir því næsta.Sérlega skemmtileg myndin af ykkur með gulu klútana.Takk fyrir mig Knús Raddý

    SvaraEyða
  3. Sæl veriði bæði tvö. Ævintýrin gerast enn og ekki veitir af að passa sig á svindlurunum.Það hlýtur að vera stórkostlegt að sofa undir berum himni í eyðimörkinni við hliðina á úlföldum. Gæti trúað að það hafa líka verið nóg af pöddum. Þorri minn þú veist hvað amma er hrifin af þeim !!!
    Við sendum ykkur kærar kveðjur úr Lækjarberginu og Alli biður fyrir sérstakar kveðjur til FFFForra og Grétu. Amma og afi.

    SvaraEyða
  4. Takk fyrir frábært blogg og frábærar myndir. Þið eruð að verða sjóuð í svikahröppunum sem greinilega eru á hverju strái. Bestu kveðjur og farið varlega eins og alltaf. Mamma.

    SvaraEyða
  5. Gaman að heyra af ykkur og flottar myndir,,,,
    kv
    Höskuldur

    SvaraEyða
  6. Alltaf jafn gaman að fylgjast með ykkur og myndirnar frábærar. Frábær upplífgun fyrir okkur hin heima í skammdeginu. Gangi ykkur vel áfram, skemmtið ykkur og farið varlega.
    Dóra Margrét

    SvaraEyða
  7. Elsku Gréta og Þorri, það er eins gott að þið eruð skynsöm og passið ykkur á öllum svikurunum,. Flottar myndir eins og úr" Þúsund og einni nótt" þetta er mikið ævintýri. Gangi ykkur vel áfram elskurnar. kær kveðja, Amma og afi Þykkvabæ.

    SvaraEyða
  8. Sigríður Aadnegard13. nóvember 2011 kl. 13:50

    Takk fyrir skemmtilegt blogg það er gaman að fá að ferðast með ykkur. Gangi ykkur vel, bestu kveðjur Sigga

    SvaraEyða
  9. Takk fyrir snilldar blogg :) annars fannst Heimi fötin hans Þorra virkilega flott :P
    Haldið áfram að skemmta ykkur sjúklega vel :D

    kv Inga og Heimir

    SvaraEyða
  10. Jesús hvað ég myndi örugglega ekki meika þessa sölumenn alla, myndi pottþétt kaupa helling af þeim bara til að losna við þá ;)
    En gott að ferðin heppnaðist vel :)
    Bíð spennt eftir næsta bloggi :)

    SvaraEyða
  11. Skemmtilegt blogg og flottar myndir, Þið eruð svaka flott með þessa klúta á hausnum, Reyndar finnst mér að Þorri þyrfti að fara að ganga í svona kjól einsog Indversku kallarnir, og ég bíð enþá eftir skegginu.

    SvaraEyða
  12. Elsku ferðalangar.
    Gott að eyðimerkurferðin var vel heppnuð - og myndirnar glæsilegar bæði nætur- og morgunmyndir. Hvernig eru úlfaldarnir í viðkynningu - verða þeir vinir manns eins og hestarnir - eða eru þeir alltaf jafnmiklir úlfaldar??
    Mér finnst borgin Jaipur hrikalega spennandi af myndum að dæma.
    Þar eigið þið eftir að eiga góða daga spái ég.
    Bestu kveðjur og líði ykkur vel.
    amma

    SvaraEyða
  13. Alltaf gaman að lesa bloggið ykkar og sjá þessar flottu myndir :) Greinilega mikið ævintýri.

    SvaraEyða
  14. Ekkert smá spennandi úlfaldaferð.. og þið takið ykkur vel út sem indverjar ;) hehe !

    kv. Sigurveig

    SvaraEyða
  15. Gott að þið voruð ein af þeim heppnu með ferðina og að allt gekk vel :) Já og þið takið ykkur rosa vel út með appelsínugulu klútana ;)

    SvaraEyða
  16. Helga Gunnarsdóttir15. nóvember 2011 kl. 22:40

    Jahérna hér! Þessi lýsing á safaríi er ekki eins góð og hún var í Afríku... Mér þykir þið heldur betur huguð að borða matinn sem var soðinn upp úr svona skítugu vatni og drekka te með geitamjólk! Þið eruð hetjur! Gott að vita að þið komust heil úr þessu ferðalagi og hlakka ég mikið til að heyra frá bleiku borginni ;)

    Knús og kram á ykkur
    Helga

    SvaraEyða
  17. Hvað er að frétta frá bleiku borginni?

    SvaraEyða
  18. Halla Bernódusdóttir16. nóvember 2011 kl. 19:53

    Takk fyrir að leifa okkur að fylgjast með ævintýrinu ykkar,ég bíð alltaf spennt eftir framhaldsögunni og finnst rosalega gaman að lesa hana , Gangi ykkur allt í haginn krakkar mínir Halla Benna

    SvaraEyða
  19. Gaman að lesa og flottar myndir :) Kveðja, Inga Heiða

    SvaraEyða
  20. Vá hvað þetta er flott hjá ykkur langaði bara að senda ykkur risa knús

    SvaraEyða
  21. Alltaf jafn gaman að heyra frá ykkur :)
    kv. Bjarni Freyr

    SvaraEyða
  22. Heppin voru þið með ferðina ykkar. Allir biðja voða vel að heilsa ykkur.
    Knús
    Jóhanna María

    SvaraEyða
  23. Nú er Þorri orðin svo vanur að fara á bak að það verður ekkert mál fyrir Grétu að fá hann á hestbak.

    Kv
    Sigurbjörg

    SvaraEyða
  24. Elskurnar mínar. Mikið er gaman að fylgjast með ykkur. Verð að viðurkenna að ég datt aðeins út í lestrinum en er komin á fulla ferð núna. Mig langar til að vita hvort umslögin ykkar er með ykkur ennþá eða var þeim líka stolið?
    kv Jóhanna og co. Akri

    SvaraEyða